Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ferðalög

Ég held að ég láti leggja mig inn!

 skólataska

Ég nenni ekki að vera í fári vegna ástandsins á Íslandi.

Amk. tek ég mér frí frá því til klukkan 14,32 og verð í góðu skapi þangað til.

Svo brjálast ég.

En.. Ég er að verða gömul, nú eða þá að lyktarskyn mitt hefur bilað í bankahruninu.

Ég er ofsótt af allskyns lykt sem tengir mig við atburði í lífi mínu, suma skemmtilega, aðra síðri.

Ég fæ reglulega lyktarkast sem tengir mig inn á spítalann á Spáni þar sem ég lá nánast milli heims og helju fyrir nokkrum árum.

Hún er svona: Ólívuolíumatarlykt, sótthreinsiefni, blönduð líkamslykt og blómaangan.

Oj.

Svo fæ ég reglulega lyktrænar heimsóknir frá bernsku minni.

Ég seldi stundum Mánudagsblaðið (þann sorasnepil) á laugardögum.

Þá voru allir, svei mér þá, að bóna í Vesturbænum.   Húsmæður hljóta að hafa haft sameiginlega stundarskrá, ég sverða.  Lyktin af Mjallar og Sjafnarbóni er yfirgengilega sterk.  Það er ljúft.

"Ekki vaða yfir nýbónað gólfið krakki"; hljómaði um göturnar þegar ég tróð mér inn til að selja.

Það var meira framboð en eftirspurn á smáfólki á þessum tímum og því ekki verið að vanda sig neitt sérstaklega í samskiptum við þessi kvikindi.

Ég seldi merki fyrir allskonar líknarfélög og það var gert á sunnudögum.

Þá voru allir (sama stundarskrá aftur) að steikja sunnudagsverð fyrir hádegi.

Hryggur, grænar, rauðkál og sósa.

Halló hvað þessi óholli málsverður lyktaði vel.

Stundum finn ég lykt af vori og sumri úr Vesturbænum (það var allt öðru vísi þar en annars staðar), sú lykt er milljónsinnum betri en árstíðalyktin í dag.

Ætli það komi ekki til af hreinni náttúru, ómenguðu grasi og minni bílaumferð?

Æi, ég veit það ekki, en núna hellist yfir mig lyktin af nýrri skólatösku, brakandi leðurlykt.

Andskotans ófriður er þetta.

Ég held að ég láti leggja mig inn.

P.s. Popplyktin úr Tjarnarbíó getur komið þegar minnst varir.

Síðasti bærinn í dalnum og allur sá ballett.

Ómæ.


Idjóta Capital og Hálfvita Group

marteinn frændi

Ari tekur við Landsvaka.

Hörður kemur til Sjóvá, Þór tekur hins vegar pokann sinn þar.

Tryggvi fer til Saga Capital.

Marteinn frændi fer til læknis.

Einar með bílinn í skoðun.

Só?

Ég er engu nær, þekki ekki þessa menn sem fá um sig "fréttir" í blöðin í hvert skipti þegar þeir stökkva út eða inn.

Bíð alveg eftir: Guðríður ræstitæknir hættir hjá Idjóta Capital og hefur störf á mánudaginn hjá Hálfvita Group.

Meira kjaftæðið.

Eina sem ég veit fyrir víst að Gunnar í Kópavogi og Gunnar á Selfossi eru í djúpum skít.

Af mér er það að frétta að ég er í sólbaði, eða væri ef sólin skini og ég nennti.

03_sunbathing

Og hana nú.

 


mbl.is Ari tekur við Landsvaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svari hver fyrir sig

Mikil viðskipti hafa verið hjá vændiskonum í Kaupmannahöfn í Danmörku undanfarna daga en þar hefur staðið yfir alþjóðleg ráðstefna um loftslagsmál.

Þarna koma saman embættis- og stjórnmálamenn væntanlega allir á launum frá ríkinu heima hjá sér.

Mér sýnist að allar þær þjóðir sem vilja kallast siðmenntaðar verði að banna kaup opinberra starfsmanna sinn á vændi.

Fylgjendum vændis er tíðrætt um frelsið.  Frelsið til að kaupa fólk og frelsi til að selja sig.

Flott ef þetta væri spurning um þjónustu þar sem varan er ekki fólk af holdi og blóði.

Hvar setjum við mörkin?

Þið megið versla ykkur konur og menn drengir mínir þegar við þjóðin borgum undir rassgatið á ykkur á ráðstefnur víða um heim.

En ekki kaupa konur yngri en sextán.

Nú eða fjórtán.

En í nafni frelsisin kemur auðvitað vel til greina að gefa þetta frjálst.

Þá geta þjónar fólksins keypt sér allt frá börnum og upp úr, allt eftir smekk hvers og eins.

En þetta má auðvitað ekki segja.

Er konan að halda því fram að stjórnmálamenn og embættismenn séu barnaperrar?

Svari hver sem vill og í leiðinni má svara þeirri spurningu hvar kaup á kynlífi hættir að vera barnaníð og stökkbreytist í "eðlileg" viðskipti.

Tólf ára, fjórtán, sextán, tuttugu?

Svari hver fyrir sig.

 


mbl.is Eftirspurn eftir vændi í Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjaft- og skrifstopp

Pistlahöfundur Telegraph, Jonathan Russel, undrast hvers vegna Jón Ásgeir Jóhannesson, láti ekki fara minna fyrir sér en það hefði verið eðlilegt í ljósi hruns viðskiptaveldis hans nýverið.

Jonathan Russel vinur minn þekkir greinilega ekki þetta stökkbreytta víkingagen sem er í "útrásarvíkingum" okkar Íslendinga.

Svona veltir hann vöngum yfir Jóni Ásgeiri.

Þú ert ekki einn um það karlinn minn.  Taktu númer.

Alveg er ég viss um að þessi pistlahöfundur verður kjaft- og skrifstopp þegar hann svo sér þetta, enda ekki skrýtið.

Mér er hins vegar óglatt.

Gry me a river.


mbl.is Veltir vöngum yfir Jóni Ásgeiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég vil byltingu

Ég og stórfjölskyldan erum komin með garð rétt fyrir utan bæinn.

Þar sem ég er stórneytandi fersks grænmetis þá þýðir ekkert annað en að ástunda sjálfsþurftarbúskap.

Það gerðu drykkjuglaðir vinir mínir í denn.  Þeir opnuðu bar.  Frábært og skemmtilegt og ég og fleiri nutum góðs af.

En þessar aðgerðir eru ekki nægjanlegar nú þegar matarverð hefur hækkað um lítil 25% á einu ári.

Ég ætla að fá mér veiðistöng.

Minn elskulegi verður skikkaður í byssubúð og það strax á morgun.

Mig má sjá praktísera veiðiþjófnað í sumar við einhverja á, og ég veit að það munu ekki brjótast út fagnaðarlæti hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur þegar ég fer að hala inn stóra laxa í matinn.  Döh.. enda geta félög ekki glaðst, bara þeir sem eru meðlimir og þokkalegir í skapi.

Svo mun ég senda húsband með skotvopn í skjóli sumarnætur til að salla niður lömb.

Búmmmmmmmmmmmmmmmm pang.

Löggan getur komið og handtekið mig strax.

Því þrátt fyrir að ég hafi ekki enn kastað línu í vatn og húsband hafi ekki enn hleypt af einu skoti þá er það minn einbeitti og forstokkaði brotavilji sem gerir mig bullandi seka.

Málið er að ég er komin með upp í kok af því að þurfa súpa seyðið af græðgi annarra.

Í boði Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Það sem fór með það var lúxuskerlingaferðin (eiginkonur "útrásarvíkinganna) til Oman um helgina, (þær kalla félagsskap sinn Kampavínsklúbbinn), ásamt þessari frétt sem ég tengi við.

Í Oman lágu þessar siðlausu kerlingarbreddur og veltu sér upp úr lúxus eins og  engin væri samviskan enda virðast þær hafa skilið hana eftir heima, þ.e. ef þær hafa þá nokkurn tímann haft hana.

Á meðan berjumst við upp á líf og dauða, almenningur á Íslandi.

Vitið þið, ég held ég vilji byltingu.

Einhver með?


mbl.is Matarverð hefur hækkað um 25%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gardarobe no komplít"

bindi 

Fyrir töluvert mörgum árum síðan fór minn ástkæri í flippferðalag með félögum sínum til Póllands.

Þetta var fyrir hrun múrs og kommúnisma og var í sjálfu sér skelfileg upplifun og ekki meira um það að segja að sinni.

En þessir sukkglöðu félagar ætluðu á ball.  Voru í sínu fínasta pússi auðvitað en fengu ekki inngöngu í dýrðina fyrir pólskum dyravörðum og var hindrunin skortur á hálstaui.

Þegar þeir vildu fá útskýringu var svarið stutt og laggott.

"Gardarobe no komplít".

Þeir hörfuðu.  Gagnvart svona rökum stóðu þeir ráðþrota.

Alþingi er að poppa sig upp núna og hefur aflalagt þennan ósóma að heimta bindi um háls allra karlkyns þingmanna.

Nú geta þeir væntanlega verið smá lús í vinnunni og kominn tími til.  Það felst engin virðing fyrir Alþingi í hálstauinu, það eru verkin sem tala.

Svo fremi sem þingmenn eru ekki gauðrifnir eða á náttfötunum, þá er ég sátt.

En það leiðir huga minn að öðru.

Hefur virkilega enginn karlkyns þingmaður sett sig upp á móti þessari asnalegu reglu í gegnum tíðina?

Finnst ekki einn uppreisnarmaður meðal þeirra sem neitaði að vera fórnarlamb klæðareglna?

Mætt í vinnu án bindis?

Og væri svo ætli dyravörðurinn á Alþingi hafi þá stoppað viðkomandi uppivöðslusegg með orðunum:

Klæðaskápur ekki fullnægjandi?

Segi svona.

Sjá Visir.is


Hótel Ísland?

Fjandinn sjálfur, alltaf eru Íslendingar svo mikið dagurinn í gær eitthvað.

Útrásarvíkingarnir frekar blankir núorðið, að eigin sögn að minnsta kosti.

Nú er búið að opna hótel í Tyrklandi sem slær öllu við, brýr hannaða eftir teikningum Da Vinci, Michelinkokkar og ég veit ekki hvað.

Þarna er árshátíðar- og fundahótel útrásarvíkinganna lifandi komið.

Þeir hefðu getað hætt að djamma á Kínamúr og tungli.

Damn, damn, damn, þeir hefðu keypt þetta hótel á spottinu, ég er viss um það.

Það hefði fengið nafnið Hótel Ísland, krakkar, ég sverða.

D´Angliterre minn afturendi!


mbl.is Hótel sem slær öllu við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er mig að dreyma?

 

sjálfstæðisflokkurinn

Ég var svona nett pólitískt skotin í Þorgerði Katrínu sem menntamálaráðherra sko áður en ferðagleðin greip hana og hún myndaði maníska loftbrú á milli Reykjavíkur og Peking á Ólympíuleikunum. 

Að sjálfsögðu var ég ekki sammála henni í pólitík en hún kom mörgum ágætis málum í gegn í skólamálum.  Fólk má eiga það sem það á.

En svo greip Pekingæðið og ferðagleðin konuna og hún setti þar með niður sína síðustu kartöflu í mínum garði.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Það er rétt sem mér hefur verið sagt, að það fer Sjálfstæðisflokknum ekki vel að vera í minnihluta.

Þeir umhverfast og miður fallegir eiginleikar koma í ljós.

En hvað um það, nú er að koma í ljós fleira en einstaka skapgerðarbrestir og valdaleysisfýla hjá þessum elskum í Sjálfstæðisflokknum.

Sumir eru illir, aðrir segja ekki ég, svo eru þeir sem klóra í bakkann og ættu heldur betur að láta það eiga sig.

Hvernig er hægt að vera svona "sókndjarfur" og fullur afneitunar á ömurlegu ástandi í kringum flokkinn sem hér hefur öllu stjórnað s.l. sautján ár?

"Þorgerður Katrín segir að um leið og menn hætti að beina spjótum sínum að Sjálfstæðisflokknum, hætti að einblína á uppgjör við fortíðina og athugi hvaða lausnir flokkarnir hafi fram að færa til þess að koma þjóðinni úr erfiðleikum muni umræðan fara á annað stig. „Fólk þarf að spyrja sig hvaða lausnir flokkarnir hafi fram að færa. Lausnin er ekki fólgin í því að setja eignarskatta á eldri borgara og svo framvegis,“ segir Þorgerður."

Heyrið það börnin mín á galeiðunni?

Hættið að velta ykkur upp úr þessu hneykslismáli upp á fimmtíuogfimm millur frá FL og Landsbanka.

Það hefur ekkert upp sig að grafa stöðugt í fortíðinni betra að gleyma þessu og treysta gamla flokksa fyrir heimilinu og landinu.

Horfið fram á veginn.

Þá væntanlega með Sjálfstæðisflokknum.

Halló, er mig að dreyma hérna?


mbl.is „Hvítþvegin bleyjubörn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fossablæti

Svona frétt er uppfyllingarefni.

Þriðjudagur smiðjudagur.

Vitið þið að mig dauðlangar á hótel um páskana.

Ég sagði mínum reisufælna eiginmanni þessi tíðindi rétt fyrir kvöldfréttir.

Hann spurði hvar hótelið ætti að vera staðsett, kannski í öðru landi?

Ég var á því að það væri slétt sama, mig langaði einfaldlega á hótel.

Og ég vildi að það heyrðist í fossi inn um gluggann.

Ég nenni ekki að segja ykkur hvernig þetta samtal þróaðist.

En ég er ekki á leiðinni á hótel um páskana.

En mér hefur hins vegar verið bent á að það sé foss í nágrenninu sem ég geti heimsótt.

Þessi í Kaupþingsanddyrinu þið vitið.

Á opnunartíma banka og sparisjóða.

Hef ég sagt ykkur hvað ég er gift skemmtilegum manni?

Ekki?

Ég held ég láti það alveg eiga sig að sinni.


mbl.is Þriðjudagur erfiðastur vinnudaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rasískt og fasískt

 ragna

Fyrst langar mig að hnykkja á þeirri skoðun minni að við eigum frábæran dómsmálaráðherra.

Hún var snögg að afturkalla brottrekstur nokkurra hælisleitenda sem átti að senda til Grikklands.

Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt lönd til að senda ekki hælisleitendur þangað að svo komnu máli vegna slæmra aðstæðna.

Hafi hún þakkir fyrir.

Ég er algjörlega sammála fólkinu sem hitti Rögnu í gær fyrir framan húsið hennar, og í morgun á fundi.

"Á fundinum afhenti hópurinn ráðherra áskorun þar sem m.a. segir að Útlendingastofnun hafi starfað á rasískum og fasískum grunni að undanförnu. Þá segir að þar sem ekki virðist lengur jafn fjarstæðukennt og áður að Íslendingar geti þurft á hjálp umheimsins að halda, ættu Íslendingar nú að skilja betur en nokkru sinni þörfina fyrir samhjálp."

Ég held að okkur væri nær að koma almennilega fram við fólk sem hingað leitar og þá meina ég ekki að við eigum að bjóða öllum dvalarleyfi sem hingað koma heldur eigum við að hafa mannúð að leiðarljósi og leyfa fólki að lifa með reisn á meðan það bíður.  Allt annað er óásættanlegt.

Ég vil að ömurlegum dvalarstað hælisleitenda að Fitjum í Njarðvík verði lokað.

Þetta er ekki fólki bjóðandi.

Svo mætti stytta afgreiðslutíma mála ef kostur er.

Eins og þessum málum er fyrirkomið nú er það okkur til skammar.

Húrra Ragna.


mbl.is Segja Útlendingastofnun starfa á rasískum grunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 2985885

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 54
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.