Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Kjaftasaga

 

Einu sinni fannst mér gaman af kjaftasögum, þá var ég tuttuguogeitthvað og í mótun.  Hvað get ég sagt, við höfum öll þetta element en við viljum ekki öll kannast við það, það er heila málið.

Svo varð ég fyrir barðinu á sömu sögum og það var ekki skemmtileg upplifun, engin leið að leiðrétta það sem öðrum er sagt í trúnaði og segja enn öðrum í trúnaði og biðja þann að fara ekki lengra með það og Gróa á Leiti er á þessu stigi máls farin að fá raðfullnægingar.  Náið þið ferlinu?

Eftir að hafa upplifað kjaftasögurnar á eigin skinni lærðist mér að taka öllu með fyrirvara sem ég heyri um náungann.

Helvíti vont að þurfa að rata í ógöngur sjálfur til að fatta.

En þessi færsla er ekki endilega um það.  Hún er um löngunina til að kjafta frá.

Mig dauðlangar nefnilega að blaðra því sem er í gangi í kringum mig en ég ætla ekki að gera það.  Ekki strax og kannski aldrei.  Fer eftir flóði og fjöru.

Róleg þetta eru ekki stórmál - þetta er líka færsla um að kunna að þegja.

(Engin skítakomment um það ég kunni ekki að halda kjafti, sé bloggandi um allt út í eitt.  Það er heilagur sannleikur en ég er ekki með skúbb blæti aularnir ykkar).

Aftur að kjaftasögunum.  Á milli fyrsta eldheita ástarsambands milli mín og húsbands sem átti sér stað sjötíuogeitthvað og fram að því næsta sem hófst nítíuogeittvað og stendur enn, fékk ég reglulega fréttir af honum úr hringiðunni sem. eins og allir vita, er pottþéttur fréttamiðill.  Hehemm.

Hringiðan sagði:

Alls konar lygasögur, krassandi og hrollvekjandi.  Næstum allar ósannar en sjaldan reykur án elds.

Eða hvað?

Sá spekingur sem það sagði hefur greinilega aldrei í gufubað komið.

Og þið sem hélduð að hér væri eitthvað bitastætt að finna eruð illa svikin og tekin í bælinu.

En öll ljótu leyndarmálin getið þið lesið um í sameiginlegri ævisögu minnar og húsbands sem kemur von bráðar.

Vinnuheiti þeirrar sögu eru tvö.

"Brothers in arms" og "Partners in crime".  Útgefandi verður forleggjarinn hjá Con.Art.Unlimiited.

Lalallala.

Skammistykkar villingar snillingar.

Farin að huga að leyndarmálinu. Á að vera mætt fjörgur sjarp.

Vá hvað það er gaman að lifa.  Það búbblar í mér lífsgleðin

Örugglega af því ég er edrú.

Nananabúbú.


Er G-bletturinn til?

 gblettur

Eigið þið ykkur fullnægingarfortíð?  Ef svo er þá er að leita sér hjálpar.  Fullnægingar eiga væntanlega að vera í nútíð til að skipta máli í lífi fullnægingarþegans.

Meira andskotans ruglið.

Er heimurinn einhverju bættari með því að vita að ef kona steðjar áfram, skreflöng og einbeitt á göngu þá hefur hún fullnægingarsögu upp á G-blett á enninu?

Eða ef þú silast áfram skref fyrir skref með leggi samanklemmda að þá er G-bletturinn að detta niður úr leggöngum þínum og stórslys í fullnægingardeildinni yfirvofandi?

Alveg er mér sama hvar minn G-blettur er eða hvort hann er til staðar yfirhöfuð. 

G-bletturinn er eitthvað sem þú ert ekkert að láta taka myndir af ef þú færð það ekki.  Þú hendist ekki til kvensjúkdómalæknis og biður hann að athuga hvort G-bletturinn sé bólginn eða á flakki upp undir brisi af því að þú fékkst það ekki í gærkvöldi, er það?  

Þú ert ekki að úti að borða í góðri líðan og rýkur svo allt í einu á fætur og tekur tilhlaup að útidyrunum, farin heim á innsoginu bara af því að G-bletturinn er að drepast úr þreytu.  Ég held ekki.

Sko konur fengu langar-, stakar-, öflugar-, örar-, stuttar-, vart merkjanlegar- og raðfullnægingar löngu fyrir uppgötvun G-blettsins.  Hvað er að?

Svo koma núna einhverjir rannsóknarperrar sem fá kynferðislega út úr því að gægjast á konur labba (ekki versta blæti í heimi, viðurkenni það) og gera úr því rannsókn sem þeir geta falið sig á bak við.

Leim.

Ekki það að mér sé ekki slétt sama um þennan blett þarna, eða þessa rannsókn yfirhöfuð en mig langaði bara svo rosalega að blogga um G-blettinn.

Það er svo kyn-legt.

Súmí.


mbl.is Göngulagið kemur upp um G-blettinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó nei - ekki aftur

Paul Ramses er kominn heim, amk. á meðan verið er að skoða umsókn hans um pólitískt hæli.

Hvað sem Björn Bjarnason segir um það mál þá vita allir að mál hans var endurskoðað vegna þess að almenningi fannst afgreiðsla málsins ómannúðleg og Íslendingum til háborinnar skammar. 

Ef einhver hefur talið sér trú um að mál Ramses væri ljót undantekning á framkvæmd mála hjá útlendingastofnun þá hefur sá hinn sami svamlað í forarpytt afneitunar og þar er ég fremst í flokki. 

Ég hafði raunar ekki hugmyndaflug í þetta dæmi sem kemur fram í viðtengdri frétt.

Að skilja eigi 23 ára ungmenni frá fjölskyldu sinni úr landi og út á gadd og guðleysi.

Og það sex árum eftir að hann kemur til landsins, þar sem hann vinnur fyrir sér, borgar sína skatta og gjöld og hagar sér eins og aðrir fyrirmyndar Íslendingar.

Ef lögin eru svona þá gjörið svo vel að breyta þeim núna!

Þetta er engin hemja að hafa lög sem stangast á við alla mannúð, skilning og heilbrigða skynsemi.

Ég er til í að stilla mér upp niðurí ráðuneyti einn ganginn enn og sama er að segja um alla hina sem gerðu það til stuðnings Ramses.

Hver maður (þar með talinn BB og hans embættismenn) hljóta að sjá að svona kemur maður ekki fram við fólk.

ARG og í veggi.


mbl.is Kom 17 ára – sendur úr landi 23 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frygðarbanar og aðrir kynhvatarmorðingjar

 Henry8

Ég verð að játa að aldurinn er farinn að trufla mig verulega.

Eins og t.d. varðandi hvað er sexý karl og hvað ekki.  Rólegan æsing samt ég hef aldrei hangið á fjölförnum stöðum (ekki fámennum heldur) við að mæla út kynþokkafulla karlmenn enda þeir ekki á hverju strái.

(Hvað varð annars um tímann uppúr gelgju þar sem það var ekki þverfótað fyrir karlkyns hormónabúntum?).

Ég varð nefnilega smá leið þegar ég las um að konum þætti Pútín sexý. Mér finnst hann álíka kynferðislega hvetjandi maðurinn og Óli Prik.  Sama með Clinton, sé ekkert frygðarhvetjandi við þann mann, finnst hann eins og gamall og tinandi frændi að utan að landi.  Algjör frygðarbani.

Kannski er það valdið sem gerir þetta að verkum.  Sumir segja það. 

T.d. Henrí mófó 8. Bretakóngur sem átti sjö eða átta konur, lét afhöfða þær eða svipta þær eignum og æru, lokaði þær inni, hélt fram hjá þeim og áfram út í það óendanlega.  Hann var ljótur, hann var með sífyllis en allar vildu þær eiga helvítis útvatnaða genaslysið.  Og sjáið Prins Charles enn útvatnaðri innherjafyrirbæri og afkomandi þess 8., þegar hér er komið sögu minnir hann mig á álf í skelfilegri kantinum.  En hvað get ég sagt þetta hefst af innherjaríðingum.

Æi ljótt af mér að skrifa svona, en ég er bara að hugsa svona upphátt þið skiljið  Viðra heilabúið enda föstudagur og svona.

Svo er ég orðin svo utan við mig.

Ég var að bera út poka áðan á leiðinni heim úr vesturbæjardvölinni og ég tók með mér ruslapokann.  Ekki í fyrsta skipti.

Það var sko völlur á minni þegar hún fór með sorpið í strætó og striksaði með það inn á deild á Lansanum þar sem ég var læknaritari.

En þá var ég þrjátíuogeitthvað.

Æi nennessekki.

Farin að leggja mig.

Síjúsúmílúmítúmí.

P.s. Það má svo til sönnunar máli mínu framleggja að ég ætlaði að skrifa um reyktan makríl í þessari færlsu.

Það verður næst bara.

Og farið með bænirnar ykkar skammirnar ykkar.


mbl.is Kynþokki Pútíns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gáfurnar að drepa mig

Það verður "Freaky Friday" í síðasta skipti í dag á hárgreiðslustofunni Gel en hún er að hætta.

FF þýðir að þú sest í stólinn, gefur engar vísbendingar um hvernig þú villt láta klippa þig og voila: þú gengur út einhvern veginn um hárið.

Ég er með hárvandamál.   Ég hef átt slæma hárdaga í allt sumar.  Hvers vegna spyrð þú krúttið mitt og ég skal segja þér það.  Ég get ekki með nokkru móti gert það upp við mig hvernig ég vil hafa hárið á mér klippt og á litinn.

Statusinn í dag er að það er orðið alltof sítt og undarlega röndótt á litinn.  Eins og það geti ekki gert það upp við sig hvort kastaníurauði liturinn verði ofan á eða þessi nánast svarti sem kemur frá frönsku duggurunum ættingjum mínum.

Ég á vinkonu sem heitir Dúa og er hættuleg með skæri og rakvél.  Hún fær reglulega kast á hárið á sér og tekur það af, nánast allt ef þannig liggur á henni.

Ég held að ég yrði skelfileg krúnurökuð enda með rúsínuhaus.  Allt of lítið kvikindi.  Mér finnst það skrýtið að þessar stórkostlegu gáfur mínar og ÖLL vitneskjan sem ég hef viðað að mér komist fyrir í þessu höfði af möndlustærð. (Ýkin, ég?  Ekki að ræða það!) Ætli það sé þess vegna sem mig svimar oft og er að drepast úr hausverk?  Gáfurnar að flæða út bara?  Það mætti segja mér það.

Kannski á eftir að standa í minningargreininni; hjá henni fór allt í vaskinn!  Það væri þá að minnsta kosti satt.  Þetta sem mun standa um hannyrðirnar og fórnfýsina mun hins vegar verða tóm friggings lygi.

En... ég ætla ekki að láta hvatvísa og örlynda hárlistamenn komast í hárið á mér í dag, né aðra daga.

Ég ætla að halda áfram að hugsa um hvernig ég vilji hafa hárið.

Á meðan hef ég það í hnút eða tagli.  Hnútur - tagl - tek hnútinn, það er gáfulegra svona þegar ég steðja út á meðal fólks.

Er á leiðinni heim eftir hálfs mánaðar dvöl í vesturbænum.

Úff, nú sé ég tvöfalt.

Gáfurnar eru hreinlega að drepa mig!


mbl.is Síðasti Freaky Friday dagurinn hjá Gel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

..og berin voru súr

 

Uppáhaldslykt Breta er af "fish and chips" og ég er ekki hissa.

Morgunmaturinn er það eina sem breskir kokkar fremja ekki kviðristu út af og matarsmekkur þjóðarinnar er í stíl við það.

Að þessu sögðu þá ætla ég að trúa ykkur fyrir því að ég fór að hugsa um lyktir.  Að þessu sinni aðallega þær sem mér þykir bestar.

Lyktin af börnum, sérstaklega þessum glæ nýju.  Jesús minn, ekkert sem toppar það.

Lyktin af uppáhaldsilmvatninu Famme sem auðvitað er hætt að framleiða, orðið svo gamalt, eins og ég.

Rjúpnalyktin á aðfangadag er sú öflugasta sem ég veit um.  Hún er af lyngi, jólum, hátíð og gleði. Helvíti leiðinlegt að það skuli þurfa að taka veð í fasteign til að geta eignast fuglinn einu sinni á ári.  Lífið er óréttlátt.

Ég fæ stundum kast á kartöflupoka og anda að mér moldarlyktinni upp úr þeim.  Stundum hefur þetta lyktarblæti verið þannig að ég hef nánast sofið með friggings pokann upp að nefinu.

Og svo er það lyktin sem hendir mér tuttugu til þrjátíu ár aftur í tímann.

Patchoil - hippalyktin sú, fann hana fyrir nokkrum árum í mannmergð og hné nánast út af í nostalgíu, ég var komin í Tjarnarbúð, Glaumbæ og Sigtún bara þar sem ég stóð, hviss-púmm-bang. 

Ákveðin meiklykt minnti mig á Inoxa litaða dagkremið sem ég sletti á andlitið á mér á gelgjunni og takmarkið var að glansa sem mest.  Ég vona að ég hafi þroskast nokkuð.

En þá man ég eftir því.  Sko í snyrtibuddu unglingsáranna var áðurnefnt Inoxa meik, House of Whestmore ógeðismaskari sem lengdi augnahárin eða hefði gert hefðu auglýsingar þess tíma verið marktækar, hvítur sanseraður eða mattur varalitur og mellubleikur líka á góðum degi.

Ég náði þeirri færni sem fátíð var og hefur enn ekki verið toppuð, að mála mig í strætó á fljúgandi ferð í hálku og sköflum, án spegils, eftir minni.  Málið var að það var bannað að mála sig, þannig að neyðin kenndi ómálaðri stúlku að spinna.

Æi ég er að missa mig í eitthvað hérna.  Löngu liðnir tímar, hvað er svona merkilegt við þá?

Ekki nokkur skapaður hlutur.

Og berin voru súr!

Uppáhladslykt einhver?


mbl.is Uppáhaldslyktin er frá „fish and chips"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hitta sjálfan sig fyrir

Ég hef búið í Svíþjóð, sumir minna bestu vinar eru Svíar, tengdasonur minn er sænskur og Jenný Una og Hrafn Óli þar af leiðandi af sænskum ættum.

Ég lít á Svía eins og Íslendinga.  Þeir eru mis mikil krútt.

Annars er ég á því að Svíar séu mun líkari Íslendingum en sum okkar vilja viðurkenna, ég er hinsvegar með það á hreinu.

Málið er að Svíar eru að rifna úr þjóðarstolti.  Vi är bäst i världen.

Íslendingar eru nefnilega líka með mikilmennskubrjálæði eins og sænskir frændur okkar þegar kemur að þjóðarrembingnum.

Svíum finnst þeir eiga fallegustu konur í heimi, kannast einhver Íslendingur við þá trú í eigin brjósti varðandi konur af íslensku þjóðerni?

Tel bara rétt að koma því að að í öllum löndum er sennilega heill hellingur af fallegum konum, en þetta er auðvitað gamla spurningin um höfðatöluna.

Svíar fara á límingunum yfir íþróttaviðburðum.  Þeir eru bestir í öllu ef þeir vinna ekki þá eru það fordómar dómaranna, veðurfarið, tíðarandinn, verðlagið.  Ekki liðinu.  Kannast einhver við það?

Svíar elska náttúruna sína, þeir gráta yfir skógunum og fjöllunum, þeir gráta yfir vötnunum og sænska fánanum.  Það gerist ekki á Íslandi er það nokkuð?

Og Svíarnir hrópa upp fyrir sig þegar þeir ná árangri á erlendum vettvangi: Sko litlu Svíþjóð, hún spjarar sig meðal stóru þjóðanna! Hhehemm, er ég komin heim eða hvað?

Eins og Íslendingar eru Svíar seinteknir svona flestir amk.  En þeir sleppa af sér beislinu um helgar og verða þá opnir, frjálslegir og gífurlega utanáliggjandi.

Kannast einhver við það?

Gamlir siðir eins og lútfiskur með sinnepssósu á jólum, algjörlega bragðlaus að mínu mati, er herramannsmatur finnst þeim ansi mörgum.  Pjúra gormei.  Mig rámar í að landsmenn mínir dásami íslenska vel migna skötu á þessum árstíma.  1-0 fyrir Svíum, lútfiskur er lyktarlaus.

Ég held að Íslendingar séu á því að þeir séu hipp og kúl og öðruvísi í klæðaburði en aðrar þjóðir (viðurkenni að það er orðið réttara nú en það var fyrir einhverjum árum) en skv. þessari skoðanakönnun í Svíþjóð eru Svenson, Anderson, Petterson og Jönson með það á hreinu að þeirra þjóð sé snyrtilegust meðal norðurlandabúa.

Meðalsvíinn á tréklossa, það stendur í biblíunni, hann á gallabuxur, úlpu, hann á joggingalla, hvíta sokka og gula peysu með vaffhálsmáli, hann á bláa skyrtu og hann er plebbi.

En sem betur fer þekki ég enga meðalsvía, ég hef bara séð þá álengdar.  Mínir Svíar eru hipp og kúl, rétt eins og ég.

Þegar Íslendingur segir: ji Svíar eru hundleiðinlegir, þá hugsa ég;

Þar hitti viðkomandi sjálfan sig fyrir.

Friður - virðing.

Heja Sverige.


mbl.is Svíar telja sig snyrtilegasta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dorrit tók gullið

 dorrit

Ég hef bloggað um það áður að ég var alin upp af sjálfmenntuðu og kærleiksríku alþýðufólki og ég er afskaplega stolt af uppruna mínum.

Mér var innrætt með hafragrautnum að allir væru jafnir þegar þeir kæmu í heiminn og enginn ætti að hreykja sér yfir annan.  Ergo: Mitt fólk gerði sig ekki til, bukkaði sig ekki og beygði fyrir svokölluðu heldra fólki, en það kunni sig var kurteist og gerði aldrei greinarmun á fólki eftir stöðu þess í þjóðfélaginu.

Ég hef fengið þetta í arf þó ég verði að viðurkenna að ég hef átt mín laumusnobbstímabil í gegnum árin.

Ég er ekki stolt af því enda var ég í felum með það eins og svo margt annað en það er önnur og subbulegri saga sem ekki verður sögð núna.  Hvað get ég sagt, ég er smali í eðli mínu.

Hvað um það, nú er fólk farið að blogga um forsetafrúna.  Hún er ekki nógu settleg.  Hún er borin saman við Margréti drottningu Dana og það ekki okkar konu í vil. (Lesið sérstaklega kommentin við færsluna). 

Sumum finnst ekki sæma að forsetafrú þessa örríkis sem samanstendur af venjulegu fólki, þó margir hverjir telji sig eðalbornari en aðra, hagi sér eins og dauðleg kona.  Hún á að kunna sig og í þessu tilfelli er þá væntanlega átt við að hún sé þrædd upp á prik, nikki og hneigi og sé með fjarræðan drottningarsvip á andlitinu.  Eitthvað í þá áttina amk.

Í mínum huga er svoleiðis forsetafrú steingeld, vakúmpökkuð og tilbúin til útflutnings.

Ég vil ekki sjá það.

Hitt er svo annað mál að ég vil helst engan forseta hafa, og engin puntembætti yfirleitt en ég er nú hálfgerður anarkisti í svona málum.´

Mér finnst nefnilega flott að vera alþýðlegur og laus við silkihúfutilgerð.  Ég hef skömm á orðusöfnurum sem labba um eins og mörgæsir í þeirri vissu að þeir séu meiri og betri en venjulegt fólk.

Mér finnst forsetafrúin kynna okkur á skemmtilegan hátt, eins og við höfum húmor fyrir sjálfum  okkur og kunnum að gleðjast. 

Eða erum við ekki þannig þjóð? 

Öll eigum við ættir okkar að reka til fjósa, torfkofa og súrmetis.  Hvernig væri að átta sig á því.

Ég myndi hins vegar skilja pirringin ef konan væri á felgunni, rífandi kjaft í sleik við aðra þjóðhöfðingja og svona, halló, er í lagi á heimastöðvum?

Ég þekki ekki forsetafrúna (merkilegt mér er aldrei boðið í mat eða kaffi) en hún birtist mér sem hlý og manneskjuleg kona sem kann að hrífast með.  Ég held að Dorrit sé stemmingsmanneskja.

Þannig á fólk að vera.

Svo geta allir tréhestarnir hneggjað úti á túni bara.

Og látið sig dreyma um hallir, kónga og krínólín.

Frussss en til hamingju Ísland!

 


mbl.is Til hamingju Ísland!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli lólítu graðnaglinn

aaa 

Ég minntist á það um daginn að við hér á kærleiks hefðum horft á Stones-myndina Shine a Lihgt.

Mér fanns hún frábær.  Það er eitthvað svo ótrúlega sjarmerandi og æðislegt að horfa á kallana á sviði.  Þeir eru að verða betri og betri.

En..

Merkilegast var að fylgjast með glæsilegasta mannflaki í heimi, af því hann var brosandi eins og gamall afi, alltaf að beygja sig niður að áheyrendum og stundum gaf hann þeim eitt og annð.  Keith er ofurkrútt.

Og svo var það Wúddarinn, hann var edrú for crying out loud.

Rosalega var skrýtið að sjá manninn allsgáðan á sviði.  Í staðinn fyrir að vera eins og löngu dáinn indjáni á hugbreytandi sveppum, dettandi um allt, þá var hann í þetta skipti eins og gamall maður af sama kynstofni og að ofan sem hefur aldrei gert annað en að úða í sig lífrænu grænmeti og stunda sunnudagaskóla.  Til hamingju Ronnie.

En svo féll hann á frumsýningunni, fór á séns með stúlku sem vart er búin að missa mjólkurtennurnar.  Ronnie getur verið langafi þessa barns og gott betur.  En hvað um það hann hunskaðist í meðferð.

Elsku karlinn, hann segist ekki vita í hvorn fótinn hann eigi að stíga.  Elskar eiginkonu og barn sko barnið sem hann sefur hjá.

Ef ég gæti fengið tíu mínútur með gamla manninum þá myndi ég segja honum að líkurnar á að rússneska telpukornið sé í alvörunni ástfangin af honum séu stjarnfræðilega litlar.

Auðvitað gerast ævintýri af og til, en halló var Anne Nichole hrifin af sínum öldungi? 

Hvaða unglingur fellur fyrir tinandi gamalmenni eins og Ronnie bara vegna hans föngulega ytra byrðis og án tillits til innistæðna í bönkum? 

Annar skil ég svona karla.  Þeir eiga allt, geta alls staðar fengið óskir sínar uppfylltar.

Kannski er honum slétt sama hvort hún er að segja satt eða ekki.

Gamli lólítu graðnaglinn.

Fyrirgeifð á meðan ég..

dingla mér.


mbl.is Wood veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silfur, silfur, silfur, minn málmur ekki spurning

Ég ætlaði að sofa af mér leikinn - skemmst frá því að segja þá sat ég hér í spennu og taugaveiklun.

Þetta er smitandi fjári.

Fínt að fá silfur, mér fannst leikurinn bara svo höktandi, ekkert flæði.

En þrátt fyrir smá vonbrigði (annarra en mín sko, ég er kúl) þá er þetta frábært.

Það frábærasta er að nú er þetta íþróttabull búið í bili.

Og rauðir dagar fram að jólum allir uppurnir.

Næsti rauði dagur á almanakinu er aðfangadagur jóla.  Jájá, ekkert slugs börnin góð.

Ég held að það sé 121 dagur til jóla, ég fer að byrja undirbúning.

Mikið skelfing ætla ég að fara og leggja mig.

Heimurinn verður að vera án mín á meðan.

Ég er hrifnari af silfri persónulega, þannig að ég er ánægð.

Síjúsí.


mbl.is Ísland í 2. sæti á ÓL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 2988373

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband