Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Sjónvarp

Sjálfsmorðsþema Stöðvar 2

Lengi vel vildi ég ekki trúa því að þöggun hjá fjölmiðlum gæti verið til staðar.

Mér fannst það svo ótrúlegt að slíkt gæti verið í opnu lýðræðisþjóðfélagi.  Hér á landi þurfum við ekki að hræðast neitt eða neinn!

(Hér tek ég mér andartaks hlé á meðan ég næ úr mér aulahrollinum vegna einfeldninnar sem ég greinilega hef þjáðs af, úff).

Það hlýtur að teljast nokkuð fréttnæmt þegar Sigmundur Ernir og kona hans Elín Sveinsdóttir, ásamt Kompásmönnum sem eru með margverðlaunaðan fréttaþátt er sagt upp - á einu og sama brettinu.

Ég og allir sem ég haf talað við hafa verið gapandi hissa á þessu, okkur hefur fundist sjálfsmorðsþema Stöðvar 2 vera tekið ansi langt með þessum gjörningum.

Í fréttum Stöðvar 2 var ekki minnst einu orði á brottreksturinn.

Ekki minnst einu orði á að fólkið hafi verið látið fara vegna endurskipulagningar sem er hin opinbera útskýring kjánanna á stöðinni.

Hins vegar var búið að eyða út bloggi Sigmundar Ernis.  Það var búið að klippa hann út úr mynd sem birtist fyrir fréttir af SE, Eddu og Loga.

Alveg þessi: Hér er Sigmundur Ernir og hviss bang, Sigmundur Ernir týndur.

Flytja fréttastöðvar ekki fréttir ef þær gerast á eigin heimili?

Get ég þá reiknað með að héðan í frá verði ekki minnst einu orði á neitt sem viðkemur starfsfólki Stöðvar 2?

Ég persónulega og prívat er hætt að horfa á fréttirnar á þessari þykjustu stöð sem greinilega vill ekki láta taka sig alvarlega.

Ísland í dag er brandari ársins.  Þar eru framleiddar helgimyndir af þóknanlegum stjórnmálamönnum og auðjöfrum.

Nú eru fréttirnar úti fyrir minn part líka.

Ég kóa ekki með þessum bjánum þarna.

Svo dauðvorkenni ég því ágætis fólki sem enn starfar á Stöðinni því þeir eru þó nokkuð margir.

Ömurlegt að þurfa að mega bara fjalla um sumt en ekki annað.

Og Ari Edwald?

Eigum við eitthvað að tjá okkur um hann?

Held ekki.

 


Góður hárdagur og sannfæring fyrir róða?

So far so good gæti ég sagt vegna þessara orða ISG.

Hún vill kosningar í vor og allt kemur til greina.

En það er eitt (af mörgu reyndar) sem er að bögglast fyrir brjóstinu á mér.

Ég sá t.d. Steinunni Valdísi í Kastljósinu í gær þar sem hún talar um að það verði að kjósa, verði að hlusta á fólk en svo endar hún mál sitt á því að hún muni samt hlýða forystu Samfylkingarinnar í þessu máli.

Ergo: Steinunn vill kosningar og telur stjórnina ekki á vetur setjandi EN hún ætlar að fara að vilja flokksforustunnar sem þýðir þá væntanlega að hún lætur sig hafa það verði niðurstaða hennar önnur en endregin afstaða Reykjavíkurfélags Samfylkingarinnar um hið gagnstæða.

Það er talað um það á tyllidögum að þingmenn eigi fyrst og fremst að fara eftir sannfæringu sinni.

Aldrei hefur verið ljósara en núna að það er vilji formanns og forystu sem ræður, sannfæringin er hliðarbúgrein.

Mér sýnist sem Geir og ISG hangi á samstarfinu og muni reyna að gera það fram að kosningum í vor.

Hvað með vilja þjóðarinnar ISG?

Hvað með vilja þingmanna flokksins?

Í nýrri skoðanakönnun kemur fram að stór hluti þjóðarinnar treystir ekki stjórninni.

Það þurfti svo sem ekki skoðanakönnun til.

Á að halda áfram að líta fram hjá vilja fólksins og horfast í augu við getuleysi núverandi stjórnar til að taka á vandanum?

Ég auglýsi hér með eftir stjórnarþingmönnum sem eru til í að setja sannfæringu sína í fyrsta sæti en láta flokksforustuna á hliðarlínuna, þar sem hún á heima.

Annars er ég góð sko.

Vaknaði upp í morgun og sá að enn einn góður hárdagur var runninn upp.

Jess.

Viðtalið við þingmenn í Kastljósi


mbl.is „Allt kemur til greina"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

..ef stjórnin springur í beinni

Ég er að horfa á umræðurnar á Alþingi.

Ladídadída, og ég skrúfaði niður í Geir og svo aftur í Þorgerði Katrínu þegar ég heyrði að hún söng sama gamla sönginn.

Skilur almenning svo vel, kjósa seint á þessu ári og alls ekki tefja björgunaraðgerðirnar sem hafa farið fram hjá öllum sem ég þekki.

Fram hjá öllum segi ég nema þeim sem þykjast vera á kafi í þeim.

En..

ég mun að ég held aldrei kjósa Framsókn, það þyrfti að minnsta kosti mikið að gerast til þess.

En mikið rosalega er ég ánægð með stelpurnar Helgu Sigrún og Eygló Harðardóttur.

Það er ástæða til að óska Framsóknarflokknum til hamingju með þessar konur og svo endurnýjunina almennt svo langt sem hún nær.

En ég held áfram á alþingisvaktinni.

Læt ykkur vita hvað gerist, sko ef stjórnin springur í beinni eða eitthvað.


mbl.is Ekki hjá því komist að kjósa á þessu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfseyðing Stöðvar 2

Auðjöfrastöðin nr. 2 er greinilega að vinna í því allan sólarhringinn að eyða sjálfri sér.

Fyrst fór Sölvi Tryggvason, frábær fréttmaður sem varð þess valdandi að ég nennti að horfa á Ísland í dag.

Síðan hann var rekinn er Ísland í dag einn stór og feitur brandari.  Það er hlegið meira af glystvíburunum Sindra og Sigrúnu en ríkisstjórninni og er þá mikið sagt.

Nú er Sigmundur rekinn og konan hans líka sem verið hefur útsendingarstjóri á Stöð 2 frá 1986.

Þeir eru ekki upprifnir yfir reynslu starfsfólksins þarna ríku karlarnir.

Ég varð óneitanlega fyrir vonbrigðum með Sigmund Erni í Kryddsíldarhavaríinu á gamlárs en annars hefur mér fundist hann fínn.

Ætli það verði honum ekki til bjargar að losna undan bévuðum ríkisbubbunum sem ætla að reka fréttastofu sem er ritskoðuð frá A-Ö?

Mig langar eiginlega að óska þeim hjónum til hamingju með að vera laus undan oki auðjöfrana sem nota fjölmiðilinn sem PR-stofu til að réttlæta ömurlega tilvist sína.

En það er alltaf sorglegt þegar fólk er rekið úr vinnu og það fyrirvaralaust.

Ég vona að fólk taki sig saman og segi upp áskrift á þessari subbustöð sem þar sem hlutdrægni og ritskoðun er að verða aðalmarkmiðið.

Oj bara.


mbl.is Frjáls undan oki auðjöfra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú loga eldar

Ofsalega fannst mér vont að horfa og hlusta á Geir Haarde í Kastljósinu áðan.

Hálf sjokkerandi að horfa upp á manninn í þessari bullandi afneitun á ástandinu.

Enn meira sjokkerandi er að átta sig á því að hann virðist trúa því að engum nema Sjálfstæðisflokknum sé treystandi til að leiða okkur út úr ógöngunum.

Svei mér ég vissi ekki hvort ég ætti að gráta hástöfum eða hlæja móðursýkislega.

Ég sá hann líka hjá Sindra í Íslandi í dag.  Sama afneitun í gangi þar, sömu svörin, sömu klisjurnar.

En sko Sindra hann stóð sig með prýði.

Hlýtur að hafa verið tilbreyting fyrir strákinn að fá að takast á við alvöru verkefni.

Sindri - ekki segja mér að það sé ný glansmynd á ferðinni.

Þá hendi ég afruglaranum í vegginn. 

Ég slít vinskap við alla vini mína í Hlíðarhverfinu og tölustafurinn tveir verður afmáður úr heimilisbókhaldinu.

Kapíss?

En að alvörunni aftur.

Tilhugsunin um afneitun forsætisráðherrans er ógnvekjandi.

Allt að því martraðarkennd.

Því á meðan hann þrjóskast við sökkvum við dýpra og dýpra í kreppufenið.

Annars finn ég á mér að þetta er að verða búið.

Jafnvel strax í fyrramálið.

Vonandi kemur áttunin hjá manninum áður en það sýður endanlega uppúr meðal almennings og slys verða á fólki.

Ég ætla rétt að vona það.

Það loga núna eldar við Þjóðleikhúsið og fánar hafa verið dregnir að húni.
Hvað sem það nú þýðir.


mbl.is Ekkert mælir gegn því að kjósa næsta vetur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilið endilega á fiðlu meðan Reykjavík brennur!

Dagurinn í gær verður lesinn fyrir próf í sögubókum framtíðarinnar.

Eftir að ég kom heim af Austurvelli lá ég í fréttamiðlum til að fylgjast með atburðarásinni.

Mogginn stóð sig frábærlega og sjónvarpið gerði mótmælunum góð skil, fréttastofa RÚV sýndi beint frá þinghúsinu.

Kastljósið tók gullið aftur að þessu sinni.

Ég beið með öndina í hálsinum eftir fréttum.  Ég horfði á Stöð 2 og þeir afgreiddu mótmælin á mettíma, enda enn í fýlu út í mótmælendur eftir Kryddsíldina.

Nú hlýtur glysgengið í Íslandi í dag að taka sig alvarlega og fjalla um atburði dagsins, hugsaði ég vongóð, en ég er hætt að horfa á Ísland í dag vegna andúðar minnar á glansmyndum af mógúlum, heilsuræktarumfjöllunum og almennu kjaftæði um ekkert.  Ætlaði að endurskoða afstöðu mína og gefa þeim séns.  Engum er alls varnað.

Nei, nei, á ekki að skjóta mann í ennið bara?  Nú var nærmynd af Bjarna Ben djúníor.  Ekki seinna vænna, maðurinn háaldraður og áhugi á þingmanninum sem kannski verður ráðherra bráðum eða seinna í sögulegu hámarki.

Ísland í dag þ.e. fólkið veinaði af löngun eftir þessari nærmynd.  Loksins kom hún og það ekki degi of seint.

Nú veit ég; Að Bjarni á það til að fara í annarra manna nærbuxur.

Að Bjarni er athyglissjúkur en er samt alveg skemmtilegur sko.

Að hann kann ógeðslega margt og það sem hann ekki kann er að hann að læra, eins og á píanó.

Bjarni syngur á morgnanna og er latur á heimili.

Hann fæddist EKKI með silfurskeið í munni, eða hefur alltaf haft fyrir öllu alveg sjálfur þrátt fyrir að hafa fæðst með silfurborðbúnað fyrir 12 milli varanna, segir konan hans eða eitthvað í þá veruna.

Niðurstaða Íslands í dag eftir heví rannsóknarvinnu: Bjarni er krútt.

Það er eitthvað sjúklega snúið og móðursýkislega firrt við að hafa þetta "ekkert að gerast - tjillum og verum glöð" í magasínþætti þegar miðborgin logar í byltingu og sögulegir hlutir eru að gerast.

Ég held að þeir ættu að leggja niður þennan vesæla þátt á Stöð 2 og sýna Gossip girl í staðinn.

Spilið endilega á fiðlu meðan Reykjavík brennur!

Nærmyndin af krúsídúllu.


mbl.is Mótmæli fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bið að heilsa jólasveininum og kysstu á mér rassinn"

Til hamingju formaður Framsóknar.

Ég er kurteis og ég kann mig.

Óska honum velfarnaðar.

En ég var að pæla í því þegar ég sá viðtalið við Björn Bjarna hjá Agli og umfjöllum um Framsókn í sjónvarpinu, fréttir af meikóverinu hjá Samfó sem er að fara í fundaherferð, að allt þetta fólk í stjórnmálaflokkunum er ekki búið að ná því sem almenningur er með á hreinu.

En það er að heimurinn snýst ekki í kringum flokkinn og þeir eru enginn djöfulsins nafli alheimsins.

Flokkurinn þvælist heldur ekki neitt sérstaklega fyrir fólki svona almennt séð held ég, vel flestir eru búnir að átta sig á að það mun þurfa meira til en meikóver hér, nýjan mann þar og loforð hist og her til að fullnægja þörf þessarar þjóðar fyrir réttlátu og gegnsæju þjóðfélagi.

Auðvitað er enn fólk sem hangir á sínum flokk eins og hundar á roði og ég skil það alveg upp að vissu marki.

Fjórflokkarnir (eða fimmflokkarnir) hafa verið í boði svo lengi sem við munum.

Fjarvera frá kjörstað nú eða auð atkvæði hafa ekkert að segja.

Auð atkvæði eru talin með ógildum sem lýsir auðvitað hugarfarinu sem við búum við.

Þegar ég skila auðu þá er ég að greiða atkvæði.

Þegar ég skrifa ¨Bið að heilsa jólasveininum og kysstu á mér rassinn" þá er ég að eyðileggja kjörseðilinn.

Ég ætla ekkert að vera leiðinleg og með úrtölur út af nýjum formanni í Framsókn.  Hann er örugglega alveg ágætur og hann virðist ósköp viðkunnanlegur maður.

En það er bara ekki málið.

Nú á landsfundur Sjálfstæðisflokksins eftir að beita mann fjölmiðlaofbeldi eftir hálfan mánuð, þeir eru vissir um að allir bíði með önd í háls eftir niðurstöðunni.

Rólegir, mér er sama, svo mörgum er sama.

Við viljum nýtt Ísland en ekki sama graut í sömu skörðóttu skálinni.

Ajö.


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja Ísland?

jakkaföt

Nýja Ísland?

Karlar á miðjum aldri í jakkafötum?

Kunnið þið annan Framsóknarmenn?

Breytingar hvað?


mbl.is Svara spurningaflóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið mannlega Vörutorg á Stöð 2

Nei sko, hugsaði ég þegar ég sá þetta.

Ari Edwald biður fórnarlamb nauðgana afsökunar.

Auðvitað kom ekkert annað til greina en að biðjast afsökunar á þessum vægast sagt ósmekklega samanburði Ara á líðan þolenda nauðgana annars vegar og starfsmönnum Stöðvar 2 fólksins sem mér skilst að sé samt óvenju viðkvæmt og ég dreg það ekki í efa.  Sumt af þolendum "ofbeldisins" við Borgina mun t.d. ekki hafa þolað við á Þrettándabrennum vegna ótta við blys eftir gamlársdagstrámað.

En Ari er maður að meiri, flott hjá honum að biðjast afsökunar. 

Það er sjaldgæft á Íslandi dagsins.

Annars dauðvorkenni ég fólkinu á Stöð 2 sem vinnur við Ísland í dag, bara svo ég nefni dæmi.

Það hlýtur að vera ömurlegt að hafa metnað og þurfa svo að starfa á mannlegu Vörutorgi.

Ísland í dag var að ég held ætlaður sem þáttur um efni líðandi stundar, bæði pólitík, menningu og því um líkt, ekki ósvipað Kastljósinu.

Núna er Íslandið orðið auglýsingaþáttur fyrir eigendurna og þeirra vini.

Þvílíkur bömmer sem það hlýtur að vera að  þurfa að standa í svona yfirmannatotti.

Í gær sá ég auglýsta umfjöllun Íslands í dag í gærkvöldi þar sem fjalla átti um tilboðsverði á Iceland Express flugmiðum.  Halló!

Einn daginn sá ég lofgjörð um Samskipamanninn og við fengum að vita hvað hann var mikill peningasafnandi dúllurass strax í æsku.  Við fengum að heyra fjölskyldu og vini mæra hann upp að því marki að þetta varð að svokallaðri lifandi minningargrein.

Plís hlífið oss.

Í kvöld var viðtal við viðfangið í þætti kvöldsins á einhverri sportrásinni.  Auglýsingin var spennandi.  Lúxuslifnaður íþróttamanna í útlöndum.  Viðtal við Loga í Íslandi í dag, þá væntanlega um þáttinn í kvöld sem fjallar um hann sjálfan.

Þið munið svo brjóstastækkunardæmið, Worldklassið.  Auglýsingar hvað?

Ég hef ekki tíma til að taka fleiri dæmi, en þetta er grátlegt að horfa upp á, sérstaklega núna þegar almenningar kallar eftir upplýsingum og hlutirnir gerast með ógnarhraða.  Ef einhvern tímann hefur verið þörf fyrir góða magasínþætti þá er það núna.

Kastljós toppar sig kvöld eftir kvöld og það ber að þakka. 

Sáuð þið Kastljósið í kvöld?

Einn eitt spillingarmálið að koma í ljós, nú hjá Gæslunni.

En það er efni í aðra færslu.

Sjitt


Gengisfelling á orðinu nauðgun

 Ari Edwald kann ekki að meta tilboð þriggja mótmælanda að safna fyrir útlögðum kostnaði vegna mótmælanna sem urðu til þess að Kryddsíldin hans Sigmundar Ernis var rofin.

Ara grunar að þetta sé einhvers konar hótfyndni og reiknar ekki með að þiggja söfnunarféð.

Ari er enn í uppúrveltingi vegna atviksins á gamlársdag. 

Hann hefur yfirdramatíserað atburðinn oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í fréttum.

Hann virðist ætla að mjólka atvikið til síðasta dropa.  Harmur hans hrópar í himininn.

Ari getur greinilega ekki lagt þetta til hliðar og haldið áfram að næsta máli á dagskrá.  Hann grætur enn eins og barn sem hefur týnt snuddunni sinni.

Ari á líka heiðurinn að því að vera sá eini sem undir nafni (í mynd og allt) hefur hvatt lögregluna til að taka fastar á "glæpamönnunum" og á hann þá við mótmælendurna offkors.

Ástæðan fyrir því að ég nenni að blogga um þetta tuð í Ara er einföld.

Hann fór gjörsamlega og ófyrirgefanlega yfir markið í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag.

Ari óar og æjar vegna andlegs tráma starfsmanna sinna og líkir áföllum þeirra sem lentu í átökunum við Borgina við þolendur annarra ofbeldisbrota eins og nauðgana.

Hefur Ari kynnt sér það áfall sem nauðgun er?

Að þolendur þeirra verða aldrei samir aftur?

Að nauðgun er innan sama refsiramma og mannsmorð? 

Hefur hann velt því fyrir sér hvers vegna hægt er að dæma menn í allt að 16 ára fangelsi fyrir nauðgun?

Allt þetta efni er aðgengilegt.

Ég bendi Ara á að hafa samband við Stígamót og fá þessar bráðnauðsynlegu upplýsingar frá þeim sem best vit hafa á líðan þolenda nauðgana.

Áður en hann gengisfellir aftur orðið nauðgun sem lýsir einum af skelfilegustu ofbeldisglæpum sem hægt er að fremja.

Ég myndi segja upp Stöð 2 í annað skiptið núna á skömmum tíma hefði ég ekki asnast til þess fyrr í haust af sparnaðarástæðum.

Ari Edwald nú er komið að þér að biðja þolendur kynferðisofbeldi afsökunar og meina það.

Sjá hér


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 2987751

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband