Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Sjónvarp

Ríki í ríkinu

Halldór Blöndal ásakar forsætisráðherra um einelti.

Mikið skelfing finnst mér það verndara Davíðs til minnkunar að grípa til þessarar lýsingar á eðlilegri kröfu forsætisráðherra sem er þarna að orða háværa kröfu meirihluta þjóðarinnar.

Það er ekkert óeðlilegt við að Seðlabankastjórarnir segi af sér.

Finnst öllum sem hugsa öðruvísi en á beinum flokksnótum.

Einelti er lýsing á skelfilegu ofbeldi sem beinist oftast að börnum og unglingum.

Mér finnst reyndar að þetta orð sé gróflega ofnotað í málinu og að það gengisfelli hina skelfilegu reynslu þeirra sem verða fyrir ofbeldinu.

Ríkisstjórnin gaf sig vegna þrýstings frá almenningi og með réttu.  Átti að gera það miklu fyrr.

En Seðlabankastjórarnir hopa hvergi.

Þeir eru eins og ríki í ríkinu. 

Svara ekki síma, tala ekki við nokkurn mann.

Í fleiri vikur hafa fréttamenn reynt að fá viðtal við Davíð Oddsson, á ögurstundu þjóðarinnar, en nei, maðurinn er ekki í stuði.

Svörtuloft virðast mér vera hin eiginlega valdastofnun í þessu þjóðfélagi.

Og eitthvað segir mér að það sé ekki nóg að reka Davíð úr vinnu.

Að um hann gildi aðrar reglur.

Svo er að bíða og sjá.


mbl.is Yfirlýsingar jaðra við einelti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögmál Murphys

Ef ekki væri fyrir nýja ríkisstjórn og ótrúlega frábæran og krúttlegan ráðherra menntamála, væri ég búin að leggjast fyrir með það að augnamiði að standa ekki upp aftur fyrr en í vor nú eða aldrei, svei mér þá.

Katrín Jakobsdóttir verður frábær menntamálaráðherra, ég fylgdist vel með henni í síðustu kosningabaráttu og þekking hennar á menntamálum er yfirgripsmikil og góð.

En aftur að mér.

Í dag berst ég við lögmál Murphys. 

Ég hlýt að hafa farið vitlausu megin fram úr í morgun nú eða þá að staða himintungla er svo langt í frá mér í hag.

Í stuttu máli sagt þá má þessi dagur renna sitt skeið á enda ekki seinna en strax.

Ég fer ekki út í smáatriði en þið kannist ábyggilega við svona daga.

Dagana þar sem ekkert gengur upp.

Dagana þar sem allt klúðrast sem klúðrast getur og rúmlega það.

Já, þetta er svoleiðis dagur.

Það er mér til bjargar að ég hef ágætis geðslag en nú um hádegið var ég að hugsa um að bera þetta upp við einhvern mér æðri, spyrja einhvern hvað ég hefði gert til að verðskulda þennan ömurlega dag.  Senda jafnvel hjálparbeiðni á viðkomandi.

Ég hætti við það, það er ekki til neins.

Af hverju?

Einfalt mál, það er enginn mér æðri.

Reyndar ekki lægri heldur.

Þannig að nú beiti ég æðruleysisbæninni, Nallanum og þjóðsöngnum fyrir mig alla leið.

En miðað við að vera í standi til að gera á mér andlega kviðristu..

er ég nokkuð góð bara.

Farin að horfa á fallegt sjónvarpsefni.

Sá svo tilfinningaríka auglýsingu um mýkingarefni sem ég ætla að orna mér við.


mbl.is Ógleymanlegur afmælisdagur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klikkaður forgangur!

Ég ætla rétt að vona að væntanlegur menntamálaráðherra og afmælisbarn dagsins, Katrín Jakobsdóttir, rétti af forganginn hjá RÚV, sem er ekki ríkisstofnun en samt ríkisstofnun, í bítið í fyrramálið og ekki mínútu seinna.

Ég átti ekki eitt einasta orð áðan þegar ég var að horfa á nýja ríkisstjórn í beinni frá Hótel Borg þegar hætt var að sýna í miðju kafi og bara skipt yfir í beina útsendingu frá handboltaleik! (Afgangur af blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar á að sýna í hléi!)

Halló, ef ég hef einhvern tímann séð klikkaða forgangsröðun þá er það þarna.

Ný ríkisstjórn á örlagatímum þegar allt er í kalda kolum víkur fyrir íþróttaleik!

En að því sögðu þá óska ég nýrri ríkisstjórn alls hins besta í erfiðum verkefnum komandi mánaða.

Frá jafnréttissjónarmiði, sem er líka mitt heitasta baráttumál, skorar þessi ríkisstjórn fullt hús á fyrsta degi.

Koma svo!


mbl.is Ísland er í sárum eftir nýfrjálshyggjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekta Silfur

Ég verð að óska okkur öllum til hamingju með nýja forsætisráðherrann.

Hvar sem fólk stendur í pólitík eru flestir sammála um að Jóhanna sé strangheiðarlegur stjórnmálamaður.

Svo sjáum við til hvernig til tekst hjá Rauðkunni.

En Silfrið brást ekki frekar en venjulega og á bráðskemmtilegum vettvangi dagsins var það hann Viðar sem kom sá og sigraði vegna þess að hugmyndafræðin hans á alla leið upp á pallborð hér á kærleiks.

Mergur máls er nefnilega að mannfjandsamlegt stjórnarfar sem nú hefur hrunið ofan í hausinn á heiminum snýst ekki bara um peninga.

Það snýst líka um viðhorf til stríðs, svo ég taki dæmi.

Annað dæmi er um afstöðu til náttúruauðlindanna.

Ég er sammála Viðari með að það dugir lítið að setja nokkrar konur hér, einhverja úr grasrót þar til að ná fram róttækum breytingum á samfélagsgrunngildunum.

Hér þarf grundvallar byltingu á hugsunarhætti.

Þeir sem trúa á ofurmátt fjármagnsins eru þeir sem vilja virkja alls staðar sem því verður við komið.

Það eru þeir sem aðhyllast nýfrjálshyggjuna sem gjarnan vilja byggja eiturspúandi stóriðjuver á kostnað komandi kynslóða.  Skammtímagróðinn er þar primus motor.

Og það eru þeir sem trúa á mátt fjármagnsins sem tala fyrir stríði.

Það heitir að fara í stríð til að bjarga einhverjum x-hópi fólks á kostnað annars hóps.

Nú eða vegna trúarbragða.

En hin raunverulega ástæða er hergagnaframleiðsla og landtaka.

Já, mér datt þetta bara svona í hug.

Svo bíð ég spennt eftir sjónkanum kl. 16,00

Jabb, ég geri það.

Ekta Silfur dagsins


mbl.is Jóhönnustjórnin tekur við undir kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með eða á móti?

Þeir funda..

og funda

og funda meir.

Rosalega hlýtur að vera erfitt að verja bráðabirgðastjórn falli í nokkra mánuði.

Hefur örugglega með tóma ábyrgð að gera, já nú man ég það heitir að vanda sig.

Ekkert með að vera stöðugt í sviðsljósinu.

Nehei sko!

Annars kann ég Framsókn engar sérstakar þakkir fyrir að viðhalda vanlíðan og stressi hjá almenningi sem vill fara að sjá hlutina gerast.

Nú eða ekki gerast.

Þetta virðist vera hallærislegt leikrit eða spuni sem leikinn er af fingrum fram.

Út með það börnin góð.

Eruð þið með eða á móti?

Kannski sitt lítið af hvoru?


mbl.is Framsókn fundar að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kom, sá og gjörtapaði

Það er ekki oft sem maður fær tækifæri til að sjá viðbrögð Sjálfstæðisflokks þegar hann verður af völdunum.

Reyndar ættu fræðingar af öllum tegundum um mannlegt eðli að hanga á húni Vallhallar þessa dagana og fylgjast með fyrirbrigðinu "fúll Sjálfstæðismaður".

Þeir eru eins og umskiptingar eftir stjórnarslitin.

Þeir segjast sjálfir vera fúlir, sem er auðvitað kurteist orðalag yfir bandbrímandibrjálaðir.

Samfylkingin hefur tekið frá þeim það sem þeir telja sig réttborna til - að stjórna íslenskum lýð.

Í viðtölum við Þorgerði Katrínu á báðum stöðvum í gær var hún ekki að skafa utan af því.

En Ragnheiður Elín í Kastljósinu í gær kom sá og gjörtapaði - konan var bitur.  B-i-t-u-r!

Það krúttlegasta og jafnframt besti vittnisburðurinn um veruleikafirringu íhaldsins sést best í "áhyggjum" þeirra af mögulegu klúðri nýrra ráðherra á fjármálum þjóðarinnar.

Hverjir hafa haft ábyrgðina á fjármálum íslenska ríkisins s.l. 15 ár eða lengur?

Nú nema hvað, hinir réttbornu.

Miðað við hvernig fyrir okkur er komið þá er það æði skondið að þeir skuli trúa því að það séu skelfileg örlög íslenskrar þjóðar að missa þau úr peningamálunum.

Það er til eitthvað sem heitir að horfast í augu við raunveruleikann.

Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að drífa í því.

Ragnheiður Elín í Kastljósi gærkvöldsins.

 


mbl.is „Ótrúlega ómerkilegt“ af Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki tala maður!

Eftir að hafa séð Kastljósið Sigurður Einarsson, kvartandi um atlögur að íslensku bankakerfi, hef ég aðeins eitt við þig að segja og það er stutt og laggott.

Hættu að tala maður og steinþegiðu!

Kappíss?


mbl.is Atlaga felldi íslenska kerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið sigraði

Þar sem ég sat yfir fréttum og Kastljósi sló það mig fast í höfuðið og tók síðan beina stefnu í hjartað og gerði það að verkum að ég fór að grenja úr gleði.

Þetta það var að ég áttaði mig á því sem hefur raunverulega gerst á Íslandi og hvers vegna.

Að í dag hafði fólkið,  við mótmælendur sigur, í hvaða formi sem við lögðum hald á plóginn.

Það eru svo langar í mér leiðslurnar að þessi dásamlegu tíðindi voru að renna í gegnum fattarann fyrst núna.

Þessi hryllilega ríkisstjórn er fallin.

Það verða kosningar í vor.

Á meðan verður farið í helstu mál eins og björgunaraðgerðir fyrir heimilin í landinu.

Stjórnlagaþing (ætla ég rétt að vona).

Þessi dagur verður ávallt í minnum hafður.

Í dag varð lýðræðið alvöru á Íslandi.

Fólkið hafði sigur!

Eruð þið búin að ná þessu?


mbl.is Ný ríkisstjórn í kortunum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Pros and cons"

Stjórnmálamenn verða að geta staðið í lappirnar og stillt sig um að hlaupa í sífellu eftir almenningsálitinu.

Það er auðvitað kostur.

Sparsemi er líka kostur í fari fólks.

En þegar sparsemin verður níska þá snýst hún upp í martröð og verður óþolandi löstur og nískupúkinn verður að læra á jöfnum hraða að venjast því að vera aleinn í heiminum,  nema auðvitað að hann eigi einhverja að sem sjá skyldu sína í að hanga yfir honum þrátt fyrir þennan óþolandi galla í veikri von um að erfa kvikindið.

Sama er með festuna.  Flottur eiginleiki.  Láta ekki henda sér til og frá í áhrifagirni og popúlisma.

En eins og með sparsemina getur festan í fari stjórnmálamannsins snúist upp í hreina þrjósku og vangetu til að meta stöðuna rétt.

Svona upplifi ég Geir þessa dagana.  Festan er orðin að griplími sem hreyfir ekkert í kringum manninn sem b.t.w. var krúttlegur í sínum frjálslega klæðaburði í dag bindið var í pössun og fráhneppt í hálsakoti, alveg ótrúlegt kæruleysi.

Geir passaðu þig að verða ekki of hippalegur í klæðaburði.

Mér finnst Geir alveg algjörlega laus við næmni þegar kemur að því að meta stöðuna.

Honum finnst ósanngjarnt að Björgvin ÞURFI að segja af sér, þeir hafa verið í svo góðum fíling í ríkisstjórninni.

Þrátt fyrir ákall um brottvikningu Davíðs sé búið að hljóma síðan í haust, ekki bara á Íslandi heldur víða um heim, þá daufheyrist Geir.  Hann ætlar ekki að láta róta sér eitt né neitt.

Það sem ég er að velta fyrir mér þessa stundina er hvort þrjóskan í Geir varðandi breytingar verði til þess að stjórnin springur?

Ef svo er þakka ég honum alveg kærlega fyrir þennan eiginleika og set viðkomandi löst í jákvæðnidálkinn þar sem hann mun þá losa íslenska þjóð undan stjórn sem er að ganga af okkur dauðum hér á skerinu.

Farin.


mbl.is Geir: Má ekki missa dampinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hata friggings Júróvisjón

Stundum gef ég sjálfri mér gjafir.

Hreinlega af því að ég kann svo vel við mig og vill mér allt hið besta.

Ég hef nú þegar gefið mér eina í sluffupakka. 

Ég er helvíti ánægð með hana.

Ég gaf mér frið frá Júróvisjón, sem ég hef glápt á í sjálfskipuðum kvalarlosta og látið bæði lög og flytjendur fara endalaust í taugarnar á mér.

Ég hef rifið hár mitt og neglur upp með rótum, handskrúfað af mér hlustirnar og ég hef grátið með þungum ekka þess sem elskar að misbjóða sjálfum sér.

Hef ég sagt ykkur að ég hata Júróvisjón?

Já, örugglega, en ég geri það aftur til öryggis.

Ég hata friggings Júróvisjón!

Nú sé ég að fólk er að diskútera lögin, hvað komst áfram og hvað situr eftir.

Tilhugsunin um þöggunartakkann á sjónvarpinu hitar mig alla upp að innan af einskæru þakklæti fyrir framfarir í víralausum heimi.

Þetta gerir það að verkum að ég mun ekki hæf í samræður á vori komanda.

Það er í góðu, en munið þið hvað gerðist fyrir tæpum tveimur árum?

Þ. 12. maí nánar tiltekið?

Jú við kusum til Alþingis sællar minningar OG Júróvisjónkeppnin var sama dag.

Þá eins og oftar þakkaði ég bæði Óðni og Frey fyrir þann nýjasta af mínum fjölmörgu eiginmönnum.

Honum er nefnilega í nöp við fyrirbærið líka og þess vegna var það kosningasjónvarpið alla leið, hjá okkur blúshundunum.

Segið mér ekki að kosningarnar sem mögulega verða sennilega 9. maí beri upp á hlustunarfæramisþyrmingu einu sinni enn!

Plís róið mig.

Farin að hlusta á blús.

Ég flokka þessa færslu undir menningu og listir.

Sem er ekkert annað en brenglun af verstu sort.

But what can I say - I´m a rebel.

 


mbl.is Kántrí og stelpurokk áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 2987751

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.