Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

-The "E" Word -

Ég skrifaði einhvern tímann færslu um "EN-heilkennið".  Sem mér finnst alveg merkilegt fyrirbrigði.

Fólk samþykkir það sem þú segir og segir svo "en" og er svo gjörsamlega ósammála.

Eða þá heldur einhverju fram og tekur það svo strax til baka með "en-inu".

Ég er að velta því fyrir mér hvort það sé ekki algjör óþarfi að teygja lopann á þennan máta í staðinn fyrir að koma sér beint að efninu.

Ég tek dæmi:

Nei Jenný, þú ert alls ekki frek og hvatvís EN þú ert frekar skapstór og segir yfirleitt það sem þér dettur í hug án þess að hugsa.Errm

Nei Guðrún, þú er sko ekki feit fyrir fimm aura EN hefurðu eitthvað pælt í að fara í líkamsrækt?  Það hreinlega leka kílóin af fólki er mér sagt.

Nei Elsa, ég er alls ekki móðguð út í þig EN mér fyndist nú að þú ættir að gæta þín á hvað þú segir, þú gætir sært fólk.

Og hin hliðin.

Ég er sko alls enginn rasisti, það má guð vita EN ég er algjörlega á móti því að við kjaftfyllum allt af útlendingum og svo taka þessir andskotar vinnuna frá Íslendingum.

Ég er jafnréttissinni út í gegn EN mér finnst þetta kerlingarvæl um að konur fái lægri laun og að gengið sé fram hjá þeim algjört móðursýkistal og femínistavæl.

Við stjórnmálamenn lofuðum bættum kjörum til þeirra lægst launuðu í þesum mánuði EN við ætlum ekki að gera það. Só?

Af hverju segjum við ekki bara hvað okkur finnst án þess að pakka því inn í viðurstyggilega væminn glanspappír og eyðum svo fleiri klukkutímum í að ofskreyta böggulinn með slaufum?

Ég veit það ekki, ég dett í þessa gryfju sjálf og hljómsveit hússins missir sig reglulega í "en-ið" líka.

Í morgun áttum við heitar fjármálaumræður við morgunverðarborðið.

Ég: Ertu að segja að ég sé eyðslusöm?

Hljómsveitin: Neið auðvitað ekki EN þú ert að fara að kaupa þetta sóandsó þrátt fyrir að það sé þræl dýrt og við þurfum ekkert á því að halda.

Ég: Þá ertu að segja að ég sé eyðslusöm Einar.

Hljómsveitin: Nei alls ekki EN þú mættir fara aðeins betur með peninga stundum.

I rest my case og ég elska þennan mann.

Og ekkert helvítis EN með það.

EN..

Djók.

Síjú


Fyrir Láru Hönnu

Eins og má lesa í færslunni hér fyrir neðan, var ég að ræða skólamyndir.  Nú eða bekkjarmyndir.

Ég hef grátið það að hafa týnt mínum í einhverjum flutningum.

En Lára Hanna sem hefur ráð undir rifi hverju á bókina um Melaskóla og hún sendi mér viðkomandi bekkjarmynd.

Auðvitað skoraði hún á mig að birta hana.

Só..

hér kemur fyrirmyndarbekkur Melaskóla, árgangur 1952 og kennarinn sá sem ég hafði frá byrjun til enda og af mörgum tilbeðin, Þóra Kristinsdóttir.

fff

Og hvar er yors truly?

Hér er hún stelpan, held nú það.

jennýmeló


Segðu ostur

Einu sinni á ári var tekin bekkjarmynd í Melaskóla hér í denn.

Eða var það sjaldnar?

Alla vega þá fór maður í sparifötin og skartaði sínu besta á myndinni.  Eða reyndi það að minnsta kosti.

Þetta var gert með góðum fyrirvara og ég hef ekki hugmynd um hvort það kostaði eitthvað sérstaklega, sennilega þó.

Við fórum á sal þar sem herlegheitin af gáfnaljósunum hennar Þóru Kristinsdóttur kennara voru fest á filmu.

En þegar frumburðurinn minn hún Helga Björk var í sænskum barnaskóla var ég beitt  skólamyndaofbeldi af Göteborgs Skolfoto.

Amk. tvisvar á ári kom hún heim og sagði mér að það hafi verið tekin skólamynd.  Ein af bekknum og svo sería af hverju barni.

Nú hefði það svo sem ekki verið mikið mál en þetta fór þveröfugt ofan í mig.  Göteborgs Skolfoto lét sig ekki muna um að koma á heilum myndatökum án þess að foreldrar hefðu hugmynd um að  það stæði til.  Ekki börnin heldur.

Svo barst umslag með stöðluðum og steingeldum litmyndum sem mig langaði ekkert að eiga, nema kannski eina annaðhvort ár í mesta lagi.  Í umslaginu var svo gíróseðlill með dágóðri upphæð og 15 daga greiðslufrest minnir mig.

Það stóð reyndar í áföstu bréfi að maður gæti skilað myndunum innan x daga ef þær féllu ekki í kramið.

Halló, segir maður við barnið sitt: Þetta eru ömurlegar og illa teknar myndir, ég vil ekki eiga þær?

Ónei, maður borgaði steinþegjandi og hljóðalust.

Flestir foreldrar voru illa pirraðir á þessu fyrirkomulagi en það gerðist aldrei neitt.

Hver sem er hefði getað framið þessar myndatökur sem voru eins óspennandi og frekast er hægt að ímynda sér.

Nú virðist sama upp á tengingnum í íslenskum skólum, en núna á að bregðast við með því að aðeins þeir sem hafa pantað myndir þurfi að greiða fyrir þær.

Næg eru fjárútlátin fyrir skólann samt þó ekki sé verið að kengbeygja foreldra til að borga fyrir dittinn og dattinn sem þeir hafa jafnvel  ekki ráð á.

Það er amk. lágmarks kurteisi í viðskiptum að biðja um samþykki kúnnans áður en vörunni er klínt á þig.

Reyndar eiga foreldrar íslenskra grunnskólabarna alla mína samúð.

Það hlýtur að vera þungur biti að kyngja að þurfa að leggja út stórar fjárhæðir fyrir hvert barn þegar meginþorri fólks þarf að vinna frá morgni til kvölds til að eiga í sig og á.

Já þetta er krepputal, enda bullandi hækkanir á öllu hvert sem litið er.

Segið "cheese".

 


mbl.is Talsmaður neytenda ávítar ljósmyndastofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímulaus hrokinn og mannfyrirlitningin

Eftir að Haukur Guðmundsson hjá Útendingastofnun í félagi við Björn Bjarnason, klúðruðu máli Paul Ramses eins og frægt er orðið, mátti greina smá auðmýkt og jafnvel manneskjulega hlið á manninum.  Það fór honum nokkuð vel.

Og Ramses fékk að koma heim á meðan mál hans er í vinnslu.

Haukur er greinlega búinn að jafna sig síðan Ramses málið var á skömmustustiginu og nú hefur hann færst allur í aukanna.

Þeir eru með vitöl við hælisleitendur sem löggan réðst inn á með ofbeldi á dögunum og gerðu upptæka peninga sem þeir mátu sem svo að væru mögulega, kannski og ef til vill illa fengið fé.

Og mannvinurinn Haukur segir svo í viðtengdri frétt: 

Í einstökum tilvikum erum við búin að segja fólki að við ætlum ekki að greiða fyrir það kostnað í bili. Reykjanesbær ætlar þá að leyfa fólkinu að greiða sjálft það sem framfærslan kostar. Annars getur fólk bara farið á hótel ef það vill,“ segir hann. „Það hefur verið fullyrt að yfirvöld skuldi skýringar á þessum aðgerðum. Við erum búin að svara þessu og segja af hverju aðgerðin var gerð. Það var grunur um fölsuð skilríki og fólk var með furðulegar sögur um það af hverju það væri hér á landi. Reynslan hefur kennt okkur hvað þarf að gera."

Fólkið getur bara farið á hótel ef það vill segir mannvinurinn mikli.

Sniðug hugmynd.  Það er ekki svo geðslegt húsnæðið sem fólkinu er boðið upp á í Njarðvík.  Gömul verbúð sem ætti löngu að vera búið að rífa.

Væri töff hugmynd að tékka sig inn á hótel ef það væri ekki búið að rífa af "fólkinu" hverja krónu sem það átti.

Haukur er að segja okkur Íslendingum, í hvers umboði hann starfar, að "fólkið" geti étið það sem úti frýs.

Við erum nú meiri andskotans mannvinirnir Íslendingar.

Ég held að við eigum skilið að hafa Hauk Guðmundsson við störf.

Svo held ég að við sem viljum að komið sé fram við hælisleitendur sem hingað koma af lágmarks kurteisi ættum að fara að virkja grasrótina.

Það þarf mótvægi við alla heiftarpostulana sem hrópa húrra fyrir svínslegum ofbeldisaðferðum löggunnar á Suðurnesjum.

Ég vil ekki hafa svona útlendingapólitík.

Þessi karlaklúbbur í útlendingapólitíkinni snýr við í mér maganum.

Og nei, ég vil ekki hvern sem er inn í landið.

Og já, ég vil eftirlit með þeim sem hingað leita þar til þeim hefur verið veitt landvistarleyfi.

Ég er bara algjörlega með það á hreinu að það má koma fram við fólk á fleiri en einn veg.

Og Útlendingastofnun ásamt honum þarna lögreglustjóra á Suðurnesjum mættu hafa það í huga hvernig hægt er að koma hlutum í framkvæmd án þess að meiða og særa.

Skítapakk leyfi ég mér að segja.


mbl.is Hælisleitendur í viðtölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þreytt ástand

 ohk

Í Ölfusréttum míg rigndi í dag og þeir eru hættir að fá sér í glas karlarnir af því þeir eru svo hræddir við Legginn.  Ekki að undra, enda gott mál það á ekkert að vera fullur innanum vetrarmatinn, dýr eru dauðhrædd við drukkið fólk.

En þessi færsla er um rigningu, rigninguna sem var í Ölfusréttum og hér á Teigunum.

Það hefur ekki stoppað úrkoman í nokkra daga, bara lekur úr himninum án afláts.

Nú er ég hrifin af votveðri þegar stormur fylgir og bara einhverjar klukkustundir í einu.

Ég er eiginlega orðin þreytt á þessu ástandi.

Reyndar er ég aðallega þreytt á sjálfri mér þessa dagana.  Sennilega míg rignir líka í hausnum á mér.

Ég hugsa of mikið um það sem engu skiptir og geri of lítið af því sem ég þarf að gera.

Eiginlega hef ég ekki gert afturenda í dag að frátöldum einhverjum leim húsverkum.

Getur verið að lægðir sem fylgja rigningu leggist eins og þursar á herðarnar á manni?

Ég hef alveg stunið þungan í hvert skipti sem ég skipti um stól.

En ég talaði við Maysuna mína í dag.  Hún og Oliver komu frá Hong Kong í gær eftir langa flugferð til London.

Mér brá illilega þegar hún sagði mér frá því að hún hafi lent í þriggja bíla árekstri í HK á fimmtudaginn.  Hún var í leigubíl á leið heim frá vinnu þegar tveggja hæða rúta keyrði inn í leigubílinn og pakkaði honum snyrtilega saman.  Hann hentist svo á annan leigubíl og það varð uppi fótur og fit.

Maysan slapp óbrotin merkilegt nokk en hún var svo utan við sig að hún fór bara í stað þess að bíða eftir lögreglunni.

Nú er hún öll lemstruð í kroppnum og finnur til út um allt.

Hún er að bíða eftir að fá tíma hjá lækni.

Ég þakka fyrir að ekki fór verr en mikið skelfing var mér illa við að heyra þetta.

Það er kannski þess vegna sem ég er með hangandi haus.

Ég er alltaf svo hrædd um stelpurnar mínar.

Farin að sofa í höfuðið á mér.

Góða nótt

P.s. Myndin er tekin í Hong Kong í síðustu viku.


mbl.is Hundblautar Ölfusréttir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um nauðgunarmál

Ég var að lesa leiðara Jóns Trausta inni á dv.is en hann er um nauðgunarmál.

Leiðarinn kemur að nauðgunarmálum frá dálítið öðrum sjónarhóli en vant er og þess vegna er hann mun sterkari fyrir bragðið og skyldulesning.

JT skrifar um þá afstöðu sem dómstólar og samfélgið taka gagnvart nauðgurum vs þolandanum.

Að hagmunir þolandans víki fyrir hagsmunum nauðgarans.

Einnig í sifjaspellamálum.

Eins og ég segi, þennan pistil á enginn að láta fram hjá sér fara.

LEIÐARINN


Fyrir lengra komna og bannað börnum

norn 

Mér þykir gaman að láta hugann reika þegar ég geng í húsverk.  Sumir setja tónlistina á fullt, ég ekki, einkum vegna þess að bakgrunnstónlist þjónar þeim tilgangi einum að ergja mig.

Þegar ég hlusta á tónlist sest ég niður og geri einmitt það.  Þess á milli ríkir þögnin.

Ég hamaðist með tuskur og klúta, moppu og önnur hreinsidýr um allt.

Og það gerðist einhvern veginn þannig að ég fór að hugsa um kærasta.

Sennilega vegna þess að í morgun vorum við Jóna vinkona mín að ræða um að vera "passionately in love" hvað það væri skemmtilegt en jafnframt slítandi.   Það er nefnilega algjör þrælavinna að vera á stöðugu hormónafylleríi. 

Fyrsti strákurinn sem ég kyssti (á kinn minnir mig) er dáinn, ekki af því að hann hitti mig heldur af náttúrulegum orsökum.  Ég stóð í brjáluðu vetrarveðri bak við Glaumbæ og þetta varðaði bara svona.  Það tók marga daga að jafna geðið eftir að það rann upp fyrir mér ljós, þ.e. afhverju blaðsíðu 82 í heilsufræðinni var sleppt.

Svo fór ég á fast.  Hann var með mér í Hagó.  Hryllilega sætur, ekki mállaus, þó ég hafi aldrei heyrt hann segja heila setningu, hann var svo feiminn.  Hann roðnaði afskaplega fallega og var ákveðinn í að verða sjómaður.  Við vorum par í hálfan mánuð og síðustu þrjá daga sambandsins leiddumst við þegar enginn sá til.  Svo sagði ég honum upp.  Það dróst ekki upp úr honum orð.  Við fermdumst sama dag og ég man að ég hugsaði þegar ég sá hann í kirtlinum í Nes að ég hefði nærri því verið búin að eignast hann fyrir mann!

Ég er ekki að grínast, samböndum fylgir ábyrgð sagði amma mín og þetta var  áður en ég hætti að trúa orði af því sem fullorðnir sögðu.  Því miður?  Örugglega.

Svo var það sendiráðssonurinn norski, hann hafði ótakmarkaðan aðgang að grammafóni heima hjá sér á Fjólugötunni minnir mig.  Þar má segja að stelpa hafi hangið með strák af því hann átti Bítlaplötur og gat spilað þær eins og maður.

En eftir þessi djúpu sambönd sem ég er að lýsa fyrir ykkur hér að ofan syrti í álinn fyrir þeim fjölskyldumeðlimum sem sáu mig læra til nunnu, eða húsmóður, eða hjúkrunarkonu með óflekkaðan meydóm.

Eftir þetta tímabil er sagan bönnuð innan 22 og verður skráð í myrkur sögunnar.  (Ég var uppi á hippatímanum, what can I say?)

Þ.e. aldrei.

Nema ef vera skyldi að einhver tryði því að ég hefði sögu að segja sem er eitthvað frábrugðin annarra manna upplifunum.

Kannski að svo sé.

Nú eða ekki.

Allavega á ég gamlan vin sem telur mig getað skrifað ákveðið form af biblíu fyrir lengra komna.

Já við erum að tala um kökuppskriftir auðvitað.

Jösses hvað það er gaman að fokka í ykkur elskurnar mínar.

Farin að anda og elska ykkur eins og væruð þið mín eigin börn.

Ekki minna.


Erum við svoleiðis fólk?

 

Getur maður hætt að verða hissa?

Það slær mig skelfilega illa að ríflega þriðjungur svarenda á aldrinum 18-35, í könnun sem Félagsvísindastofnun vann fyrir ASÍ telji eðlilegt að Íslendingar njóti betri kjara á vinnumarkaði en útlendingar.

Getur verið að þessi undarlega skoðun sem unga fólksins sem hér svarar virðist hafa á mannréttindum sé tilkomið af viðhorfum sem þau hafa með sér að heiman?

Hvar annars staðar nær fólk sér í svona skoðanir?

Nú er ekki hægt að kenna því um að hér sé allt vaðandi í útlendingum sem "taki" vinnu af Íslendingunum.  Það var vegna skorts á vinnandi höndum sem stór hluti þeirra sem hingað hafa komið voru ráðnir í störf.  Annars hefðu allar framkvæmdir stöðvast.  Ekki má gleyma því að stór hluti þeirra verkamanna sem hér unnu í s.k. uppsveiflu eru farnir til síns heima.

Í sumum löndum í kringum okkur eru kynþáttafordómar tilkomnir vegna bágrar stöðu margra eins og atvinnuleysis og að einhverju leyti skiljanlegir þess vegna, en fáfræði og ótti er meginuppstæða svona skítaviðhorfa.

Mér finnst eins og það þurfi afskaplega lítið til á Íslandi að fólk láti skína í andúð á útlendingum.  Að hún kraumi undir niðri og það þurfi lítið til að rífa hana upp á yfirborðið.

Kynþáttafordómar hafa sýnt sig vera mestir neðst í goggunarröðinni.  Þar sem menntun er ekki til staðar og sjóndeildarhringurinn því afskaplega þröngur.

Ekki er því að heilsa á Íslandi er það?  Erum við ekki nokkuð upplýst þjóð?

Í FF verða talsmenn kynþáttaandúðar æ háværari og þeir virðast ná til nokkuð margra með þessum ljóta málflutningi sínum.

Það fer um mig hrollur þegar ég rekst á skrif sem ala á andúð í garð fólks af öðrum uppruna, eða í garð annarra minnihlutahópa svona yfirleitt.

Það hefur sýnt sig vera stórhættuleg pólitík þar sem afleiðingarnar eru skelfilegar.

Rasismi er ljótt orð og leiðinlegt en ég verð að játa að þessa dagna stingur það upp kollinum æ oftar í hausnum á mér.

Erum við svoleiðis fólk?

Hrollur.


mbl.is Telja eðlilegt að útlendingar séu með lakari laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Englar í mannsmynd? - Held ekki

Þegar frægt fólk yfirgefur þennan heim þá hættir við að þeir séu gerðir að englum og sú staðreynd að viðkomandi var af holdi og blóði er algjörlega tekin út úr jöfnunni.

Nú er verið að skrifa bók um Lennon og þar kemur fram hversu skapbráður hann var.

Halló, auðvitað var maðurinn ekki eins og andapollur.  Hann var enginn andskotans Ghandi og þarna er ég komin með annan engil sem hefur örugglega verið mannlegur líka með skap, hefur pissað og kúkað og bölvað í hljóði þegar hann var að drepast úr hita í friðsömum mótmælum.

John F. Kennedy er annar engillinn og ofurmennið.

Í fyrsta lagi þá sat hann ekki heilt kjörtímabil, þannig að það var ekki komin mikil reynsla á hann sem forseta, hann var verkjatöflu- og kynlífsfíkill.  Það var talað um það í Whasington að hann gæti ekki sinnt störfum sínum vegna þess að hann var stöðugt ríðandi eins og rófulaus hundur út um allar koppagrundir.  Koddahjal mannsins var líka tilefni til ótta hjá paranojaða transvestítnum J. Edgar Hoover.

Svo kom bang, bang, bang og maðurinn var ei meir og það uxu á hann vængir á ljóshraða.

Það er afskaplega æskilegt að sjá fólk eins og það er.  Ég hef engar sérstakar áhyggjur af fræga fólkinu, það má alveg líma á það geislabauga fyrir mér, en ég er að meina svona á meðal oss dauðlegra.

Við höfum öll tvær hliðar (vá allir voða hissa á spekinni í mér?) annars værum við örugglega svífandi um í alheiminum, kynlaus og allslaus.  Fullkomnun getur gjörsamlega klúðrar fyrir manni lífinu.

Ég persónulega hef snúið upp vilausu hlið lífspeningsins æði oft.

En núna er ég réttu megin girðingar og ætla að reyna að halda mig þar eitthvað aðeins lengur.

En það eru minningargreinarnar sem ég óttast.  Að einhver mér tengdur kjósi að gleyma því hversu brokkgengur vitleysingur ég hef verið og skrifi um mig langloku þar sem ég stökkbreyttist í engil, hannyrðageta mín verði tíunduð svo og afrek mín í eldhúsi.

Ég ætla skanna þessa hluti þegar ég er komin hinumegin og ég mun skella hurðum, láta hluti hverfa og hanga á klósettinu með þeim sem það munu gera.Devil

Ég vil vera eins og ég er - gjörsamlega laus við fullkomnun af því hitt hlýtur að vera gjörsamlega boring.

Aumingja John Lennon.  Hann var ekki týpan í að vera fullkominn, kaldhæðinn andskoti sem gaf Bítlunum þetta sem þá annars hefði vantað, kaldhæðni og subbuskap (vinsamlegan subbuskap ekki æsa sig).

Góðan mánudag aularnir ykkar.


mbl.is Lennon sagður hafa skaðað heyrn Seans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algjörlega fallin fyrir EI

Ég er algjörlega "head over heals" í honum Eddie Izzard sem dóttir mín er nýbúin að kynna mig fyrir.

Sko myndböndunum hans, ekki honum persónulega.

Ég læt ykkur um að dæma.

Það er gott að hlægja fyrir svefninn.

Later.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 2985776

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.