Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Þarf að hitta mann vegna manns

Ég hef alltaf gaman af því að lesa um tæki sem eru algjörlega ónauðsynleg en eru í leiðinni sönnun þess að fólk er alltaf að hugsa út fyrir rammann.

Gaman að því.

Sturtuútvarp var nýlega valið sem versta heimilistæki allra tíma.

Halló, af hverju var ég ekki spurð?

Hefði getað sagt þeim sögur!

Eins og t.d. af "sneiðaranum" sem ég keypti mér á markaði í útlöndum. 

Þetta var plastgræja sem sneiddi dásamlega agúrkur, lauka og því um líkt.

Ég ætla ekki að fara nánar út í það en í annað skipti sem ég sneiddi gúrku sneiddi ég fallegar sneiðar framan af fingri í leiðinni.  Tók sig vel út á áleggsdisknum ef við undanskiljum blóðbaðið.

Tölum svo um eggjasuðutækin.  Þvílíkur viðbjóður.

Til hvers í ósköpunum þarf eggjasuðutæki?

Ég var beitt eggjasuðutækjaofbeldi á tímabili.  Mínar eigin dætur fóru þar fremst í flokki.

Tvær af þremur glöddu móður sína með uppfinningunni - Ég kunni þeim engar sérstakar þakkir fyrir.

Síðan fékk ég það þriðja þegar ég með lagni hafði látið hin fyrri hverfa. (Frá ættingja sem hefur örugglega hatað mig, ég sé það núna - fari hann og veri).

ARG.

Ég nenni ekkert að tala um ljósálfalampa og fótnuddtæki.  Hvorutveggja er klassík.

Poppkornspottar, er ekki í lagi?  Örugglega karlmaður sem hefur hannað þá snilld, ekki vitað að poppkorn má poppa í öllum alhliða pottum.

Fótastyttir (já frá Ameríku, krem sem styttir á þér lappirnar um heila 4 cm. að lokinni meðferð - eins gott að þingmenn Hreyfingarinnar komist ekki yfir það fyrirkomulag og beiti því á sjáfa sig lóðrétt til helvítis!  Nógu mikið hafa þau orðið sér til "minnkunar"Halo)

Eyrnaklóra sem þjónar umfram tilgang og getur slegið á pirring í heilaberki ef maður gætir sín ekki.

 Rafknúinn kaffibolli sem heldur skörpum hita á bolla og skaðbrennir á þér lúkurnar í leiðinni og ég get haldið áfram en ætla ekki að gera það. 

Þarf nefnilega að hitta mann vegna manns.

Eða þannig.

Úje.


mbl.is Sturtuútvarpið versta græjan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af líklegum ritstjóra og látnu fólki

 kristalskúla

Þegar betur fer að ganga þá er best að reka manninn í brúnni.

Íslenska leiðin - má ég kynna.

Annars er verið að leiða að því líkum að Davíð Oddsson setjist í ritstjórastólinn.

Þegar ég heyrði það greip ég til kristalskúlunnar og leitaði svara.

Kúlan var á því að þetta væri svona.

Ég án hjálpar kúlunnar tel svo líka vera.

Spurningin er - brjótast út fagnaðarlæti þegar kóngurinn hlammar sér í stólinn?

Talandi um kúlur og annað kukl.

Ég horfði á Þórhall miðil á Ská 1.

Æi, sumt er best að láta ósagt.

En að því ósögðu þá verð ég að lýsa furðu minni á að fólk sem kemur í gegnum miðla skuli vera ófært um að segja almennilega til sín.  Miðlar tala í gátum.

Alveg: Hér er gömul kona með stórt hjarta hún er í Nokíastgvélum og er að hugsa svo mikið til þín Guðrún mín.  Kannastu við það?

Já, hún stendur við sjóinn og veifar höndunum, stígvélin eru of stór, hún hoppar upp úr þeim hvað eftir annað, var hún ræðari?  Ekki, en vitavörður?  Baðvörður?  Ekki, nú en bringusundkona? 

Hvað hún heitir?  Bíddu, samband slæmt, kannastu við Sig eitthvað?  Sigrún?  Sigríður, Sigdís, Sigfríð, Sigmær, Sigþrúður, Sigurdís, Sigurlín?

Jésús, fyrst þessir látnu geta veifað höndum, gefið signöl og lýst eigin innræti af hverju í fjáranum geta þeir ekki sagt til nafns?

Það þarf að minnsta kosti ekki mikla miðilsgáfu til að leiða líkum að því að flotti Moggaritstjórinn hafi verið látinn fjúka fyrir Doddsson.

Okei, okei, ég er hætt.

Er að drífa mig í að lesa tarrot fyrir vikuna.

Úff, mikið að gera hjá mér í andlega geiranum.


mbl.is Aukið traust á Morgunblaðinu og mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við gerum samning Moggi góður - Kapíss?

28 

Ég sting hér með upp á því við Moggann að við gerum með okkur samning.

Ég skal láta ekkifréttir af "fræga" fólkinu yfir mig ganga, jafnvel lesa þær með umburðarlyndi og ef farið verður að vilja mínum, láta eins og þær séu ekki óþolandi lágkúra.

Á móti mun Mogginn hætta að birta fréttir af hugsunum þessarra sömu einstaklinga.

Í þessu tilfelli væri t.d. gráupplagt að segja af því fréttir þegar og ef Davíð Bekkham á von á barni sem þá mögulega er kvenkyns.

Í staðinn fyrir að slá því upp hvað hann vill gera - því það er ekki fréttnæmt.

marteinn frændi

Marteinn frændi þráir barn.

Ekki kjaftur hefur áhuga á því.

Enda Marteinn háaldraður, gott ef ekki hvítur nár og ófær um að geta börn.

En þið vitið hvað ég meinið.

Mig langar í viðbrenndar kartöflur - viljið þið ekki að skrifa smá klausu um það?

Nebb, ég er nóboddí - en samt.  Hvorutveggja drepur mann úr leiðindum.

Gleðilegt Silfur.

komment.


mbl.is David Beckham vill eignast dóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beint í bólið með tólið

underwear_1 

Bíddu, bíddu, af hverju er ég að missa?

Er ég búin að lifa mína löngu ævi án þess að hafa skoðanir á nærbuxum karlmanna?

Djöfull er ég aftarlega á merarósómanum.

Ég hef heilmiklar og djúpar skoðanir á nærfatatískunni, enda fátt skelfilegra en að vera gómaður á undirfötum frá tísku síðasta árs.

Tala nú ekki um að vera í lufsulegum nærbuxum úr nælonblönduðu draloni með mynd af kólibrífugli framan á þið vitið hverju. 

Ég hef fylgt þeirri meginreglu í gegnum fullorðinslífið að klæða mig alltaf þannig innst (og yst) að ég fari vel í sjúkrabíl  og á ambúlans.

Hef átt yndisleg móment áður en ég sofna þar sem mig dreymir dagdrauma um mig liggjandi hvíta sem ná á sjúkrabeði, skrámaða, saumaða og með slöngu í handlegg og svona en óaðfinnanlega dressuð í falleg undirföt frá Victorias Secret.

Amma sagði við mig þegar ég var barn að fara aldrei í götóttum sokkum út úr húsi og í ljótum nærfötum inkeis ég yrði fyrir bíl.

Ég tók þetta algjörlega til mín á meðan ég hins vegar blés á ráðleggingar hennar varðandi kærasta, reykingar og Glaumbæjarheimsóknir.

Úff.

Ég hef sem sagt aldrei út úr húsi farið öðru vísi en að vera algjörlega klædd á bekkinn og í kistuna ef allt færi nú á versta veg.

Hef ekki hingað til haft erindi sem erfiði en held ótrauð áfram. 

Fyrirfram aðvöruð - fyrirfram vopnuð og allur sá ballett börnin mín södd og sæl.

En að ég velti mér upp úr nærfötum karla er af og frá.

Spongebob20in20his20Underwear202

Veit bara að mér finnast nærbuxurnar hans Svamps Svanssonar ótrúlega skver og hallærislegar.

Glætan að ég fari að segja ykkur hvað mér finnst um karlmenn á nærhöldunum.

Ég er af hippakynslóðinni, við slepptum svoleiðis hégóma.

Beint í bólið með tólið.

(Djók? Nei, nei, fúlasta alvara).

Farin að sofa.

Eða þannig.

Kikkmítúðebón.


mbl.is Þröngar nærbuxur takk!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menningarlegt ísskápsinnihald og ekkert kynlíf

Ég er ákveðin í að halda mig við léttúðug bloggefni í dag og missa mig ekki í kreppu- og spillingarfréttir.

Hef ekki trú á að það haldi en ég reyni.

Ég bloggaði um píkur og brjóst í síðustu færslu þannig að það verður að duga í bili.

En ég var að velta fyrir mér einu sem er rosalega 2007!

Muniði eftir greinunum í blöðunum þegar "frægt" fólk var spurt hvað það væri með í matinn og hvað væri í ísskápnum og svona?

Auðvitað munið þið það vegna þess að það var alltaf rosa flott í matinn og innihaldið í ísskápnum var alveg eins og í lúxusdellí í New York.

Ég trúði því auðvitað ekki eitt augnablik að þegar blaðið hringdi í sóandsó og spurði hvað hún væri með í matinn í kvöld og hún alveg: Jú, ég er með antilópusteik al búllsjitt e lúxus du la sonofabits, með handplokkuðum villisveppum frá Himmalaya og kampavínssósu.  Í forrétt er vatnakarfi frá Víetnam með ostrusósu og créme friggingbrulé í eftirrétt.

Sko á þriðjudagskvöldi.  Ég garga.

Svo var hringt í annan sóandsó sem taldist frægur og hann beðinn um að kíkja í ísskápinn á mánudegi.

Sóandsó alveg: Jú, látum okkur nú sjá: Ostar frá Frakklandi, gapachio frá Ítalíu, nýkreistur djús úr ferskjum frá Ísrael, súrsuð froskaeyru frá fenjasvæðunum í Brasilíu, fjörmjólk og hamingjuegg týnt undan vímuðum hænsnum sem leika lausum hala fyrir austan fjall.

Halló, aldrei tómatsósa, mjólk og skyr og plokkfiskleifar.

Aldrei.

Hvað er í mínum ísskáp í dag?

Jú, tómatsósa, Mango chutney, ostur, smjör, nautahakk, laukur og annað grænmeti.

(Fruss og einn cola-drykkur en ekki segja neinum frá því börnin mín á fjallinu).

Sjúkkitt, eins gott að enginn hringi og spyrji mig að þessari spurningu, ég væri neydd til að ljúga upp á mig menningarlegu ísskápsinnihaldi!.

Hagið ykkur þann 090909.

Það ætla ég að gera.  Jeræt.


mbl.is Kynlíf fyrir heimilisfriðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brjósta- og píkublogg?

brjóst 

Ég held að ég þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af íslensku þjóðarsálinni svona þegar að er gáð.

Lesendur Moggans eru amk í ljúfum fasa virðist mér ef ég tek mið af mest lesnu fréttunum í dag.

Viti menn, sú í fyrsta sæti er um einhverja Guðrúnu sem er fallegust á EM.

Þessi frétt sem ég tengi hér við er um að skyndilega hafi birst myndir af berum konubrjóstum í grænlenska sjónvarpinu fyrir mistök.

Kannski er það áhugafólk um fegurð kvenna sem heita Guðrún sem lesa mikið vefmiðlana.

Eða unglingar sem eru á hormónafylleríi og fríka út ef þeir sjá minnst á konubrjóst.

Ef ég gef mér það þá erum við auðvitað enn með öllum mjalla, ábyrg og áhyggjufull í gamla kreppufasanum að frátöldum ofannefndum hópum.

Annars er ég svo reið yfir mörgu þessa dagana að ég hef ákveðið að segja sem minnst um það og gerast ábyrgðarlaus brjósta- og píkubloggari.

Ég get líka farið að fylgjast með fegurðarsamkeppnum víða um heim.

Eða lært að sjóða niður hvítkál.

Farið í naglaskóla (svoooooooo mikið ég, ég veit það).

Nú eða hreinlega rifjað upp harðangur og klaustur, farið á hannyrðanámskeið og bróderað frá mér allt vit eins og nunna á sterum.

Svo gæti ég auðvitað bloggað eins og engin sé framtíðin um lagningu ljósleiðara milli aflandseyja og náð mér í sérþekkingu á málefninu á gúggúl.

Eða sótt um þýðingarvinnu á Rauðu seríunum sem eru miklar bókmenntir og myndu jafnvel færa mér þýðingarverðlaunin næst þegar þeim verður úthlutað.

Ég myndi auðvitað láta gúggúl um verkið og enginn myndi kvarta.

Rauðu seríurnar eru síríus bókmenntir, dýpri en "Lygn streymir Don" sem olli því að ég var hársbreidd frá því að rífa augun úr augntóftunum á mér  og eyrun af til vara í denn en þrælaði mér samt í gegnum hálf vitfirrt úr leiðindum.

Til hvers?

Jú ég var alltaf að bíða eftir því að einhver fréttamiðill (þessir þrír á landinu) myndu hringja í mig og spyrja mig hvað ég væri að lesa.  Vildi ekki vera að lesa um Árna og Rúnu í Hraunkoti og ætlaði að virka gáfaðri en jafnaldrar mínir.

Hefði getað sparað mér lesturinn á helvítis bókinni, það hefur enginn hringt ennþá.

Hvað um það.

Allt í góðu á kærleiks - eða því sem næst.

Urrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr

Næst verður það brjósta- og píkubloggið.

Ég gæti sagt ykkur sögur.

Og mun gera nema eitthvað annað og safaríkara (hm) komi uppá.


mbl.is Óvænt brjóstasýning í grænlenska sjónvarpinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðmál um svefn eða skó

The%20Shining

Talandi um kvikmyndir.  Úff, ég er í vandræðum.

Málið er að ég horfi ekki á hryllingsmyndir nema með örfáum undantekningum.

Ég lenti nefnilega í skelfilegri upplifun þegar ég bjó í Gautaborg um árið og leigði mér "Shining".

Mikið rosalega hræddi hún mig sú mynd.

Ómæ hvað Jack Nicholson var mikill ógeðismaður í þeirri rullu.

Samt man ég ekki mikið úr myndinni nema hversu hrædd ég var, andrúmsloft illsku og svo man ég að konan hans Jack í myndinni var eins og hún væri að deyja úr berklum eða eitthvað.  Alveg ferlega þreytuleg konan.

Ég veit að ég er ekki í lagi en eftirköstin af því að horfa á þessa mynd voru langvarandi og skelfileg fyrir mig.  Nema hvað.

Ég þorði ekki að sofna í myrkri í fleiri mánuði á eftir.

En málið gerðist alvarlegra en svo því þetta þróaðist út í það að geta ekki sofið við ljós heldur.

Ég hætti einfaldlega að sofa á tímabili.

Í hausinn á mér komu aftur og aftur flashback úr myndarfjandanum.

Here´s Johnny var eitt.

Þegar Jack var á barnum með manninum frá helvíti var önnur.

En þetta vandamál með myndina hefur elt mig uppi.

Ég hef nefnilega veðjað við hinn helminginn af kærleiks að ég þori alveg að sjá hana núna þrjátíu árum síðar eða svo.

Hann vil meina að ég sé ennþá skíthrædd og taugaveikluð og muni verða andvaka fram að jólum.

Ég í öllum mínum hortugheitum þverneita því og hef veðjað við hann um málið.

Þess vegna er mér þessi vandi á höndum.

Hvort er mikilvægara?

Að sofa eða vinna rándýru stígvélin sem veðmálið gengur út á?

Sjitt.


mbl.is Verða kvikmyndir leigðar út og seldar á YouTube?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég þekki fólk

Ég þekki slatta af fólki sem litlar líkur eru á að deyji fyrir aldur fram af völdum hjarta- og æðasjúkdóma.

Jamm og sjúkkitt.


mbl.is Hættulegt að vera með mjó læri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er ég sem tala niður til ykkar úr 101

Ég er komin aftur, jabb, fríið frá mér búið og nú mun ég láta öllum illum látum.

Segi svona.

Hvað er verið að dissa Gordon Ramsey fyrir flotta staðinn í Chelsea?  Dætur mínar borðuðu þar um daginn og fannst maturinn frábær.

Aular.

En....

Eitt stykki menningarheimilisflutningar eru að baki.

Vitið þið hvað bækur eru erfiðar til flutnings?

Jamm ég trúi á bókvitið þar sem verkvitinu sleppir.

Hér sit ég innan um kassarestar og mala af ánægju með að vera tengd.

Ég er svo lukkuleg, það í mér mér púki en samt kem ég með friði villingarnir ykkar.

Ég er svo ánægð með mig, heimilið og allt sem lifir að ég er að hugsa um að ganga í stjórnmálahreyfingu til að halda upp á það.

Hvaða stjórnmálahreyfingu?

Það veit ég ekkert um, Framsókn kannski.  Vantar ekki einhvern til að tosa það búalið upp úr traktorsförunum?  Sjáum til.

Þetta er Jenný Anna sem talar niður til ykkar úr 101.


mbl.is Ramsey í rugli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of breysk fyrir þennan heim fullkomnunar

flirting 

Kannski er svo fyrir okkur komið að við verðum að fá skammtinn okkar af krúttfréttum í öllu þessu kraðaki af neikvæðni.

Bara gaman. 

Ég þekki hins vegar mann sem fór að heiman með seðlaveskið sitt og kom heim með nýja konu og ekkert veski.

Konan hans, sú sem fyrir sat á bekk og beið hans þakkaði sínum sæla fyrir að vandamálið með karlasnann leystist svona líka þægilega og áreynslulaust og sendi þeirri sem tók við jólagjafir í mörg ár á eftir.

Alveg þangað til að sú fékk fyrir sig afleysingu til langframa.

Já, ég þekki stórbilað fólk en það er best að taka það fram að þessi maður var útlendingur í útlöndum því svona ógeðsframkomu stunda íslenskir karlmenn ekki.  Það vitum við vel.

En þetta snýst um að fara að heiman með eitthvað og skipta því síðan út eða bæta við.

Fara út með hundinn og koma heim með önd.

Sem ég myndi auðvitað matreiða á stundinni enda endur og annar gargfénaður ekki til nýtni hæfur nema á diski með grænmeti, kartöflum og dassi af sósu.

Hér á kærleiks förum (fórum) við reglulega að heiman með tómar kókflöskur úr plasti offkors.

Og komum heim flöskulaus með peninga.

En ég er ekki nógu græn verandi VG því allt þetta ár eftir að kreppa hófst greip mig kæruleysisbrjálæði og nú hendi ég öllu flísefni í flöskuformi beint í ruslið og ég stend í forherðingu minni og það hreinlega rignir upp í nefið á mér.

Og af því ég veit að það er alls ekkert hipp og kúl að haga mér eins og hvítt hyski í umhverfismálum, þá fæ ég einhverra hluta vegna rosalegt kikk út úr þessari losunarathöfn á flísefni í fjárhagslega herptum heimi.

Alveg: Jei, hvað það er gaman að gera hluti sem sökka biggtæm og sussusussu má ekki.

Svona er fyrir mér komið.

Það er af sem áður var, þegar ég hefði gefið alla útlimi fyrir að vera pólískt rétthugsandi.

Þetta er síðgelgja ég sver það.

Fyrirgefðu umhverfisráðherra.

Hvað get ég sagt?

Ætli ég sé ekki of breysk fyrir þennan heim algjörrar fullkomnunar?

Hmprf...

En hér má sjá ágætis húsráð fyrir þá sem vilja ganga skrefinu lengra í verndun jarðar.

Sápa fer ógeðslega illa með náttúruna.


mbl.is Út að viðra hundinn og kom heim með önd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.