Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

..í aðsniðinni treyju með undarlegum ermum

Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur gefa ekki upplýsingar um fjármál sín, hinir flokkarnir gera það hins vegar.

Þessir flokkar geta svo malað um gegnsæi þar til þeir falla í gólf, ég tek ekki mark á þeim.

Ég gef mér að þeir flokkar sem ekki eru með sitt á borði séu að fela bæði tölur og stuðningsaðila.

En að máli málanna.

Flokkarnir eiga að gera með sér samkomulag um hvernig staðið verði að kosningabaráttu.

Við erum nánast gjaldþrota þjóð í skelfilegri kreppu, nú skulum við sýna aðhaldssemi.

Engar auglýsingar í sjónvarpi og blöðum.

Það mætti reyndar gefa út kynningarbæklinga og láta þar við sitja.

Það er ekki nokkur leið fyrir ný öfl að ná til almennings í samkeppni við stóru flokksdurgana með fjármagnið á bak við sig.

Ég veit ekki hvort glansbæklingar eða sjónvarpsauglýsingar hjálpi fólki að gera upp hug sinn.

Annað hvort ertu að kjósa það sama og síðast "afþvíbara" og ættir nærri því að vera í kosningabanni vegna ábyrgðarleysis.

Nú eða þú tekur upplýsta ákvörðun eftir að hafa kynnt þér stefnu flokka, hverjir eru í framboði og hvað þú merki á eigin skinni (lesist buddu).

Mér finnst alltaf svo merkilegt að kjósa.  Ég var alin upp við að það væri eitt af grunnréttindum mínum sem manneskju og ég ætti að fara vel með þann rétt.

Því hugarfari hef ég skilað áfram til afkomenda minna.

Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef þær nýttu ekki kosningaréttinn stelpurnar mínar, þ.e. þessar tvær sem eru í aðstöðu til þess.

Ég myndi frekar vilja að þær kysu íhaldið heldur en að þær létu hjá líðast að mæta á kjörstað.

Ég kýs til vinstri, nú eða ekkert,  skila auðu ef þannig liggur á mér.

En frá því að ég fékk fyrst kjörseðil í hönd hef ég aldrei kosið miðju eða hægri.

Ef ég verð uppvís að slíku, leggið mig inn.

Í aðsniðinni treyju með undarlegum ermum.


mbl.is Dýr kosningabarátta er ekki í spilunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úðafingur

Mig grunaði að þegar lögreglan byrjaði að nota piparúða liði ekki á löngu áður en það yrði daglegt brauð að hann væri rifinn upp og notaður af litlum tilefnum.

Þessa dagana finnst mér úðafingur lögreglunnar ansi viljugur til verka.


mbl.is Lögregla beitti piparúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynhneigð hvað?

Ég hef mikið álit á Jóhönnu Sigurðardóttur sem stjórnmálamanni og hef alltaf haft.  Það er afstaða sem ég hef tekið þverpólitískt með sjálfri mér.

Það lýsir af henni heiðarleikinn, einurðin og hún hefur aldrei verið tekin í bólinu við að hygla sjálfri sér.

Það er nóg fyrir mig.  Kynhneigð hennar skiptir ekki máli en ég get skilið að talsmönnum samkynhneigðra þykir þetta skref í átt til jafnréttis.

Ég kannast líka við Jónínu Leósdóttur, blaðamann og rithöfund.  Hún skorar fullt hús hjá mér líka.

Um kynhneigð fólks stendur mér á sama.

Athugið eitt.  Ef Jóhanna verður forsætisráðherrra þá er hún fyrsti íslenski kvenforsætisráðherrann.

Pælið í því og það algjörlega án tillits til kynhneigðar.

Hvað varðar samkynhneigða forsætisráðherra þá ætti fólk ekkert að missa sig í yfirlýsingunum.

Málið er að við gætum hafa átt fleiri en einn og fleiri en tvo hommíska forsætisráðherra án þess að við hefðum hugmynd um.

Bara í skápnum offkors.

Mikið er annars merkilegt hvað umræðan getur þvælst út í smáatriði sem engu skipta.

Kannski verður þetta þannig eftir nokkur ár að kynhneigð og smekkur í kynlífi yfirleitt verður skráður á umsóknareyðublöð þegar við sækjum um vinnu.

Allt upp á borðinu en aðeins öðruvísi en ég hafði séð það fyrir.

Já kannski.

 


mbl.is Jóhanna vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við höfum hvort annað.

Ég hef setið/staðið á nokkuð mörgum baráttufundum í lífinu og vegna hinna ýmsu tilefna en ég hef aldrei nokkurntímann upplifað aðra eins samstöðu og baráttugleði eins og á fundinum í dag og í pottabúggíinu eftir fundinn.

Ég er reyndar með verk í höndunum eftir að hafa trommað úr mér allan mátt en það var vel þess virði.

Fundurinn í dag er sá fjölmennasti sem haldinn hefur verið frá hruninu.

Og auðvitað bað Hörður Torfa forsætisráðherra afsökunar, hann er heil og væn manneskja.

Ræðurnar voru frábærar.  Hildur Helga brilleraði, Jakobína Ingunn líka, blaðamaðurinn sem hélt fyrstu ræðuna var magnaður.

Og nú skortir mig lýsingarorð. 

Ætli ég verði ekki að segja að ég sé ástfangin af Guðmundi Andra.

Róleg, ég er ástfangin af ræðusnilld mannsins, hvernig hann kemur frá sér hugsunum sínum og ég fór nærri því að skæla þegar hann hætti að tala.

Þrátt fyrir að ég væri að drepast úr kulda á hæluðu stígvélunum mínum.

Væri komin með bláar varir og skjálfta í útlimi.

En.. það rjátlaðist af mér þegar við hófum að búggíast.

Það sem ég er að reyna að segja er þetta:

Hafi einhverjir haldið að fólk legði upp laupana af því að það er hálfgildings búið að lofa kosningum þá eru þeir úti að aka gjörsamlega villtir og hraktir.

Hálfkák skilar engu.

Það er einhver neisti í þjóðinni sem ég á erfitt með að skilgreina, fólk ætlar að ná fram breytingum.

Mikið skelfing þykir mér vænt um að hafa staðið með samlöndum mínum á Austurvelli í dag.

Eins og Guðmundur Andri sagði réttilega:

Við höfum hvort annað og það verður ekki frá okkur tekið.

Farin í ýmis heimilisleg fyrirkomulög.

Let´s boogie


mbl.is Baðst afsökunar á ummælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upp með hrærivélarnar

Sextándi mótmælafundurinn á Austurvelli er í dag.

Þegar ég mæti á mótmæli þá geri ég það ekki vegna þess að sóandsó samtökin eða sóandsó mennirnir standa fyrir fundinum.

Ég þakka einfaldlega fyrir að geta fengið tækifæri til að mótmæla því skelfingarástandi sem yfir okkur er að dynja.

Ég mæti fyrir sjálfa mig og afkomendur mína.

Það er ekkert flóknara en það. 

Það mun færast í aukana að reynt verði að drepa málum á dreif, fá fólk til að draga sig í hlé og hætta hávaðaframleiðslunni.

Sýna biðlund, svigrúm, skilning og gefa andrúm og leyfa fólkinu sem keyrði okkur í kaf að halda áfram að dunda sér við það.

Það verður ekkert heilagt í viðleitninni við að svæfa okkur aftur.  Það verður höfðað til ýmissa tilfinninga eins og samúðar, vorkunnar, reiði, og paranoju.

Það verður reynt að etja okkur saman. 

Okkar ábyrgð felst í því að láta þetta ekki á okkur fá.

Mótmæli af öllum gerðum eru stjórnvöldum erfiður ljár í þúfu.

Stundum þarf maður að vera óþægilegur en ég get fullyrt að það þarf mikið að ganga á áður íslenskur almenningur fær nóg og ákveður að gera eitthvað í því. 

Því miður.

Við erum alltof hlýðin þjóð.

Betur væri að við hefðum sett hnefann í borðið strax.

Í staðinn fyrir að hlæja eins og fífl af auðjöfrum og pótintátum þeirra í stjórn landsins.

En það er búið og gert.

Núna, hins vegar, er það úthaldið sem skilar okkur áfram.  Áfangasigur er unninn.

En betur má ef duga skal.

Upp með hrærivélarnar og skeiðarnar.

Ókei, er að fara aðeins fram úr mér hérna, pottlok eru fín.

Farin að fremja eitthvað áhugavert.

 


mbl.is Mótmæli halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klofnir persónuleikar í bloggheimum?

Það er varla að ég hafi geð í mér til að tengja við þessa frétt, ekki vegna innihalds fréttarinnar heldur vegna orðfæris á góðum hluta þeirra bloggfærslna sem tengdar eru við frétt.

(Og ég las bara fyrirsagnirnar).

Ég er sammála Herði Torfasyni um að kosningar í vor eru hænuskref í rétta átt.

Hann hefði að sjálfsögðu getað komist öðru vísi að orði um veikindi Geirs Haarde, ef þetta er rétt eftir honum haft.

Ég ætla að láta Hörð njóta vafans þar til annað kemur í ljós.

Ég er líka sammála Herði varðandi mótmælin, við þurfum sem aldrei fyrr að láta í okkur heyra.

Ef þessi ríkisstjórn heldur áfram, og fer í kosningabaráttu þar að auki, heldur fólk að henni verði úr verki?

Það er ekki eins og það liggi mikið eftir ríkisstjórnina frá því að hrunið varð þegar hún fékk sitt vinnusvigrúm, andrými og allt það kjaftæði sem sífellt var verið að sífra um.

En það er svo týpískt fyrir tvískinnung sumra að fá hland fyrir hjartað þegar þeir lesa um það sem haft er eftir Herði,sem ég get alveg tekið undir að hefði mátt orða með aðeins penni hætti, gapa af vandlætingu og geysast svo fram á bloggvöllinn í tugatali, með lyklaborð á lofti.

Sýnishorn af orðalagi úr fyrirsögnum þessa tillitsama og viðkvæma  fólks, fyrir hönd sumra - ekki allra, gjörið þið svo vel:

Úrþvætti, aumingi, farðu í rassgat Hörður, siðleysingi, fífl,  Hörður með sótsvart innræti og svo mætti lengi áfram telja.

Gott og vel, kannski eru þessir bloggar ofurviðkvæmir fyrir hönd þeirra sjúku, þola ekki kaldranalegt tal um veikt fólk, þá tek ég ofan fyrir því.

En hvar eru þessi skilningsríku góðmenni þegar þeir blogga við fréttina?

Eru þetta klofnir persónuleikar upp til hópa?

Ég er algjörlega gáttuð yfir þessum mjög svo ólíku birtingarmyndum á persónuleikum.

En burtséð frá því, það er á hreinu, við þurfum að koma ríkisstjórninni frá.

Það þarf að gerast strax í gær og við höldum að sjálfsögðu áfram að mótmæla.

Og í leiðinni sendi ég bæði Geir Haarde og ISG hlýjar batakveðjur.

Maður þarf ekki að láta af skoðun sinni þó fólk veikist og maður vilji því allt hið besta.

Svo á auðvitað ekki að persónugera vandann eða hvað?


mbl.is Hænuskref í rétta átt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Appelsínugula byltingin er hafin - úje

appelsínuguliborðinn

Það er enn slatti af fólki niður við Alþingi og flestir í appelsínugulu. Sú litfagra bylting er hafin og ég er hluti af henni.

Það má sjá á síðunni minni, ég er ekkert fyrir hálfkák, allt líf mitt er appelsínugult fram að þjóðstjórn, eða réttara sagt, fram að stjórnarslitum.  Frá því verður ekki vikið.

Appelsínugult er litur búddistanna.  Það eru flott trúarbrögð.  Fylgjendur þeirra eru ekki að troða trú sinni upp á annað fólk, elska friðinn og svona. 

Ef ég vildi endilega ganga í trúfélag þá færi ég þangað.  En ég vil ekki fæðast aftur sem kakkalakki eða könguló, það er bara ekki ég.  Ég vil fæðast aftur sem John Lennon eða Martin Luther King.

Já, ég á mér draum.

Appelsínugulur matur er fínn.

Gulrætur og appelsínur.  Nammi.

Blóm eru falleg í þessum tón og fleira og fleira.

Hér verða borðaðar gulrætur út í eitt þar til yfir líkur.

Ég vil benda ykkur á tilmæli frá Röddum fólksins að mótmæla ekki eftir klukkan átta annað kvöld og á laugardagskvöldið.

Þá er djamm í bænum og djammararnir myndu kannski vilja slást í hópinn með afleiðingum.

En á laugardeginum verður fundur á Austurvelli kl. þrjú eins og venulega.

Svo má auðvitað fremja trommuslátt niðri við Alþingi allan guðslangan morgundaginn.

Svei mér þá ég á ekki til appelsínugula flík í öllu mínu fatasafni.

Ekki lit að sjá í skápunum.  Ekki einu sinni hálsklútur.

Allt svart, brúnt og grátt.

Hvernig átti ég að vita að ég væri á leið í byltingu og að mig myndi vanta júníform?

Jæja, farin að lúlla.

Friður og hamingja veri með yður öllum.

Hari Kristna.

P.s. Ég ætla að segja ykkur það svona í trúnaði að í mínum huga heitir þessi bylting ekkert annað en pottabyltingin.


mbl.is Mótmælt í góðri sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kakófónía dauðans

Þessi sláttur úr og í varðandi kosningar er hreinlega að gera mig brjálaða.

Hvað er að þessum stjórnaliðum?

Það er ekki hægt að segja að þeir tali tungum tveim einu sinni, það er talað með tungu á mann!

Ég eins og fleiri skynja spennuna í Samfylkingunni, enda ekki nema von, það er farið að hitna all verulega undir þeim.

Meirihluti þjóðarinnar styður ekki þessa ríkisstjórn.

Össur segir blátt nei við stjórnarkreppu.  Halló monthaninn þinn, kreppan er nú þegar fyrir hendi.

Ég hef reyndar tilhneigingu til að finnast Össur vera að selja Norðurljósin í hvert skipti sem hann opnar munninn.  Hann er alltaf að gera milljarða díla út um heimsbyggðina.

Af hverju heldur þetta fólk að við klárum okkur ekki út úr neinu nema að akkúrat ÞAÐ haldi um taumana?

Eins og þeir hafa nú verið frambærilegir á dansgólfinu til þessa.

Dottið um allt eins og sauðdrukknir svallpésar á þorrablóti.

Ingibjörg Sólrún er veik og mér finnst að hún eigi að fá frið til að láta sér batna, láta málin í hendurnar á öðrum á meðan hún nær sér.

Eftir að hafa hlustað á hana, Össur, alla þingmennina í Kastljósi kvöldsins ásamt Geir Harðsnúna og Þorgerði Mannasætti Katrínu þá læðist að mér illur grunur.

Ég hef allt gengið grunað um að hugsa bara um eitt, hafa áhyggjur af aðeins einu.

Og það er hvernig þetta komi nú allt sem best út fyrir þau persónulega og flokkslega, hvert og eitt.

Þjóðin er búin að segja þeim á allan hugsanlegan máta að við viljum ekki láta stjórnina "hjálpa" okkur, ekki leiða okkur yfir götu einu sinni, vér viljum lifa fjandinn hafi það.

Átta sig, játa sig sigraðan og hoppa frá völdum.

Það er komið gott.

Þangað til verður framin kakófónía dauðans út um víðan völl.


mbl.is Ingibjörg vill kosningar í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Táragas af lager?

Vaknaði yfirmaður vopnadeildar lögreglunnar upp við vondan draum nýlega og hugsaði; Jesús minn á galeiðunni, táragasið er komið yfir síðasta söludag? 

Ekki verið notað síðan 1949. 

Klára birgðir.  Gösum almenna borgara í skjóli myrkurs.

Í alvörunni er verið að klára lagerinn af efnavopnum hjá lögreglunni?

Ég hef séð bæði með eigin augum og á ljósmyndum að lögreglan notar efnavopnið sem tengt er við pipar ansi frjálslega.

Aftan á fólk, framan í ljósmyndara og bara þar sem þeim dettur í hug að sprauta því.

Piparúðann nota þeir á óvopnaða borgara við skulum ekki gleyma því.

Kylfurnar eru komnar á loft, við höfum séð fólk með ljóta áverka á höfði eftir laganna verði.

Valdstjórnin er orðin hrædd.

En mér finnst ekki í lagi og í raun algjörlega óréttlætanlegt að mótmælasníkjudýr séu að skemma fyrir öllum þeim þúsundum Íslendinga sem hafa mótmælt frá hruninu.

Það er aldrei í lagi að beita fyrir sig ofbeldi til framdráttar málstað.

Bara svo það sé á hreinu.

En við megum ekki láta sníkjudýrin skemma fyrir málstaðnum.

Það eru upprennandi hvítliðakandítatar tilbúnir í slaginn.

Höldum áfram að mótmæla ekki láta sníkjudýrin stöðva frábæra hreyfingu borgaranna.

Svo má hafa í huga að stærstur hluti lögreglumanna er prúður og penn hópur opinberra starfsmanna sem er einungis að vinna vinnuna sína.

Ég er ekki í stríði við lögregluna.

Flestir þeirra eru ekki í stríði við fólkið.

Verum prúð.

Hér má sjá fína leið fyrir hinn venjulega mótmælanda til að aðskilja sig.


mbl.is Táragasi beitt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyfi byltingin!

Það er ekki vafi í mínum huga.

Stjórnin er teknískt fallin, það er einungis spurning um hvort hún fellur formlega fyrir helgi eða eftir.

Ekkert hvort heldur hvenær.

Við vorum að ræða saman ég og húsbandið en hann var að koma úr vinnu og sagði mér að bærinn væri fullur af brosandi fólki á öllum aldri.

Ég fékk alveg hlýju í hjartað vegna þess að fólk hefur haft svo fá tækifæri til að brosa undanfarið.

Ég sagði mínum heittelskaða það sem ég segi við ykkur,

allt væri við það sama hefðu mótmælendur ekki verið svona virkir, úthaldsgóðir og harðákveðnir í að hafa áhrif á gang mála.

Ég er svo stolt af okkur öllum, en mest af dálítið sérstökum konum sem ég þekki og hafa nánast búið niðri í bæ undanfarið.

Skessan , Katrín, Lára Hanna, María ásamt Hrönn sem kemur alla leið í bæinn með Selfossstrætó og fleiri og fleiri.

En björninn er ekki unninn, fullt af fólki er niðri við Alþingishús.

En það er komin hreyfing á hlutina og það er almenningi að þakka.

Lifi byltingin!


mbl.is Samþykktu ályktun um stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.