Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísindi og fræði

-The "E" Word -

Ég skrifaði einhvern tímann færslu um "EN-heilkennið".  Sem mér finnst alveg merkilegt fyrirbrigði.

Fólk samþykkir það sem þú segir og segir svo "en" og er svo gjörsamlega ósammála.

Eða þá heldur einhverju fram og tekur það svo strax til baka með "en-inu".

Ég er að velta því fyrir mér hvort það sé ekki algjör óþarfi að teygja lopann á þennan máta í staðinn fyrir að koma sér beint að efninu.

Ég tek dæmi:

Nei Jenný, þú ert alls ekki frek og hvatvís EN þú ert frekar skapstór og segir yfirleitt það sem þér dettur í hug án þess að hugsa.Errm

Nei Guðrún, þú er sko ekki feit fyrir fimm aura EN hefurðu eitthvað pælt í að fara í líkamsrækt?  Það hreinlega leka kílóin af fólki er mér sagt.

Nei Elsa, ég er alls ekki móðguð út í þig EN mér fyndist nú að þú ættir að gæta þín á hvað þú segir, þú gætir sært fólk.

Og hin hliðin.

Ég er sko alls enginn rasisti, það má guð vita EN ég er algjörlega á móti því að við kjaftfyllum allt af útlendingum og svo taka þessir andskotar vinnuna frá Íslendingum.

Ég er jafnréttissinni út í gegn EN mér finnst þetta kerlingarvæl um að konur fái lægri laun og að gengið sé fram hjá þeim algjört móðursýkistal og femínistavæl.

Við stjórnmálamenn lofuðum bættum kjörum til þeirra lægst launuðu í þesum mánuði EN við ætlum ekki að gera það. Só?

Af hverju segjum við ekki bara hvað okkur finnst án þess að pakka því inn í viðurstyggilega væminn glanspappír og eyðum svo fleiri klukkutímum í að ofskreyta böggulinn með slaufum?

Ég veit það ekki, ég dett í þessa gryfju sjálf og hljómsveit hússins missir sig reglulega í "en-ið" líka.

Í morgun áttum við heitar fjármálaumræður við morgunverðarborðið.

Ég: Ertu að segja að ég sé eyðslusöm?

Hljómsveitin: Neið auðvitað ekki EN þú ert að fara að kaupa þetta sóandsó þrátt fyrir að það sé þræl dýrt og við þurfum ekkert á því að halda.

Ég: Þá ertu að segja að ég sé eyðslusöm Einar.

Hljómsveitin: Nei alls ekki EN þú mættir fara aðeins betur með peninga stundum.

I rest my case og ég elska þennan mann.

Og ekkert helvítis EN með það.

EN..

Djók.

Síjú


Frá stjónarhóli steingeitar

Að pæla í stjörnuspám er skemmtilegt tómstundagaman sem ég btw stunda ekki. Halo

En ég hef fengið stjörnukort og svo finnst mér gaman að reyna að geta, í hvaða stjörnumerkjum fólk er.

Ég ulla svo auðvitað á stjörnu"spár" í dagblöðunum því þær eru húmbúkk og blaðamaður vinur minn sem var á gamla DV sagði mér að sá sem verst stæði sig í djobbinu fengi stjörnuspá dagsins til að setja saman.  Skelfilegt alveg, sko meðferðin á blaðamönnunum í denn.

Stjörnuspá Moggans er heimur út af fyrir sig.  Hún er oftast svo illa unnin, beinþýdd úr framandi tungumáli, amk. hlýtur það að vera framandi fyrir þann sem stendur að þýðingunum, hrein kínverska segi ég.  Eða þannig var það þegar ég fylgdist með.

En núna áðan rakst ég á mína eigin(s) persónulegu stjörnuspá.

SteingeitSteingeit: Þú ert sagnfræðingurinn í hópnum: sá sem man áríðandi smáatriði sem aðrir virðast gleyma. Sumt sem þú manst kemur sér mjög vel. Deildu öllu sem þú veist.
Oft ratast kjöftugum satt á munn.  Ég er hreint hættulega minnug, um alls kyns og oftar en ekki smáatriði.
Nema auðvitað þegar ég var í víninu og pillunum, þá var það blakkát alla leið.  Hefði getað flutt á milli landa án þess að verða vör við það einu sinni.
En þar fyrir utan er ég eins og fíll.  Sumum finnst það frábært öðrum ekki, eins og gengur.  Fer svolítið eftir muneríinu sem er til umfjöllunar hverju sinni.
Ég geri yfirleitt eins og mér er sagt og þess vegna mun ég á næstu dögum deila með ykkur öllu sem ég veit.
Nei, ég er að spauga.  Ég get ekki gert það sökum þess að ég er bundin þagnarskyldu.W00t
Það væri þokkalegt ef maður væri svo illa fokheldur að straumurinn stæði út úr manni af því að stjörnuspáin segir manni að gera það.
En þessi texti hér fyrir ofan, hvað er svona spálegt við hann?
Er verið að segja manni eitthvað um framtíðina?
Hvar eru spámannstaktarnir?
Eins gott að þessir spámenn eru ekki ráðgjafar ríkisstjórnarinnar.  Eða eru þeir það?
Í dag skaltu vera í svörtu dragtinni þinni og ekki segja eitt einasta orð.  Skildu gjóthnullungahálsmenið eftir heima!
Eða; í dag er stemmari fyrir allar meyjur í ríkisstjórn að fara í bláu jakkafötin.  Þeir eiga síðan að hreyta ónotunum í alla mögulega blaðamenn sem áreita þá fyrir hádegi og heita nafni sem byrja á S.  Eftir hádegi skal meyjan hins vegar ekki vera ínáanleg.
Svei mér þá, ég sé peninga í þessu djobbi.
Geir Hilmar???
Einhver????
En svo vil ég að það komi fram hér vegna þess að engin hefur spurt að ég er sérfræðingur að sjá út meyjur.
Þær má auðveldlega þekkja.
Þær eru löffar, bókarar, planleggjarar, uppraðarar, tiltektarséní og akkúratalltafhreintfólk.
Já Dúa mín, ég elska þig líka.
Spáin fyrir næsta klukkutímann fyrir öll merki er einföld: Farið að undirbúa kvöldmatinn og hættið að hanga á helvítis blogginu.
Later ...
Ekkert svo möts leiter.
Úje.

Laufin í vindinum

Unglingurinn í "Bjargvættinum í grasinu" vildi óður komast að því hvað yrði um endurnar á tjörninni í Central Park þegar hún frysi.  Hann spurði leigubílstjórann og sá varð ógeðslega pirraður á spurningunni og líka maðurinn sem hann hitti á göngu.  Þeir urðu pirraðir af því þeir vissu ekki hvað yrði um fjandans endurnar.  Annars er Bjargvætturinn ein af perlunum í bókahálsfestinni minni.

Og núna í dag, nánar til tekið, er ég með svipað vandamál og unglingurinn Holden í bókinni.

Á trjánum eru milljónir laufa.  Það er ekki þverfótað fyrir þeim á þessum árstíma og á reyndar eftir að versna.  Látin lauf út um allt.

Eftir veðrið í nótt er allur garðurinn hjá mér þakin laufum en nóg eftir á trjánum samt.

Miðað við allan þennan hóp af laufum er það stór undarlegt að þau skuli yfirleitt hverfa.  Mér fyndist mun rökréttara að þau væru í hrúgum og breiðum fram á næsta vor.

Hvert fara þau?  Hvernig geta þau horfið á svona stuttum tíma?

Kannski á ég að vita þetta.  Ég þekki jafnvel ekki rétta fólkið.  Má vera að ég hafi verið alin upp af fólki sem lét sér á sama standa um laufin á trjánum þegar þau voru fölnuð?  Var hún amma mín tilfinningaköld gagnvart afdrifum laufa og annarra náttúruafurða?

Held ekki en þetta kom aldrei upp í samræðum.  Hún kenndi mér hins vegar allt um blóðberg og fjallagrös ásamt því að setja mig inn í líf alþýðufólks í byrjun síðustu aldar.  Laufin urðu útundan af einhverjum ástæðum.

Segið mér hvað verður um laufin.  Ég er ónýt til allra verka þar til málið hefur verið til lykta leitt.

Annars góð.

P.s. Ætli það sé hugmynd að kveikja í þeim?  Ég meina lyktin hlýtur að vera góð.

Neh


mbl.is Mörg útköll vegna óveðursins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég vildi að ég væri bindishnútur

Tækifærin til að leggjast í þunglyndi koma á færibandi þessa dagana.

Jarðskjálfti í morgun og hamfarir um allan heim gefa ekki tilefni til sérstakrar gleði.

Fjármálaheimurinn er á þvílíkri hraðferð til helvítis að enginn yrði hissa þó fólk yrði flutt í förmum á geðdeildir heimsins.

Bindishnútarnir í heiminum sem eru ábyrgir fyrir fjármálakreppunni keppast við hver um annan þveran að útskýra málið og sjá; þeir hafa ekkert með ástandið að gera, "utanaðkomandi og ófyrirsjáanlegar aðstæður" er glæpasnifsið í málinu.

Það er catch 22 hundalógían sem blívur.

Enginn er ábyrgur þessa dagana.

Ekki Geir, ekki Solla, ekki Áddni og svo yppa allir öxlum og hrista hausinn.

Við almenningur misskiljum bara og náum ekki (sökum heimsku vænti ég) hvað allir eru að fórna sér biggtæm fyrir okkar hönd.

Hundalógían er í hávegum höfð hjá lögreglustjóranum í Reykjanesbæ.

Við skiljum ekki málið, segir hann ábúðarfullur, rökstuddur grunur er fyrir hendi um ólöglegt athæfi hælisleitenda.

Þess vegna má rífa af þeim allt lauslegt. 

Ef einhver hringdi á bjöllunni hjá mér núna frá ríkislögreglustjóra og segði við mig að ég væri grunuð um landráð þá færi ég auðvitað á límingunum vitandi að ég er búin að rappa þjóðsögnin og taka hann í öllum öðrum mögulegum útgáfum og það er bannað með lögum.

Ég myndi spyrja fyrir hvað eins og hvítþvegin engill í andlitinu.

Og þeir væru eins og sprúttsalar í framan og myndu segja mér að það væri rökstuddur grunur um að ég hafi framið voðaverk gegn landi og þjóð.

Ég: Rökstuddur grunur?  Hver er hann?

Þeir: Við látum ekkert upp um það, við verðum að halda heimildum okkar leyndum.

Svo yrði ég sett í bönd, leidd út í Blökku Maríu og látin í svarthol.

Rökstuddur grunur er öflugt vopn í baráttunni við vonda og hættulega fólkið.

Ég vildi óska að ég væri bindishnútur.

Þá væri bókstaflega andskotans ekkert mér að kenna.

Blame it on the weather!

Annars í stuði og ég hjala eins og geðgott smábarn.

Later my friends.


mbl.is Snarpur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kveðjur frá alkanum

 

Þegar stelpurnar mínar voru litlar var ég með þá vitneskju múr- og naglfasta í höfðinu að eyranpinnar væru ekki ætlaðir til nota í eyru.

Fyrir mér er það stór furðulegt að nú í dag skuli komi frétt um að bandarískir læknar hafi komist að þeirri niðurstöðu að þeir geri ógagn.

En halló - hr. læknismaður - ekki að ræða það að ég trúi að ekki eigi að fjarlægja eyrnamerg hjá börnum. 

Ég er ekki að meina að maður eigi að skafa úr eyrum barna - eða fullorðinna, en eyrnamergur sem vellur út úr eyrum er hvorki heilsusamlegur vegna þess að viðkomandi er á jaðri heyrnarleysis þegar þar er komið sögu, fyrir utan það hversu ógeðslegt það er að sjá heiðgulan massann kíkja út í sólina.

Hafið þið verið svo óheppin að fá að bragða þessa líkamsafurð?  Ég státa af þeirri reynslu.  Fékk óvart upp í mig örlítið í einhverjum hamangangi og voila bragðið er eins og af Campari.

Svo gerist þetta æ undarlega.  Haldið ekki að Caparíið bragðist eins og eyrnamergur?

Jabb.  Satt. 

Hér á árum áður þegar ég vildi vera í stíl þá drakk ég stundum Campari af því ég átti kjól í þessum rauða lit.  Mér var sagt að bragðið myndi venjast.  Ég reyndi og henti svo kjóldruslunni.

Já og svo drakk ég twentívonn í stíl við eitthvað, minnir að það hafi verið fjólublár fínflauelskjóll.

Svo fór ég að vera eingöngu í svörtu.

Þið vitið að svart gengur við allt.

Nema hvað - auðvitað endaði ég í meðferð.

Allt fatasmekknum að kenna.

Kveðjur.

Alkinn.


mbl.is Bómullarpinnar gera meira ógagn en gagn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pilsmaður - eða sokkabuxnanörd?

Ég er alltaf pælandi í fötum.  Jájá, það vita þeir sem hér lesa.

Og nú hef ég af gefnu tilefni lagst í rannsóknir á skotapilsum.

Ég játa það hér með og skammast mín ekki afturenda fyrir að vera svag fyrir mönnum í pilsum.

Þegar ég nefndi þetta við húsbandið í gær var hann dálítið hissa á þessum smekk mínum og vildi vita hvað væri aðlaðandi við háruga karlmannsleggi í pilsi.

Ég átti ekki erfitt með að segja honum það.  Ég er nefnilega á því að það sé smá ertandi þegar karlmenn sveipa sig hefðbundnu kvennaklæði eins og pilsið óneitanlega er - EN - án þess að vera að klæða sig til konu.

Þegar konur fóru að klæða sig í jakkaföt (Frida Khalo og Cocco Channel) þá gengu þær algjörlega á skjön við ríkjandi tísku og hugmyndir manna um hvernig konur ættu að vera til fara.  Auðvitað slógu þær í gegn kerlurnar.

Menn í sokkabuxum eru hins vegar algjört törnoff (nema í ballett og það telst ekki með.  Maður er ekki að fiska í balletttjörninni skiljið þið).

Fötin eru ógeðslega stór hluti af ímynd fólks.  Þá er ég ekki að meina að allir þurfi að vera uppstrílaðir í merkjafötum, heldur er ég að meina svona mun eins og á gráum útþvegnum joggingbuxum - versus gallabuxum.

Einu sinni voru sokkabuxur í tísku hjá körlunum.  Það má vel vera að Hinrik VIII og félagar hans hafi verið að skora feitt í sokkabuxunum en ímyndið ykkur eftirfarandi:

Geir Haarde að hundskamma Sindra í Markaðnum fyrir framan stjórnarráðið í  hvítum sokkabuxum.

Árni dýralæknir með attitjút í Kastljósinu í grænum sokkabuxum með krosslagða fætur, alveg bálillur og ábúðarfullur.

Egill Helga á vappi við tjörnina í bláum tæturum og í jakkanum og bindinu. Hm..

An on and on and on.

Ég er biluð - á alls ekki að vera að upplýsa fólk um ömurlega fánýtar hugsanir mínar á meðan heimurinn er að fara til helvítis.

Sorrí - hraðallinn splundraði ekki jarðarkringlunni.

Farið með þessa færslu eins og mannsmorð.

Halló Hafnarfjörður hvað þið eruð miklar dúllur.

Fyrir mér eru Skotarnir beisíklí búnir að vinna - út af pilsunum sko.

En - áfram Ísland.

Úje.


mbl.is Allt klárt fyrir Skotaleikinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er G-bletturinn til?

 gblettur

Eigið þið ykkur fullnægingarfortíð?  Ef svo er þá er að leita sér hjálpar.  Fullnægingar eiga væntanlega að vera í nútíð til að skipta máli í lífi fullnægingarþegans.

Meira andskotans ruglið.

Er heimurinn einhverju bættari með því að vita að ef kona steðjar áfram, skreflöng og einbeitt á göngu þá hefur hún fullnægingarsögu upp á G-blett á enninu?

Eða ef þú silast áfram skref fyrir skref með leggi samanklemmda að þá er G-bletturinn að detta niður úr leggöngum þínum og stórslys í fullnægingardeildinni yfirvofandi?

Alveg er mér sama hvar minn G-blettur er eða hvort hann er til staðar yfirhöfuð. 

G-bletturinn er eitthvað sem þú ert ekkert að láta taka myndir af ef þú færð það ekki.  Þú hendist ekki til kvensjúkdómalæknis og biður hann að athuga hvort G-bletturinn sé bólginn eða á flakki upp undir brisi af því að þú fékkst það ekki í gærkvöldi, er það?  

Þú ert ekki að úti að borða í góðri líðan og rýkur svo allt í einu á fætur og tekur tilhlaup að útidyrunum, farin heim á innsoginu bara af því að G-bletturinn er að drepast úr þreytu.  Ég held ekki.

Sko konur fengu langar-, stakar-, öflugar-, örar-, stuttar-, vart merkjanlegar- og raðfullnægingar löngu fyrir uppgötvun G-blettsins.  Hvað er að?

Svo koma núna einhverjir rannsóknarperrar sem fá kynferðislega út úr því að gægjast á konur labba (ekki versta blæti í heimi, viðurkenni það) og gera úr því rannsókn sem þeir geta falið sig á bak við.

Leim.

Ekki það að mér sé ekki slétt sama um þennan blett þarna, eða þessa rannsókn yfirhöfuð en mig langaði bara svo rosalega að blogga um G-blettinn.

Það er svo kyn-legt.

Súmí.


mbl.is Göngulagið kemur upp um G-blettinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef ég dey - nú þá dey ég - lifið með því

Ég hef fengið svo mörg brjálæðisköst um ævina vegna köngulóa að ég held að ég sleppi því núna.

Skrýtið hvað "úlfur, úlfur" heilkennið hittir mann stundum fyrir.

Ég er búin að fabúlera um það margoft á blogginu hvað ég myndi gera ladídadída ef ég gengi fram á eitraða óskapnaði í köngulóarformi og lýsa því fjálglega.

Núna, hins vegar, þegar innrás ógeðanna er hafin þá nenni ég ekki að garga, nenni ekki að hoppa hæð mína og nenni ekki að gúggla viðbjóðinn til að kanna með einkenni af biti frá viðkomandi langlöpp og hvernig á að bregðast við þeim.

Það er af sem áður var, mér er virkilega að förlast.

Einu sinni rétt áður en ég flutti til Íslands frá Gautaborg fór ég að hitta vin minn á kaffihúsi í hádeginu.  Ég keypti mér GP til að lesa á meðan ég beið.  Á forsíðunni var mynd af Tarantúllu sem hafði sloppið úr búri hjá löggunni, að mig minnir.  Ég hoppaði nánast upp á borðið þarna inni í kaffihúsinu og um mig fór þvílík skelfingarbylgja og mér leið eins og hún hefði farið rakleiðis að leita að mér haldin einbeittri þráhyggju á minni persónu.

Og ég gat varla horft á Charlotte´s web með henni Jenný Unu út af þessum köngulóartryllingi.

Ótrúlegar svona fóbíur.

Þegar ég las þessa frétt þá hugsaði ég - fóbíu minni trú - nú hafa ættingjar þessarar þarna í Reykjanesbæ verið sloppnar á undan henni í bæinn.W00t

Og það fór um mig hrollur og mig klæjaði út um allt.

En svo nennti ég ekki að vera með læti.

Ég er orðin svo leið á sjálfri mér veinandi og gargandi með líkurnar 1/trilljón eða nánast.

En ef þær koma - þá dey ég. Dílvitðit!

Það er ekki öðruvísi.

En þá verða ansi margir hryggir.  Ég er svo unaðslegur persónuleiki.

Liggaliggalá.


mbl.is Risakönguló í Reykjanesbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú bloggar ekki um þetta Jenný Anna

Ég fæ hverja rannsóknina á fætur annarri upp í hendurnar í dag.

Reyndar hef ég legið í rúminu fárveik en það bráir af mér á milli og þá kíki ég á Moggann, nema hvað?

Og nú eru það mennirnir sem velja konur sem líkjast mæðrum sínum og v.v.

Látum okkur nú sjá, hugs, hugs.

Ég með alla mína fjölmörgu og breytilegu eiginmenn get ekki skrifað upp á þetta.  Þeir líkjast pabba mínum ekki vitundarögn.

Tommy Lee úr Mötley Crüe sagði: Varið ykkur strákar og farið rólega í sakirnar þangað til þið eruð búnir að hitta mömmurnar.  Það er náttúrulögmál að dömurnar eiga eftir að stökkbreytast í þær einn daginn.

Ég spurði húsband hvort ég væri lík mömmu hans.

Hann: Lík mömmu, í útliti?  Þið eruð eins og svart og hvítt.

Ég: Nei í mér held ég?

Hann: Það veit ég ekki, af hverju?  Ég hef aldrei pælt í því.

Ég: (Að fiska eftir gullhömrum); Hvernig er ég öðruvísi en mamma þín?

Hann: Ég get ekkert svarað því, þú ert þú og hún ert hún.  Ekki frekar en ég get sagt þér muninn á þér og Díönu prinsessu, þið eruð einfaldlega sitthvor konan.  Það sem þér dettur í hug KONA.

(Þarna hefði ég getað bent mínum heittelskaða á nokkuð stóran mun á milli mín og Díönu, ég lifi en hún ekki, en ég fékk mig ekki til þess - fann að það var ekki stemmari fyrir því við hirðina).

Vá erfitt að koma samræðunum á strik hér, sama hvað ég reyni.

Ég:  Heldurðu að þú hafir gifst mér af því ég minnti þig á mömmu þína, það er sko rannsókn sem bendir til þess að það sé sollis.?

Hann: Jenný ertu að fíflast í mér?  Þið eruð tvær ólíkar manneskjur, ég elska ykkur báðar en ég get ekki borið ykkur saman, það er ekki RAUNSÆTT.

Og þegar hér var komið sögu þá rann upp fyrir mér ljós.

Húsband er alveg eins og pabbi.

Þeir eru með báðar lappir á jörðinni og hafa skotið þar rótum.

Og svo leit hann á mig og sagði:

Þú bloggar ekki um þetta samtal Jenný Anna.

Ég: Nei, nei, ég ætla að fara og blogga um smá pólitík bara.Whistling

Hann: Hmrpf!

Ég er mamma mín!

 


mbl.is Konur velja menn sem líkjast pabba þeirra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sökka í samböndum og gráta úr sér augun

Enn ein rannsóknin á undarlegheitum hefur litið dagsins ljós.

Nú eru það karlmennirnir sem eru með gen sem kemur í veg fyrir að þeir þori að binda sig.

Mennirnir með genið eiga erfiðara með að tengjast mökum sínum en þeir sem eru án gens.

Þetta er öflugt kvikindi sem gerir það að verkum að þeir sem það hafa sökka í samböndum.

Að sama skapi skilst mér að þeir sem eru með þessum ósköpum fæddir fari ekki í ástarsorg vegna þess að þeir eru svo tilfinningalega flatir.

Ástarsorg er vond, minnir mig, alveg ferlega svíðandi tilfinning en sam smá ljúf.

Þið kannist kannski við tilfinninguna þegar ykkur finnst sólin skína af algjöru tillitsleysi við ykkar skelfilegu líðan.  Gula fíflið sendir ykkur stórt fokkmerki og hlær ofan í bringuna á sér.

Og á meðan maður er í sárri ástarsorg þá fer fólk í vinnuna, kaupir í matinn, horfir á fréttir án þess að skenkja því þanka að þarna úti er manneskja sem ÞjÁIST.

Svo er það tónlistin.  Hún spilar stóra rullu í ástarsorginni.

Lögin sem ÞIÐ hlustuðuð á.  YKKAR lög.  Þú villt ekki heyra þau en auðvitað hefur útvarpsfjandinn og þeir sem þar stjórna lagt sig fram um að spila hvert einasta friggings lag sem hefur með ykkur tvö að gera.

Og við verðum sorgmædd þegar við komum á ákveðna staði.   Staði þar sem þið voruð saman.  Aljört búhúhú.

Ég var fyrir nokkuð löngu síðan í heví ástarsorg.  Ég og Svala Norðdal vinkona mín fórum í ferðalag sem var þegar upp var staðið, eitt af þeim skemmtilegri sem ég hef ratað í.

Þegar við keyrðum í gegnum Akureyri fór ég að gráta af því þar höfðum ég og þessi maður verið í rómans.

Svala vinkona mín þurfti að leggja sig alla fram við að hlægja ekki eins og bestía.

Það er auvitað hallærislegra en tárum taki að gráta sig gegnum Akureyti, þennan fallega bæ. En ég var BUGUÐ.  Hehe.

Ég þarf að blogga meira um svona ástarsorgir. 

Ástarsorgirnar eru svo skemmtilegar eftirá.

Og ekkert helvítis búhú með það.

Annars góð bara.

Later


mbl.is Verður hægt að forðast ástarsorg í framtíðinni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 2987751

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30