Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

Bækur, bækur og aftur bækur

Frétt um bækur.  Gaman, gaman.

Enda föstudagur og ekkert helvítis kreppukjaftæði.

65% aðspurðra í þessari bresku könnun játa að hafa logið til um að hafa lesið bækur sem þeir höfðu svo ekkert lesið, varla séð hvað þá annað.

Ég játa mig seka.  Ég hef logið þessu sama eins og enginn væri morgundagurinn.

En ekki um heimsbókmenntir elskurnar mínar, ónei, ég las "Stríð og Frið", "Lygn streymir Don" og "Fýkur yfir hæðir", strax á unglingsárum.

Varð að vera viðræðuhæf í eðlum gengjum - ójá.

En ég laug til um að hafa lesið margar bækur samt.  Alveg heilu ritraðirnar.

Það voru námsbækurnar sem ég í hyskni minni nennti ekki að lesa.

Enda sumar námsbækur svo leiðinlega skrifaðar að ætla mætti að það væri verið að gera mann fráhverfan lestri fyrir lífstíð.

En ábyrgðin er mín og einhvern veginn þrælaði ég mér í gegnum próf á þess að kunna nokkur eða lítil skil á námsefninu.

Annars er ég að lesa þrjár bækur núna.  Já, ég er fíkill, hvað get ég sagt.

Mæli sérstaklega með "Pappírsfiðrildum" sem var að koma út í kilju ásamt krimmanum "Skot í markið".  

Engin svikinn af þessum tveimur.

pappírsfiðrildi

Pappírsfiðrildi er mögnuð bók.  Fjallar um afdrif kínversks pilts sem lendir í fangabúðum eftir mótmælin á Torgi hins himneska friðar.

Sterk, hrærandi og áhrifarík.

Það er ein besta leið sem ég veit um að loka sig af frá erli og áhyggjum að sökkva sér ofan í góða bók.

"Skotið" er spennandi krimmi sem ég segi ykkur betur frá þegar ég er búin með hana.

Later.


mbl.is 65% ljúga um lestur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líku saman að jafna?

Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands, tók því ekki fagnandi að Írlandi væri líkt við Ísland.

Nei, nei, skil það alveg. 

Við erum ekki ánægð með að Íslandi sé líkt við Zimbabwe en það hefur samt verið gert undanfarna mánuði.

Maður verður bara að láta sig hafa það.

Zimbabwe norðursins höfum við verið kölluð í ræðu og riti.

Sumum íslenskum toppfígúrum í íslenskri stjórnsýslu (við nefnum engin nöfn) hefur verið líkt við Machiavelli  á góðum degi.

Við förum ekkert út í að ræða hvað sömu fígúrur hafa verið kallaðar þegar rignir, blæs, og öllum er kalt á áhyggjusvæðinu.

Látum það eiga sig.


mbl.is Vill ekki að Írlandi sé líkt við Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég kem til dyranna eins og ég er klædd

 crazy_woman

Þegar ég má ekki eða get ekki gert hluti, eins og að þrífa, fara í matvörubúð og svoleiðis leiðindasýslur er ég að kafna úr andlegri framkvæmdasemi.  Mér finnst ég VERÐA að þurrka af, ryksuga, þvo stórþvott og elda rétti sem hæfa konungbornum.

Þannig er því farið með mig núna.

Ég er svo andlega ofvirk að það er að drepa mig einkum og sér í lagi vegna þess að ég er með bullandi hita og beinverki.

Þannig að hér sit ég og líð. 

Hárið á mér er eins og það hafi lent í tætara Kaupþings, Landsbanka og Glitnis.

Ergó: Um hárið lít ég út eins og kona sem hefur fengið raflost.

Ég er í svörtum alltof stórum kjól, eldgömlum og í suðabeisuðum forljótum ullarsokkum.

Augun eru sokkin.

Ég leit ekki svona illa út einu sinni þegar ég var alltaf full.

Og af hverju er ég að blogga um ógeðislúkkið á mér á þessum degi?

Jú ég skal segja ykkur hvers vegna.

Ég lá í múnderingunni og var að lesa Skaparann, þá frábæru bók eftir Guðrúnu Evu, á sófanum eins og aumingi.

Dingdong, dingdong, dyrabjallan hljómaði.

Ok, Katrín vinkona mín komin í kaffi, hugsaði ég og hentist á fætur og stökk að útidyrunum og opnaði þær og gargaði með minni kynhlöðnu röddu; Dújúvonnadansátinðemúlæt um leið og ég tók viltan tribal á þröskuldinum.

Úti stóð ógeðslega huggulegur maður, held ég sko, því ég skoðaði hann ekki mjög náið heldur skellti hurðinni í andlitið á honum.

Hann hringdi ekki aftur.

Ég held að hann sé í jafn miklu sjokki og ég, hann er að minnsta kosti farinn.

Ég veit ekki afturenda hvað hann vildi mér, hann bara fór maðurinn.

Var hann frá Rafmagninu?  Neibb, á ekki von á lokunarmönnum.  Múha.

Var hann frá happdrætti Háskólans?  Varla á ekki miða og hef þar af leiðandi ekki unnið neitt.

Kannski var þetta friggings Votti eða Mormóni.  Fruss.. gott á hann.

Eða var þetta sjálfur keisarinn af Búrúndí?

Ég hallast á þá skoðun.

Að minnsta kosti get ég sagt í dag að ég komi til dyranna eins og ég er klædd og verið að segja satt.

Jibbí og hóst.

Og dansa..... Úje


Andskotans veðurfræðingarnir og lítil bók

Ja hver röndóttur, hugsaði ég áðan þegar ég las þessa frétt um að stormi sé spáð annað kvöld.

Geta nú ekki andskotans veðurfræðingarnir verið starfi sínu vaxnir og haldið þessu jólakortaástandi í veðrinu fram á annan í jólum svona upp á stemminguna, hugsaði ég jafnframt og sparkaði í sófaborðið.

Síðan tvinnaði ég saman nokkrum velvöldum formælingum og sendi út í andrúmsloftið.

Eins og allir vita þá eru það veðurfræðingarnir sem eru ábyrgir fyrir veðrinu og mér finnst þeir ekki standa sig þessa dagana.

En hver er ábyrgur fyrir kveikjaravandamálinu sem ég og fleiri stríðum við?

Ég veit ekki með ykkur en ég er stöðugt í vandræðum með kveikjara.  Þeir týnast eða þeim er stolið.

Nú eða þá að þeir virka ekki á örlagastundu.

Rosalega hlýtur einhver að hafa hagnast á að finna upp einnota (og það í orðsins örgustu)kveikjara.

Alveg eins og sá sem fann upp sogrörið og regnhlífarnar í drykkina.

Allt millar.

-----------------------------------------------------------

En að öðru.

Nýlega barst mér lítil bók sem heitir "Nær en blærinn".

Á bókarkápu stendur m.a.

"Það er von höfundarins að bókin geti að einhverju leyti hjálpað þeim sem eiga um sárt að binda hvort sem viðkomandi býr við skert lífsgæði vegna veikinda eða heilkennis eða er aðstandandi.  Margir takast á við hvort tveggja.  Bókin er einnig skrifuð í þeirri von að hún verði fólki hvatning til að eygja ljósglætu þegar myrkrið hellist tímabundið yfir, það haldi í vonina og ljósið, jafnvel þó leitin og leiðin að sátt við aðstæður sínar geti verið löng og ströng".

Ég tel að þessi bók höfði jafnt til fíkla og aðstandenda.  Það er von í bókinni. 

Nánari upplýsingar má fá með að fara inn á  www.seselia.com

Fín handbók að grípa til þegar syrtir í álin börnin góð.

Svo er að drífa sig í bókabúðina.

Farin að búa til rjómaís.

Falalalalala

 


mbl.is Stormi spáð um landið sunnan- og vestanvert annað kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dimmar rósir, jólatrésskreytingar og bókakaup - allt á sama deginum

Ég fór með Dúu vinkonu minni í jólagjafaleiðangur og kom klyfjuð heim.  Með bækur ofkors.  Það er jólagjöfin í ár hér á kærleiks.

Ég eyddi of miklu en það verður að hafa það.  Ég mun lifa á roði og beinum (lesist hafragraut) alla hina dimmu og jólalausu vetrarmánuði sem framundan eru.

Svo tóku við önnur skemmtilegheit sem var jólatrésskreyting Jennýjar Unu, Jökuls og Ástrósar skádóttur minnar.

Við skemmtum okkur vel hérna stórfjölskyldan mínus María, Robbi og Oliver sem eru fjarri góðu gamni í London en koma um helgina.

Á sunnudaginn fara systkinin Jenný Una og Hrafn Óli til föðurlandsins Svíþjóðar og verða þar fram í janúar með foreldrum sínum.

Búhú.

En talandi um bækur.

dimmar rósir

Ég var að lesa Dimmar Rósir eftir Ólaf Gunnarsson.

Maðurinn er stórkostlegur höfundur og bókin heldur manni föngnum frá fyrstu blaðsíðu.

Mér finnst hann skrifa svo fallega hann Ólafur svo lýsir hann miklum örlögum fólks þannig að maður hrífst með.

Bókin gerist á árunum 1969 til 1971.  Ekki leiðinlegt fyrir mig sem var á sumum atburðum sem koma fyrir í bókinni eins og t.d. Zeppelíntónleikunum í Laugardagshöllinni 1970 og var fyrir marga eitthvað sem alltaf situr eftir sem stórkostleg lífsreynsla.

Dimmar rósir er ein af þeim bókum sem ég á ekki eftir að gleyma og líka ein af þeim sem ég mun lesa aftur og aftur af því orðunum er raðað saman á svo fallegan máta að ég fæ stundum kökk í hálsinn.

Það er milljónprósent skáldskapur.

Þið eruð auðvitað spennt yfir að fá að vita hvort ég mæli með bókinni er það ekki?

Nú notið höfuðið og reynið að finna það út.

Falalalalalala

 


Það má steðja með í bankann

Ég á það til að dreifa tillögum að góðu lífi og líðan í kringum mig eins og karamellum.

Það er af því ég er svo góð - jabb.

Svo hefur það gengið svona og svona hjá sjálfri mér að fara eftir eigin ráðleggingum en hvað með það, ég reyni.

Eitt hef ég staðið við (kannski af því að það er reyndar bara ljúft og skemmtilegt) og það er að gera heiðarlega tilraun til að lesa mig í gegnum kreppuna.

Það gengur ágætlega, takk fyrir að spyrja.

erla

Stundum er tímasetning hlutanna algjört skot í mark.

Bókin hennar Erlu Bolladóttur kemur út á hárréttum tíma, núna þegar traust til yfirvalda er í sögulegu lágmarki. 

Það er skelfilegt að lesa söguna hennar Erlu.  Að heyra um þessa ungu stúlku, ekki á svo góðum stað með sjálfa sig, dragast inn í stærsta sakamál síðustu aldar. 

Geirfinns- og Guðmundarmálin eru klúður frá upphafi til enda.

Nokkur ungmenni eru tekin og þeim haldið í einangrun mánuðum saman þangað til játning er fengin.

Hvað Erlu varðar er hún nýorðin móðir og tekin frá barni sínu og látin í einangrun í Síðumúlafangelsinu.  Mér virðist fyrir það eitt að hafa verið í slæmum félagsskap.  Það er dælt í hana róandi töflum og innan veggja fangelsisins játar hún á endanum hvað sem er til að sleppa.

Skortur á getu rannsóknaraðila til að vinna vinnuna sína er auðvitað hneyksli.

Stór hópur saklauss fólks er dreginn miskunarlaust inn í málið, lokað inni og farið með það eins og ég tel að gert hafi verið í Kommarússlandi.

Ég held að þessi bók ætti að vera skyldulesning.  Ég stóð mig að því að lesa bókina eins og spennusögu, en því miður þá fjallar hún um líf lifandi manneskju.

Ætli þessi spilling í íslensku kerfi hafi alltaf verið til staðar?

En bókin er líka jákvæð.  Erla hefur tekist á við líf sitt og unnið bug á þeim erfiðleikum sem hún hefur staðið frammi fyrir.  Það er nefnilega alltaf von.

ofsi

Svo er það Einar Kárason, einn af okkar allrabestu skáldum.

Ofsi er stórkostleg bók.  Hvað get ég sagt?  Maðurinn er snillingur - villingur á fjaðurpennann.

Bókin er nokkurs konar framhald Óvinafagnaðar.

Ég er þess ekki umkomin að lýsa þessari sögulegu skáldsögu svo gagn geri en hún fjallar um aðdragandann að einu mesta níðingsverki Íslandssögunnar, Flugumýrarbardaga.

Ég ætla að halda áfram að blogga um bækurnar sem ég er að lesa, hef lesið og mun lesa, alveg eins og enginn sé morgundagurinn.

Það börnin góð, getið þið steðjað með í bankann.

Nördinn.


Svo margir menn - bara tíu fingur að telja á

 syngjandi

Ég varð alveg stórhneyksluð þegar ég sá niðurstöðuna úr þessari merku rannsókn sem sýnir að tæpur helmingur allra karla og  þriðjungur allra kvenna hefur logið til um hvað þeir hafa lesið í þeim tilgangi einum að vekja hrifningu vina eða mögulegra maka.

Ég alveg gapti. Hvað er að fólki?  Er sumum manneskjum ekkert heilagt?  Ha?

Æi svo mundi ég að þessi ósköp hafa hent mig.

Merkilegt eins og ég hef alltaf verið heiðarleg í samskiptum við hitt kynið.  Jebb. (Dúa þegiðu).

Ég var auðvitað ung og töluvert mikið barn, annars hefði ég ekki framið svona svíðingsverk. 

Unglingsárin kölluðu á grimmilegar aðgerðir í hamslausri leit minni að maka. Jebb - satt.

Ég var skotin í hippastrák og nei hann var enginn íslenskur helgarhippi sem vann í Plastprenti eða Hampiðjunni á virkum dögum, hann var danskur kallaði sig Nelly, hafði aldrei unnið handtak og það hringlaði í honum út af öllum bjöllunum sem héngu um hálsinn á honum.

Ég sagði: Nelly, auðvitað hef ég lesið "The Mushroom and the Holy Cross", hvað heldur þú drengur þegar hann spurði mig.

(Bók þessi er jafnleiðinlegast rugl á prenti sem ég hef enn rekist á.)

Þetta samtal fór auðvitað fram á dönsku þar sem við vorum stödd á Karusellen í Kongens Köb og ég ætlaði að koma drengnum í rúmið hvað sem öllum sveppum leið.

Í annað skipti tók ég til örþrifaráða og laug að einum af mínum fjölmörgu eiginmönnum (sem líka var hippadjöfull) og ég gerði það til að ná að hala hann inn og innsigla bráðina.  Hviss bang.

Biblía þessa manns var Jónatan Livingstone Máfur og eftir að hafa reynt að lesa hana nokkrum sinnum hvar ég festist í myndunum af þessu gargandi villidýri og heimspekingi í fuglslíki vegna þess að myndirnar voru ögn þolanlegri en hundleiðinlegur textinn, sá ég mér þann kost vænstan að ljúga upp á mig lestri á bókinni.

Maðurinn féll beint á hnén og bað mín með snarasta.

Úff - ég alveg bráðnaði niður í tær, eða var það þegar næsti eiginmaður bað mín?  Man það ekki.  Svo margir menn - bara tíu fingur að telja á.  Jebb.

Síðan hef ég ekki logið mig inn á karlmenn.  Ók, ók, ók, ekki alvarlega að minnsta kosti.

Já líf mitt er svo sannarlega efni í sögubók.

Spennandi og brjálað og aldrei leiðinlegt.  Ansi blóðugt en aldrei leiðinlegt.  Stundum óprenthæft en aldrei leiðinlegt. 

Farin að þurrka af - helvíti leiðinlegt.

Pís.

Falalalalalala

 


mbl.is Logið til að heilla náungann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bak við byrgða glugga

velkomin 

Miðað við hversu heimilisofbeldi er útbreitt vandamál og þá er ég að meina í hinum vestræna heimi, þá rata ekki margar sögur um það á bók.

Kannski vegna þess að umfangið er stórt og úrræðin fá, fólk vill ekki setja sig of mikið inn í þessi skelfilegu mál þar sem lífi kvenna og barna er ógnað.

Stundum les maður þó um þessi ofbeldismál sem framin eru í skjóli friðhelgi heimilanna en því miður allt of oft að þolandanum gengnum.

Sri Rahmawati fluttist til Íslands frá Indonesíu í leit að betra lífi. 

Hún var vinnusöm, dugleg og henni gekk vel að aðlagast og hún hafði fengið börnin sín tvö til landsins.

Sri lifði í heljargreipum ofbeldismanns, barnsföður síns og þeim harmleik lauk með því að hann myrti hana og dysjaði líkið á ruslahaug ekki langt frá Álverinu í Straumsvík.

Það er skelfilegt að lesa lýsingu lögreglunnar á þessum manni sem svipti Sri lífinu og gerði börnin hennar móðurlaus.

Honum virtist standa á sama, hann sýndi enga iðrun.

Þessi bók er ekki par hugguleg lesning en hún opnar augu manns fyrir þeim skelfilega raunveruleika sem felst í heimilisofbeldi þar sem fáar leiðir virðast færar fyrir þolandann og í þessu tilfelli endar málið á versta veg.

Með morði.

Ragnhildur Sverrisdóttir skrifar bókina "Velkomin til Íslands" og hafi hún þakkir fyrir.


Snillingurinn - villingurinn - vinkona mín

jónubók

Hún er vinkona mín.  Hún er falleg, hlý, gefandi, klár, skemmtileg og með svartan húmor sem fær mig til að gráta úr hlátri.

Hún heitir Jóna Ágústa Gísladóttir og hún var að skrifa bók.

Flestir sem þekkja til bloggheima þekkja til Jónu.  Þeir þekkja þann Einhverfa, Gelgjuna, Unglinginn og Bretann ásamt Litla Rasistanum sem hefur verið skýrð Lafðin í bókinni. 

Bókin fjallar um þann Einhverfa og fjölskylduna hans séð frá sjónarhóli mömmunnar.

Bókin er eins og bloggið hennar Jónu um sama efni.  Hún fær mann til að hlægja og gráta, stundum samtímis.

Ég vissi lítið um einhverfu áður en ég fór að lesa bloggið um þann Einhverfa.

Ég hafði lesið mér til en það er eins og með svo margt í lífinu það er erfitt að máta það inn í eigin reynsluheim þangað til að það er sett í persónulegt samhengi.

Ég held að þessi bók eigi erindi við alla og það án tillits til hvort þeir þekki til einhverfu eður ei.  Öll þekkjum við til barna með þroskafrávik.  Það er bara mannbætandi að kynna sér þennan heim og í leiðinni gerir það okkur að betra fólki með örlítið meiri skilning og aðeins víðari sjóndeildarhring.

Ég mæli að sjálfsögðu með þessari bók í jólapakkann þið sem enn hafið ekki festið kaup á henni.

Jóna bloggar hér.

Nú fer ég og sef í hausinn á mér.


Í annað skiptið Arnaldur

 myrká

Ég bloggaði um þá stórsnjöllu hugmynd mína um daginn að lesa sig út úr kreppunni.

Það gengur ágætlega hjá mér þakka ykkur kærlega fyrir.

Í gær gleypti ég Arnald Indriðason í einum ljúfum bita.

Ég er ekki ein af þeim sem upptendrast yfir krimmum, en ég skrifa upp á að þeir eru fín dægrastytting og þar kemur Arnaldur sterkur inn.

Ég hef gert mig seka um skammarlegan glæp (úje) en þetta er önnur bókin eftir Arnald sem ég les. (Skömm að þessu, þetta er eins og að hafa fyrst farið í bíó á miðjum aldri eða eitthvað).

Hin var Harðskafi - mér fannst hún fín, hvorki meira né minna.

Myrká hélt mér hins vegar fanginni.  Hún er svo skrambi trúverðug. 

Mér er sagt af fólki sem veit að Myrká sé besta bók Arnaldar til þessa og ég trúi þeim.

Þessi er fín í pakkann.  Spenna, glæpir og flott plott sem ganga upp klikka ekki á jólunum.

Í bók sko, svo er raunveruleikinn allt önnur Ella sem enginn skyldi sitja uppi með á jólunum.

Lesa svo - ein á dag við kreppu, óáran, vondum stjórnvöldum og öðrum óþverra.

Arnaldur þú ert búinn að skrifa þig inn á mig.

Takk fyrir það.

Sjá nánar.


mbl.is Myrká er efst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 2985766

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband