Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

VG Á DÚNDRANDI SIGLINGU Í NV

897

Rosalega er gaman að vera vinstri græn þessa dagana.  Allt bendir til, í skoðanakönnunum, að VG stefni í stórsigur í vor. 

Í kvöld var birt ný skoðanakönnun í Íslandi í dag fyrir norðvestur kjördæmi.  Skv. henni bæta VG við sig 12% fylgi frá síðustu kosningum.  Fylgið hrynur af Framsókn og Sjálfstðismenn halda sínu rétt naumlega.  Skv. sömu könnun myndi Frjálslyndi flokkurinn missa mann.

Skoðanakannanir eru að sjálfsögðu ekki kosningaúrslit en hvað VG varðar þá leiðir hver könnunin á eftir annari í ljós að við erum á dúndur blasti.  VG er eini yfirlýsti kvenfrelsisflokkurinn og í sömu könnun kemur í ljós að konur sem ætla að kjósa VG og SF eru 10% fleiri en karlar sem kjósa sömu flokka.  

Velgengni vinstri grænna hefur kallað á töluverð sárindi frá sumum flokkum, aðallega Framsókn og er allt týnt til.  Það væri sniðugt að þetta fólk sem stöðugt tuðar um hvað andstæðingarnir séu slæmir, myndi snúa sér að málefnavinnu í eigin ranni og reyna að koma henni út til kjósenda. Las á bloggi Dúu Dásamlegu að hún kallar eftir þessu sama, þe upplýsingum um málefni sem flokkar ætla að leggja áherslu á nú fyrir kosningar.

 

Adjö

 


ÞEGAR SÓLIN SKÍN..

blogge

..þá vaknar allt til lífsins.  Sem er auðvitað hið besta mál.  Í dag fór ég í hreingerningarham og þreif allt sem varð á vegi mínum.  Þar að auki þvoði ég þvott og er enn að.  Mamma hringdi í mig og hún er að strauja út á svölum!! Ég var ekki hissa á að hún væri út á svölum en að straujaFrown gerir einhver það ennþá?  Ég er þá að meina fyrir utan þær flíkur sem maður er að skella sér í og hafa krumpast í þvotti.  Mamma mín straujar diskaþurrkur, sokka, handklæði, rúmföt og allt þar á milli.  Hún gerir það af mikilli samviskusemi og hún hefur trúað mér fyrir því að hún sakni "þvottadagana" þegar hún fór í þvottahús að morgni og kom upp að kvöldi.  Þá var búið að leggja í bleyti þvo í relluvél, skola, þurrka og hengja á snúrur.  Manneskjan er með undarlegan smekk stundum.  Ég get svarið það.

Ég sá ryk allsstaðar hér í dag.  Mikið rosalega verður allt sýnilegt í sólinni. Það var þétt ryklag yfir öllu og gluggarnir í stofunni munstraðir með lófaförum eftir Jennslubarnsins. Ég elska hana ofar öllu þessa stelpu en lófaförin á glugganum eru "túmöts" eða þannig.

Nú dríf ég mig í þvottahúsið og verð þar í 10 mínútur.  Guði sé lof að þeir tímar eru liðnir að maður þurfi að taka með sér nesti í þvottahúsið.


700 MIÐAR Á MÍNÚTU!!!

Merkilega hröð handtök hjá sölumönnum á Josh Groban tónleikana.  Væri ekki hægt að fá þetta fólk til að telja upp úr kjörkössunum þann 12. maí?
mbl.is 700 miðar seldust á innan við mínútu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GULLMOLI DAGSINS

1s

Gullmola dagsins hlýtur Ingvi Hrafn sem á bloggi sínu afhjúpar enn einu sinni viðhorf sitt til kvenna. 

Hrafninn skrifar:

"Líklega er rétt hjá mér, að konur sem í stórum hópum segjast ætla að kjósa VG séu að skrökva. Konur í eðli sínu velja sér þá sem þær telja að geti skaffað.  Allir vita að Vinstri grænir geta ekkert skaffað, kunna engin úrræði til að skaffa og boða stefnu, sem yrði hreint afturhvarf til atvinnuleysis og hnignunar."

Ingvi Hrafn hefur eins og ég hef áður bent á, gífurlega þekkingu á hugsanahætti kvenna og virðing hans fyrir konum er aðdáunarverð.  Hann hlýtur gullmolann fyrir að viðra þessi viðhorf sem sumir karlmenn hafa en þora ekki að láta í ljósi.  Hreinskilni er dyggð.  Takk fyrir að kippa okkur reglulega til baka til nítjándu aldarinnar.

Hvernig konur þekkir maðurinn annars?


AÐ KOMA SAMAN FÓLKI

7j

Góð vinkona mín sem var að ræða um það við mig nýlega að hún væri til í að fara í samband eftir nokkra ára piparstúlkulíferni.  Hún spurði mig í bríaríi hvort ég þekkti einhvern liggilegan (nei hún sagði reyndar almennilegan mann).  Ég fíflið sagði samstundis já, ég þekkti einn, töluvert eldri en hún, töff náungi, firna góður maður og blablabla. Eftirfarandi samtal átti sér stað:

Vinkona: (vk) Hvernig lítur hann út, ég meina er hann stór, lítill, mjór, feitur, sköllóttur eða hvað?

Ég fíflið (éf) Hann er meðalstór, í meðalholdum með fallegt hár og mjög laglegur.

vk: Drekkur hann eða er hann með einhverja fíknisjúkdóma (systir Þórarins Tyrfingssonar??)

éf: Nei en hann fór í meðferð fyrir 10 árum.

vk: Sjitt sem sagt fanatískur vínleysismaður. Allt einhver fíbbl sem þú þekkir. Hvað gerir hann?

éf: Hann er tónlistarmaður og hefur verið síðan ég man eftir er það ekki nógu gott? (allt í einu er ég farin að selja henni þennan mann sem er blásaklaus og hefur kannski ekki minnstu löngun til að fara á séns)

vk. Á hann börn eða margar fyrrverandi hvernig er hann í rúminu og er hann nískur, er hann nokkuð í fjárhagskröggum???

éf: Eitt barn fullorðið, ein fyrrverandi eiginkona, veit ekki, veit ekki og veit ekki (stend mig að því að vera farin að pára niður á blað svo ég geti spurt manninn þessara spurninga. Omg ég get ekki spurt manninn að því hvernig hann er í rúminu)

vk: Er hann góður við börn, á hann íbúð, er mamma hans á lífi en pabbi hans og hvað á hann mörg systkini og skrifar hann og talar almennilega íslensku?

éf: Heyrðu ætlarðu að giftast honum, skrifa um hann grein eða ráða hann í viðgerðir á húsinu.? Égnennesseggi. Bæjó

Síðan er vinkonan búin að fara og taka manninn út.  Hún byrjaði á að "gúggla" hann, hringja svo í hann, skoða íbúðina og er núna komin með hann upp á arminn.  Ég fer hjá mér þegar þau koma í kaffi, er með einhverja sektarkennd og finnst að þessi vinur minn hafi verið tekinn á sænginni og hann ætti að vita um rannsóknarvinnuna sem liggur að baki þessu sakleysislega sambandi sem hann er nú kominn í fyrir einskæra "tilviljun".  Mér líður eins og ómerkilegri stefnumótalínu.

7h


UNGAR FLORENSUR Á VAKT

52

Stórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hafa sent frá sér ályktun vegna þess að 3ja árs hjúkrunarfræðinemar muni verða á Pravda sem réttlæting á drykkjukeppni sem þar mun fara fram..

Er ekki allt í lagi heima hjá þeim á Pravda?  Í fyrsta lagi eru drykkjukeppnir stórhættulegar og geta haft alvarlegar afleiðingar.  Í öðru lagi þá eru þessar Florensur Næturgalar ekki útskrifaðir húkrunarfræðingar og alls ekki bærar til að hafa heilsufarslegt eftirlit með einu eða neinu.

Er allt að verða vitlaust eða hvað???


mbl.is Hjúkrunarfræðingar fordæma drykkjukeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MINNI KONUR Á...

390

...að nú eru tveir sólarhringar 13 klukkutímar, 7 mínútur og 12 sekúndur þar til Hús-læknir kemur í heimsókn.  Ég minni á þetta vegna þess að ég er svo viss um að vinkonur mínar gleyma vitjuninni (jeræt).  Hús-læknirinn kemur seinna til mín eða uþb. klukkutíma og er þá þrotinn kröftum eftir athyglissjúkar og óhuggandi konur.  Þessa mynd tók ég af þessum eðalkarakter þegar hann kom til okkar mæðgnanna s.l. fimmtudagskvöld og hafði Hrönn þá haldið honum í gíslingu en hún staðhæfir að Húsið sé maðurinn í lífi hennar.  Sjáiði manninn? Hann var illa pirraður og búinn á því ræfillinn.


AÐ ÞRAUKA NÓTTINA

20

Skv. viðhangandi frétt hafa starfsmenn ástralskar hjálparlínu ekki við að svara símtölum frá sjúklingum sem eru að fríka út vegna undarlegrar hegðunar sinnar en þeir eiga það sameiginlegt að nota svefnlyfið Stillnoct en það gengur undir nafninu Stillnox "down under".  Þrátt fyrir að vera fyrrum svefnlyfjaneytandi hef ég ekki reynslu af þessu tiltekna lyfi en það er vinsælt á íslenskum lyfjamarkaði. Ég notaði ekki ósvipað lyf sem heitir Imovane og var markaðssett hér á landi sem algjörlega hættulaust.  Svefnlyf hafa þá ónáttúru að það þarf sífellt meira og meira af þeim til að ná verkun.  Ég notaði svefnlyf alveg þangað til að ég gat ekki meir og var löngu farin að blanda áfengi og róandi töflum saman við.  Það kemur mörgum yfir móðuna miklu. Ég skrifa um það seinna.

KONUR OG SVEFNLYF

Rannsóknir sem gerðar hafa verið aftur og aftur, um allan hinn vestræna heim, sýna að konur fá oftar svefnlyf en karlar.  Getum hefur verið að því leitt að betur sé hlustað á karla en konur þegar mætt er til læknis vegna svefnleysis sem og annara kvilla hinnar vestrænu streitu.  Þetta varð heldur betur sýnilegt þegar Valium (drottning hinna róandi taflna) sem hefur verið kölluð tam. "the little yellow pill" og "mothers little helper" komu á markað að konur fengu "töfralyfið" í ómældu magni.  Karlar voru fremur settir í rannsókn, kvartanir þeirra teknar alvarlega og oftar en ekki fengu þeir bót meina sinna.  Þegar ég var á Vogi á s.l. ári hitti ég ekki ekki marga karlmenn fyrir sem höfðu verið að misnota svefnlyf.  Við vorum fimmtán konur sem vorum með svefnlyfjaofneyslu.  Bæði sem hliðarfíkn með áfengi eða eina og sér!

Hinn vestræni heimur er svo hryllilega lyfjafixeraður.  Oft heyrir maður fólk segja að það hafi lent á ömurlegum lækni sem hafi bara viljað tala við viðkomandi, benda honum á að laga svefn, mataræði og skoða lífstílinn.  Vondur maður læknirinn (hm). Hinn góði læknir er oft í hugum fólks sá sem rífur upp reseptblokkina án þess að líta upp nánast og skrifar út eitthvað namminamm.  Svoleiðis læknar með reseptblokkina á lofti eru konum eins og mér hættulegir.  Ég vel lækninn sem spyr, hlustar og ráðleggur án þess að mæna á lyfjalausnina.  Mög lyf eru með alvarlegar aukaverkanir og geta kostað mann geðheilsuna.  Það er þó alltaf á ábyrgð okkar sjálfra að velja og hafna.


mbl.is Miklar aukaverkanir svefnlyfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

200.000 KONUR

378

Nú hefur Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans beðið afsökunar á að Japanski herinn hafi neytt um 200.000 kvenna til vændis í vændishúsum hersins í síðari heimstyrjöldinni. Hann virðist nú meira hafa stunið út úr sér afsökunarbeiðninni en Abe hafði nýlega látið hafa eftir sér að konurnar hefðu nú tæpast verið neyddar til nokkurs!  Kannast einhver við þessa útskýringu á vændi? Það þarf vart að fara lengra en til gærdagsins til að heyra ámóta röksemdafærslu um konur sem neyðast út í vændi.

Ekkert er nýtt undir sólunni.

Það er ekki ýkja langt síðan að nauðgun fór að teljast til glæpa í stríði.  Að nauðga sigruðum konum þótti eðlilegur bónus en ekki glæpur.

Það er allavega verið að biðjast afsökunar bæði á einu og öðru þessa dagana, víðsvegar um heim.


mbl.is Abe biðst afsökunar í vændiskonumálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GLAÐSINNA OG ÓTRÚVERÐUG

711

Ég er eiginlega hálf eftir mig eftir viðtalið í Kastljósi við lögreglumanninn sem að eigin sögn "lokaði" máli Lindu (Baugalín) þegar hún fór ásamt systur sinni til að kæra kynferðislega misnotkun á þeim báðum.

Mér fannst vont að hann skyldi nefna sem ástæðu fyrir því að gera ekkert með málið hafi verið að hún hafi verið svo glaðsinna!  Hvað merkir það að vera glaðsinna í þessu tilfelli?  Sú staðreynd að kollegi hans var sá ákærði og hann þekkti hann, var ekki ástæða minnti manninn.  En upp úr stendur að þarna hittu þær stöllur fyrir eina af fyrirstöðunum í kerfinu sem fjöldi annara ofbeldisþolenda hafa mætt og hafa haft og geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. 

Mér finnst vont ef fólk persónugerir ákveðna glæpi. Það er auðveldara að benda út um gluggann á þennan manninn og hinn manninn sem gerði börnum mein.  Ókunnugir menn. Við getum verndað börnin okkar fyrir þeim, oftast.  Þess ber þó að gæta að flestir misnotkunarglæpir gegn börnum eru inni á heimilunum, hjá ættingjum barnsins eða öðrum sem eiga að gæta þeirra. Það er nú sári sannleikurinn í málinu.

 En aftur að lögreglumanninum sem stöðvaði kæru Lindu og systur hennar.  Þarna var maður sem var einungis holdtekja viðhorfa sem ríktu á þessum tíma og eru vissulega enn við líði.  Þetta eru viðhorf karlaveldisins. Viðhorf sem konur hafa fengið ærlega að kenna á í gegnum tíðina þegar þær hafa kært heimilisofbeldi á sér eða börnum sínum eða orðið fyrir nauðgun. 

Ég er viss um að með svona umfjöllun eins og hefur verið í Kastljósinu og annars staðar um þessi mál þá eru lóð lögð á vogarskálar barnsins megin.  Kvennanna megin.  Það ber að þakka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 2985743

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.