Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Ég er akademískur kynþokkaskoðari

Ég tel mig vera sérfræðing í kynþokkafullum karlmönnum, eins og reyndar flestar konur.

Kannski er ég þarna með sérfræðikunnáttu sem ég gæti gert mér peninga úr.

Ég gæti til dæmis haldið keppni um kynþokkafyllsta karlmann Íslandssögunnar - nebb gengur ekki, kynþokki er yfirleitt aðstæðnabundinn og sést ekki eftir pöntun.

Ég hef orðið svo yfir mig hástemmd af kynþokkamönnum að ég hef átt það til að giftast þeim af einskærri góðmennsku við vísindasamfélagið, til að geta rannsakað nánar þessa guðsgjöf náttúrunnar.

Ég er akademískur kynþokkaskoðari.

En..

Sebastian Tellier hefur ekki únsu af kynþokka í mínum bókum, fyrirgefðu karlinn en það eru margir kallaðir en fáir útvaldir.  Svo er ekkert að marka mig á þessum síðustu, ég fann nefnilega prótótýpu kynþokkans í húsbandi, þannig að ég er hætt að spenna augun.

Leitir og þér munuð finna.  Knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.

Svo eru sumir karlmenn löðrandi í kynþokka í augum einnar  en nördar og törnoff í augum þeirrar næstu.

Úff ég gæti sagt ykkur sögur.W00t

En ég ætla ekki að gera það perrarnir ykkar.

Kevin Spacy var gangandi kyntröll síðast þegar ég sá hann.  Samt held ég að hann sé hommi.  Bömmer fyrir konur heimsins ef rétt reynist.

Lennon, lokið mig inni, röddin, röddin, röddin.

Hugs, hugs, hugs,

Augun á Sigmundi Erni Rúnarssyni eru ákjósanlegur staður til að drekkja sér í á góðum degi, en til að forðast það að stökkva á flatskjáinn og stórslasa á sér andlitið er um að gera að loka augunum stelpur mínar.

Baltasar Kormákur er kjörið verkefni fyrir listamenn heimsins.  Manninn í brons, hann er fallegur drengurinn.

Hvernig stendur á því að ég man ekki eftir neinum sláandi kynþokkalöðrandi karlmanni fyrir utan ofannefnda?

Er mér að förlast?

Ég veit að þeir eru ógeðismargir en hugur minn er tómur.

Ég gæti hins vegar talið upp og verið að í allan dag, törnoffin í þessari deild.

En ég vil ekki láta súa mér.

Þeir hlaupa á þúsundum.

Og svo get ég sagt ykkur leyndarmál.  Ég er svo höll undir hið skrifaða orð að ég hef reglulega orðið ástfangin af rithöfundum.  Bara vegna þess að þeir eru svo þokkafullir í skrifum.

Og ég hef orðið bergnumin af bókaútgefanda, setjara, prófarkalesara og ég veit ekki hvað og hvað.

Ég er nörd.

Úje.

P.s. að allt öðru.

Sara dóttir mín bað mig að setja þennan link inn svo hann væri aðgengilegur fyrir alla.

Endilega kíkið hér.

 


mbl.is Kynþokki í Öskjuhlíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að láta hafa sig að fífli

Egill Helga er dedd á því að þessi umrædda sólarvörn í fréttinni sé pottþétt.

Ég trúi honum því ég sá hann í sjónvarpinu rétt eftir að hann kom heim frá sælulandinu og hann var fölur eins og Íslendingur einn getur verið.  Litarefni húðarinnar í sögulegu lágmarki.

En vonandi er fólk ekki að trúa auglýsingum um sólarvarnir, snyrtivörur og húðvörur.

Ésús mínn, langt síðan að ég tók þann pakka.

Ég hef t.d. keypt tonn af sjampói sem á að þykkja hárið, láta það glansa þannig að hægt sé að nota haddinn sem spegil og áfram gæti ég talið.  Árangur: Hreint hár og ekki millimeter umfram og það er nóg fyrir mig núorðið. Er hætt að bíða eftir kraftaverkum í sjampóflösku.

Svo eru það snyrtivörurnar.  Maskararnir sem eiga að lengja og þykkja augnhárin.  Mín eru reyndar alveg nógu löng en lengi má við þau bæta.  Á svoleiðis auglýsingum eru módelin undantekningalaust með gerviaugnahár.  Svo skildi ég aldrei í því afhverju mín urðu ekki nógu löng til að ég gæti þurrkað af með þeim.

Varalitirnir sem eiga að vera fastir á vörunum frá morgni til kvölds.  Halló, einhver fallið fyrir því?  Ég hef gert það margoft, ekkert tollir á munninum á mér lengur en mínútu eða tvær.  Lygi og uppspuni frá rótum.

Eða meikin sem heita "age perfect" "aldaylong cover", "soft beauty" og "no more aging".  Jájá, halló, það hefur enginn beðið mig um skilríki í ríkinu síðan ég var 28 ára.  Reyndar er ég edrú og versla ekki við ríkið en mér segir svo hugur að ég sé ekki enn orðin 12 ára í framan þrátt fyrir öfluga notkun á aldurseyðandi meiki.

Nú að kremunum.  Þessum sem bana hrukkum, slétta á þér háls og andlit, taka bauga, strekkja á enni (er einhver í þörf fyrir það?) og taka öldrunarlínur í kringum munn.  Töff shitt en það virkar ekki, algjörlega fullreynt  af mér og mínum vinkonum.

Þess vegna skil ég ekki af hverju maður er í því að halda fullt af fólki í vinnu við að láta ljúga að sér.  Nei ég er ekki að tala um pólitíkusana sem við kusum yfir okkur síðast, hehemm... en sá misskilningur á fullan rétt á sér.

Heill bransi sem veltir milljörðum gengur út á að hafa konur að fíflum.  Er ekki í lagi - ha?

En lífið yrði svo leiðinlegt ef við létum ekki glepjast annað slagið af gylliboðunum um eilífa æsku í dós eða túbu.

Við konur erum líka búnar að ná skýrum skilaboðum frá fegrunar- og tískuiðnaðinum.

Hann er sá að daginn sem við verðum 25 ára erum við komnar með aðra löpp í gröf útlitslega séð og þurfum að byrja að bera á okkur eins og enginn sé morgundagurinn.

En það er bannað að auglýsa í þriðja stigi lýsingarorða.  Það má ekki segja að vara sé best, ódýrust, eða fallegust á markaði.

En ætli það megi segja að hún sé skást?

Fjandinn að ég viti það.

 

 


mbl.is Fullyrðingar um sólarvörn bannaðar í auglýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógeðismatur og vísitala

Ég er æðislega klár kona.  Eins gott að segja það sjálf, það er ekki eins og það sé fólk í vinnu við að mæra mann.

En í alvöru, mér er verulega áfátt á sumum sviðum.  Svo áfátt að ég held að mér sé ekki viðbjargandi.

Það eru verðbólgutölur, vísitala neysluverðs og fleiri hugtök sem segja mér ekki neitt.  Ég er eins og blind kona.

Einhver Svíi sagði í denn að flott hugtök væru búin til til að halda almenningi í fjarlægð frá umræðunni.  En auðvitað gæti ég hafa sett það á tékklistann minn að kanna eiginlega þýðingu orðanna.

En..

Ég skil verðlag í verki.  Ég skil og finn hvernig það saumar að fjárhagnum að kaupa í matinn svo ég taki dæmi.  Það má segja að verkleg kennsla í ömurlegu efnahagsástandi sé í gangi 24/7 í matvörubúðinni.

Ég veit að ef ég skrepp inn í matvörubúð til að kaupa smávegis nauðsynjar þá er það sjaldan undir fimmþúsundkalli.

Ég veit að ef ég þarf að kaupa inn fyrir vikuna t.d. þá erum við að tala um tölu sem fer mis mikið yfir fimmtánþúsundkallin.

Ég veit að ef ég ætla að spara í matvöru þá verð ég að kaupa ógeðis beikonpylsur heimsins þ.e. unnar kjötvörur og fiskibollur í dós.

Ég veit líka að þá get ég ekki verslað almennilegt grænmeti.

Hvernig væri að þetta fólk sem sér um útreikninga á vísitölum heimsins hleypi okkur inn í það allra helgasta og segi okkur hvað þetta þýðir svo við þurfum ekki öll að skrá okkur á kúrsa í HÍ.

En að öðru leyti er ég ógeðslega klár, jájá, algjör mensa bara.

Farin að hakka eitthvað ómeti ofan í fólkið mitt.

Jeræt.


mbl.is Verðbólgan 14,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þekki ekki bónda í sjón - me

Það er eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að hafa skoðanir á landbúnaði, þ.e. ef maður er ekki samansúrraður bændaaðdáandi.

Ég held að íslenska lambakjötið sé með því besta sem hægt er að fá og jafnvel þótt það væri hægt að kaupa erlent lamb myndi ég aldrei gera það.  Ekki þó það væri ókeypis.

En ég er þreytt á matarverðinu.  Ég er þreytt á því að nánast allir peningar fari í mat, amk. þannig að á þessu heimili er ekki mikið aflögu fyrir annað.

Ég læt ekki hvað sem er ofan í mig unnið kjöt er eitt af nónóum þessa heimilis.

En að kjarna málsins.  Einu sinni enn kemur þessi dulda hótun frá bændum, að þeir séu að hugleiða að bregða búi.

Fyrirgefið, þannig er lífið, ef þetta gengur ekki strákar mínir og það með alla þessi styrki sem þið fáið, þá er lífið stundum svona.  Maður snýr sér að öðru.

Ég veit að ég blaðra út í bláinn, þekki ekki bónda í sjón þó hann gargaði á mig, kann varla að beygja orðið, en ég kaupi afurðirnar frá honum og hef ekki eitt andskotans val um það.

Ég veit líka að það eru styrkir á styrkir ofan sem halda sumum bændum gangandi.

Er ekki hægt að samræma og skoða reksturinn upp á nýtt?

Það tíðkast í fjölbýlinu.

Arg, ekki gott að lesa þetta í morgunsárið.  Bændur pirra mig, sko ekki þeir persónulega heldur landbúnaðarstefnan.

Ef ég myndi hugleiða það að bregða búi af því að heimilisreksturinn gengur fyrir bjartsýninni einni saman þá myndi það ekki koma í Mogganum. 

Fólk myndi segja: Só?


mbl.is Bændur hugleiða að bregða búi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ég dó

 jarðarför

Ég hef á ákveðnum tímabilum lífs míns verið sjúklega upptekin af jarðarför.  Minni eigin sko.

Þegar ég var á gelgjunni og þurfti að ná dramatísku hámarki til að geta grátið úr mér augun af samúð með sjálfri mér, þá setti ég í huganum upp mína eigin jarðarför og hún var sorgleg.

Og ég sendi þeim sem höfðu verið vondir við mig kaldar kveðjur og ég setti þá framarlega í kirkjuna þar sem þeir sátu vitstola af sorg, þeir höfðu sent mig í dauðann.

Og hvernig dó ég svo?  Jú ég dó oftast úr kulda, vosbúð, hungri (gat ekki borðað vegna harms) eða þá að ég hafði gengið um fjörur til að róa storminn í huga mér og gáði ekki að mér og hné niður örmagna - og lést.

Svo kom sá sem hafði sent mig yfir móðuna miklu, með skítlegri framkomu við mig engilinn, og greip mig í fangið, lokaði augum mínum og gargaði í himininn; Drottinn hvað hef ég gert?

Þið sem eruð orðin stóreyg af undrun yfir því hversu biluð ég er (var, hætt að setja upp jarðarfarir) getið róað ykkur með því að ég hef það frá flestum vinkonum mínum að þær dunduðu sér reglulega  við að jarða sig í huganum á gelgjunni.  Við erum svona stelpurnar.

Svo kom jarðarförin.  Kirkjan var kjaftfull, hlaðin blómum, allir grétu með þungum ekka.

"Bara að ég hefði verið betri við þessa manneskju sem VAR of góð fyrir þennan heim" hugsuðu þeir snöktandi, lífi þeirra eins og þeir þekktu það var lokið.  Aldrei myndu þeir brosa aftur, ljósið í heiminum var slokknað til frambúðar.

Þegar hér var komið sögu grét ég með þungum ekkasogum af sorg yfir því hversu örlög mannsins geta verið grimmileg, hvernig eitt augnablik getur ráðið úrslitum um líf og dauða. 

Ég sagði það, ég VAR biluð.

En það vantaði alltaf upp á eitt í þessum draumum.  Ég gat ekki verið viðstödd jarðarförina, maður fokkar ekki upp náttúrulögmálunum þó í huganum sé.

En þessi Breti sem sá auglýsingu um sitt eigið andlát var nálægt því að verða vitni að eigin jarðaför.

Farin að biðja húsband um að knúsa mig, ég er óhuggandi af harmi.

Guð minn góður hvað yrði um heiminn ef ég myndi hrökkva upp af.  Þið getið þetta ekki án mín.

Hún Jenný Anna var svo góð kona, henni féll aldrei verk úr hendi.  Veggir heimilis hennar eru þaktir klukkustrengjum eftir hana og hún hugsar ALDREI um sjálfa sig, bara um aðra.  Hún gekk um þrautpínd af alvarlegum sjúkdómum en hún lá ALDREI í rúminu.  Guð veri með henni.

Nú er mér orðið óglatt.  Ég afþakka minningargreinar.

Úje.


mbl.is Fregnir af andláti stórlega ýktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Martraðarkennt helvíti

 28

Ég er laumuskotin í handbolta.  Horfi stundum en ekki núna.  Ég hef ekki taugar í það.

Það er svo merkilegt með handboltann að það er eitthvað lögmál í gangi þar sem ég átta mig alls ekki á.

Allt gengur upp og svo eins og hendi sé veifað fer það í hina áttina.

Nú var vörn Íslands heillum horfin frá síðustu leikjum segir Mogginn.  Murphy´s law? Veit það ekki.

En smá raunveruleikatékk.

Ér er alls ekki í góðu skapi.  Ég vaknaði bálill, hef allt á hornum mér, urra framan í skjáinn, langar að grýta hlutum, sem ég auðvitað geri ekki, enda alin upp af kurteisu og góðu alþýðufólki sem beitti fyrir sig orðum sem vopni.

Ég er þó með tvær ástæður fyrir pirring.

Önnur er sódavatnflaskan sem gaus í andlitið á mér þegar ég í svefnrofunum opnaði hana til að ná mér í ískaldan lífsins vökva.  Sódavatnsmaður; ég er um það bil að súa þér!

Svo dreymdi mig Geir Haarde, Villa Vill, Óskar Bergsson og Alfreð Þorsteinsson.

Hvað er almættið að pæla?  Bræðrabandalagið eins og það leggur sig í einum bita!

Já, takk fyrir að spyrja,  það var martraðarkennt helvíti.

Farin að hoppa á einhverju(m).

Arg.

 


mbl.is Aftur gerði Ísland jafntefli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burt með grillið

Ég veit ekki með ykkur en ég er komin með algjöra gaskútafóbíu.

Það er eins og nú orðið þá séu þeir springandi út um allt.

Ég er með einn á svölunum með bölvuðu gasgrillinu sem ég þarf að losna við.  Ég nota það sjaldan, það er reyndar smá ryð í því sumstaðar en annars stendur það bara þarna og tekur pláss.

Hvert fer maður með grill sem maður ætlar að henda?

Ég ætla nefnilega að fá mér kolagrill.

Aðalástæðan fyrir þessu er gaskúturinn sem ég er hrædd um að springi anytime.

Svo er auðvitað út úr kú að vera með gaseldavél á svölunum.  Ég meina það er ekkert grillbragð af gasgrilli.

En annars er ég góð. 

Ætlið þið börnin góð ekki að mæta á palla í ráðhúsinu á fimmtudaginn?

Við þurfum að safna okkur saman og verða vitni að þessum sögulegu breytingum hjá borginni.

Eller hur?

En nú er ég farin í bili, ætla að horfa á Tudors.

Garg í boðinu.


mbl.is Eldur logaði í gaskút í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

..og nú súa ég

ANGRY%20FACE

"Getnaðarvarnapillur sem milljónir kvenna um heim allan nota geta raskað náttúrulegum hæfileikum til þess að þefa uppi heppilegan maka."

Fyrirgefið gott fólk en var ekki hægt að sturta þessum sannleika út úr sér aðeins fyrr?

Ég skil núna af hverju ég sit uppi með fjölmarga fyrrverandi eiginmenn?

Þeir eru alveg fínir sko, en dem, dem, dem, kostnaðurinn við allar þessar giftingar.

Ég gæti átt milljónir.

Ég súa pillufyrirtækjunum sem ég hef skipt við í gegnum tíðina.

Arg.

 

 


mbl.is Hr. Rangur valinn vegna pillunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðvirkni?

Ég og Sara dóttir mín vorum í símamaraþoni áðan og vorum að ræða um meðvirkni.

Hvað er meðvirkni?

Samkvæmt sumum þá flokkast það undir meðvirkni að rétta hjálparhönd, veita stuðning og gera greiða.  Moi er ekki sammála.

En ég er ansi meðvirk samt held ég.

Einhver sagði mér einhvern tímann að það væri meðvirkni ef maður fengi aulahroll.  Að það væri bullandi meðvirkni ef maður fæli andlitið í höndum sér ef einhver annar gerði sig að fífli.  Að slík hegðun væri dæmi um lélega sjálfsmynd.

Ég er algjör aulahrollur en ég neita því alfarið að ég sé með lélega sjálfsmynd.  Ég er beinlínis ástfangin af henni nýju Jenný Önnu, finnst hún hipp og kúl og ógeðslega töff vúman.

Ég get ekki horft á sjónvarpsþáttinn "Tekinn" (ekki bara af því hann er hundleiðinlegur), ég vorkenni svo fórnarlömbunum.  Finnst það jaðra við mannvonsku að láta fólk halda að það hafi valdið slysum og svoleiðis.  Sumir segja að það sé meðvirkni.  Mér finnst það ekki.

Og þegar þulurnar í sjónvarpinu halda áfram að brosa út í tómið eftir að þær eru búnar að þylja dagskrána og það dregst að myndavélinni sé beint frá þeim.  GMG hvað mér finnst það vandræðalegt.  Þá fer ég undir borð.

Það er sennilega ekki alveg eðlilegt.

Það er líka sagt að stjórnsemi sé meðvirkni.  Þá er nú allur pólitíski flotinn á Íslandi í akút meðferðarþörf.  Eða hvað?

Fólk sem er súperviðkvæmt fyrir gagnrýni, jafnvel þegar hún kemur frá bláókunnugum, mun vera rosalega meðvirkt.  Ef það er rétt þá er stór hluti bloggheima í alvarlegri meðvirknikrísu sbr. t.d. þá sem ritskoða kommentin og birta þau ekki einu sinni fyrr en eftir lúslesningu.  Svo ég tali nú ekki um þá sem banna komment svona yfirleitt.

Annars veit ég ekki haus né sporð á meðvirkni annað en það sem ég hef lesið og það sem er að trufla mig varðandi eigin hegðun.  "I aim to please" sagði maðurinn.

Ég á vin sem gat ekki sagt nei, ég hef bloggað um þann dúllurass áður.  Hann fór á námskeið til að læra að segja nei.  Það má segja að námskeiðið hafi slegið í gegn hjá mínum manni.  Hann hefur ekki sagt já í ein fimm ár nema í draumi.

Gulli, villtu rétta mér smjörið - NEI!

Gulli, komum í bíltúr - NEI!

Gulli, elskaðu mig - NEI!

Gulli, farðu til helvítis - NEI!

Gulli er einn, hann lætur engan vaða yfir sig, hann er í því að segja nei við spegilmyndina eftir að allir vinirnir, eiginkonan og vinnan fuku veg allrar veraldar.

Gulli, villtu gjöra svo vel að mæta í vinnuna - NEI!


Athyglissýki eða húmor?

Ég er ekkert sérstaklega upptekin af því hvað verður um eftirstöðvarnar af mér þegar ég er öll.

Ég held að þetta hylki sem við skiljum eftir skipti litlu eða engu máli upp á framhaldið sem ég vona að sé í ljósinu, án þess að ég ætli að fara að missa mig í að segja hvað ég held um þau mál öll.

En lík fólks er kannski fyrst og fremst mikilvægt fyrir þá sem eftir lifa.  Fólk leggur mikið á sig við að kveðja ástvini sína með virðingu og viðhöfn.

Þess vegna gapti ég þegar ég sá þessa auglýsingu.

lík

Kanski er þetta húmor "listamannsins" sem hann er að borga fyrir í formi auglýsinga en ég sá viðtal við hann í gær á RÚV og þar var hann allur einn bissniss í framan og sagði að ef hann fengi ekki aðgang að líkum þá myndi hann leita annað.  Þá væntanlega út fyrir landsteinana.

Svo hjó ég eftir að hann ætlar að skila líkunum til útfararþjónusti strax eftir notkun í SAMA ástandi.

Halló, ætlar hann að fara að fikta í líkunum, sminka þau, klæða þau í furðuföt?

Það fer um mig hrollur.

Frekar ósmekklegt af manninum þykir mér.  Kannski er hann athyglissjúkur.  Þetta vekur að minnsta kosti eftirtekt.

Ætlaði hann ekki að bjóða sig fram til forseta þessi fýr?

Úff.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 2987751

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband