Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Kínverjar ættu að vera "eftirlýstastir" í heimi

Glæpamaðurinn Karadizic er fundinn.  Allir áhangendur "auga fyrir auga, tönn fyrir tönn" hugmyndafræðinnar gleðjast ógurlega.  Við hin líka vegna þess að hryllingurinn sem hann stóð fyrir er ópuppgerður.  Fólk þarf uppgjör.

En það eru aðrir betur til þess fallnir en ég að skrifa um þennan mann, ég læt þeim það eftir. 

En á visi.is er hann sagður einn "eftirlýstasti" maður heims.

Excuse moi en ég hélt að maður væri annaðhvort eftirlýstur eða ekki eftirlýstur.

Ég kannast ekki við að vera mjög lítið eftirlýst.

Annars ættu glæpamennirnir í Kína sem nú halda Ólympíuleika með pompi og prakt að vera helvíti mikið eftirlýstir.

En óekki, það verður örugglega seinna.  Þegar allir hafa tekið þátt með glýjuna í augum og á meðan lítum við í hina áttina.  Við erum líka svo spennt fyrir Kína vegna mögulegra viðskipta.  Kína er nýji spútnikkinn í fjármálaheiminum.  Hvaða máli skipta þá mannréttindi?

Þvílíkir tækifærissinnar við erum mannfólkið. 

Er grundvallarmunur á fjöldamorðingjanum Karadzic og kínverskum stjórnvöldum?

Aðferðirnar eru aðeins öðruvísi, það eitt skilur þá að.

Stundum er tvöfeldnin með þeim hætti að mér og fleirum verður óglatt.

Amk. fara Íslendingar ekki með mínu samþykki á Ólympíuleikana í Peking.

En ég hef bara ekkert um það að segja.

Kíkið á þetta.  Hvað finnst ykkur?


mbl.is Karadžic skrifaði um heilsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snúðar og kókómjólk - eðaggibara?

Við systurnar eigum langa og skrautlega ökusögu.

Hver á sinn máta.

Ég keyri ekki vegna dekksins sem losnaði undan bílnum í fyrsta skipti sem ég fór í bíltúr með börnin mín.  Ég fæ enn þakkarkort frá umferðadeild lögreglunnar á hverju ári vegna þeirrar ákvörðunar minnar að keyra ekki bíl framar í þessu lífi.

Sumar systur af sex keyra eins og brjálæðingar.  Blóta og sverja yfir fíflunum í umferðinni.  Eru sum sé eðlilegir íslenskir ökumenn.

Gusla systir mín sneiddi baksýnisspeglana af Fíatbílnum mínum fyrir margt löngu þegar hún var minn einkabílstjóri á sumri ástarinnar.  Við krúsuðum líka góða stund í sama bíl á götum borgarinnar í ýmiskonar snatti og við sáum ekki rassgat út úr augum vegna þoku.  Þokan reyndist vera gufa vegna slitinnar reimar í bíl, Gusla var mjög hissa.  Viftureim what?  Var það ekki veðrið?  Ég hló mig máttlausa, Fíatinn hafði ekki húmor fyrir þessari vankunnáttu og pabbi ekki heldur.

Ingunn systir mín skrapp í bakaríið 198tíuogeitthvað á risastórum kagga sem þau hjón höfðu fjárfest í.  Hún steig á bensínið þessi elska í staðinn fyrir bremsur þegar hún keyrði upp að húsinu sem var einn stór glerveggur.  Inn um gluggann fór hún og rann snyrtilega upp að afgreiðsluborðinu.

Alvöru kona reynir að halda andlitinu í öllum aðstæðum.  Hún missir ekki kúlið.  Þarna sat systir mín með stálbita á húddinu, glerlufsur í hárinu, brauð og kökur í framsætinu og bílinn sinn nánast óskaddaðan, og hún brosti breitt.

Bakarinn varð árásargjarn og gargaði og veinaði yfir nýja veggnum og innréttingunni.  Systir mín sá bara eitt í stöðunni, hún gat ekki bakkað út og keyrt á brott  vegna byggingarefnis af ýmsu tagi sem fylgdi innkomunni.  Hún gerði það eina rétta í stöðunni.  Hún bað brosandi um tvo snúða og kókómjólk

Hún rankaði reyndar við sér með hendur bakarans um hálsinn á sér í krampakenndri tilraun til að binda endi á líf hennar eða allt að því.  En það skiptir ekki máli, hún hélt kúlinu.

Systurnar Önnu og Baldursdætur eru umferðarlögreglunni stöðug hvatning til að gera betur.W00t


..á Jamaica man

Mig hefur oft dreymt um að lenda í framandi landi, þegar ég flýg á mína venjulegu og hversdaglegu staði, eins og t.d. Köben.  Að fara til Kaupmannahafnar er eins og að skreppa inn í Fossvog í kaffi til mömmu og pabba, tekur aðeins lengri tíma bara.

En ég elska þá borg.

Ég er líka fullkomlega og algjörlega ástfangin af minni elskuðu Svíþjóð, aðallega þó þegar ég á ekki heima þar.  Var ekki alveg eins hrifin þegar ég bjó þar, sem von er.  Það er bara kjaftæði að grasið sé ekki grænna hinum megin við lækinn, það segja þeir sem eru í hlekkjum heima hjá sér. 

Merkilegt, mig langar alltaf þangað sem ég er ekki og þó er það ekki svo merkilegt, manni getur ekki langað þangað sem maður er staddur.  Þorrí, þillí mí.

En að efninu.  Það væri ekki leiðinlegt að vera með góðan pening og slatta af plasti og lenda á Bahamas eða í einhverju framandi landi sem er ekki með eitraðar köngulær.  Jafnvel þó maður hafi í sakleysi sínu verið á leiðinni til Þórshafnar í gönguferð eða eitthvað alveg æsingarlaust.

Nú virðist þetta vera að ganga.  Svíi frá Värmland var ásamt konu sinni á leið á ráðstefnu í Reykjavík en dummisen bókaði þau til Rijeka í Króatíu.  Maðurinn keypti miðana á netinu og hélt að þetta væri skammstöfun á Borg Óttans.  Rijeka - Reykjavík, ég get skilið manninn.  Jeræt.

Og svo voru það velsku hjónin sem voru á leiðinni til Kanarí lentu í Tyrklandi.  Kíktu ekki á brottfararspjöldin í lúkunum á sér.

Ég held að þetta sé hipp og kúl ferðamáti framtíðar.  Þú bókar A og lendir B.

Þú kaupir miða til Englands og lendir á Jamaica man. 

Kúl sjitt.

Úje


mbl.is Ætluðu til Reykjavíkur - lentu í Rijeka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlandkoppur á elliheimili

magart0107_p54_pic3

Þegar ég var að alast upp og langt fram á þrítugsaldur skilgreindi ég íslenska karlmenn og raðaði þeim í fimm kategóríur. 

Ruddarnir, sem hættu í skóla 12 ára, lásu aldrei neitt annað en bankabókina sína, fóru á lúðu og steinbít, migu og kúkuðu í saltan sjó, snýttu sér á gólfið, hræktu á konur, klóruðu sér í pung og ráku við í fjölmenni.  Þeir þóttu vera karlmenni hin mestu þessir ógeðismenn.  Ég var aldrei sammála og þeir hrundu úr móð.

Menntamennirnir, sem nú eru flestir komnir í yfirvigt, voru grannir, fölir og pervisnir, reyktu franskar sígarettur, héngu á Tröð, ortu ljóð og voru með axlarsítt hár.  Svona tæringartýpur, alltaf með trefil og hóstandi ofan í bringuna á sér.  Mér fannst þeir törnoff með örfáum undantekningum.  Þeir áttu ekki upp á pallborðið nema hjá kvenkyns tvíburum sínum.

Hipparnir, með hárið niður í mitti, sem bökuðu vöfflur og brauð, eða opnuðu leðurverkstæði, reyktu hass og sögðu vávává í tíma og ótíma, gengu í afganpelsum með 3 m. langa trefla, bjöllur og keðjur, leðurarmbönd og fleira glingur.  Þeir voru undantekningarlítið berfættir í skónum, áttu aldrei krónu og fóru sjaldan í bað.  Ég baðaði nokkur stykki og fannst þeir sætir, nýbaðaðir og nýpúðraðir.

Mestu plebbarnir, voru MR-náungarnir, litlu karlarnir, svona 17 ára gamalmenni í hvítum nælonskyrtum með lakkrísbindi, "innvíðum" terlínbuxum og menntóúlpu.  Þessir hoppuðu yfir unglingsárin og lentu beint á "háttíþrítugsaldrinum".  Þeir gerðu álíka mikið fyrir kynhvötina og hlandkoppur á elliheimili.

Svo voru það perlurnar á fjóshaug lífsins sem er ekki hægt að setja í kategóríur.  Það voru mínir menn og ykkur kemur ekki afturenda við hverjir þeir voru.

En nú óttast ég að maðurinn í lið eitt sé að hefja sig til vegs og virðingar.

Sel það ekki dýrar en ég keypti það.

Mæómæ.

 

 


mbl.is Guðjón hættur með ÍA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laangdreginn aulahrollur

torf

Ég verð alltaf sannfærðari með hverjum deginum sem líður að við Íslendingar erum ekki mjög gestrisið fólk (nema við suma) og svo erum við enn með aðra löppina í torfbæjarhurðinni.  Erum ekki alveg tilbúnir til að stökkva inn í nútímann og skella á eftir okkur.

Þegar ég horfði á laaaaaaaaangt og ítarlegt viðtal við sýsluna á Ísafirði þar sem hún tíundaði skelfilegan glæp mannsins sem seldi myndir á Vestfjörðum og romsaði upp úr sér öllum lögunum sem maðurinn hafi hugsanlega brotið, að myndirnar hafi verið gerðar upptækar, fjármunir hans og aðrar persónulegar eigur, þá var mér næstum því skemmt.  En ég gargaði mig hása í staðinn.

Hvar sem ég hef komið um heiminn hefur allskyns fólk selt ýmsan varning út um allt og enginn hefur séð neitt athugavert við það.  Bara skemmtilegt innlegg í mannlífsflóruna.

Svo kemur einhver maður til Íslands með fokkings myndir og dót til að selja og hann er handtekinn og varan gerð upptæk.  Hann vantaði leyfi til að selja varninginn og gott ef ekki verslunarpróf með láði frá einhverjum skóla.  Er ekki bara hægt að segja nei takk ég vil ekki kaupa?  Þarf þetta að stofna móralnum á Vestfjörðum í stórkostlega hættu?

Mér finnst, ef ég segi bara nákvæmlega það sem ég er að hugsa, að þarna liggi kynþáttafordómar á bak við viðbrögðin.  Það er eins víst og nótt fylgir degi að í svoleiðis aðstæðum byrjar fólk ósjálfrátt að ryðja úr sér lögum og reglugerðum (mál Paul Ramses).

Við ættum að gæta þess Íslendingar að fara að hugsa svolítið hvernig við komum fram við fólk frá öðrum löndum.  Já öllum öðrum löndum.

Þetta mál er einn allsherjar, langdreginn aulahrollur og ég næ honum ekki úr mér.

Take a chill pill!

 


mbl.is Bauð málverk til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...með þökk fyrir viðskiptin á árinu sem er að líða

Þegar ég sá frétt um rafmagnsreikninga og að Belgi einn hafi borgað sinn með klinki þá brosti ég út í annað.

Á mínum eiginlegu blankárunum var ég jafnframt spennufíkill sem sá ekki ástæðu til að borga RÚV og rafmagn á gjalddaga (tekið fram að það er langt síðan hehemm), borgaði fyrst Visa og svona svo ég gæti haldið áfram að eyða og spenna. 

Þess vegna var ég oft á síðasta snúning þegar Knold og Tott (tveir geðvondir vel miðaldra tvíburar, amk. mjög líkir) komu til að loka.  Og þá fékk ég hland fyrir hjartað og hundskaðist til að borga.  Helst ekki fyrr.  Rosa kikk eða þannig.

Sama gilti með RÚV og ég get ekki sagt mér til málsbóta að ég hafi verið í réttindabaráttu vegna afnotagjaldanna, ónei, ég er með RÚV alla leið alveg hreint.  Minni frestunaráráttu var um að kenna og ég gerðist mjög náinn kunningi lögfræðinganna sem innheimtu fyrir útvarpið, þeir voru farnir að senda mér jólakort og myndir af afkomendunum þarna í lokin. Eða hefðu gert ef þeim hefði dottið það í hug.

En..

Hafið þið pælt í því hversu óréttlátt það er að þeir skuldseigu meðal vor (ég þar lengi meðlimur) mæta miklu vanþakklæti þrátt fyrir þeir haldi uppi heilu fyrirtækjunum með því að borga ekki fyrr en allt er komið í hönk?  Þá er ég að tala um fyrirtæki dúlludúskanna með löffaprófið.  Sjaldan sá ég flottari skrifstofur og einmitt hjá þessum elskum.

Þegar ég hélt uppi nokkrum slíkum með stórum umsvifum í mínusdeildinni var mér aldrei þakkað.  Það var hvæst á mig þegar ég hringdi og mér settir afarkostir.  Algjört "uppmeðhendur" attitjúd hjá þessu liði.  Mér leið eins og.. hvað skal segja.. skuldara. 

Eitt jólakort með þökkum fyrir viðskiptin hefði verið nægt tilefni til að gleðja í mér gaddfreðið skuldahjartað.

Og á endanum sagði ég þeim upp störfum fyrir mína hönd og merkilegt nokk þá sakna ég þeirra ekki rassgat.

Enda allt vaðandi í lögfræðingum í kringum mig.

Súmígæs.


mbl.is Borgaði rafmagnsreikninginn með einseyringum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af skýjuðum himni og afmælisbrönsj

20080708131933_3

 

Ég er ekki ein af þeim sem hríslast um í spennu bíðandi eftir að sjá veðurspá dagsins og oftast er ég nokkuð sátt við það veður sem er vegna þess að ég annað er einfaldlega ekki í boði.

En ég varð pínu glöð áðan þegar ég sá að það ætti að þykkna upp í dag.

Ég er nefnilega orðin eins og sólþurrkaður tómatur að utan og innan.

Aðallega að innan þó því að utan er ég nokkuð "indjánísk" í útliti eftir sólböðin undanfarið.  Það eru mínir frönsku duggaraættingjar sem skilið hafa eftir sig sporin í húðlitnum á mér.

Af því að ég er alin upp við árstíðir og snöggar veðrabreytingar þá fer mér að líða beinlínis illa ef sama veður helst of lengi í einu.  Í gærkvöldi eftir þennan sólríka dag var ég nauðandi í veðurguðinum um að svissa yfir í rigningu og auðvitað var ég bænheyrð.  Ég bið ykkur sóldýrkendur afsökunar.

 Elsta barnabarnið mitt hann Jökull Bjarki, verður 14 ára á morgun og við erum á leiðinni í brönsj hjá væntanlegu afmælisbarni á eftir.

Jökklinn minn er frábær drengur, fallegur og góður.  Svo er hann svo ári hæfileikaríkur drengurinn.

Hann var að klára I. stig í gítarnáminu sínu og brilleraði á prófunum í Hagaskóla. 

Ég er heppin kona í öllu tilliti.

Góð bara.

Later.

P.s. Ég bið ykkur að kíkja á þetta gott fólk.

 


mbl.is Þykknar upp vestantil í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

..sést ekki fyrir og dúndrast í vegg

Blásaklaus og yndisleg kíkti ég aðeins inn á Moggabloggið að gamni mínu, núna rétt í þessu.

Deginum hef ég eytt í sólbað og brauðbökun og mér leið eins og ég hefði keypt kjaftæðið í rómaðri bók sem heitir því fróma nafni: "Aðalaðandi er konan ánægð", en hún sló í gegn í USA á 6. áratugnum.

Þar sem ég í húsmóðuryndisleika mínum vippaði mér inn á vefinn svona rétt áður en ég fór í að verma inniskó eiginmannsins á ofninum og skafa pípuna hans, rakst ég á tvær færslur sem komu mér í brjálað skap.

Ég veit, ég veit, maður á ekki að láta kverúlanta úti í bæ pirra sig en stundum er heimóttarskapurinn svo yfirþyrmandi, plebbaskapurinn svo fyrirferðarmikill að ég sést ekki fyrir og dúndra mér í vegg.

Tveir Moggabloggarar eru ábúðarfullir vegna þeirrar fáheyrðu ósvífni að Dorrit skuli bjóða Mörtu Stewart í mat með þeim hjónakornum.  Marta var sko dæmd fyrir eitthvað og þá má Dorrit greinilega ekki þekkja hana lengur af því hún er forsetafrú Íslands.

Halló, Marta á ekki upp á pallborðið hjá mér frekar en aðrir föndrarar í heiminum en kommon, má ekki bjóða henni í mat?  Mega forsetahjónin ekki eiga vini nema að undangenginni lögreglurannsókn á viðkomandi?  Ef konan væri hér í opinberri einkaheimsókn forsetans þá myndi ég örugglega garga mig hása, en það er fjandinn hafi það, lágmark að leyfa fólki að vera til á sínum eigin tíma.

Það mætti halda að við værum konungsríki og værum í stöðugum aðdáunarsleik yfir hallarbúum eins og þeir eru á Englandi.  Með bókhald yfir hversu oft þeir pissa og kúka, ropa og fá sér te.

Stefán Friðrik skrifar lærðan pistil um forsetann og Mörtu, eins og hans er von og vísa.  Ég segi ekki það sem ég er að hugsa núna.  Sem er gott.  Fyrir mig lagalega og fyrir Stefán tilfinningalega.

Og svo er það hinn frjálslyndi (W00tJón Magnússon, hann setur spurningamerki við hvort það sé passandi að Óli borði með Mörtu.

Verð ég eldri?

Varla ef þessi fíflagangur heldur áfram mikið lengur.

Ætli það væri minna hneyksli ef þau hefðu fengið sér kaffi á Hressó og ekkert með því?

ARG


Ekki menga út fyrir 200 mílur

Ég er þakklát fólkinu í Saving Iceland fyrir að koma og mótmæla álversframkvæmdum og annarri eyðileggingu á náttúru Íslands.

Ég er þakklát fyrir að það sé fólk utan Íslands sem gerir sér grein fyrir alvöru málsins.

Mér finnst ömurlegt að sjá fólk blogga um "skemmdarverkamenn" og að það eigi að henda þessu liði úr landi. 

Ég hélt í einfeldni minni að allir Íslendingar væru með það á hreinu að það er langt í frá okkar einkamál hvernig farið er með náttúruna.  Mengun af völdum stóriðju er vandamál heimsins og þar af leiðandi kemur fólki í öðrum löndum við hvað við erum að hafast að.

Það er ekki eins og mengunin sé með það á hreinu að hún megi ekki fokka upp andrúmsloftinu lengra en nemur 200 mílum!  Meiri fíflagangurinn.

Ég legg til að við fylgjumst grannt með hvernig löggan tekur á þessu fólki sem ekki er að stöðva almenningssamgöngur (eins og trukkararnir) heldur beina mótmælum sínum í þessu tilfelli að framkvæmdunum í Helguvík.

Áfram Saving Iceland.

Takk enn og aftur fyrir mig.


mbl.is Mótmæli í Helguvík friðsamleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blankur Bubbi?

 bubbinn

Stundum er ég ógeðslega fyrirsjáanleg.  Það er svo dæmigerð Jenný Anna að láta Bubba pirra sig.

Ég var búin að lofa mér að hætta að blogga um Bubba þegar hann fer í taugarnar á mér, það er svo vont fyrir þrýstinginn, en get ég staðið við það?  Nei, að þessu sinni verð ég að gera eins og allir hinir og pirra mig á prenti.

En ég ætla að byrja á jákvæða hlutanum.  Bubbinn er ágætur í viðtalinu.  Ekki óbærilega montinn (en montinn samt), ekki mjög yfirlýsingaglaður og bara svona í skárri kantinum.  Svo er hann hamingjusamur og það gleður mig alltaf þegar fólki líður vel.

Og þá er það frá eins og skáldið sagði.

Bubbi hefur talað gegn öllum andskotanum.  Hvölum, fátækt, græðgi og  með serbnesku blómi.

Og nú telur hann sig þess umkominn að segja Björk og Sigur Rós fyrir hvaða málefni þau eigi að halda tónleika.  Hann segir orðrétt:

"Sá sem býr á Íslandi í íslenskum raunveruleika á að gera sér grein fyrir því að það eru alvarlegri hlutir að gerast en álversframkvæmdir."

Ásbjörn, "wake up and smell the fucking coffie".  Álversframkvæmdir og virkjanir, umhverfisspjöll og allur sá pakki er varanlegt vandamál fyrir komandi kynslóðir ef stjórnmála- og peningamenn fá vilja sínum framgengt.

Bubbi hefði verið maður að meiri hefði hann sleppt þessu skítkasti í garð Bjarkar og Sigur Rósar.

En ég skil vel að fátæktin sé Bubbanum áhyggjuefni.  Í viðtalinu kemur fram að hann tapaði stórfé í hlutabréfaviðskiptum.  Í ljósi þess skil ég röflið í honum.

Fátæktin er eilíft baráttuefni.  Stjóriðjumartröðin er mál dagsins í dag.  Ef við reynum ekki að koma í veg fyrir stórslysin þá sitjum við uppi með álver út um allt, eiturspúandi náttúruspilla sem jafnvel verða ekki aftur tekin.

Ég hef áhyggjur að því.

En ég hef ekki tapað krónu í hlutabréfaviðskiptum.  Einfaldlega vegna þess að ég kaupi ekki hlutabréf.  Amma mín talaði úr mér græðgina í frumbernsku.

Så det så.

Kem að vörmuDevil


mbl.is Björk ætti frekar að syngja gegn fátækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 2985877

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband