Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Sveiattann eða urrdabíttann

Ég var ekki hrifin þegar löggustjórinn á Suðurnesjum blés til árásarinnar í Njarðvík gegn hælisleitendum.  Það gerði mig afskaplega óvinsæla hjá mörgum en Jóhann R. varð aftur á móti þjóðhetja hjá þeim hluta þjóðarinnar (stórum hluta?) sem vill láta kné fylgja kviði í samskiptum við það fólk sem hingað leitar í raunum sínum.

Ég er því ekki neinn móðursjúkur aðdáandi þessa löggustjóra en mér er sagt að hann sé duglegur og að hann sýni árangur.  Mínus viðhorf hans til hælisleitenda þá má vera að maðurinn rokki.

Ég er svo langt því frá að vera hýsterískur fylgismaður BB og mun aldrei verða.  Ég held ég hafi um það sem fæst orð.  Það má eiginlega afgreiða skoðun mína á þeim manni og því sem hann stendur fyrir með orðinu sveiattann eða var það urrdabíttann, ég man það ekki.Devil  Djók.

Svoleiðis er nú það.

En það liggur við að ég sæki um forræði með helgarheimsóknum yfir Jóhanni R. Benediktssyni og taki hann alveg í knús og kreist meðferð, því í samanburði við ráðherra dómsmála þá er hann um það bil að stíga upp til himnaHalo vegna mannkosta sinna.  Mér sýnist amk. að hann vilji vinna vinnuna sína almennilega og kollegar hans standa þétt við bak honum og taka sennilega áhættu með því.

Það er reyndar ekki erfitt að verða vængjaður engill í mínum augum þegar samanburðurinn er BB sem ég botna aldrei neitt í.

Ég er ekkert alveg á kafi í þessu  rifrildi hjá strákunum, læt mér á sama standa, eða því sem næst.

Þetta er nefnilega týpískur strákahasar og allir vita að konur eru í miklum minnihluta hjá löggunni og ákveðið viðhorf þar innan dyra sem ég tengi við hugmyndaheim karla.

Það er þetta með að berast á banaspjótum.  Vega úr launsátri.  Skjóta í bakið.

Þessir frasar eru allir hernaðarfrasar og mér finnst þetta vera þannig fætingur. 

Ég ætla að fylgjast með álengdar og hafa hægt um mig.´

En í hjarta mínu stend ég oggolítið með Jóhanni R. Benediktssyni.

Klárir í bátana, vér siglum í kvöld.

Jájá.


mbl.is Styðja dómsmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jennískur rekstur.

 innkaupavagn

Ég er orðin svo sparsöm að það á eftir að verða fært í annála þegar fram líða stundir.  Gott ef nýtni mín og útsjónarsemi í heimilishaldi verður ekki kennslugagn í matreiðslutímum framtíðarinnar.

Ég á jafnvel von á því að sú aðferð sem ég nota til að draga úr rekstrarkostnaði heimilanna fái sérstakt nafn og verði síðan þekkt hugtak innan vísindanna.

Svokallaður "jennískur rekstur".  (Ég er að reyna að slá dreifbýlisdúllunni við, þegar kemur að því að spara alveg heví).

Á fimmtudaginn setti ég mig í stellingar og sagði húsbandi að nú væri lag að fara í Bónus og versla inn mat til kærleiksheimilis. 

Svo var það sturta, blástur, málning, dragt, flottir skór (bara að hnykkja á þessu með skóna enda verslar alvöru kona ekki klemmu á ómerkilegum túttum) og listi skrifaður.

Vér steðjuðum í Bónus, týndum í körfu samkvæmt miða og ekkert umfram það.

En nú er ég komin að erfiðum kafla. 

Ég er nefnilega að ljúga.  Með miðann sko, reyndar var ég með flottan miða en mér tókst illa að halda mér við efnið.

Ég var búin að gleyma að mig vantaði skóáburð, silfurpúss, nýja moppu með tilbehör, súkkulaðispæni (W00t), sérstaka olíu fyrir tekkhúsgögn (ég er viss um að ég á eftir að eignast eitthvað úr tekki í framtíðinni), flugnaspaða og sagógrjón.  Ókei, ókei, smá ýkjur en þið vitið hvert er er að fara.

Hljómsveitin sagði: Jenný, miðinn.  Halda sér við miða.

Ég pirruð: Viltu hætta þessu, bíddu bara á meðan ég skrepp yfir í næsta gang.

Hljómsveitin: Þú verður að fara að taka sjálfa þig alvarlega.  Ekki að einhverjir smáhlutir skipti máli en hvernig væri að standa við gerðan samning við sjálfa þig?

Mér stórlega misboðið: Einar, ertu að fíflast í mér, erum við að tuða um þetta?  (Ég stóð við körfuna sem var kjaftfull af einu og öðru þegar hér var komið sögu og hélt dauðahaldi í körfufjandann eins og ég væri hrædd um að minn heittelskaði eiginmaður tæki hana af mér með valdi og skilaði henni í hendurnar á Jóhannesi Bónussyni, pabba okkar allra).

 Minn heittelskaði: Jenný Anna - grow up!

Ég rauk út úr búðinni og hann á eftir og hann vissi ekki hvað hafði hlaupið í þennan engil í mannsmynd sem hann er giftur.  Eða þannig.

Karfan varð eftir og verðið var 0 krónur.

Svo tuðaði ég þarna á bílaplaninu dágóða stund og til að þið hríðfallið ekki úr áhyggjum af matarleysi þá var taka tvö tekin í annarri Bónusverslun og í þetta sinn var miðinn notaður.

Það er nauðsynlegt að læra einhvern tímann, því ekki núna.

Þannig að hér er sparnaðarráðið mitt komið upp á núll krónur.

Rífist elskurnar eins og mófóar við einhvern þegar þið eruð búin að henda í körfuna allskyns óþarfa og ég lofa að 100% garanteruðum ægisparnaði.

Og hér á kærleiksheimilinu finnst okkur við hafa stigið feti framar á þroskabrautinni.  Mér hefur amk. farið fram, veit ekki með hljómsveit, þetta hefur aldrei vafist fyrir honum.  Ég lít á innkaup af öllu tagi sem dásamlegt listform sem má hefja upp í æðra veldi og snudda við guði sjálfum.

Ég ætla að vera með kjúkling í kvöldmatinn.  Nema hvað?

Pétur Blöndal snæddu hjarta.

Neysluboltinn.


Ekkert andskotans einkamál í héraði

Þegar ég sá forsætisráðherrann í fréttum beggja sjónvarpsstöðva harðneita því að það fundurinn sem hann boðaði til og ALLIR Seðlabankastjórarnir sætu að fundurinn hefði ekki verið krísufundur - ja - þá trúði ég honum ekki.

Ég trúi ekki orði lengur af því sem þeir í ríkisstjórninni segja, nema Jóhanna Sigurðardóttir, en hún er sér á báti á þessum síðustu og verstu.

Geir var svona frekar pirraður en fór vel með það eftir að hann tók ímyndina í gegn eftir skætinginn sem hann sýndi fréttamönnum fyrr í sumar.

Fólki virðist halda að Seðlabanki USA sé kjörbúð, sagði forsætisráðherrann dulítið pírí svona, enda þreyttur, búin að vera að vinka í Kauphöllinni í Nýju Jórvík og loka sjoppunni þar líka.

Svo er verið að pirra manninn með ágengum spurningum sem hann kærir sig ekkert um að svara.

Ég veit ekki hvort ég á að hlægja eða gráta þessa dagana þegar maður horfir upp á þennan misskilning kjörinna fulltrúa okkar um stöðu sína gagnvart almenningi sem fara oftast fram í gegnum fjölmiðla.

Áddni dýró vildi heldur engu svara í föstudagsfréttunum þar sem hann var spurður út í málið með bandaríska seðlabankann.

Alveg: Þér kemur það ekki afturenda við attitjúd.

Þess vegna vill ég nota tækifærið af því ég er að blogga um þetta og minna téða ríkisstjórnarmeðlimi á fyrir hvern þeir vinna.

Ég vil líka benda þeim á að það er ekkert andskotans einkamál í héraði hvað þeir eru að aðhafast. 

(Þá er ég að meina að þeir komi því frá sér í stórum dráttum hvað sé á teikniborðinu, er ekki að fara fram á daglegt rapport frá þessum elskum). 

Ég og vel flestir sem ég þekki eru órólegir vegna efnahagsástandsins og maður er að bíða eftir svörum.

Þó það væri ekki nema örlítil vísbending um hvernig taka eigi á málunum.

En nei, ónei, þessir háu herrar eru í leyniklúbbi og ætla ekki að fara að deila aðgerðarplönum með okkur sótsvörtum.

Þetta endar með að taaaaaaaaapa verulegu fylgi í næstu kosningum.

Sem gætu komið fyrr en seinna.

Jájá.

Viðtalið við Geir.

Áddni um Seðlabanka USA

Og fyrir þá sem geta endalaust rifist um trúmál, frá mér til ykkar fyrir nóttina.

Friður.


mbl.is Enginn krísufundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Edrú í boðinu

Ég svaf út í morgun, þ.e. ég vaknaði 8,30 í staðinn fyrir 07,00 eins og venjulega.

Svo settist ég með mína sígó út í reyk og kaffibollinn var oss til samlætis.  Þið vitið að allir konungbornir eru í fleirtölu þannig að vér verðum að gangast við voru bláa blóði af og til.

Og þar sem vér sátum þarna og reyktum í ró og næði sló það oss í höfuðið að núna eftir nokkra daga eru tvö ár síðan vort nýja líf hófst hér við hirðina.

Þann 5. október 2006 fór ég í meðferð og síðan hef ég ekki verið söm.

Á hverjum degi síðan þá (fyrir utan 12 daga lyfjafallið í janúar) hef ég upplifað hvern byrjaðan dag sem fyrirheit.

Ég er ein af þeim sem hef hlaupið í gegnum lífið og leitað að lífshamingjunni á bak við hverja hæð og hvern hól, þrátt fyrir að hafa  verið með hana í vasanum allan tímann.

Ég trúði því svo innilega að lífshamingjan hlyti að vera eitthvað stórt og merkilegt og ég lagði mig alla fram í að finna lykilinn sem mér fannst að sjálfsögðu liggja í stórum afrekum, miklum veraldlegum sigrum og troðfullum fataskáp (djók með fataskápinn, væmnijöfnun).

Stundum tókst mér vel upp stundum mistókst mér hrapalega.

Ekki misskilja mig, lífið er ögrun og það er hægt að gera stóra hluti - og njóta þeirra, en aðeins ef maður getur þolað sjálfan sig.

Svo var ég stoppuð illilega af.  Ég fór að drekka og éta róandi til að slá á sársaukann innan í mér sem mér tókst ekki að hlaupa frá.

Alkinn ég var mættur í vinnuna. Varúð, varúð!  Og þar sem ég hef alltaf farið heilshugar í öll verkefni, til góðs og ills þá eyddi ég hartnær 12 árum give or take, misslæmum auðvitað í stöðugum faðmlögum við Bakkus, við vorum samvaxin á mjöðm félagarnir og sambandið var afskaplega ástríðufullt.  Einn langdrægur sleikur þar sem ég kom aðeins upp til að anda.  Úje bara.

Í sambandinu við þennan slóttuga félaga má segja að ég hafi farið að praktísera og leggja rækt við mína frábæru skapgerðarbresti.

Jájá.

En nú sit ég hér, ekki teljandi daga, heldur með það á hreinu hvenær ég kom til mannheima og fór að lífa lífinu á eigin safa.  Ekkert hugbreytandi fyrir mig takk.

Svo fékk ég þessa fínu áminningu í janúar þegar ég fékk lyf við Heimskringluáverkanum á löppinni á mér og hóf fljótlega upp úr því 12 daga lyfjafyllerí og endaði inni á Vogi.

Ég er þakklát fyrir þá áminningu svona eftir á að hyggja, alkinn er aldrei kominn í mark.

Ég er frasahatari.  Ég berst gegn frösum hvar sem ég til þeirra næ.  S.k. skyndibitar sálarinnar gera mér hluti.

Samt hef ég tekið í fóstur eitt frasakvikindi og það er frasinn um daginn í dag.  Ég hef bara daginn úr að moða og það virkar algjörlega fyrir mig.

Ég hef verið svolítið fráhverf því undanfarið að skrifa í alvöru um minn alkóhólisma vegna þess að ég hef tekið nærri mér þegar óvandað fólk er að beita honum gegn mér í bloggheimum þegar rökin þrjóta, en eftir smá hugarleikfimi og þankastorm upp á fleiri metra á sekúndu komst ég að því að það má einu gilda hvað öðrum finnst um mig á meðan ég er sjálfri mér trú.

Svo er yndislegt fólk í stórum og yfirgnæfandi meirihluta í lífi mínu.

Og víst er ég alveg friggings þakklát fyrir það (væmnijöfnun 2).

Svo skuluð þið skammast til að eiga góðan dag þið öll sem komið hér inn á síðuna mína.

Þetta með að rífa kjaft er auðvitað della, ég er alltaf góð, alltaf glöð og alltaf að skiptast á.

Og þegiðu svo Jenný Anna Baldursdóttir, alkóhólisti og sykursýkissjúklingurHalo

Verum edrú í boðinu.

Úje

 

 


"You win some - you lose some"

Ég var að heyra að Bubbi sé að byrja með útvarpsþátt á Rásinni.

Eru einhverjir fletir ókannaðir á Bubba?

Ég veit það ekki, en fyrir mína parta er ég mett, nó ábót níded..

Óla Palla finnst Kona ofmetin plata.

Fokk og mér sem finnst Kona eina plata Bubba sem ég fíla almennilega.

Varðandi ofmetnar plötur, hugsí, hugsí.

Er ofmetin plata sú sem nær víðtækri spilun þrátt fyrir að gagnrýnendum finnist hún sökka?

Ef svo er þá er platan sem inniheldur lögin Lorelei og Eldhúsverkin með Maju Baldurs og Geimsteinum eða hvað þeir heita, sirkabát sú plebbalegasta sem ég man eftir.  Hún hefur verið spiluð upp til agna en  það viðurkennir ekki kjaftur að hafa gaman að þeirri plötu.  Ekki þó maður beini byssu að höfði þeirra.

En eins og þið vitið þá var ég að flytja.  Það klikkar ekki að þegar maður flytur, eins skemmtilegt og það nú er þegar allt er komið upp úr kössunum, að maður týnir einhverju sem skiptir rosalega miklu máli og getur ekki verið án fyrir nokkurn mun.

Það er að koma hálfur mánuður síðan ég flutti mig um set og ég finn ekki eftirfarandi:

Hleðslutækið fyrir Gemsann minn. 

Grænmetisskrælarann sem ég er búin að eiga í fjöldamörg ár og er sá besti í heimi, hreinlega flengir grænmetinu af þannig að það flýgur í ruslatunnuna.  Á meðan er ekki boðið upp á grænmeti hér á kærleiks, bara hreint ekki.

Körfuna með naglaklippunum, þeim smáu og stóru.

En...

Í staðinn hafa ostaskerarnir fjölgað sér úr einum og upp í þrjá og ég er allt í einu stoltur eigandi að gluggasköfu sem er dúndurgóð á stóra spegilinn.

Well,  you win some - you loose some!

Svo er ég að hugsa svo margt þessa dagana. 

Ætla ég að deila því með ykkur?

Já, en bara prívat.

Kjútpípúl ælofjúgæs!

 

 


mbl.is Bubbi hefur gert betur en á Konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alkasamfélagið

Hebbi er edrú, hann hætti í búddismanum og snéri sér til Krists.

Edrúmennska margra byggir á trúarbrögðum, allt gott um það að segja.  Hver velur sína leið.

Til hamingju með það Hebbi.

Merkilegt en stundum þá les maður eitthvað svona rétt á eftir eigin pælingum um svipað efni.

Ég er nefnilega dálítið að bíða eftir bók stórvinar okkar hjóna honum Orra Harðar, en hún kemur út 3. október og heitir Alkasamfélagið.

Orri lýsir þar hvernig er að koma úr meðferð og fara inn í leynifélagið.

Ég ætla ekki að fara að ræða neitt sérstaklega um viðkomandi leynifélag en ég hef alltaf átt erfitt með að kasta örlögum mínum í hendurnar á "æðri mætti" sem ég veit ekki einu sinni hvort er til.  Hallast þó að því á góðum dögum.   Mín fílósófia er einföld.  Ef ég gef mér að alkóhólismi sé sjúkdómur og innan vestrænna læknavísinda er hann skilgreindur sem slíkur, þá er mér meinilla við að láta nokkurn annan en sjálfa mig taka ábyrgð á mínum sjúkdómi.

Ég ber hins vegar fullt traust til þeirra lækna sem hafa meðferðað mig til heilsu og til þeirrar sjúkrastofnanar hvar þeir starfa.

Það meikar einfaldlega engan sens fyrir mér að setja jafn mikilvægan hlut og alkóhólismann, sem gengið hefur svo nærri heilsu minni að ég þakka fyrir að vera ofanjarðar, í hendurnar á óskilgreindu afli sem mögulega er ekki einu sinni að hlusta væri það til.

Svo má nota sumt, reynslu annarra bæði góða og slæma í batanum.  Það geri ég.

Kannski er svarið fundið.  Það má vera að leynifélagið sé svarið og það þurfi ekki að leita lengra en það væri þokkalegt.

Hér erum við Billarnir og Bobbarnir frá 193tíuogeitthvað og við erum komnir með lokasvar.

Samt hrynja alkarnir eins og flugur.

Ekki illa meint en má ekki leita víðar?

En að þessu skemmtilega í edrúmennskunni.  Vogur er ákaflega merkishlaðið orð.  Hann er á Vogi (rómur lækkar um 100 desibel).  Ég og mín fjölskylda sem eru með alkann mig á borðinu notum þetta orð eins og flest önnur.  Ekkert merkilegt við það.  Spítali og ekki orð um það meir.

Núna er ég að taka þátt í rannsókn á vegum SÁÁ um alkóhólisma.  Í gær þurfti ég upp á Vog í blóðprufu og til að ná í pappíra.  Hljómsveitin keyrði mig.

Á meðan ég var inni hringdi náinn ættingi minn í Hljómsveitina og var að leita að mér.

Einar: Þú hefur ekki náð í Jenný, ég er fyrir utan Vog, var að skutla henni.

Sá náni: Jesús minn góður guð, er hún komin inn á Vog!!!!! Hvenær féll hún?????W00t

Það tók við áfallahjálp á ættingjanum í gegnum símann.

Annars góð og  það er Svarthöfði líka, þ.e. ef bloggarar hafa húmor fyrir sjálfum sér.

Later.


mbl.is Herbert: Kokteill af bjór, kannabis og kókaíni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nærri dauð í tveimur löndum

Munið þið þá tíma þegar maður fór til bankastjórans, stillti sér upp í röð og ef maður var ekki nógu snemma á ferðinni varð að endurtaka leikinn daginn eftir?

Jabb, ekki svo langt síðan.  Það sem ég er hins vegar að nostalgíast með er öskubakkinn eða bakkarnir hjá stjóra og niðri í bankanum.

Þvílíkir draumatímar, þ.e. áður en fólk fattaði að það væri sóðalegt að reykja hvar sem er og algjör óþarfi að láta bjóða sér upp á það.

Ég man eftir að hafa setið í Domus Medica og reykt eins og mér væri borgað fyrir það á meðan ég beið eftir að komast til læknis út af hálsbólgu.  Ég minnist þess ekki að neinn hafi verið neitt sérstaklega hissa yfir því.

Þegar afmælis-, fermingar- og brúðkaupsveislur voru haldnar, eða hvar sem fólk kom saman til að gleðjast voru settar sígarettur og kveikjarar á hvert borð.  Það var ekki almennileg veisla ef ekki var boðið upp á Camlel og Viceroy að minnsta kosti.

Áttatíuogeitthvað sat ég löngum stundum á fundum í kvennahreyfingunni og við mökkuðum hver í kapp við aðra þannig að það var ekki líft á samkundunum.  Það var alltaf ein og ein kona sem kvartaði og við afgreiddum það með því að sú væri leiðinleg!

Nú eru aðrir tímar, eða hvað?

Fyrir þremur árum þegar ég var í sumó á Spáni var ég flutt fárveik inn á spítala.

Án þess að ég ætli að tíunda það neitt frekar þá var ég á leiðinni heim og fékk að fara niður í kaffiteríu ásamt húsbandi, Söru minni og spænskri vinkonu, hvar læknarnir mínir sátu ALLIR og þömbuðu bjór og reyktu sig bláa í framan.

Svo gerðist það þarna í kaffiteríunni að ég fór í sykurlost (ekki búið að greina sykursýki), ég froðufelldi þarna á gólfinu í heiftarlegum krömpum og læknarnir stukku til og skutluðu mér á börur (er mér sagt) og tveir þeirra voru í hvítu sloppnum með síuna lafandi úr kjaftinum.

Þeir misstu mig svo af börunum og búmm pang á gólfið.  Það er mesta furða að ég skuli vera lifandi.

En læknarnir voru búnir að sitja þarna og hygge sig yfir bjór töluvert góða stund og voru því drukknir undir sjúkrabörum.  Fyrir nú utan það að það getur verið erfitt að hlaupa með konu í villtum krampa með sígó í kjafti og sjá ekki neitt fyrir reyk.

(Ég lá í heittelskaða og Sörunni sem var komin út til að fylgjast með móður sinni eftir að ég rankaði við mér eftir töluvert langan tíma og hafði gífurlegar áhyggjur af því hvernig ég hefði tekið mig út í krampanum.  Alveg: Flettist pilsið upp í heila?  Var ég með lafandi tungu?  Var ég öll krumpuð í framan?  Ekki, verður minnistap varanlegt ((mundi ekki suma hluti)?  Eina sem ég pældi í hvort ég hafi verið eðlileg en ekki eins og hálfviti í krampanum, jösses).

Ég hef áður sagt ykkur að líf mitt hefur fram að meðferð ekki einkennst af mikilli lognmollu.

Ég hef nefnilega nærri drepist í tveimur löndum.

Á Spáni auðvitað af ofangreindum orsökum og árinu áður á Elmegade í Köbenhavn, hvar ég steðjaði fram á byssukúlu í gengjabardaga.  Byssukúlan tók ákvörðun um að beygja fram hjá á síðustu stundu og ég labbaði alveg vonn kúl mama áfram og klofaði yfir lögregluhindranir og sheferhunda.

Ég var í glasi for crying out loud.

En núna er ég nokkuð örugg með mig.  Bláedrú og meðferðuð á besta hugsanlegan máta.

Dem, þessi færsla átti aðallega að vera um þegar allir reyktu alls staðar og kvikmyndastjörnurnar fengu háar fjárhæðir fyrir að reykja í bíómyndum.

Æi, ég er eiginlega fegin að það má ekki reykja út um allt.

Það er ógeðslega ógeðslegt.

Ég vil að minnsta kosti að mínir doktóres séu edrú í vinnunni og ég krefst þess að þeir séu löngu hættir að reykja.

Þíjú.

 


mbl.is Kvikmyndastjörnur fengu stórfé fyrir að reykja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki kraftgalla að sjá

Angry%20Man%2012 

Ég finn til með honum Hebba að lenda í þessu þakfokki þar sem hann býr.

Ég myndi hins vegar löngu vera farin eitthvað annað.

Ef þakið hans þarfnast ekki viðgerðar en nágrannarnir þurfa að laga sín hvað er þá að?

Allir fyrir einn - einn fyrir alla - bara með öfugum formerkjum?

Ég þekki alka sem lýsti því yfir í hroka sínum og í leiðinni af sinni frábæru kaldhæðni að hann drykki einn dag í einu.  Hann tók speki leynifélagsins og hafði á henni endaskipti.

Hugmyndafræðin gengur sko út á að vera edrú einn dag í einu.

Það má nýta sér allan fjandann sér til framdráttar.

Það er svo mikið af smákóngum (húsvarðartýpurnar í kraftgöllunum) út um borg og bý.

Það er yfirleitt eitt svona fyrirbæri í hverju húsi þar sem fleiri en ein fjölskylda kemur saman.

Það eru þessir náungar sem moka frá útidyrunum (óbeðnir) á veturna með mæðusvip fórnarlambsins.

Það eru kubbarnir ábúðarfullu sem fara út með poka og týna lauf, sígarettustubba og sælgætisbréf upp af bílaplaninu og á meðan stynja þeir lágt og svo renna þeir augunum lymskulega upp í gluggana.  Alveg: Eru ekki vitni að fórnfýsi minni og snyrtimennsku?

Það eru líka þessir snillingar sem oftar en ekki hafa látið eiga sig að kynna sér réttritun en eru samt ákaflega skrifglaðir.  Þeir elska skilti og setja heilu ritraðirnar í skiltaformi upp í sameigninni.

Bannað að reikja.

Bannað að fara ynn á skónnum.

Þið vitið hvað ég meina.  Er það ekki?

Þessi menn veljast yfirleitt sem formenn húsfélaga, það er, þeir fara í framboð á meðan hinn almenni maður/kona taka á flótta þegar á að fara að virkja í stjórnina.

Ég held að það sé svona fólk sem gefur dauðan og djöfulinn í að í nafni húsfélagsins skuli Hebbi borga þökin þeirra þó hann sé búin að laga sitt á eigin kostnað.

En, það er mannskemmandi að standa í svona erjum.

Ég myndi ráðleggja öllum að draga sig í hlé.

Að standa á sínu er eflaust hið besta mál, en hvað kostar það?

Ég myndi ekki vilja hafa svona nágranna.  Ég læt fólk í friði og vill sjálf fá sama til baka.

En ég er afskaplega heppin með nágranna og svei mér þá það er engin húsvarðartýpa í mínu húsi.

Ekki kraftgalla að sjá í fleiri kílómetra fjarlægð.

Ég er heppin kona. 

P.s. Þarf að skreppa aðeins til að fórna mér í þágu vísindana.  Er að taka þátt í merkilegri rannsókn.

Ég get ekki dáið við að fara í blóðprufu er það?

Ok, þá nær það ekki lengra.

Ef minn tími er kominn þá þakka ég samfylgdina á liðnum árum.

Úje


mbl.is Neitar að borga þak nágrannans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Játning

Stundum hlæ ég upphátt þegar ég les slúðrið í blöðunum.

Þetta sem kallast "Fólk í fréttum" en er auðvitað bara beint úr útlendum slúðurdálkum.

Þetta eru fréttir eins og þessi um hnakkaspikið á Jay Lo.

Eða þegar Madonna dettur á rassinn.

Ekki má gleyma að Meg Ryan var að segja frá því núna að Dennis Quiad hafi haldið fram hjá henni þegar þau voru gift fyrir milljón árum.  Þeir sem lesa slúður hefðu getað sagt henni þetta á meðan hþau voru gift.

Annars hef ég aldrei lagt mig eftir svona "fréttum", ég á hins vegar eina dóttur og sú býr í London og hún veit allt um "Fólkið í fréttunum".  En auðvitað kemst maður ekki hjá að lesa þegar verið er að þræða netmiðlana.

Og..

Það sem kætti mig svona að þessu sinni er fyrirsögn þessarar fréttar sem ég tengi við hér.

Lindsay hefur lengi verið lesbía!

Það er ekki sagt hvenær lesbíufyrirkomulagið sló Lindsay litlu í höfuðið en það mun vera dagsetning sem hún ætlar að halda leyndri.

Eins og þetta er sett fram má áætla að samkynhneigð konunnar sé eins og lungnabólga eða tennisolnbogi.

Lindsey hefur lengi verið með tennisolnboga.  Hún vill hins vegar ekki gefa upp hvenær og hvernig hún kom sér upp þessu handarmeini en glottir leyndardómsfull þegar hún er spurð.

Ég ætti að þekkja þetta.  Ég er gagnkynhneigð og búin að vera mun lengur en nokkurn gæti órað fyrir.

En, segi ég og brosi hæðnislega að þeim sem spyr um þennan merkisatburð sem legið hefur í þagnargildi, þá ætla ég og mínir fjölmörgu eiginmenn að halda upphafsdegi gagnkynhneigðarinnar innan fjölskyldnanna.

En ykkur get ég sagt í trúnaði og ég bið ykkur að segja ekki frá því fyrir nokkurn mun, þá var það einn vordag um kl. 15,13 eftir hádegi, þar sem ég steðjaði niður Bankastrætið í góðum fíling, að ég heyrði rödd inni í höfði mínu (karlmanns, nema hvað) segja ákveðinni röddu; Jenný Anna þú ert fyrir karlmenn.

Mér varð svo um að ég hef fram á þennan dag farið með þessa uppákomu sem mannsmorð.

Þess má svo geta í förbífarten að þennan sama dag í Bankastrætinu rétt áður en ég varð gagnkynhneigð þá fékk ég kvef.

Þetta var því dagur tveggja fyrirkomulaga.

Nema hvað.


mbl.is Lindsay lengi verið lesbía
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heldur þú að ég sé friggings skjaldbaka?

Ég er að drepast úr kreppu.  Algjörlega komin undir borð og nánast í fósturstellingu hérna.

Málið er að ég fæ fyrir þind og hjarta í hvert skipti sem keyptur er matur til örheimilisins.

Botnfylli í körfu kostar þessa dagana hvítuna úr augum vorum.

Ég var að hugsa um að fá mér hænu, lamb og kálf - á fæti og hafa hérna í garðinum.  Hann er nokkuð stór.

Nei ég er allt að því ekki að fíflast.  Matvaran hérna er svo dýr að það kemur út á manni tárunum.

Ég er samt ákveðin í að halda áfram að borða minn holla mat.  Ég er með sykursýki og verð að hugsa um hvað ég læt ofan í mig og unnar kjöt- og fiskvörur eru nónó.

Það væri auðvitað hægt að vera bara með gömlu medesterpylsuna, nú eða bjúgu eða þá saurgerlakjötfars - en ekki að ræða það.  Liðin tíð.

Ég var að tjatta við þjónustufulltrúann minn í bankanum áðan og hún er alltaf hress og skemmtileg, enda ég einn af þeirra stærstu kúnnum bæfar.

Ég kvartaði við hana eins og mófó, barmaði mér yfir örlögum mínum og grenjaði út samúð eins og almennilegt fórnarlamb eitt getur gert.  Það stóð fjárhagsleg kreppublóðbuna upp um alla veggi í bankanum, maður kann kvarthlutverkið, lifði sem þolandi til fjölda ára.  Jájá.  Bíðið á meðan ég æli.

Mín kona veitti mér öfluga áfallahjálp í gegnum símann og þegar ekkinn fór að minnka þannig að aftur heyrðist mannsins mál, sagði hún mér að vera ekki með kreppuáhyggjur.  Þetta væri bara tímabundið ástand. 

Ég: Tímabundið, ókei, en hvað erum við að tala um langan tíma hérna?

Hún: Einhver ár bara, verður búið áður en þú nærð að snúa þér við.Errm

(Ég í huganum: Heldurðu að ég sé friggings skjaldbaka?)

Upphátt: Ókei, gott að heyra.

Thanks for nothing you þjónustufulltrúi you

En lesið endilega þessa færslu hérna.  Það er eitthvað mikið að.

Later.


mbl.is Útilokað að taka upp evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 2985713

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.