Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Hinir harmarnir

Það má vera að það sem ég ætla að blogga um geti talist ósmekklegt.

Það verður þá að hafa það.

En ef eitthvað er ósmekklegt varðandi dauða þessarar vesalings konu, Natöshu Richardson, þá er það tilfinningaklámið bæði í fjölmiðlum og á blogginu, uppúrveltingurinn snýr við í manni maganum. 

Það er fjallað um dauða þessarar konu eins og ekkert geti mögulega verið merkilegra í heiminum.

Kynhneigðarsaga fjölskyldu hennar er tíunduð.  Afinn var bíari, pabbi hennar líka.

Só?

Ég get endalaust pirrað mig á vægi mannslífa í heiminum.

Tugir þúsunda barna látast úr sjúkdómum í Afríku á hverjum degi.

Annar eins fjöldi deyr úr hungri.

Tugþúsund litlar sálir sem ekkert hafa til saka unnið og það fer fram hjá flestum.

Það er að minnsta kosti ekki forsíðufregn neins staðar.

En deyji einhver sem telst til merkilegri persóna þá er eins og fólk gráti sig í svefn.

Ég tek fram að mér finnst verulega sorglegt þegar fólk deyr ótímabærum dauða.

En börn sem líða skort, þjást af sjúkdómum, eru notuð sem þrælar, seld eins og búfénaður, standa mér nærri hjarta og koma í veg fyrir að ég geti fallið í sorgarsjokk yfir svona fréttum.

En auðvitað er þetta harmafregn.

Það eru hins vegar allir harmarnir sem við heyrum ekki um sem ég hef áhyggjur af.


mbl.is Natasha Richardson látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hands off"

Við lestur þessarar fréttar fékk ég hroll niður eftir bakinu.

Getur þetta verið rétt? 

"Fullyrðingar fyrrverandi nektardansara á Goldfinger um að þar væri stundað vændi, dansarar hefðu verið sviptir frelsi og að eigandi staðarins hefði tekjur af vændissölu dansara, leiddu ekki til sérstakrar rannsóknar af hálfu lögreglu höfuðborgarsvæðisins."

Ég hef það sterklega á tilfinningunni að eigandi Goldfingers sé á sér samningum með sinn rekstur.

Að einhver haldi verndarhendi yfir honum og starfssemi hans.  Svona "hands off" stefna.

Amk. virðist það ekki vekja lögregluna til verka að heyra af mansali, frelsissviptingu og öðrum alvarlegum lög- og mannréttindabrotum frá konu sem er fyrrverandi innanbúðar.

Ég hefði haldið að þessar fréttir hefðu heldur betur kveikt í yfirvaldinu sem segir að það þýði ekki að málið hafi ekki verið rannsakað þó það hafi ekki leitt til ákæru.

Hvaða svar er nú það?

Annars lagði Siv Friðleifsdóttir fram frumvarp til laga um fortakslaust bann við nektardans, á þinginu í gær.

Algjörlega tímabært það og ég fagna því innilega.

Þessi hæstaréttardómur gagnvart blaðamanni Vikunnar er svo annað hneyksli sem þarf að skoða nánar og verður vonandi gert.

Stundum (oft) fæ ég það á tilfinninguna að karlaklúbbur Íslands sé með fingurna alls staðar og ráði öllu því sem hann vill ráða.

Og að allt öðru.

Var að setja inn hlekkji á húsband og skátvibbana mína á Myspace.  Kíkið.


mbl.is Ekki ráðist í rannsókn vegna Vikumálsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er ekki Jóhanna

 kyndilför

Halló, ég er ekki fyrr búin að blogga um andúð mína á persónudýrkun fyrr en ég fæ þessa aulahrollsvekjandi frétt í andlitið þegar ég kíki á Mogga í sakleysi mínu.

Hvernig væri að sýna fólki þá lágmarks virðingu að leyfa því segja nei ef það kýs svo.

Eða bara leyfa því að hugsa sig um?  Ha?

Það er einhver "ég geri þér tilboð sem þú getur ekki hafnað"-bragur á þessu.

"Ef þú verður ekki formaður Jóhanna og hættir þessari þvermóðsku þá verður blysför!"

Ég myndi kjósa Sjálfstæðisflokkinn og borða hval ef það væri verið að undirbúa blysaðför að mér.

Mér myndi líða eins og það væri verið að "stalka" mig.

En ég er ekki Jóhanna, þannig að það er best að ég þegi.

En eitt er á hreinu, ég fer ekki í neitt árans kyndilpartí.

Farin að tilbiðja eitthvað.


mbl.is Blysför til Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýir tímar - nýir siðir

Í kjölfar hrunsins mikla er ekkert eins og það var.

Grunnkröfur búsáhaldabyltingarinnar hafa verið uppfylltar.

Í viðtengdri frétt er talað um að mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér gæti orðið í komandi kosningum.

Ég segi nú bara að ef fólk er ekki búið að átta sig á að gamla hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins er mannfjandsamleg þá er það sama fólk sennilega heillum horfið.

Og af því að ekkert er sem fyrr þá vill ég sjá ný vinnubrögð í kosningum, nýja möguleika.

Ég vil vita að hverju ég geng.

Ég reikna með (og ætlast til af minni alkunnu hógværð) að félagshyggjuflokkarnir (Framsókn?) stofni kosningabandalag og gangi þar með bundnir til kosninga.

Kerfið sem hefur verið við lýði er eins og að bjóða kjósendum að taka þátt í happdrætti.

Miði er möguleiki.

Þú kýst mig og færð mögulega þá stjórn sem þér hugnast.

En jafn líklegt er að þú fáir stjórn sem gengur þvert á vilja þinn og lífsgildi.

Þetta er engum bjóðandi og nú viljum við breytingar.

VG og Samfylking hljóta að uppfylla þessa kröfu.

Svo og ný framboð sem eiga mögulega eftir að koma fram.

En hvað gerir Framsókn?

Stendur sú gamla drusla fyrir happadrættinu í ár eða er hún komin til byggða?

Tjuss.

 


mbl.is Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brotnar forsendur

Seðlabankafrumvarpið verður tekið til þriðju umræðu í dag og ég ætla að fylgjast með.

Svo er það afgreitt.  Tékk, tékk.

En ég var að blogga í gær um frestun á launahækkun fyrir hinn almenna launamann.

Forsendur brotnar og þá verður ekki af henni.

Nú var ég að lesa um vaktaðan bílakjallara í Faxafeni sem Hannes Smárason er skráður fyrir og mun hafa að geyma glæsibifreiðar fyrir hundruð milljóna króna.

Eigendur bifreiðanna munu vera Hannes sjálfur, Jón Ásgeir og Þorsteinn M. Jónsson.

Ég verð orðlaus, reið og það misbýður réttlætiskennd minni að það megi ekki hrófla við eigum sukkbarónanna á meðan enginn skirrist við að ráðast á þá sem ekkert hafa til að láta í púkkið.

Ef talað er um að frysta eigur þeirra sem stærstu sök eiga á því hvernig fyrir okkur er komið kemur falski mannréttindakórinn og veinar um brot á eignarrétt.

Það er búið að brjóta eignarrétt fólks í þessu landi sem nú missir hús og vinnu vegna bankahruns.

Þessi mannréttindakór þegir þunnu hljóði þegar eignaupptökur á eigum almennings eiga sér stað af því fólk getur ekki lengur borgað vegna breyttra forsenda.

Á að ræða þetta frekar?

Nebb, kyrrsetjum eigur þessara manna svo geta þeir fengið þær aftur þegar og ef þeir eru eins blásaklausir og þeir vilja vera láta.

Manni er farið að þyrsta í réttlæti.

En Seðlabankinn er málið í dag.

Mikið skelfing er ég orðin þreytt á því máli.


mbl.is Seðlabankafrumvarp afgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíða, skoða, drolla og hangsa

Var einhver hissa á að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki tilbúinn í persónukjör í næst komandi kosningum?

Ekki ég.

Bíða, skoða, drolla og hangsa einkennir vinnubrögð íhaldsins og hefur gert lengi.

Svo er auðvitað best að breyta sem minnstu, allt of mikið í húfi að riðla kerfinu.

Steingrímur J. segir ásetning ríkisstjórnarinnar að koma málinu áfram þannig að við getum þá valið fólk af listunum í vor.

Frábært.

Jabb. Við sjáum til.


mbl.is Vinna áfram að persónukjöri þótt ekki náist sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað varðar okkur um það?

Alltaf gott þegar dílerar og ofbeldismenn eru gómaðir.

En fyrirgefið, hvað kemur almenningi við, við hverja hinn ákærði og nú dæmdi talaði í síma?

Það er verið að gera mikið mál út af því að um amk. einn "frægan" einstakling var að ræða, mann sem hafði talað við dílerinn í síma og mögulega verslað af honum.

Maðurinn "frægi" var ekki fyrir dómi, hann var ekki til umfjöllunar vegna eins eða neins og þar af leiðandi varðar okkur ekkert um það.

Ef fíkniefnalögreglan hefur eitthvað á fólk þá væntanlega taka þeir viðkomandi og setja í járn.

Ef ég hringdi í einhvern sem seldi landa og ætti við hann ruglaðar samræður (sem er ekki saknæmt síðast þegar ég gáði) ætti ég þá á hættu að röddin á mér kæmi fyrir dóm, væri skráð í dómsskjöl og ég missti svo vinnuna jafnvel í þokkabót?

Maður heyrir bara hringla í handjárnunum í fjarska.

Eins gott að passa sig á hvað mann segir og við hvern og ég er ekki að grínast.

Svona er fólk tekið af lífi á Íslandi.

Skamm.


mbl.is Nöfn tekin út úr dómi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúxusvandamál óskast!

Mig vantar svo sárlega lúxusvandamál til að velta mér upp úr, en ég sakna þess tíma þegar ég hafði þau í kippum til að auðga með líf mitt.

Eittvað í líkingu við eftirfarandi:

Á ég að fá mér rauðar eða bronsaðar strípur, klippa eða særa á mér hárið?

Hvernig kjól á ég að fá mér fyrir þennan eða hinn atburðinn?  (Reyndar ekki margir atburðir á minni dagskrá en samt).

Á ég að kaupa lamb eða svín í kvöldmatinn?

Leigja spólu?

Setja í vél núna eða á morgun?

Núna eru aðrir tímar, mikilvægi mitt, eða skortur á mikilvægi er mér djöfullega ljóst.

Hjálparleysi mitt í kreppunni er mér hins vegar morgunljóst.

Það gargar á mig þegar ég opna augun, það er það síðasta sem ég hugsa um þegar ég leggst til svefns.

Einkum hef ég áhyggjur af börnunum mínum og barnabörnum.

Ein býr þegar í öðru landi með eitt barnabarnið mitt.

Kannski flytur önnur í haust með tvö til viðbótar.

Svo er það sú þriðja með þann elsta; fer hún kannski líka?

Svo er fólk hissa á maður sé reiður.  Að fólk flykkist út á göturnar og láti heyra í sér.

Ég skal segja ykkur eitt; Ég er fjandinn hafi það agndofa á því að 95% þjóðarinnar séu ekki á götum úti því það erum við öll sem erum að borga brúsann!

Ég horfi á Alþingi og mér er gjörsamlega óskiljanlegt það siðleysi sem ég verð vitni að þegar ég horfi á fólkið sem svaf á verðinum, eða gerði glæpamönnunum auðvelt fyrir að ræna okkur nánast öllu sem við eigum, rífa kjaft úr ræðustól.

Eitt skal ég segja ykkur landsmenn góðir, að ef þið kjósið yfir ykkur þau stjórnvöld sem ábyrgðina eiga, sem hafa komið okkur í þrot og neita að gangast við því, þá eruð þið samsek.  Hvorki meira né minna.

Þið sendið með því skýr skilaboð til komandi kynslóða.

Við létum taka ykkur í rassgatið, gjörið þið svo vel!


mbl.is Skerða lífeyri um allt að 10%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Götustrákar Seðlabankans

Geirnaglinn Óli Klemm, þessi sem varð fyrir "ofbeldinu" fyrir utan Borgina á gamlárs þið munið, þessi sem náðist upp á band með bróður sínum "verja" sig fyrir brjáluðum múgnum, hefur enn einu sinni lent í að á hann er ráðist, þar sem hann var blásaklaus að keyra á sinni sjálfrennireið til vinnu.

Hann segir að mótmælandi hafi barið bílinn hans að utan með kylfu.

Mótmælandinn segir Óla í Klemmu hafa keyrt á sig.

Hvorum á maður að trúa?

Fórnarlambinu Ólafi Klemenssyni eða

mótmælandanum Hermanni sem segir hið gagnstæða?

En til að hressa upp á gullfiska minni okkar almennings þá er hér myndband af Óla í Klemmu og bróður hans (Óli er þessi óframfærni með vindilinn), verjast árásum mótmælanda við Borgina á gamlárs.

Það er einfalt, klippt og skorið hvað mig varðar, mótmælandinn fær mitt atkvæði og ekki orð um það meir.

Óli er í Klemmu.  Það er nokkuð ljóst.

Það er götustrákabragur á Seðlabankanum, þessari stofnun sem tekur sig svona líka hátíðlega.

Davíð er í stríði, engu eirt, engir fangar teknir -púmm pang og sviðin jörð.

Moggaritstjórinn er meira að segja búinn að fá nóg af óþekktaröngum Seðlabankans.

Halló, er þá ekki fokið í flest skjól?


mbl.is Fækkar við Seðlabankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óeirðabílar það sem koma skal?

Ég er ekki hissa á að lögreglustjóri hafi ætlað að flytja inn óeirðabíla frá dönsku lögreglunni.

Vanir menn vönduð vinna eða þannig.

Yfirvöld að fyrrverandi dómsmálaráðherra meðtöldum hafa viljað auka vopnabúr lögreglunnar, gasið hefur óspart verið notað, rafbyssur hafa verið í umræðunni og því þá ekki brynvarðir bílar á óþæga mótmælendur?

Þetta væri fyndið ef tilhugsunin væri ekki svona skelfileg.

Að það hafi í alvörunni átt að grípa til aukins ofbeldis gagnvart borgurum í friðsömum mótmælum.

Með friðsömum mótmælum á ég við mótmæli án líkamlegs ofbeldis, sem 99,9% mótmælenda stunduðu, þar á meðal ég sjálf.

Og endilega hættið að rugla saman eignaspjöllum og ofbeldi.

Hávaða og ofbeldi.

Eggjakasti og ofbeldi.

Lámark að hinir gaggandi verjendur lögregluofbeldis geri greinarmun þarna á.

Hvenær koma svo byssurnar í umræðuna?

Hvað segir Björn Bjarnason við þessari "hugmynd" lögreglustjórans?

Nú er fyrirsjáanlegt að mótmæli verði mun algengari en áður var.  Fólk mun grípa til aðgerða til að veita stjórnvöldum aðhald ef í harðbakka slær eða þegar einhver sofnar á verðinum.

Verða óeirðabílar notaðir til að brjóta fólkið á bak aftur?


mbl.is Vildi ekki beita meiri hörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 2986898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.