Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Snúra

Steiktir heilar..

Ég veit ekkert hvort það er hægt að banna náttúruafurðir eins og sveppi sem valda eldamennsku í heilanum.  Ég veit ekki einu sinni hvort það er gerlegt að gera það að glæpsamlegu athæfi að týna sér jurtir til neyslu.  Ég er a.m.k. ekki að missa svefn yfir því. 

En myndbandið sem fylgir þessari frétt er alveg stórgott sem fyrirbyggjandi aðgerð.  Ef fólkið í mótmælahópnum er skoðað, sést að það er nú svona frekar veðrað og sjúskað af neyslu.  Svo segir það líka heilmikið um dómgreindarleysi fíkla, að taka börnin sín með sér í mótmælin, skreyta þau með teiknuðum sveppum og sjá nákvæmlega ekkert athugavert við það.

Ég sting því upp á að þeir í Amsterdam sýni bara myndbandið og ég er viss um að það á eftir að skila góðum árangri.

Hver vill ganga um og láta það standa utan á sér að heilinn sé gjörsamlega steiktur og kominn að fótum fram?

Efast um að það sé mikill áhugi á að taka sér það til eftirbreytni.

Algjör snilld.

Ójá.


mbl.is Mótmæltu fyrirhuguðu banni á sölu ofskynjunarsveppa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöðug afmæli hjá alkanum

Ég er rosalega upptekin af dagsetningum og slíku.  Stundum er húsbandið að tala um eitthvað og þá segi ég: "gerðist það þegar við bjuggum á sóandó og við áttum þennaneðahinn bílinn".  Já, segir hann kannski og heldur áfram að tala og þá gríp ég gjarnan frammí aftur og segi eitthvað á þessa leið: Ójá, ég man eftir þessu, manstu það var daginn áður en við gerðum blablabla og þú varst í þessum jakka blablabla og tveim dögum síðar þá gerðum við blablabla". Þá er þessi ofurrólegi maður, orðinn dálítið vonlítill um að geta klárað það sem hann var að segja og oft er hann búinn að gleyma því.

Ég er nefnilega fortíðarfíkill. Ég man lyktir, stemmingu, klæðaburð, smáatriði og hefði með réttu átt að vera að vinna í safnadeild, eða í leikhúsi eða eitthvað, ég man í smáatriðum eftir eldhúsáhöldum frá hverjum tíma, gluggatjöldum, lykt úr görðum og bara að nefna það.  Ég er gangandi heimildarrit um fortíðina en eftirspurnin er engin.

En í dag brást mér bogalistin.  Ég átti árs edrúafmæli þ. 5. október s.l. og auðvitað fékk ég milljón kveðjur og allt í góðu með það.  En þ. 25. október kom ég út af Vogi, eftir 20 daga meðferð, skjálfandi á beinunum af ótta við að ég myndi jafnvel ekki standa mig.  Ég man hvernig ég var klædd, við hverja ég var að tala áður en ég gekk út úr húsinu, hvar við stoppuðum á leiðinni ég og húsbandið til að kaupa í matinn, hvað ég keypti í matinn, yfir hverju ég röflaði, þegar ég kom heim og áfram og áfram.  Það tilkynnist því hér með að ég ég átti örafmæli í gær, sem skiptir bara máli fyrir mig og engin ástæða til að blása í lúðra út af því.

Í raun á ég einhverskonar afmæli á hverjum degi. Ekki bara edrúafmæli sko.  Hvernig haldið þið að það sé að vera uppfullur af ónauðsynlegum upplýsingum, sem fáir hafa áhuga á?  Ég geri auðvitað mitt besta til að koma þeim á framfæri og það brestur á fjöldaflótti sálna, þegar mér tekst hvað best upp.

Svo leiðrétti ég fólk í minni fjölskyldu sem fer ekki rétt með sögulegar staðreyndir úr fjölskyldulífinu.  En það er ekki alltaf, bara þegar eitthvað mikilvægt er í umræðunni, eins og hvaða ár við fengum ekki rjúpur, hvenær við tjölduðum í Atlavík og áfram og áfram.  Eins og ég er skemmtileg kona.

Svo man ég EKKI hvar ég var þegar Díana prinsessa dó!! Haldiði að það sé?

Hvað um það, í dag fyrir ári síðan, fór ég í þvottahúsið um 11 leytið og þvoði tvær vélar, okok, ég er að fokka í ykkur og gera grín að sjálfri mér í leiðinni.

OMG, eins og við segjum stundum í bloggheimum, þá blogga ég til að gleyma og í mínu tilfelli er það pjúra sannleikur.

Ég er farin að sofa, bláedrú og minnið er sífellt að skerpast. Þetta á eftir að enda með ósköpum.

Úje.


Að vera edrú en dröggeraður!

Ég fór í rannsókn, ég fékk róandi eða slakandi/eitthvað í æð og mér leið eins og þurs hefði sest á herðarnar á mér og bómull hefði verið troðið í hausinn á mér.  Tilfinningin var ekki góð, sem betur fer og ég gat ekki beðið eftir að hún hundskaðist burt, sem hún er í þann veginn að gera, amk er skjárinn orðinn sýnilegur og lyklaborðsverkfærin hlaupa af mikilli snilld yfir téð borð.

En ég þarf að fara aftur þ. 5. nóvember.  Den tid den sorg.

Niðurstaða úr rannsókn: Ekki neitt rosalega góð, en gæti verið verri.

Vildi bara segja ykkur að vímur eru ofmetnar.

Mikið rosalega er ég glöð með að þetta sé að baki.

Það er allt útlit á að ég leggist edrú á koddann í kvöld.

Guð gefi mér æðruleysi...

Love you guys og takk fyrir kveðjurnar.

Alkinn, í bullandi bata.

Ójá.


Vogur næsta!

 1a

Jæja, þessi dagur hefur verið ömurlegur.  Hann byrjaði í bláma og hélt sér þar, þrátt fyrir öflugar tilraunir mínar við að snúa vörn í sókn.

Sumir dagar eru bara þannig að maður vill helst gleyma þeim.  Ég dró andann léttar þegar klukkan sló 24,00 og nýr sólarhringur gekk í garð.  Okok, ýki smá en ég sé ekki eftir mánudeginum 22. október, 2007.

Ég er búin að fá að vita hvenær ég fer í rannsóknina og ég veit upp á hár hvaða deyfilyf ég fæ.  Þannig að nú ligg ég á bæn um að ég komist inn á Vog strax á fimmtudaginn, þegar ég er búin í þessu inngripi sem er óumflýjanlegt.  Ég vona að ég fái svar við því á morgun.

Þegar ég var í lyfjagjöfinni upp á Lannsa í dag, vildi ekki betur til en svo að ég fékk svo mikinn svima að ég var nærri dottin úr stólnum.  GMG ég hélt ég væri að deyja (hehe), en fíflið ég hafði gleymt að ég er a) sykursjúk og b)þarf að borða reglulega.  Halló, hoppaðu inn í raunveruleikann Jenný Anna Baldursdóttir.  Ég náði mér, augljóslega þar sem ég sit hér og hamast á lyklaborðinu.Whistling

Ég er smá kvíðin fyrir þessu því sem er framundan, en samt er mér létt.  Ég er þó hætt að bíða.

Það reynir skuggalega á æðruleysið þegar ég hef beðið of lengi.  Guð mætti kenna mér þolinmæði - STRAX!

Ég er viss um að dagurinn á morgunn verður góður dagur, ég hef a.m.k. hugsað mér að hafa hann þannig.

Rek hér með blúsinn á brott.

Ég fer edrú að sofa í kvöld.

Kveðja frá mér á snúrunni.

Ójá.


Mánudagsblámi - eða hvað?

1

Mánudagar eru fínir dagar, sko eftir að ég varð edrú.  Fram að þeim tíma voru þeir á dauðalistanum hjá mér, af skiljanlegum ástæðum.  Virkar byttur eins og ég óneitanlega var, standa frammi fyrir heilum fimm dögum sem fela í sér eðlilegt líf, með kröfum um að maður hagi sér og hegði í samræmi við góðar og gildar samfélagsreglur.  Ein af þeim reglum er að standa sig og það er svo sannarlega ekki ætlast til þess að maður sé fullur, bakfullur eða með timburmenn og móral.  Þar stóð nú hnífurinn í kúnni.

En það er að baki og s.l. ár hafa mánudagar bara verið flottir.  Stundum stimplar sig inn einhver gamall blámi og ég vakna og allt er öfugsnúið.  Mánudagsöfugsnúið.  Þetta gerist helst þegar mörg verkefni bíða mín á þessum degi.  Í dag er dagskráin pökkuð, á minn mælikvarða sko.  Eitt af því sem ég þarf að gera er að fara í lyfjagjöf upp á Lannsa og svo þarf ég að bíða eftir símtali um rannsókn sem ég er að fara í.  Nei ég er ekki með heilsufar á heilanum, en stundum er æðruleysið lengra í burtu en áætlað er.

Svei mér þá ef bláminn er ekki á undanhaldi, meðan ég sit hér og hamra angist mína á lyklaborðið.  Ég elska lyklaborðið mitt.  Ætla að láta grafa það með mér (eða brenna) ásamt nokkrum öðrum hlutum sem ég er að sanka að mér.  Djö... sem ég er morbid.

Á hverju ári er ég ákveðin í að láta jólin ekki ná tökum á mér fyrr en í desember og á hverju ári klúðra ég því.  Nú eru u.þ.b. 60 dagar til jóla (ég ætti að vita það er með teljara á síðunni minni).  Núna læðist jólatryllingurinn að mér oft á dag og ég er búin að taka nokkrar ákvarðanir í samráði við minn heittelskaða, nottla.  Við ætlum að vera hjá Jennýju á aðfangadagskvöld (ásamt frumburði og Jöklabarni) og ég er búin að biðja Brynju vinkonu mína og ömmu hans Olivers, um að kaupa jólakjól á hana Jennýju Unu, í Ameríkunni.  Engan marengskjól sko, heldur prinsessukjól í háklassa.  Ég skammast mín. Október er langt því frá, liðinn.  Geri þetta ekki aftur lofa.

Nú er ég bara nokkuð hress og kannast ekki við að vera blúsuð fyrir fimm aura.  Enda búin að hella bömmernum yfir í bloggheima og nú fer ég í banastuði að lesa mína 24-stundabók.

Ekki orð um það meir.

Later!

Úje

 


Ég fer á Vog - Snúra

 61

..vona ég, eftir inngrip sem ég þarf að fara í fljótlega og kostar innspýtingu á hættulegum lyfjum, í boddíið á mér, fyrir alkahólista.  Ég er að minnsta kosti búin að biðja um innlögn.

Vegna misskilnings og skort á upplýsingastreymi, bíð ég enn eftir þessari rannsókn sem ég þarf að fara í. 

Ég er búin að vera að bræða með mér hugmyndina um að fara beint á Vog úr rannsókninni og í morgun tók ég ákvörðun.  Ég tek enga sénsa með allsgáða lífið mitt.

Stundum er sagt að þetta sé spurning um hugarfar, þ.e. hvort maður lendir í tómu tjóni, við lyfjagjafir og svæfingar (lyf sem hafa áhrif á miðtaugakerfi eins og áfengið gerir), en ég tel mig vera með þetta líka glimrandi edrú hugarfar.  En allsgáða lífið mitt er mér það dýrmætasta af öllu.  Vegna þess að án þess, gæti ég ekki notið neins af því sem lífið hefur gefið mér.  Fjölskylduna mína, vinina og að geta lifað mér sjálfri mér, horft framan í spegil og þolað við, að vera ég.

Þess vegna steðjar kona á Vog.  Þ.e. ef það er pláss.  Ég elska Vog.  Þar var lífi mínu bjargað og mér hjálpað á fætur. 

Þórarinn, Valgerður - einhver!! Plís, er ekki einhversstaðar beddi sem ég get fengið að liggja á, ha??

Úje.

 


Á fylleríi í Hagkaupum

Ég var að velta fyrir mér (ó)möguleikunum í sambandi við baráttumálið hans Sigurðs Kára og Co í þinginu, að fá búsið í búðirnar.  Í Kastljósi tók Sigurður Kári fram að það væri auðvitað ekki verið að breyta þessu fyrir þá sem "gerðust sekir" um ofneyslu áfengis, heldur hina sem gæta hófs.  Þetta fannst mér soldið merkilegur punktur hjá þingmanninum, því ég hef alltaf haldið að ríkið væri bara fyrir alkóhólista. Döh!

Nú, þetta skiptir ekki máli fyrir mig, svona prívat og pers. hvar áfengi er selt, þar sem ég er búin með minn kvóta fyrir löngu og ef Guð lofar, mun ég storma fram hjá áfengishillum lífsins, einn dag í einu, til eilífðarnóns, en ég var að velta fyrir mér hvernig þetta fyrirkomulag gæti orðið í framkvæmd fyrir þá sem kaupa þessa vöru.

Þegar ég fer í Hagkaup, næ ég mér yfirleitt í eitthvað að drekka, með smá sykri í og hef það með mér á meðan ég rúlla mér í gegnum búðina, vegna sykursýkinnar sem ég er með og af fenginni reynslu veit ég að ég er ekki glæsileg, hálf hangandi ofan í innkaupavagninn, slefandi og ranghvolfandi í mér augunum, í bullandi sykurfalli.

Nú, ef kona úr Gjörningahverfinu vill tjilla í gegnum Hagkaup, þegar hún kaupir inn fyrir helgina, þá nær hún sér í eina rauðvín (getur ekkert verið athugavert við það, það er svo EÐLILEGT að vín fáist í matvörubúðum) og sýpur á og hrindir vöruflokkum í hrönnum ofan í vagninn sinn (ok, ég skil, Jóhannes í Bónus veit að þetta er verslunarörvandi vara.  Á Jóhannes Sigurð Kára?).  Þegar hún er komin í hreinlætisvörudeildina er hún farin að syngja "Áfram veginn" og hún hefur gerst ruddaleg mjög og árásargjörn, enda komin vel ofan í flösku númer tvö og ekkertbúinaðborðasíðanímorgun.  Hún rífur stólpakjaft í biðröðinni en NB það er kominn sérstakur kassi fyrir fólk undir áhrifum.  Þar móðgar hún mann og annan sér til skemmtunar á meðan hún bíður eftir afgreiðslu.  Vörunni er skellt í poka og konunni síðan hent út með pokum og alles, beint út á bílastæði.

Þessi kona, úr Gjörningahverfinu, hefur e.t.v. átt við áfengisvandamál að stríða, en það hefur ekki reynt á það fyrr en nú, en eftir að "búsinn í búðina frumvarpið" var afgreitt frá Alþingi,  gargar próblemið, á hana, upp í opið fésið á henni, í hvert skipti sem hún verslar inn til heimilisins.

Þökk sé helvítis frumvarpinu hans Sigurðar Kára.

Og nú er ég komin með alvarlegar áhyggjur af þessari þykjustukonu sem ég bjó til.

Ætli hún endi ekki bara á Vogi?

Ég vona það.

Og mikið vona ég að búsið í búðirnar nái ekki fram að ganga.

Það er svo mikil tímaskekkja.


Ég er alki...

03 

..og er með það á hreinu að timburmenn og/eða fyllerí fer ekki vel saman við barnauppeldi.  Því má segja að ég  hafi verið töluvert heppin með að byrja ekki að drekka eins og svín, fyrr en mín börn voru orðin stálpuð.  Nú er ég edrú og ég veit jafn vel og ég hef alltaf vitað að börn og brennivín fara ekki saman.  Eins rökrétt og það nú er, að maður er ekki að sinna börnum undir áhrifum, né bakfullur með iðnaðarmenn í höfðinu, þá virðist þessi stórisannleikur alls ekki garga á fólk í einfaldleika sínum.

Í gegnum árin, hef ég komist í tæri við foreldra sem sjá nákvæmlega ekkert athugavert við að drekka sig fulla innan um börnin sín (ég tek fram að ég er að tala um fyllerí, ekki hófdrykkju, bara svo það brjótist ekki út áköf fagnaðarlæti hér á síðunni minniW00t) hvað þá heldur að sinna þeim titrandi og skjálfandi úr timburmönnum.  Svo rammt getur kveðið að þessari blindu hjá fólki, að allar ábendingar um þennan "selföglighet" eru illa þegnar. Vægast sagt.

Svo opnast augu frægra manna fyrir þessari staðreynd og það vekur svo mikla athygli að það kemst í blöðin.  Braddinn fattaði sum sé að það er ekki gott fyrir börnin hans að hann sé timbraður að hugsa um þau.  Vá, þvílík uppgötvun, þvílíkar fréttir.

En það er ágætt að þetta vekur athygli.  Það þýðir ekkert fyrir einhverja nóboddía eins og mig og fleiri að benda á svona hluti.

Ónei,

Braddi og Angie geta komið boðskapnum til skila.

Og það er fínt.

Allir út að leika, bláedrú með börnin.

Úje...


mbl.is Pitt: Timburmenn og barnauppeldi fara ekki saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti afmælispakki í heimi!

Nú þegar ég hef verið edrú í ár, upp á dag, vill kona auðvitað fá afmælisgjöf.  Og hana hef ég nú þegar grenjað út.  Segi svona en í dag fæ ég hana Jennýju Unu Eriksdóttur í gistingu, sem er ekki pakki af lélegri gerðinni get ég sagt ykkur. 

Hérna er viðkomandi gjöf fyrir klippingu á toppi og við höfum gleymt að greiða "okkur" en auðvitað er barnið alltaf jafn yndisfrítt.  Jenný Una á fluffutösku, svona á hjólum, og taskan er bleik og með fígúrum.  Þessi ferðakista er fyllt með gersemum þegar barn kemur til dvalar til ömmu og Einarrrrs, og upp úr henni drögum við ævintýralega hluti til að leika með.

Jenný tók ákvörðun um það fyrir stuttu að nú væri prinsessutíminn runnin upp.  Barn er í kjól alla daga og í prinsessuskóm og það er ákaflega heppilegt að það er til hópur af kjólum til að klæða sig í.  Buxur eru núna algjörlega úti.  Jenný Unu finnst gaman að skoða sig í speglinum og henni finnst það ekki feimnismál.  Hún skoðar sig vandlega frá öllum hliðum og svo á hún það til að segja stundarhátt: Ég er prinsesssssa.  Alveg fullviss um það daman.

Stundum verður samt að gera málamiðlanir þegar veður eru vond og klæða sig í útigallann og svo verða ungar manneskjur ansi þreyttar á að berjast um með storminn í fangið og sofna bara þar sem þær eru staddar hverju sinni.

Nú kemur Jenný Una sem sagt í dag, með sitt úttroðna ferðakoffort og hún ætlar að líta til með syni sínum, honum Bördí Jennýjarsyni, baka köku fyrir afmæli mömmu sinnar sem er á sunnudaginn,segja ömmu sinni að það sé "ekki í boði" að fara að sofa fyrir allar aldir og ef vindar eru hagstæðir, gæða sér á smá "laufardagsnammi".

Ekki lélegt það.

Ég vil fá barn með bleikum borða, eins og alvöru afmælisgjöf fyrir stelpur.

Við munum síðan horfa á magnaða spennumynd um örlög og ævintýri "Jákarlsins og Grekans óvurlega".

Ójá.


Skammastín Jenný Anna

Ég verð 15 árum eldri en mér var upphaflega ætlað að verða.  Þvert ofan í öll karmalögmál.  Það kemur til af því að ég drakk í mig insúlínháða sykursýki og má ekki borða sælgæti.  Ég var ekkert svakalega hrygg yfir því að taka sælgætið út, enda ekki mikill nammiáhugamaður.  Það verkjaði auðvitað smá undan brúnuðum kartöflum og svona (svindlaði á jólunum), en annars fór ég í gegnum breytingar á mataræði nokkurn veginn sársaukalaust.

Hvað um það, af og til verður mér á í nammimálunum.  Ullabjökkin geta reynst of stór freisting fyrir konu.  Í gær fríkaði ég út, þegar skádóttir mín hún Ástrós kom með Lindubuff og Freyjurís í hús, hvorutveggja ekki á mínum haturslista.  Ég hoppaði á nammið og skutlaði því í mig, fljótar en auga á festi og sakbitin mældi ég blóðsykurinn og hann var himinhár.  Mér leið næstum eins og ég hefði skutlað í mig einum bjór.  Okokok, ég ýki, en sektarkenndin gagnvart mínu æðra sjálfi, var mögnuð.

Ég má ekki borða nammi en ég má blogga um það og setja inn myndir af varningnum.  Það er huggun harmi gegn.

Nú hef ég skriftað á blogginu og ég held að ég sé búin að fyrirgefa mér.  Ég skammast mín niður í hrúgu og mun ekki svindla fyrr en í fyrsta lagi á jólum.  Ef almættið gæti gert mér þann greiða að lækna mig af sykursýkinni meðan ég velti mér í vellystingum sælgætisins, praktuglega.

Hvað er að þér kona?  Þú ert ekki einu sinni fyrir sælgæti.  Haskaðu þér á lappir og fáðu þér gulrót.

Úje

 


mbl.is Sælgætisleysi lengir lífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.