Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Úllendúllendoff aðferðin

Ég vann ekki stóra vinninginn í Lottóinu, djöfuls óréttlæti.

Ó, fyrirgefið, ég var ekki með en það er sama ég hefði átt það svo innilega skilið.

En það eru mánaðarmót á morgun!

Mér líður yfirleitt vel alla daga mánaðarins, mis vel auðvitað, en ég held að ég sé þokkalega ánægð með mig og mitt svona á heildina litið.

Nema fyrsta dag hvers mánaðar.

Þá finn ég svo óþægilega fyrir því hvað manni vantar upp á til að endar nái almennilega saman.

Ég er alltaf með hjartslátt þann fyrsta, alveg fram yfir hádegi.

Þangað til að búið er að borga hverja krónu sem inn hefur komið en þá fer liturinn að koma aftur í andlið og þrýstingur verður eðlilegur, svona nokkurn veginn.

Samt grunar mig að það komi að því hér á mínu heimili og víða annars staðar að maður verði að taka úllendúllendoff aðferðina á reikningana.  Strax á morgun reyndar.

Það er borga þennan - bíða með þennan - borga þennan og svo framvegis.

En það er ekki kreppa, ISG sagði það í Viðskiptablaðinu.

Á morgun ætla ég að segja upp öllum óþarfa áskriftum af fjölmiðlum. 

Það er sparnaðaraðgerð nr. 1

Æi, ég er alls ekki að kvarta.  Hef það ágætt og sérstaklega miðað við marga aðra.

Þjáist bara af smávegis mánaðarmótaskjálfta.

En það hefði verið asskoti gott að vinna í Lottóinu.

Verð með næst.  Jeræt.


mbl.is Fyrsti vinningur gekk ekki út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jag har varit på toiletten i Tivoli"

 

Ég myndi ekki vilja vinna fyrir þessa konu.  Þessa með erfiðu börnin og sjálfa sig í messi.

Hún er þó með góðan húmor, gæti verið gaman að þekkja hana, upp að vissu marki.

Það er samt aldrei að marka svona auglýsingar eftir fólki í "vist". 

Þegar ég var á virkum barnapíualdri þá var það höfuðverkur hvers sumars að komast í vist.

Ég var reyndar heppin, lenti á ágætis fólki oftast þó svona eftir á að hyggja finnist mér út úr kortinu að fólk hafi ráðið mig frá sex ára aldri í barnapíudjobb.

Ég sá ekki upp fyrir barnavagninn þarna í fyrstu vistinni, en vagninn var flottur og ég var öfunduð um allan vesturbæ, bæði Á Hofsvallagötu- og Hringbrautarróló.

VIG_1802_71

Ég fékk einn bláan tuttuguogfimmkrónuseðil fyrir vikuna og það er eina skiptið í lífi mínu sem mér hefur tekist að leggja fyrir peninga.  Ég fékk rosalegt kikk út úr því.  Merkilegt að mér hafi ekki tekist að endurtaka þetta.

Svo fór ég til Köben þegar ég var sautján.  Blómasumarið mikla.  Það fór ekki vel get ég sagt ykkur, þó það hafi akktjúallí líka verið kúl og skemmtilegt.

Ég fór sem blanda af gesti og stugepige hjá sjálfum lögreglustjóranum í Köbenhavn.

Engum aukvisa var treyst fyrir villingnum mér sem þótti til als vís og það með réttu. 

Þar voru engin smábörn, ónei, en hjónin áttu tvo syni, annar var skemmtilegur en sjaldnast heima.  Hinn, hann Morten var nörd og lág í bókum alla daga og átti enga vini.  Ég held að Morten hafi verið smá undarlegur.

Þegar ég var í sólbaði eða að vesenast svona yfirleitt í húsinu þá kom hann aftan að mér.  Hann stóð og glápti eins og hann væri að bíða eftir að ég springi í loft upp eða eitthvað en sagði aldrei orð.  Krípí. 

Svo var mér réttur Manhattan kokteill á hverju kvöldi fyrir mat.  Og annar og annar af því þeim fannst Íslendingurinn svo skemmtilegur rallhálfur með lágmarks þol.

Ég röflaði einhver ósköp og mín uppáhaldssetning var "jag har varit på toiletten i Tivoli". Þvílíkt rugl.

Og ég var snögg að finna mér ábót í vínkjallaranum og man ansi lítið frá seinnipörtum daganna þarna í Valby.

Datt í rúmið á kvöldin nánast rænulaus, en merkilegt nokk þá hafði ég hljótt um mig.

Seinna stakk ég svo af úr þessu endalausa eftirmiðdagspartíi og hélt áfram upp á eigin spýtur við að kanna næturlíf Kaupmannahafnar.

Er það nema von að ég hafi beinlínis setið ofan á dætrum mínum þegar þær voru á þessum aldri.

En engin þeirra reyndist svo með villingagen móður sinnar svo ég hefði getað sparað mér áhyggjurnar.

Framhald seinna.

Nokkru seinna.

Síjú.

 


mbl.is „Börnin mín eru erfið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn heima

 

Ég vaknaði í morgun og mér fannst veðrið frábært og lífið enn betra.

Það er ljúfur laugardagur.

Í dag kemur lítil stúlka til okkar og að sögn ætlar hún að vera lengi, lengi, lengi og alveg þangað til nóttin er búin.

Hún ætlar sem sé að gista.

Við húsband náðum í hana í leikskólann á fimmtudaginn og tókum hana með í vesturbæinn til Jökuls "stórafrænda minn".  Og svo kom Ástrós skádóttir mín elskuleg líka og Jenný Una elskar Ástrósu og kallar hana "Ástrús".  Hér ríkti mikið fjör yfir kvöldmatnum.

Og eftir matinn þurfti hún að fara heim.  Í bílnum reyndi hún að díla við húsband.

Jenný: Ég get ekki farið heim, mamma mín er í skólanum, pabbi minn að spila í Iðnó og Lilleman er úti að leikaW00t.

Hb: Nei Jenný mín, mamma og pabbi eru bæði heima að bíða eftir stelpunni sinni og Lilleman er enn svo lítill að hann getur ekki verið úti að leika.

JU: En ég á ekki heima á Leifsgötu tuttuguogátta, ég er flutt í nýtt hús langt í burtu.  Ég ætla bara að vera hjá ykkur.

Hb: Núna ferðu heim elskan en á laugardaginn kemurðu og þá er frí í leiksólanum og þá máttu gista.

JU: Það ER laufardagur kjáni, ertu búinn að gleymaðí?

Ég hef ekki áhyggjur af að þessi unga stúlka geti ekki komið fyrir sig orði í framtíðinni.

Og svo sagði hún mér á fimmtudaginn að Franklín Máni Addnason hafi "bint" hendina á henni og hún hafi fundið til en ekki lengur.

Amman: En þá verð ég að skamma hann Franklín er það ekki?

JU: Nei amma, fóstran gerðiða.  Hann er alveg orðinn góður núna.

Jájá, annars góð bara.

Gleðilegan laugardag.

Later.


Ekki gera ekki neitt - plís

Ég er sammála Steingrími J. um að menn (konur) komi sér að verki.  En VG gera þá kröfu fyrir hönd þjóðarinnar.  Algjörlega satt og rétt hjá þessum frábæra stjórnmálamanni.

Ef þessi ríkisstjórn gæti hætt að ferðast aðeins og stoppað heima í viku eða svo þannig að hægt væri að kíkja á vandamálin hér innanlands með það að augnamiði að reyna að laga eitthvað svona áður en þjóðfélagið veltur á hliðina og heimilin á hausinn, þá gæti maður kannski leyft sér að draga andann án öndunarvélarinnar.W00t

Í þau skipti sem einhver mér nátengdur er í afneitun á að eitthvað þurfi að taka til bragðs og sá nátengdi er ekki ég sjálf, verð ég skelfingu lostin.

Það er ekki til meira óöryggi en það sem er fólgið í því að láta eins og ekkert sé og vera með nefið ofan í allra manna kirnum öðrum en sínum eigin.

Og svo vil ég koma á framfæri eftirfarandi skoðun minni.

Þar sem ég tel mig til VG og hef tröllatrú á flestum sem þar eru í forsvari verð ég að segja að það bjargaði ekki deginum að frétta að einn þingmaður VG hafi farið á hótelið að Elliðavatni í staðinn fyrir að bruna heim til sín.

Og ég varð öskuill þegar ég heyrði hann réttlæta þennan gjörning í fjölmiðlum og setja sig þar með á bekk með þeim fjölmörgu stjórnmálamönnum sem aldrei sjá neitt athugavert við eigin gjörðir.

Látum hina þingmennina liggja á milli hluta, en Árni Þór af hverju sagðirðu ekki einfaldlega að þetta yrði ekki endurtekið?  

Svo miklu flottara.

Svo legg ég til að þingmenn á Reykjavíkursvæðinu fari heim úr vinnu eftir daginn eins og samborgararnir án tillits til hvað hefur verið til siðs fram að þessu.

Þegar talað er um að við borgararnir eigum að sýna ráðdeild, draga saman seglin og minnka við okkur (Geir Haarde) þá er lágmark að kjörnir fulltrúar okkar gangi á undan með góðu fordæmi.

Og jafnvel þó vel áraði þá eiga svona vinnubrögð að heyra sögunni til.

Fruss.

Fyrirsögn stolið frá Intrum, þar kom að því að ég gat sótt eitthvað í þeirra smiðju, hehe.


mbl.is „Menn komi sér að verki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"It gives me the creeps"

Nei, nei, ekki vera að splattera "heimilisbókhaldinu" í fjölmiðla.

Hvern fjandann kemur okkur almenningi við hvað hinir ósnertanlegu hafast við og hvernig vinir gera upp skuldir?

Bjarni Ben sagði víst við Matta Jó að það giltu aðrar reglur um "þá" og "okkur hin".

Hann átti auðvitað við sig og þá útvöldu sem ekki lytu sömu reglum, sömu lögum.

Og heilbrigðisráðherra biður aldrei um kvittun þegar hann á viðskipti við "vini" sína.

Þetta tal um vini og margumtalaða veiðiferð "gives me the creeps".

Þetta er eins og einhver innmúruð frímúrararegla eða bræðrafélag.

Algjörlega óþolandi.

Og svo sjáum við almúginn um aðhaldssemina bara, herðum sultarólina og svonnnnna.

Hva?


Rosalega geturðu verið mikill plebbi Jenný Anna

Gott að VG og Samfó eru búin að leggja fram fyrirspurn á fundi borgarráðs varðandi bruðlferðina í laxinn í Miðfjarðará í fyrra.

Bónus átti veiðileyfin og tvennum sögum fer af því hver keypti hvað að hverjum.

Annars er mér sama þótt María mey hefði verið eigandi að leyfunum, þetta er alveg út úr kú að menn kjörnir til starfa í þágu almennings séu að þiggja svona "gjafir".

Upp á borð með öll þessi mál.  Afgreiða, búið og bless.

En...

áðan var ég að koma ásamt mínum heppna helmingi út úr einni af búðum Jóhannesar í Bónus.

Geng ég ekki fram á Bónusbóndann sjálfan við einn mann.

Það hljóp í mig gamla hvatvísinn og ég ákvað að testa manninn.

Ég sagði hátt, skýrt og innilega; komdu sæll Jóhannes, eins og hafi þekkt hann frá því í vöggu.

Fyrst kom á aumingja manninn, hann hefur örugglega hugsað, hver er´etta, hugshugshugs og svon brosti hann sínu blíðasta og sagði; Já komdu blessuð og sæl.

Og þá fékk ég bullandi samviskubit yfir að láta eins og asni og rjúka á manninn eins og við værum aldarvinir.

Minn heittelskaði sagði lágum rómi þegar við gengum í burt;

rosalega geturðu verið mikill plebbi Jenný ?

Og nú er ég ævinlega skuldbundin Jóhannesi í Bónus, við erum svo góðir vinir.

Kræst, hvað ég verð að versla við hann forever.  Við erum náin, ég er að segja ykkur það.

En nú veit ég hvernig það er að vera svona nörd sem rýkur á fólk sem allir þekkja.

Lalalala

Nefndin.

 


mbl.is Spyrjast fyrir um laxveiðiferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að láta hafa sig að fífli

Egill Helga er dedd á því að þessi umrædda sólarvörn í fréttinni sé pottþétt.

Ég trúi honum því ég sá hann í sjónvarpinu rétt eftir að hann kom heim frá sælulandinu og hann var fölur eins og Íslendingur einn getur verið.  Litarefni húðarinnar í sögulegu lágmarki.

En vonandi er fólk ekki að trúa auglýsingum um sólarvarnir, snyrtivörur og húðvörur.

Ésús mínn, langt síðan að ég tók þann pakka.

Ég hef t.d. keypt tonn af sjampói sem á að þykkja hárið, láta það glansa þannig að hægt sé að nota haddinn sem spegil og áfram gæti ég talið.  Árangur: Hreint hár og ekki millimeter umfram og það er nóg fyrir mig núorðið. Er hætt að bíða eftir kraftaverkum í sjampóflösku.

Svo eru það snyrtivörurnar.  Maskararnir sem eiga að lengja og þykkja augnhárin.  Mín eru reyndar alveg nógu löng en lengi má við þau bæta.  Á svoleiðis auglýsingum eru módelin undantekningalaust með gerviaugnahár.  Svo skildi ég aldrei í því afhverju mín urðu ekki nógu löng til að ég gæti þurrkað af með þeim.

Varalitirnir sem eiga að vera fastir á vörunum frá morgni til kvölds.  Halló, einhver fallið fyrir því?  Ég hef gert það margoft, ekkert tollir á munninum á mér lengur en mínútu eða tvær.  Lygi og uppspuni frá rótum.

Eða meikin sem heita "age perfect" "aldaylong cover", "soft beauty" og "no more aging".  Jájá, halló, það hefur enginn beðið mig um skilríki í ríkinu síðan ég var 28 ára.  Reyndar er ég edrú og versla ekki við ríkið en mér segir svo hugur að ég sé ekki enn orðin 12 ára í framan þrátt fyrir öfluga notkun á aldurseyðandi meiki.

Nú að kremunum.  Þessum sem bana hrukkum, slétta á þér háls og andlit, taka bauga, strekkja á enni (er einhver í þörf fyrir það?) og taka öldrunarlínur í kringum munn.  Töff shitt en það virkar ekki, algjörlega fullreynt  af mér og mínum vinkonum.

Þess vegna skil ég ekki af hverju maður er í því að halda fullt af fólki í vinnu við að láta ljúga að sér.  Nei ég er ekki að tala um pólitíkusana sem við kusum yfir okkur síðast, hehemm... en sá misskilningur á fullan rétt á sér.

Heill bransi sem veltir milljörðum gengur út á að hafa konur að fíflum.  Er ekki í lagi - ha?

En lífið yrði svo leiðinlegt ef við létum ekki glepjast annað slagið af gylliboðunum um eilífa æsku í dós eða túbu.

Við konur erum líka búnar að ná skýrum skilaboðum frá fegrunar- og tískuiðnaðinum.

Hann er sá að daginn sem við verðum 25 ára erum við komnar með aðra löpp í gröf útlitslega séð og þurfum að byrja að bera á okkur eins og enginn sé morgundagurinn.

En það er bannað að auglýsa í þriðja stigi lýsingarorða.  Það má ekki segja að vara sé best, ódýrust, eða fallegust á markaði.

En ætli það megi segja að hún sé skást?

Fjandinn að ég viti það.

 

 


mbl.is Fullyrðingar um sólarvörn bannaðar í auglýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

..og berin voru súr

 

Uppáhaldslykt Breta er af "fish and chips" og ég er ekki hissa.

Morgunmaturinn er það eina sem breskir kokkar fremja ekki kviðristu út af og matarsmekkur þjóðarinnar er í stíl við það.

Að þessu sögðu þá ætla ég að trúa ykkur fyrir því að ég fór að hugsa um lyktir.  Að þessu sinni aðallega þær sem mér þykir bestar.

Lyktin af börnum, sérstaklega þessum glæ nýju.  Jesús minn, ekkert sem toppar það.

Lyktin af uppáhaldsilmvatninu Famme sem auðvitað er hætt að framleiða, orðið svo gamalt, eins og ég.

Rjúpnalyktin á aðfangadag er sú öflugasta sem ég veit um.  Hún er af lyngi, jólum, hátíð og gleði. Helvíti leiðinlegt að það skuli þurfa að taka veð í fasteign til að geta eignast fuglinn einu sinni á ári.  Lífið er óréttlátt.

Ég fæ stundum kast á kartöflupoka og anda að mér moldarlyktinni upp úr þeim.  Stundum hefur þetta lyktarblæti verið þannig að ég hef nánast sofið með friggings pokann upp að nefinu.

Og svo er það lyktin sem hendir mér tuttugu til þrjátíu ár aftur í tímann.

Patchoil - hippalyktin sú, fann hana fyrir nokkrum árum í mannmergð og hné nánast út af í nostalgíu, ég var komin í Tjarnarbúð, Glaumbæ og Sigtún bara þar sem ég stóð, hviss-púmm-bang. 

Ákveðin meiklykt minnti mig á Inoxa litaða dagkremið sem ég sletti á andlitið á mér á gelgjunni og takmarkið var að glansa sem mest.  Ég vona að ég hafi þroskast nokkuð.

En þá man ég eftir því.  Sko í snyrtibuddu unglingsáranna var áðurnefnt Inoxa meik, House of Whestmore ógeðismaskari sem lengdi augnahárin eða hefði gert hefðu auglýsingar þess tíma verið marktækar, hvítur sanseraður eða mattur varalitur og mellubleikur líka á góðum degi.

Ég náði þeirri færni sem fátíð var og hefur enn ekki verið toppuð, að mála mig í strætó á fljúgandi ferð í hálku og sköflum, án spegils, eftir minni.  Málið var að það var bannað að mála sig, þannig að neyðin kenndi ómálaðri stúlku að spinna.

Æi ég er að missa mig í eitthvað hérna.  Löngu liðnir tímar, hvað er svona merkilegt við þá?

Ekki nokkur skapaður hlutur.

Og berin voru súr!

Uppáhladslykt einhver?


mbl.is Uppáhaldslyktin er frá „fish and chips"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dansinn kringum gullkálfinn

Ég er eiginlega með óbragð í munninum vegna frétta af þessu bruðlinu og hinu sem maður heyrir um nánast daglega nú um stundir.

Laxveiðiferðin hjá Villa, Binga og Gulla heilbrigðis er eitt dæmið.

Könnunarferð Samgöngunefndar um Stór-Reykjavíkursvæðið þar sem nefndarmenn gistu á Lúxushóteli við Elliðavatn, í staðinn fyrir að fara heim til sín,  er annað dæmi um þessa firringu fólks sem er kjörið af almenningi til að gæta hagsmuna okkar.

Fimm milljónir fóru í ferð Þorgerðar Katrínar til Kína, ásamt maka og ráðuneytisstjóra sem líka tók með sér hinn helminginn.

Þá erum við að tala um tvær ferðir, dagpeninga, hótel og ferðalög.

Í mínu bókhaldi eru fimm milljónir króna ansi miklir peningar.

Það virðist engu máli skipta þó hvert bruðlmálið komi upp af öðru, áfram heldur dansinn í kringum gullkálfinn.

Ég auglýsi eftir ráðdeild og eðlilegum viðmiðum í eyðslu og meðferð á peningum skattborgaranna.

Það þarf hagsýnar húsmæður í landsbókhaldið ég veit um margar svoleiðis.  

Og ef fólk vill fara tvívegis til Kína í stað einu sinni og ef sumir vilja veiða lax í snobbám er ekki hægt að rífa upp vísakortið eða debbann og gera það fyrir eigin reikning?

Hvers eigum við almenningskrúttin í lífsbaráttunni að gjalda?

Það er ekki eins og þetta fólk sé á strípuðum verkamannatöxtum.

Arrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrg

 


mbl.is Kínaferðir kostuðu 5 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðubömmer

Það gengur næst klámi þessa dagana að hafa öðruvísi skoðanir en vei,vei,vei, á handboltafyrirkomulaginu.

Ekki misskilja ég er voða stolt og glöð af strákunum, þetta hefur ekkert með þá að gera.

En ég er ekki hrifin af orðum sko þessum sem fólk hengir utan á sig.  Mér finnst það svo rosalega mikil tímaskekkja þetta prjál og punt sem fólk skreytir sig með. 

Orður eru birtingarmynd hins stéttskipta samfélags að mínu mati, jafnvel þótt venjulegt fólk fái þær fyrir vel unnin störf í þágu ladídadída.

Þetta eru leyfar af konungsríkinu Íslandi.  Burt með það.

Ég vildi óska þess að ÓRG hefði ekki látið sér detta þetta í hug í gleðilátunum úti í Peking.

Að hann hefði heldur látið sér detta í hug að gefa liðinu bara meiri pening til styrktar íþróttinni.

Af því að mér datt í hug að kannski væri einhver þarna innanborðs sem hugsar eins og ég eða: Ef mér yrði einhvern tímann boðin orða þá myndi ég segja "takk, en nei takk, ekki að ræða það".

Það væri dálítið glatað er það ekki fyrir viðkomandi að segja nei í þessum aðstæðum?

Og svo fengu alls ekki allir orðukvikindið.

Einhverjir eru útundan.

En hvað um það, ég ætla ekki á fagnaðarfundinn hjá landsliðinu, ekki frekar en ég fer sjálfviljug á aðrar fjöldasamkomur.

Ég ætla að eyða deginum með frábærum manni.

Maðurinn er 8 mánaða ofurkrútt og heitir Hrafn Óli.

Dada.


mbl.is Orður til á lager
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 2988478

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.