Færsluflokkur: Lífstíll
Sunnudagur, 26. október 2008
Sameinuð stöndum við- sundruð föllum við
Mótmæli eru ekki vel séð á Íslandi - það er nokkuð ljóst.
Almenningur sjálfur er líka seinþreyttur til vandræða og það þarf að ganga mikið á áður en fólk steðjar af stað.
Svo eru margir þeirrar gerðar að þeir nenna ekki að lyfta afturendanum sjálfum sér til bjargar og eru ánægðir með að aðrir sjái um það bara.
Nú er búið að mótmæla tvo laugardaga í röð, í gær án mín sem er náttúrulega djöfullegur skaði fyrir málstaðinn.
Stöð 2 hefur fryst töluna 500 í þátttökufjölda og mun hún verða endurnýjuð og uppfærð um mitt næsta ár.
En ég er reið þó ég fari vel með það.
Hvernig vogar sér sumt fólk með athyglisþörf sem gerir sjálfri Madonnu skömm til að kljúfa samstöðuna sem hefur myndast og bæta við mótmælum ofan á þau mótmæli sem voru ákvörðuð fyrir viku?
Hver er ástæðan? Varla málefnið - allir virðast vera sammála um þau.
Alveg er mér skít andskotans sama hver blæs til mótmælanna - ég vil bara að þau fari fram.
Puntudúkkur á öllum aldri verða að slá sér upp á öðru en baráttumálum almennings í þessu landi. Það er ekki málefninu til stuðnings að sýna þeim sem vilja að við sitjum og þegjum, hneigjum okkur og látum segja okkur að vera stillt, að sýna þennan fádæma vanþroska í framkomu eins og gert var í gær.
Það má vera að það sé ekki búið að einkavæða mótmæli á Íslandi en það ætti að lögvernda þau gagnvart kverúlöntum og lýðskrumurum sem nota þau til að vekja athygli á sjálfum sér fyrst og fremst.
Kannski var þetta í góðu gert. Kannski var ágreiningurinn um málefnin svona djúpstæður og óleysanlegur og almenningur algjörlega í blindu með hvað væri í gangi.
Ef svo er þá biðst ég auðmjúklega afsökunar, en þá fáum við væntanlega útskýringu á hvar sá ágreiningur liggur.
Ég verð að geta kynnt mér þau málefni sem hópunum greinir svona skelfilega á um að það þarf að skipa sér í tvær sveitir - halda tvo fundi.
Ef þið sem að því stóðuð að breytingunni frá áður auglýstum mótmælafundi vildu vera svo væn að útskýra fyrir okkur massanum?
Með kveðju frá undirritaðri sem finnst sorglegt og sárt að sjá málstaðinn eyðilagðan með svona andskotans fíflagangi.
Að minnsta kosti gef ég mér að þessi fáránleiki verði ekki endurtekinn n.k. laugardag.
En svo má auðvitað segja að það séu bara kommatittirnir sem mótmæla.
Jájá og allir í úlpum, tréklossum og með svart-hvítt sjónvarp.
Það er þá líka vatn á myllu "háðfuglanna" sem sitja heima á sínum feita rassi heima í stofu.
Hér er einn froðusnakkurinn sem vill auðvitað troða okkur öllum með sér í sektarbátinn eða skútuna. Hehemm.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Laugardagur, 25. október 2008
Ávísun á vonbrigði
Ef ég ætti peninga til að geyma myndi ég hafa þá í frystihólfinu, einfalt og þægilegt.
Ég hef geymt vísakortið mitt í frystikistunni og varð að bíða með að nota það þangað til frostpakkinn utan um það þiðnaði. Það endaði samt með að sumir skiluðu inn sínu greiðslukorti. Jájá.
En trúir einhver á málefnasamning ríkisstjórnarinnar núorðið?
Voandi ekki því það er ávísun á vonbrigði.
Samningar gerðir, hviss, fruss og læti í penna, blekið þornar og allt er gleymt.
Svo sá ég svo dúllulega frétt á DV sem gladdið mig alveg sérstaklega.
Ég er svo fegin að útrásin skuli skila einhverju okkar þaki yfir höfuð.
![]() |
Innstæður frystar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 25. október 2008
Ég, hið seka samfélag
Þeir segja að það séu mjög erfiðir tímar framundan.
Ég, meira að segja held að það séu helvíti erfiðir tímar framundan, spurningin er hvernig við ætlum að takast á við það og halda geðheilsunni.
Þessir dagar óvissu og endalausrar biðar eru eins og í draumi, draumi sem ekki er líklegt að við vöknum upp af á næstunni.
Þegar það kom í fréttum að það yrði jólatrjáaskortur fölnaði ég þar sem ég sat í minni eðalstofu og ég greip um hjartað. Guð hjálpi okkur öllum stundi ég þar sem ég sat með augun uppglennt af skelfingu. Var enginn endir á hamförunum?
Það voru verstu fréttir sem ég hafði heyrt lengi - sko þangað til að ég mundi eftir að Hljómsveitin hafði neytt mig (já með andlegu offorsi) til að kaupa gervitré fyrir tveimur árum síðan en hann hefur barist fyrir þessu hjartans máli sínu í áraraðir. Á þessu heimili eru öll baráttumál vandlega valin með tilliti til þarfa alls mannkyns. Enginn helvítis hégómi hér.
Húsband náði mér, sem sagt þar sem ég var aum og meðfærileg og nýlega komin úr meðferð hvar ég gekk óstyrkum fótum í jólatrésskógi Garðheima, vart vitandi hvort ég var komin eða farin.
Plattréð var keypt. Það er með margra ára ábyrgð. Jájá.
Þegar ég mundi þetta varð ég afskaplega hamingjusamur jólafrömuður og ég nananabúbúaðist út í alla sökkerana sem enn eru að kaupa lifandi dauð jólatré frá Danmörku.
Já það eru vissulega erfiðir tímar framundan en hjá mér er jólatrésvandamálið mikla leyst og það breytir auðvitað heilmiklu.
Ég get ekkert verið að horfast í augu við þessa kreppu þannig lagað séð fyrr en jólin eru búin.
Jólin eru fyrst á dagskrá - örvæntingin ein tekur svo við í janúar enda janúar fínn bömmermánuður.
Það er svo sem búið að reyta af manni skrautfjaðrirnar í lifnaðarháttum fyrir lifandis löngu þannig að ég er ekki hrædd um að ég muni fara einhvers á mis.
Ég er reyndar enn í áfalli yfir rjúpnastatus undanfarinna ára og í fyrra bauðst mér þessi nauðsynlegi hátíðarmatur á 5000 krónur stykkið. Já þakka kærlega fyrir en ég gat ekki þegið það vegna þess að ég átti ekki íbúð með lausum veðréttum til að nýta mér þetta frábæra tilboð.
Íslendingar (lesist rjúpnasalar) eru alls ekki gráðugir og nýta sér ekki samdrátt á fuglamarkaði til að hagnast feitt - ónei.
Annars veit ég ekki hvað ég er að röfla hérna vitandi að það eru erfiðir tímar framundan.
Ég ætti að vera að taka slátur, míga á hákarl eða hreinlega vera að stela mér kjöti á fæti fyrir mig og mína fjölskyldu.
En ég viðurkenni hér með að ég er ábyrg á útrásarsukkinu, Björgvin viðskipta og bankamála sagði það beinum orðum í Kastljósi gærkvöldsins. Hann sagði eitthvað á þá leið að allt samfélagið væri ábyrgt.
Hann er einmanna þarna á ábyrgðartoppnum maðurinn og ég skal taka á mig skellinn, ég er nefnilega hið seka samfélag.
Með mínar 170 þúsundir í lommen á mánuði hef ég ekki linnt látum í útrásarævintýrinu.
Ég átti bara eftir að versla mér þotu þegar allt hrundi.
Dem, dem, dem, svona er að þekkja ekki sinn vitjunartíma.
Allir glaðir í bjóðinu.
Jefokkingræt.
![]() |
Mjög erfiðir tímar framundan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Föstudagur, 24. október 2008
Engin kreppa
Veðrið er í stíl við kreppuna, togari losnar frá bryggju, þakplötur fjúka og það hvín og syngur í öllu.
Ég vakna á óguðlegum tíma þessa dagana og ég skrifa það algjörlega á reikning spennu og óvissu í samfélaginu.
En áður en ég geysist af stað í ástandsbloggi þá er hérna smá kreppujöfnun.
Barnabörnin mín Jenný Una og Oliver Einar eru ekki í kreppu heldur þvert á móti.
Hjá þeim er lífið dásamlegt eins og sjá má af þessari mynd.
Hún er tekin í síðustu viku áður en Oliver fór aftur heim til Englands.
Ég held að taka mér þau til fyrirmyndar og reyni að hafa gaman af lífinu.
Blessuð börnin hafa auðvitað engar forsendur til að skilja að þau eru flokkuð með hryðjuverkamönnum né heldur hafa þau grænan grun um að á þeim muni hvíla skuldir sem gerir hverju stórfyrirtæki í slæmum rekstri skömm til.
Annars les ég mikið sem endranær og ég ætla að dunda mér við það um helgina.
Farið varlega í veðurhamnum krúttin mín.
Ég kem aftur tvíefld eftir morgunbænir.
Jájá.
![]() |
Togari slitnaði frá bryggju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 07:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 23. október 2008
Breitt bak í vesen og tjón
Kannski er ég haldin ofsóknaræði en þegar ég hlusta á Birgi Ármannsson, forsætisráðherra, Seðlabankastjóra og alla hina kallana, þá fæ ég á tilfinninguna að þeir tilheyri einhverskonar leynireglu sem skiptir þá miklu máli, meira máli en hagsmunir almennings.
Það er eins og hjörtu þessara manna slái í takt.
Þeir tala eins, þeir standa saman í gegnum þykkt og þunnt.
Ok, ég tek því þá ef ég er að kafna úr samsæriskenningafári, ég hef breitt bak í vesen og tjón.
Birgir vill ekki gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að frysta eigur þeirra manna sem eiga þátt í falli bankanna.
Hann talar um að það sé ekki stemming fyrir neyðarlögum einkum og sér í lagi þar sem hryðjuverkalögum hafi verið beitt á Íslenska þjóð.
Halló, er það sambærilegt?
Fyrirgefið á meðan ég bregð mér aðeins frá til að veina hástöfum.
Komin aftur.
Við erum í klúðri, almenningur borgar, segja þeir eða amk. eru það skilaboðin í því sem þeir segja mennirnir.
Við Íslendingar höfum ekkert val, við sem komum ekki nálægt peningageðveikinni, lúxusnum og ruglinu sitjum uppi með reikninginn. Við skulum borga og brosa ekkert kjaftæði.
En það má ekki taka þær eignir sem eftir standa til að lámarka skaðann. Ónó, það er gerræði.
Ég held að Bræðrabandið sé staðreynd.
Súmí en ég held það samt.
Skítt með það þó ég verði færð í vatteraðan klefa í klædd undarlegri treyju sem gerir ekkert fyrir mig svona úlitslega séð.
![]() |
Vill ekki frysta eignir auðmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 23. október 2008
Gegnsæi eða hitt þó heldur
Það gerist allt svo hratt þessa dagana að maður má hafa sig allan við að fylgjast með.
Ekki að það hafi komið mikið út úr leynifundum, þreifingum og slíku en óróinn er gífurlegur.
Sko, launamál nýju bankastjóra RÍKISBANKANNA hafa ekki fengið verðskuldaða athygli.
Ég ætla að gefa þeim mína.
Ég trúði því að nú þegar gömlu aðferðirnar við að reka þjóðfélag hafa keyrt í strand þá myndi amk. verða tekin upp ný vinnubrögð við rekstur ríkisfyrirtækja. Já, bankarnir eru í opinberri eigu og þeir sem þar starfa eru opinberir starfsmenn.
Það ber ekki mikinn vott um nýja hugsun að bankastjóri Nýja Kaupþings skuli vera með hærri laun heldur en t.d. forstjóri ríkisspítalanna.
Á ríkisspítölum er verið að fást við líf fólks og heilsu, í bankanum er verið að höndla með peninga (þe. ef einhverjir eru).
Ergó: Enn skulu störf með peninga verið metin æðri en þeirra sem sinna líkamlegri og andlegri heilsu landsmanna.
Meira að segja forsætisráðherrann er hálfdrættingur á við bankastjórann í Kaupþingi.
Meira bölvað ekkisens ruglið í þessu fólki.
Kannanir hafa sýnt að launamunur kynjanna hjá opinberum fyrirtækjum hefur aukist þvert ofan í yfirlýsingar stjórnvalda um að minnka hann og útrýma á endanum.
Einn helsti óvinur launajafnréttis er launaleynd.
En hvað gerist nú þegar "nýir tímar" renna upp?
Jú,jú, stelpurnar hjá Lands- og Glitnisbanka neita að gefa upp launin sín!
Ég vil minna bæði stjórnvöld og viðkomandi bankastýrur á þá augljósu staðreynd sem kannski er þeim ekki svo augljós þegar á allt er litið - að við almenningur eigum þessa banka, ekki að við höfum kært okkur um þá heldur var þeim neytt inn á okkur þegar þeir voru komnir á höfuðið og peningarnir allir á bak og burt. Týndir.
Ég vil fá að vita hvað við erum að borga ÖLLUM okkar bankastjórum í laun og svo vil ég fá að hafa á því skoðun.
Allt kjaftæði ráðamanna um að nú skuli renna upp dagar nýrra vinnubragða, gegnsæis (ofnotaðasta orð í tungunni fyrir utan einelti) virðist ekki vera nema orðin tóm. Amk. ennþá.
Á borðið með laun opinberu starfsmannanna í bönkunum, svo við getum borið þau saman og haft á þeim skoðanir.
Gensæi hvern andskotann!
Laun æðstu stjórnenda hjá ríkinu (fréttir á RÚV í gær).
Lesið hann Viðar sem bloggar um þetta mál.
Adjö!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Miðvikudagur, 22. október 2008
Hann gekk ekki út í járnum
Nei sko, Hreiðar Már er hættur hjá Kaupþingi.
Fór þaðan við hátíðlega athöfn hvar hann kvaddi starfsfólkið með handabandi og þakkaði fyrir sig.
Síðan yfirgaf hann bankann.
Tatarata...
Hann gekk ekki út í járnum.
Nú er að klára fleirihundruðfermetraferlíkið við Hreðavatn og tjilla fallega.
Lesið hann Jónas gott fólk hann fer á kostum þessa dagana.
En að mér..
Ég tók drastíska ákvörðun áðan.
Ég er hætt að drekka kók. Sko málið er að ég er orðin má háð helvítis svarta heimsvaldadrykknum.
Mér finnst nóg að vera háð sígós í kreppunni og vill því leggja mitt af mörkum til að koma Vífilfelli á kúpuna... DJÓK
Síðan ákvað ég að drekka kaffi í stað kóksins og gerast hipp og kúl.
Kaffi hefur alltaf verið drukkið af íslenskum almenning.
Þar sem ég er ákaflega meðvituð um það þessa dagana að ég er pjúra almenningur þá er ekki seinna vænna.
Ég man þegar amma mín hellti upp á "blessaðan sopann" með heimagerðum kaffipoka. Hún notaði Ó.Jhonson og Kaaber og drýgði með Exporti.
Ég ætla að vera alveg sá kall. Sko Exportkallinn.
Smá nostalgíumoli til að orna ykkur við.
Muniði eftir rauðköflóttu jóla mjólkurhyrnunum?
Ómægodd ég er farin í vegg.
Ég bið að heilsa Hreiðari Má og óska honum góðs gengis í nýju landi.. þorrí ég meina starfi.
![]() |
Hreiðar Már yfirgefur Kaupþing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Þriðjudagur, 21. október 2008
Verum hávær, bálill og óþreytandi
Þessa dagana ligg ég yfir báðum fréttatímum og ég gleypi í mig allar upplýsingar (eða skort á þeim) af gangi mála.
Svo bíð ég eftir Íslandi í dag og Kastljósi. Ég vil fá að heyra fólk ræða um það sem er mögulega að gerast, hvað bíður okkar, hvað er það versta mögulega sem gæti dunið yfir eða það skársta sem við getum sloppið með?
Kemur ekki Ísland í dag með ladídadí prest og sálfræðing. Halló, það var prestur sem malaði eitthvað yfirborðsjukk í Kastljósi í síðustu viku er það ekki nóg?
Umfjöllunarefni dagsins var reiðin. Reiðin sem fólk er haldið þessa dagana, við verðum að beina henni í réttan farveg ef ekki á illa að fara. Blablabla.
Klisjur, klisjur, klisjur.
Ef ég er í kreppu þá fer ég til geðlæknis eða sálfræðings og borga fyrir það og vonast eftir príma þjónustu.
En að taka magasínþátt undir þetta kjaftæði pirrar mig óstjórnlega.
Sko, ég er bálreið þessa dagana, svo reið að það væri hægt að lýsa upp með mér heilan fokkings banka ef einhverjum dytti í hug að virkja geðslag mitt.
Ég VIL vera reið. Ég vil ekki heyra eitthvað malímalívæmívæm um að beina reiðinni út á sjó, til guðs ofan í kjallara eða að næstu kirkju.
Ég ætla að næra mína reiði bara svo það sé á hreinu og ég ætla líka að fullvissa mig um að hún haldi mér vakandi og gefi mér nennu til að fylgjast með því sem er að gerast í kringum mig.
Ég vil ekki hafa að einhver reyni að slá á hana. Þessi reiði er mér kær, ég næri hana og elska hana eins og börnin mín.
Tilfinningar eru eðlilegar. Vænti ég. Eða hvað?
Það er eðlilegt að vera glaður, hryggur, pirraður, lítill í sér og gargandi happí. Þá hlýtur reiðin að eiga sama tilverurétt er það ekki?
Hér stoppa ég til að ná andanum og lauga andlit mitt úr köldu vatni.
Þessi kona hérna fer því fram á að umræðan í magasínþáttum fjalli um það sem skiptir okkur mestu máli núna í augnablikinu.
EFNAHAGSÁSTANDIÐ Á ÍSLANDI OG ALLAN ÞANN ANDSKOTANS BALLETT.
Svo getum við grenjað, kyrjað, legið á hnjánum og kastað steinum í krúttlegri fjandans fjörunni þegar allt er afstaðið.
Þangað til verum hávær, báill og óþreytandi!
Capíss?
Ég bist afsökunar á orðbragðinu er eitthvað æst svona. Jeræt.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
Þriðjudagur, 21. október 2008
Slegin óhug - nema hvað
Á heimasíðu breska fjármálaráðuneytisins er að finna upptalningu á þeim löndum og stofnunum sem nú sæta refsiaðgerðum á sviði fjármála frá hendi Breta.
Á listanum má finna lönd einsog Súdan, Simbabve, Búrma, Norður-Kóreu, Lýðveldið Kongó... og Landsbankann.
Í fréttinni segir að Landsbankinn sé í slæmum félagsskap.
Það fer auðvitað eftir því hvoru megin við borðið þú situr.
Eða hvað?
Búrma og félagar geta í ljósi aðburða síðustu vikna haldið því fram með þó nokkrum rétti að þeir séu í slæmum félagsskap Landsbankans.
Úje
En.. Það eru allir að tala um að hitt og þetta veki óhug. Hafið þið tekið eftir því?
Alveg: Ég er slegin óhug yfir efnahagsástandinu.
Ég er slegin óhug yfir spillingu útrásarvíkinganna og lömun stjórnvalda og hjálparleysi.
Á DV eru menn líka slegnir óhug.
Af aðeins öðrum hvötum reyndar, en óhug samt.
Kem marefld til baka eftir fréttir.
Lífið er skítt og á eftir að versna.
Eða þannig.
Jájá, auðvitað elska ég ykkur.
![]() |
Landsbanki í slæmum félagsskap |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Mánudagur, 20. október 2008
..og ég drakk
Á RÚV segja þeir frá því að óvirkir alkar séu að falla þessa dagana vegna kreppunnar.
Vogur fullur.
Vogur er alltaf fullur - af fólki á ég við svo ég sé ekki alveg hvar þessi breyting á að koma fram.
Reyndar var mér sagt í meðferð oftar en einu sinni að allar sveiflur bæði upp og niður séu okkur ölkum hættulegar.
Ég drakk;
af því það rigndi, af því sólin skein, af því ég var blönk, af því ég átti peninga, af því ég var í fríi, af því ég komst ekki í frí til að drekka til að geta haldið upp á að vera í fríi.
Ég var svöng og ég drakk.
Ég var södd og ég drakk.
Ég gat ekki sofið og ég drakk.
Ég svaf of mikið og ég drakk.
Ég var leið og ég drakk.
Ég var glöð og ég drakk.
Ég drakk þangað til að ég drakk ekki lengur.
Myndi einhver segja að ég hafi verið í þörf fyrir meðferð?
Hm....?
Kreppunni slær auðvitað alls staðar niður.
Sorglegt.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.9.): 5
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 42
- Frá upphafi: 2988474
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 29
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Færsluflokkar
- Bláar eyllýar
- Bloggar
- Bækur
- danskar kjötbollur með sósu
- Dómar
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Femínistablogg
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Halloki
- Hamfarablogg
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hneyksli
- Íþróttir
- Jólafár
- Kjaramál
- kvikindiskapur og illt umtal
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Lúkas
- lygasögur
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjálfsdýrkun
- Sjónvarp
- Snúra
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Synt til sigurs
- Synt yfir sundið
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Þvagleggur
Eldri færslur
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
Tenglar
Tónlist
Vinir og fjölskylda
Vinkonur
Ég les alltaf
Netmiðlar
Tónlistarspilari
Bloggvinir
-
draumur
-
jonaa
-
hronnsig
-
larahanna
-
skessa
-
eddaagn
-
amman
-
annabjo
-
annambragadottir
-
annaragna
-
asthildurcesil
-
kolgrima
-
birnan
-
bjarnihardar
-
brjann
-
brylli
-
christinemarie
-
danjensen
-
lillagud
-
disadora
-
einari
-
einarorneinars
-
emm
-
estro
-
evabenz
-
fifudalur
-
garun
-
gelgjan
-
gunnarggg
-
halkatla
-
halo
-
hildurhelgas
-
heidah
-
helgamagg
-
hildigunnurr
-
iaprag
-
hlynurh
-
hugarfluga
-
hugsadu
-
ibbasig
-
katrinsnaeholm
-
ingolfurasgeirjohannesson
-
jogamagg
-
jara
-
jensgud
-
katlaa
-
krummasnill
-
krissa1
-
lehamzdr
-
ktomm
-
laufeywaage
-
lauola
-
lindalinnet
-
madamhex
-
maggij
-
majaogco
-
mariakr
-
markusth
-
meistarinn
-
motta
-
nimbus
-
olinathorv
-
pollyanna
-
ragnarfreyr
-
ragnhildur
-
ringarinn
-
rosa
-
roslin
-
saedis
-
sailor
-
salkaforlag
-
skordalsbrynja
-
skrifa
-
snar
-
soley
-
steingerdur
-
steinnhaf
-
steinunnolina
-
stinajohanns
-
sunnadora
-
svetlana
-
thuridurbjorg
-
tibet
-
tigercopper
-
toshiki
-
unns
-
valgerdurhalldorsdottir
-
wonderwoman
-
vefritid
-
vest1
-
bidda
-
zeriaph
-
killjoker
-
sisvet
-
gudrununa
-
dora61
-
possi
-
gelin
-
silfri
-
jyderupdrottningin
-
gretaulfs
-
sibba
-
baldvinj
-
stjaniloga
-
bokakaffid
-
kreppukallinn
-
jonerr
-
gerdurpalma112
-
adhdblogg
-
astafeb
-
snjolfur
-
haddih
-
brell
-
reisubokkristinar
-
little-miss-silly
-
baldis
-
olofdebont
-
kikka
-
jarnar
-
thorolfursfinnsson
-
birnast
-
vrkristinn
-
leifur
-
astroblog
-
bjarkey
-
manisvans
-
siggisig
-
nordurljos1
-
gunnaraxel
-
ragnar73
-
sij
-
kreppu
-
runirokk
-
gotusmidjan
-
dorje
-
slembra
-
skari60
-
must
-
fhg
-
aevark
-
fridaeyland
-
hedinnb
-
cakedecoideas
-
taraji
-
audurproppe
-
kollakvaran
-
finni
-
arnaringvarsson
-
samstada
-
drum
-
gretarogoskar
-
tbs
-
vistarband
-
valdivest
-
fingurbjorg
-
gustichef
-
skulablogg
-
andreskrist
-
fasteignir
-
rognvaldurthor
-
helgatho
-
gullfoss
-
bailey
-
jennystefania
-
gattin
-
annaandulka
-
ansy
-
gumson
-
berg65
-
bjarnimax
-
brahim
-
elin
-
gudlaugbjork
-
dramb
-
gudrunkatrin
-
hvilberg
-
himmalingur
-
ingaragna
-
naflaskodun
-
kiddirokk
-
sigurborgkrhannesdottir
-
joklamus
-
stjornlagathing
-
saemi7
-
unnurgkr