Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

Takk innilega Þórdís Elva

á mannamáli 

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir er flott kona.

Þegar hún las um dóminn fyrir Hótel Sögu nauðgunina 2007, sem snéri þjóðfélaginu á haus, lét hún ekki nægja að hneykslast í eldhúsinu heima hjá sér heldur einhenti hún sér í að skrifa bók um ofbeldi.

Bókin heitir "Á mannamáli" og fjallar um kynbundið ofbeldi sem er okkar stærsta samfélagsmein.

Bókin tekur á viðhorfunum, orðræðunni, brotaþolunum, gerendunum og dómunum.

Hún leitast við að svara spurningunni um hvers vegna 7 af hverjum 10 kærum vegna kynferðisbrota eru felldar niður.

Bara sú staðreynd er ógnvænleg.

Bók í líkingu við þessa hefur einfaldlega ekki verið til á Íslandi.

Það segir heilmikið um þá afneitun og það viðhorf sem er gagnvart kynbundnu ofbeldi.

Hversu oft hefur maður ekki fórnað höndum vegna vægra dóma í ofbeldismálum?

Þá skiptir litlu hvort í hlut eiga börn eða fullorðnir.

Dómarnir eru einfaldlega á tilboði, smá skamm, skamm og vertu svo til friðs.

Í bókinni er líka fjallað um nauðganir á karlmönnum sem eru ekki fáar en um þær heyrist sjaldan nokkuð.

Ég fagna þessari bók og hún var sannarlega tímabær.

Bókin er skyldueign fyrir alla sem láta sig samtímann varða.

Hér er líka komið frábært kennslugagn fyrir framhaldsskóla svo ég taki dæmi.

Það er alltaf sama fólkið sem er að kynna fyrir okkur skelfilegar staðreyndir ofbeldis og því miður ansi oft fyrir daufum eyrum.

Fólk er hætt að hlusta.

Sannleikurinn er óþægilegur, það er betra að snúa sér undan.

Nú kemur þessi flotta kona með frábærlega skrifaða bók á mannamáli sem allir geta nýtt sér til fræðslu.

Takk innilega Þórdís Elva.


Ég vil Pál Baldvin í Þjóðleikhúsið - takk

Einu sinni var ég spurð af frómri blaðakonu (já, svo fræg) hvort ég væri kona sem hefði skoðanir á öllu.

Ég hélt það nú, enda bloggari og alles.

Ég var hins vegar ekkert að upplýsa hana um að oft á tíðum hef ég ekkert skoðun á því sem ég þykist hafa skoðun á.

Finnst bara gaman að steyta görn, jájá.

En ég hef sterka skoðun á því hver á að verða Þjóðleikhússtjóri.

Algjörlega upp á punkt og prik.

Páll Baldvin Baldvinsson, heitir maðurinn og ég hef þá trú að verði hann ráðinn þá renni upp nýir tímar í íslensku leikhúslífi og það til hins betra offkors.

Ég veit auðvitað ekkert um hvort það er rétt hjá mér, en mig grunar það.  Innsæi mitt hefur talað.

Ég þekki manninn ekki en við vorum samskipa í skólum Vesturbæjar.

Mér fannst hann þóttafullur og leiðinlegur unglingur svona séð frá sjálfri mér þar sem ég sat á mínum hrokastalli og virti fyrir mér öll fíflin í kringum mig (Halo).

Hann skrifaði líka ömurlega krítík um eina af plötum míns heittelskaða í denn og það fannst okkur báðum skemmtilegt.

Ég held nefnilega að Páll Baldvin sé að mestu laus við sjálfshátíðarelementið sem þjáir íslenska listaelítu oft á tíðum.

Ég held að hann muni vinna Þjóðleikhúsinu gagn og þá áhorfendum í leiðinni með því að vera fyrst og síðast faglegur og sjaldnast eða aldrei í vinsældaleit.

Kommon þetta er maður með gífurlega þekkingu á málaflokknum.

Eini mínusinn við málið væri ef hann hætti í Kiljunni þar sem hann myndar stórskemmtilegt mótvægi við hina létt taugaveikluðu og stórskemmtilegu Kolbrúnu Bergþórsdóttur.

Sem ég er hins vegar ekkert hrifin af þegar hún skrifar í Moggann.

Já, ég vil Pál Baldvin.

Eins og ég hafi um það að segja.

Svo er hann beisíklí algjör dúllurass.

Vonandi er þetta þó rétt.


Brjósta- og píkublogg?

brjóst 

Ég held að ég þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af íslensku þjóðarsálinni svona þegar að er gáð.

Lesendur Moggans eru amk í ljúfum fasa virðist mér ef ég tek mið af mest lesnu fréttunum í dag.

Viti menn, sú í fyrsta sæti er um einhverja Guðrúnu sem er fallegust á EM.

Þessi frétt sem ég tengi hér við er um að skyndilega hafi birst myndir af berum konubrjóstum í grænlenska sjónvarpinu fyrir mistök.

Kannski er það áhugafólk um fegurð kvenna sem heita Guðrún sem lesa mikið vefmiðlana.

Eða unglingar sem eru á hormónafylleríi og fríka út ef þeir sjá minnst á konubrjóst.

Ef ég gef mér það þá erum við auðvitað enn með öllum mjalla, ábyrg og áhyggjufull í gamla kreppufasanum að frátöldum ofannefndum hópum.

Annars er ég svo reið yfir mörgu þessa dagana að ég hef ákveðið að segja sem minnst um það og gerast ábyrgðarlaus brjósta- og píkubloggari.

Ég get líka farið að fylgjast með fegurðarsamkeppnum víða um heim.

Eða lært að sjóða niður hvítkál.

Farið í naglaskóla (svoooooooo mikið ég, ég veit það).

Nú eða hreinlega rifjað upp harðangur og klaustur, farið á hannyrðanámskeið og bróderað frá mér allt vit eins og nunna á sterum.

Svo gæti ég auðvitað bloggað eins og engin sé framtíðin um lagningu ljósleiðara milli aflandseyja og náð mér í sérþekkingu á málefninu á gúggúl.

Eða sótt um þýðingarvinnu á Rauðu seríunum sem eru miklar bókmenntir og myndu jafnvel færa mér þýðingarverðlaunin næst þegar þeim verður úthlutað.

Ég myndi auðvitað láta gúggúl um verkið og enginn myndi kvarta.

Rauðu seríurnar eru síríus bókmenntir, dýpri en "Lygn streymir Don" sem olli því að ég var hársbreidd frá því að rífa augun úr augntóftunum á mér  og eyrun af til vara í denn en þrælaði mér samt í gegnum hálf vitfirrt úr leiðindum.

Til hvers?

Jú ég var alltaf að bíða eftir því að einhver fréttamiðill (þessir þrír á landinu) myndu hringja í mig og spyrja mig hvað ég væri að lesa.  Vildi ekki vera að lesa um Árna og Rúnu í Hraunkoti og ætlaði að virka gáfaðri en jafnaldrar mínir.

Hefði getað sparað mér lesturinn á helvítis bókinni, það hefur enginn hringt ennþá.

Hvað um það.

Allt í góðu á kærleiks - eða því sem næst.

Urrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr

Næst verður það brjósta- og píkubloggið.

Ég gæti sagt ykkur sögur.

Og mun gera nema eitthvað annað og safaríkara (hm) komi uppá.


mbl.is Óvænt brjóstasýning í grænlenska sjónvarpinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haustfréttir frá menningarheimilinu í 101

Undirrituð hefur aldrei á Ljósanótt Reykjanesbæjar farið.

Fremur en aðrar svona bæjarhátíðir.

Er í raun ekkert spennt fyrir svona fyrirkomulögum en Ljósanóttin er mér kær.

Af hverju spyrð þú og missir augabrúnir upp á enni.

Jú, Ljósanótt er merkið sem ég gef mér um að formlegt haust sé hafið.

Ég elska haustið.

Litina, lyktina, skerpuna sem kemur í lungun þegar ég anda að mér haustloftinu.

Fyrir suma eru réttir og sláturgerð merki um haust, en ég þekki ekki sláturfólk.  Það er of blóðugt og villimannslegt fyrir mína fínhekluðu sál og blúndulagt sinnið.

Silfrið byrjar aftur í dag eftir sumarfrí (sem er allt of langt).  Það er líka merki um að haustið sé komið.

Sumarið er fínt, en haust og vetur er minn tími.

Á sumrin þarf maður nefnilega að hafa afsökun til að vera ekki að fara eitthvað, gera eitthvað.

Það eru bókstaflega allir eilíflega farandi eða rétt ókomnir til þess eins að rjúka aftur af stað á sumrin.

Fólk eins og ég situr heima á svipinn eins og hertur handavinnupoki og fer í felur með að það vill bara sitja inni og lesa.  Okei, úti á svölum í besta falli.

Nú get ég kveikt á kertum og lesið eins og enginn sé morgundagurinn og verið góð með það.

Er að lesa tvær bækur núna börnin mín á galeiðunni.

kalstjarnan

Önnur er "Undir kalstjörnu" og hún er ótrúlega falleg og ljót, ljúf og sár, beitt og blíð,  kom út 1979 að mig minnir en er núna komin í kilju.

Alltaf sama sagan

Hin er nýja smásagnasafnið hans Þórarins Eldjárns, "Alltaf sama sagan" en hann er einn af mínum uppáhalds.

Þórarinn Eldjárn hefur einn svakalegan galla.  Galla sem ekki er hægt að horfa framhjá.  Honum er gjörsamlega fyrirmunað að valda manni vonbrigðum.

Bibb og búbb.

Skál í haustpartíinu frá menningarheimili mínu í 101.


mbl.is Ljósadýrð í Reykjanesbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er ég sem tala niður til ykkar úr 101

Ég er komin aftur, jabb, fríið frá mér búið og nú mun ég láta öllum illum látum.

Segi svona.

Hvað er verið að dissa Gordon Ramsey fyrir flotta staðinn í Chelsea?  Dætur mínar borðuðu þar um daginn og fannst maturinn frábær.

Aular.

En....

Eitt stykki menningarheimilisflutningar eru að baki.

Vitið þið hvað bækur eru erfiðar til flutnings?

Jamm ég trúi á bókvitið þar sem verkvitinu sleppir.

Hér sit ég innan um kassarestar og mala af ánægju með að vera tengd.

Ég er svo lukkuleg, það í mér mér púki en samt kem ég með friði villingarnir ykkar.

Ég er svo ánægð með mig, heimilið og allt sem lifir að ég er að hugsa um að ganga í stjórnmálahreyfingu til að halda upp á það.

Hvaða stjórnmálahreyfingu?

Það veit ég ekkert um, Framsókn kannski.  Vantar ekki einhvern til að tosa það búalið upp úr traktorsförunum?  Sjáum til.

Þetta er Jenný Anna sem talar niður til ykkar úr 101.


mbl.is Ramsey í rugli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókablogg um Kínverjann

Kínverjinn

Ég var að lesa nýju bókina hans Hennings Mankell.

Kínverjann.

Hún er frábær.

Glæpasaga sem heillaði mig upp úr skónum.

Af hverju?

Jú hún er meira en glæpasaga, hún er um pólitík, fjöldamorð, þrælahald, græðgi og réttindabaráttu.

Í bókinni er farið víða um heim bæði í tíma og rúmi.

Sögusviðið teygir sig frá Svíþjóð, Englands og alla leið til Kína í nútímanum ásamt Kína og Bandaríkjum fortíðar.

Ótrúlega vel skrifuð bók sem er heillandi, ógnvænleg, fróðleg og spennandi, allt í senn.  Ein af þessum spennubókum sem halda manni föngnum allt til enda.

Ég er að verða fíkin í krimma sem er alveg nýtt fyrir mér.

Ha?

Lesið Kínverjann, þið verðið ekki svikin.


Algjör sveppur

 

Það eru sem betur fer kostir við kreppu.

Eins og t.a.m. það að fólk sest niður og endurmetur stöðuna, forgangsraðar og áttar sig jafnvel á að það sem talið hefur verið skipta mestu máli er hjóm eitt.

Eins og peningasöfnum, munasýki og endalaus sókn eftir vindi.

Bókalestur er að aukast sem aldrei fyrr.

Það gleður mig, því ég veit hversu heilandi og róandi lestur góðra bóka er fyrir innri manninn.

En að söfnun.  Í staðinn fyrir að safna peningum, rolexúrum og Luis Voutton töskum (hm) þá má tína ber og sveppi.

Ég hef aldrei þorað að tína sveppi vegna þess að ég er skíthrædd um að eitra fyrir sjálfri mér og deyja um aldur fram.

Ef það á fyrir mér að liggja að deyja vegna eitrunar af einhverju tagi þá kýs ég að það sé af völdum annarra en moi.

Það er komin út bók um sveppi.

Með myndum og lýsingum.  Þú getur ekki tínt þá eitruðu óvart sértu vopnaður (uð) þessari bók.

Vissuð þið að krúttlegi rauði sveppurinn með hvítu doppunum, þessi sem er í barnabókum og svoleiðis er baneitrað kvikindi?  Í bókinni stendur að flestir viti það - halló, ekki ég.

Bókin er í plastkápu og það er reglustrika á jöðrunum, til að mæla, gera og græja.

Nú er tíminn.

Í garðinum hjá mér er allt fullt af sveppum.

Ég fór með bókina út í gær og generalprufaði hana.

Gekk svona líka ljómandi vel þó eflaust hafi sjónarvottum dottið í hug að hringja á babúbílinn þegar þeir sáu mig á hnjánum með bókina ofan í jörðinni.

Hvað um það, sveppakona er ánægð kona.

Svo eru það bláberin.

Eigum við ekki að drífa okkur út í náttúruna börnin mín á bjarginu?

Jú, gerum það.

P.s. Það eru líka uppskriftir í bókinni.

Úje.


mbl.is Bækur rokseljast í kreppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð hvað og leitin að g-blettinum heldur áfram

 

85051997

Ég gat ekki annað en skellt upp úr þegar ég sá að gasprið í Davíð var mest lesna fréttin á Mogganum og fyrsta frétt í kvöld á báðum sjónvarpsstöðvum (ókei, rétt skal vera rétt, hún var númer tvö á RÚV).

Merkilegt svona miðað við allt sem maðurinn hefur látið út úr sér frá hruni, (margt af því hefur ekki haldið vatni) að fólk rifni á samskeytunum ef konungurinn hefur skoðun.

En..

En ég hef ekki stórar áhyggjur af Davíð.

Það er hægt að sitja og rífa sig, benda hingað og þangað og gefa sig út á frímerki, það breytir ekki staðreyndum.

gblettur

Reyndar hef ég meiri áhyggjur af öllum sjálfshjálparbókagenginu sem fær nú rannsóknir í andlitið á sér sem segja að þessi rit geti virkað þveröfugt.

Ég þoli ekki sjálfshjálparbækur.

Við reynum aftur:

Ég hata sjálfshjálparbækur (súmítúðefokkingbón).

Það er svo mikil uppgjöf falin í að sitja og lesa um hvernig maður á að lifa lífinu.

Hvernig maður verður elskuverður.

Nú eða fullur sjálfstrausts.

Eða hvernig maður nær sér í mann.

Fær betri vinnu og glás af peningum.

Bækurnar sem eiga opna fyrir unaðssemdir kynlífsins þar sem meðfylgjandi er kort sem leiðir þig að g-blettinum.

Ég átti tímabil þar sem ég var dálítið höll undir svona bókmenntir.

Það er skemmst frá því að segja að þær voru með leiðinlegri lesningu sem ég hef komist í.

Svo ég tali ekki um megrunarbókmenntirnar.

Nei, má ég þá heldur biðja um almenna skynsemi.

Sem mig reyndar vantaði í kvöld þegar ég fékk mér súkkulaði.

Algjörlega óábyrgur sykursjúklingur.

En hafið þið smakkað 75% súkkulaði frá Ekvador með þurrkuðu chillí?

Ekki, núnú, þá hafið þið ekki lifað lífinu.

Best að það komi fram varðandi g-blettinn, ég er enn að leita.

Og svo er ég farin að sofa addna villingarnir ykkar.

Ésús minn á galeiðunni.


mbl.is Ekki setja þjóðina á hausinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frá Hruni í leigubíla og viskídrykkju

Ástandið í þjóðmálum er að ná mér.

Ég þessi einstaka, frábæra, geðgóða, jafnlynda, fullkomna, yndislega og ljúfa kona, er ekki nema skugginn af sjálfri mér.

Og hvað gera byltingarsinnar þá?

Jú þeir lesa heilu bækurnar um hrunið.

Fyrst tók ég þessa.

Ég var ekki búin að fá nóg, þegar hér var komið sögu og ég hellti mér út í Hrunið eftir hann Guðna.

Bækur um hrunið og aðdraganda þess eru auðvitað skyldulesning, þó ekki væri nema til að reyna að skilja hvernig við Íslendingar gátum misst allt niður um okkur á meðan við dönsuðum um allt algjörlega ómeðvituð um að hið óumflýjanlega væri að gerast.  Að við værum ekki ósnertanleg og ofurklár, komin með leyniformúluna að velgengninni.

Svo bara hrynur allt í hausinn á okkur.

Lygasögunni líkast að lesa um þennan skelfingarkafla Íslandssögunnar sem enn sér ekki fyrir endann á.

En..

Það er ekki hægt að lesa sér til þunglyndis endalaust.

79 af stöðinni

Svo ég skellti mér í gleðibókmenntir.

Í samanburði við hrunabókmenntirnar auðvitað.

Ég var smástelpa þegar 79 af stöðinni var frumsýnd.

Bönnuð "böddnum" nema hvað, ég var óhuggandi.

Þá náði ég mér í bókina á safninu og las.

Skildi lítið í tvíræðum "á milli línanna lýsinga" á sambandi karls og konu.

Karlinn var nýkominn á mölina, sveitalegur, trúgjarn og saklaus.

Konan í kananum, lausgirt, óheiðarleg og viskídrekkandi.

Nú las ég endurútkomna 79 af stöðinni og hafði gaman að.

Einhver sagði að Indriði væri að herma eftir Hemmingway.

Mér finnst bókin hins vegar séríslensk eftirstríðsbók um átök sveitapiltsins við nútímann í sér.

Þessi bók verður seint talin meistaraverk.

Það er svo krúttlegur byrjendabragur á henni, en hún er skemmtileg heimild um fólkið í borginni þar sem smalagenið, hæðir og hólar heimahaganna þvælast endalaust fyrir nútímavæðingunni.

Lesið, lesið, lesið.

Kreppan líður fljótar.

Það geri ég.

 


mbl.is Einblíni meira á niðurskurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gull, krókódílar og skyldulesning Hruns

 bjorgolfur_thor_i_cannes

Mér er enn hálf óglatt eftir að hafa lesið um gullátið á Sigurjóni digra og félögum hans í Landsbanka.

Reyndar hafa fréttir af gróðærishegðun þessara mannandskota gert mér gramt í geði síðan þær fóru að berast fyrir nokkrum árum.

Þá var sagt að maður væri öfundsjúkur, ef aðdáunarstunurnar lýstu með fjarveru sinni og það er eins langt frá sannleikanum og hægt er að komast, amk. hvað mig varðar.

Ekki að ég sé svona frábær og nægjusöm (sem ég er og ekki orð um það meir), heldur vegna þess að ég fæ kjánahroll yfir heimskulegri hegðun, ofursnobbi og siðspillingu. 

Að borða gull, að halda árshátíðir á kínamúr, fara í sjoppunna á þyrlunni,  að eiga fleiriþúsund fermetra sumarhús, að kaupa sérpantaða bíla, snekkjur og einkaflugvélar, að vera með fjandans bötler, er merki um svo lága sjálfsmynd, svo mikla þörf fyrir að sýna fram á hversu öfundsverður maður er að það jaðrar við geðveiki. 

Gullslegin meltingarfæri.  Halló.

Eða fjólubláu og bleiku bindin sem garga á mann: Hér er ég, sjáið mig. 

Það vantaði bara að þessi ofurplebbar væru með verðmiðana hangandi utan á sér.

Ómægodd átti andlislaus massinn að stynja ofan í hagkaupsklædda bringuna: Vá hvað mig langar að vera hann/hún?

Fyrirgefið en ég sá þetta fólk alltaf fyrir mér plokkandi nefhárin af mikilli alúð fyrir framan spegilinn.  Eyðandi í það fleiri tímum.  Svona tilgangslaust dekur.

En þrátt fyrir að allt sé hrunið í hausinn á okkur múgnum halda þessir sjálfskipuðu peningahetjur sem eru auðvitað ekkert annað en bölvaðir þrjótar, áfram að berast á. 

Geta ekki einu sinni stillt sig um að glenna sig á myndum þar sem þeir mæta í veislur með hinu ríka fólkinu.

Hversu fokkings hégómlegur er hægt að vera?

Og heimskur?

taska

Hermes er með eigin krókódílabúgarð í Ástralíu.  Það þarf stundum marga krókódíla í hvert veski júsí.

"Kókófílarnir"  í Ástralíu eru svo sannarlega fucked alveg eins og við Íslendingar.

Hinir íslensku bankaræningjar láta sig tæpast vanta í vöruhús Hermes eða hvað?

Úff. 

Mig verkjar undan þessu.

Málið er að ég er að lesa um Hrunið.  Nýútkomna bók Guðna Th. Jóhannessonar.

Það er erfitt að ná utan um alla þessa klikkuðu atburðarrás.

En þessi bók er skyldulesning fyrir alla sem vilja fá innsýn í hvernig kaupin gerðust á Eyrinni.

Blogga nánar um bókina þegar ég er búin með hana.

Later.


mbl.is Tískuhús ræktar eigin krókódíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 2985600

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband