Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Jóladagsmorgun

 

Ég sit hér með sjálfri mér í algjörri kyrrð og hátíðin í húsinu er nærri því áþreifanleg.

Undirrituð sem er þekkt fyrir að drolla langt fram á nætur var sofnuð um miðnætti í gærkvöldi, var svo þreytt að ég sá ekki út úr augunum.

En ég var afskaplega sæl.

Við áttum yndislegt aðfangadagskvöld í faðmi stórfjölskyldunnar, heima hjá Helgu Björk, frumburði, Jökli elsta barnabarninu og Birni hennar Helgu.

Þar voru líka Jenný Una Eriksdóttir, Hrafn Óli Eriksson, glænýi ásamt foreldrum sínum.

Það vantaði Maysu, Robba og Oliverinn, en þau voru hjá ömmu-Brynju og Þórhalli, enda Oliver einasta barnabarnið þeirra og eitthvað réttlæti verður að vera í skiptingu á góðu fólki.

Matseðill:

Forréttur: Grafin gæs, með bláberjum, villibráðarsósu og heimalöguðu rauðkáli.  Ég nærri andaðist úr unaði. Ég segi nærri því rjúpa hvað, en bara nærri því.

Aðalréttur: Hamborgarhryggur, sænsk jólaskinka með öllu meðlæti sem nöfnum tjáir að nefna.

Eftirréttur: Konfektís, sem enginn hafði pláss fyrir, kaffi og sollis.

Nú, hún dóttir mín er með jólatré sem er álíka að stærð og systir þess á Austurvelli.  Okok, smá ýkjur en það er stórt og fallegt.  Það var samt að drukkna í pökkum, þannig að rétt grillti í það.

Ég fékk, bækur, föt, náttföt, rúmföt og fleira og svo fékk ég.... tammtaratamm, ferð til London í janúar með Helgu Björk.  Í heimsókn til Maysunnar.  Ekki leiðinlegt.  Annars var ég bara klökk yfir öllu þessu jólagjafaflóði, sem og allir hinir líka.  Jökull var svo glaður að hann dansaði um allt. Opnun jólapakka tóm um það bil þrá klukkutíma.  Hehemm.

Jenný Una fékk dúkkuvagninn góða frá ömmusín og Einari og var yfir sig hamingjusöm.  Hún fékk ansi marga pakka.  Þegar mjúkir pakkar komu til opnunar sagði hún: Ég áetta ekki, hann Hrafn Óli má eigaetta.  Hún var afslöppuð gagnvart bróður sínum, tékkaði samt reglulega á honum og spurði foreldra sína hvort hann væri svangur, hvenær ætti að "skitta" á honum og svo sagði hún ömmu sinni að fara varrlea, og ekki fikta í honum því "hann er so lítill".  Ójá.

Hrafn Óli, var 13 merkur og 48 cm.  Hann er dúkka.  Undurfagur lítill drengur og auðvitað svaf hann af sér fyrstu jólin, eins og lög gera ráð fyrir.  Og lyktin af honum er svo góð að ömmunni langaði bara að geyma hann í hálsakoti.  Um leið og foreldrar eru búin að skanna inn myndir af jólabörnunum, leyfi ég ykkur að njóta þeirra með mér.

Nú er það  kalkúnaveisla, á sama stað og í gær, með sama fólki að viðbættum skábörnunum mínum þremur (Ástrósu, Stebba og Einsa), Maysunni, Robba og Oliver.

Það er ekki leiðinlegt að liffffffa á jólunum.

Gleðilegan jóladag elskurnar., hvar sem þið eruð.

Falalalalalalalala


Falleg fyrirsögn

 

Ég get ekki látið þessa þreytulegu fyrirsögn í síðustu færslu, standa þegar jólin ganga í garð.

Ég er beinlínis hrærð yfir öllum fallegu kveðjunum sem hafa borist mér og mínum og ég þakka innilega fyrir þær, frá innstu hjartans rótum.

Jenný Una var að fara heim með pabba sínum til að hitta litla bróður, sem hún segir að geti ekkert talað, sé bara pírípú.  Hún var afskaplega spennt.

Í kvöld verðum við heima hjá Helgu og Jökli og í ár eru allar stelpurnar mínar á landinu.  Það er frábært.

Þvílík gleðijól.

Ég hef ekki komist á allar þær síður sem ég hefði viljað til að senda jólakveðju, tómið er ekki mikið þegar lítil veggja ára (þriggja á sunnudaginn) þarf athygli og umönnun.

Þannig að héðan sendi ég ykkur öllum kæra jólakveðjur, með ósk um frið í hjarta og gleði í sinni.

Þið eigið ekkert minna skilið.

Allir sem heimsækja síðuna mína fá knús- og kremjukveðjur frá mér.

Pís.

P.s. Jón Ívar, Dóra og Ívar Karl.  Hringið endilega um leið og þið hafið tíma.  Afinn er í krúttkasti og ég reyndar líka eftir myndasendingu af ákveðnu barni.Whistling  Símaskráin er í góðu gildi.

 


Þreytt, þreytt og þreytt

Uppáhaldsdagurinn að kvöldi komin og ég sé vart út úr augunum af þreytu.

Ekkert venjulegur dagur, með barnsfæðingu, spennunni sem fylgdi, léttinum, svo vorum við með Jenný Unu sem er orðin stórasystir, Maysan mín, Robbi og Oliver komu í heimsókn  og ofan á allt þetta kviknaði í hjá foreldrum Eriks, hins nýbakaða föður, úti í Svíþjóð.  Það reddaðist þó fyrir horn, en það var verið að kveikja upp í gamalli kamínu til hátíðabrigða og fjandinn varð laus.

Brunabílinn byrjaði á að fara til grannans áður en hann komst á staðinn.  Eldur slökktur og skemmdir í lágmarki en þetta var sem betur fer ekki aðal íbúðarhúsið.  Stundum er gott að eiga fleiri en eitt hús.  Hehemm.

Þetta er sum sé dagur sem lengi verður í minnum hafður.

Hrafn Óli Eriksson er formlega kominn í heiminn.  Já hann heitir Hrafn Óli, það er löngu ákveðið og hér er enginn feluleikjahégómi með nafngiftir hjá henni dóttur minni elskulegri.  Hún segir að allir eigi rétt á nafni og eigi að fá það án tafar.  Ég er sammála.

Ég vona að nágranni minn, hver sem hann er hér í stigagangi lesi ekki bloggið mitt, en ég sendi honum eitraðar hugsanir í kvöld þegar hann sauð þá úldnustu skötu sem sögur fara af.  Ég sem sat sárasaklaus inni á mínu menningarheimili, þegar viðurstyggileg nálylktin smeygði sér að vitum mínum og nærri því, hafði mig undir.

Ég lét mig hafa það af því það eru að koma jól.  En aumingja meltingarfærin í skötuætunum.  Vó hvað þau hljóta að sjokkerast.  Alveg: Í hverju erum við lent?

Hrafn Óli er yndisfagur drengur og alveg nákvæm eftirlíking af systur sinni þegar hún fæddist.

Umrædd systir sefur með jólasængurverið sitt og er svo sæl yfir að jólin séu loksins að koma á morgun.

P.s. mynd af nýbura verður sett inn um jólin.

Falalalalalala og það í alvöru.


Öðruvísi Þorláksmessa - Uppfærsla

 

Þá er þessi uppáhaldsdagur minn á árinu runnin upp.  Jólakveðjurnar í útvarpinu byrja kl. 13,00 og  þær setja jólin beint í hjartað á mér, vegna þess að á þær hef ég hlustað frá því ég var barn, með henni ömmu minni, meðan hún lifði og síðan á eigin vegum.  Ég er ekki til samninga um að breyta út frá þeim vana.

Þetta verður öðruvísi Þorláksmessa.  Það eru allar líkur á því að lítill drengur, bróðir hennar Jennýjar komi í heiminn í dag.

Helga stór frænka og Jökull frændi eru heima að passa Jenný, sem veit ekki að mamma og pabbi eru farin upp á spítala.  Hún kemur hingað til okkar um leið og hún vaknar.

Verkefni dagsins er því að senda Sörunni minni stuðningskveðjur og kveikja jólin í hjartanu hennar Jennýjar Unu, sem verður ekki erfitt, því hún er ávallt glöð í sinni stúlkan sú.

Bónusinn er svo að fá Maysuna mína og Oliver í heimsókn.

Frumburðurinn og Jökull eru ekki langt undan heldur.

Ég er á því að þetta verði nokkuð góð en öðruvísi Þorláksmessa.

Það verður að minnsta kosti engin árans skata hér í matinn fremur en venjulega.

Hefðirnar verður nefnilega að hafa í heiðri.

Nýjar fréttir:  Lítill drengur fæddist kl. 08,27 í morgun, 48 cm og 2, eitthvað kíló.  Nánari upplýsingar koma síðar.  Sá litli er sprækur en mamman var á leið í keisara þegar hann ákvað að láta vaða, "naturale".

Óska sjálfri mér, Jenný Unu og öllum öðrum til hamingju með nýjan fjölskyldumeðlim.

Falalalalalal og úje!!!!!!


Farir mínar missléttar

Ég hef átt, hmmm, hvað skal segja, áhugaverðan dag?  Ég er ekki ein af þeim sem læt tímabundna fötlun á hægra neðri útlim, hefta för mína.  Tókk á mér bölvaða löppina og tróð henni í leðurstígvell og óð af stað í Hagkaup.  Skutlaði húsbandi í pössun og sá til þess að það væri fótbolti í sjónvarpinu handa honum.

Reynum aftur..

Stormaði með minn heittelskaða í Hagkaup í Smáranum, hvar við versluðum eftir miða, en það hefur verið baráttumál hjá manninnum sem ég giftist, til margra ára.  Ég verð að játa að innkaupin gengu betur fyrir vikið.

Röðin við kassann var skemmtileg, nægur tími til að eignast vini fyrir lífstíð, skiptast á uppskriftum, rekja saman ættartré og horfast djúpt í augu.  Þetta hefði verið hin fullkomna biðröð ef ekki hefði verið fyrir næringarskort þeirra sem biðu.

Nú, það sem ég vildi sagt hafa er að ég keypti í fyrsta sinn bók í matvöruverslun.  Það er klám, ég veit það, en maður verður að horfa í aurinn.

Sé ykkur eftir smá, er farin að knúsa Jenný,

Falalalalalalalala


Eyvindur og Halla í tómu tjóni

 

Ég ætla að segja ykkur þetta einu sinni, bara einu sinni og nú skuluð þið hlusta, fjandakornið.

Maður brýst ekki inn í litlu kaffistofuna,með áherslu á LITLU.  Hverslags hugleysingjar eruð þið, ræflarnir ykkar?

Og með hníf og barefli!.  Þetta er nú það aumasta sem ég hef lesið lengi og ekki er það jólalegt.

Litla kaffistofan er heilög.  Hún er svo mikið krútt.

Ekki að ég sé að spæna upp malbikið fyrir framan hana, en þarna hefur hún staðið svo lengi sem ég man og við ætlumst til að hún sé látin í friði.  Kapíss?

Að gera sér ferð út á land, næstum hálfa leið til Hveragerðis til að ráðast á þessa vin í eyðimörkinni verður ekki fyrirgefið fyrr en þið hafið beðið eigandann afsökunar.

En auðvitað náði löggann ykkur, þið þarna nútíma Eyvindur og Halla.  Hallokar bæði tvö.

Skamm og hættið svo að brjóta lögin í jólanna nafni.

Súmí

Litla kaffistofa, ég elska þig dúllan þín.


mbl.is Rán á Litlu kaffistofunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og þá er það Stenna

 

Litla systir mín hún Steinunn Baldursdóttir (Stennhildur Djóns) á afmæli í dag.  Það vill svo skemmtilega til að hún á afmæli 11 dögum á eftir mínum eigins frumburði.

Mér þótti það ekki fyndið, tæplega nítján ára gamalli, að vera ófrísk á sama tíma og mamma mín.  Fannst það fyrir neðan allar hellur.  Ji hvað maður gat verið hallærislegur.  Allt mömmu að kenna fannst mér, ég hins vegar leiddi aldrei hugann að því að ég væri verðandi móðir aaaaaðiens í yngri kantinum.

Nú og svo fór ég á Fæðingarheimilið.  Átti Helgu Björk Laxdal þ. 11. desember, eins lög gerðu ráð fyrir agú, dada og gaman hjá mér. Þá þurftu sængurkonur að liggja í viku, minnir mig, áður en okkur var sleppt heim.

Það upphófst bið.  Ég barnaleg eins og ég var, var í víðtæku rusli yfir að mamma mín kæmi til að eiga á meðan ég lægi á Fæðingarheimilinu.  Ég mátti ekki heyra í sjúkrabíl þá fór ég á límingunum. 

Ég alveg: Hvað á ég að gera ef hún kemur á meðan ég er hér: Alveg: Mamma, amma, systir, afi og allur pakkinn hérna.  Sumir voru nefnilega jafn barnalegir og ungur aldur þeirra sagði til um.

Ég slapp heim, mamma inn og á þessum degi fyrir 37 árum fæddist litla, fallega og góða systir mín hún Steinunn, kennari og mamma hennar Kötlu Bjargar.  Þær frænkurnar Helga og Stenna hafa alltaf verið góðar vinkonur og ekki verra að fólk sé samstíga í barneignum í fjölskyldunni.

Elsku Stenna mín, til hamingju með daginn þinn.

Knús og þúsund kossar frá stóru systur og við sjáumst kátar um jólin.

Falalalalalala


Það er eins gott að horfast í augu við ástandið

..ég er fótlama og það stendur ekki til bóta, alveg á næstunni.  Ég get ekki rétt úr löppinni, hún er bólgin um hnéð og áform mín um jólaklæðnað eru aflögð.

Jólapilsið sem frumburður keypti í Köben, af einum af okkar uppáhaldshönnuðum verður að líkindum ekki notað, því til hvers er að skarta fötum þar sem svartklæddir leggir í hælaháum skóm, leika aðalhlutverkið?

Ónei, margt fer öðru vísi en ætlað er.  Ætli ég birtist ekki við jólatréð á aðfó, íklædd náttserk eða kufli, sem felur mínar fögru fætur.  Svo mun ég staulast áfram, samanbitin af kvölum (okok smá ýkjur), stynja lágt, leggja hönd að enni og segja; Guð minn það sem þú leggur á mig.

En....

Hér kom skádóttir og dóttir og þrifu heimili þannig að jólin geta haldið innreið sína bara núna, ef þau vilja.

Annars hef ég þá tilfinningu að akkúrat núna sé jólaklæmaxið að stíga upp í hæstu hæðir.  Þar sem það nær hámarki á Þorláksmessukvöld.

Ég sit hér og blogga við kertaljós og er í jólsveinabúningi, ein heima, en maður verður alltaf að vera rétt klæddur í stíl við tilefnið.

Í þessum skrifuðu orðum er Maysan mín að lenda í Keflavík.

Er farin að lesa eða ekkað.

Falalalalalala


Nú er ég í bobba

 

Hvað gerir maður þegar eitthvað það kemur upp í umræðuna og varðar málefni sem maður styður af öllu hjarta en viðhorf þeirra sem á móti eru, eru skiljanleg líka, að mínu mati?  Best væri að þegja, ekki þarf ég að tjá mig um alla hluti.  En er ég vön að þegja svona yfirhöfuð? Ónei, og það eru nokkuð margir sem myndu vilja fá það í jólagjöf að ég héldi kj... allt næsta ár eða svo.

En..

Jólaóskin (ósk ekki jólakort) þar sem óskin er að karlar hætti að nauðga hefur stuðað marga.

Staðreyndin er sú að það eru langoftast karlar sem nauðga.  Langoftast segi ég því með einverjum örfáum undantetningum sem ég veit ekki um, hafa konur eflaust gert sig seka um glæpinn.

Þannig að það er kórrétt staðhæfing að karlar nauðgi.

Engum dettur í hug, amk. engum með fullu viti, að það sé verið að halda því fram að allir karlar nauðgi.  Það er auðvitað bara túlkun sem sumir kjósa að leggja í textann, en það er svo langt því frá meiningin.

En..

Það eru að koma jól.  Jólin eiga að vera tími vináttu, fyrirgefningar og tillitssemi gagnvart náunganum.  Það er eiginlega nauðsynlegt ef jólafriðurinn á að komast í hjartað.

Þess vegna finnst mér að þessi ósk Askasleikis hefði mátt liggja á milli hluta, ég skil að hún hafi mögulega komið illa við suma.

Vandamálið er sum sé það, að ég skil sjónarmið beggja.

Þarf að vinna í því eftir árámótin.  Læra að sjá allt svart eða hvítt og engin fargins litablæbrigði.  Segi sonna.

En þessu vildi ég koma á framfæri.

Allir vinir á jólunum.

Falalalalalalala


mbl.is Ekki um jólakort að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dem, dem, dem

 

Fimmhundruð fjargvirði og fjúkandi fasanar.

Það er uppselt á Jesús Súperstar fram í janúar.

Jólin ónýt og nýárið líka.

Ég hef ekki séð þetta verk nema sinnum sex í fleiri en einu landi.

Í hvert skipti hefur það verið eins, Jesúsarnir renna saman í eitt. Heródesinn hefur verið flottastur í öllum stykkjunum.  Hann er nefnilega ekki útþynntur sem karakter í verkinu.  Ætli það hafi gleymst í þessum stykkjum sem ég hef séð að gera hann marflatan eins og alla hina?

Jæja, það er ekki hægt að fá allt í þessum heimi. 

Ég lifi það af, kannski ég fari bara og sjái eitthvað sem ég hef ekki séð áður.

En bömmerinn er að mögulega, bara mögulega, er þessi sýning með Krumma í aðalhlutverki, eitthvað bitastæðari en hinar.

Les gagrýnina og tékka svo.

Sounds like a plan?

Úje og falalalalalala

 


mbl.is Uppselt á fyrstu 10 sýningar á Superstar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 2985790

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband