Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Móðguð prímadonna með 1188 fylgismenn

Ólöf Guðný er fokin og það er eins og það er.

Borgarstjórinn í Reykjavík er með 1188 atkvæði á bak við sig váááá.

Hanna Birna hefur ekki lyft íhaldinu til vegs og virðingar í borginni eins og búist var við þó það sé ótrúlegt að láta sig dreyma um slíkt í þessu samstarfi.

Ólafur talar ekki við fréttastofu RÚV og hagar sér eins og móðguð prímadonna.

Og svo er það þetta !!

Er maðurinn með mikilmennskubrjálæði?


mbl.is Tæp 2% borgarbúa kysu F-lista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljúgandi um á bikiníi í norðangarranum

 hiti

Ég er svo fávís varðandi himinhvolfið og alla útreikninga, stöður tungls og stjarna.  Ég glápi bara upp í loftið og nýt þess sem ég sé og það nægir mér.  En ég sá ekki sólmyrkvann fyrr en á þessu myndbandi hér.

Ég er líka ansi fáfróð um allt sem heitir "global warming" en ég veit hvað ég upplifi á sjálfri mér og svo er ég með heilbrigða skynsemi sem gerir það að verkum að það er hægt að leggja saman tvo og tvo.

Þegar ég fluttist heim frá Svíþjóð 1985 sá ég að humlur og geitungar voru komin á undan mér.  Ég brjálaðist og hélt ég væri farin að sjá ofsjónir.  Ónei, kvikindin voru komin til að vera.

Þegar ég var að alast upp voru randaflugur það eina með vængi sem hægt var að fá móðursýkiskast yfir á Íslandi.  Ergó: Það voru breytingar á lofstlagi í gangi.  Nokkuð ljóst þó það væri vart merkjanlegt.

Og sumur bernsku minnar sem auðvitað voru alltaf sólrík í minningunni voru köld.  Í Reykjavík var alltaf næðingur í sól.  Á unglingsárunum þurfti maður að ríghalda sér í svalahandrið í sólbaðinu, ef maður vildi ekki láta fjandans norðanáttina rífa sig upp með rótum á bikiníi, sólgleraugum og öllu setöppinu.

Ég hékk í Nauthólsvíkinni undantekningarlaust skjálfandi úr kulda.  Það var ekki hægt að striplast.

Það var ekki út af feimni sem litlar stelpur hérna í denn drógu teppin yfir sig í sólbaði, þær voru að drepast úr kulda.

Og nú eru dagarnir svo heitir að maður leitar í skuggann.

Jöklarnir eru að bráðna.

Það eru göt á lofthjúpnum.

Tíðni húðkrabbameins hefur aukist.

Ísbirnir vaða um fjöll og firnindi.

Trúir einhver að ekkert af þessu sé af mannavöldum?  Af áníðslu mannisins á jörðinni og himinhvolfinu?

Þá er bara ekki í lagi með fólk.

Ég vil ekki fokka upp náttúrunni fyrir afkomendum okkar.

Halló, vöknum.

ARG með veggjakasti. Biggtæm veggjakasti.


mbl.is Nærmyndir af sólmyrkva
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tómur andskotans unaður

 03_sunbathing

Ég get ekki hugsað mér að fara í líkamsrækt.  Það eru margar ástæður fyrir því.

Ég þoli ekki svita-raka-táfýlulyktina sem ég finn inn á svoleiðis stöðum.  Þýðir ekki að segja mér að svoleiðis lykt sé ekki lengur til staðar.  Ég er lyktnæm kona.

Ég veit ekkert leiðinlegra en að hlaupa á bretti í tilgangsleysi og stara fram fyrir mig.  Ég er ekki að "gera" neitt á meðan og ég er ekki ein af því sem trúi að fegurð og hreysti náist með sársaukafullum hlaupum og lyftum.  Ég nenni ekki að hamast upp á mögulegt framtíðarform og vigtarhamingju.

Svo leiðist mér að djöflast við þessar aðstæður í hópi fullum af ókunnugu fólki.  Ég get ekki hlaupið á bretti og látið eins og konan við hliðina á mér komi mér ekki við.  Ég fæ samviskubit yfir því að nenna alls ekki í spjall á brettinu.  Finnst að ég EIGI að gera það.  Ég er biluð.  Só?

Og svo er ég sérviskufull og með undarleg antípöt.  Ég veit ekkert verra en að standa  alsber innan um fullt af fólki, hanga með því í sturtu og láta eins og það sé eðlilegast í heimi að vera í heví tjatti við þær aðstæður.  Ég vill vera í fötum þegar ég umgengst fólk.  Með leiðast hópsturtur.  Þannig er það, get ekki að því gert er ferlega undarleg á sumum sviðum.

Trúið mér í þau skipti sem ég fer í sund þá sé ég alls kyns lúllur og jónur hanga á klobbanum og ræða ástandið í þjóðfélaginu.  Ég bara GET ekki tekið svoleiðis umræður góðar og gildar.

Ég elska að ganga úti og njóta náttúrunnar - þegar ég er í stuði til þess, ekki af því að ég er á fyrirfram ákveðinni stundarskrá.  Þá hættir það að vera gaman.  Svona hlutir eiga að gefa manni gleði.  Annars er eins gott að sleppa þeim.

Það er ekki mikinn fögnuð að heyra í þeim hópi fólks sem ég þekki og er að fara í ræktina.  Það er svona álíka ánægt með það og þeir sem þurfa að fara að hitta skilorðsfulltrúann. 

Þess vegna væri svona líkamsræktartafla alveg að gera sig fyrir mig, einkum og sér í lagi af því hún er góð fyrir sykursjúka.

Ein pilla á dag kemur forminu í lag - og ég hangi bara og reyki í staðinn. 

Tómur andskotans unaður.

Ætli ég sé manneskjuhatari?

Nebb elska alla.

 

 


mbl.is Líkamsrækt í töfluformi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ertu að segja að ég sé feit?

Ég eyddi stórum hluta ævi minnar í megrun.

Og þegar ég skrifa þetta þá virkar það gargandi fáránlegt vegna þess að fyrir utan bústímablilið (áður en ég fór í meðferð) þegar ég safnaði utan á mig dyrkkjulopa þá hef ég tæpast nokkurn tíma verið feit.

En þetta er að ganga í fjölskyldunni, við systurnar höfum verið með sjúklegan áhuga á kílóum, eða vorum lengi vel.

Allt var prófað.  Svelti, hvítvíns- og eggjakúrinn, Scarsdale, prins- og kókkúrinn.  Ég fékk ofboðsleg kikk út úr því að sauma ærlega að sjálfri mér.

Og fituhugsunin var alltaf til staðar.

Er ég feit í þessu, er rassinn á mér stór í þessum buxum, en maginn, en lærin, en, en, en?

Og svo komu yfirlýsingarnar þegar ég fékk fitumóral á leiðinni á ball. "Rosalega næs systur eitthvað að draga mig spikfeita með ykkur á ball!" varð að fleygri setningu í systrahópnum.

Hilma systir fór í öll föt ættarinnar áður en hún gat fundið út í hverju hún var MINNST feit í.  Það varð til þess að við komumst á ballið til þess eins að hitta fólk fyrir utan þegar hleypt var út, eða nánast.

Og dætur mínar erfðu áhugan. 

Maysan kom heim og spurði Söru hvort kexið væri búið.

Saran (bálill) ertu að segja að ég sé feit?W00t

Og svo voru það megrunarpillurnar sem ég grenjaði út úr heimilislækninum þegar ég bjó í Keflavík um árið.  Mirapront hétu þær.  Ég pilluætan tók einni meir en ráðlagður skammtur var (eða fleiri), svaf ekki, fékk sár á tunguna og allskonar.   Pillurnar voru læknaspítt.  Jájá.

En ég var aldrei ánægð,  því mér leið feitt.

Og ég gekk fram hjá spegli og gargaði upp; djöfull er ég ógeðslega feit.

Nú horfi ég stundum á gamlar myndir af grannri stúlku sem fannst hún feit og það hafði ekkert með kílóatölu að gera.

Og ég er alveg viss um að konur fara frekar í megrunarlyf en karlar.  Skilaboðin um hungurlúkkið eru skýr, alveg frá því að við erum smástelpur.

Farin í megrun.. sorrí meina sólbað.


mbl.is Fleiri konur en karlar nota megrunarlyf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af skýjuðum himni og afmælisbrönsj

20080708131933_3

 

Ég er ekki ein af þeim sem hríslast um í spennu bíðandi eftir að sjá veðurspá dagsins og oftast er ég nokkuð sátt við það veður sem er vegna þess að ég annað er einfaldlega ekki í boði.

En ég varð pínu glöð áðan þegar ég sá að það ætti að þykkna upp í dag.

Ég er nefnilega orðin eins og sólþurrkaður tómatur að utan og innan.

Aðallega að innan þó því að utan er ég nokkuð "indjánísk" í útliti eftir sólböðin undanfarið.  Það eru mínir frönsku duggaraættingjar sem skilið hafa eftir sig sporin í húðlitnum á mér.

Af því að ég er alin upp við árstíðir og snöggar veðrabreytingar þá fer mér að líða beinlínis illa ef sama veður helst of lengi í einu.  Í gærkvöldi eftir þennan sólríka dag var ég nauðandi í veðurguðinum um að svissa yfir í rigningu og auðvitað var ég bænheyrð.  Ég bið ykkur sóldýrkendur afsökunar.

 Elsta barnabarnið mitt hann Jökull Bjarki, verður 14 ára á morgun og við erum á leiðinni í brönsj hjá væntanlegu afmælisbarni á eftir.

Jökklinn minn er frábær drengur, fallegur og góður.  Svo er hann svo ári hæfileikaríkur drengurinn.

Hann var að klára I. stig í gítarnáminu sínu og brilleraði á prófunum í Hagaskóla. 

Ég er heppin kona í öllu tilliti.

Góð bara.

Later.

P.s. Ég bið ykkur að kíkja á þetta gott fólk.

 


mbl.is Þykknar upp vestantil í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sendiboðinn skotinn - búmm pang

 stress

Flott rannsókn frá Dönum um að fólk sé orðið meðvitaðra um streitu.  37% Dana hafa einhvern tímann tilkynnt forföll úr vinnu vegna þess.

Og nú rannsökum við okkar einka stress hér og í kommentakerfinu.  Mitt stress og svo ykkar.

Ég hef aldrei og mun aldrei tilkynna mig frá vinnu eða öðrum skuldbindingum vegna streitu.  Ég er af gamla skólanum.  Mér var kennt að allt sem ekki mældist á hitamæli vel yfir 37 á Celsíus væri þreyta og í versta falli aumingjaskapur.  Þetta hefur fylgt mér út lífið upp á gott og vont.

Ég er hamingjusamlega ómeðvituð um ástandið þegar ég er stressuð.  Kem alltaf af fjöllum þegar mér er bent á það og bregst illa við sendiboðanum og skýt hann á staðnum.  Búmm pang.  Ég átta mig fyrst þegar streitan hefur yfirgefið og þá fæ ég svona uppljómun, alveg, ókei ég var svona stressuð.

En ég veit að ég er undir álagi:

Þegar mjólkurfernan fer í kústaskápinn, fægiskóflan í ísskápinn og mistökin með mjólkina verða ljós einhverjum dögum síðar þegar lyktin er farin að minna á eitthvað sem hefur gefið upp öndina seint á síðustu öld.

Þegar ég man ekki kennitöluna mína þó líf mitt liggi við.

Þegar ég man ekki af hverju ég stend á ákveðnum stað í íbúðinni og verð að fara til baka á upphafsreit,  muna það þá mögulega eða ekki.

Þegar ég man ekki nafnið á eiginmanninum og horfi á hann eins og ókunnugan mann og ég er að hugsa; hver er þetta aftur, asskoti kannast ég við hann (ok,ok,ok, næstum því).

Þegar ég tek upp símann til að hringja, man ekki hvert, legg á og man, lyfti og gleymi.  Endurtekið svona 30 sinnum.

Ég er undir lífshættulegu álagi þegar ég gleymi að taka með mér sígaretturnar ef ég fer eitthvað.

Alvarlega en það getur ástand mitt ekki orðið, ég sver það.  Hefur gerst einu sinni og ég reyndist vera í taugaáfalli.W00t

Hvað ætli myndi gerast ef maður hringdi á skrifstofuna á mánudagsmorgni og segðist vera að drepast úr stressi og tilkynna forföll?

Ég veit hvað ég hefði hugsað fyrir nokkrum árum ef einhver hefði hringt í mig með svona afsökun fyrir fjarvistum.  Ég hefði haldið að viðkomandi væri að grínast.  Svo hefði ég sagt honum að haska sér í vinnuna og hætta þessu væli.

En ég er líka vond kona.

Cry me a river í boði hússins.  Ljúft fyrir svefninn.  Björk klikkar ekki.


mbl.is Fólk meðvitaðra um streitu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misþyrmingar á eyrum og bjórgenum

Musclehead

Ég er alveg á fullu að blogga um heimskulegar rannsóknir.  Það er ein á dag að meðaltali á Mogganum sem fær mig til að skellihlæja.

Eins og þessi.  Hávaði fær fólk til að þamba meiri bjór.

Já, halló, það er sjálfur hávaðinn sem sest í bjórgenin og þau garga af þorsta?  Eruð þið ekki að grínast?

Þegar þú getur ekki talað í partíi eða á krá vegna helvítis láta og gargs hvað áttu þá að gera við sjálfan þig?  Brosa út í myrkrið eins og félagslega fjölfatlaður vanviti?  Að sjálfsögðu ekki, þú reynir að fela vandræðaganginn með því að skríða ofan í glasið þitt.

Og "the rest is history".  Sjáið dagbækur lögreglunnar ef nánari upplýsinga er óskað.Devil

En að öðru, þegar ég var að skrifa þetta þá mundi ég eftir einu alls óskyldu sem gerðist á skemmtistað.

Kona sem ég þekkti einu sinni fór á djammið með vinkonum sínum, ein þeirra var ekki var ekki sliguð af heilafarangri.  Hún sá mann, henni fannst hann sætur og hún fór til hans og sagði við hann; "blessaður, skjótt skipast veður í lofti". (Henni fannst frasinn svo djúpur eitthvað) 

Maðurinn; "What?????" 

Konan; "já skjótt skiptast veður í lofti bara, er eitthvað að því?" (Dálítið sár svona)Errm

Maðurinn; "Það hefði verið gaman að fá að vita hvað þú heitir og hvað þú villt mér áður en þú ferð að þylja veðurfregnir"W00t

Miðað við svona samtöl er kannski fínt að blasta músíkina þannig að ekki heyrist mannsins mál.

Ég er á því.

Annars fer ég ekki á bari svo mér er andskotans sama.

En af hverju er fólk að leggja á sig eyrnamisþyrmingar?  Fyrir búsið eða fyrir ástina eða félagsskapinn eða allt í senn?

Bíts mí.

Nei, nei, ég er að fokka í ykkur.  Ég skil alveg að fólk fari á djammið, ég var einu sinni í þeim sporum líka, sko áður en ég þroskaðist og fór að hanga með Guði og félögum á kvöldin.

En ég skellti þessari mynd inn af Gilzenegger, eða mér sýnist þetta vera hann.Halo

 

 


mbl.is Hávaði eykur bjórþambið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, fíflið þitt

 crying-bride

Þegar verið er að gera rannsóknir á hjónaböndum, sérstaklega fleiri en einu hjá sama einstaklingi, skil ég ekki af hverju enginn hefur samband við mig.  Ég er fokkings sérfræðingur í greininni og á bæði hjónabönd í fleirtölu og fjölmarga eiginmenn að baki.  Þetta vita allir, því ég gusa úr reynslubrunni mínum yfir gesti þessarar síðu við öll möguleg og ómöguleg tækifæri.

Meiri kjánarnir að tala ekki við mig.  Kristmann Guðmundsson er hjá Guði en hann var sérfræðingur sem sláttur var á.

Fyrsta hjónabandið endist best segja rannsakendurnir.  Ekki nógu lengi þó til að viðkomandi hoppi ekki í annað, því ef svo væri, væri enginn samanburður inn í myndinni. Döh.

Mín reynsla er ekki svona.  Ég reyndar man afskaplega lítið eftir fyrsta hjónabandinu mínu, það er í móðu, ekki vegna hugbreytandi efna heldur vegna þess að það er svo helvíti langt síðan að það átti sér stað.  Nánar tiltekið þ. 22. apríl 1973.

Þetta hjónaband var nærri því óvart, fínn vinur minn þessi eiginmaður og pabbi flottasta frumburðar í heiminum, hennar Helgu Bjarkar.  En auðvitað rauk vinskapurinn út um gluggann eftir að við fórum að deila beðju.

Einhvern tímann löngu seinna hlógum ég og þessi fyrrrrrrrrrrrrrrrverandi að því að við rifumst eins og hundur og köttur á leið í kirkjuna, vorum ekki á "speking terms" í athöfninni og jáin frussuðust illskulega út úr okkur og í huganum bætti ég við; "fíflið þitt".  Svo héldum við áfram að rífast fram eftir degi.  Dunduðum okkur alveg sæl við það, þessi krútt sem við vorum.

Ég man líka að ég fór í hárgreiðslu á brúðkaupsdaginn og hárgreiðslukonan spurði mig vingjarnlega í hvaða kirkju ég væri að fermast.  Ég molnaði í spað.  Hvílík grimmd.

En ég verð að halda áfram með hjónaböndin sem á eftir komu, málið er nefnilega að eftir því sem þeim fjölgar því betri verða þau.  Alveg eins og vínið, þið sem eruð að sulla í áfengi ennþá og skiljið ekkert nema bragð og áfengisprósentur.  Frusss

Merkilegt að enginn skuli hafa áhuga á að leita eftir sérfræðikunnáttu minni í hjónaböndum.

Ekki heldur hvernig á að ljúka þeim.

Ég er svo aldeilis hissa.

Úje.

 


mbl.is Fyrsta hjónaband endist best
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðir, vondir strákar

 hjúkka

Það er alltaf verið að rannsaka "bad boy heilkennið" og hversu mikið aðdráttarafl vondu strákarnir hafa á konur.

Hérna er verið að rugla saman tveimur óskyldum fyrirbærum. Það ættu rannsakendur að vita og taka mark á þegar þeim eru réttar upplýsingarnar frá fyrstu hendi.

"Vondir strákar" sem margar okkar höfum verið skotnar í, í gegnum árin og á öllum aldri eru að mínu mati blásaklausir töffarar sem ganga ekki með grunngerðina utan á sér, að minnsta kosti sumir hverjir.

Það eru ekki slæmir náungar.  Hver fellur ekki fyrir klárum manni, sem svarar vel fyrir sig, þrátt fyrir að hann virki svolítið hrjúfur og kunni ekki á rauða dregla lífsins? 

Ég hef löngum verið svag fyrir svoleiðis mönnum.  Ekki lengur enda 10 ár síðan ég gifti mig síðast og er bara  sátt við minn hlut svona hjónabandswise. 

 Ég hef aldrei séð neitt sjarmerandi við menn sem eru eins og kínverskir húsþjónar með framhaldsmenntun í hjúkrunafræðum og vaða um allt þurrkandi af og síspyrjandi hvort manni vanti eitthvað, eru sífellt sammála ruglinu sem vellur upp úr manni (mér) og kóa með manni í vitleysunni þar til kona læðist að viðkomandi í skjóli nætur, myrðir hann og nýtur þessDevil.

Svíar kalla þessa tegund "Velúrpabba" eða "Töffluhetjur" þetta eru mennirnir sem sitja fyrir þér með teketil og heimabakað þegar þú vilt helst fara á djammið.  Þeir eru með plástur í töskunni, ef þú skyldir hrasa.  Þeir kunna fyrstu hjálp og beita henni á þig þegar þú hóstar kurteisislega.  Þeir eru með verkfæratösku í bílnum, þannig að ef hái hællinn gefur sig t.d. þá er skóvinnustofa í skottinu hjá mannhelvítinu og málið dautt.  Þú getur ekki upphugsað neina þá ósk sem maðurinn er ekki fær um að láta rætast á andskotans nóinu.

Ég vil ekki sjá svona hjúkrunarmenn nema á spítölum og öðrum umönnunarstofnum og verkstæðum.

Og svo eru það "slæmu strákarnir" sem eru helvítis merðir og kvikindi.  Það er allt annað mál, ég myndi ekki einu sinni taka í spaðann á svoleiðis aula.

Robbie Williams er t.d. enginn "bad boy" eins og ég sé þá.  Hann er hrokafullur sjálfsdýrkandi og hann er útblásinn á eigin egói.  Ég held ekki að nokkrum kjafti þyki það sjarmerandi, nema kannski mömmu hans, sem ég er þó alls ekkert viss um.

Það er fullt af svona mönnum, ef eitthvað þá eru þeir verri en karlkyns útgáfan af Florence Nightingale.

Og hana nú og habbðu það sagði kerlingin.

Ég var rétt að byrja að hita mig upp og þá nennti ég ekki lengur út í karlafræðin sem ég hef stúderað frá unga aldri vegna óslökkvandi áhuga á tegundinni.

Ég kem bara með framhald.

Nú er ég að hugsa um að legga mig.

Adjö og Úje.

Engan friggings æsing í kommentakerfinu.  Þá sendi ég á ykkur vondan mann.


mbl.is Vondu strákarnir sigra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klobbamál og raðfullnægingar

Þrátt fyrir að ég láti eitt og annað út úr mér hér á blogginu, þá er það ekki endilega eitthvað sem má heimfæra upp á mig í raunheimum.

Ég er til dæmis kjaftfor með afbrigðum á síðunni minni þegar tilfefni gefst til en í raun og sann er ég svo kurteis að ég líð fyrir það.  Oftast en alls ekki alltaf.

Ég er líka alveg hryllilega gamaldags í sambandi við umræður um kynlíf.  Þrátt fyrir að vera af ´68 kynslóðinni sem kallaði nú ekki allt ömmu sína í klobbamálunum.

 Rannsóknir um kynlíf britast nánast daglega á Mogganum.  Frá öllum sjónarhornum.

Nú er það gamla gengið.  Áttræðar konur í raðfullnægingum daginn út og inn.

En það stendur ekkert hvernig þær eru að bera sig að.

Það er engan veginn nógu gróft að segja bara að þær séu alltaf ríðandi, það vantar díteila hérna.

Hvaða stellingar notar gamla fólkið.  Hrörnar snípurinn?  Minnka typpin, úðar fólk á elliheimilum í sig Viagra?

Sama er með konur á sextugsaldri.  Eru þær graðari en þær áttræðu?  Hvað með minn aldur?  Ég gef ekkert upp.

Og nú er ég búin að ganga fram af sjálfri mér í grófleikadeildinni.

Annars á að vera hægt að segja píka, tittlingur, ríða, rúnka og allt hitt án þess að blikna - það er sko nútíminn og hann er svo hipp og kúl, svo opinn fráls og utanáliggjandi.

En hvar er rómansinn?  Fínlega daðrið, kertaljósið, fikt í hári, og knús í strætó?

Má ég heldur biðja um það?

Og svo vona ég að gamlar konur og gamlir menn fái að hafa kynlífið sitt í friði.

Og hana nú.


mbl.is Meira kynlíf og oftar fullnæging
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 2987751

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.