Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Hamfarablogg

Símhringing á Laugardagsmorgni

 

Kl. er níu, ég sef dásamlega, eins og allir sem eru með samvisku í sama lit og hvíta stöffið sem liggur hér um allar götur, og mig er að dreyma yndislega.  Ég ákvað í gærkvöldi að sofa amk. til hádegis.

Ring - ring - ring- ring- (ég alveg: þetta hlýtur að hætta, en Guð það gæti verið eitthvað að hjá stelpunum mínum, hendist á ógnarhraða í síma)

Ég: (á innsoginu) Halló!!!

Fífl úr ónefndri bókabúð sem ég skipti við: Góðan daginn, er þetta ekki Jenný Anna?

Ég: Jú, nokkuð líklegt, minn sími og sonna.

Fífl: Heyrðu, þú gleymdir bókinni sóandó, þegar þú varst hérna í vikunni.

Ég (opna búðir kl. 9 á laugardagsmorgnum, nebb getur ekki verið): Já ég veit það, var búin að láta vita að ég kæmi eftir henni þegar ég ætti leið hjá.

Fífl: Æi það er bara svo mikið af bókum hérna (er í lagi, allt löðrandi í bókum í BÓKABÚÐ) og ég myndi gjarnan vilja að þú næðir í hana sem fyrst, hún gæti týnstW00t

Ég: Eruð dálítið í að týna bókum í bókabúðinni hjá ykkur (ísköld í röddinni)

Fífl: (Æsist öll upp). Já þú ættir að vita um skipulagsleysið hérna, hver bókin innan um aðra og þær bækur sem ekki fara upp í hillur eins og þín (fyrirgefðu að ég skuli drusla út fyrirtækið) liggja hér hver um aðra þvera og ég þoli ekki svona drasl í kringum kassann.

Ég: Ég er ekki sálfræðingur, en ég held að þú þurfir hjálp, en þar sem ég er búin að borga bókina, geturðu ekki fundið henni öruggan stað, bara í nokkra daga þar til ég er á ferðinni?

Fífl: (Brjálast) Nokkra daga, þetta er ekki hlutageymsla, þetta er bókabúð, ég vil að þú komir í dag og náir í hana áður en hún týnist.  Er það ekki möguleiki að þú gefir þér smá tíma í þetta mál? (Kuldaleg og full fyrirlitngar í málróm)

Ég: Orðlaus

Fífl: (jólaglöð í röddinni) Svo vorum við að fá inn nýja sendingu af erlendum, ofsalega gott og mikið úrval, þú villt örugglega kíkja á það.

Ég: Hvenær opnar búðin?

Fífl.: 11

Ég Heyrðu þú vaktir mig, ég ætla að halda áfram að sofa, þú mátt eiga bókina og líma hana á hnakkann á þér, mér er svo sama.  Ekki hringja aftur.

Fífl: (Móðguð og stórlega misboðið). Þorrí, ég er nú bara að hafa eftirlit með mínum kúnnum, svo þeir verði ekki fyrir veseni með bækurnar sínar og það varst ÞÚ sem skildir bókina eftir hérna, ekki ég (full ásökunar). Farðu endilega að sofa, fyrirgefðu að ég skyldi voga mér að reyna að vera liðleg.

Ég: Ég nærri því hata þig.

Pang.

Nei ég er ekki að ljúga. Þetta gerðist sirka svona.  Hefur þessi búð sem stofnuð var á fyrri part síðustu aldar eða eitthvað, ekkert lært?

En nú er ég vöknuð og óggissla hress og það eina sem ég veit að  ég ætla ekki að gera er að fara til fröken þjónustulundar.is og ná í mína eðalbók.

ARG við eldhúsborðið.


Með óbragð í munninum

Ég er þokkalega lent eftir mína einstöku ævintýraferð til London, og þegar höfuðið fer að starfa eftir að andinn hefur náð heim eftir flugferðina, en eins og allir vita, þá mætir andinn aðeins seinna á svæðið en líkaminn eftir flug, þá er mér beinlínis óglatt.

Mér er óglatt yfir þessum köllum, honum Ólafi F. og Villa Vill, undirferli þeira og óheiðarleika, gagnvart öllum sem á þá eiga að geta treyst.

Ég hef ágætis álit á Hönnu Birnu og Gísla Marteini, þrátt fyrir að vera þeim eins ósammála í pólitík og hægt er að vera, en mér hefur fundist þau virðingarverðir stjórnmálamenn.  Hafa þau, t.d. geð í sér til að setjast að völdum í borginni við þessar aðstæður?  Ekki að ég búist við kraftaverkum, Sjálfstæðismenn eru svo hlýðnir að það þarf eitthvað mikið að gerast til að þeir fari að vera með múður.

Ætli fylgi Ólafs fylli heilar strætisvagn?  Fleiri en 50 kjósendur eða svo á bak við borgarstjórann?

Er Villi allt í einu hvítþveginn af Rei?

Lýðræði, smýðræði.

Ég er hætt að trúa á hið góða í manneskjunni, amk. þeim sem svínast í pólitík á svona forsendum.

Í mínum augum eru þessir karlasnar bölvaðir valdaræningjar og ekkert annað.  Og enginn ætti að styðja þá í þessum ljóta gjörningi.

Og nú verður ekki líft í borginni fyrir fokkings mislægum gatnamótum.

Afsakið meðan ég æli.

Frusssssssssssssssssssssss

P.s. Þessi færsla fer undir "Spil og leikir" því þar á hún heima.  Þær ættu að kaupa sér Matador eða eitthvað þessir kallar addna.

 


Þetta átti að verða seinni hluti annáls en varð að hamfarabloggi!!

Seinni hluti annáls verður að bíða til morguns.

Mér er frekar heitt í hamsi.

Eiginlega er ég með óbragð í munninum eftir að hafa horft á myndina um Breiðavíkurdrengina.

Ekki að ég hafi ekki verið búin að kynna mér málið, heldur vegna þess að það var kominn tími á upprifjun áður en það fennir yfir spor þessara manna sem þarna voru sviptir æskunni, þeir smánaðir og meiddir.

Ég hef þekkt tvo Breiðavíkurmenn um ævina, veit um aðra tvo.

Þeir eru allir látnir og tveir fyrir eigin hendi.

Mér eins og flestum öðrum er annt um börn.

Ég vil að samfélagið axli ábyrgð og bjargi því sem bjargað verður.  Bæði með stuðningi og fjármunum.  Ekkert skal til sparað.  Skuldin er stór.

Er það ekki týpiskt að í svona mynd, skuli fyrrverandi starfsfólk koma fram og afneita allri vitneskju um nokkuð misjafnt.

Einum fannst fyndið að barni hafi verið stungið á bólakaf ofan í skurð.

Er þetta fólk ekki með lágmarkskunnáttu á viðkvæmu sálarlífi barna?

Ekki einu sinni í dag, svo löngu síðar hefur áttun orðið í kollinum á því.

Arg...

Stjórnvöld hysjið upp um ykkur og greiðið skuld ykkar við þessa menn og fleiri sem illa var farið með af því þau voru fátæk og baklandslaus.


Slysasaga

Bara að láta vita af mér.

Í gærkvöldi, í miðri bókaskápstiltekt, slasaði ég á mér löppina, sjúkrabíll og alles.

Komin heim, allt við það sama og annar sjúkrabíll á leiðinni.

Jólagjöfin í ár.

Ég fer fram á kertafleytingu ekkert minna.

En án gríns, þá liggur heilt bókasafn á stofugólfinu og ég kest ekki spönn frá rassi nema í börum.

En hvað með það, læt ykkur vita við fyrsta tækifær.

Farin í Babúbabú

Fa-la-la-la-la


Tvöfeldni dauðans

Ég á ekki að hugsa um þetta, ekki að blogga um það né heldur hafa um það orð en ég get ekki stillt mig.  Missi mig í hvert skipti og uppsker ekkert, nada, nothing, ingenting, zero.

Sjúkrahótel Landspítala við Rauðarárstíg verður lokað 20. des. og opnað aftur þ. 2. janúar og þá verða reykingar bannaðar á hótelinu en slíkt mun vera til samræmis við reglur LSH og Fosshótels Lindar sem er í sama húsi.

Ég held því fram að þetta muni vera til "samræmis" við þá forræðishyggju og ofsóknir sem stjórnvöld ástunda gagnvart  reykingamönnum og þau ganga sífellt lengra og lengra.

Það er sífellt verið að troða á réttindum þeirra sem reykja, nú á að gera líf reykingamanna sem eru svo óheppnir að veikjast, að helvíti.  Flott að vera inni á sjúkrahóteli, fjarri ættingjum og fá ekki að reykja.  Komast kannski ekki út úr rúmi.  Svo mannúðlegt eitthvað.

Er það bara ég sem sé tvöfeldnina í að ríkið hali inn peninga á tóbaki en ofsæki síðan neytendur þess, hvar sem til þeirra næst?

Frjálshyggjumenn veina og góla undan öllum boðum og bönnum, en hér steinhalda þeir sér.  Er frelsi einstaklingsins bara einhvers virði þegar það hentar?

Ég ætla að hætta að reykja áður en yfir líkur, en ég hef engin áform um að ráðast gegn öllum sem kjósa að reykja áfram, með frekju og yfirgangi.

Mér nægir að það sé ekki reykt ofan í mig og að fólki sem reykir sé vísað á afmörkuð svæði til að stunda fíknina þar sem stjórnvöld í landinu sjá um að díla dópinu.

Ójá, ég er meðvituð um að það er pólitísk ranghugsun að hafa skoðanir MEÐ reykingamönnum og er mér sama?  Já, mér er svo nákvæmlega sama.

Give me a fucking break here.

Andskotinn, ér er í alvöru að hugsa um að stofna samtök til að berjast fyrir mannréttindum reykingamanna.

Súmí.

Plís.
mbl.is Sjúkrahótel reyklaust á nýju ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamfarablogg

Tilmæli til Rósu Magnúsdóttur, deildarstjóra hollustuhátta og félaga hennar, hjá umhverfissviði Reykjavíkurborgar.

Ég las í DV (já fékk það inn um lúguna, óbeðið og ekki orð um það meir) að ólögleg reykherbergi á ýmsum skemmtistöðum í miðbænum séu til "skoðunar" en Rósa segir að þarna sé greinilega verið að brjóta lög.

Nefndir eru staðirnir Barinn á Laugavegi 22 og hugsanlega ólöglegar útgáfur á reykrými á Hressó og Rex.

Úff mér sem borgara lýst ekki vel á að það sé verið að brjóta reykbannslögin hingað og þangað (jeræt) en við hverju bjóst þetta fólk?  Ef þetta er ekki forræðishyggja heiti ég Gulli heilbrigðis.  Reyndar heyrist ekki píp frá frjálshyggjupostulunum um málið, um umhyggju þeirra fyrir frelsi einstaklingsins og fyrirlitningu þeirra á boðum og bönnum.

En þetta er útidúr.

Rósa mín, það er vinnustaður, sem sumir kalla einn aðalskemmtistað bæjarins og sá stendur við Austurvöll, (Café Althing) og þar reykja starfsmennirnir eins og m-fokkers í kjallarakompu sem reyndar hefur verið sýnd í sjónvarpinu, þannig að þar er verið að brjóta lög og brotaviljinn er einbeittur.

Starfsmaður Alþingis sagði í sjónkanum að það sé ekki hægt að láta Alþingismenn og konur standa úti í öllum veðrum, húkandi undir húsvegg, slíkt sé ekki sæmandi á hinu háa Alþingi.

Ég spyr; Eru þeir minna vatns- og kuldaheldir þarna við Austurvöllinn en við ótýndur almúginn?

Ha Rósa, hvað segist?

Og..

Þar sem viðkomandi þingmenn settu reykbannslögin, er þá ekki sjálfsagt að þeir praktiseri þau á sjálfum sér?  Taki generalprufu á að fylgja eftir eigin lögum áður en þeir skella þessu óæfu á okkur hin.

Halló..

Siðleysi hvað?

Farin út í smóka og ég er ekki að djóka.

Falalala


Spíttsófarúmið

Við, þ.e. ég og húsband, eigum forláta hjónarúm.  Hehemm, það er nú kannski að ýkja smá, en þetta rúm hefur fylgt okkur nærri frá byrjun búskaps og mun sennilega gera um ófyrirsjáanlega framtíð af ýmsum ástæðum sem brátt munu ljósar.

Við þurftum að kaupa okkur rúm þegar við slógum saman reytum okkar, og það þurfti að gerast í hvelli.  Við keyptum fyrstu hjónasængina sem við sáum og var í heilu lagi, þ.e. eftir smáauglýsingu.  Rúmið er af svokallaðri spíttsófalínu, en það eru húsgögnin sem voru í tísku 197ogeittvað og hafa hlotið nafn sitt frá sukkpartíum þess tíma.  Ég gæti trúað að það hafi verið keypt í Trésmiðjunni Víði. Munið þið eftir auglýsingunni; allt frá hatti ofan í skó, Herradeild P.Ó? Já það var á þeim tíma.

Þetta er samt framúrstefnuleg beðja, því hún er ekki úr tekki, heldur eik.  Rúminu fylgdi "rekkverk" upp á miðja veggi með hillum og ljósum, algjört diskórúm.

Húsbandið elskar spíttsófarúmið.  Ég þurfti að stofna hjónabandinu í hættu til að fá að rífa niður rekkverkið með ljósunum og því stöffi, fannst ekki kúl að fá það í hausinn einhverja nóttina.  Hef ég sagt ykkur að ég á íhaldsaman eiginmann?  Nei ég held ekki.

Svo hafa árin liðið.  Aldrei er tíbabært að skutla út partýgræjunni, honum finnst svo gott að sofa í því.  Dætur mínar hafa gargað örvæntingafullum röddum; mamma, viljið þið henda ógeðisrúminu á haf út!! Margoft.

Á þessu ári sem senn er á enda, hef ég unnið markvisst að pr-starfsemi fyrir nýju rúmi.  Ég hef kvartað um svefnleysi, um bakverki, um liðverki og uppskorið eftirfarandi svör í réttri röð: Farðu að sofa á eðlilegum tíma, sofðu á hlið-baki-magaogþálagastetta og berðu á þig ólífuolíu.  En ég er öflug kona þegar ég tek mig til og það var farið að hilla undir uppgjöf hjá mínum manni.  Hann var farinn að horfa á mig tómum augum, kinka kolli þegar ég hélt eldheitar söluræður og hann var að koma til.  Guði sé lof.

Í morgun áður en hann fór í vinnuna og var að kíkja í blöðin, kallaði hann allt í einu upp, barnslega glaður: Jenfo, sjáðu, þetta rúm hérna er alveg eins og okkar nema stránýtt.  Ég vil það.  Á myndinni var nútíma útfærsla á spíttsófarúminu, rekkverkið náði upp á miðja veggi, nema það voru líka græjur í þessu og gott ef það var ekki girðing allt í kringum helvítis beðjuna.

Ég gafst upp og því sit ég hér og hamra á lyklaborðið meðan hann sefur alsæll í plebbarúminu og ég veit, ég finn það á mér, að ég hef endanlega tapað baráttunni um rúmið.

Dæs og úje. 


Pirrings- og búhúblogg

 

28

Hvað ætli eftirfarandi gjörningur kallist?

Ég set mat á disk, ég set hann í örbylgjuofn, tylli mér og bíð eftir að hann hitni.

Ég hugsa á meðan (hef ekki hugsað svo lengi að ekki varð undan komist, stefndi í óefni).

Ég bíð og bíð og er að verða búin að leysa lífsgátuna, þegar mig fer að lengja eftir plinginu í örbylgjunni (svona er það að njúka mat, það heyrist).

Átta mig á því að tíminn hefur flogið áfram, geng að örbylgju  og þar er hvorki diskur né matur.

Ég, skelfingu lostin, held að ég hafi orðið fyrir andlegri reynsluW00t, eða það sem verra er, að maturinn hafi örbylgjast út í tómið.

Ég geng að ískáp til að ná mér í hressingu, meðan heilinn vinnur á fullu við lausn gátunnar.

Í ískáp blasir við mér matardiskur ásamt fæðu og grjótheldur kjafti. Þar liggja líka lyklarnir mínir og nýji ógeðslega flotti GSM-síminn minn.

Er eitthvað líkt með örbylgju og ískáp?

Er ég í síðhvörfum?  Er ég komin á aldur eða er ég hreinlega meira utan við mig en góðu hófi gegnir?

Kona spyr sig...

að einhverju en man ekki alveg hver spurningin var.

Farin á Reykjalund,

Úje.

P.s. Ég vil bara taka fram, enn einu sinni, að ég er alls, alls, ekki femínisti, ég er sko jafnréttissinni.Police


Reykdólgsblogg

Ég fer fram á minnst 2ja ára fangelsi fyrir þennan reykdólg.  Hann gerði tvær tilraunir til að reykja um borð í flugvél Iceland Express, þ.e. þegar hún fór á loft og þegar hún lenti.  Róa sig, ég er að skopast, bara svo það sé á hreinu, en í heimi alls kyns óhamingju og afbrota, þá get ég ekki annað en orðið hissa þegar svona lagað birtist í fréttum eins og stórkostlegur glæpur hafi verið framinn.

Ég leyfi mér að halda því fram að það séu stundaðar ofsóknir á reykingamönnum út um víðan völl og fáir sjá neitt athugavert við það.  Ekki bús-í-búðir-fólkið sem elskar frelsið, ekki stjórnvöld sem selja dópið eða nokkur kjaftur annar.

Og Guði sé lof fyrir farþega sem láta sig náungann varða. 

"Flugfarþeginn, sem mbl.is ræddi, segist hafa veitt því eftirtekt að maðurinn hafi verið undir eftirliti lögreglumanna og öryggisvarða á flugstöðinni í Berlín þaðan sem flugvélin flaug í gærkvöldi. Hann sagði ennfremur að áhöfnin hafi komið af fjöllum er hann greindi henni frá þessu, en enginn öryggisvörður var með manninum í vélinni."

Gæti flugfarþeginn nokkuð lagst í frekari rannsóknarvinnu og látið íslensku þjóðina vita hvers vegna reykdólgurinn var í gæslu lögreglumanna?  Vonandi var það ekkert ómerkilegra en stöðumælasektir sem maðurinn er ásakaður um, ef nokkuð.  Ef níkótínkrimminn er ásakaður um alvarlegan glæp, þá væri hann ekki tæpast sendur á eiginn vegum í almennt farþegaflug og þá kemur það engum við, ekki nokkrum kjafti.

Hvað myndum við gera án allra "húsvarðanna" í lofti, á legi og á jörðu, sem fylgjast grannt með náunganum og gera svo viðvart ef eitthvað fer úrskeiðis?

Verð á svölunum heima hjá mér kl. 21,30 í kvöld og mun reykja eins og motherf...., áhugasamir hafi samband við lögregluna í síma sóandsó, andrúmsloftið er okkar allra og ég er að fara að menga það Big time.

Úje

 


mbl.is Kveikti sér í sígarettu við flugtak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í lagi vinan

Ég hringdi út á vídeóleigu í gær og lét vita að ég myndi ekki taka mynd sem beið mín þar.

Þekki hvorki haus né sporð á einum einasta kjafti þar á bæ.

Ég lét sum sé vita að ég afþakkaði mynd.

Svarið sem ég fékk, frá konu á óræðum aldri var:

Allt í lagi vinanW00t

ARG

Flestir vilja manni vel,

líka ókunnugt fólk, en plís, gerið mér greiða, allir sem ég á eftir að hitta við möguleg og ómöguleg tækifæri, (og hér er ég að tala um ókunnugt fólk, eða fólk sem ég þekki lítið sem ekkert), ekki segja við mig:

Elskan,

Vinan,

Góða,

Gæskan eða

Vinkona

Arg, það er svo hroðalega pirrandi, ég tætist í öreindir.

Að öðru..

Hilma litla systir mín er að fara að gifta sig í desember.

Það verður veisla aldarinnar (Jón Ásgeir snæddu hjarta, þér er ekki boðiðDevil)

þá ætla ég að Haffa Kaman.

Úje.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 2985769

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband