Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Handlangarinn rándýri

Stundum er réttlætiskennd manns svo misboðið að manni langar að pakka saman og fara.

Hvert hef ég ekki hugmynd um.  En þessa dagana eru tilefnin næg. 

Í kvöld settist ég í sakleysi mínu fyrir framan sjónvarpið til að horfa á fréttir.  Ekki að ég hafi búist við að mér yrði sérstaklega skemmt, en ég vonaðist eftir að þurfa ekki að urlast upp vegna skítaframkomu við minnimáttar og ofdekri við einhvern sem teljast má meiriháttar.

En ég hafði ekki heppnina með mér.

Sumir myndu segja að þessi tvö dæmi sem ég tek hér væru ekki samanburðarhæf.  En fyrir mér eru þau nákvæmlega það.  Þau sýna nefnilega bæði hvers virði mismunandi einstaklingar eru, hvað má punga út peningum fyrir og hvar sumum finnst mega spara.

Fyrst kom fréttin um að Jakob Frímann fái 861 þús. krónur í mánaðarlaun fyrir að vera borgarstjóraframlenging.  Staðan er ekki auglýst.  Launin  töluvert hærri en kjörinna borgarfulltrúa.  Nóg til að seðlum fyrir rétta fólkið.  Mér er óglatt.  Ég ætla að vona að Jakob sé slunginn í að túlka í skoðanasalat Borgarstjórans. Hér.

Og svo kom fréttin um að gamla fólkið á hjúkrunarheimilinu á Þingeyri verði flutt hreppaflutningum til Ísafjarðar í sumar því "þeir þurfa að spara og verða að loka 4 vikur í sumar".  Það var talað við konu á tíræðisaldri sem óttast það mjög að verða flutt af heimili sínu.  Lái henni það hver sem vill. Hér. 

Ég á svo erfitt með að ná upp í hróplegt ósamræmi þegar kemur að verðmætamati í þessu þjóðfélagi.  En mér finnst sárt að sjá farið með gamalt fólk eins og búfénað.  Þetta er auðvitað ekkert annað en mannréttindabrot að flytja fólk að heiman, í annað bæjarfélag til að spara peninga.

Ég skil heldur ekki þetta vanmat á kennurum, hjúkkum, leikskólakennurum og öðrum ummönnunarstéttum, þegar kemur að launum fyrir vinnu sem skiptir okkur öll höfuðmáli, eða það skyldi maður ætla.

Svo er ráðinn handlangari á Borgarstjóra, pólitískur vinur hans og honum er borguð ótrúleg summa fyrir að vinna vinnuna sína.

Samræmi?  Nei!

Réttlæti? Nei! 

En ég verð að fara að hörmungajafna og mun láta eins og fíbbbbl í næstu fimm færslum.

Annars heldur fólk að ég sé að verða veik.

Úje.


Mýtur og annað kjaftæði

Það er allt vaðandi í mýtum um konur í nútímasamfélagi.  Hefur reyndar alltaf verið en við höfum alist upp við frasana um konur og höfum jafnvel tileinkað okkur þá og trúað þeim, þvert á alla skynsemi.

Mér dettur í hug þar sem ég sit hér:

1. Vonda stjúpan.  Bull og kjaftæði.  Leyfi mér að fullyrða að vondar skámæður eru í miklum minnihluta.  Tók bara könnun á mitt nánasta umhverfi.  Voila.

2. Konurnar sem eru konum verstar.  Oftar en ekki reynast konur hver annarri vel.  A.m.k. oftar en ekki.  Ég hef alltaf getað leitað til vinkvenna minna með stórt og smátt.  Hinsvegar hef ég þekkt bölvaðar tæfur, en þær eru örfáar og ég legg mig fram við að gleyma þeim.  Sem sagt kjaftæði.

3. Konur eru afbrýðisamari en karlar.  Þær eru smámunasamar gagnvart hvor annarri, leita að veikum blettum, tala illa um hvor aðra og on and on and on.  Hvaða vesalings konur þekkir sá sem svona trúir?

4. Konur sem slást reyna að klóra úr hvor annarri augun, rífa í andlit og hár.  Það er kallaður kattaslagur.  Þessi er gamall, hann lifir góðu lífi meðal karlmanna sem fá eitthvað út úr því að sjá konur meiða hver aðra.   Staðreyndin er að konur slást mjög sjaldan.   

5. Konur geta ekki stjórnað, ekki komið sér saman um neitt.  Þær eru yfirborðskenndar og grunnar í mati sínu á aðstæðum.  Halló, þvílík bábilja.

6. Konur kunna ekki að hlusta.  Þær tala hver ofan í aðra, grípa fram í og haga sér eins og ótýndir dónar í samskiptum.  I rest my case.

Allt eru þetta undantekningar sem hafa fengið vængi.  Þess vegna skiptir máli að við konur sláum á mýturnar.  Að við séum í grundvallaratriðum eins og annað fólk.  Mismunandi en að upplagi ágætis manneskjur.  Eins og hinn helmingurinn af heiminum.

Mér finnst því sorglegra en tárum taki þegar konur gera út á mýtuna.  Kannski til að selja?

Ég hef trú á Ásdísi Ólsen og hennar þáttastjórnun.  En þessir "kvennaþættir" gera út á lélegar mýtur um konur.  Fyrir utan að vera afskaplega vondir þættir.  Það getur vel verið að þetta sé kjút, að sitja á trúnó í útsendingu, en það missir marks hjá mér.

Konur geta ekki komið sér saman um neitt.  Konur tala hver upp í aðra, þær kunna ekki að hlusta og þær geta ekki stillt sig um að rífast hvar og hvenær sem er.  Þarna er mýtan sett á stall, leikin og raunveruleikagerð.  Ég kannast ekki við þessar konur.

Sorglegt.


Samsærið mikla

ist2_184817_baby_bottle

Ég held því fram, blákalt, að það sé samsæri í gangi í heiminum um að troða í konur/mæður samviskubiti upp á múr og naglfestu.  Þetta samsæri var við líði þegar ég gekk með stelpurnar mínar og ekki hefur það lagast í nútímanum.

Ég er ein af þeim sem hef aldrei átt "bæklingsbörn".  Með því á ég við að bæklingurinn sem maður fékk í denn og sagði fyrir um að börn ættu að sofa sóandsó, borða kl. sóandsó o.s.frv. átti ekki við mínar dætur. (Í sama bæklingi var konum bannað að þurrka bleyjur með þvaginu í!  Jabb við erum hálfvitar).  Ég átti í mesta basli við að gefa þeim brjóst.  Svo málið var einfalt, ég hætti því.  Þeim og mér leið betur á eftir.  Það var sótt að mér úr öllum áttum.  Ég var ómöguleg móðir, óhæf nánast, sem ekki reyndi mig bláa í framan að gefa börnunum mínum brjóstamjólk.  Ég kaldrifjuð kona, ég vildi ekki það besta fyrir börnin mín.  Þetta náði mér með frumburðinn og ég kvaldist vegna mannvonsku minnar, en svo var það líka búið.  Ég sendi þessum besserwisserum fingurinn héðan, fyrir að reyna að brjóta niður það litla sjálfstraust sem ég og margar ungar mæður hafa yfir að búa.

Og enn heldur samsærið áfram.  Gerum mæður sligaðar af sektarkennd ef þær gera ekki af einhverjum ástæðum það sem fyrir þær er lagt.

Brjóstamjólk hvað sem það kostar.  Ef ekki þá færðu verr gefið barn kerling.

Hafirðu reykt áður en þú vissir að þú varst með barni þá ertu allt að því morðingi.

Sama með drykkju.

Til að fyrirbyggja misskilning þá er ég auðvitað á því að barnshafandi konur eiga ekki að reykja og ekki drekka.  Þær eiga að fá góðan svefn, hvíla sig vel og borða heilbrigðan og fjölbreyttan mat.  Ladídadída.  Hægara sagt en gert í þessu vinnuóða samfélagi.

Raunveruleiki.  Allar þungar á Íslandi eru ekki planlagðar.  Það kemur nefnilega fyrir að konur verði ófrískar án þess að hafa beinlínis ætlað sér það.  Leim, ég veit það en það er raunveruleikinn.

Hvað er fengið með því að hræða úr þeim líftóruna?  Gera meðgönguna þeirra að hreinni skelfingu?

Ég veit það ekki.

En samsærið er í fullum gangi.  Ójá.

 


mbl.is Áhrif brjóstamjólkur á greind barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rusl og rjóður

Dagböð eru dagblöð, auglýsingapóstur er ruslpóstur sem ég hendi jafnharðan og hann berst.

Það fer afskaplega í taugarnar á mér að fá óumbeðnar auglýsingar í hólfið mitt, og pappírinn, allur pappírinn.  Hér eru rifin upp heilu rjóðrin úr skógum heimsins.  Halló!

Það er furðulegt að það skuli þurfa að gefa okkur leyfi eða möguleika á að hafna einhverju sem aldrei hefur verið beðið um.

Það er sama aðferðarfræðin og með hinn íslenska gagnagrunn.  Ég þurfti að nálgast eyðublað og segja mig úr grunninum þegar kommons sens segir mér að það hefði átt að vera öfugt. 

Þetta heitir að byrja á öfugum enda.

Ruslpóstur sem hefur fengið hið eðla nafn "fjölpóstur" framkallar ekki mikla kátínu á heimilum landsins.  Ég þekki heldur engann sem segir: Vá, það eru komnar auglýsingar frá Hagkaup og Nóatúni og einhelda sér síðan í að lesa viðkomandi bæklinga upp til agna.

Ég vil að fólk þurfi að biðja um "fjölpóstinn".  Eða gefa upplýst samþykki fyrir honum.

Ég vil ekki sjá þessa pappírseyðslu.

Péess, það má geta þess að það er hægt að fá sömu upplýsingar á vefnum og þar er ekki gramm af pappír sem fer til spillis.

Og hananú.

Þetta var neytendahorn Jennýjar Önnu sem tjáði sig... Illa prirrað.


mbl.is Hægt verði að hafna fjölpósti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirlýsing til að róa íslenska þjóð

 11

Ég undirrituð lýsi því hér með yfir, til að slá á öflugar vangaveltur þess efnis að ég og minn heittelskaði munum flytja á Stór-Hafnarfjarðarsvæðið næstu 18 mánuðina, að planið hefur verið blásið af.

Þannig er mál með vexti að við vorum svona að gæla við hugmyndina um að flytja búferlum og nefndum það í bríari við einhvern að Hafnarfjörður gæti komið sterklega til greina sem búsetusvæði vegna nálægðar sinnar við berjamóinn í hrauninu.

Nú mun fólk vera í mikilli spennu og frústrasjón yfir þessum mögulegu breytingum á högum okkar.

En við erum sem sagt hætt við.

Ég ætla að safna hári og hugleiða í sumar og verð alveg bissí í því og húsband mun vinna fyrir okkur á meðan.

Þetta finnst mér mikilvægt að Íslenska þjóðin fái að viti.

Nánari skýringar á málinu fást hér.


Bölvaðir femínistarnir - allt þeim að kenna

Nú er ljóst að presturinn á Selfossi er grunaður um blygðunarsemisbrot.

Það er ágætt að hafa það á hreinu. 

En helvítis femínistarnir eiga hér fulla sök, hvernig fór.  Hvernig stúlkurnar túlkuðu "hlýju og knúsþörf" prestsins.  Það eru nefnilega femínistar sem hafa troðið inn í ungdóminn þeirri firru að bera virðingu fyrir sjálfum sér og láta ekki yfir sig ganga.   Lögmaður prestins er dedd á því að femmunum sé um að kenna.  Sjá hér.

Það má segja að í kvennabaráttu séu allar konur femínistar, samkvæmt þeirri skilgreiningu að vita að réttindi kvenna og karla eru ekki jöfn og vilja leiðrétta það.

Það má því kenna femínistum um margt.  Um að það er til Kvennaathvarf, Stígamót og fleiri samtök sem styðja þolendur ofbeldis.

Hvernig væri að gera fullorðinn karlmann á miðjum aldri, sem er í opinberu starfi, ábyrgan fyrir því sem hann gerir.

Hann segist vera hlýr og opinn.  Gott mál, en á hann ekki að þekkja mörkin?

Væri það ekki karlmannlegra að taka á sig ábyrgð heldur en beina sökinni að  kvennabaráttunni og þá að stúlkunum í leiðinni?

Stundum blöskrar mér svo að ég held og vona að mig sé að dreyma.

En það er ekki svo gott.

Í minni fjölskyldu væri þetta kallað bullandi útlimagleði hjá prestinum og honum bent á að leita sér aðstoðar.

 


Grunur um hórerí

Tvær konur af "erlendu bergi brotnar" voru grunaðar um að stunda vændi á Egilsstöðum um helgina.

Nú spyr ég, hvað er að því að útlenskar eða innlendar konur stundi þá vinnu sem þeim sýnist?

Alþingi samþykkti í fyrravor að vændi væri löglegt, er þá eitthvað að rannsaka hérna?

Eða leynist undir yfirborðinu sú trú eða jafnvel vissa, að vændi sér ekki eins og hver önnur vinna?

Að vændi sé jafnvel niðurlægjandi neyðarúrræði fyrir fátækar konur?

Það skyldi þó aldrei vera.

Alþingismenn ættu að skammast sín fyrir að hafa ekki lagað þessi ólög sem runnu í gegn í skjóli nætur fyrir þinglok í fyrra þegar allur þingheimur var að fara á límingunum vegna komandi kosninga.

Vændi er birtingarmynd ofbeldis á konum í einni af sinni ljótustu myndum.

Og komið ekki með frásögur eða játningar af hamingjusömum hórum í mitt athugasemdakerfi, ég blæs að soleiðis kjaftæði.

Það er til fólk sem elskar að vinna í rotþró, en það er alltaf í míkróskópískum minnihluta.

ARG


mbl.is Grunur um vændi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helvítið hann Franco

Ég elskaði einu sinni Presley, það var þegar ég var 10 ára.  Hann var fyrsta ástin mín og ég keypti stóra litmynd af goðinu í Frímerkjahúsinu í Lækjargötu, þar sem ég verslaði líka servéttur og leikaramyndir sem þá var til siðs að safna.  Presley fór upp á vegg fyrir ofan rúmið mitt.  Ég man eftir að hafa hangið fyrir utan Nýja Bíó og mænt á útstillingarmyndirnar fyrir bíómyndina "Flaming Star" með hetjunni í aðalhlutverki, en ekki gat ég séð viðkomandi mynd því hún var bönnuð innan 12.  Mér fannst það sárt.

Og svo sveik ég Presley, þótt ömmu minni þætti hann góður drengur, því hún hafði lesið í blaði að hann væri svo góður við mömmu sína (hm.. góður, hann var afbrigðilega háður konunni en amma mín vissi það ekki, sem betur fer).  En ég sá myndina "The young ones" í Tónabíó og missti kúlið, féll fyrir Cliff, beint á nefið, keypti af honum mynd og henti Presley með tilþrifum 11 ára ungmeyjar á hormónaflippi.  Amma mín var leið yfir svikulu eðli mínu,  en hana grunaði samt ekki hversu svikul ég átti eftir að verða í karlamálum, enda eins gott, en smátt og smátt tók hún Cliffa í sátt.

Það er svo önnur saga, að Cliffinn fauk fyrir lítið þegar ég varð snortin af Bítla og Stóns maníunni miklu sem reyndar stendur enn í dag.

Ömmu minni leist illa á skiptin, fannst þessir Bítlarþarna ekki mikið fyrir menn að sjá, óklipptir eins og sveitastrákar og eflaust með hávaða og dónaskap á heimili.

Amman mín var ekki kunnug "bad boy syndróminu" sem getur heltekið okkur konur og gert okkur að bjargvættum par exelence.  En það er líka önnur saga, sem seinna verður sögð.

Þegar Cliff söng Congratulation í Júró 1968 og tapaði fyrir Spáni, sem skv. fréttinni mun vera helvítinu honum Franco heitnum að kenna, þá sat ég útúrbítluð og horfði á Cliffann heltekin aulahrolli.

Ég sagði í hljóði við sjálfa mig: Hvernig gat ég nokkurn tíman séð eitthvað spennandi við þennan dansandi hálfvita?

Og enn er ég að velta því fyrir mér.

 


mbl.is Franco stal sigrinum af Cliff Richards
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjónajöfnun Gísla græna

Ef höfuðið á mér gæti snúið sér, eins og hjá stelpunni í Særingarmanninum, þá myndi það vera á öflugum snúningshraða, við að reyna að ná og skilja Borgarstjórann og Co í Reykjavík.

Hvernig er þetta eiginlega, þarf maður túlk á þetta fólk til að ná lágmarksskilningi á hvert það er að fara, hvað það meinar?

Í síðustu viku töluðu þeir tungum, íhaldið annars vegar og Ólafur hinsvegar vegna REI og ég og fleiri vorum eitt spurningarmerki.

Nei, nei,

og núna sá ég Óla í sjónvarpinu um helgina, messa á borgarafundi um skipulag Vatnsmýrarinnar, sem hann taldi búið til að fólki sem hefði ekki skilning á þörfum nútíma samfélags.  Svo sá ég endursýnt viðtal við hann frá því í febrúar þegar hann tók þátt í að samþykkja sama skipulag og þá var hann nokkuð glaðbeittur með málinu.

Nú kemur Gísli Marteinn í fréttir og reynir að tjónajafna yfirlýsingar Borgarstjórans.  Að það ríki einhugur, jájá, allir glaðir saman.  Þessi einhugur sem alltaf er verið að segja frá eftir að einhver hefur misst út úr sér óheppilega hluti, er þá bara prívat.  Hann birtist mér ekki í fjölmiðlum, svo mikið er víst.

Og Borgarstjórinn tjónajafnar líka og kemur með yfirlýsingar um að orð hans séu rangtúlkuð, að hann sé í GRUNDVALLARATRIÐUM sama sinnis og í febrúar.

Ók, ég hlýt að vera skemmd í höfðinu.  Fyrir mér er þetta ekki bara katastrófurugl í meirihluta sem hangir saman á óskinni um að fúnkera en engu öðru, þetta er glundroði.  Algjört mess.

Kannski er þetta merkjamál þeirra í meirihlutanum.  Hvað veit ég sitjandi hér uppi í Gólanhæðum.

En þetta horfir við mér eins og handónýtur samstarfshópur og best væri að þeir segðu af sér og það strax.

Helst vildi ég fá að kjósa aftur.

En ekki hvað?


mbl.is Ólafur segist ekki hafa skipt um skoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr bloggræsinu

Og ég held áfram alkaskrifum af því ég rakst á hann Robert Downing jr. í fréttunum.

Ekki að það sé frétt að hann gleymi aldrei neyslutímanum sínum.  Það er eins gott fyrir okkur alkana að muna hvernig fyrir okkur var komið. En hvað um það, þessi frábæri listamaður virðist í góðum gír.

Suma daga er ég viðkvæm og auðsærð og það flýkur fljótar í mig.

Í dag er svoleiðis dagur. 

Þá daga langar mig að loka á alla athugasemdara sem eru ekki skráðir bloggarar og leyfa sér að hella úr hlandkoppnum sínum yfir kommentakerfið mitt.  Mig langar að fremja eitthvað, þegar mér líður á þennan veginn.  Æðruleysi, æðruleysi.

En svo hugsa ég, okídókí, heimurinn er fullur af vanvitum sem fara með veggjum.  Einn og einn þeirra slæðist stundum inn á síðuna mína og gerir þar þarfir sínar.

Ég get lifað með því vegna þess að svo margir aðrir sem ekki eru skráðir hér á blogginu koma með skemmtilegar og málefnalegar athugasemdir.

Ég hef því opið í nafni málfrelsis og málefnalegrar umræðu. 

En fídusinn sem finnst í stjórnborðinu og gerir manni kleyft að loka á ip-tölur er dásamleg uppfinning.

Ég ráðlegg öllum sem fá leiðinlegar sendingar í formi persónulegs skítkasts frá Pétrum og Pálum að nota þennan möguleika.

Ég er edrú einn dag í einu!

Það er næsta víst.

Go Downey, go.

Úje.


mbl.is Gleymir aldrei ræsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.