Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Snúra

Hamingjan

 

Ég hef leitað hamingjunnar í lífinu, eins og allir auðvitað og lengi vel eltist ég við hana út um allar koppagrundir og reyndi að ná í skottið á henni, alltaf fullviss að hún væri einhversstaðar rétt undan.  Alveg innan seilingar.  Á tímabili hélt ég í mínum alkahóldeyfða heila að hamingjuna væri ekki að finna, fyrir mig persónulega.  Að ég væri bömmer dauðans.  Þetta upplifði ég með dramatískum hætti fórnarlambsins og blóðsletturnar skvettust upp um alla mína andlegu sjálfsvorkunnarveggi.

En viti menn, það rann af mér og haldið ekki að hamingjan hafi haldið innreið sína, beint í hjartað á mér, á afskaplega kurteisilegan og fábrotinn máta? Ójá, ég tók ekki einu sinni eftir því að hún hafði sest að í boddíinu á mér.  Það sem ég varð hissa og þetta gerðist algjörlega án fyrirhafnar að minni hálfu.  Nú er ég reyndar frekar hógvær (okok, mátti reyna) en hún mætti allavega, hamingjan, og hefur setið þar síðan, mis hávær reyndar.

Dagurinn í dag hefur t.d. verið eintóm hamingja.  Ég hef bókstaflega verið hátt uppi á eigin safa.

Jenný Una Eriksdóttir hefur verið mikill aflgjafi hamingjunnar í dag.  Hún horfði á myndbandið með Björk (Triumph of the heart) og sagði: "Stúlkan (Björk) er mjög, mjög falleg".  Björk er sem sagt frekar barnaleg í útliti, ekki leiðinlegt.

Hún sagði mér líka að þegar hún hafi verið "pínuponsu mjög lítil" hafi hún sagt "kókófíll" en það heiti krrrókudíll en hákarlinn heitir ennþá jákarl og drekinn er enn greki, hversu lengi sem það nú verður.

Hamingjan felst líka í því að vakna edrú á morgnanna, að fólkinu manns líði vel og sé farsælt í leik og starfi.  Ég er heppin þar.  Ég varð líka mjög hamingjusöm þegar ég horfði á Benedikt Erlingsson rappa Gunnarshólma í RÚV á föstudaginn.  Maðurinn er villingur, snillingur. 

Þetta er að verða ein allsherjar Pollýanna hjá mér og það verður að hafa það, þetta má skoðast sem neikvæðnijöfnun.

Happísönndei.

Ójá.

 

 


"Ðe Lala Factor"

Ég er að hugsa um að biðja Kára í Erfðagreiningunni að hefja leit að Lala-faktornum (eða geninu), svo líf mitt geti farið að lullast í eðlilegum farvegi.  Þetta ætla ég að gera á nýju ári, þ.e. skrifa karlinum, þrátt fyrir að ég hafi sagt mig úr bölvuðum gagnagrunninum hans.

Hafið þið pælt í því að lala-viðhorfið er nauðsynlegt á flestum stigum mannlegs lífs og gerir það að verkum að maður heldur sér innan ramma þess sem reiknast innan eðlilegra hegðunarmarka?  "Hvað á hún við" spyrð þú sem lest og það skal ég segja þér bara núna strax, dúllan mín (gússí-gússí).

Ef við tökum hangikjöt sem dæmi.  Mér finnst hangikjöt svona lala gott.  Ekki ógeðslega vont og ekki brjálæðislega gott.  S.s. ég myndi ekki rjúka út í óveður, vaða yfir fjöll og firnindi, af því að ég hefði frétt af nýsoðnu hangiskjötslæri í Hveragerði.  Ég myndi hins vegar þiggja eina sneið væri mér boðin hún, og ég svöng.  Þarna er ég með lala-faktorinn bullandi virkan.

Þegar ég byrjaði að drekka brennivín fannst mér það ógeðslega vont, eftir margra ára viðreynslur við áfengi, endaði ég þar sem mér fannst áfengi hryllilega og brjálæðislega nauðsynlegt (þó það væri vont á bragðið).  Það hefði auðvitað verið betra að hafa það á hinn veginn, fyrst gott svo vont, en þá hefði ég ekki þurft að fara í meðferð, og því hefði ég eiginlega ekki viljað sleppa. Hm... komin í hring þarna , en hvað um það. En þarna lýsir sum sé hinn virki lala-faktor algjörlega með fjarveru sinni.

Sama er með sígarettur.  Þar myndi lala-faktorinn koma sér vel.  Ég hef aldrei verið lala í viðhorfi til nikótíns, ég veð elda, klíf fjöll, svelti mig og misþyrmi, til að verða ekki sígarettulaus.  Í verkfalli opinberra starfsmanna, árið 1984 hefði ég samið um að gefa frá mér aleigu mína, af því búðirnar voru orðnar sígarettulausar.  Ég missti sem sagt kúlið og stéttarvitundina, fyrir sígóið. Þarna hefði ég viljað vera alveg lala á retturnar og dedd á góðum samningum.

Ef viðhorfið til hlutanna væri lala, þá væri lífið auðvelt.

En ég er að hugsa um, svona eftir á að hyggja, að láta Kára í friði.

Ég er fegin að hafa farið í meðferð og að ég ÞURFI ekki að drekka framar.

Ég hætti að reykja (bráðumWhistling)

Ég vil ekki vera lala gagnvart jólarjúpunni og jólakveðjunum á Gufunni, svo ég taki nú bara létt dæmi.

Lífið yrði hundleiðinlegt ef allt væri bara svona lala.

Er það ekki elskurnar?

Það er ekkert lalalala hér neitt.

Úje

 


Nú verð ég að hneigja mig..

 

.. og taka ofan fyrir honum Agli Helgasyni, en hann fékk tvær Eddur.  Ég geri það hér með í huganum.  Ef hægt er að segjast vera í "sambandi" við mann sem maður sér í sjónvarpi, þá er ég í ástar-haturssambandi við þetta krullukrútt og megadúllu.  Það er eitthvað svo einlægt við karlinn stundum og svo er hann asskoti naskur á þjóðfélagspúlsinn.  Egill er alveg ferlega illa áttaður á feminisma, þannig að stundum gríp ég andann á lofti, þegar hann bloggar um skoðanir sínar á málaflokknum  Það er allt að því fyndið (ég hlæ; hahahaha).  Svo finnst mér hann skuggalega "leim" þegar hann ætlar að fara að útskýra kynjafræði, finnst það jafn mikið út í hött og ef ég ætlaði að fara að laga vatnskassa í bíl (held ennþá að þeir séu útlits eins og jólaölsbrúsar), einhendis.  Það gengi ekki upp, ég lofa.

Ég hef horft á Silfrið frá byrjun.  Þegar Egill byrjaði á Skjá I var það svo mikið "happening".  Hann framlengdi bara þar til dagskráin var tæmd, lét ekkert stoppa sig af og það var skólasjónvarpsbragur á þættinum en samt var hann alveg ferlega skemmtilegur.

Nú eru ekki uppákomur lengur, þátturinn er innan tímaramma og Egill þræl fagmannlegur, svona oftast. 

Ég missi aldrei af Silfrinu eða Kiljunni, það er á hreinu.  Maður verður að hafa eitthvað að röfla yfir.

En ég hef ákveðið að hætta að lesa bloggið hans.

Mig langar ekkert til að heyra skoðanir hans á "jafnréttismálum".

Þær eru hreinlega algjört törnoff.

En Kiljan og Silfrið voru ágætlega að Eddunni komin (Kiljan þrátt fyrir ismatalið og þrátt fyrir Pál Baldvin sem er með jafnsvekktari mönnum í fjölmiðlum).

Til hamingju RÚV.

Úje.

P.s. Kynnirinn á Eddunni var að fíflast með jakkafötunum sem hann klæddi sig í, er það ekki?  Segið mér að þessi hroðalegu föt séu ekki það nýjasta í fatatísku karlmanna.  Plís, plís, plís.

Make my day!


mbl.is Kvikmyndin Foreldrar fékk flest Edduverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laugardagar eru betri en sunnudagar..

 

Sun,Cartoon,Shiny,Smiling,Vector,Illustration and Painting,Yellow,Bright,Heat,Sunlight,illustrator,Cheerful,Smirking

..en samt eru þeir ansans, ári góðir góðir dagar.

Annars eru allir dagar mínir uppáhalds eftir að það rann af mér og ég hætti í víninu og læknadópinu.

Hver einasti dagur er óskrifað blað.

Mánudagur til margra hluta nytsamlegur.

Þriðjudagur til þrælskemmtilegra athafna.

Miðvikudagur til mikilla afreka.

Fimmtudagur til fantagóðra hugmynda.

Föstudagur til fjár og frama.

Laugardagur til leikja og lofgjörða (Djók þetta með lofgjörðina)

Sunnudagur til sjónvarpsþáttarins Silfur Egils

Okok, sunnudagur taka tvö,

Sunnudagur til sólar og sælu. Sól í sinni, eftir minni.

Sko, ég er að "síkrita" mig inn í vikuna.

Þetta reiknast sem viðleitni af minni hálfu við að breyta hugsunarhætti mínum.

Er farin að lúlla, aftur bönin góð.

Síjúgúddpípúl.

Úje. 

 


Ég er alki...

 93

..og þá er mér svo sem slétt sama um hvort það er vegna þess að ég er haldin sjúkdómi eða að ég hafi komið mér upp fíkninni til að deyfa upplifanir.

Ég las blogg hjá einhverjum meðferðarfrömuði (Mumma held ég) í gær og las þar um skilgreiningu hans á fíkn.  Hann virtist ekki gefa mikið fyrir sjúkdómshugtakið alkahólisma.  Einhvertímann hefði ég farið á límingunum yfir því að fólk héldi því fram að fíkn væri ekki sjúkdómur.

Núna er mér slétt sama.

Það er búið að sýna fram á það, margoft, að fíkn sé sjúkdómur. Þó enn sé leitað að geninuWhistling

En eins og að ofan greinir, þá er mér nokk sama.

Skilgreini mig fyrst og fremst manneskju sem er edrú.

Þess vegna má þetta liggja á milli hluta.

Í bili að minnsta kosti.

Allir edrú og bráðheilbrigðir í dag er það ekki?

Ójá.


Með hjúkkunum í málinu!

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) skorar á alþingismenn að standa vörð um forvarnarstefnu í áfengismálum og greiða atkvæði gegn frumvarpi til laga um breytingu ýmissa lagaákvæða sem varða sölu áfengis og tóbaks.

Ég legg til að alþingismenn fari að þessari áskorun.  Hjúkrunarfræðingum, eins og öðru heilbrigðisstarfsfólki er alltof vel kunnugt um afleiðingar ofneyslu alkahóls á fólk, til að taka ekki mark á orðum þeirra.

Mér finnst að við ættum að sjá sóma okkar í að laga aðeins til í áfengismálum þessarar þjóðar áður en við förum að fylla rekka og hillur með bjór og brennivíni, í matvörubúðinni.

Hvað liggur svona skelfilega á?

Ég vil að hinir íslensku "Erlar" af báðum kynjum og á öllum aldri, nái að umgangast áfengi eins og fólk,  áður en það fer í sjoppurnar.

Nú þegar þarf varla að rétta út hönd til að komast í áfengi, í vínbúðinni, oftast staðsettum í stórmörkuðunum (nú eða hreinsuninni, barnafatabúðinni, ljósritunarstofunni) eða annars staðar í göngufæri.

Það er nóg í bili.

Við verðum ekki menningarlegri í drykkju þó Sigurður Kári og Armanideildin geti keypt Rauðkuna í Hagkaup.

Ædóntþeinksó!

Farin að baka.

Úje


mbl.is Skora á þingmenn að greiða atkvæði gegn áfengisfrumvarpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

13 mánaða snúra - ójá

95

Nú er það snúruafmæli einn ganginn enn.  Næst síðasta snúra ársins.  Það er ekkert öðruvísi.  Fyrir þrettán mánuðum síðan fór ég á Vog og eftir að af mér rann hefur bara verið gaman að lifa.

Ekki misskilja mig, ég er ekki að halda því fram að ég hafi lifað við lúðrablástur og endorfínrús upp á dag, alls ekki.  Sumir dagar eru minna betri en aðrir, en ég get tekist á við þá og skakklappast yfir hindranirnar, sem er byltingarkennd breyting, frá því fyrir meðferð.

Eftir því sem allsgáði tíminn minn lengist finnst mér ég styrkjast örlítið á hverjum degi, það er mér nóg, einn dag í senn.´

Annars er ég að snúrast þetta þegar ég á að vera farin að sofa í hausinn á mér.  Ég er að deyja úr hungri því ég hef verið á fljótandi fæði í allan dag, út af rannsókn sem ég fer í á morgun.  Ég lifi alveg af sko, að geta ekki borðað fyrr en eftir hádegi á morgun, en mig langar svo til að vera með smá fórnarlambstakta að kvöldi dags.

Nú ætlar þessi óvirki alki, sem er ekki einu sinni líftryggingarhæfur (búhú, vorkenna, vorkenna) að silast í rúmið og velta sér þar upp úr miklum hörmum sínum.

Sjáumst á morgun elskurnar.

Ég fer edrú að sofa á eftir.

En þið? (Hljóp í mig einhver Júdas þarna).

Nigthy,

Úje!


Kannski er kominn tími til að ljúga..

..fyrir óvirka alka sem hyggjast kaupa sér líftryggingu, því svo virðist sem fordómar fortíðar séu alls ráðandi, varðandi sjúkdóminn alkóhólisma hjá tryggingarfélögunum.

Ég er ekki talsmaður þess að fólk fari í felur með að það hafi leitað sér lækninga við alkóhólisma, enda væri þá síðan mín ekki til, en mín edrúmennska var einn aðalhvatinn að því að ég fór að blogga, og ég er alveg sannfærð um að sú ákvörðun var rétt, þrátt fyrir að enn séu bullandi fordómar í gangi, gagnvart fíknisjúkdómum.  Það voru vægast sagt, skiptar skoðanir um hvort það væri viturlegt að leggja þessar upplýsingar á borð fyrir alþjóð (þó þynnst hafi töluvert í kórnum, eftir því sem liðið hefur á) en fyrir mig er það grundvallarprinsipp að fara ekki í felur með sjálfa mig, nógu mikið læðupokaðist ég, á meðan ég var virkur alki.  Eins gott að ég er ekki á leiðinni í lífatryggingarkaup.  Ansi hrædd um að það væri búið að smella í lás, ÁÐUR en ég kæmist inn um aðaldyrnar.

Ari Matt hjá SÁÁ staðfestir þessa nöturlegu staðreynd í viðtengdri frétt.  Annað hvort fá óvirkir alkar ekki tryggingu eða þurfa að greiða hærra líftryggingargjald en aðrir. "Ef þú ert alkóhólisti sem hefur farið í meðferð, þá borgarðu hærra gjald og átt erfiðara með að kaupa líftryggingu en alkóhólisti sem enn drekkur," segir Ari.  Þarna liggur í raun hvatning til fólks að segja ekki frá því að það hafi farið í meðferð og sé edrú. 

Talsmaður tryggingafélaga segir að þrjú ár þurfi að líða frá meðferð þar til alkahólisti getur fengið tryggingu.  Að öllu jöfnu eru upplýsingar frá tryggingarkaupanda látnar nægja en ef um alka er að ræða er farið fram á læknisskoðun.  Það er þá eins gott að fólk drepist ekki á meðan það bíður.

Þetta eru auðvitað bullandi fordómar og ekkert annað.  Fólk sem er svo heiðarlegt að skrá upplýsingar um meðferð á umsókn, er látið gjalda fyrir það.  

Það eru kannski fordómar í mér, en ég held að tryggingafélögin hefðu ekki slæmt að því að fá eins og einn helgarkúrs um alkahólisma hjá SÁÁ.  Þeir myndu sennilega græða töluvert á því og það sem meira er um vert, fá tækifæri til að hoppa inn í nútímann og losa sig við helling af tímaskekkju viðhorfum í leiðinni.

Gleymdi einu, þegar ég skrifaði pistilinn og bæti því við hér.

Við hverju er að búast í viðhorfum til fíknisjúkdóma, þegar samfélagið sér ekkert athugavert að láta meðferð á fársjúku fólki, bæði andlega og líkamlega, í hendurnar á trúfélögum? 

19. öldin hvað?

Ójá.

 


mbl.is Óvirkir alkar fá ekki tryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af misstórum hörmum-snúruvæs og öðruvæs!

 50Stundum er ég í stuði til að fíflast.  Í dag hefur verið svona fífladagur hjá mér.  Ekki að ég sé búin að vera í svona arfagóðu skapi, ónei, ég er lasin og mjög kvíðin fyrir mánudeginum og rannsókninni sem þá brestur á.  En einhvern veginn nenni ég ekki að fara að hella úr mínum tilfinningahlandkopp (sorrí orðbragðið) yfir ykkur, þ.e. að fara útlista fyrir ykkur hvað ég eigi bágt, því miðað við marga, t.d. bara veika fólkið sem bloggar hérna, þá á ég alls ekki bágt.  En stundum tekur maður ekki rökum, ekki  einu sinni sínum eigin.

Á mánudaginn fæ ég aftur róandi og verkjalyf í æð, og fyrir óvirkan alka er þetta kvíðaefni, þó búið sé að sannfæra mig um að þetta verði allt í lagi, að uppfylltum vissum aðgerðum, af minni hálfu.  Það gekk vel í síðustu viku enda bloggaði ég um það, og niðurstaðan var að vímur væru ofmetnar og ég var þúsund sinnum fegin, þegar hún rjátlaðist af mér.

Nú stend ég frammi fyrir öðru inngripi og ég get hreinlega ekki beðið eftir að eiga það að baki.  Þess vegna er ég búin að vera dálítið döpur og þá er vísast að ég ærslist sem aldrei fyrr, á bloggsíðunni minni.  Ég kalla það bömmerjöfnum eða mótvægisaðgerðir.

Svo fæ ég svo skemmtilegt komment við fíflafærslunum mínum, því ég á svo marga ólíka og skemmtilega bloggvini sem allir hafa skæðan húmor.

Af hverju tengi ég þetta við Heather Mills og hennar raunir?  Jú mér finnst hún, ekki frekar en ég, eiga neitt rosalega bágt í hinu stóra samhengi. 

Hvað Stella sagði, Stella gerði, Heather sagði Heather gerði, Paul sagði, Paul gerði, "who gives a flying" júnó?

Þarna eru það peningarnir sem verkjar undan nr. 1, 2 og 3.  Hjá þeim öllum.

Í hinu stóra samhengi þá verða sum vandamál bara hlægileg og þess vegna ætla ég hvorki að æmta né skræmta.  Enda edrú og í góðum málum.

Heather!

Better run for your live little girl (svo ég vísi í eitt ljóða Bítles frá í denn).

Úje


mbl.is Mills: Stella gerði mér allt til miska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir ættu að setja tappann í flöskuna..

..fyrr en seinna.  Að hefja ferð og slútta henni á sama stað án þess að hreyfa sig út úr flugstöðinni er töluverður bömmer.

Æi, svo "leiðilett" að lesa um, en mun verra að upplifa, get ég ímyndað mér.

Rosalega er ég fegin að hafa ekki drukkið og ferðast í leiðinni.

Var svo lítið í ferðalögum meðan ég var í "víninu" (understatement aldarinnar).

Baráttu- og batakveðjur til Farþegarns.

Ójá.


mbl.is Svaf af sér utanlandsferðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband