Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Töfraskór og Rei, Rei

Þó þetta myndband fari eins og eldur í sinu um bloggheima, þá ætla ég samt að setja það hérna inn hjá mér líka, af því að ég er viss um að það bjargar deginum fyrir fleirum en mér.  Dásamlegt þegar fólk hefur húmor fyrir sjálfu sér og málefnunum. 

En hvar er Villi og hvar er Haukur?  Enginn húmor hjá strákunum.  Tja hver veit.

1

Annars er ég komin í verslunardraktina (hún er með gripörmum og sogblöðkum) því nú skal versla.  Hælaskórnir standa tilbúnir við útidyrnar, en þeir eru með bremsum, þannig að ekki er hægt að draga mig frá hillunum nema að ég vilji það sjálf.

Nú á að jólast í búðunum.

Gef skýrslu um inntektir á eftir.

Það er svo gaman að lifa í desembró.

FalalalalaSleeping

Úff datt út af í miðju lagi, er svo þreytt. 

Later my friends.

Úje


Hurðaskellir fautinn sá

Íslensku jólasveinarnir eru auðvitað bölvað pakk.

Það ætti öllum að vera ljóst.

Ef þeir væru til í alvörunni, sætu sumir þeirra inni "big time" enda má sjá að dómar fyrir matarstuld (hangilæri og lifrarpylsa þau nýlegustu), kalla á hörð viðbrögð dómskerfisinsWhistling

Kannski voru nýlega dæmdir matarþjófar, alvöru jólasveinar.

Hvað um það..

Hurðaskellir er verstur.

Þeir sem skella hurðum eru ekkert annað en ótýndir ofbeldismenn. 

Það er bara krúttlegt að lesa um kallinn, en hvernig haldið þið að það sé að búa með einum?

Allt árið.  Einhver kúgari sem fær raðf...... af að láta heyra í sér, gera öllum hverft við.

Ég kann svei mér þá, betur við Kóksveininn.  Hann er vel haldinn, drekkur bara kók og veður ekki inn á skítugum skónum. 

Flott að fá fólk inn strompmegin. 

Ég afneita hér með hinum íslensku durgum sem kallast jólasveinar.

Vil ekki sjá þá í mínum húsum.

Falalalalalala


Hverjir eru þeir?

Þessi frétt fór fram hjá mér í gær.  Kannski eins gott, því eins og heilsufarinu var háttað hefði ég sennilega fengið andateppu.

Ég vil vita hverjir þessir hundingjar og mannleysur eru sem ráða erlenda starfsmenn á 317 kr. á tímann.

Hversu langt er hægt að teygja sig í græðginni?

Ég á svo erfitt að sjá fyrir mér einhvern atvinnurekanda sem tekur upplýsta ákvörðun um að fá sér þræla, hýrudraga þá til þess að auðga sjálfan sig.  En auðvitað er eins gott að horfast í augu við það, skíthælarnir eru víða og nú í hinni margdásömuðu uppsveiflu virðist vera nóg af þeim.

Við, almenningur, eigum rétt á að vita hverjir það eru sem svona koma fram.  Við eigum ekki að þurfa að skipta við þrælahaldara. 

Svo skil ég ekki af hverju þessir menn missa ekki rekstrarleyfið umsvifalaust þegar þeir verða uppvísir að mannréttindabrotum.

Það á að slá fast og ákveðið á puttana á þrælahöldurunum.

Ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur þegar ég les um þetta, einn ganginn enn.

Mál að linni.


mbl.is Gert að vinna fyrir 317 kr. á tímann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað sagði ég ekki?

 

Nú, nú, passandi tímasetning á þessari frétt.  Ha?

Kona er ekki fyrr búin að láta taka viðtal við sig um eldhúsalkahólisma og drykkju bak við byrgða glugga, er þetta birtist.

Í fréttinni kemur ma fram:

"Ein af hverjum tíu sænskum konum á sextugsaldri drekka meira en hollt þykir. Sjö þúsund sænskar konur á sextugsaldri tóku þátt í könnun um heilbrigðismál með sérstakri áherslu á áfengisneyslu og geðheilsu þeirra. 

Tíunda hver kona sem tók þátt í könnuninni fer yfir hættumörk í áfengisdrykkju og jafnvel svokölluð fyllerísdrykkja er almenn meðal þessa aldurshóps kvenna."

Það er greinilega ekki bara á Íslandi sem fjöldi kvenna á miðjum aldri er að auka drykkju.

Mikið skelfing myndi ég vilja vita hvað veldur þessari aukningu?
Einhver?
Allt í einu rann upp fyrir mér það dimma ljós að ég muni sjálf vera á sextugsaldri, og búin að vera í nokkur árW00t
Er annars edrú, glöð og í góðum málum.Halo
Vona að það sé að ganga elskurnar mínarInLove 
Falalalalala

mbl.is Konur drekka hættulega mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og að vera slegin með kylfu í hausinn...

 

..eða þannig held ég að það sé þegar manni líður eins og mér núna.

Þessi dagur hefur verið jah.. ömurlegur.

Ástæða: Engin svo ég viti.

Suma daga fer ég hreinlega öfugt fram úr rúminu, eða réttara sagt suma daga ætti ég ekki að voga mér fram úr rúminu.  Þetta hefur verið svoleiðis dagur. 

Ástand: Hangandi haus niður á bringu.  Ógleði, hausverkur, beinverkir, suð fyrir eyrum og pirringur dauðans.

Ég var síst að skilja hvað væri í gangi.  Hélt hreinlega að ég hefði jólaóverdósað.

Var samt í þvottahúsi. Fórnarlambsdæs.

Reifst hástöfum (á kurteislegan og ískaldan máta) við tvö tölvufyrirtæki, eitt opinbert þjónustufyrirtæki, póstburðarmann og kjötkaupmann og þar sem ég var búin að ná mér á strik reifst ég við  húsband líka.  Ok, aftur, reifst við alla ofannefnda nema húsband.  Hann var ekki heima.

Var að hugsa um að flytja að heiman, í tjald uppi í Heiðmörk, liggja þar matar- og vatnslaus, fá lungnabólgu, verða lögð inn á slysadeild þar sem öll íslenska þjóðin myndi fylgjast með hægfara brottför minni úr þjáðum heimi, þegar mér datt í hug að stinga mæli í eyrnafjandann á mér.

Viti menn, 39,5 á Anders Celsius.  Allt annað líf.  Nú er ég komin með það skjalfest upp á vasann að ég á bágt, get hent mér undir teppi með tölvu og rifið stólpakjaft á blogginu.

Einhver til í fæting?

Segi sonna.

Falalalalala og ég í góðum málum.


Í sönnum jólaanda

 

Maður á Selfossi vaknaði við að allir jólapakkarnir til ástvinanna voru horfnir úr húsinu og ekkert merki var um innbrot.  Síðar kom í ljós að einhver nákominn húsráðandanum hafði tekið pakkana til að kenna honum lexíu, en hann hafði ekki læst húsinu.

Fólk eins og þessi maður þarf enga óvini.  Þessir "nákomni" sér alveg um þá deild og vel það.

Dásamlegt að fá svona hugmyndir fyrir jólin, svona til að kæta fólkið sitt.  Sannur jólaandi.

Vó hvað þetta yrði gert aðeins einu sinni við hana mig.

Ég skildi Möggu hans Þórbergs sem skammaði hann fyrir að koma lifandi heim, þegar hann gleymdi að láta vita af sér og lenti á kjaftatörn og hún var búin að láta auglýsa eftir þessu stórkrútti, sem alltaf var á dottinu annars.  Konunni var orðið heitt í hamsi...En

..ekki að Þórbergur og Magga eigi endilega heima hér í þessu samhengi en samt kom mér þetta í hug þegar ég las viðtengda frétt af vesalings manninum þarna í Þvagleggnum.  Hvernig sem nú stendur á því.

Borgararnir í Árborg láta verkin tala, engar innantómar hótanir - ónei! 

Falalalalala

Jólagjafir eru þó í húsi.

P.s. Ég gæti tekið Gretchinn (rándýra rarítetsgítar húsbands), falið hann fram að jólum, gert hann miður sín, látið hann tilkynna hvarf til löggu og gefið honum hann svo á aðfangadagskvöld.  Tammtarara!  Hann á nefnilega til að leggja hann full kæruleysislega frá sér, þessi elska.  Hann myndi þá passa hann betur, eða hvað?

Ég yrði elskuð, elskuð ofar öllu.

Farin í málið.

 


mbl.is Jólapakkarnir hurfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SÁÁ í jólaköttinn

Ég varpaði fram þessari spurningu hér og nú hef ég fengið henni svarað á bloggi Harðar Svavarssonar.

Þeir skáru niður framlög til SÁÁ svona rétt áður en þeir samþykktu fjárlögin.

Enginn alþingismaður lagði til hækkun á framlagi til SÁÁ. Tékk, tékk.

Það má segja að ég eigi hagsmuna að gæta í þessu máli og sé því hlutdræg, það er rétt, en ég á SÁÁ beinlínis líf mitt að launa, eins og þúsundir annarra Íslendinga.

Ég er líka með sykursýki þannig að ég get þá varla fjallað um Lansann öðruvísi en með dassi af hlutdrægni.

En um að gera að halda áfram að styrkja trúfélög sem taka að sér fólk til meðferðar.

Það hefur gefist svo stórkostlega vel.

Eins og ég hef bloggað um áður þá get ég kannski vænst þess að vera send í sykursýkismeðferð til Gunnars í Krossinum.  Kannski  geta hann og Guð, í góðri samvinnu við heilagan anda, þjófstartað brisinu í undirritaðri þannig að insúlínframleiðsla hefjist að nýju, með því að nota handayfirlagningu.

Ég held að það þurfi að hafa vakandi auga með því sem er að gerast í ráðuneyti heilbrigðismála.

Í botni með Drottni.

Og ekkert andskotans falalalala.


Þetta megið þið ekki blogga um krakkar mínir..

.. það er amk. ekki hægt að tengja við fréttina.

Grunur um nauðgun!

Grunur um innbrot?

Grunur um líkamsárás?

Grunur um árekstur?

Hvernig væri að fjölmiðlar hefðu eitthvað samræmi í fullyrðingunum eða fyrirvörunum, réttara sagt þegar fjallað er um árásir og önnur lögbrot.

En á maður ekki að vera þakklátur fyrir að Mogginn skuli hafa vit fyrir manni og ákveða í hvaða tilfellum má tengja frétt við blogg og hvenær ekki?

Ég er ekkert sérstaklega þakklát í dag.

Ónei.


Þetta átti að verða blogg um jólaseríur..

 

..en þær verða lítill hluti færslunnar, en ég verð, beinlínis verð að hreykja mér af afrekum mínum í seríudeildinni í dag.

Á hverju ári hendi ég jólaseríunum í eina bendu ofan í kassa.  Hef ekki þolinmæði til að rekja þær saman og rúlla upp á einhverjar fargings rúllur, eins og margar Meyjur gera.  Á hverju ári enda ég með að fleygja seríunum sem eru í feitum hnút og kaupa nýjar.  Jabb, veit það, algjört bruðl, skammastín og ég geri það.  En hér var skreytt jólatré og þar sem ég er svo bláedrú og stöðug á tauginni, þá rakti ég jólaseríurnar á tréð eins og stálmaðurinn sjálfur, blikkaði ekki auga, hreyfði ekki taug.  Ég lagði mikið til endurnýtingarmálanna í kvöld.

Jólatréð í stofu stendur lalalalalal!

En..

Ég veit ekki hvað er í gangi, það er allt að hrynja í kringum mig.  Sko hlutir, ekki fóllk.  Sjúkkitt.

Bílinn bilar annan hvorn dag.  Það er maður á bakvakt út af Benzanum, það er eitthvað í loftinu, ég sverða.

Tölvan krassaði.

Jólaljósið í stofuglugganum bilaði.

Hrærivélin brenndi úr sér og ég kveikti í pottalepp, okokok hann sviðnaði.  Kappíss?

Sennilega bilaði aldrei neitt hjá mér vegna þess að ég notaði ekkert af mínu stöffi.  Var of upptekin við annað.Whistling  Ætli það geti verið ástæðan?

Ætli það sé beinlínis ópraktískt að nota græjurnar sem maður safnar að sér?

Ég á tvö eggasjasuðutæki sem er cabout sá mest ónauðsynlegi hlutur sem ég hef enn rekist á, að gufugæjanum undanskildum.  Sorrí stelpur, þið takið þetta til ykkar sem eigið.Devil

Lausnin er að láta lítið fyrir sér fara og nú er ég farin að njóta jólatrésins áður en það verður lostið náttúruhamför.

Falalalala


Fín afþreying

 

Það er mikið spjallað um bækur í athugasemdakerfinu hér á síðunni minni og ég var búin að lofa því að blogga um bækurnar sem ég er að lesa.  Er búin að vera að lesa Jónínu Leós (blogga um það á morgun) og svo eyddi ég helginni í þykka og góða afrþreyingarbók.  Sú heitir "Undir yfirborðinu" og er eftir bandaíska metsöluhöfundinn Noru Roberts.  Roberts hefur skrifað grilljón skáldsögur eða eitthvað, en allar fara bækurnar hennar á toppinn.

Bókin er það sem hún er sögð vera, fín afrþreyingarbók sem inniheldur, morð, rán, ástir og dramatík.  Bókin bjargaði lífi mínu um helgina þar sem hér ríkti mikil spenna vegna mögulegrar fæðingar bróðurs Jennýjar Unu, sem síðan ákvað að kanselera hingaðkomunni um smá tíma.  Dæs.

Mæli með þessari bók með jólakonfektinu.

Falalalalala


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.