Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Er ekkert farið að fjúka í ykkur?

Krakkarnir hjá Kaupþingi voru svakalega bissí síðustu vikurnar fyrir fall bankans. 

Yfir hundrað milljarðar króna voru millifærðir á reikninga erlendra félaga í eigu viðskiptavina bankans.

Um var að ræða lán  til þessara félaga gegn veðum í skuldabréfum sem bankinn gaf sjálfur út.

Heyrt þennan áður?

Fyrrverandi stjórn bankans segir ekkert athugavert við þetta og lánanefndin afgreiddi málin án athugasemda.

Þetta eru nú meiri bölvaðir melirnir þessir menn sem með einbeittum ásetningi björguðu fé auðmannanna undan og komu þjóðinni á vonarvöl í leiðinni.

Ættjarðarástin var sem sagt ekki að vefjast fyrir þeim en hvernig læt ég heimurinn er herbergi í bankaviðskiptum. Löndin þeirra leikvöllur. 

Þetta mál hefur verið sent Fjármálaeftirlitinu.

Sem er vont, hver treystir þeirri stofnun?

Ætli þetta sofni ekki allt svefninum langa og við almenningur sjáum fram á svartari daga en nokkurt okkar grunaði í upphafi?

En Alþingi verður sett á morgun.

Á ekki að haska sér lesandi góður?

Er ekki farið að fjúka í þig?

Þó ekki væri nema pínulítið?

Ég vona það.


mbl.is Hundruð milljarða millifærðir á reikninga erlendra félaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athafnaskáld?

Sumum orðum hef ég hálfgerða óbeit á.

Samt eru orðin ekki hættuleg eða vond, aðeins það ástand sem þau lýsa.

Eða hvernig maður kýs að skilja þau.

Eru þetta hin margrómuðu athafnaskáld?

Er þetta athafnaskáldskapur eða rán um hábjartan daginn?

Þessir menn eru enn lausir og fara hamförum á græðgisfylleríinu, eira engu eða engum.

En lögreglan er send í vinnu til fólks til að láta það svara til saka fyrir að vera með mótmæli við Alþingshúsið.

Næ ég þessu?

Það er ekki sama mótmælandi og milljarðaræningjar.

Nei, fjandinn fjarri mér að ég komist nálægt því að skilja þetta rugl.

Umfjöllun um ránið í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.


"Bið að heilsa jólasveininum og kysstu á mér rassinn"

Til hamingju formaður Framsóknar.

Ég er kurteis og ég kann mig.

Óska honum velfarnaðar.

En ég var að pæla í því þegar ég sá viðtalið við Björn Bjarna hjá Agli og umfjöllum um Framsókn í sjónvarpinu, fréttir af meikóverinu hjá Samfó sem er að fara í fundaherferð, að allt þetta fólk í stjórnmálaflokkunum er ekki búið að ná því sem almenningur er með á hreinu.

En það er að heimurinn snýst ekki í kringum flokkinn og þeir eru enginn djöfulsins nafli alheimsins.

Flokkurinn þvælist heldur ekki neitt sérstaklega fyrir fólki svona almennt séð held ég, vel flestir eru búnir að átta sig á að það mun þurfa meira til en meikóver hér, nýjan mann þar og loforð hist og her til að fullnægja þörf þessarar þjóðar fyrir réttlátu og gegnsæju þjóðfélagi.

Auðvitað er enn fólk sem hangir á sínum flokk eins og hundar á roði og ég skil það alveg upp að vissu marki.

Fjórflokkarnir (eða fimmflokkarnir) hafa verið í boði svo lengi sem við munum.

Fjarvera frá kjörstað nú eða auð atkvæði hafa ekkert að segja.

Auð atkvæði eru talin með ógildum sem lýsir auðvitað hugarfarinu sem við búum við.

Þegar ég skila auðu þá er ég að greiða atkvæði.

Þegar ég skrifa ¨Bið að heilsa jólasveininum og kysstu á mér rassinn" þá er ég að eyðileggja kjörseðilinn.

Ég ætla ekkert að vera leiðinleg og með úrtölur út af nýjum formanni í Framsókn.  Hann er örugglega alveg ágætur og hann virðist ósköp viðkunnanlegur maður.

En það er bara ekki málið.

Nú á landsfundur Sjálfstæðisflokksins eftir að beita mann fjölmiðlaofbeldi eftir hálfan mánuð, þeir eru vissir um að allir bíði með önd í háls eftir niðurstöðunni.

Rólegir, mér er sama, svo mörgum er sama.

Við viljum nýtt Ísland en ekki sama graut í sömu skörðóttu skálinni.

Ajö.


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullmolar í kommentakerfi

Stundum gerist það að í kommentakerfunum skilur fólk eftir frábærar hugmyndir eða tillögur.

Eftirfarandi fékk ég frá manni sem kallar sig Björn.

Takk kærlega fyrir þetta.

"Hugmyndir að Nýja Íslandi:

1) Jafnrétti í orði en ekki á borði

2) Siðferðisvitund á hærra plani sem myndi hafa áhrif á öll stig í hinu opinbera kerfi ásamt viðskiptalífinu. Verðum átta okkur á því hvað það er að búa í samfélagi. Það er hárfín lína á milli hreinnar einstaklings-hyggju og samfélags þar sem allir eru steyptir í sama formið sem drepar allt og alla.

3) Virkt lýðræði: eðlilegt jafnvægi á milli þess valds sem kjörnir fulltrúar fá og þess vald sem almenningur hefur. Verðum að geta valið bæði fólk og flokk.

4) Aðskilnað dóms-, framkvæmdar- og löggjafarvalds þannig að tryggt sé að engin skörun sé þar til staðar. Í kosningum eiga landsmenn að kjósa forsætisráðherrann annað er fáránlegt.

5) Samfélag sem snýst um börn. Þau eru framtíðin og munu taka við keflinu. Eigum að hanna samfélag sem er barnvænt. Ef þetta er grunnforsendan kemur restin að sjálfu sér.

6) Virðing fyrir náttúrunni bæði á sjó og landi. Við höfum þetta aðeins að láni. Eigum að nýta það sem við þurfum en ekki meir. Annars erum við að taka af næstu kynslóðum. Temjum okkur aðeins meiri auðmýkt og nægjusemi.

7) Eins sjálfbært samfélag og unnt er. Eigum að leitast við að vera í farabroddi við að knýja bíla- og skipaflota okkar með vistvænni orku; flytja sem minnst inn af jarðeldsneyti. Eigum frábærar uppsprettur af mat og síðan vatnið."

Hvað finnst ykkur um þessar tillögur gott fólk?


Nýja Ísland?

jakkaföt

Nýja Ísland?

Karlar á miðjum aldri í jakkafötum?

Kunnið þið annan Framsóknarmenn?

Breytingar hvað?


mbl.is Svara spurningaflóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af ófriðarhöfðingjum og hallærislegum hrópendum í eyðimörkinni

Ástþór Magnússon hefur öðrum fremur tengt nafn sitt við frið.

Ég efast reyndar ekkert um að hann hafi verið einlægur í þeirri baráttu að minnsta kosti svona framan af.

En miðað við hvað friður er honum hugleikinn þá lætur hann ófriðlegar en flestir.

Hörður Torfa er til að mynda á heilanum á Ástþóri.

Hörður er kommúnisti, einvaldur, segir hann.

VG, VG heyrist hrópað hásum rómi í eyðimörkinni en fáir ef nokkrir heyra í holum röddum hrópendanna.

Þetta eru áhangendur gamla Íslands, valdagírugs Sjálfstæðisflokks, fólk sem ekki vill horfast í augu við að hin ómanneskjulega græðisvæðing hefur beðið skipbrot. 

Það trúir enn á kommagrýluna. 

Almenningi er þetta ljóst og brosir blíðlega.  Kjánarnir hugsum við, andófið í samfélganu nær langt út fyrir hið gamla og úr sér gengna flokkakerfi.

Félagsskapurinn "Nýjar raddir" hafa boðað til fundar í miðjum laugardagsfundinum á Austurvelli.

Ég segi við þá sem ekki kunna aðrar leiðir við að koma sér á framfæri en að skemma og eyðileggja eru ekki hótinu betri en þau stjórnvöld sem verið er að gagnrýna og þeir andskotar sem hafa verið á græðgisfylleríi og komið Íslandi í hóp þriðja heims ríkja.

Þeir eru ekki hótinu betur en þessir tveir hér.

Ég tel mig vita að Ástþór Magnússon standi fyrir þessari hvítliðasamkomu sem kallar sig "Nýjar raddir".

Ef ekki þá dundar hann sér við að stefna mér í friðarins nafni eftir helgi.

Og ég segi þá: "Sorrí Ástþór, en þetta var alveg í þínum nýja ófriðaranda".

Merkilegt hvað hvítliðarnir eru helvíti lífseigir.

En af því ég á það sameiginlegt með Ástþóri Magnússyni að þrá frið í sálu og sinni, úti og inni, heima og að heiman, þá ætla ég að vona að allir sem eiga heimangengt mæti á völlinn og sýni stjórnvöldum í þessu landi að það er engin uppgjöf í gangi.

Almenningur er með úthaldið í góðum gír.

Áfram Nýja Ísland.


mbl.is Nýjar raddir boða fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta truflar heilmikið

Það eru margir sem óskapast yfir grímuklæddum mótmælendum.

Fólk talar um að það sé lágmark að mótmæla með andlit upp í vind og veður.

Ég tek ekki afstöðu með því, það truflar mig ekki nokkurn skapaðan hlut.

EN ÞETTA TRUFLAR MIG HEILMIKIÐ!

Hvað er í gangi?


Bann á ferðir fyrir almannafé

Ég legg til að sett verði ferðabann á ráðamenn nema í algjörum neyðartilvikum.

Skv. þessari frétt í DV hefur t.d. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir ferðast fyrir á aðra miljón króna s.l. þrjá mánuði.

Dagpeningar eru um 87 þúsund á dag og Ásta Ragnheiður hefur ekki orðið vör við að það sé afgangur af dagpeningum enda sé dvalið á dýrum hótelum.

Einhvern tímann hefði maður sagt; veldu hótel á hæfilegu verði og skilaðu mismuninum.

Ég þekki mann sem vinnur hjá stórum samtökum og hann hefur alltaf skilað hverri krónu til baka umfram það sem hann þarf nauðsynlega að nota.

Þetta dæmi sem tekið er um ÁRJ er ábyggilega almennt dæmi sem á við fleiri alþingismenn og mér er svo nákvæmlega sama hvaða flokki þeir tilheyra, þetta gengur ekki upp.

Þessi upphæð sem nefnd er hér er fyrir s.l. þrjá mánuði eins og að ofan segir.  Þessa þrjá mánuði gott fólk, þar sem fólk hefur verið að missa vinnu í stórum stíl, er að missa heimili sín og þarf að berjast við skelfilegar afleiðingar peningasukks sem það á enga sök á.

Þess vegna er mér fyrirmunað að skilja að þingmenn taki ástandið ekki alvarlegar en svo en að þeir ferðist fyrir almannafé upp að þessu marki að það hlaupi á milljón og ríflega það á ekki lengri tíma en þetta.

Nú er kominn tími á að allir og þá meina ég allir fari að sýna hegðun í samræmi við ástandið.

Það er kreppa á Íslandi.  Efnahagslegar hörmungar þar sem reikningurinn sem sendur er almenningi með upphæðum sem við venjulegt fólk fáum ekki skilið og enn er ekki allt komið á borðið hvað það varðar.

Ef það er ekki kominn tími á að bjöllur hringi hjá forréttindastéttunum þá veit ég ekki hvenær hún mögulega rumskar.

Ferðabann á fólkið.

Við verðum einfaldlega að sitja heima á meðan ástandið er svona.


Spilling í leik og starfi

Leiðinlegt að brostnar væntingar skuli vera í Landhelgisgæslunni.

En ég fullyrði að sá harmur er öllu minni en minn eftir að hafa horft á Kastljósið í gær.

Mínar væntingar gagnvart íslenskri stjórnsýslu hrundu gjörsamlega.

Ók, ég viðurkenni að klíkuráðningar innan fjölskyldu og frændgarðs yfir höfuð komu mér ekki alveg á óvart.  Spillingarfyrirkomulagið er sífellt að verða sýnilegra.

Helvítis stjórnsýslan er meira og minna sundurspillt. 

Þörfin fyrir nýtt Ísland gargar á mann í hverjum fréttatíma, í hvert skipti sem manni er litið í blað eða hlustar á útvarp.

En það má sjá eitthvað jákvætt við alla hluti.

Nú má taka matarboð, fermingarveislur og aðrar samkomur í fjölskyldum upp á nýtilegra plan.

Í staðinn fyrir gjafaborðið í horninu má nú setja upp ráðningaskrifstofu.

Ég á t.d. afmæli á þriðjudaginn.

Ætlaði ekkert að gera mál úr því - en nú sit ég við og skrifa boðskort eins og motherfucker.

Svo býð ég í glas, ég á helling af merkilegum ættingjum og vinum.

Ég þekki líka fullt af fólki sem mér er kært og hefur misst vinnuna nýlega.

Á tíunda glasi (gestanna sko, ég er enn alki þrátt fyrir kreppu og held mér í kaffinu) mun ég ráða í stöður eins og enginn sé morgundagurinn.

Mér er alls ekki hlátur í hug - en það er í raun ekki skrýtið að hugurinn flögri til ónefndra Afríkuríkja þegar upplýsist um vinnuaðferðir sumra íslenskra embættismanna bæði í leik og starfi.

Leikhús fáránleikans hvað?

Kastjós.


mbl.is Brostnar væntingar í Landhelgisgæslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðjuskólinn - er mig að dreyma?

Ég las einhversstaðar í Mogganum að ef maður drykki of mikið kaffi gætu raddir farið að heyrast, dauðir að sjást og önnur undur og stórmerki farið að þvælast fyrir manni.

Ég sem hélt að ég væri skyggn.  Þar fór það.

En..

Ég held að ég hljóti að hafa drukkið of mikið kaffi í dag.

Er grínlaust til Stóriðjuskóli ISAL?

Hvert er námsefnið?

Forpestun andrúmslofts 101?

Útrýming óspilltrar náttúru, framhaldskúrs í máli, myndum og praktík?

Og Bjöggi banka hélt ræðu yfir verðandi stóriðjufrömuðum.

Hvað er að?

Bjögga sko?

ISAL kemur mér ekki á óvart.

Djísús hvað ég taugarnar á mér þola þetta ekki.

Ég farin að laga mér kaffi.  Sterkt kaffi.  Ég ætla að eiga spjall við látna ættingja fram eftir nóttu.


mbl.is Útskrift úr framhaldsnámi Stóriðjuskóla ISAL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband