Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Að hitta sjálfan sig fyrir

Ég hef búið í Svíþjóð, sumir minna bestu vinar eru Svíar, tengdasonur minn er sænskur og Jenný Una og Hrafn Óli þar af leiðandi af sænskum ættum.

Ég lít á Svía eins og Íslendinga.  Þeir eru mis mikil krútt.

Annars er ég á því að Svíar séu mun líkari Íslendingum en sum okkar vilja viðurkenna, ég er hinsvegar með það á hreinu.

Málið er að Svíar eru að rifna úr þjóðarstolti.  Vi är bäst i världen.

Íslendingar eru nefnilega líka með mikilmennskubrjálæði eins og sænskir frændur okkar þegar kemur að þjóðarrembingnum.

Svíum finnst þeir eiga fallegustu konur í heimi, kannast einhver Íslendingur við þá trú í eigin brjósti varðandi konur af íslensku þjóðerni?

Tel bara rétt að koma því að að í öllum löndum er sennilega heill hellingur af fallegum konum, en þetta er auðvitað gamla spurningin um höfðatöluna.

Svíar fara á límingunum yfir íþróttaviðburðum.  Þeir eru bestir í öllu ef þeir vinna ekki þá eru það fordómar dómaranna, veðurfarið, tíðarandinn, verðlagið.  Ekki liðinu.  Kannast einhver við það?

Svíar elska náttúruna sína, þeir gráta yfir skógunum og fjöllunum, þeir gráta yfir vötnunum og sænska fánanum.  Það gerist ekki á Íslandi er það nokkuð?

Og Svíarnir hrópa upp fyrir sig þegar þeir ná árangri á erlendum vettvangi: Sko litlu Svíþjóð, hún spjarar sig meðal stóru þjóðanna! Hhehemm, er ég komin heim eða hvað?

Eins og Íslendingar eru Svíar seinteknir svona flestir amk.  En þeir sleppa af sér beislinu um helgar og verða þá opnir, frjálslegir og gífurlega utanáliggjandi.

Kannast einhver við það?

Gamlir siðir eins og lútfiskur með sinnepssósu á jólum, algjörlega bragðlaus að mínu mati, er herramannsmatur finnst þeim ansi mörgum.  Pjúra gormei.  Mig rámar í að landsmenn mínir dásami íslenska vel migna skötu á þessum árstíma.  1-0 fyrir Svíum, lútfiskur er lyktarlaus.

Ég held að Íslendingar séu á því að þeir séu hipp og kúl og öðruvísi í klæðaburði en aðrar þjóðir (viðurkenni að það er orðið réttara nú en það var fyrir einhverjum árum) en skv. þessari skoðanakönnun í Svíþjóð eru Svenson, Anderson, Petterson og Jönson með það á hreinu að þeirra þjóð sé snyrtilegust meðal norðurlandabúa.

Meðalsvíinn á tréklossa, það stendur í biblíunni, hann á gallabuxur, úlpu, hann á joggingalla, hvíta sokka og gula peysu með vaffhálsmáli, hann á bláa skyrtu og hann er plebbi.

En sem betur fer þekki ég enga meðalsvía, ég hef bara séð þá álengdar.  Mínir Svíar eru hipp og kúl, rétt eins og ég.

Þegar Íslendingur segir: ji Svíar eru hundleiðinlegir, þá hugsa ég;

Þar hitti viðkomandi sjálfan sig fyrir.

Friður - virðing.

Heja Sverige.


mbl.is Svíar telja sig snyrtilegasta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hlaðast upp tilboðin

Ég ætlaði ekki að vera með að þessu sinni.

En..

ég var nýkomin úr stúdíói þar sem þessi hér var tekin.

Snillingurinn Lassi ekki mjög svo leiðinlegi tók myndina og hvatti mig til að vera með.

Ég var að fá meil frá Antonio Rungi og hann tilkynnti mér að ég hafi komist inn.

Ég held að ég vinni, ég er bara svo sérstök.

jennynunnag_652293.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Ég er farin í neglur.

Guð geymi ykkur og vefji ykkur ljósi grislingarnir ykkar.

Og nei, ég gef ekki eiginhandaráritanir, ekki séns.

Amen


mbl.is Fegurðarsamkeppni nunna skipulögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er hætt að blogga - eða hvað?

Mogginn birtir af og til krúttlegar "fréttir" af einum sambloggara henni Ásdísi Rán og það er bara í fínu lagi. 

En hvernig væri að birta fleiri.

Það gæti verið "frétt" um nýjan rækjurétt Jens Guð.

Ég saknaði líka "fréttar" um að Stebbi Fr. væri hættur að blogga.  

Og líka "fréttarinnar" um að hann væri byrjaður að blogga aftur vegna fjölda áskorana daginn eftir.

Annars er visir.is duglegur að birta fréttir af Moggabloggurum.  

Eins og Magna, Sverrir Stormsker og nú man ég ekki eftir fleirum í bili.

En stundum rek ég mig á mér til mikillar skelfingar að bloggheimurinn er afskaplega lítill amk. finnst mér það stundum.

Þá fæ ég þessa tilfinningu um að ég sé önd á polli og pollurinn er frekar svona lítill og ræfilslegur.

En samt þykir mér vænt um hann.

Og núna ætla ég að hætta að blogga og snúa mér að mikilvægum verkefnum.  Ég er hætt að blogga - núna.

geisp, bor í nef, klór í haus, dingl í augnhárum og fleiri mikilvægar aðgerðir.

Jájá, hættið að bögga mig.

 

 

 

Ég er byrjuð að blogga aftur.

Vegna óteljandi áskorana, massívrar þjóðarsorgar og hýsterískra viðbragða hins vestræna heims eins og hann andskotans leggur sig.

Hvað get ég sagt?

Það elska mig allir? Dæs, dæs, dæs.

Súmítúðebón.

 


mbl.is Ásdís Rán tjáir eiginmanni sínum ást sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hanga saman á munni eða mjöðm

Ef Baldur Guðmundsson, annar höfundurinn að mér hefði haft forsetaembættið til að bjóða sig fram í og komast þar með í leyniþjónustumenn til að gæta þeirra sjö dætra sem hann á heiðurinn af, þá bölva ég mér upp á að hann hefði gert það.

Svipurinn á honum þegar kæróarnir komu upp að húsinu var ekki blíðlegur.

Þannig að maður hætti  bara að taka þá heim að húsinu - ekki flóknara en það. 

Geymdi þá í næstu götu bara.

En nú er ég hér vestur í bæ með útsýni í allar áttir, þ.e. ef það væri ekki orðið svona fjári dimmt og ég sit hér vafin innan í teppi og er að reyna að venjast apple tölvu barnabarnsins.

Ég er í rauninni orðin afskaplega íhaldssöm.

Þegar ég fékk mína fyrstu tölvu 1986 eða 7, Makka auðvitað, þá hefði ég svarið fyrir að ég ætti eftir að nota annað.  En svona er lífið.

Og núna rembist ég eins og rjúpan við staurinn og reyni að láta mér lynda við mína fyrstu ást sem hefur auðvitað farið töluvert fram bæði í þroska og útliti og ég veit að það á eftir að smella.

Rétt eins og það gerði með mig og húsband sem héngum saman á munninum í denn, fórum í sitthvora og erum núna samvaxin á mjöðm.

Þess má geta í forbífarten að sama húsband lenti í Obama, ég meina föður mínum hérna um árið þegar honum var sagt að bíða úti eftir mér.  Mér fannst maðurinn hafa sloppið vel.

En hvað um það.

Þessi færsla var frá toppi tilverunnar í besta bæjarhluta Reykjavíkur.

Síjúgæs.


mbl.is Hótar að siga leyniþjónustunni á kærastana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlætið sigrar

Stundum, en allt of sjaldan ganga hlutirnir upp.  Réttlætið sigrar þrátt fyrir allt.

Það er réttlæti í fúnksjón að Paul Ramses skuli vera á leiðinni heim frá Ítalíu þó auðvitað hefði aldrei átt að senda hann þangað.

Og svo er að fylgjast með því hvernig tekið verður á málinu hans og fjölskyldunnar og auðvitað geng ég út frá því að Ramses fjölskyldan taki sér búsetu á Íslandi.

Það verða góð sögulok.

En svo eru það hinir sem eru að bíða, og allir þeir sem eiga eftir að koma frá löndum þar sem vargöld ríkir og fólk forðar sér út í óvissuna til að halda lífi, eins skelfilegt og það hlýtur að vera.

Til Íslands er erfitt að komast, t.d. frá Afríku án þess að millilenda einhvers staðar, eins og raunin var með Ramses fjölskylduna.

Mín ósk er sú að íslensk stjórnvöld skoði þau mál með mannúðar- og réttlætisgleraugum í framtíðinni og hugi að hverri sögu fyrir sig.

Aðeins þannig fæst góður endir.

Og hér er nóg pláss er það ekki?

En BB stóð sig þarna, það verður ekki af karli tekið.

Ég er þó algjörlega sannfærð um að almenningsálitið skemmdi alls ekki fyrir í málinu án þess að ég kveði nú fastar að orði.

Velkominn Ramses.


mbl.is Ramses kemur í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djúpar samræður á dada-ísku

 krummi2

Í morgun hefur mér verið skemmt af litlum sjö mánaða kút sem heitir Hrafn Óli og þar sem skólinn hjá mömmunni er byrjaður og pabbinn á hljómsveitaræfingu, þá tók ég yngsta barnabarnið og passaði það.

Á því hef ég lært ýmislegt.

Ég veit núna að að það er í raun nóg að geta sagt dadada í hinum ýmsu tóntegundum til að gera sig skiljanlegan.

Dadada (rómablítt og smá væmið í fallegri merkingu þess orðs): Mér líður vel amma.

Dadada (ákveðið en samt með smá húmor): Amma, ætlarðu að knúsa mig í klessu, kommon ég er ungabarn!

Dadada (ergilegt og alveg á gargmörkunum): Ég hef ekki sofið síðan ég vaknaði kl. 7 kona, komdu mér í vagninn, núna! 

Dadada (yfirpáta pirringslegt og skerandi): Ég er svangur, hvað get ég sagt, mig vantar graut, nema auðvitað að það sé boðið upp á annað.

Og svo lékum við okkur, barn er kominn í skriðstellingu þ.e. að segja núna skríður hann afturábak.

Skelfing er ég heppin að eiga svona skemmtileg barnabörn.

Krúttkrampi

En nú er það Westurbærinn, elsta barnabarn bíður.

Hírækomm.

 


Þekki ekki bónda í sjón - me

Það er eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að hafa skoðanir á landbúnaði, þ.e. ef maður er ekki samansúrraður bændaaðdáandi.

Ég held að íslenska lambakjötið sé með því besta sem hægt er að fá og jafnvel þótt það væri hægt að kaupa erlent lamb myndi ég aldrei gera það.  Ekki þó það væri ókeypis.

En ég er þreytt á matarverðinu.  Ég er þreytt á því að nánast allir peningar fari í mat, amk. þannig að á þessu heimili er ekki mikið aflögu fyrir annað.

Ég læt ekki hvað sem er ofan í mig unnið kjöt er eitt af nónóum þessa heimilis.

En að kjarna málsins.  Einu sinni enn kemur þessi dulda hótun frá bændum, að þeir séu að hugleiða að bregða búi.

Fyrirgefið, þannig er lífið, ef þetta gengur ekki strákar mínir og það með alla þessi styrki sem þið fáið, þá er lífið stundum svona.  Maður snýr sér að öðru.

Ég veit að ég blaðra út í bláinn, þekki ekki bónda í sjón þó hann gargaði á mig, kann varla að beygja orðið, en ég kaupi afurðirnar frá honum og hef ekki eitt andskotans val um það.

Ég veit líka að það eru styrkir á styrkir ofan sem halda sumum bændum gangandi.

Er ekki hægt að samræma og skoða reksturinn upp á nýtt?

Það tíðkast í fjölbýlinu.

Arg, ekki gott að lesa þetta í morgunsárið.  Bændur pirra mig, sko ekki þeir persónulega heldur landbúnaðarstefnan.

Ef ég myndi hugleiða það að bregða búi af því að heimilisreksturinn gengur fyrir bjartsýninni einni saman þá myndi það ekki koma í Mogganum. 

Fólk myndi segja: Só?


mbl.is Bændur hugleiða að bregða búi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silfur, silfur, silfur, minn málmur ekki spurning

Ég ætlaði að sofa af mér leikinn - skemmst frá því að segja þá sat ég hér í spennu og taugaveiklun.

Þetta er smitandi fjári.

Fínt að fá silfur, mér fannst leikurinn bara svo höktandi, ekkert flæði.

En þrátt fyrir smá vonbrigði (annarra en mín sko, ég er kúl) þá er þetta frábært.

Það frábærasta er að nú er þetta íþróttabull búið í bili.

Og rauðir dagar fram að jólum allir uppurnir.

Næsti rauði dagur á almanakinu er aðfangadagur jóla.  Jájá, ekkert slugs börnin góð.

Ég held að það sé 121 dagur til jóla, ég fer að byrja undirbúning.

Mikið skelfing ætla ég að fara og leggja mig.

Heimurinn verður að vera án mín á meðan.

Ég er hrifnari af silfri persónulega, þannig að ég er ánægð.

Síjúsí.


mbl.is Ísland í 2. sæti á ÓL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með gigg í Vesturbænum

Þessa sumars verður minnst sem ferðasumarsins mikla hér á þessu heimili.

Og það án þess að farið hafi verið í eitt einasta alvöru ferðalag.

Ferðirnar eru á milli bæjarhluta ofkors en í því liggur öll þessi móbilisering.

Í síðasta mánuði vorum við á Leifsgötunni að passa íbúð og kött meðan Sara og fjölskylda voru í Sverige hjá tengdós.

Og nú er það Vesturbærinn.  Á mánudaginn ætlum við að flytja á ákveðna götu hvar við munum halda elsta barnabarninu honum Jökkla selskap á meðan móðir plús kærasti spássera um götur bæja og borga á Ítalíu.

Minn heittelskaði segir að við séum með gigg í Vesturbænum og mér finnst það vel til fundið að nota bransamál um verkefnið.

Mér finnst sko ekki leiðinlegt að vera á leiðinni í minn elskaða Vesturbæ, hvar ég dvaldist stóran hluta ævi minnar.

Mér líður hvergi betur í þessari borg.

Og svo er Jökull góður félagsskapur, lyktin er góð, útsýnið fallegt og lífið eitt eilífðar kertaljós.

Er hægt að biðja um meira?

Ég veit það ekki en ég er farin að útbúa giggið.

Síjúgæs.


Budda tæmd - "Say no more"

Ég var ekki búin að blogga um stórkostlega IKEA-ferð fjölskyldunnar í vikunni.

Helmingur okkar er ekki sérstaklega hrifinn af versluninni "þar sem heimilið á heima".

Sumar við tvær, Sara og ég eru hins vegar nokkuð hamingjusamar með sömu verslun.

Ég fór með miða, týndi honum en aldrei þessu vant mundi ég eftir að kaupa það sem hafði mótíverað ferðina. 

Og Hrafn Óli var með og þegar maður er 7 mánaða þá er IKEA-ferð "walk in the park".  Húsband sá um barn sem "talaði" hátt og skýrt dadada og sriggeliggelú alla leiðina í gegnum þessa endalausu verslun.

En auðvitað rataði hellingur ofan í körfuna sem ég hafði ekki haft grænan grun um að ég gæti ekki verið án fyrr en ég sá það.

En ég keypti gardínur og allskonar fyrirkomulög í búðinni hans Ingvars og kom hlaðin heim ansi mörgum þúsundköllum fátækari eins og lög gera ráð fyrir.

Ég ætla nefnilega ekki aftur í bráð.  Birgði mig upp af allskyns óþarfa.

Hvað er þetta með mig og búðir? 

Það er eins og að ferðast á milli landshluta gangandi að fara í gegnum þessa verslun.  Hún er stór, full af allskyns og það tekur orku.  Fleiri kílómetrar voru lagðir að baki þennan dag.

Svo var það vís kona sem sagði mér EFTIR að ég kom heim, að það væru til flýtileiðir.

Jájá, en ég keypti kerti.

Það eru akkúrat þau sem mig sárlega vantar núna þar sem ég vafinn inn í eitthvað IKEA-teppi, sjálfandi úr kulda.

Lífið gæti varla verið betra.  Þetta verður mín Menningarnótt og ég ræð tónlistinni.

Úje


mbl.is Tónlistin ómar á Menningarnótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 2988478

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband