Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

Í alvörunni amma

 jólakrans

Ég er kuldaskræfa.  Segi og skrifa.

Meira að segja lét ég mig hafa það að sitja heima hérna á árum áður þegar kveikt var á jólatrénu á Austurvelli.  Ég sem er svo mikill sökker fyrir jólatrjám.

En manneskjunni er ekki eðlilegt að vera kalt.   Það stríðir gegn öllum lögmálum, ég sver það.

Ég held hins vegar að Jenný Una fari með foreldrum sínum og bróður á þessa uppákomu í dag.

Annars er fyrsti í aðventu og ég á bara eftir að skreyta jólatréð - ég er að fíflast með ykkur.

Ég ákvað í morgun þegar ég var vakin af lítilli stúlku að ég skyldi ekki hugsa, skrifa eða tala um kreppu í dag.

Ég mun standa við það alveg þangað til að það hentar mér ekki lengur.

En aftur að djamminu.

Jenný Una sagði við mig áðan:

Amma: Grýla er ekki til nema í söngbókinni minni.

Ég: Það er alveg rétt hún er sögupersóna.

Jenný Una: Hún étur börn í þykustunni og líka jólakötturinn í útarpinu.

Amman: Já en það er bara í þykjustunni.

Jenný Una: Já ég veita.  En kistur éta mýsir og mýstir éta firrildi í alvörunni amma.

Þar hafið þið það.  Smá dýrafræði í boði Jennýjar Unu.


mbl.is Grýla prýðir Óslóartréð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...og ég gaf frá mér undarlegt dýrahljóð

Nú ætla ég að klæmast smá sjálfri mér til skemmtunar.

Nei, segi svona, hef ekki alveg smekk fyrir því.

Sko, Rachel Johnson hefur hlotið verðlaunin fyrir lélegustu kynlífslýsinguna í bók þetta árið.

Setningin sem gerði útslagið var: „og ég gaf frá mér undarlegt dýrahljóð“. 

Annars man ég eftir nokkrum góðum sem ég hef safnað í hausinn á mér í gegnum árin.

"Þau veinuðu bæði af frygð samtímis svo hljómaði um allt hverfið".

"Húð hennar emjaði af nautn".

"Þau smullu saman með hávaða ofan á rúmið á hótelherberginu".

"Tungur þeirra eltu hvor aðra yfir lendur líkamans langa stund".

Ég dey.

Annars er ég á því að það sé erfitt að skrifa spennandi kynlífslýsingar.

Af hverju spyrð þú dúllan mín?

Sko, ég reyni að útskýra, unaðurinn felst í alvörunni, ekki uppskrúfaðri uppröðun á orðum.

Ég er alki, kommon ekki skoðaði ég sölubæklinga ÁTVR þegar mig langaði í glas.  Hefði ekki dugað við þorstanum mikla sem aldrei varð svalað.

Sama gildir um falleg föt.  Glætan að þú skoðir vörulista til að fullnægja lönguninni.

Ónei, þú steðjar í búð og verslar fyrir þúsundir.

Kynlíf á ekki að lesa um.

Eða...?


mbl.is Verðlaunuð fyrir vonda kynlífslýsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í upphafi skyldi endirinn skoða..

 vetrarsol

..er speki sem mér hefur sjaldnast tekist að tileinka mér þó góð og gegn sé.

Ég hef vaðið áfram í lífinu eins og stórtæk vinnuvél og endað með því að hrapa fram af næstu brún.  Oft að minnsta kosti.

En ég hef auðvitað tileinkað mér þessi sannindi með öfugum formerkjum.  Hvað annað?

Þegar ég les bækur þar sem endirinn skiptir máli þá hef ég oftast þann háttinn á að fljótlega eftir að ég byrja að lesa og er komin með aðalpersónurnar á hreint, hver heitir hvað og svona, þá fer ég í endirinn.

Þetta þykir mörgum hinn argasti öfuguggaháttur og ég virði þá fyrir afstöðuna en gef jafnframt fullkomlegan skít í hana.

Málið er að ég nýt þess að lesa góðan texta og ég nenni ekki að láta óþarfa spennu og áhyggjur af sögupersónunum þvælast fyrir mér.  Ergó: Ég tékka á hver myrðir, elskar, hatar, kyssir,lemur hvern og nýt svo bókarinnar í rólegheitum.

En.. nú tók ég ákvörðun um að gerast ábyrgur lesandi bóka með endi sem skiptir máli.

Ég lagði á mig fjölmargar æðruleysisæfingar og hélt lúkunum á mér föstum um bókina hennar Auðar Jónsdóttur, sem reyndar er einn af mínum uppáhalds höfundum.

Ég sat nokkuð upp með mér og hélt oftsinnis að ég væri búin að sjá í gegnum plottið.  Full sjálfsánægju las ég til enda....

Hm... plottið tók mig gjörsamlega á rúmstokknum.

Hvað get ég sagt?  Ég blogga yfirleitt bara um bækur sem ég hrífst af. 

Það er vegna þess að ég er enginn alvöru bókagagnrýnandi, enda skortir mig allar forsendur til þess. 

Ég er lesandi og ég deili með ykkur skoðun minni á þeim bókum sem mig langar til að þið ljósin mín í himninum fáið hlutdeild í.

Auður er ein af mínum útvöldu. Ég held að hún sé að toppa sjálfan sig með þessari bók.  Lesið Vetrarsól. 

Sjá nánar um bókina.

Ajö!


Alveg einstök kona

 mp

Það hefur bjargað mér í kreppunni að hafa nóg að lesa.

Ég er þannig í sveit sett nú um stundir að ég hef endalaust af tíma.  Það er spurning um andlega heilsu þeirra sem svo er ástatt um að hafa eitthvað til að stytta sér stundir með.

Ég var líka að predika yfir ykkur um daginn, benda á að það væri góð leið að lesa sig í gegnum kreppuna og auðvitað fer ég að mínum góðu ráðum.

Í ár eru tvær kærar vinkonur mínar á bókamarkaði.

Jóna og Magga Pála, eða Margrét Pála Ólafsdóttir til að hafa þetta virðulegt.  Ég er búin að lesa bókina hennar Möggu og ég sver það ég sleppti henni ekki fyrr en ég var búin með hana.

Bókin heitir; "Ég skal vera grýla" og er afskaplega viðeigandi titill á bók um þessa konu get ég sagt ykkur.

Margrét Pála er einstök kona, ekkert venjulegt við hana og hún er svona kona sem hægt er að skrifa um heila bók, gott ef ekki ritröð án þess að manni leiðist.

Þó ég þekki konuna nokkuð vel hafði ég ekki hugmynd um margt það sem á daga hennar hefur drifið.

Nú má fólk hafa skoðanir á Hjallastefnunni með eða á móti, það skiptir ekki máli, en Magga Pála er öllu meira en stefnan sem hún hefur byggt upp og er orðin þekkt víða um heim.

Magga Pála er íslenska baráttukonan sem gerir meira en að muldra ofan í bollann sinn.  Hún lætur verkin tala og hún hefur ekki alltaf verið vinsæl fyrir þennan eiginleika sinn.

Bókin fjallar um sveitastelpuna, mömmuna, eiginkonuna, einstæðu mömmuna, baráttukonuna, ástföngnu konuna, ömmuna og leikskólastjórann.

Magga Pála segir okkur frá baráttunni við brennivínið sem hún svo afgreiddi úr lífi sínu eins og hennar er von og vísa.

Hún segir frá reynslu sinni af hinum ýmsu útistörfum til sjávar og sveita, um landið og miðin.

Óke, farin að fíflast smá, ég ætla að láta ykkur lesa bókina en ekki úrdrátt úr henni hér á minni síðu.

Lesið þessa bók.

Ég mæli með henni.

Svo ætla ég að segja ykkur frá bókinni hennar Jónu vinkonu minnar fljótlega.

Ajö mina vänner, vi ses i kriget.


Ég elska leigumorðingja og HH

 hallgrmur

Ég vaknaði í morgun og var bara nokkuð sæl með mig.

Ég ákvað að skella inn einu bókabloggi fyrir ykkur ormarnir ykkar enda veit ég að þið getið enga bók lesið nema að fá fyrst að heyra hvað mér finnst um viðkomandi rit.  Jeræt.

En á gamans, skellum okkur beint í gamanið.

Ég elska Hallgrím Helgason!

Sko bækurnar hans.

Maðurinn er svo mikill snillingur með lyklaborð og orð þannig að ég verð sjaldnast fyrir vonbrigðum.

Nýja bókin hans "10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp" er snilldin ein.

Hún fjallar um króatískan leigumorðingja sem kemur til Íslands frá Ameríku og til að gera langa sögu stutta þá er hann hér og kemst hvergi.

Er hægt að láta sér þykja vænt um samviskulausan leigumorðingja?

Já klárlega ef það er Hallgrímur Helgason sem býr hann til.

Þessi raðmorðingi er dúllurass og sjarmatröll og ég var í kasti á meðan ég las.

Þið munuð kynnast konunni Gunholder, fara í Cop War og á fleiri spennandi staði.

Og nú segi ég ekki meir.

Ég mæli algjörlega 100% með þessari bók.  Hallgrímur er einn af mínum uppáhalds rithöfundum.

En nú er ég að fara að gæta hans Hrafns Óla a.k.a. Lilleman.

Gerið ekkert af ykkur á meðan.

Úje


Gleði mín og sorgir

 ffa

Í dag hef ég verið sullandi glöð.

Það er vegna þess að ég er að lesa bókina um hana Möggu Pálu vinkonu mína. 

Það gleður mig.

Ég hitti skemmtilegt fólk í dag.

Það gladdi mig.

Svo kom minn heittelskaði heim úr matvörubúðinni og upp úr pokanum tók ég líter af mjólk og hann var jólaskreyttur. 

Ég nánast fríkaði ég út af gleði.

Svo einföld sál hún Jenný, gleðst yfir litlu.

Svo kom ein helvítis klósetthreinsiauglýsingin enn á milli frétta og Kastljóss..

og það rændi gleði minni og sorgin tók yfir.

Eða klígjan ef ég á að vera hreinskilin - en sorg er flottara orð á prenti.

En ég var snögg að jafna mig því eins og ég sagði áður þá er ég einföld sál.

Núna hjala ég við sjálfa mig svona líka urrandi glöð.

Þið ráðið hvort þið trúið mér.

En ég hef fullan hug á að stefna hreinlætisvöruframleiðendum sem sýna ógeðsleg klósett í nærmynd.

Djöfuls pervertar.

Ojabjakk en annars góð bara.


..og yfir í alkóhólisma

 asf

Ég hef áður bloggað um nýútkomnu bókina hans Orra Harðar, Alkasamfélagið.

Orra finnst skorta möguleika á úrræðum eftir áfengismeðferð.

Hann gagnrýnir harðlega AA-samtökin og setur stórt spurningamerki við trúarlegan þátt í áfengislækningum dagsins í dag.

Ég er ein af þeim sem vill ekki blanda guði almáttugum inn í mitt bataferli.  Bara alls ekki.

Ég get heldur ekki tekið undir frasann "bati hvers og eins er undir einingu leynisamtakanna kominn".  Reyndar finnst mér fleiri frasar sem ganga ljósum logum um alkasamfélagið algjörlega glórulaus vitleysa.

Velferð þín er undir agerðum ríkistjórnarinnar komin.  Halló, þá væri ég dauð, ég skal segja ykkur það.

Minn bati er að stærstum hluta undir sjálfum mér kominn, ekki guði, ekki yfirnáttúrulegum kraftaverkum, ekki undirkastelsi og uppgjöf.

Að láta bata minn í hendurnar á einhverjum óskilgreindum æðri mætti gerir mig skelfingu lostna. Hvað ef hann er ekki til, hvað ef honum er slétt sama um mig vesalinginn, hvað ef hann er sömu skoðunar og ég og finnst að það sé lágmarkskrafa að ég noti heilabúið sem hann útdeildi mér?

Við erum ólíkar manneskjurnar.  Við alkar erum ólíkir innbyrðis alveg eins og sykursjúkir eru það.

Innan alkasamfélagsins eru uppi alls kyns skoðanir á hvað sé best að gera til að viðhalda bata.

Fyrir mér er það að taka ábyrgð á sjálfri mér, reyna að gera betur og átta mig á hvar veikleikar mínir liggja, hvað ég þurfi að forðast og þ.u.l. og leita mér síðan hjálpar hjá fagmönnum eins og læknum og geðlæknum eftir því sem þörf er á.

Sumir fara AA-leiðina og það er bara frábært mín vegna.  Ég hef farið hana líka.

En þegar trúarbrögðum er blandað inn í bataferlið gerir það umræðuna erfiðari.  Það er eins og maður sé að ráðast á Krist á krossinum.

Vond blanda.

Á meðan ekki hefur verið fundið lækning við alkóhólisma á maður að halda áfram að spyrja, velta fyrir sér og rökræða.

Eitt hentar þér, mér eitthvað annað.

Bókin hans Orra er innlegg í þessa umræðu.

Fróðleg bókagagnrýni á Alkasamfélagið á DV.  Lesið.

Ræðum saman.

P.s. eins og sjá má af mynd af bókarkápu þá er Orri með hvítbókina í ár.

Ekki lélegt hjá þessum frábæra stílista.

 

 


Frasamaskínan Jenný Anna

 borðabiðjaelska

Smá ladídadída færsla til að hvíla okkur á pólitíkinni.

Ég er að lesa frábæra bók.  Hún heitir "borða, biðja, elska" og algjörlega það sem mig vantaði inn í hálf ömurlegan hvunndaginn.

Bókin er um konu sem heldur í ferðalag til þriggja landa, Ítalíu, Indlands og Indónesíu eftir erfiðan skilnað.

Þessi koma er manneskja sem ég sé nánast allar vinkonur mínar í.

Fyndin, hlý, töff, gefandi, forvitin, full sjálfíroníu og til alls vís. 

Hef ég sagt ykkur að ég elska vinkonur mínar?

Lesið hana.  Algjörlega frábær bók fyrir alla sem hafa gaman af að ferðast í  huganum.

En að öðru en ekki svo allt öðru.

Ég var að taka til í bókaskápunum áðan, eða réttara sagt að reyna það.  Ég festist nefnilega í þessari bókinni eða hinni og þetta gekk nokkuð seint hjá mér.

Ég hef ekki pláss fyrir fleiri bókahillur að sinni og því var ég að reyna að rýma fyrir nýjum.

Mér fannst ég samt engri bók geta pakkað niður, fannst ég þurfa að hafa hverja einustu eina innan seilingar.

Þangað til ég byrjaði að rekast á sjálfshjálparbækur.  Já, ég var einu sinni svo illa haldin að ég eignaðist nokkrar.  Merkilegt hvað margir hafa gaukað að mér slíkum í gegnum tíðina. 

Var verið að segja mér eitthvað?

Ég þoli ekki selvfölgligheter á prenti, né heldur á hraðbergi beint í viðkvæm hlustunarfærin.

Sjálfshjálparbækur eru frábær leið til að ná sér í skjótfenga peninga og fórnarlömb þessara höfunda eru að mestu leyti konur.

Lifðu lífinu lifandi!  Já sniðugt, prufa það.  Það er ef ég get risið upp frá dauðum.  Fíbbl. 

Elskaðu sjálfan þig! Já er það sniðugt, ég sem elska bara blóm og runna.  Prufa það.

Konur sem elska of mikið! Vá ef einhverri bók hefur verið ofaukið á markaði þá er það þessi.  Fleiri hundruð blaðsíður um einfalda almenna skynsemi sem er; Ekki gleypa fólk og líma þig á það eins og frímerki, það lætur þér (og því) líða illa. Getur endað með ofbeldi. Skilaboðin eru einföld: Þú situr uppi með sjálfa þig, dílaðu við það.

Svo eru það öll gullkornin sem fólk hefur stöðugt á hraðbergi.  Svona hægara sagt en gert frasa þegar maður er leiður og sár.

Það birtir upp um síðir!  Erfiðleikar herða þig!  Þakkaðu guði fyrir erfiðleikana, þeir eru þroskandi!

Og tilvitnanirnar maður minn. Þar er Einar Ben algjörlega misnotaður endalaust og botnlaust.

Ef maður opnar muninn til að segja skoðun sína á mönnum eða málefnum þá kemur "aðgát skal höfð í nærveru sálar" fljúgandi og gefur manni á kjaftinn.

Aumingja Einar Ben, hvers á hann að gjalda.

Það er reyndar vitnað í Einar Ben í annarri hvorri bloggfærslu.  Jájá, maðurinn er hittari.  Seint en samt.

Ég set gullkorn, frasa og sjálfshjálparrit í tætarann.

Þ.e. myndi gera það ef ég væri ekki búin að lána hann niður í sóandsó ráðuneyti.

Og sjá það myndaðist pláss í mínum bókaskápum.

Ekki leiðinlegt.

Lífið er dásemd á milli sorgarþátta.

Lifið lífinu lifandi og ekki segja ljótt.

Munið að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Frasamaskínan Jenný Anna


Afsagnir og axlanotkun 101

Bjarni Harðarson brýtur blað með afsögn sinni í morgun.

Almenningur hefur krafist breyttra tíma og nýrra vinnubragða stjórnmálamanna.

Mér finnst Bjarni Harðarson svara því kalli og hreinskilningslega þá finnst mér að einhverjir aðrir hefðu átt að sjá sæng sína útbreidda og það fyrir löngu.

Margir með öllu svartari "afrekaskrá" en Bjarni Harðarson.

Bjarni telur að honum hafi orðið á alvarleg mistök og hann tekur ábyrgð í samræmi við það.

Ég kann ekki að dæma um hversu alvarleg mistök Bjarna voru en ég þori að hengja mig upp á að svona leynisendingar til fjölmiðla ásamt öðru baktjaldamakki hefur verið ástundað af mörgum stjórnmálamanninum og það um langa hríð.  Það hefur einfaldlega ekki komist upp um þá.

En Bjarni Harðarson gefur línuna hérna og ég er þakklát fyrir það.

Málið er að hann hefur siðferðiskennd.   Eitthvað sem mörgum í ríkisstjórninni ásamt sumum Seðlabankastjórum og auðmönnum greinilega skortir.

Mér finnst að Bjarni gæti haldið fyrir þá námskeið.

Afsagnir og axlanotkun 101.

Kominn tími til að stjórnarherrarnir fái vitneskju um til hvers axlirnar á þeim voru skapaðar.

Takk Bjarni, þú ert búinn að setja tóninn.

Arg.


mbl.is Guðni: Bjarni axlar ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jess á markaði

Ég er algjörlega sammála menntamálaráðherra um að allt varðandi bankana verði að koma upp á yfirborðið.

Henni er auðvitað málið skylt þar sem hún tengist persónulega Kaupþingi og vill auðvitað vera hafin yfir allan vafa og ég skil það vel.

Mér finnst bara almennt og yfirleitt að almenningur verði að fara að fá óhroðann á borðið og að tekið verði á allri spillingunni sem virðist hafa grasserað bæði í bönkum og annarsstaðar.

Við getum tekið því, það er óvissan og margföldu skilaboðin sem eru að fara með okkur.

En.. svona í förbifarten..

hafið þið tekið eftir því að "útrásarspekingarnir" arkitektar bankahrunsins eru eilíflega að tjá sig í fjölmiðlum?  Ég meina sem ráðgjafandi aðilar.

Þeir taka alveg þennan kall: Menn þurfa að átta sig á.  Menn þurfa að gera sér ljóst.  Menn verða bregðast við sí eða svo.

Björgólfur Thor Forbes, Hannes Útflytjandi Smárason og fleiri af þessum köllum eru alltaf að ráðleggja.

Er það ekki svolítið merki um að við erum afskaplega firrt þjóð?

Eru ekki einhverjir betur til ráðgjafar í efnahagsmálum fallnir en þessir menn?

Mar spyr sig.

Úje og ég held áfram að lesa af því ég er að bíða eftir vinkonu minni sem ætlaði að koma upp úr tólf.

Ég held að hún sé búin að týna úrinu sínu þessi elska.  Nei, nei, hún er bara bissí í vinnunni.

Búið í bili.

Jess á markaði.


mbl.is Óþolandi að líða fyrir tortryggni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 2985870

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.