Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Íþróttir

Hlandkoppur á elliheimili

magart0107_p54_pic3

Þegar ég var að alast upp og langt fram á þrítugsaldur skilgreindi ég íslenska karlmenn og raðaði þeim í fimm kategóríur. 

Ruddarnir, sem hættu í skóla 12 ára, lásu aldrei neitt annað en bankabókina sína, fóru á lúðu og steinbít, migu og kúkuðu í saltan sjó, snýttu sér á gólfið, hræktu á konur, klóruðu sér í pung og ráku við í fjölmenni.  Þeir þóttu vera karlmenni hin mestu þessir ógeðismenn.  Ég var aldrei sammála og þeir hrundu úr móð.

Menntamennirnir, sem nú eru flestir komnir í yfirvigt, voru grannir, fölir og pervisnir, reyktu franskar sígarettur, héngu á Tröð, ortu ljóð og voru með axlarsítt hár.  Svona tæringartýpur, alltaf með trefil og hóstandi ofan í bringuna á sér.  Mér fannst þeir törnoff með örfáum undantekningum.  Þeir áttu ekki upp á pallborðið nema hjá kvenkyns tvíburum sínum.

Hipparnir, með hárið niður í mitti, sem bökuðu vöfflur og brauð, eða opnuðu leðurverkstæði, reyktu hass og sögðu vávává í tíma og ótíma, gengu í afganpelsum með 3 m. langa trefla, bjöllur og keðjur, leðurarmbönd og fleira glingur.  Þeir voru undantekningarlítið berfættir í skónum, áttu aldrei krónu og fóru sjaldan í bað.  Ég baðaði nokkur stykki og fannst þeir sætir, nýbaðaðir og nýpúðraðir.

Mestu plebbarnir, voru MR-náungarnir, litlu karlarnir, svona 17 ára gamalmenni í hvítum nælonskyrtum með lakkrísbindi, "innvíðum" terlínbuxum og menntóúlpu.  Þessir hoppuðu yfir unglingsárin og lentu beint á "háttíþrítugsaldrinum".  Þeir gerðu álíka mikið fyrir kynhvötina og hlandkoppur á elliheimili.

Svo voru það perlurnar á fjóshaug lífsins sem er ekki hægt að setja í kategóríur.  Það voru mínir menn og ykkur kemur ekki afturenda við hverjir þeir voru.

En nú óttast ég að maðurinn í lið eitt sé að hefja sig til vegs og virðingar.

Sel það ekki dýrar en ég keypti það.

Mæómæ.

 

 


mbl.is Guðjón hættur með ÍA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungfrú Skakklöpp

Beauty_Queen_thumb 

Eitt af mínum aðaláhugamálum eru fegurðarsamkeppnir.  Þar reynir á keppnisskap, snerpu, augnaháraflöggun, brosbreidd, nasavængjatitring, meiköpp, naglalengd og táraframleiðslu.  Við erum að tala um alvöru íþróttagrein hérna og ég fékk mér gervihnattardisk fyrir nokkrum árum til að geta elst við keppnisíþróttina um heim allan.

Og þeir voru að krýna sigurvegarann.  Á verðlaunapalli með gullið um hálsinn og farandbikarinn sem er staðsettur á höfði vinningshafans, stóð að þessu sinni fröken Venezúela.  Ég get sagt ykkur að þar er þessi íþróttagrein stunduð af miklum móð og ungar stúlkur settar í æfingabúðir við 6 ára aldur.  Öllu til kostað til að ná langt í greininni og gera Venúzelísku þjóðina stolta af sínum keppenda. 

En skammarverðlaunin í ár fær ungfrú USA.  Haldið ekki að stúlkan hafi fallið á rassinn bara sisvona? Hún getur ekki hafa komið vel undirbúin til leiks.  Svona keppendur sendir maður ekki á alþjóðleg íþróttamót.  Hér má sjá fallið.  Vítaverð framkoma þarna eins og þið hljótið að sjá.

Slúðursögur herma að ungfrúin skakklöpp hafi lent í lyfjaprófi í þessum milliriðli og mun það hafa alvarlega eftirmála ef eitthvað miður fallegt finnst í blóði hennar.

Ísland var ekki með, hvað er að?  Fer öll okkar orka í að keppa í bolta og ekkert til þessarar keppni sem krefst mikillar þjálfunar, úthalds og fallegs persónuleika sem greinilega er ekki týndur af trjánum.

Andskotan vitleysa.

Úje.


Aftökur hér og þar

Allir held ég, fyrir utan einhverja kverúlanta sem skipta ekki máli, fordæma mannréttindabrot og dauðarefsingar í Kína.  Þar er fólk tekið af lífi á færiböndum, ekkert elsku mamma þar.  Við ætlum samt á Ólímpíuleikana, mótmælum meðferðinni á fólki en erum ekki til í að lýsa vanþóknun okkar þannig að það svíði á eigin skinni.

Og í Bandaríkjunum,  hjá þessari vinaþjóð okkar, talsmönnum frelsis og mannréttinda, þjóðinni sem er með heilu hópana af hreingerningarmönnum sem fara og taka til í annarra görðum, er líka  verið að taka fólk af lífi.  Og í dag ætla þeir að myrða fanga sem verður sá fyrsti eftir að starfsreglum um banvænar sprautur var breytt.  Flórída ríður á vaðið.

Bandaríkjamenn pynta líka fanga í nafni frelsisins, þeir gera það bara fyrir utan eigin lögsögu og í nafni frelsis og lýðræðis.

Í mínum huga er enginn munur á kúk eða skít.  Það eina sem skilur þessar stóru þjóðir að er að Kínverjarnir taka fleiri af lífi í einu, hugmyndafræðin er sú saman.

Þú skalt gjalda fyrir með lífi þínu.

Hvernig stendur á að það er ekki verið að slá á puttana á Ameríkumönnum?

Af hverju halda Evrópuþjóðir kjafti yfir aftökunum og pyntingunum þar?  Eða gera amk. ekki stórmál úr því.

Ætli það sé af sömu orsök og við erum í eilífar kynningarsleikum við Kínverja.  Peningar?

Ef ég mætti ráða þá færi ekki kjaftur héðan á vegum Íslands til þátttöku á Ólímpíuleikunum.

Með því erum við að leggja blessun okkar yfir morðin og mannréttindabrotin.

Og svo má bretta upp ermar og taka land fyrir land.

Ég myndi sofa betur á nóttunni.

En þið?

 


mbl.is Óskar eftir gálgafresti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sendið þjálfarann í langt frí

Ég viðurkenni það fúslega að ég hef ekki hundsvit á íþróttum.  Að minnsta kosti ekki á boltaíþróttum.

Ég veit heilmikið um fimleika vegna dætra minna sem ólust upp í íþróttasölum og við foreldrarnir með þeim.

Og þar lærði ég eitt grundvallaratriði sem hefur dugað mér ágætlega en þeim var innrætt að sýna íþróttamannslega framkomu.

Ég lærði líka að það er gífurlegur aðstöðumunur á strákum og stelpum innan íþróttahreyfingarinnar en það er önnur saga.

Reyndar eru nokkur ár og gott betur síðan mínar dætur stukku um í hejarstökki, handahalaupi,  flikkflakki, kraftstökki og skrúfum en þá var aðaláherslan lögð á að sýna gott keppnisskap, virðingu fyrir meðiðkendum sínum, heilbrigt líferni og sjálfsaga.

Varla á þetta íþróttauppeldi bara við um stelpuíþróttir.

En ég er orðin hundleið á að lesa um gapuxann Guðjón Þórðarson sem á í stöðugum útistöðum við dómara, rífandi kjaft og sendandi fólki tóninn í fjölmiðlum.

Í kvöld fékk hann rauða spjaldið og auðvitað var það ekki honum að kenna, dómararnir voru algjörlega glataðir, þeir eru að vinna gegn honum, Skagaliðinu og gott ef ekki öllu Akranesi bara.

Eiga ekki þjálfarar að ganga á undan með góðu fordæmi?

Og hvaða fyrirmynd er þessi maður ungu íþróttafólki?

Sendið manninn í frí.  Laaaaaangt frí.

Þetta hefur ekkert með íþróttir að gera, þetta er stríð. 

Andskotans bjánaskapur.


mbl.is Skagamenn sáu rautt í 2:0-tapleik gegn KR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjónaband í stórkostlegri hættu

pd_arguing_080129_ms

Áhugi minn á fótbolta er lítt þekktur.  Enda ekki nema von, hann er lágmarks.

En einhvern veginn tókst mér að ná mér í eitthvað boltahugarfar gagnvart leiknum í gær, Holland - Rússland.

Það kom til að því að ég lét bloggheim hafa áhrif á mig í þessa veru og svo auðvitað Húsbandið.

Og ég var orðin talsvert stressuð yfir því að Holland myndi nú jafnvel tapa af því að ég héldi með þeim.

Og svo töpuðu þeir.

Ég: Andskotinn, þeir töpuðu fyrir helvítis Rússunum (veit ljótt að blóta).  Skyrpti líka á gólfið þarna til að vera alvöru bulla.

Húsband: Já en Rússarnir voru betri.  Betra liðið vann, þannig á það að vera.

Ég: En þú sagðir að Hollendingar ættu skilið að vinna, þú taldir mér trú um að þeir væru skemmtilegra lið og ég veit ekki hvað og hvað.

HB: Æi svona er fótboltinn bara!

Ég: Ætla ekki að hafa eftir sjálfri mér hérna.  Trúið mér, það er ekki prenthæft.

En sem betur fer gekk ég ekki svo langt að horfa á leikinn.  Ég er ekki tilbúin til að teygja mig svo langt til að ná boltahugarfarinu.

En ég er að hugsa um að súa RÚV, þetta fótboltaofbeldi er gjörsamlega komið út fyrir allt velsæmi.

Er ég eina manneskjan á þessu landi sem gæti ekki staðið meira á sama um fótbolta?

Og hvenær í andskotanum er þessi fótboltahátíð á enda?

Hjónabandið siglir hraðbyri inn í alvarlega krísu.  Allt boltanum að kenna.

Ég mun ekki láta blekkjast í annað sinn.

Holland hvað?


mbl.is Síðasti landsleikurinn hjá van der Sar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirfram fullnæging

Ég get haft gaman af handbolta, dálítið mikið gaman meira að segja.

Og þess vegna varð ég smá fúl yfir að við komumst ekki á HM.

Ég meina Óli Stef. og hinir strákarnir eru ekkert annað en hetjur. 

En það fylgir böggull skammrifi. 

Ég hef sagt ykkur að þegar ég les bækur sem hafa spennu og rafmagnaðan endi, þ.e. þar sem tilgangurinn með bókinni lýtur þeim lögmálum að hún nær hámarki á síðustu blaðsíðunum, þá hef ég það fyrir vana að lesa endirinn um leið og ég veit hver er hvað í sögunni.  Þetta á fólk rosalega erfitt með að skilja.

Ég segi hins vegar að það sé hálf glatað að vera í rusli yfir sögupersónum að óþörfu, þá tékkar maður á því hver drepur hvern, hver elskar hvern, hver er vondur og hver góður og nýtur svo bókarinnar án hjartsláttartruflana.  En sem betur fer les ég sjaldan spennubókmenntir.

Sama lögmál er í gangi varðandi mig og handboltann.  Ég get ekki horft í beinni og slakað á þegar ég veit ekkert hver vinnur leikinn.  Þess vegna loka ég mig frammi í eldhúsi eða fer út að labba, til að fara ekki á límingunum. 

Svo er það ofmatiðDevilá sjálfri mér.  Ég held að ef ég horfi á handboltann í beinni þá komi ég prívat og persónulega í veg fyrir íslenskan sigur.

Þess vegna horfi ég á endursýningar af leikjunum, það er þá leiki þar sem við höfum farið með sigur af hólmi.  Þá nýt ég mín.  Hlæ illgirnislega þegar andstæðingurinn fer yfir, vitandi að það er skammgóður vermir.

Þetta er eins og maðurinn sem hætti að gera það vegna þess að hann var svo hræddur um að fá ekki fullnægingu.  Hann hætti öllum hvílubrögðum og lifði því afslappaður upp frá því.

Hann tók út lostann fyrirfram, eða gerði hann það ekki?  Ha?? Nei, ók, en þið vitið hvað ég meina.

Já ég veit að ég er stórkostlega biluð en hver segir að maður þurfi að vera hefðbundinn íþróttaálfur?

Ekki ég.

En núna slepp ég við allt þetta vesen.

Við sitjum heima.Wizard


mbl.is Ísland kemst ekki á HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helvítis fótboltinn

c_documents_and_settings_hp_owner_my_documents_my_pictures_22_189417 

Borarinn er farinn að lúlla.  Eða hvíla á sér borputtana.  Allavega þá er allt með kyrrum kjörum hér á átakasvæðinu.

En það er vandlifað þessa dagana.  Fótboltinn er að gera mér erfitt fyrir og fokka upp mínu eðal lífsmynstri sem ég hef með elju og samviskusemi unnið að því að koma mér upp eftir að stelpurnar mínar fluttu að heiman.  Það hefur tekið tímann sinn.

Ég vil fá að hafa hlutina eftir mínu höfði, einkum og sér í lagi í ákveðnum grundvallaratriðum.

Ég vil t.d. að fréttir séu á réttum tíma.  Hvernig stendur á að boltaleikur hefur forgang yfir fréttir?

Jájá, ég veit að ca. helmingur þjóðarinnar og gott betur hangir yfir þessu og fílar í tætlur.

En kommon, hverslags dekur er þetta við þessa íþróttagrein?

Í mörg ár hef ég reynt að venjast og jafnvel láta mér líka við fótbolta.  Þar sem nokkrir af mínum fjölmörgu eignmönnum hafa haft sameiginlegan áhuga á þessu fyrirbæri.

En ekkert gengur.  Ég veit fá leiðinlegri bakgrunnshljóð en kliðinn frá fótboltaleik.   Skilur einhver maður hvað þetta lið er að söngla á bekkjunum?  Ég hef aldrei náð því en mikið rosalega urlast ég upp.

Þannig að þessa dagana er ég í sorg.  Ekkert Kastljós, Engar sjöfréttir. 

Lífi mínu eins og ég þekki það hefur verið fokkað upp.

Ef hávaðinn frá borhelvítinu suðar ekki í eyrum mér þá gerir kliðurinn frá fótboltanum það og ef ég myndi slökkva á fótboltanum þá yrði annars konar kliður sem myndi skella á hlustum mínum og hann kæmi frá húsbandi.

Ég legg ekki meira á ykkur.


mbl.is Van Basten er með báða fætur á jörðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fasismi á Patró

Ég var að misbjóða sjálfri mér með því að horfa á myndbandið frá Patreksfirði þegar lögreglan gasaði mann sem hafði verið með ólæti.  Hann neitar að leggjast á jörðina og gengur frá lögreglumönnunum.  Þá sprauta þeir á hann.

Ég á ekki eitt einasta orð.  Hvers lags þjóðfélag er þetta að verða?  Það er ekki nýtt að drukkið fólk sé með ólæti en hingað til hefur ekki þurft að sprauta eitri í augu þess til að ná að handtaka það.

Ég sé enga ofbeldistilburði í garð lögreglunnar frá þessum manni.  Það er enginn yfirvofandi árás í gangi og maðurinn gengur frá löggunni. 

Svo þjösnast þeir á honum þrír þar sem hann liggur hjálparvana á jörðinni.

Fyrirgefið á meðan ég garga mig hása.

Og á eftir fylgdu 20 tímar í fangelsi.

Ekkert réttlætir svona aðgerðir.  Fjandinn hafi það.

Og lögreglustjórinn á Patreksfirði réttlætir ofbeldið og sér ekkert athugavert við þennan gjörning valdstjórnarinnar.

Þetta er pjúra fasismi og ekkert annað.


mbl.is Barði og ógnaði fólki fyrir handtöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunna ekki að tapa

Svíarnir eru mitt fólk, nánast alltaf, nema þegar þeir etja kappi við Íslendinga.  Þá er ég til í að búa á þá.  Segi svona.

En þeir, eins og við stundum, eiga erfitt mað að tapa.

Mér finnst leim að þeir ætli að kæra leikinn og fara fram á að hann verði endurtekinn.

4 marka munur og þeir nenna að láta eins og tuðandi gamalmenni í staðinn fyrir að kyngja ósigrinum og segja: Vad fanken, vi tar det nästa gång.

Mikið rosalega verð ég hissa ef þeir fá sínu framgengt.

Gå lägg er grabbar!

Dumma killar


mbl.is Svíar ætla að kæra leikinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tuðrur og glerull

Ég ætla að blogga um fótbolta.  Landsbankadeildina. Það er dálítið mikið úr karakter þegar moi á í hlut.  En einu sinni verður allt fyrst.

En róleg gott fólk, ég skrifa ekki um tuðruna sem mennirnir sparka á undan sér um allan völl, ekki frekar en ég skrifa um glerull sem einangrun í sænskum sumarhúsum. 

En það er þessi karlamórall, svona "ég gef þér á kjaftinn helvítið þitt" sem oft ríkir í karlaíþróttum, sem er sem er mér ofarlega í huga, eftir að hafa séð Guðjón Þórðarson rífa kjaft eftir leikinn við Keflavík, sem ÍA tapaði. 

Það var ekki mikið af hinum sanna íþróttaanda í þeim orðum.

Ég hélt að íþróttir og íþróttahreyfingin ætti að ganga á undan með góðu fordæmi og vera æskunni hvatning til þátttöku í íþróttum og fyrirmynd um góða hegðun.

Ef brotið var á einhverjum fer það ekki sína réttu boðleið?  Þarf maðurinn að bresta í reiðilestur í fréttatíma sjónvarps?

Mér leiðist þessi karlaheimur.  Þar er talað í stríðsfrösum, þar er æsingur og reiði, engar málamiðlanir.

Ef ég á að vera hreinskilin þá finnst mér þetta ekki mjög sjarmerandi hegðun og mig langar ekkert til að láta hana myndbirtast í þeim börnum sem tilheyra mér.

Mér finnst lágmarks krafa að þjálfarar t.d. í fótbolta, sýni af sér almennilega siði.  Líka þó fjúki í þá.

Annars góð.

Later.

 


mbl.is Ummæli Guðjóns til umfjöllunar hjá aganefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 2985877

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband