Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Að hanga saman á munni eða mjöðm

Ef Baldur Guðmundsson, annar höfundurinn að mér hefði haft forsetaembættið til að bjóða sig fram í og komast þar með í leyniþjónustumenn til að gæta þeirra sjö dætra sem hann á heiðurinn af, þá bölva ég mér upp á að hann hefði gert það.

Svipurinn á honum þegar kæróarnir komu upp að húsinu var ekki blíðlegur.

Þannig að maður hætti  bara að taka þá heim að húsinu - ekki flóknara en það. 

Geymdi þá í næstu götu bara.

En nú er ég hér vestur í bæ með útsýni í allar áttir, þ.e. ef það væri ekki orðið svona fjári dimmt og ég sit hér vafin innan í teppi og er að reyna að venjast apple tölvu barnabarnsins.

Ég er í rauninni orðin afskaplega íhaldssöm.

Þegar ég fékk mína fyrstu tölvu 1986 eða 7, Makka auðvitað, þá hefði ég svarið fyrir að ég ætti eftir að nota annað.  En svona er lífið.

Og núna rembist ég eins og rjúpan við staurinn og reyni að láta mér lynda við mína fyrstu ást sem hefur auðvitað farið töluvert fram bæði í þroska og útliti og ég veit að það á eftir að smella.

Rétt eins og það gerði með mig og húsband sem héngum saman á munninum í denn, fórum í sitthvora og erum núna samvaxin á mjöðm.

Þess má geta í forbífarten að sama húsband lenti í Obama, ég meina föður mínum hérna um árið þegar honum var sagt að bíða úti eftir mér.  Mér fannst maðurinn hafa sloppið vel.

En hvað um það.

Þessi færsla var frá toppi tilverunnar í besta bæjarhluta Reykjavíkur.

Síjúgæs.


mbl.is Hótar að siga leyniþjónustunni á kærastana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlætið sigrar

Stundum, en allt of sjaldan ganga hlutirnir upp.  Réttlætið sigrar þrátt fyrir allt.

Það er réttlæti í fúnksjón að Paul Ramses skuli vera á leiðinni heim frá Ítalíu þó auðvitað hefði aldrei átt að senda hann þangað.

Og svo er að fylgjast með því hvernig tekið verður á málinu hans og fjölskyldunnar og auðvitað geng ég út frá því að Ramses fjölskyldan taki sér búsetu á Íslandi.

Það verða góð sögulok.

En svo eru það hinir sem eru að bíða, og allir þeir sem eiga eftir að koma frá löndum þar sem vargöld ríkir og fólk forðar sér út í óvissuna til að halda lífi, eins skelfilegt og það hlýtur að vera.

Til Íslands er erfitt að komast, t.d. frá Afríku án þess að millilenda einhvers staðar, eins og raunin var með Ramses fjölskylduna.

Mín ósk er sú að íslensk stjórnvöld skoði þau mál með mannúðar- og réttlætisgleraugum í framtíðinni og hugi að hverri sögu fyrir sig.

Aðeins þannig fæst góður endir.

Og hér er nóg pláss er það ekki?

En BB stóð sig þarna, það verður ekki af karli tekið.

Ég er þó algjörlega sannfærð um að almenningsálitið skemmdi alls ekki fyrir í málinu án þess að ég kveði nú fastar að orði.

Velkominn Ramses.


mbl.is Ramses kemur í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djúpar samræður á dada-ísku

 krummi2

Í morgun hefur mér verið skemmt af litlum sjö mánaða kút sem heitir Hrafn Óli og þar sem skólinn hjá mömmunni er byrjaður og pabbinn á hljómsveitaræfingu, þá tók ég yngsta barnabarnið og passaði það.

Á því hef ég lært ýmislegt.

Ég veit núna að að það er í raun nóg að geta sagt dadada í hinum ýmsu tóntegundum til að gera sig skiljanlegan.

Dadada (rómablítt og smá væmið í fallegri merkingu þess orðs): Mér líður vel amma.

Dadada (ákveðið en samt með smá húmor): Amma, ætlarðu að knúsa mig í klessu, kommon ég er ungabarn!

Dadada (ergilegt og alveg á gargmörkunum): Ég hef ekki sofið síðan ég vaknaði kl. 7 kona, komdu mér í vagninn, núna! 

Dadada (yfirpáta pirringslegt og skerandi): Ég er svangur, hvað get ég sagt, mig vantar graut, nema auðvitað að það sé boðið upp á annað.

Og svo lékum við okkur, barn er kominn í skriðstellingu þ.e. að segja núna skríður hann afturábak.

Skelfing er ég heppin að eiga svona skemmtileg barnabörn.

Krúttkrampi

En nú er það Westurbærinn, elsta barnabarn bíður.

Hírækomm.

 


Þekki ekki bónda í sjón - me

Það er eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að hafa skoðanir á landbúnaði, þ.e. ef maður er ekki samansúrraður bændaaðdáandi.

Ég held að íslenska lambakjötið sé með því besta sem hægt er að fá og jafnvel þótt það væri hægt að kaupa erlent lamb myndi ég aldrei gera það.  Ekki þó það væri ókeypis.

En ég er þreytt á matarverðinu.  Ég er þreytt á því að nánast allir peningar fari í mat, amk. þannig að á þessu heimili er ekki mikið aflögu fyrir annað.

Ég læt ekki hvað sem er ofan í mig unnið kjöt er eitt af nónóum þessa heimilis.

En að kjarna málsins.  Einu sinni enn kemur þessi dulda hótun frá bændum, að þeir séu að hugleiða að bregða búi.

Fyrirgefið, þannig er lífið, ef þetta gengur ekki strákar mínir og það með alla þessi styrki sem þið fáið, þá er lífið stundum svona.  Maður snýr sér að öðru.

Ég veit að ég blaðra út í bláinn, þekki ekki bónda í sjón þó hann gargaði á mig, kann varla að beygja orðið, en ég kaupi afurðirnar frá honum og hef ekki eitt andskotans val um það.

Ég veit líka að það eru styrkir á styrkir ofan sem halda sumum bændum gangandi.

Er ekki hægt að samræma og skoða reksturinn upp á nýtt?

Það tíðkast í fjölbýlinu.

Arg, ekki gott að lesa þetta í morgunsárið.  Bændur pirra mig, sko ekki þeir persónulega heldur landbúnaðarstefnan.

Ef ég myndi hugleiða það að bregða búi af því að heimilisreksturinn gengur fyrir bjartsýninni einni saman þá myndi það ekki koma í Mogganum. 

Fólk myndi segja: Só?


mbl.is Bændur hugleiða að bregða búi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dorrit tók gullið

 dorrit

Ég hef bloggað um það áður að ég var alin upp af sjálfmenntuðu og kærleiksríku alþýðufólki og ég er afskaplega stolt af uppruna mínum.

Mér var innrætt með hafragrautnum að allir væru jafnir þegar þeir kæmu í heiminn og enginn ætti að hreykja sér yfir annan.  Ergo: Mitt fólk gerði sig ekki til, bukkaði sig ekki og beygði fyrir svokölluðu heldra fólki, en það kunni sig var kurteist og gerði aldrei greinarmun á fólki eftir stöðu þess í þjóðfélaginu.

Ég hef fengið þetta í arf þó ég verði að viðurkenna að ég hef átt mín laumusnobbstímabil í gegnum árin.

Ég er ekki stolt af því enda var ég í felum með það eins og svo margt annað en það er önnur og subbulegri saga sem ekki verður sögð núna.  Hvað get ég sagt, ég er smali í eðli mínu.

Hvað um það, nú er fólk farið að blogga um forsetafrúna.  Hún er ekki nógu settleg.  Hún er borin saman við Margréti drottningu Dana og það ekki okkar konu í vil. (Lesið sérstaklega kommentin við færsluna). 

Sumum finnst ekki sæma að forsetafrú þessa örríkis sem samanstendur af venjulegu fólki, þó margir hverjir telji sig eðalbornari en aðra, hagi sér eins og dauðleg kona.  Hún á að kunna sig og í þessu tilfelli er þá væntanlega átt við að hún sé þrædd upp á prik, nikki og hneigi og sé með fjarræðan drottningarsvip á andlitinu.  Eitthvað í þá áttina amk.

Í mínum huga er svoleiðis forsetafrú steingeld, vakúmpökkuð og tilbúin til útflutnings.

Ég vil ekki sjá það.

Hitt er svo annað mál að ég vil helst engan forseta hafa, og engin puntembætti yfirleitt en ég er nú hálfgerður anarkisti í svona málum.´

Mér finnst nefnilega flott að vera alþýðlegur og laus við silkihúfutilgerð.  Ég hef skömm á orðusöfnurum sem labba um eins og mörgæsir í þeirri vissu að þeir séu meiri og betri en venjulegt fólk.

Mér finnst forsetafrúin kynna okkur á skemmtilegan hátt, eins og við höfum húmor fyrir sjálfum  okkur og kunnum að gleðjast. 

Eða erum við ekki þannig þjóð? 

Öll eigum við ættir okkar að reka til fjósa, torfkofa og súrmetis.  Hvernig væri að átta sig á því.

Ég myndi hins vegar skilja pirringin ef konan væri á felgunni, rífandi kjaft í sleik við aðra þjóðhöfðingja og svona, halló, er í lagi á heimastöðvum?

Ég þekki ekki forsetafrúna (merkilegt mér er aldrei boðið í mat eða kaffi) en hún birtist mér sem hlý og manneskjuleg kona sem kann að hrífast með.  Ég held að Dorrit sé stemmingsmanneskja.

Þannig á fólk að vera.

Svo geta allir tréhestarnir hneggjað úti á túni bara.

Og látið sig dreyma um hallir, kónga og krínólín.

Frussss en til hamingju Ísland!

 


mbl.is Til hamingju Ísland!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli lólítu graðnaglinn

aaa 

Ég minntist á það um daginn að við hér á kærleiks hefðum horft á Stones-myndina Shine a Lihgt.

Mér fanns hún frábær.  Það er eitthvað svo ótrúlega sjarmerandi og æðislegt að horfa á kallana á sviði.  Þeir eru að verða betri og betri.

En..

Merkilegast var að fylgjast með glæsilegasta mannflaki í heimi, af því hann var brosandi eins og gamall afi, alltaf að beygja sig niður að áheyrendum og stundum gaf hann þeim eitt og annð.  Keith er ofurkrútt.

Og svo var það Wúddarinn, hann var edrú for crying out loud.

Rosalega var skrýtið að sjá manninn allsgáðan á sviði.  Í staðinn fyrir að vera eins og löngu dáinn indjáni á hugbreytandi sveppum, dettandi um allt, þá var hann í þetta skipti eins og gamall maður af sama kynstofni og að ofan sem hefur aldrei gert annað en að úða í sig lífrænu grænmeti og stunda sunnudagaskóla.  Til hamingju Ronnie.

En svo féll hann á frumsýningunni, fór á séns með stúlku sem vart er búin að missa mjólkurtennurnar.  Ronnie getur verið langafi þessa barns og gott betur.  En hvað um það hann hunskaðist í meðferð.

Elsku karlinn, hann segist ekki vita í hvorn fótinn hann eigi að stíga.  Elskar eiginkonu og barn sko barnið sem hann sefur hjá.

Ef ég gæti fengið tíu mínútur með gamla manninum þá myndi ég segja honum að líkurnar á að rússneska telpukornið sé í alvörunni ástfangin af honum séu stjarnfræðilega litlar.

Auðvitað gerast ævintýri af og til, en halló var Anne Nichole hrifin af sínum öldungi? 

Hvaða unglingur fellur fyrir tinandi gamalmenni eins og Ronnie bara vegna hans föngulega ytra byrðis og án tillits til innistæðna í bönkum? 

Annar skil ég svona karla.  Þeir eiga allt, geta alls staðar fengið óskir sínar uppfylltar.

Kannski er honum slétt sama hvort hún er að segja satt eða ekki.

Gamli lólítu graðnaglinn.

Fyrirgeifð á meðan ég..

dingla mér.


mbl.is Wood veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silfur, silfur, silfur, minn málmur ekki spurning

Ég ætlaði að sofa af mér leikinn - skemmst frá því að segja þá sat ég hér í spennu og taugaveiklun.

Þetta er smitandi fjári.

Fínt að fá silfur, mér fannst leikurinn bara svo höktandi, ekkert flæði.

En þrátt fyrir smá vonbrigði (annarra en mín sko, ég er kúl) þá er þetta frábært.

Það frábærasta er að nú er þetta íþróttabull búið í bili.

Og rauðir dagar fram að jólum allir uppurnir.

Næsti rauði dagur á almanakinu er aðfangadagur jóla.  Jájá, ekkert slugs börnin góð.

Ég held að það sé 121 dagur til jóla, ég fer að byrja undirbúning.

Mikið skelfing ætla ég að fara og leggja mig.

Heimurinn verður að vera án mín á meðan.

Ég er hrifnari af silfri persónulega, þannig að ég er ánægð.

Síjúsí.


mbl.is Ísland í 2. sæti á ÓL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með gigg í Vesturbænum

Þessa sumars verður minnst sem ferðasumarsins mikla hér á þessu heimili.

Og það án þess að farið hafi verið í eitt einasta alvöru ferðalag.

Ferðirnar eru á milli bæjarhluta ofkors en í því liggur öll þessi móbilisering.

Í síðasta mánuði vorum við á Leifsgötunni að passa íbúð og kött meðan Sara og fjölskylda voru í Sverige hjá tengdós.

Og nú er það Vesturbærinn.  Á mánudaginn ætlum við að flytja á ákveðna götu hvar við munum halda elsta barnabarninu honum Jökkla selskap á meðan móðir plús kærasti spássera um götur bæja og borga á Ítalíu.

Minn heittelskaði segir að við séum með gigg í Vesturbænum og mér finnst það vel til fundið að nota bransamál um verkefnið.

Mér finnst sko ekki leiðinlegt að vera á leiðinni í minn elskaða Vesturbæ, hvar ég dvaldist stóran hluta ævi minnar.

Mér líður hvergi betur í þessari borg.

Og svo er Jökull góður félagsskapur, lyktin er góð, útsýnið fallegt og lífið eitt eilífðar kertaljós.

Er hægt að biðja um meira?

Ég veit það ekki en ég er farin að útbúa giggið.

Síjúgæs.


Budda tæmd - "Say no more"

Ég var ekki búin að blogga um stórkostlega IKEA-ferð fjölskyldunnar í vikunni.

Helmingur okkar er ekki sérstaklega hrifinn af versluninni "þar sem heimilið á heima".

Sumar við tvær, Sara og ég eru hins vegar nokkuð hamingjusamar með sömu verslun.

Ég fór með miða, týndi honum en aldrei þessu vant mundi ég eftir að kaupa það sem hafði mótíverað ferðina. 

Og Hrafn Óli var með og þegar maður er 7 mánaða þá er IKEA-ferð "walk in the park".  Húsband sá um barn sem "talaði" hátt og skýrt dadada og sriggeliggelú alla leiðina í gegnum þessa endalausu verslun.

En auðvitað rataði hellingur ofan í körfuna sem ég hafði ekki haft grænan grun um að ég gæti ekki verið án fyrr en ég sá það.

En ég keypti gardínur og allskonar fyrirkomulög í búðinni hans Ingvars og kom hlaðin heim ansi mörgum þúsundköllum fátækari eins og lög gera ráð fyrir.

Ég ætla nefnilega ekki aftur í bráð.  Birgði mig upp af allskyns óþarfa.

Hvað er þetta með mig og búðir? 

Það er eins og að ferðast á milli landshluta gangandi að fara í gegnum þessa verslun.  Hún er stór, full af allskyns og það tekur orku.  Fleiri kílómetrar voru lagðir að baki þennan dag.

Svo var það vís kona sem sagði mér EFTIR að ég kom heim, að það væru til flýtileiðir.

Jájá, en ég keypti kerti.

Það eru akkúrat þau sem mig sárlega vantar núna þar sem ég vafinn inn í eitthvað IKEA-teppi, sjálfandi úr kulda.

Lífið gæti varla verið betra.  Þetta verður mín Menningarnótt og ég ræð tónlistinni.

Úje


mbl.is Tónlistin ómar á Menningarnótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"No bullshit" aldurinn

Ég held að það sé ekki vottur af hópsál í mér.  Hjarðeðli kannski, veit það ekki, sumir vilja meina það vegna minna fjölmörgu eiginmanna.

En..

Það viðurkennist hér með að ég fer ekki lengur á stórviðburði eins og það kallast.

En mér finnst vel skiljanlegt að aðrir hafi gaman, ég var þarna sjálf einu sinni.  Sá tími er bara liðinn.

Ég sé akkúrat ekkert sjarmerandi við 17. júní eða Menningarnótt, ljósanætur og hvað þetta nú heitir allt saman.  Ég elska hins vegar leikhús og listviðburði þar sem ég sjálf ræð ferðinni og er ekki meðal þúsunda.

Ég veit, það er skömm að þessu.

Ég var ekki svona, var alls staðar mætt í denn þar sem fleiri en þrír komu saman enda var það partý.

En eftir að ég komst á "no bullshit" aldurinn sem reiknast vera frá og með fjörtíuogeitthvað, þegar maður nennir ekki að aðlaga sig fjöldaskoðunum lengur, þá stræka ég á að gera svona hluti ef mig langar ekki til þess.

Varðandi "no bullshit" tímabilið þá er það öllu þægilegra og minna tímafrekt en þegar maður setti sig í stellingar og lét fólk komast upp með allan fjandann bara af því maður vildi vera alls staðar til lags.

Tíminn er allt í einu orðinn svo dýrmætur þannig að ég á það til að biðja fólk að koma sér beint að efninu þegar mig er farið að syfja óþægilega undir orðaflaumi um lítið sem ekkert.  Inngangar að erindum eru stórlega ofmetnir.

Ég er í því núna að vera sjálfri mér og þeim sem mér þykir vænt um til lags, í því felst mín hamingja.

Nú er ég í samskiptum við þá sem ég hef áhuga á, ég fer og skemmti mér þar sem mér finnst gleðina vera að finna, sem er nú yfirleitt ekki fjöldasamkomum. 

Þess vegna fer ég ekki á Menningarnótt, ofan í bæ á 17. júní nema ef barnabörnin biðja mig, og ég nenni ekki að standa í búllsjitt samræðum og samskiptum við þá sem ekkert gefa af sér.

Þessi aldur er "hipp og kúl" aldurinn, það er að renna upp fyrir mér núna.

Lífið er svo frábært og skemmtilegt.

Gull í sjónmáli - úje.

Péess: Hrönn hljóp Maraþonið - en komst hún í mark þetta dreifbýliskrútt - það er stóra spurningin.


mbl.is Breskur sigur í Reykjavíkurmaraþoni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband