Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Snúra

Á leiðinni á barinn

Ég vaknaði fyrir allar aldir í morgun og var síðan eins og uppvakningur fram yfir hádegi.

Þrátt fyrir að ég hafi á stefnuskránni í mínu edrúlífi að leggja mig ekki á daginn verður kona stundum að gera undantekningu.  Ég hreinlega gat ekki haldið augunum opnum og ég svaf í þrjá tíma.

Ég var örugglega klukkutíma að jafna mig eftir þetta svefnafbrot mitt og sat og glápti út í tómið algjörlega ófær um að fá líkamann í gang.

Og mig hafði dreymt - róleg ætla ekki að segja ykkur að mig hafi dreymt að ég væri í Boston en að það hafi samt verið Reykjavík og ég hafi verið í fylgd Sam Shepard sem var samt ekki hann heldur maðurinn minn.  Ónei.  I´ll spare you the details.  Draumar eru aldrei í frásögur færandi eða nánast aldrei.

En eins og svo marga óvirka alka þá dreymdi mig að ég var einbeitt á leiðinni að fá mér í glas.

Í draumnum var ég  jafn forstokkuð og ómerkileg og í neyslunni, ég reiknaði út hvert ég gæti farið til að enginn sæji mig drekkja mér í glasinu og hvað ég ætti að kaupa sem myndi virka fljótast svo ég gæti haldið feluleiknum áfram þegar ég kæmi heim.

Ég var nokkuð góð með mig í draumnum.  Fannst ég sniðugt en var samt með móral.  Ég man að ég hugsaði að það yrði vont mál ef þetta kæmist upp, þá myndu allir hætta að treysta mér.

Áður en ég var komin inn á barinn og á kaf í flöskuna var ég vakin af mínum þokkafulla helmingi sem var orðin hræddur um að ég væri önduð í svefni.

Og eins og fleiri alka sem dreymir að þeir séu á leiðinni á fyllerí var léttirinn ótrúlegur yfir að þetta væri bara draumur.

Svona drauma dreymdi mig reglulega fyrsta árið eftir meðferð, þeir koma sjaldnar núna en í draumunum er maður með allt klækjabatteríið úti.

Heilinn getur svo sannarlega gert manni grikki.

Mikið rosalega er ég fegin að hann dundar sér við það á meðan ég sef fyrst hann þarf á annaðborð að vera að hlaupa svona útundan sér.

Sjúkkitt hvað það var hamingjusöm kona sem vaknaði bláedrú og algjörlega laus við löngun í brennivín.

En ég er rétt að byrja að jafna mig eftir sjokkið.

Úje.

 


Þegar hamingjan slær mig í hausinn

 hopp

Stundum, á venjulegum degi, þegar ekkert er að gerast sem ætti að hífa mig upp eða draga mig niður, verð ég fyrir upplifunum.

Ég verð óstjórnlega hamingjusöm yfir lífinu og því sem ég hef.  Finnst ég heppnust á jarðríki.

Þetta gerðist í dag, óforvarandis og ég varð algjörlega alla leiðina steinhissa.

Áður fyrr, í gamla lífinu, var ég stöðugt hrædd.  Mismikið en ég óttaðist stöðugt að eitthvað slæmt myndi gerast.  Ég eyddi tímunum saman í að raða því upp í höfðinu á mér hvað gæti gerst og hvernig ég ætti að bregðast við.  Þetta tók tíma, ég gerði fátt annað enda ekki til stórræðnanna bullandi veikur alki í alvarlegu þunglyndi.

Það er alveg svakalegur ágangur á orkubúskapinn að vera hræddur, svo ég tali nú ekki um skelfingu lostinn.  Algjörlega full vinna að standa í því.

Að lifa stöðugt í skelfingu er merki um að viðkomandi upplifi sig algjörlega varnarlausan fyrir öllu, litlu sem stóru.

En..

Svo varð ég edrú og mér til mikillar furðu hætti ég að vera hrædd, hætti að reikna með því versta og það merkilega gerðist - hamingjan fór að slá mig í hausinn nokkuð oft og reglulega.

Nú mætti maður ætla að ég væri beisíklí orðin vön því að gleðin yfir lífinu hertaki mig upp úr þurru - en nei - ég er alltaf jafn hissa.

Og það var sem sagt í dag, þegar ég var að þvo upp og tuða inni í mér um klikkunina í borginni þessa dagana, að ég var nálægt því slegin í gólf af eintómri lífsgleði.

Kannski er þetta fyrst mögulegt þegar vistin í skugganum er búinn að vera svo löng að það virðist ekki vera afturkvæmt þaðan.

Ég veit það ekki en mikið rosalega er hipp og kúl að vera glaður.  Vont samt að hafa náð þessum selvfölileghet svona seint.

En á morgun ætla ég að vaða á minni gleðigöngu milli rekkanna á friggings IKEA gott fólk.

Og þessi viðkvæmni sem hér hefur verið skráð og vottfest verður ekki sýnd aftur í bráð.

Ekki láta ykkur dreyma um það.

Ég segi eins og kerlingin; you cought me at a week momentDevil

Væmnisjöfnun verður birt síðar.

Úje


Er hann alki?

 p

Eftir að ég fór í meðferð og ákvað að fara ekki með það eins og mannsmorð, lenti ég nokkrum sinnum í að missa mig í þá regin vitleysu að reyna að svara fólki sem bar það undir mig hvort þessi eða hinn, sem drykki svona eða hinseginn, gæti verið alki.

Það er nefnilega þannig að margir halda að óvirkir alkar séu sérfræðingar í alkóhólisma.

Eins og það sé alkóhólismi 201 áfangi á Vogi og í eftirmeðferðinni.

Ég sem sé steig inn á þetta sprengjusvæði fyrstu misserin eftir að ég varð edrú og reyndi að svara eftir bestu getu.

Það leið ekki langur tími þangað til að ég áttaði mig á að þetta var pottþétt leið til að losna við vini og kunningja, þ.e. að segja þeim hvað mér fannst um drykkjumynstur þessa og hins af því ég var þráspurð og svo var ég pínulítill og hrokafullur meðferðarfulltrúi í hjartanu.  Var svolítið í því að trúa að ég væri fullnuma í þessu lífsverkefni (vá hvað ég var úti á túni).

Og ég hætti að svara. Sem betur fer segi ég því ég veit ekkert um alkaóhólisma annars fólks og rétt svo að ég nái utan um minn eiginn.  Ég næ því sem ég þarf að ná, ég get ekki drukkið, ekki tekið lyf eða önnur efni sem virka á miðtaugakerfið og ég veit að ég þarf að gera ákveðna hluti til að vera í bata og þarf að vinna að batanum á hverjum degi.

Lengra nær mín kunnátta ekki, enda dugir hún mér einn dag í einu. Fólk á brauðfótum á að læra að ganga áður en það fer að hlaupa víðavangshlaup.

Til að gera langa sögu stutta þá er ég ekki til viðtals um hvort þessi eða hinn sé alki.  Bara alls ekki.

En sumir eru ekki á því að gefast upp.

Dæmi: Ring-ring.

Hæ, gússígússi þetta er Lúlla Lalla (eða þannig) heldurðu að kallinn minn sé alki?  Hann drekkur sóandsó, svona oft og er sóandsó eftir fyllerí.

Ég: Ég bara veit það ekki.  Það sem skiptir máli er hvort honum finnist það sjálfum.  Ekki hvað mér eða þér finnst.

Lúlla Lalla (æst): Og á ég að bíða eftir því að hann ákveði að hann sé alki, það verður aldrei hvað er að þér kona, ertu ekki alki sjálf, ætlarðu ekki að leiðbeina mér??????

Ég: Nei ég veit ekkert meira en þú.  Maðurinn þinn er sá eini sem þarf að svara þessari spurningu fyrir sjálfan sig held ég. (Segi síðan konunni frá göngudeild SÁÁ og leynisamtökum fyrir aðstandendur).

Lúlla Lalla (farin á límingum og raddböndum):  Jájá, er ÉG vandmálið?  Á ÉG að leita mér hjálpar?Svona eruð þið þessir alkar, alveg eins og helvítið hann Lalli og nú þú.  Þið eruð að drepast úr eigingirni, hugsið bara um ra..... á sjálfum ykkur.  Djöfull sem alkahólistar eru leiðinlegt og sjálfsupptekið fólk. 

Skellir á.  Búmm Pang.

Einhvernveginn svona getur þetta gert sig- en slétt sama boðskapur færslunnar er sá að maður á ekki að vasast í annarra manna alkóhólisma.

Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Æðruleysi, æðruleysi.

Lalalalalalala  er meirihlutinn sprunginn rétt á meðan ég bloggaði þennan vísdóm?

Nefndin.

 

 


Alkafærsla og sölutölur - Hömm

Þegar ég hætti að drekka fyrir nákvæmlega tveimur árum og einhverjum dögum síðan þá var ég þess fullviss að sala í bjór og rauðvíni myndi hrapa niður úr öllu valdi.  Hehemm.

En einhverjir hafa tekið við af mér og gott betur og nú selst brennivín sem aldrei fyrr.

Á milli ára er aukningin á sölu fyrir verslunarmannahelgi 28%.  Það er ekki lítið eða hvað?  Rosalegur þorsti í gangi.

Annars stend ég mig stundum að því eftir að ég varð edrú að hlakka til að fara að sofa af því ég sef svo vel og mig dreymir eðlilega.

Að sofa var eitthvað sem ég las um í bókum hérna á alkatímabilinu.  Þrátt fyrir svefnlyf af fleiri en einni gerð ásamt áfengi sem rann ofan í mig í nokkuð jöfnum takti til að ég gæti sofið, þá gerðist harla lítið.  Svefninn er eitt af því fyrsta sem fer í vaskinn þegar maður er kominn í vond mál í neyslu.

Og draumarnir voru í besta falli martraðir.

Ég man eftir nóttum þar sem ég lá og starði upp í loftið og ég hugsaði með mér að það væri óskastaða að drepast þar sem ég væri komin.  Ekki í sjálfsvorkunn held ég, hún fór fram á daginn á fullu blasti, heldur af praktískum ástæðum.  Það er nefnilega óþolandi að geta ekki lifað í eigin skinni bæði á nóttu sem degi. Ég var orðin andskoti þreytt á ástandinu.

Og þegar ég varð edrú tók það ca. tvo mánuði fyrir svefninn að komast í eðlilegt horf. 

Nú leggst ég á koddann, geri upp daginn og rétt næ æðruleysisbæninni áður en ég er komin í draumalandið og farin að sinna þar mikilvægum verkefnum.

Þannig að þegar allt er týnt til þá er ég nokkuð heppin kona sem er í engum viðskiptum við brennivínsbúðina og hef ekki sést þar s.l. 2 ár.

Það má segja að ég hafi styrkt ríkið um ríflegar fjárhæðir meðan á storminum stóð og sé búin að gera mitt í þeim málum og gott betur.

Farin að lúlla, brakandi edrú og glöð.

Þetta var snúra.  Jájá.


mbl.is Mikið keypt af áfengi fyrir verslunarmannahelgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðastríð???

Amy, Amy, Amy, hvar endar þetta með þig stúlka?

amy-winehouse-new-3

svo ung...

amy_winehouse11208

Svo flott, svo hæfileikarík ...

tvöföld amy

..svo breytt

amy-winehouse-troubled-singer

svo sorgmædd

amy-winehouse_arrested-again

 

svo mikið meira dauð en lifandi.

Ef Amy Winehouse getur ekki bjargað sjálfri sér þá ætti hún að minnsta kosti að geta verið gangandi aðvörun til fólks um að fara ekki í ruglið.

Ömurlegt að horfa upp á þessa stúlku nánast deyja í beinni í fjölmiðlum á hverjum degi.

Úff

Frábært lag með stelpunni.


mbl.is Amy syngur um matinn sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki dropi í tvö ár

Ég og fleiri alkar sem ég hef kynnst hafa á einhverjum tímapunkti áður en hundskast er í meðferð fengið þá brilljant hugmynd að flytja.  Bara taka sig upp og koma sér fyrir á nýjum stað, byrja nýtt líf.  Skilja vandamálin og vesenið eftir á gamla staðnum.

Sem betur fer kannski, hafði ég ekki orku til að framkvæma mikla flutninga nema í huganum, enda fárveikur alki á lokametrunum og þorði ekki út úr húsi, hvað þá heldur að ég hefði getað pakkað niður einni klósettrúllu svo ég tali ekki um heilli búslóð.

En á ákveðnum tímapunkti í neyslu virðist "aðflytjastábrott" ídean alveg frábær lausn.

Kallinn hennar Amy, pabbi hennar og Sarah Harding eru á því að Amy eigi að flytjast frá London og að það muni getað bjargað henni úr neyslunni.  Já sæl, sterk í blekkingunni.

Margir sem hafa flutt hafa sagt mér að þeir hafi verið búnir að finna neyslufélagana á nýja staðnum áður en þeir vissu hvar matvöruna var að finna.

Málið er að maður getur dröslast á heimsenda en maður er sjálfur með í för.  Það væri svo sem í lagi nema hvað að vandamálið er fyrirbærið sem maður sér í speglinum.  Allt eins gott að hanga heima, hringja upp á Vog og drífa sig í meðferð.  Það gerast engin kraftaverk meðan maður situr og vælir ofan í glasið eða hvað það nú er sem verið er að nota.

Það verða 2 ár um helgina síðan ég drakk áfengi síðast.  Ég átti þá eftir að fara í meðferð út af pillunum og það gerðist í október sama ár.  Æi þið sem lesið bloggið mitt vitið þá sögu alla.

En merkilegt hvað tíminn líður.  Ég er ennþá alveg svakalega þakklátur alki.

Mikið rosalega vildi ég að Amy Winehouse ásamt öllum hinum sem eru þarna úti í vondum málum sæju lífgjöfina sem felst í því að verða edrú.

Ég bíð og vona.

Lofjúgæs.

KISA TÝND, LESIÐ ÞETTA!


mbl.is Hvetur Amy til að flytja frá London
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin dömubindakona hér

 42-17452310

Dagurinn í dag er formlega liðinn, kl. er 00.09.  Af því hann er farinn þá ætla ég að tala illa um hann.  Heyrir þú það dagur?

Ég vaknaði í morgun og nú bar svo við að ég sveif ekki fram úr rúminu, með hvítar dúfur sem fylgdu mér hvert fótmál, ég dansaði ekki morgundansinn á stofugólfinu og ég leit ekki út eins og hamingjusöm kona í vespré dömubindi.  Enda aldrei notað það stöff.

Dagurinn hefur verið ömurlegur.  Ö-M-U-R-L-E-G-U-R.  Megi hann hverfa í gleymskunnar dá.

Allir sem ég hef talað við í dag hafa átt leiðinlegan dag, er þetta að ganga?

Hvað er í andrúmsloftinu?  Af hverju eru sumir dagar handónýtir, frá byrjun til enda?

Ég fann að ég slappaði af rétt áðan og ég þurfti ekki að líta á klukkuna, það var kominn nýr dagur.

Í dag reif ég kjaft, var ókurteis amk. einu sinni, sparkaði í einn vegg (já vont) og hamraði eins og motherfucker með fingrunum á allar borðplötur sem á vegi mínum urðu.

ARG.

Ég má bara við einum svona degi í mánuði, ég er alki "for crying out loud", svo veik fyrir spennu.

Eins gott að ég er nokkuð jafnlynd oftast nær.

En varðandi þetta lið á ströndinni í Dubai, þá sagði heimildarmaður minn í þeirri borg mér að helvítis útlendingarnir 79 hafið glennt sig á ströndinni án trefla, látið sjást í ökkla og öxl, og einhverjir fóru úr peysunum.  Er það nema von að Dubaingunum sem misboðið.

Svona eru þessir útlendingar, kunna sig engan veginn.

Lalalalala lífið er ljúft.

Guði sé lof fyrir gullfiskaminnið.


mbl.is „Dónaskapur" á baðströndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bláedrú og hvínandi happý

Það er svo mikið ekki ég að blogga blátt.  Þannig að ég blogga bleikt í staðinn.

Ég er nefnilega á bleiku skýi þessa dagana.

Og hvers vegna er ég það, hm...?  Jú út af engu eiginlega, bara lífinu almennt.

Sólin skín, ég er edrú og lífið er eðlilegt.  Það er toppurinn á tilverunni hjá mér sem var annað hvort  uppi á toppi eða niðri í kjallara, ekki að ég sé með geðhvörf, ég hentist bara öfganna á milli lengi vel.

Ég þvoði þvott í dag, og þreif og skúraði eins og mófó. Ég skemmti mér konunglega.

Um helgina leggjumst við húsband út og förum að heiman í einn sólahring niður á Leifsgötu.

Við ætlum að passa Hrafn Óla og Jenný Unu á meðan foreldrarnir skreppa út á land.

Ég hlakka til þess. 

Ég hélt alltaf að hamingjan kæmi með hurðaskellum og hávaða og að ég yrði heltekin af henni.

Auðvitað hefur hún gert það stundum - stutta stund í einu - en þessi hljóðláta hamingja sem er bara án þess að það séu bein tilefni til - er auðvitað það sem ég hef alltaf verið að leita að.

Ég bara vissi það ekki.

Enda veit ég fátt, held margt og summan af því er að ég er í þokkalega góðum málum.

Og svo er ég farin í lúll.  Bláedrú og hvínandi happý.´

Ég er nú hrædd um það.


Holland - löglegt dóp og ólöglegt. Er ég geðklofi? Nei, nei, örugglega ekki, en ferlega biluð samt. Æi þið skiljið mig langaði í eina langa fyrirsögn. Úje.

Ég veit að maður á ekki að grínast með geðsjúkdóma, né alkahólisma eða krabbamein, kransæðastífur og allan þann heljarballett.

En ég geri það nú samt.  Hvernig á maður að lifa af ef húmorinn er ekki með í för?

Hah?

Og í þessu máli sem ég ætla að blogga um áður en ég hendist í sólbað þá er afstaða mín nokkuð klofin svo ekki sé meira sagt.

N.k. þriðjudag skellur á reykingabann í Hollandi.  Þá má ekki reykja á almennum stöðum.  Þar fór það.  Nú, hassbúllurnar eru í vanda staddar.  Grasið eða hassið (veit ekki muninn, slétt sama) er reykt með tóbaki.

Ég hef nefnilega samúð með öllum reykpúandi nikótínfíklum sem úthýst er úr samfélagi manna og dæmdir til einangrunar með sinn félagslega löst.

En ég hef enga samúð með dópistum.  Mín vegna má banna fíkniefni af öllum toga til sjávar og sveita, lands og miða.

Ok, ok,ok, þið getið drukkið addna.

En mínus Holland þá telur heimurinn að hass sé fíkniefni.  D -ó - p. 

Af hverju í fjáranum byrja þeir ekki á að banna ólöglega vímuefnið?

Og snúa sér síðan að því löglega?

Það meikar fullkominn sens fyrir mér.

Ég er sem algjörlega klofin í málinu.  Hef samúð með einni tegund er á móti annarri.

Nei, ég ætla ekki að leita mér hjálpar, mér finnst gott að vera ekki fullkomin.

Farin út að reykja.


mbl.is „Öfugsnúið“ reykingabann í Hollandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er alkapillan?

Það stendur í þessari frétt að ÍE stefni að síðasta takmarki líffræðinnar sem mun vera að finna út hvaða erfðaþættir hafa áhrif á minni, athygli og hraða hugsunar.

Sko, ég er ekki alveg að gúddera þetta.

Ég heyrði í fyrra eða árið þar áður að þeir væru alveg um það bil að einangra alkagenið.

Halló - alkinn ég þarf að fá niðurstöðu úr þeirri rannsókn.

Það hefur verið talað um að það sé tímaspursmál hvenær það komi pilla á markaðinn við fíknisjúkdómum.  Hm...

Bara tekið inn með konflexinu á morgnanna.  Létt og löðurmannlegt.

Og hvað ef ég t.d. myndi gleyma pillufjandanum (eins og ég hef sögu um), ætli það yrði bara hlaupið á barinn?

Sé alveg fyrir mér alla alkana sem myndu glaðir notfæra sér ástandið, detta í það og haffa kaman, brjóta kannski og bramla, rífast og slást, fljúga til útlanda og brenna upp vísakortið og segja svo skömmustulegir daginn eftir; ó þorrí ég gleymdi að taka lyfin mín!  Ók, það er þó tilbreyting frá þreytta gamla frasanum; Ég var svo full/fullur af því ég gleymdi að borða!

Ein tafla við alkahólisma á dag.  Eða tvær ef þú ert í svaka vondum málum.

En ég get ekki rifið kjaft út af "hægaganginum" á að finna alkagenið.  Vegna þess að ég sagði mig úr gagnagrunninum hérna um árið.

Ætli ég fái þá ekki pilluna þegar hún kemur á markað?

Fruss ég held áfram að funda með leynifélaginu bara og verð edrú einn dag í einu upp á gamla mátann.

Það er það eina í stöðunni núna amk.

Live is beautiful.

 

 


mbl.is Íslensk erfðagreining stefnir að síðasta takmarki líffræðinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 11
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 74
  • Frá upphafi: 2987142

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 73
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.