Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Fótboltablogg - ekki fyrir viðkvæmar og listrænar sálir -

Stundum les ég eitthvað í blöðunum sem skemmtir mér óhugnanlega.  Ég spikfitna andlega og geri púkann á fjósbitanum að anorexíusjúklingi í samanburði.

Í Fréttablaðinu í dag, undir liðnum "Frá degi til dags" er sagt frá því að Einar Ben Þorsteinsson, Eyjubloggari, telji að Egill Helga sé gullkálfur Eyjunnar.  Jájá og hann er skammaður fyrir það af ritstjóranum.

Egill ekki hrifinn og skrifar eitthvað á þá leið að honum finnst téður Einar Ben Þorsteinsson ekki vera af Eyjukalíber.  Hann bloggi um fótbolta.

Ég persónulega elska það þegar það gengur að lesa í skrifuðum orðum að fólki finnist það statt á stalli á meðal örfrárra andlegra bræðra og systra af ákveðnu súperkalíberi, nema hér er stallurinn eyja eða hólmi nokkur .is sem hallar örlítið til hægri ef grant er skoðað.

Ég hef gaman af mörgum Eyjubloggurum, eins og Hr. Bertelsyni svo ég nefni þann fyrsta sem kemur mér í hug.

Orðið á götunni les ég alltaf, Egil oft og monthanann Iðnaðarráðherra af því hann er með bólgnasta egó hérna megin veraldar og svo er hann ógeðslega góður penni.

Aftur að Agli.  Mér finnst hann oft blogga dúllulega.  Alveg: Krúttið, hvað hann er skemmtilegur.

Stundum finnst mér hann hins vegar blogga eins og geðvont gamalmenni sem hefur allt á hornum sér.  Þá langar mig alveg að segja ákveðnum rómi út í cyperinn: Egill farðu og leggðu þig og láttu lyklaborðið í friði þangað til þú hefur náð þínum eðlilega lífaldri aftur.

Svo má svona fólk sem heldur sig KALÍBERA par exelance vita  að þeir eru ekki einir í skotstærðunum.

Hér á Mogganum erum við líka bloggarar af kalíberum.

Við erum af kalíber 1,2, 3,5,7,4 og uppí hundrað.

Við erum misjöfn, sum óþolandi og ólesandi, aðrir ágætir og sumir, þám. ég erum fyrsta flokks.Bandit ('Eg veit alltaf hógvær, alltaf glöð og alltaf að hugsa um að fæða heiminn).

Það er grundvallaratriði að koma þessu til skila svo ekkert misskiljist.

Ég er að hugsa um að láta prenta fyrir mig Moggabloggsskírteini.

Og á því á að standa:

Jenný Anna Baldursdóttir, fámiðill nú eða fjölmiðill.  Bæði krúttlegt.

Og svo kem ég mér upp svona helvítis sjálfsástarattitjúdi eins og Egill Helga.

Og (aftur og, voða lélegt kalíber að endurtaka o-in og byrja setningar á þeim líka, en ég geri það samt) hehem, hér fataðist skáldinu flugið því á meðan ég var að setja í sviga gleymdi ég hvað það var sem ég ætlaði að setja inn í þessa málsgrein.  En ég fullvissa ykkur um að það var mjög djúpt og af rótsterku kalíberi.

Svo heimta ég að fótboltablogg verði með aðvörunarmiða. 

FÓTBOLTABLOGG - EKKI FYRIR LISTRÆNAR  OG VIÐKVÆMAR SÁLIR MEÐ LÁGAN ÞOLÞRÖSKULD FYRIR LÍFINU.

Úje.


Klósettblæti og orðaþjófnaður

 skápur

George Michael er frábær söngvari.  Ég hallast að því að hann sé brilljant listamaður þó ég sé ekki tiltölulega intú hans tónlist.

En maðurinn er klárlega með klósettblæti og hann velur að gera asnalega hluti á klóinu.  Ekki sínu eigin þó, held ég en hvað veit ég, er engin fluga á vegg heima hjá manninum.

Spurningin er hvað dettur þessari dúllu og rúsínurassi til hugar næst?

Hann lét taka sig með allt niðrum sig á klóinu (í orðsins örgustu) í Ameríku áður en hann kom út úr skápnum.

Ekki skemmtilegt það.

Nú er hann tekinn með krakk á einhverju klósetti en slapp með áminningu.

Maðurinn verður að leita sér hjálpar.

Annars er þetta "út úr skápnum dæmi" orðið ansi seigfljótandi og þreytt.

Alveg eins og orðið "hýr".

Ég er alveg oft hýr á brá þó ég sé hvergi nærri lessa.  Algjörlega streit í báðar.

Hafnarfjörður var líka hýr í einhverju ljóði.

Nú heyrist það ekki sungið meir.

Ég lagðist í þunglyndi.  Það var búið að stela af mér lýsingarorði.

Búhú.

Í gær skreið Jenný Una inn í fataskáp og ruslaði þar öllum fötum tvist og bast.

Amman (ákveðin, Jenný Una villtu koma út úr skápnum).

Húsband: Ertu ekki að fara fram á eitthvað ótímabært honní?

Og svo hló hann eins og fífl.

Meira fíbblið.

Dreifa orðum, nota í allskyns merkingar.

Ekki ræna úr orðaforðanum mínum.

Því þá verð ég ekki með hýrri há.

Úje.


mbl.is George Michael handtekinn með fíkniefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveppi bjargar málinu

Ég er orðin sérfræðingur í morgunbarnatíma beggja stöðva.

Jenný er reglulega hjá okkur um helgar og þá er vaknað fyrir allar aldir og kveikt á sjónvartinu og horft á baddneddni.

Ætli það sé bara ég eða krullast fólk ekkert upp yfir þessu tilgerðarlega íslenska tali?

Þar sem allir hrópa í stað þess að tala eðlilega í einhverri vonlausri tilraun til hressleika?

Og Dóra landkönnuður - ésús minn almáttugur.  Hún er líka á sunnudögum, sama rödd heyrist mér en þá í líki Díegos sem er líka einhvers konar könnuður.

Hugmyndin fín og ég hef hlustað á Dóru á ensku, en það er reyndar uppáhaldsprógrammið hans Olivers.  Þar er þetta ekki svona hryllilega uppspennt.

Eftir að hafa haft barnatímann í eyrunum er ég búin á því eftir tvo klukkutíma.  Mig verkjar í eyrun og langar til að tékka mig inn í klaustur einhvers staðar til að fá þögn og ró.

Reyndar nennir Jenný ekki svona lengi og guði sé lof fyrir það.

Ég veit ekki hvort er verra, fullorðnir að tala fyrir börn eða börn sem eru poppuð upp í ýktan hressleika sem sker í eyrun og er ekki nálægt eðlilegu tali á milli manna.

Sveppi hins vegar og Ilmur sem er með honum núna eru brilljant og mér finnst þau jafn skemmtileg og barninu.

Sveppi hreinlega reddar baddnaebbninu.

Ég lít svo á að það eigi að framleiða sjónvarpsefni fyrir börn sem er þeim sæmandi.

Það er hægt að gera svo miklu betur.

Komasho!


Frá stjónarhóli steingeitar

Að pæla í stjörnuspám er skemmtilegt tómstundagaman sem ég btw stunda ekki. Halo

En ég hef fengið stjörnukort og svo finnst mér gaman að reyna að geta, í hvaða stjörnumerkjum fólk er.

Ég ulla svo auðvitað á stjörnu"spár" í dagblöðunum því þær eru húmbúkk og blaðamaður vinur minn sem var á gamla DV sagði mér að sá sem verst stæði sig í djobbinu fengi stjörnuspá dagsins til að setja saman.  Skelfilegt alveg, sko meðferðin á blaðamönnunum í denn.

Stjörnuspá Moggans er heimur út af fyrir sig.  Hún er oftast svo illa unnin, beinþýdd úr framandi tungumáli, amk. hlýtur það að vera framandi fyrir þann sem stendur að þýðingunum, hrein kínverska segi ég.  Eða þannig var það þegar ég fylgdist með.

En núna áðan rakst ég á mína eigin(s) persónulegu stjörnuspá.

SteingeitSteingeit: Þú ert sagnfræðingurinn í hópnum: sá sem man áríðandi smáatriði sem aðrir virðast gleyma. Sumt sem þú manst kemur sér mjög vel. Deildu öllu sem þú veist.
Oft ratast kjöftugum satt á munn.  Ég er hreint hættulega minnug, um alls kyns og oftar en ekki smáatriði.
Nema auðvitað þegar ég var í víninu og pillunum, þá var það blakkát alla leið.  Hefði getað flutt á milli landa án þess að verða vör við það einu sinni.
En þar fyrir utan er ég eins og fíll.  Sumum finnst það frábært öðrum ekki, eins og gengur.  Fer svolítið eftir muneríinu sem er til umfjöllunar hverju sinni.
Ég geri yfirleitt eins og mér er sagt og þess vegna mun ég á næstu dögum deila með ykkur öllu sem ég veit.
Nei, ég er að spauga.  Ég get ekki gert það sökum þess að ég er bundin þagnarskyldu.W00t
Það væri þokkalegt ef maður væri svo illa fokheldur að straumurinn stæði út úr manni af því að stjörnuspáin segir manni að gera það.
En þessi texti hér fyrir ofan, hvað er svona spálegt við hann?
Er verið að segja manni eitthvað um framtíðina?
Hvar eru spámannstaktarnir?
Eins gott að þessir spámenn eru ekki ráðgjafar ríkisstjórnarinnar.  Eða eru þeir það?
Í dag skaltu vera í svörtu dragtinni þinni og ekki segja eitt einasta orð.  Skildu gjóthnullungahálsmenið eftir heima!
Eða; í dag er stemmari fyrir allar meyjur í ríkisstjórn að fara í bláu jakkafötin.  Þeir eiga síðan að hreyta ónotunum í alla mögulega blaðamenn sem áreita þá fyrir hádegi og heita nafni sem byrja á S.  Eftir hádegi skal meyjan hins vegar ekki vera ínáanleg.
Svei mér þá, ég sé peninga í þessu djobbi.
Geir Hilmar???
Einhver????
En svo vil ég að það komi fram hér vegna þess að engin hefur spurt að ég er sérfræðingur að sjá út meyjur.
Þær má auðveldlega þekkja.
Þær eru löffar, bókarar, planleggjarar, uppraðarar, tiltektarséní og akkúratalltafhreintfólk.
Já Dúa mín, ég elska þig líka.
Spáin fyrir næsta klukkutímann fyrir öll merki er einföld: Farið að undirbúa kvöldmatinn og hættið að hanga á helvítis blogginu.
Later ...
Ekkert svo möts leiter.
Úje.

"Það er gott að búa í Kópavogi" ekki til í Amríku?

Hvað er að fá greitt í fríðu?

Fyrirsögnin á fréttinni hljómar þannig og ég skil ekki hvar fríðleiki kemur inn í málið.

Er hægt að fá greitt í blíðu, stríðu, fríðu, ófríðu og óblíðu?

Sennilega.

En þeir eru búnir að svipta lögfræðing málflutningsréttindum í Illinois fyrir að taka einkadansa sem greiðslu upp í skuld.

Mér þykir þeir ekki hafa fylgst með fréttum frá Íslandi þessir barbarar í US of A.

Vita þeir ekki að hér á Íslandi er svona súluhangs listgrein?

Að það jaðrar við mannréttindabrot að banna mönnum að kaupa einkadansa og súludansa?

Að það er beinlínis atvinnuofbeldi að meina konum að dingla á stönginni og karlfauskum að slefa yfir viðkomandi snúningi?

Nei, þeir fylgjast ekki með.

Eins gott að "Það er gott að búa í Kópavogi" er ekki staður í Norður Ameríku.

Annars tek ég ofan fyrir Lögmannafélagi Illinoisborgar. 

Þeir eru í þessum rituðum orðum komnir á jólakorta- og partýlistann hjá mér.

Ekki spurning.

Ég er nefnilega dedd á móti konum til sölu.

Upp í skuldir sem og að öðru leyti.

Alexander Gústaf, rólegur og þið hinir líka.

Ekki frelsisræðuna plís.

Gunnar Birgisson hvað?


mbl.is Lögmaðurinn fékk greitt í fríðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pabbi er í Rúmení

 haha

Ég næturmanneskjan var sofnuð klukkan ellefu í gærkvöldi.

Það tekur á taugarnar að setja upp nýtt menningarheimili get ég sagt ykkur.Whistling

Svo er hún Jenný Una í gistingu og hún vaknar fyrir allar aldir enda þriggja plús og nennir ekki að bæla fletið.

Í gærkvöldi áttu eftirfarandi samræður sér stað milli ömmu og barns hér við hirðina.

Amman: Hvað fékkstu að borða á leikskólanum í dag Jenný mín?

Barn (ákveðin): Ekkert neitt.

Amman: Ha, fékkstu ekkert að borða?

Barn: Nehei.

Amman: Jenný það er alltaf matur í leikskólanum, ertu búin að gleyma hvað þú borðaðir?

Barn: Ókei, ég fékk hrökkbrauð.

Skammskamm Njálsborg.Whistling

Pabbi hennar Jennýjar er farin til Rúmeníu til að spila inn á plötu.

Amman: Hvert fór pabbi þinn?

Barn: Hann er fluttur í annað hús.W00t

Amman: Ha, er hann fluttur (alveg að drepast úr hlátri yfir hugmyndaflugi viðkomandi barns)?

Barn: Já hann er fluttur til RúmenÍ og það þarf að keyra þangað lengi, lengi, lengi, lengi. En svo kemur hann aftur eftir marga, marga........... daga.

Amman: Ég held að hann hafi flogið í flugvélinni.

Jenný: Þá er pabbi minn í útlöndum.

Lærdómurinn sem má draga af þessu samtali í samgöngumálalegum skilningi er að það eru ekki allir með áhyggjur af innanlandsflugi og hafa ekki endilega heyrt talað um Flugfélag Íslands.

En annars er ég farin að sinna barni og kem sterk inn síðar.

Elska ykkur börnin góð og verið þið til friðs bölvaðir villingarnir ykkar.Heart


Djö.. langar mig til að sofa hjá þér

 libbi

Ein ein selfölgelihets-rannsóknin hefur litið dagsins ljós.

Karlar hafa tilhneigingu til að ofmeta útlit sitt og persónutöfra.  Hehemm.. Fréttir?  Æ dónt þeink só.

Ekki það að konur eigi þetta ekki til líka, jújú.

En svo er til fólk sem tekur þetta alla leið.  Sem er t.d. í skemmtanabransanum og heldur sig Adonis endurborið með hæfileika af guðs náð.

Ég man eftir tveimur íslenskum - í músík og ætla ekki að nafngreina þá. 

Það er til svona fólk sem hefur ekki sans fyrir sjálfu sér.  Er gjörsamlega ástfangið af eigin persónu.  Þetta er fólkið sem horfir í spegil og segir hátt og skýrt;

Djöfull langar mig til að sofa hjá þér.

Liberace eða hvað hann hét, skrauthomminn á píanóinu er skólabókadæmi.  Maðurinn var ekki alveg að gera sig í tónlistinni en dressin hans voru flott, þ.e. ef þú ert svag fyrir því að klæða þig í jólaskraut.

Hugs, hugs, hugs, Jane Mansfield var ein, sorgleg sagan hennar og allt það en hún var alveg með það á hreinu að hún væri leikkona.  Ekki að gera sig.

Hugs, meira hugs, jú Cher, hún er ekki nein sérstök söngkona, en hún brillerar sem gína.

Fyrrverandi hennar hann Sonny hélt því fram að hún væri svo tóm í höfðinu að hún tryði því að vindurinn hafi mótað myndirnar af forsetunum í fjallið í Ameríku.

forsetar

En hann hefur bara verið fúll út í konuna vegna þess að hún skildi við hann.

Munið þið eftir fleirum svona sem eru einir í sínum aðdáendaklúbbi?

Farin að týna strá.


mbl.is Karlar ofmeta persónutöfra sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er mér nóg boðið

Samkvæmt lögum ber öllum sem verða varir við að illa sé farið með börn, þau vanrækt eða beitt ofbeldi af einhverju tagi, að láta barnaverndaryfirvöld vita.  Það er hin borgaralega skylda og nær til allra, nágranna, ættingja og svo auðvitað yfirvalda af öllu tagi.

Flott að hafa góð lög en andskotans mínus að enginn eða fáir láta sér það til hugar koma að fara eftir þeim.

Mín reynsla (sem er þó nokkur í þessum málum) er að virðing fólks fyrir foreldraréttinum er meiri en virðing fyrir mannréttindum barnanna.  Fólk er feimið við að skipta sér af.

Í þessu ljóta máli sem hér er að koma í ljós hlýtur ábyrgðaleysi umhverfisins að hrópa í himininn.

Þessi börn hljóta að hafa verið í skóla.

Það eru áverkar eftir eggvopn á einu barnanna.

Ofbeldið er ekki ný tilkomið, af hverju hefur enginn komið þessum blessuðu börnum til bjargar?

Eða voru það barnaverndaryfirvöld sem brugðust þar til núna?

Ég vil ekki hafa það að ofbeldi á börnum þrífist á Íslandi.

Ég vil ekki hafa það að foreldri geti gert líf barnanna sinna að helvíti árum saman í friði og ró.

Á dögunum var dómur felldur fyrir norðan þar sem dómarinn sá ekki að rassskellingar og annað ofbeldi væri saknæmt eða hættulegt.

Er í lagi að beita pínulitlu ofbeldi?  Hvenær verður það of mikið?

Á meðan að líkamlegt ofbeldi er leyfileg leið í mannlegum samskiptum, skyldi þá einhvern undra að hlutirnir gangi svona langt.

Þessi frétt hefur sirkabát gert mig óða úr reiði.

Að þetta skuli geta þrifist.

Fjandinn sjálfur bara.


mbl.is Grunur um hrottalegt líkamlegt ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hong Kong - sería

Maya mín er að vinna að verkefni í Hong Kong og er búin að vera þar í tvær vikur með Oliver.  Þau vor að opna Arrogant Cat búð þar í borg.  Jájá.

Hún var að setja inn myndir í kvöld og auðvitað smelli ég þeim inn.

Mig dauðlangaði í ferðalag get ég sagt ykkur.

But here goes.

hong konghk1

Halló, sundlaugin er á þakinu.  Lúxus hvað.  Jésus Pétur hvað hann er fallegur þetta krútt.

hk2hk3

Og búðin er opnuð, mikið fjör og mikið gaman.

hk5hk6

Maysan þreytt og Oliver líka.        Og London börnin eru auðvitað í partíinu.

Later.

Jabb.

P.s. Myndirnar stækka þegar klikkað er á þær.

 


Andskotans kreppan?

Þrátt fyrir staðfasta ætlun mína um að láta krepputalið ekki ná tökum á mér var það búið að læða sér að mér bakdyramegin og núna í vikunni var gekk ég stynjandi um allt.

Ég hrökk við í hvert skipti sem ég stundi, hávaðinn var ógurlegur.

Þar sem mér leiðist hljóðmengun sá ég mér ekki annað fært að gera kreppuúttekt á lífi mínu, en kreppa er hvergi nema í hausnum á venjulegu fólki sem finnur hvorki fyrir upp- né niðursveiflum þannig að mark sé á takandi.

Þetta er útkoman:

1. Ég á heima á góðum stað þar sem mér er líður vel.

2. Ég á mat og aðrar lífsnauðsynjar og mun fyrirsjáanlega hafa á komandi árum.  Þ.e. ef ég verð ekki dauð úr einhverju.  Það verður amk. ekki hungur sem kemur mér fyrir kattarnef.

3.  Ég á sígó enda með góðan og pottþéttan díler.  Dópið er með ríkisábyrgð.  Heppin ég.

4. Ég er allsgáð og dett ekki um allt og ætla ekki að gera ef ég fæ því ráðið, sem ég geri auðvitað, einn dag í einu.

5. Ég á bestu foreldra í heimi, bestu systkini, bestu dæturnar og barnabörnin, besta eiginmanninn og frábærustu vinkonurnar.  Ég á líka fína fyrrverandi þannig að kreppan bitnar ekki á tengslum mínum við fólk.

6. Ég get farið í bíltúra um Stór- Reykjavíkursvæðið og jafnvel suður með sjó ef ég nenni.  Enginn hefur enn dáið vegna þess að þeir þurfi að aflýsa Londonferð að hausti.  Fúlt en þolanlegt og án verkja.

Ergó: Kreppan er í lágmarki af því að væntingarnar eru í eðlilegu hlutfalli við þá stöðu sem ég er í.

Ég er þokkalega glöð með það.

En...

Er ég sátt við stjórnmálamenn og hvernig þeir ráða málum okkar almennings?

Aldeilis ekki.  Matarverð er hroðbjóður, öll þjónusta, lækniskostnaður, bensín, föt, sápa (jájá) og allur fjandinn er á ólýsanlegu lygaverði.  Ég er algjörlega í stjórnaraðstöðu héðan frá kærleiksheimilinu. Be fucking sure about it.

 En það breytir ekki því að ég get verið nægjusöm með það sem ég hef, þó dragtin og skóhaugurinn verði að bíða betri tíma.  Ég lifi það af.

En það er af því að það er búið að sarga úr mér neysluhyggjuna.  Ekki af því ég er svona svífandi kona með englageð.  Ég er bara svo heppin, getum við sagt að hafa aldrei verið í neinni uppsveiflu.

Enda er það ekki hinn almenni maður sem hamast í lífsbaráttunni sem hefur keyrt þessa þjóð á kaf inn í kaldan klakann.

Ónei, þeir vita hverjir þeir eru og við hin andlitslausi massi erum ekki í þeirra hóp.

En mikið rosalega er þessi lína hér fyrir ofan ofsóknarkennd hjá mér.W00t (Ætli ég fari að heyra raddir innan skamms?).

Hvað um það, kreppan leggst ágætlega í mig.

Farin að tína hafra.


mbl.is Lánshæfismat ríkisins staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 2985894

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.