Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Viðkvæmir Íslendingar?

Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég las þessa "frétt" í Mogganum.  Hún er um mikla umræðu á blogginu vegna ummæla hans þarna "hvaðhannnúheitir" (Pablo Francisco) í Blaðinu á þriðjudag.

"Miklar umræður fóru af stað á bloggsvæði mbl.is á þriðjudag vegna ummæla Francisco. Flestir voru ósáttir við ummælin og könnuðust fæstir við að drekka áður en þeir mættu í vinnu."

Ég bloggaði um þetta í fíflagangi, af því mér fannst þetta fyndið og mér gæti ekki staðið meira á sama hvað einhverjum dúdda úti í heimi finnst um drykkjuvenjur Íslendinga.  Ekki það, að þær (venjurnar) séu eitthvað til að hrópa húrra fyrir, þegar þær taka á sig sína verstu mynd.

Auðvitað klæðir fólk mis vel að drekka.  Ég hætti vegna þess að það fór mér illa.  Það eru ábyggilega nokkuð margir sem mættu gera slíkt hið sama, skella sér í meðferð og vera til friðs.  Megin þorri fólks getur hins vegar drukkið sér til ánægju og án þess að leggja allt í rúst í kringum sig, í öllum skilningi þess orð.  Það fólk sést og heyrist sjaldnast, enda ekki með hryðjuverkastarfsemi niðri í bæ.

Annars er það alveg stórmerkilegt hvað við Íslendingar erum enn viðkvæmir fyrir áliti útlendinga á okkur.  Það er merki um lélega sjálfsmynd þegar maður leitar stöðugt álits á sjáflum sér hjá öðru fólki.

Hættum því.

Komasho.


mbl.is Mikil umræða á blogginu eftir ummæli Francisco um drykkjuþol Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við kassann í Hagkaupum ...

 1

..verður maður að geta rætt um örlög kvenpersóna í Íslendingasögunum.  Kveðist á við kassastarfsmanninn, rædd ýmsar flóknar uppskriftir á blóðmör og sýrustig regns í Amazon.  Ef þessar samræður og aðrar álíka geta ekki farið fram við kassann á meðan maður bíður eftir að matvaran renni í gegn, þá er það bara helvíti léleg þjónusta og ekki nokkrum Íslending bjóðandi.

Það er munur núna og fyrir svona fimm árum síðan, þegar maður gat átt djúpar samræður við kassastarfsmennina.  Íslendingar á kössum stórmakaða voru allir sem einn alveg stórkostlega ræðnir og þjónustulundaðir, enda lágmark að þeir séu það, miðað við launin sem tíðkast fyrir þessa vinnu.

Hvað þarf að vera í lagi þannig að maður geti keypt lífsnauðsynjar.

1. Varan þarf að vera til.

2. Þú þarft að eiga fyrir henni.

2. Þú þarft að skilja tölustafina sem koma upp á kassanum og vita hvað TOTAL þýðir.

3. Þú þarft að geta brosað og boðið góðan daginn og þakkað kassadömunni/herranum fyrir þjónustuna.

4.  Allt umfram það er bara bónus og með það geta allir verið glaðir.

Halló, hvað er að.  Er ekki með góðum vilja hægt að horfa framhjá því að fólkið á kössunum er ekki fullnuma í íslenskri tungu?  Er ekki hægt að vera þakklátur fyrir að fólk vill vinna þessa illa launuðu vinnu og Guð skal vita að VR þarf að fara hysja upp um sig í þessum geira. 

Svei mér þá ef góður hluti íslenskrar þjóðar er ekki með rasistatendensa.

Eða??

 


Loksins dómur við hæfi?

Svona miðað við dóma í kynferðisafbrotamálum þá held ég að dómurinn yfir Róberti Árna Hreiðarssyni, sé viðunandi, svona miðað við allt og allt.  Ekki að hann sé svo sem eitthvað til að hrópa húrra fyrir, en m.t.t. þess að refsiramminn er fjögur ár, þá er þetta skaplegt.  Ekki það að mér finnst nóg að gert.

Fyrir utan þann skelfilega glæp, að misnota sér aðstæður ungra stúlkna, til kynferðislegrar misnotkunar, er maðurinn í þeirri aðstöðu að sitja við yfirheyrslur á fórnarlömbum kynferðisofbeldis og auðvitað ætti honum að vera ljós, alvarleiki þeirra mála, fyrir nú utan siðleysið sem felst í því að vera inni í Barnahúsi svona yfirleitt.

Nú hefur Róbert Árni verið sviptur réttindum sínum sem héraðsdómslögmaður og það er gott.  Svo er spurning hvort hann áfrýjar til Hæstaréttar og hvað þar gerist svo.

Mikið skelfing mun ég fylgjast vel með því ef af verður.

Mér þætti gaman að vita hvers vegna ekki er hægt að tengja á þessa frétt í Mogganum.  Það er ekki eins og einhver hafi látist af slysförum.  Eru þeir hræddir um að við brjálaðir dómarar götunnar Lúkasiserum málið? 

Hvað veit ég.

 


Halló Renée

 

Hæ gamla,

Þar sem ég efast ekki eitt andartak um að þú ert dyggur lesandi Moggabloggs, þá vil ég láta þig vita að ég er til, finnst þú ógisla góð leikkona og ferlega sæt.  Ég vona líka að þú krækir í bítilinn Pál og bara allt gangi upp hjá þér sem þú tekur þér fyrir hendur.

Ég er haldinn sjúkdómi.  Hann heitir Imöldumarkossyndromikus og gerir það að verkum að ég er brjáluð í skó.  Vegna bágra efna hef ég þurft að hlaupa um nánast BERFÆTT í sumar og ef einhver reynir að segja þér að ég eigi fleiri TUGI skópara, þá er sá hinn sami að ljúga.

Ég var að velta því fyrir mér hvort þú gætir ekki komið með mér í skódeildina í Saks og gefið mér nokkur pör af háhælum fyrir veturinn.  Ég get ekki verið þekkt fyrir að skarta hvítu tréklossunum, með netamynstrinu, sem ég keypti í Gautaborg anno 1984, þegar jólin ganga í garð.

Ég myndi alveg gera mig ánægða með tvenn til þrenn pör.

Hvað segirðu um það vúman?

Láttu þitt fólk tala við sóandsó sem mun þá tala við mína sóandsó.

Yours sincerely,

Imalda II


mbl.is Skóálfurinn Renée Zellweger
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morðingjar!

Ég tek Lúkasinn á þetta, ég sver það.  Ég verð svo reið þegar ég les um yfirvegaðan og einbeittan morðvilja ákveðinna ríkja í USA.  Yfirvöld í Texas myrtu mann í nótt með banvænni sprautu og þeir voru ekki á því að fresta aftökunni, þrátt fyrir ákvörðun Hæstaréttar Bandaríkjanna, að rannsaka hvort aftökur með banvænni sprautu brjóti gegn stjórnarskrá.

"Þegar bannvænni sprautu er beitt við dauðarefsingar eru þrjár tegundir lyfja gefnar. Eitt sem róar fangann, annað sem lamar hann og það þriðja stöðvar starfsemi hjartans. Hins vegar eru ekki til neinar formlegar reglur um hversu mikið magn af hverju lyfi er notað og oft eru það ekki heilbrigðissérfræðingar sem sjá um efnasamsetninguna. Rannsóknir á aftökum hafa sýnt að í einhverjum tilvikum er dauðdaginn hægur og afar kvalafullur, samkvæmt frétt AP fréttastofunnar."

Samkvæmt ofangreindu, geta "rétttrúaðir" böðlar ríkisins, föndrað með lyfjasamsetninguna og látið fólk deyja kvalafullum dauðdaga.

Mér er fyrirmunað að skilja, hvers vegna, upplýst fólk er fylgjandi dauðarefsingu.  Það stangast á við alla góða siðfræði.  Ef einhver gæti útskýrt fyrir mér, hvaðan leyfið til að taka líf annarar manneskju kemur, þá þigg ég gjarnan þær upplýsingar.  Þ.e. ef þær koma ekki beint úr karlabókinni Biblíu.

Margreifi De Sade hvað?


mbl.is Aftaka í Texas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamur!

01

Ég er í ham, veðurham.  Mikið skelfing líður mér vel í svona veðri.  Ég hef komið mér fyrir við tölvuna, innvafin í eiturgrænt flísteppi úr IKEA sem Jenný Una Eriksdóttir, færð mér á dögunum.  Ég sit hérna með tebolla, nikótínnefúða (er að byrja að trappa mig niður) og les blogg og annan fróðleik á netinu.  Úti hamast veðrið og ég er barnalega hamingjusöm yfir því.

Samt vona ég að veðrið valdi ekki óþægindum fyrir fólk.  Hm.. ekki eðlilegt hvað vel hefur tekist til með uppeldið á mér.  En vinafólk okkar er á leiðinni til Tenerif og það er búið að fresta brottför fram á kvöld, vegna væntanlegs veðurs.  Þorrí krakkar.

Var að velta fyrir mér megrunarkúrum, eftir að hafa lesið frétt í Mogga, um mann sem úðaði í sig bökuðum baunum í kílóavís og uppskar mikið þyngdartap.  Þar sem ég hef marga fjöruna sopið í megrunardeildinni, þá er ég afskaplega glöð yfir því að hafa ekki heyrt af þessari aðferð þegar ég stundaði hamfaramegranir af miklum móð hérna í denn.  Ég hefði stokkið á þetta, ég er dedd á því og bara tilhugsunin um bakaða BAUN veldur mér ógleði, hvað þá heldur viðkomandi kvikindi í stampavís.  Ég hefði þó sett mörkin við sláturmegrun.  Hefði heldur látist úr offitu en að láta þann bölvaða viðbjóð ofan í mig.

Mig rámar í hvítvínsmegrun, rámar í er rétta orðið, því ég fór í hana, og mér er sagt að hún hafi borið árangur í mínu tilfelli.  Ég er ekki til frásagnar um það.  Merkilegur andskoti hvað áfengi klæðir mig illa.Whistling

Jæja elskurnar, nú ríf ég mig upp af stólnum, hendi teppinu og geysist í hreingerningarhaminn, þvottahúshaminn og bökunarhaminn.  Var einhver að segja að ég væri manisk?  Hélt ekki?

Síjúgæs!

 

 

 


Hjáróma afsökunarbeiðni!

Mér var ekki skemmt yfir síðbúinni og hálfvolgri afsökunarbeiðni samgönguráðherra, fyrir nokkrum dögum og ég bloggaði um það.  Kristján L. Möller réðst að starfsheiðri Einars Hermannssonar í sumar, þegar hann gerði hann ábyrgan fyrir Grímseyjarferjuklúðrinu.

Nú kemur fram að lögmaður Einars hafi hótað samgönguráðherra málsókn, vegna ummæla hans, rúmri viku áður en ráðherra baðst svo opinberlega afsökunar á ummælunum.   Með semingi þó.

Í ljósi þessa er ég ekki hissa þó mér hafi fundist "afsökunarbeiðni" Kristjáns hjáróma.

Getur samgönguráðherra á sig blómum bætt?

Engin ágætis byrjun á ráðherradómi þarna.

Ogsvei!


mbl.is Afsökunarbeiðni í skugga málsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algjört törnoff.

1

Ég er stundum með alveg glataðan húmor.  Mér finnst til dæmis alveg rosalega fyndið að Harvard háskóli í samvinnu við fleiri æðri menntastofnanir, skuli hafa verið að rannsaka hvort dimmraddaðir menn eignist fleiri börn en þeir mjóróma.  Ég tel mig hafa nokkuð öflugt hugmyndaflug á góðum degi, en þetta hefði mér aldrei dottið í hug að einhverjum fýsti að vita.

Hvað um það.  Þeir dimmrödduðu eignast fleiri börn, en börn mjóróma manna eru alveg jafn heilsuhraust.  Ástæðan fyrir barnaláni strigabassanna er talin vera sú að þeir eigi auðveldara með að ná sér í konu.  Þessar upplýsingar hefðum við stelpurnar getað boðið upp á, án þess að það kostaði krónu.  Skrækir náungar eru algjört törnoff.  Ég sá einu sinni einn öflugt flottan náunga úti í London og þegar hann gekk að mér, kiknaði ég í hnjáliðunum, missti glasið og sígarettuna á gólfið (ýkt, mínusið eftir þörfum) og hélt að þarna væri draumaprinsinn kominn ljóslifandi.  Maðurinn horfði djúpt í augu mér, sagði eitthvað gáfulegt, sem ég er ekki til frásagnar um, því ég greip um eyrun vegna hátíðnihljóðsins sem kom úr barka hans.  Hann var geldingur, ég sverða.

Það rann upp fyrir mér ljós, þegar ég las þessa frétt og nú skil ég hvers vegna SUMIR (www.jonaa.blog.is) eru glaðir með Bjögga Halldórs.  Röddin í honum er á stöðugri niðurleið, í þulardjobbinu á Stöð 2.  Samkvæmt umræddri rannsókn, þarf Björgin örugglega á lífvörðum að halda ef svo heldur fram sem horfir.  Íslensk kvenþjóð á eftir að tapa sönsum ef karlinn fer niður um áttund til viðbótar.

Á sjó!


mbl.is Dimmraddaðir menn eignast fleiri börn en þeir mjóróma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

And the Nobel goes to..

1 

..æi what´s his name? 

Ég er svo standandi hlessa á því að Alþingismenn skrifi undir tilnefningu til friðarverðlauna Nóbels, án þess að þekkja haus né sporð á þeim sem tilnefndur er. 

Maður gæti farið að safna tilnefningum fyrir allskonar dúdda, bara sjálfum sér til skemmtunar.

Við Gurrí (www.gurrihar.blog.is) erum voða hrifnar af Marteini frænda heitnum, sem er nýbúinn að kaupa sér íbúð í Breiðholti, en komst samt ekki í fréttirnar en hann gerði það um svipað leyti og Litli-Bónus keypti New-York íbúðirnar og ÞAÐ komst í fréttirnar.  Marteinn frændi er vel að verðlaununum kominn en hann hefur verið að efla samskipti íbúa í neðra-Breiðholti undanfarnar vikur.

 Já, það eru margir kallaðar en fáir útvaldir þegar að friðarverðlaunum Nóbels kemur. 

Það væri svolítið sniðugt að vita deili á fólki sem maður tilnefnir.

 

Bætmí!

 


Danskir dagar hjá mér..

..í mínu "eigins" eldhúsi.  Ég lét plata mig út í hakkeböff með lauk, spældu eggi, sósu og kartöflum.  Mikil nostalgia skapaðist.

Afleiðingar:

3 pönnur á eldavél, 2 pottar, fullur vaskur, full ruslatunna og fullir magar.

Já, já, á morgun verða brottflognir fuglar, teiknaðar kartöflur og naglasósa.

Ég er nú hrædd um það.

Verði mér að góðu.

Jamm.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 2985793

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.