Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Er Davíð búinn að svara?

"Er draumurinn á enda?", spyr Mogginn með öndina í hálsinum og á við að Baugsveldið geti mögulega verið að líða undir lok.

Ég veit ekkert um það, en ég veit að draumur almennings um þokkalegt samfélag er brast í haust og þess vegna eru nýir hlutir að gerast.

Varðandi mína persónulegu drauma þá hafa þeir ekki verið góðir undanfarið og í hitasótt næturinnar dreymdi mig skelfilega.

Mig dreymdi að ég væri dottin í það.  Læddist eins og glæpamaður á milli bara til að kaupa mér áfengi og var skelfingu lostin yfir þeirri staðreynd að ég væri fallin og jafnframt dauðhrædd um að það sæist til mín við athæfið.

Alkar tala oft um svona drauma.

Og allir lýsa gífurlegum létti yfir að vakna og átta sig á að um draum hafi verið að ræða.

Svo var um mig líka - ég var ólýsanlega fegin.

Reyndar vaknaði ég við að minn heittelskaði stóð við rúmið og var að tékka á sjúklingnum.

Ég settist upp og starði í skelfingu á hann og stundi:

Er Davíð búinn að svara?

Ég veit ekki með ykkur en hjá mér hefur forgangurinn riðlast í hitasóttinni.

En ég er vöknuð.

Bláedrú og í góðum málum hvað það varðar en...

Davíð er ekki búinn að svara.

Fjandinn sjálfur.


mbl.is Er draumurinn á enda?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hormónar og pólitík

 v

Það er fyrir svo löngu kominn tími á nýjan og betri hugsunarhátt í öllu kerfinu á Íslandi eins og það leggur sig.

Karhormónisminn á fyrir löngu að vera búinn að syngja sitt síðasta tón, digrum rómi.

Stundum er eins og allt gangi út á eilífar pisskeppnir, hver hefur lengstu bununa?

Hvað er það með suma karlmenn og keppnir?

Ég fagna því að núna eru konur jafnmargar körlum í ríkisstjórn Ísland.

En fyrst og fremst vona ég að þær ástundi nýja stjórnarhætti, noti nýjar aðferðir og skoði hlutina út frá fleiri sjónarmiðum en áður hefur verið gert.

Karlarnir líka.

Jakkafatapólitík á að heyra sögunni til, hún hefur gengið af sjálfri sér dauðri.

Vinavæðingin, flokkagreiðar, pólitískar ráðningar, og annar klíkuskapur á ekkert erindi við Nýja Ísland.

Til hamingju Ísland segi ég bara og áfram svona.

Við erum bara í startholunum.

Til að fyrirbyggja of háan blóðþrýsting sumra þá hafa karlæg og kvenlæg hugtök ekki með persónur að gera heldur hugsunarhátt og aðferðir.


mbl.is Öld testósterónsins lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úthald - stærð og stífni

 frummaðurinn

Hvernig er hægt að komast eins langt frá vitrænni umræðu og mögulegt er?

Hvernig má gera laugardag í veikindum að jippói fyrir sjálfan sig heima í stofu?

Ég las auðvitað netmiðlana mér til skemmtunar og tímamorðs.

Á milli þess sem ég kúgaðist vegna ógleði af líffræðilegum toga svona til tilbreytingar.

Ég sagði við húsband þar sem hann sat og borðaði morgunmat:

Ég er alveg að æla!

Hann: Hvað varstu að lesa sem kom þér úr jafnvægi?

Ég: Arg, hvað er að þér, ég er með flensu, hita og ógleði, þetta er að ganga maður!

Hann; útúrkúl á því: Þér er nær að misnota svona "afsakið á meðan ég æli".

Ég skil við hann í bítið á mánudaginn, ekki spurning, hjartalausi mannfjandi!

En aftur að blaðaflakkinu.

Fjölnir fékk blóm fyrir hestabjörgun.

Hjá mér er hann maður vikunnar vegna þess að hann hefur náð hæðum í að koma sér á framfæri.  Enginn hrifnari af atvikinu en hann sjálfur.  Til hamingju Fjölnir.

En er ekki svolítið leim hjá kallinum að vera að tjá sig um hvað eldgömul kærasta segir um eigin kynorku?

Kommon, á maður að hlaupa til þegar fyrrverandi fara með úthald, stærð og stífni í viðtöl?

Mjög margir af mínum fyrrverandi hafa einmitt gert það.

Heilu viðtalsbálkarnir í heimspressunni um utanbókarkunnáttu þeirra í Kama Sútra fræðunum.

Ég steinheld alltaf kjafti - af því ég vill ekki vera að brjóta niður testósterónflipp manna.

Æi ég er að fokka í ykkur.

En Fjölnir var snöggur með hestana, það tók sig upp löngu dauð heilabylgja vegna kuldans í vatninu.

Og hann stökk á tækifærið.

Jájá, hann gerir sig sjálfur að skotmarki maðurinn.

Og ég nýti mér það til dundurs.


mbl.is Fjölnir segir Mel B líklega bara með alzheimer
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég spyr

spurning 

Mér var einu sinni sagt að engin spurning væri heimskuleg.

Einfaldlega vegna þess að ef þú spyrð þá vantar þig upplýsingar.

Klisja?  Örugglega en það er alveg glóra í henni samt.

En varðandi spurningar:

T.d. Sturla Böðvarsson, fráfarandi forseti þings og núverandi óbreyttur þingmaður.

Í 12 ár vissi hann allt sem hann þurfti að vita reikna ég með, því hann spurði einskis á Alþingi.

Lagði aldrei fram fyrirspurn í þinginu allan þennan tíma.

Í gær lagði hann fram 2 (tvær) fyrirspurnir.

Hvað gerðist?

Ég vona að fyrrverandi forseti þings og núverandi óbreyttur þingmaður hafi ekki líkamlega vanlíðan af þessari bráðaþörf fyrir vitneskju sem hefur lostið hann algjörlega óforvarandis, að því mér sýnist.

Forsætisráðherrann er síspyrjandi.

Eins og þeir gera sem vilja vita hluti.

Hún spurði Seðlabankastjórana Einbjörn, Tvíbjörn og Þríbjörn hvort þeir vildu ekki segja sig frá vinnunni í Seðlabanka.

Einn hefur svarað játandi, annar neitandi og einn þegir.

Hvað gerum við nú?

Heimskuleg spurning? 

Kannski, en ef maður spyr ekki fær maður engin svör.

Hampfrfm..


mbl.is Ingimundur baðst lausnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slítum stjórnmálasambandi

Enn erum við að bjóða útlendingum upp á skemmtiatriði.

Nú í boði Seðlabankastjóra sem hunsuðu bréf forsætisráðherra þar til í dag að tveir þeirra lufsuðust til að svara.

Eiríkur og Ingimundur sendu forsætisráðherra, yfirmanni sínum bréf í dag.

Heimildir herma að amk. annar bankastjóranna hafi sagt í bréfinu að hann ætlaði sér að mæta á mánudaginn.

Hvað sem óskum forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar líður.

Konungurinn á Seðlabankahóli svarar engu, hefur amk. ekki gert enn..

Hans hátign Davíð Oddson mun sennilega hvorki svara né fara.

Það er bara eitt að gera gagnvart þessu ríki á hólnum sem virðist vera til algjörlega á eigin forsendum.

Við slítum stjórnmálasambandi við Seðlabankann.

Einfalt mál.


mbl.is Eiríkur og Ingimundur hafa svarað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óeirðabílar það sem koma skal?

Ég er ekki hissa á að lögreglustjóri hafi ætlað að flytja inn óeirðabíla frá dönsku lögreglunni.

Vanir menn vönduð vinna eða þannig.

Yfirvöld að fyrrverandi dómsmálaráðherra meðtöldum hafa viljað auka vopnabúr lögreglunnar, gasið hefur óspart verið notað, rafbyssur hafa verið í umræðunni og því þá ekki brynvarðir bílar á óþæga mótmælendur?

Þetta væri fyndið ef tilhugsunin væri ekki svona skelfileg.

Að það hafi í alvörunni átt að grípa til aukins ofbeldis gagnvart borgurum í friðsömum mótmælum.

Með friðsömum mótmælum á ég við mótmæli án líkamlegs ofbeldis, sem 99,9% mótmælenda stunduðu, þar á meðal ég sjálf.

Og endilega hættið að rugla saman eignaspjöllum og ofbeldi.

Hávaða og ofbeldi.

Eggjakasti og ofbeldi.

Lámark að hinir gaggandi verjendur lögregluofbeldis geri greinarmun þarna á.

Hvenær koma svo byssurnar í umræðuna?

Hvað segir Björn Bjarnason við þessari "hugmynd" lögreglustjórans?

Nú er fyrirsjáanlegt að mótmæli verði mun algengari en áður var.  Fólk mun grípa til aðgerða til að veita stjórnvöldum aðhald ef í harðbakka slær eða þegar einhver sofnar á verðinum.

Verða óeirðabílar notaðir til að brjóta fólkið á bak aftur?


mbl.is Vildi ekki beita meiri hörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdið í flokknum

Það hefði nú talist fréttaefni hefðu Sjálfstæðismenn EKKI gagnrýnt Seðlabankafrumvarp forsætisráðherra.

Það á að leggja niður stöður þriggja Seðlabankastjóra. 

Ergó: Það á að koma Davíð frá völdum.

Kommon, Davíð er hið eiginlega vald í Sjálfstæðisflokknum.

Hann sat af sér ríkisstjórnina - pælið í því.

En eftirtektarverðastur fannst mér Pétur Blöndal.

Hann er nefnilega brímandi brjálaður úr heift.

Án þess að ég fari nánar út í það þá verð ég að segja að skapgerðarbrestir (sem og kostir) ganga greinilega í ættir.

Það er í ósigrinum sem fólks sýnir sitt rétta eðli greinilega.

Nú eða í lönguninni til að halda í valdið.

Það sýnir Sjálfstæðisflokkur svo ekki verður um villst þessa dagana.

 


mbl.is Hörð gagnrýni á seðlabankafrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamlar syndir

Kannski er í lagi að veiða hval.

Ég veit það ekki, en ég er ekkert afskaplega spennt fyrir málinu, held bara að það kosti okkur helling í péerri að gera það.

Svo er alveg bráðfyndið að lesa sum blogg vegna þess að fundist hefur gömul mynd af Steingrími J. að skera hval.  Fólk lætur eins og það hafi fundið sönnunargögn í morðmáli.

Steingrímur er sekur, hann myrti hval.

Ég vann einu sinni hálfan mánuð í frystihúsi þegar ég var 14 ára hjá Júpíter og Mars.

Var að snyrta karfa og pakka honum inn.  Lyktin var ógeðsleg en félagsskapurinn skemmtilegur og við unnum fram á nótt.

Ég var rekin af því ég fór að leika mér með vatnsslöngu og sprautaði á hálfbrjálaðan verkstjóra sem hafði engan húmor fyrir því að fá vatn úr kraftslöngu framan í sig.

Reyndar hélt ég að hann myndi drepa mig.

Það sem ég er að segja ykkur hérna börnin mín sæt og góð er að ég borða ekki karfa en er sek um að hafa skorið í hann, pikkað úr honum hringorma og farið ómannúðlegum höndum um þessa matvöru sem seld var til Rússlands.

Ég hef karfadráp á samviskunni en ég er algjörlega með verndun fiskistofnanna við landið.

Sjálfstæðisþingmenn halda því allir fram sem einn að það hafi verið hárrétt ákvörðun hjá fyrrverandi Einari K. Guðfinnssyni að leyfa hvalveiðar þegar hann var starfandi sjávarútvegsráðherra.

Allir vita hins vegar að þetta var gert til að koma væntanlegum sjávarútvegsráðherra illa, nokkurs konar hefndarráðstöfun á lokasprettinum.

Nú þarf Steingrímur fyrrverandi hvalaskurðarmaður að taka á málinu og allir eru óðir í að fá að myrða hval í samlede verker.

Hvar er markaðurinn fyrir kjötið ef einhver getur sagt mér það?

En ég hef engar áhyggjur af stóra hvalamálinu, ég held nefnilega að Steingrímur leysi þetta mál þannig að allir geti vel við unað.

Sumir munu segja; mikil er trú þín kona.

Og við því segi ég; hvað er að, hafið þið eitthvað á móti bjartsýni?

Ég veit að hann gerir sitt besta og það er nógu gott fyrir mig.


mbl.is Vond stjórnsýsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talandi um banka...

Mér er sama þótt Ásmundur verði bankastjóri í bankanum okkar í Austurstræti.

Svo fremi að hann sé almennilegur maður.

En talandi um banka...

Ég hef heyrt að Seðlabankastjórar hafi ekki enn svarað bréfi Forsætisráðherra.

En skilafrestur var í dag.

Eru þeir saman í valdabandalagi hinna harðsnúnu bankastóra?

Eiga þeir Ísland?

Lúta þeir engum?

Ég legg til að það verði sendur krani á þá og þeir selfluttir heim til sín ef þeir sinna ekki kalli.

Það þarf að ryðja þeim úr vegi eins og hverri annarri umferðarhindrun.

Nú nema að þeir séu búnir að svara, ætli að hætta á morgun og ef svo er þá bið ég þá auðmjúklega afsökunar og ét alla mína trefla.

Og þeir eru margir og þykkir.

Úff.

 


mbl.is Ásmundur bankastjóri um tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla Ísland lifir góðu lífi hjá Toyota

Gamla Ísland er á fullu blasti hjá Toyota umboðinu.

Þú skalt ekki hugsa, ekki gagnrýna og ekki hafa skoðun.

Þú skalt ekki blogga um hluti sem liggja þér á hjarta ef þeir snerta vinnuna þína.

Toyota umboðið vill hjakka áfram í sama gamla farinu.

Forstjórinn skal hafinn yfir gagnrýni og það sem mest er um vert, hann skal ekki deila kjörum með starfsmönnum sínum.

Iss, ekkert ganga á undan með góðu fordæmi, það er ekki nógu 2007.

Ég legg þessa hegðun í dóm Toyota eiganda.

Eru þeir æstir í að skipta við fyriræki sem sýnir svona kemur fram?

P.s. Reyndar hafði ég ekki tekið eftir þessari bloggfærslu, efast um að ég hefði séð hana, það er bloggað svo mikið.

En með brottrekstri starfsmannsins vöktu Toyotamenn almennilega athygli á þessu ljóta máli og kann ég þeim alveg sérstakar þakkir fyrir.

Halldóri Kristni Björnssyni óska ég velfarnaðar og ég vona af öllu hjarta að hann fái vinnu fljótlega - hjá fyrirtæki sem virðir tjáningarfrelsið.


mbl.is Bloggari rekinn fyrir skrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 2986904

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.