Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Það liggur einhver fjandinn í loftinu

Það hlýtur að vera eitthvað í loftinu þessa dagana, eða einhverjar tunglstöður sem gera það að verkum að allir eru að flippa algjörlega.

Eins og Matthías sem skellir trúnaðarsamtölunum sínum á netið.

Og Svavar sem segist ýmislegt hafa við skrif Matthíasar að athuga en segir ekki; ég var ekki í trúnaðarsambandi við aðal andstæðinga vinstri manna.  Ég var ekki að tala illa um samflokksmennina í mat niðri á Mogga.  Kommon, Svavar var á stalli hjá mér, ég fæ fyrir hjartað og missi trúna á mannkynninu.  Eða svona nærri því.  Ekkert getur hissað mig lengur eins og kerlingin sagði.

Og pólitíkin.  Þar eru hlutirnir þannig að ég er nærri því orðlaus og í mínu tilfelli jafnast það á við meiri háttar hamfarir.  Ég verð að geta talað.

Ólafur Eff farinn í Frjálslynda, ekki að það breyti neinu, þeir eru minnaenekkineittflokkur í borginni, en nú er hann farinn að hafa áhyggjur af fjármálum borgarinnar.  Hefði betur haft það fyrir skilnað. 

Og nú syngur hann eins og kanarífugl.  Hvert "leyndarmálið" á fætur öðru kemur í fjölmiðlum sem eiga að færa okkur heim sanninn um að íhaldið sé óferjandi og óalandi.  Sorrí, Óli, þetta heitir að hefna sín á íslensku.

Nú, Óskar Bergsson, smiðurinn mikli lætur eins og hann sé að bjarga Reykvíkingum með þessari "fórn" sem hann er að færa með því að redda meirihlutanum.  Takk kærlega Óskar, þú ert að gera þetta fyrir þig og aðeins þig og kannski þessar 10 hræður eða svo sem kusu Framsókn í síðustu kosningum.

Látið ykkur ekki detta í hug gott fólk að við kjósendur séum ekki fyrir löngu búnir að sjá í gegnum valdagræðgina og eiginhagsmunapotið.

Sú staðreynd að Marsibil er eins og hún er og að VG standa á sínu og haga sér í borginni gerir það að verkum að ég hendi mér ekki fyrir björg í dag.

En fyrirgefið þið meðan ég hendi mér í þak.

 


mbl.is Ólafur F. til liðs við Frjálslynda flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttir úr snyrtibuddunni

makeup-kit-708299 

Þarna hljóp á snærið hjá mér.  Loksins, loksins rannsókn sem segir mér eitthvað af viti.

Ég hef verið að pæla í því af og til hversu mikill tími fari í að taka sig til, sko yfir ævina.  Ekki að ég sjái eftir tímanum sem ég hef lagt í málið, heldur vegna þess að mig grunar að það sé dágóður slatti af dýrmætum klukkustundum sem ég hef notað í málefnið.  Jæja ég hef amk. ekki gert eitthvað af mér á meðan ég er með nefið ofan í snyrtibuddunni eða hálf inni í fataskáp að velja mér föt.

Ég gæti sagt ykkur sögur.

Tímarnir eru að meðaltali 3.276 á heilli ævi.

Ég held að það geti verið meira, í mínu tilfelli.  Amk. hef ég á sumum tímabilum nánast búið í snyrtibuddunni eða með andlitið flatt út á spegilinn svo ég minnist ekki á þá tíma þar sem ég hef átt lögheimili í klæðaskápnum.  Úff.

Ég er stilltari þessi misserin vegna þess að ég er gránduð af heilsufarsástæðum.  Er ekkert mikið að mála mig og svona nema að ég eigi erindi út í bæ.  Sama gildir um fatnað, ég prófa ekki allan fataskápinn á morgnanna áður en ég geri það upp við mig hverju ég eigi að klæðast hér innan fjögurra veggja heimilisins.

En þetta ástand er vonandi tímabundið og áður en ég get talið upp að 4566 mun ég vera komin á fulla keyrslu í fatamátun og meiköppi.

Og þá mun heyrast flett, flett, flett,  í mínum troðfulla klæðaskáp þar sem 95% af flíkum eru svartar, afgangur grár.  Ansi erfitt að finna það sem leitað er að, einkum vegna þess að ég veit ekki að hverju ég er að leita.  Só?

Svo er það baðherbergið með speglinum.  Krem, meik, blöss, augnblýantur, maskari, varalitur, varablýantur. Hár blásið, greitt, ekki að gera sig, greitt aftur, ók þetta verður ekki betra.  Stella tekin og henni úðað á meistaraverkið.

Skór valdir, þessir, nei, þessir, máta, ekki að gera sig þessir, nei, æi það er farið í þá skó sem fyrst voru mátaðir.

Þegar hér er komið sögu er húsband eða aðrir heimilismenn sofnaðir á næsta stól.

Viðkomandi vakinn og minntur óþyrmilega á að líf með konum getur verið flókið.  Dásamlega flókið og talið í geimferðum samanber viðhangandi frétt.

Augnahárum dinglað á leiðinni út og því haldið áfram þar til hreinsikrem og önnur fegrunarlyf eru smurð á í tonnum.  Þetta er lygi, þetta síðasta sko, vatn dugar ágætlega. 

Hér hefur ekki farið mínúta til spillis.

Eða hvað?


mbl.is Tímafrekt að hafa sig til: 3.276 stundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andúðin á forsetanum

Ég er búin að sitja stóreyg og lesa dagbækur Matthíasar, ekki litið upp.  Það er auðvitað sjaldan sem manni gefst færi á að vera fluga á vegg og fylgjast með sögunni eins og hún var ekki sögð, hvað get ég sagt?  Mannveran er forvitin skepna, ég þar engin undantekning.

Bræðrabönd heimsins snæðið hjarta!  Þarna er valdabatteríið í þessu landi í beinni, að vísu tíu árum síðar, þið skiljið hvað ég meina.

Það er margt skemmtilegt í dagbókarfærslunum, skemmtilegar heimildir um menn og málefni, krúttlegar litlar sögur og falleg ljóð.  Ekta Matthías.  Svo eru það miður skemmtilegri færslur eins og gengur.

Matthías virðist hafa skrifað nákvæmlega niður eftir mönnum, spurning hvort þeim grunaði það.

En það er rauður þráður í gegnum allar færslurnar sem ég er búin að lesa og það fór um mig hrollur þegar ég áttaði mig á því.

Matthías, Davíð, Styrmir og fleiri hafa megnustu andúð á Ólafi Ragnari Grímssyni. 

Mönnum er það frjálst en andúðin er sterk, svo sterk að mér finnst það vægast sagt óhugnanlegt.

Af hverju er Matthías að birta þetta aðeins tíu árum eftir að hann skrifaði það?

Ég er viss um að það er hárbeittur tilgangur með þessu.

Meira að segja þegar forsetafrúin deyr situr Matthías ekki á strák sínum.  Hann skrifar:

"Kista forsetafrúarinnar kom heim í dag. Viðhöfn með eindæmum, án fordæmis. Lúðrasveit verkalýðsins lék sorgarlög. Tekið fram í kynningu að eitt þeirra hafi einnig verið leikið, þegar kista Jóns Sigurðssonar kom til landsins frá Höfn.
Allt fór vel og skipulega fram. Þjóðhöfðingjar Norðurlanda væntanlegir við útförina.
Konungsríkið Ísland í burðarliðnum.
Morgunblaðið laufblað í þungum straumi tíðarandans.
Og dansandi fánar í haustgolunni
."

Við vissar aðstæður hlýtur að vera hægt að henda kaldhæðninni fyrir róða, eða hvað?

En hann er ljóðrænn karlinn.

Það verður ekki af honum tekið.

Úff og dæs.

DAGBÓKARFÆRSLUR MATTHÍASAR


Þegar ég dó

 jarðarför

Ég hef á ákveðnum tímabilum lífs míns verið sjúklega upptekin af jarðarför.  Minni eigin sko.

Þegar ég var á gelgjunni og þurfti að ná dramatísku hámarki til að geta grátið úr mér augun af samúð með sjálfri mér, þá setti ég í huganum upp mína eigin jarðarför og hún var sorgleg.

Og ég sendi þeim sem höfðu verið vondir við mig kaldar kveðjur og ég setti þá framarlega í kirkjuna þar sem þeir sátu vitstola af sorg, þeir höfðu sent mig í dauðann.

Og hvernig dó ég svo?  Jú ég dó oftast úr kulda, vosbúð, hungri (gat ekki borðað vegna harms) eða þá að ég hafði gengið um fjörur til að róa storminn í huga mér og gáði ekki að mér og hné niður örmagna - og lést.

Svo kom sá sem hafði sent mig yfir móðuna miklu, með skítlegri framkomu við mig engilinn, og greip mig í fangið, lokaði augum mínum og gargaði í himininn; Drottinn hvað hef ég gert?

Þið sem eruð orðin stóreyg af undrun yfir því hversu biluð ég er (var, hætt að setja upp jarðarfarir) getið róað ykkur með því að ég hef það frá flestum vinkonum mínum að þær dunduðu sér reglulega  við að jarða sig í huganum á gelgjunni.  Við erum svona stelpurnar.

Svo kom jarðarförin.  Kirkjan var kjaftfull, hlaðin blómum, allir grétu með þungum ekka.

"Bara að ég hefði verið betri við þessa manneskju sem VAR of góð fyrir þennan heim" hugsuðu þeir snöktandi, lífi þeirra eins og þeir þekktu það var lokið.  Aldrei myndu þeir brosa aftur, ljósið í heiminum var slokknað til frambúðar.

Þegar hér var komið sögu grét ég með þungum ekkasogum af sorg yfir því hversu örlög mannsins geta verið grimmileg, hvernig eitt augnablik getur ráðið úrslitum um líf og dauða. 

Ég sagði það, ég VAR biluð.

En það vantaði alltaf upp á eitt í þessum draumum.  Ég gat ekki verið viðstödd jarðarförina, maður fokkar ekki upp náttúrulögmálunum þó í huganum sé.

En þessi Breti sem sá auglýsingu um sitt eigið andlát var nálægt því að verða vitni að eigin jarðaför.

Farin að biðja húsband um að knúsa mig, ég er óhuggandi af harmi.

Guð minn góður hvað yrði um heiminn ef ég myndi hrökkva upp af.  Þið getið þetta ekki án mín.

Hún Jenný Anna var svo góð kona, henni féll aldrei verk úr hendi.  Veggir heimilis hennar eru þaktir klukkustrengjum eftir hana og hún hugsar ALDREI um sjálfa sig, bara um aðra.  Hún gekk um þrautpínd af alvarlegum sjúkdómum en hún lá ALDREI í rúminu.  Guð veri með henni.

Nú er mér orðið óglatt.  Ég afþakka minningargreinar.

Úje.


mbl.is Fregnir af andláti stórlega ýktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maya og árin þrjátíu

20080415134755_1

Í dag á þessi falleg stúlka afmæli.  Hún er þrítug.  Þarna er afmælisbarnið með manni og barni.  Hún ber ekki árin sín utan á sér hún María Greta, en það eru pottþétt 30 ár síðan hún kom í heiminn, nánar til tekið á Fæðingarheimilinu í Reykjavík.

Maya er sæt og góð, dugleg og ákveðin.  Hún er sennilega á leiðinni til Hong Kong í næsta mánuði til að opna nýja Arrogant Cat búð og Oliver og Robbi fara væntanlega með.

Elsku Maysa mín innlega til hamingju með daginn þinn.  Það er á svona dögum sem mamma þín er frekar ósátt við að hafa þig í London og geta ekki knúsað stelpuna sína á þessum stóra degi.

En ég elska þig ljósið mitt.

Kveðjur frá okkur á kærleiksheimilinu.

IMG_3619

Snökt.

 

 


Hvað er það með Íslendinga og ofbeldi?

Ef það er eitthvað sem gerir mig reiða þá eru það réttlætingar á ofbeldi.  Eins og flestir er ég sérstaklega viðkvæm fyrir ofbeldi á börnum.

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur gefið grænt ljós á rassskellingar sem uppeldisaðferð.

Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu telur dóminn senda hörmuleg skilaboð til samfélagsins og sé niðurstaðan á skjön við mannréttindasamninga sem og samþykktir Evrópuráðsins.

Foreldrar þurfa að hafa ákveðið svigrúm,“ segir Hildigunnur Hafsteinsdóttir sem nýverið skrifaði meistararitgerð í lögfræði við Háskóla Íslands. Bar ritgerðin heitið Líkamlegt ofbeldi gegn börnum. Hildigunnur er sammála niðurstöðu héraðsdóms og segir íslensk lagaákvæði óskýr. „Í Svíþjóð eru miklu afdráttarlausara lagaákvæði. Þar bara má ekki leggja hendur á börn, það má ekki refsa þeim líkamlega.“ útskýrir Hildigunnur."

Hvað er í gangi hérna?  Ég hélt mig vera með það á hreinu að ofbeldi á börnum, þ.e. öll líkamleg valdbeiting væri algjörlega bönnuð á Íslandi.

Ég segi eins og Edda vinkona mín: Hvað er það með Íslendinga og ofbeldi?

Hvaða svigrúm þurfa foreldrar að hafa?  Fólk sem beitir ofbeldi er ráðalaust og komið í þrot.  Það notar því líkamlegt yfirburði til að fá vilja sínum framgengt.  Þurfa íslenskir foreldrar slíkt svigrúm?

Ef svo er þá á það fólk ekki að hafa ábyrgð á börnum.  Börn á ekki að meiða.

Það er eitthvað meira en lítið að íslenskri þjóðarsál sem stöðugt daðrar við ofbeldi og annan ófögnuð.  Það er endalaus réttlæting á ofbeldi í þessu landi.  Aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við líða ekki slíkt.

Lesið einnig frábæra færslu Ólínu Þorvarðardóttur um sama mál.

Sveiattann.


mbl.is Er í lagi að refsa börnum líkamlega?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ladídadída

Jájá Óskar, Samfylkingin eyðilagði algjörlega allan pakkann þannig að þú varst neyddur til að starfa með íhaldinu. Leiiiiiiiiiiiiiiiim þetta lið.

Ladídadída.  Hef heyrt þennan söng svo oft áður.

Muniði eftir að það var VG að kenna að það var ekki mynduð félagshyggjustjórn eftir síðustu Alþingiskosningar?  Össur sagði það, ISG sagði það og áður en hægt var að snúa sér við sögðu allir það.

Það hafði ekkert með málið að gera að SF vildi fara í eina sæng með íhaldinu.  Nei,nei.

En hvað um það.  Þýðir ekki að gráta grautinn og brauðið þegar búið er (sagði einhver held ég, hehemm).

En það sem ég skil ekki eru þessar yfirlýsingar HB og Óskars um að Jakob Frímann og Gunnar Smári ljúki auðvitað sínum verkefnum þrátt fyrir skiptin.

Gunnar Smári segist hafa verið ráðinn til að hjálpa Ólafi að boxa við Sjálfstæðisflokkinn.

Jakob Frímann hefur sitt umboð líka frá Ólafi.

Mér er alveg sama þótt þeir klári sín verkefni ég er bara svolítið hissa.  Hélt að þeir væru sérlegir starfsmenn borgarstjóra og ekkert annað.

En ég veit lítið og er alltaf að læra.

Hegðun pólitíkusa er hins vegar þungt fag.  Ég botna ekkert í fyrirkomulaginu.

Hegðun í eldhúsi er mín sérgrein.  Þeirri sérgrein var neytt upp á mig (fórnarlambsstuna).

Farin að elda.

Later.


mbl.is Samfylkingin hafnaði nýjum Reykjavíkurlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tóm í hjarta

Oliver flaug með afa sínum heim til London í gær.

Við amma-Brynja vorum sammála um að það væri tóm í hjartanu þegar þessi elska er farinn.

Ég talaði við hann áðan í símanum og hann var á leiðinni út með afa sínum.

Oliver kom og gisti hjá okkur ásamt Jenný Unu og þau frændsystkinin skemmtu sér (og okkur) konunglega.  Þau voru svolítið að prakkarast og þegar við fórum til langafa og langömmu í Snælandinu keyptu þau kók og prins til að gefa langafa.

Svo borðuðu þau prinsinn fyrir afann enda ekki á hverjum degi sem maður kemst í nammi og það á virkum degi.  Afinn var alveg sáttur við það.

Oliver sagði nefnilega við afann: I need this nammi, I´m actually very hungryWink.

Svo faðmaði hann langafa með súkkulaðismurðum höndum og það fannst Jenný Unu mjög sniðugt og hún hló og hló.

Hér eru svo nokkrar myndir frá vikunni sem leið af Londonbarninu.

olíolí 4

olí 3olí 5

gunnur

Maður fór í bað og svo kíkti maður við í Ikea með ömmu-Brynju og Gunni bestufrænku.  Jájá.  Nóg að gera.

Og í kvöld kemur Jenný Una og skemmtir hérna við hirðina.

En Oliver er "actually" farinn.  Því miður.  En svona er lífið.

Dæs.

 

 


4056 kvikindi

Ég dáist innilega að stjórnmálamönnum eins og Marsibil Sæmundardóttur sem ætlar ekki að taka þátt í að styðja nýjan "meirihluta" í borginni.

Ég hef lesið fullt af bloggum þar sem Marsibil er sökuð um ábyrgðarleysi, að það sé skylda hennar að taka þátt í að gera borgina starfhæfa.

Halló, vakna gott fólk, er búið að gleyma því að fyrsta og fremsta skylda hvers stjórnmálamanns er að fylgja samvisku sinni og sannfæringu?

Það er reyndar ekki skrýtið að fólk gleymi því, þetta grundvallarprinsipp á nefnilega ekki upp á pallborðið hjá vel flestum stjórnmálamönnum dagsins í dag.

Og svo eru það strákarnir.  Óli Eff kvartar yfir svikum Sjálfstæðismanna gagnvart sér.  Og ég trúi honum, þó fráfarandi borgarstjóri eigi ekki að vera í pólitík að mínu mati þá held ég að hann sé vænsti maður.  Sumir segja að vænir og hrekklitlir menn eigi ekki heima í pólitík. 

Óli Eff sveik Dag og það sem mest er um vert að muna að hann gekk framhjá varamanni sínum Margréti Sverrisdóttur.  Hefur sennilega ekki talið að henni kæmi það við hvað hann gerði né heldur fundist það skipta máli hvort hún hefði á því aðra skoðun en hann.

Óskar Bergsson sveik lit og stökk í spennuhlaðið hjónaband með Hönnu Birnu og lét hjá líðast að reikna með að varamaðurinn hefði skoðanir.

Þetta er gamla sagan.  Strákarnir eru fyrst og fremst í leiknum, loforð og prinsipp eru ekki issjú þegar möguleiki til að ver´ann er í sjónmáli.

En allir strákarnir hvar í flokki sem þeir standa ættu að hafa varann á héðan í frá áður en þeir útdeila sér völdum í reykfylltum bakherbergjum.  Þeir eiga að muna að þeir eru í flokkum, ekki á eigin vegum og konurnar sem eru með þeim á listanum gætu haft öðruvísi áherslur en þeir.

Menn í flokkum eiga ekki að stunda einleik á valdatrommuna.

Svo mætti Óskar Bergsson muna að í síðustu kosningum til borgarstjórnar voru það 4.056 Reykvíkingar sem kusu Framsóknarflokkinn og miðað við nýjustu skoðanakannanir þá eru þeir flestir farnir eitthvað annað.

Frjálslyndi flokkurinn fékk þó 6.527 atkvæði þannig að nokkuð fleiri Reykvíkingar höfðu trú á honum. 

Góðan daginn annars og ég hrópa ferfalt húrra fyrir stjórnmálamönnum sem fylgja sannfæringu sinni og láta ekki lyktina úr kjötkötlunum villa sér sýn.

Lára Hanna hefur klippt saman ruglið í borginni frá áramótum.  Kíkið endilega á okkar "heiðarlegu" stjórnmálamenn.


mbl.is Er ekki á leiðinni í nefndarformennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Go Oli, go, go, go"

 woman_stirs_pot_3

Við Britney eigum eitt sameiginlegt.  Við elskum að þrífa og búa til kvöldverð.

Í mínu tilfelli er engin húshjálp til að rífa af mér þessi uppáhaldsverkefni mín en Britney greyið er ekki eins heppin, hún er með húshjálp sem eyðileggur oftar en ekki fyrir Britneyju á þessum vettvangi.

Ööömurlegt fyrir stelpuna.

Annars er ég að ljúga, mér leiðist að þrífa en ég hef sætt mig við ástand sem ég fæ ekki breytt.  Fyrir löngu reyndar.  Málið er að ef maður tilheyrir ekki Bónusfeðgum, Landsbankamógúlnum eða bresku konungsfjölskyldunni þá er nokkuð ljóst að maður þarf að taka sér kústa, klúta og moppu í hönd með reglulegu millibili.

En klaufaskapurinn sem ég sagði ykkur frá í færslunni hér á undan var ekki einangrað tilfelli vegna álags út af borgarmálum.  Ónei.  Hlutir héldu áfram að gerast. 

Þannig vildi til að ég bakaði æðislegt pæ til að hafa sem eftirrétt og meiningin var að bjóða húsbandi upp á volga sneið með þeyttum rjóma.

Ég henti á mig svuntu sem á stendur "Go Oli, go, go, go"Devil og byrjaði að þeyta rjómann.

Ég þeytti og þeytti og þeytti og þeytti.  Rjóminn breyttist ekki í skálinni nema hann varð svona froðulegur og skrýtinn.

Ég alveg: Svona er sumarrjóminn hann þeytist ekki eða alveg ferlega illa. Lalala. Brrrrrrrrrrrrrrrrrr og áfram hélt ég.  Tíu mínútum og mögnuðum fingrakrampa síðar gafst ég upp því þá var rjóminn eins og já .. ég fer ekkert nánar út í það.Blush

Og ég teygði mig í rjómafernuna og sjá, ég var að þeyta matvinnslurjóma.Blush

En það getur nú komið fyrir alla.

Eþaeggi?


mbl.is Britney elskar húsverkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 16
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 2988493

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband