Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Edrú - Edrú - Edrú - Hátíðarsnúra Jennýjar

snura

Ok, hvað getur kona sagt, þegar ár er liðið frá því að hún labbaði inn á Vog?  Ég veit svei mér þá, ekki hvernig maður hagar sér þegar þeim áfanga er náð.  Ég fór svo sorgmædd og niðurbrotin inn í meðferð, með nánast ekkert að vopni nema smá von um að það væri möguleiki fyrir mig að komast aftur til mannheima.

Dagarnir hafa orðið að vikum, vikurnar að mánuðum og alltaf hefur útsýnið af snúrunni minni orðið fallegra og betra.  Það var erfitt að byrja að blogga um að ég væri alki.  En fljótlega var það orðið hreint ótrúlega auðvelt að gangast við því,  og ég hamraði um edrúlífið mitt af miklum móð, á lyklaborðið.  Erfiðast fannst mér þó að setja það í orð, að ég hefði líka misnotað lyf.  Bæði svefnlyf og róandi.  En ég lét vaða og fljótlega öðlaðist ég frelsi frá þeirri skömm líka.

Sumum sem ég þekki finnst út í hött að blogga um að vera alki.  Finnst að það eigi að vera prívat.  Nafnlaust.  Ég er ekki sammála.  Mér er illa við leyndarmál.  Þau hafa reynst mér þung í skauti.  Leyndarmálin og óheiðarleikinn sem fylgja því að vera virkur alkóhólisti meiða bara og særa.  Þess vegna hefur það bara hjálpað mér að tala og skrifa um það á opinskáan hátt.  Það hefur sætt mig betur við sjálfa mig og það sem var.

Ég er ekki stolt yfir því að hafa eytt einhverjum X fjölda ára í að hálfdrepa mig sullandi og étandi lyf.  Svo ég ekki tali um hvað það gerði mínum nánustu og öllum sem þóttu vænt um mig.  En ég get ekki breytt fortíðinni.  Það er ljóst.  En ég horfi nokkuð stolt fram á veginn.  Ég er að vinna á mínum sjúkdómi og ég hef verkfærin til þess.

Á Vogi eignaðist ég trú á sjálfa mig og lífið.  Með hjálp frábærs fagfólks og allra reyndar sem hjá SÁÁ vinna, gat ég risið upp og orðið sjálfri mér lík á ný.

Í dag hef ég verið undarlega meyr.  Ég hef eiginlega verið hálf klökk og glöð til skiptis.

 Jibbí, ég er eins árs í dag.  Í eitt ár hef ég verið allsgáð.  Ég ætla að fá mér súkkulaði með rjóma, í morgunmat í fyrramálið.

Og þið bloggvinir mínir og allir sem hafið sent mér stuðningskveðjur.  Takk kærlega fyrir mig.  Það hefur glatt mig ósegjanlega mikið.

Ójá.

 


Af Bördí Jennýjarsyni, niðurhali og óvissuferð um eldhús

Bördí Jennýjarson gerir það ekki endasleppt.  Hann er núna í algjörri lausagöngu og fer aðeins inn í búrið til að borða.  Hann hefur tekið yfir stofuna, ganginn og eldhúsið.  Í kryddhillunni er öllum þurrkuðum jurtum ógnað, þar sem hann ýtir öllum staukum sem fyrir honum verða, frá með miklum gassagangi.  Niðurstaða: 4 kryddkrukkur brotnar og mikð vænghaf yfir eldavél.

Ég hef ekki komist í tölvu vegna niðurhals eiginmanns á allskyns fídusum.  Það hefur tekið 4 klukkutíma.  Á meðan sat ég í fýlu í eldhúsinu ásamt Bördí, sem týndist bak við reikningahrúgu fyrir ofan ískápin.

Nú fara fram samningaumleitanir við fuglskratta, um veru í búri til morguns.  Horfur á niðurstöðu ekki góðar.

Sé ykkur eftir að fugl hefur verið veiddur í slæðu og troðið í búr.

FíddfíjúWhistling


Þá er búðarþjófnaður úr sögunni

Mér er létt.  Nú get ég hætt að stela úr búðum.  Ég mun aldrei, aldrei hnupla karamellu úr Hagkaupum, ef að það er sett á skilti að ég megi það ekki.  Hér er ég búin að ganga um búðir, ruplandi og rænandi, hamingjusamlega óveðvituð um að það sé refsivert athæfi að borga ekki fyrir vöruna.  Nú er sú sælan búinn.  Og það mun standa á mörgum tungumálum.

Bannað að stela.

Steeling is prohibited.

Det är absolut förbjudet att sno saker i affären.

og svo framvegis.

Vandamálið er hér með leyst.  Þjófnaðir eru úr sögunni.

Af hverju datt engum þetta í hug fyrr?

Dhö - allir af Jökuldalnum bara? (Sorrí Jökuldælingar en þið eruð öðruvísi).

P.s. Bara svo löggann komi ekki steðjandi heim til mín að sækja þýfið, þá myndi ég ekki þora (né vilja) stela bréfaklemmu.

Jónsí (www.jonaa.blog.is) elsku vinkonan mín, eigum við að koma í Kringluna á laugardaginn?Devil


mbl.is Skilti þar sem varað er við þjófnaði sett upp í verslunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GMG, bara Baldursbörn

 

Skrýtið.  Ég, Greta, Ingibjörg Jóna, Guðlaug Björk, Ingunn, Hilma Ösp, Guðmundur og Steinunn,  erum öll Baldursbörn.  Við eigum það sameiginlegt, en við erum sko systkini.  Ætli þetta sé svona í mörgum fjölskyldum?  Kannski helber tilviljun? Ævonder.

Ég á hinsvegar ekki sameiginlegt með Hilmu og Gumma, að eiga afmæli í dag.

Til hamingju bæði tvö og Hilma mín, það var EKKI leiðinlegt að druslast með þig í vagninum út um allt.  Ungabörn með viskýrödd eru dásamleg krútt.

Lalalalala,

Ja må dem leva, ut i hundrade år.

Jajamensan.

 


Skammastín Jenný Anna

Ég verð 15 árum eldri en mér var upphaflega ætlað að verða.  Þvert ofan í öll karmalögmál.  Það kemur til af því að ég drakk í mig insúlínháða sykursýki og má ekki borða sælgæti.  Ég var ekkert svakalega hrygg yfir því að taka sælgætið út, enda ekki mikill nammiáhugamaður.  Það verkjaði auðvitað smá undan brúnuðum kartöflum og svona (svindlaði á jólunum), en annars fór ég í gegnum breytingar á mataræði nokkurn veginn sársaukalaust.

Hvað um það, af og til verður mér á í nammimálunum.  Ullabjökkin geta reynst of stór freisting fyrir konu.  Í gær fríkaði ég út, þegar skádóttir mín hún Ástrós kom með Lindubuff og Freyjurís í hús, hvorutveggja ekki á mínum haturslista.  Ég hoppaði á nammið og skutlaði því í mig, fljótar en auga á festi og sakbitin mældi ég blóðsykurinn og hann var himinhár.  Mér leið næstum eins og ég hefði skutlað í mig einum bjór.  Okokok, ég ýki, en sektarkenndin gagnvart mínu æðra sjálfi, var mögnuð.

Ég má ekki borða nammi en ég má blogga um það og setja inn myndir af varningnum.  Það er huggun harmi gegn.

Nú hef ég skriftað á blogginu og ég held að ég sé búin að fyrirgefa mér.  Ég skammast mín niður í hrúgu og mun ekki svindla fyrr en í fyrsta lagi á jólum.  Ef almættið gæti gert mér þann greiða að lækna mig af sykursýkinni meðan ég velti mér í vellystingum sælgætisins, praktuglega.

Hvað er að þér kona?  Þú ert ekki einu sinni fyrir sælgæti.  Haskaðu þér á lappir og fáðu þér gulrót.

Úje

 


mbl.is Sælgætisleysi lengir lífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frændur okkar?

Mér datt í hug að Ástralar væru skyldari okkur en mig grunaði.

Bræður okkar í baráttunni.

"Kevin Andrews, ráðherra innflytjendamála í Ástralíu, hefur tilkynnt að Ástralar muni ekki taka við flóttamönnum frá Afríku á næstunni þar sem flóttamenn þaðan hafi átt í erfiðleikum með að aðlagast áströlsku samfélagi. Á bannið einnig við um flóttamenn frá Darfur-héraði í Súdan. Þetta kemur fram á fréttavef BBC."

Algjörlega út í hött að vera að hleypa fólki inn í lönd nema viðkomandi stökkvi alfullkominn inn í samfélagið og hreinlega smelli inn í innréttinguna.

Um að gera að loka bara og henda lyklinum.

Eða gera eins og við, opna ekki einu sinni rifu á hurðarfandanum.

Arg.


mbl.is Ástralar taka ekki við flóttamönnum frá Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskilið umburðarlyndi

Ég vissi fyrir að Hæstiréttur nýtir ekki refsivald sitt í kynferðisafbrotamálum, en það er sláandi að sjá það svona svart á hvítu, eins og í þessari umfjöllun. 

Hér er enginn sem segir við afbrotamanninn: Heyrðu góði, þú hefur gerst sekur um þann ljótasta glæp sem hægt er að fremja.  Þú hefur brotið á saklausu barni og þú mátt vita að við ætlum að senda þér og öðrum "kollegum" þínum skýr skilaboð um að þetta verði ekki liðið.

Af hverju er þolþröskuldur dómsvaldsins svona hár þegar kemur að alvarlegum brotum gegn konum og börnum?

"Refsiramminn fyrir kynferðisbrot gegn börnum er jafnhár og fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni. Hæstiréttur hefur hins vegar nýtt rammann mun betur í fíkniefnamálunum en í málum þar sem börn hafa þurft að þola nær daglegt kynferðislegt ofbeldi af hendi gerenda sinna, mörg þeirra svo árum skiptir. Innflytjendur fíkniefna hafa nefnilega verið dæmdir til þriðjungi lengri fangelsisvistar að jafnaði en þeir sem beita börn kynferðisofbeldi. Sömuleiðis er þyngsti dómurinn í fíkniefnamáli næstum helmingi lengri en sá þyngsti fyrir kynferðisbrot."

Skýring óskast, þetta er gjörsamlega ofvaxið mínum skilningi.


mbl.is Hæstiréttur nýtir ekki refsivaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir rasistar

Rasistar snúa við í mér maganum.  Hvar sem ég rekst á þá.  Ég er hrædd við manneskjur sem hafa andúð á fólki á þeim hæpnu forsendum, að það komi langt að, úr öðruvísi menningu, sé með annan litarhátt osfrv.

Við hvað er þetta fólk hrætt?

Ég tala varla orðið við manneskju nú orðið sem ekki kvartar undan útlendingum í búðinni, á elliheimilinu hjá mömmu og á leikskólanum.

Er einhver annar sem bíður hangandi á húninum eftir að fá að annast þessi störf?

Nær væri að hækka launin hjá þessum stéttum, og gera íslenskukennsluna meira aðgengilega.

Ég er svo þreytt á þessu nöldri.

Hvernig væri að læra að meta fjölbreytnina sem fylgir fjölmenningarsamfélagi og nýta hana til góðra hluta?

Arg og þvarg.

Ójá

 


Skádóttir, Hillary Swank, kjúklingabringur og sár vonbrigði.

1 

Ástrósin, skádóttir mín, var hjá okkur í afmælisdinner, þessi elska, en hún varð 16 ára um helgina.  Jesús minn hvað tíminn líður.  Hún var ekki nema tæpra þriggja ára, þegar hún kom inn í líf mitt, snúllan sú arna.  Núna er hún sum sé orðin stór stelpa, samt minnsta barnið í barnahópnum okkar Einars.

Hún fór með pabba sínum út á vídeóleigu, þegar við höfðum snætt kjúklingabringur, með ofnbökuðum gulrótum, kartöflum og blómkáli, ásamt karrýlegnum eplum og dúndur sósu, allt framreitt af mér, eðalkokknum (ég er heitur aðdáandi sjálfrar mín eins og þið sjáið). 

Ég hef húsbandið grunaðan um að vera að venja mig af því að horfa á dvd-myndir.  Eins og hann er naskur að finna góðar ræmur, þá hafa undanfarin tvö skipti verið skelfileg törnoff í áhorfsdeildinni.  Núna leigðu þau hroðbjóð sem heitir "The Reaping".  Með Hillary Swank.  Ég veit ekki hvort ég muni nokkru sinni fyrirgefa Hillary fyrir þennan bömmer að leika í svona lélegri mynd, um hinar sjö biblísku plágur.  Myndin innihélt; Hillary, kaþólskan prest, svartan rannsóknarmann, myndarlegan son Satans og blóði drifið stúlkubarn , sem hljóp um allt, grunuð um að vera handbendi Satans en reyndist svo hlaupa um á Guðs vegum, þegar allt kom til alls.  Það voru pöddur og blóðá, engisprettur og bólusótt sem skreyttu myndina enn frekar.  Ójá, klígjulega spennandi.

Ég varð fyrir sárum vonbrigðum.

Þar áður leigði minn heittelskaði,  ævintýramynd um víkinga og indíána, með miklu vopnaglamri, blóði og öðrum viðbjóði.  Nei annars, ég hef hann ekki lengur grunaðan um að vera að venja mig af myndaglápi á kvöldin,  hann ER að því.

Úje


Syngdu - syngdu!

Geir Haarde er að fara að syngja inn á plötu.  Hann ætlar að syngja "Walk The Line" (Johnny Cash lagið).  Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst þetta lag svo viðeigandi.  Nú eru þeir í stjórn með höfuðandstæðingnum, eins og Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur skilgreindi Samfylkinguna á vordögum.  Mér segir svo hugur að Geir eigi eftir að þurfa að stunda töluverðar jafnvægisæfingar sem milligöngumaður milli flokkanna. 

Mér finnst Geir voða dúlla.  Landsföðurlegur og svona.  En hann er ekki sexí eins og Johnny Cash, né er hann prakkaralegur.  Hann var ekki í BÆNUM þegar Guð úthlutaði prakkaraskapnum. Það finnst mér  töluverður mínus.  En hann getur sungið er mér sagt.  Það er alltaf gott þegar fólk hefur húmor.

Hvaða lag myndi Pétur Blöndal velja sér?  Hugmyndir?

Eða Sturla?

En Kristján Möller?

En... okokok, ég er hætt.

Cry me a river!

Úje


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 15
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 2988492

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband