Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Snúra

Sultufyllerí - hikk

Maður á ekki að hafa rangt við, ég veit það en stundum reyni ég að fara á bak við sjálfa mig og ég lendi alltaf illa í því.

Í kvöld t.d. var ég að fá mér ristað brauð og te, sem í þessu tilfelli er gjörsamlega í frásögur færandi.  Hvað um það, ég stalst til að setja smá sólberjasultu á brauðið mitt, sem er engan veginn sniðugt af því ég er sykursjúk.  Sko, sykursjúkur alki (óvirkur sem betur fer), er eiginlega ekki stærsti vinningurinn í happadrættinu.  Samt er ég ógeðslega ánægð með mína úthlutun.  Dæs.

En aftur að sultunni.  Eftir að ég varð edrú ákvað ég að borða ekki mat sem innihéldi áfengi.  Málið var einfalt, ég borða auðvitað ekki brennivín, frekar en að ég drekk það.  Nónó fyrir mig.  Auðvitað er vín í mat yfirleitt ekki áfengt, vegna þess að maturinn er eldaður og allt ojabjakkið gufað upp.

Þetta er meira svona prinsippmál fyrir mig.  Áfengi er jafnmikið eitur fyrir mig eins og arsenikk er fyrir rottur.  Munurinn á mér og þeim er að ég hef tekið upplýsta ákvörðun um að neyta ekki áfengis, rotturnar slysast á helvítis arsenikkið, aftur og aftur.

Eitthvað fannst mér sultan undarleg á bragðið og ég kíkti á krukkuna.  "Sólberjasulta með Jamaica Rommi" stóð á friggings miðanum.  Þar fór það í vaskinn.  Og ég er að drepast úr hungri.

Og þá mundi ég aftur eftir áfengissultunni sem amma mín bjó til hérna í denn.  Óvart auðvitað.  Eitthvað hafði rabbarbarasultan fengið ranga meðhöndlun því hún gerjaðist og ég og Greta systir komust í viðkomandi sykurleðju og úðuðum í okkur.  Þessi sulta hefur sögulegt gildi og verður skráð í annála okkar systra, því það eru ekki margir sem hafa farið á ærlegt sultufyllerí og það í frumbernsku.  Ha???

Segið svo að maður sé ekki hokinn af reynslu frá blautu barnsbeini.

Farin að lúlla og það gaula í mér garnirnar.

Ég er reyndar að ljúga þessu með garnagaulið, hér er fullt hús matar, en ég hef þennan tendens, ræð ekki við hann, ég verð að búa til dramatík úr öllu, smáu sem stóru.

En þetta var alkablogg í boði Sultugerðar Reykjavíkur.

Nigthy, nigthy!


Alkablogg

ðæ 

Eftir að ég varð alki, fyrir ekki svo mörgum árum ef ég miða við vel flesta sem drekka árum saman áður en þeir missa stjórn, voru ekki nein 5 glös á viku inn í myndinni.  Öllu réttara er að ég hafi skutlað í mig 5 rauðvíns á kvöldi ásamt bjór og rúllandi efnum.

Það er eins gott að ég hef ekki liðagigt því þá væri það bigg tæm bömmer hjá mér að geta ekki notað 5 glös af léttvíni til fyrirbyggingar eða lækningar.

En ég er með ógeðslega hressa liði.  Þeir beinlínis garga af heilbrigði.

Alkinn ég bara heppin þarna.  En í dag hefur engin heppni verið að fylgja mér, ef ég á að segja alveg satt.

Sumir dagar eiga ekki rétt á sér.  Þeir eru klúður frá því að maður opnar augun og stundum þar til maður lokar þeim.

Gef mér æðruleysi.

Þessi dagur hefur verið sérstaklega afbrigðilegur og ég blásaklaus, eins og ávallt.

Ég var að þrífa eldhúsið og það rann skarpheitt vatn úr krananum.  Allt í einu datt kraninn eða rörið sem vatnið rennur út bara í vaskinn og það myndaðist þessi dásamlegi gosbrunnur sem sprautaði vatni upp um alla veggi, eyðilagði kaffipoka, Maldonsaltið mitt, og þvoði mér í leiðinni.

Ég hentist til og ætlaði að skrúfa fyrir en þá datt ég á minn eðla afturenda og ég meiddi mig í löppinni.

Ég ætla ekkert að vera gera þetta verra en það var og þess vegna ætla ég ekki að segja ykkur að ég týndi heimilissímanum og læsti mig nærri því úti, því ég fann ekki lyklana lengi vel.

Dæs.

Nei, nei, þetta er orðið gott.

Alkinn rennvoti.


mbl.is Áfengi minnkar líkur á liðagigt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Af hverju drakkstu svona mikið?"

 Alfur

SÁÁ blaðið var í pósthólfinu mínu í morgun.  Og ég las það upp til agna.

Ég er ein af þeim tugþúsund Íslendingum sem á SÁÁ líf mitt að launa.  Ég er hvorki meira né minna en sannfærð um að ég sæti ekki hér og rifi kjaft alla daga, hefði þeirra ekki notið við.

Blaðið er stútfullt af fróðleik.  Dæmi:

"Af hverju drakkstu svona mikið pabbi" er viðtal Mikahels Torfasonar við pabba sinn sem hann keyrði í meðferð fyrir einhverjum árum.  Þá fékk ég verk í móðurhjartað.  Það er vont að meiða börnin sín.  Ég lifi með því, get ekki breytt því en ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til að endurtaka það ekki.

Það er grein um nikótín og alkahólista.  Helst æði oft í hendur, eins og undirrituð ætti að vita. 

Gunnar Smári skrifar frábæra grein um "Samfélag á fyllibyttustiginu" og Hörður Svavarsson skrifar um nýja greiningartækni í barna- og unglingageðsjúkdóma.

Og svo mætti áfram telja.

Frá og með morgundeginum og alla helgina er Álfurinn til sölu.  Ágóði sölunnar rennur til rekstrar unglingadeildarinnar á Vogi.  Ekki veitir af.  Við höfum nýlega lesið um að 20 fíklar, ungar mæður, hafi látist frá áramótum.  Það þarf að gefa í hérna.  Almenningur, með kaupum á Álfinum og svo ættu ráðamenn að hysja upp um sig og sjá til þess að SÁÁ sé ekki stöðugt í tilvistarkreppu vegna skorts á fjármagni.

Þessi alki kaupir álfinn og ég vænti þess að það gerir allir sem hér lesa.  Alkahólismi snertir okkur öll, á einhvern hátt.


Löglegur díler til rannsóknar

Það kom mér ekki á óvart að Magnús Skúlason hafi verið leystur frá störfum fyrir að hafa ávísað lyfjum á nöfn fólks, án leyfis.

Maðurinn skrifaði sem sagt út lyfseðla á nöfn fólks út í bæ, sem hann lét síðan ná í í apótekin.  Það er ekki vitað til hverra lyfin fóru.  Það þarf vart að taka það fram að þetta voru ávanabindandi lyf.

Í fyrra var Magnúsi bannað að skrifa út ákveðna lyfjategund vegna þess að hann að hann hafði ávísað miklu magni af ávanabindandi lyfjum til fólks án þess að geta gefið upp haldbæra ástæðu.

Sem fyrrverandi pillukerling veit ég hversu stutt er á milli lífs og dauða hjá okkur sem höfum  misnotað lyf.  Ég veit líka að alltof margir deyja vegna of stórra skammta af lyfjum.  T.d. góð vinkona mín sem fanst látin í rúmi sínu að morgni fyrir fáeinum misserum síðan.

Magnús Skúlason er stétt sinni til skammar og á ekki að hafa aðgang að veiku fólki.

Í mínu tilfelli voru engir "Magnúsar" að skrifa út fyrir mig í ótæpilegu magni.  Ég hef alltaf haft lækna sem hafa verið heiðarlegir og vænir menn.  Ég var bara með fleiri en einn í takinu og þeir vissu svo sannarlega ekki hver að öðrum.  Við alkarnir erum lygarar af guðs náð á meðan við notum.

Magnúsarnir eru ekki margir, vona ég að minnsta kosti.  En þeir eru engu minni sölumenn dauðans en þeir sem selja dóp á götuhornum, ef ekki meiri.  Fólk lítur nefnilega upp til lækna, treystir þeim fyrir lífi sínu og sinna nánustu, þessa vegna eru Magnúsarnir stórhættulegir dílerar og glæpir þeirra óafsakanlegir. 

Ég vona að þessir dílerar kerfisins verði upprættir og þeir teknir úr umferð.  Þeir eiga ekki að hafa meirapróf á reseptblokkir.

Sveiattann.


mbl.is Skrifaði lyfseðla á nöfn án leyfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það má þekkja þá sem drekka

pickled-pig-cartoon-new

Þegar ég sá auglýsinguna frá Vínbúðinni "Láttu ekki vín breyta þér í svín", fannst mér hún brilljant.  Hugmyndin sko.  Mér hefur nefnilega fundist sumir sem ég hef kynnst á lífsleiðinni verða að hálfgerðum svínum undir áhrifum.

Einu sinni drakk ég sjaldan og vel, svo drakk ég oft og illa.  Og það kom að því að það var ekkert annað í stöðunni en að setja tappann í flöskuna.

End of story (einn dag í einu).

En svo komu eftirþankarnir. 

"Það má þekkja þá sem drekka, af þeim félögum sem þeir þekkja og þá stóð svínið upp og labbaði heim á leið" söng Ríó um árið.  Svín drekka ekki, þau krúttast bara í stíunum sínum og verða svo fallegir hamborgarhryggir, purusteikur og kótelettur.  Það er þeirra móttó í lífinu.  Bara nokkuð falleg framtíðarsýn hjá þessum elskum.  Ergó: Blásaklaus af fyllerísdrykkju.

Ástand sumra brennivínsberserkja er ekki saklausum svínum bjóðandi.

Svo er hæpinn málflutningur hjá Vínbúðinni að hvetja fólk til að drekka eins og menn.  Sölutrix?  Jabb, ég held það.  Margir menn (þar með taldar konur) drekka svo illa að það er ekki til eftirbreytni. 

Það ákveður engin manneskja að drekka illa.  Það hugsar enginn: Í kvöld ætla ég að verða fullur eins og slordóni, æla og pissa á mig, lemja og berja, týna vísakortinu, og vakna í Helsinki.  Held ekki.  Annað hvort getur fólk drukkið eða ekki.

Þess vegna er til lítils hjá Vínbúð okkar allra að hvetja fólk til kurteisilegrar inntöku á áfengi.  Þeir sem geta drukkið eins og fólk, gera það væntanlega áfram og vonandi flytjast þeir aldrei yfir í óeirðadeildina í bransanum og þeir sem geta ekki drukkið eins og menn halda því væntanlega áfram þar til yfir lýkur.  Vonandi enda þeir í meðferð.

Af þessum sökum snarminnkaði aðdáun mín á svínslegri auglýsingu Vínbúðarinnar.

Skál í boðinu.

Ég í kóki þið hin í einhverju öðru að eigin vali.

Úje.


Úr bloggræsinu

Og ég held áfram alkaskrifum af því ég rakst á hann Robert Downing jr. í fréttunum.

Ekki að það sé frétt að hann gleymi aldrei neyslutímanum sínum.  Það er eins gott fyrir okkur alkana að muna hvernig fyrir okkur var komið. En hvað um það, þessi frábæri listamaður virðist í góðum gír.

Suma daga er ég viðkvæm og auðsærð og það flýkur fljótar í mig.

Í dag er svoleiðis dagur. 

Þá daga langar mig að loka á alla athugasemdara sem eru ekki skráðir bloggarar og leyfa sér að hella úr hlandkoppnum sínum yfir kommentakerfið mitt.  Mig langar að fremja eitthvað, þegar mér líður á þennan veginn.  Æðruleysi, æðruleysi.

En svo hugsa ég, okídókí, heimurinn er fullur af vanvitum sem fara með veggjum.  Einn og einn þeirra slæðist stundum inn á síðuna mína og gerir þar þarfir sínar.

Ég get lifað með því vegna þess að svo margir aðrir sem ekki eru skráðir hér á blogginu koma með skemmtilegar og málefnalegar athugasemdir.

Ég hef því opið í nafni málfrelsis og málefnalegrar umræðu. 

En fídusinn sem finnst í stjórnborðinu og gerir manni kleyft að loka á ip-tölur er dásamleg uppfinning.

Ég ráðlegg öllum sem fá leiðinlegar sendingar í formi persónulegs skítkasts frá Pétrum og Pálum að nota þennan möguleika.

Ég er edrú einn dag í einu!

Það er næsta víst.

Go Downey, go.

Úje.


mbl.is Gleymir aldrei ræsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alkinn á snúrunni

 93

Það er langt síðan ég hef snúrað.

Í dag (mánudag) eru 19 mánuðir síðan ég fór inn á Vog.  Hm.. tíminn flýgur og hann gerir það skemmtilega, svo skemmtilega að ég man það. 

Miðað við ástandið á mér þegar ég dröslaði sjálfri mér í meðferð þá er ég á toppi tilverunnar.  Þrátt fyrir flensur af ýmsum toga, sykursýki og aðra óáran sem ég fæst við, þá er það tertubiti og ég í fantaformi,þegar þetta tvennt er borið saman.

11 daga pillufallið mitt í janúar, ýtti ansi vel við mér, er mér óhætt að segja.

Ég er vör um mig, mátulega hrædd við möguleg föll til að fara varlega.

En 19 mánuðir er heill hellingur af dögum.  Allsgáðum og dýrmætum dögum.

Ég er svo skemmtilega heppin.

Lífið býður upp á möguleika.

Og núna þegar ég leggst til svefns veit ég að ég man hvað ég gerði og hugsaði áður en ég lokaði augunum.

Það er þó nokkurs virði.

Það er ansi fagurt útsýnið af snúrunni, ég blakti rólega.


Alkaleg útskýring - Ójá

03 

Það er afskaplega alkaleg hegðun að útskýra ofdrykkju sína eftir fyllerí með því að rýna í áfengistegundina. 

Ég verð svo full af vodka, ég ætti að skipta yfir í gin, eða hvítvín, eða rauðvín, eða rauðvín og bjór.  Þá verður þetta í lagi.

Það voru meira að segja haldin námskeið hér á landi, fyrir ekki svo mörgum árum síðan, þar sem fólki var "kennt" að drekka eins og menn.  Það fer ekki miklum sögum af árangrinum.

Ég hef verið þarna, trúið mér.

Ég er líka ein af þeim sem var ekki búin að borða nógu mikið og varð þess vegna röflandi full. Eða þá að sólin skein, ég var döpur, ég var glöð og svo mátti áfram telja.  Það má segja að ég hafi verið heppin, því ofdrykkjan var að mestu leyti inn á heimilinu.  Vó, hvað ég hefði lent illa í því, gott fólk, ef ég hefði sofnað út af á djamminu.  Sjúkkit.

Það er því alveg ferlega krúttlegt og um leið sorglegt að lesa um Rúmenska manninn sem lagði fram formlega kvörtun undan bjórnum sem hann drakk.  Hann varð pissfullur af einum bjór.  Sem sagt, eitthvað að bjórnum.

Það væri líka tryllingslega fyndið ef það kæmi í ljós að einhver hyskinn starfsmaður hefði blandað þennan eina bjór með spíra, bara "for the hell of it" en þá ét ég auðvitað trefla vinkvenna minna.

Jenný Anna, talar frá átakasvæðinu, allsgáð og í fínum málum að sjálfsögðu.


mbl.is Kvartað yfir áfengisáhrifum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rýkur - rúllar - eða rennur

fire

Einu sinni, fyrir ekki svo löngu síðan, tíu árum eða rúmlega það, hefði mér fundist flott að vinna við rauðvínsframleiðslu. Í smakkeríinu. Hikk.

Eftir að ég fór svo í pillurnar, þ.e. svefn- og róandi, lét ég mig í alvöru dreyma um að verða lyfjatæknir.  Mér fannst það praktískt og það fór sæluhrollur niður bakið á mér við tilhugsunina um að vera inn um milljónir af þríhyrningsmerktum lyfjum.  Ég held að ég trúi því sem mér var sagt á Vogi, að ég sé fyrst og fremst pilllukerling.

Hugsið ykkur að vera svo firrtur að finnast pillur í öllum stærðum og gerðum, það mest spennandi í heiminum.  Þvílíkt líf. 

En ég fór aldrei í lyfjatækninámið, sem betur fer fyrir apótek þessa lands, enda var það aldrei nema hugsunin ein.  Var svo illa haldin af alkahólisma að ég fór ekki langt, svona yfir höfuð. 

Nú dreymir mig aðeins um eitt og það er að vera edrú.  Þar kemur lykilinn að öllu hinu sem er eftirsóknarvert í lífinu.

Það er ekki flóknara en það.

En ég var að pæla í því hversu aumkunarvert það hefði verið, hefði ég haldið áfram á breiða veginum og á endanum hefði þurft að fylgja mér á barinn, sko apóteksbarinn. En eins og maðurinn sagði, það er sama hvort það rýkur, rúllar eða rennur, allt er nónó, af því sumir eru búnir með kvótannWhistling

Ómægodd.

Ég hendi mér í vegg.  Allsgáð og í flottum fíling.

Æloflæf.

Úje og snúrumst.


mbl.is Á launum við sumblið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óminni alkans

 61

Það er til marks um hvað ég var í tómu tjóni á fyllerísárunum, að ég varð mjög hissa þegar ég sá að bloggið væri 2 ára.  Ég hélt að bloggið á Mogganum væri búið að vera við líði til margra ára. 

Þannig að bloggið er aðeins eldra en edrúmennskan mín.  Kostulegt hvað margt hefur farið fram hjá mér í "víninu".

Þegar fólk innbyrgðir áfengi og pillur eins og ég gerði, þá er stöðugt óminni það eina sem maður gengur að nokkuð vísu.

Eftir að af mér rann hef ég fengið sannanir á færibandi fyrir þessu.  Ég get horft á flestar bíómyndir frá 2003 og fram að meðferð, eins og ég sé að sjá þær í fyrsta sinn.  Það er plús.  Mínusinn er að húsband spyr aftur og aftur, alveg forviða; "ertu að segja mér að þú munir ekki eftir þessari mynd"? og ég alveg; nei, ég man andskotann ekkert eftir henni, hættu að spyrja.  ARG".  Honum finnst ég gangandi frávik mannsheilans.

Og bækurnar sem ég las.  Jesús minn.  Ég er að segja ykkur frá mega sparnaði hérna.  Ég ástundaði auðvitað mín bókarkaup í ruglinu, eins og ég var vön, og las.  Og ég las.  Enda þurfti ég stundum að negla mig niður í bækur, gleyma mér, svo ég missti ekki vitið.  Ég held að ég hafi notið bókanna, en ég man það ekki.  Því hafði ég nóg að lesa, fyrsta edrúárið mitt.  Efni bókanna hringdi ekki bjöllum, hvað þá meira.

Svo eru allir "litlu" hlutirnir sem duttu úr hausnum á mér.  Við hverja ég hafði talað.  Hverju ég hafði  logið til að flikka upp á ástandið og blekkja mína nánustu, til að halda andlitinu.  Öll samtölin sem fólk hefur vísað í og ég man ekki rassg... eftir.  En ég sný þessu upp í gamanmál, enda ekki til annars en að hlægja að þessu, nema ég gráti auðvitað, en ég er löngu búin að gráta út minn kvóta í lífinu.

Að lokum, til merkis um sjálfsblekkinguna og þá staðreynd að maður trúir því staðfastlega að enginn viti að maður er alltaf fullur og í tómu tjóni.

Ég talaði við Dúu vinkonu mína, sem var ein af þeim sem alltaf stóð með mér, var til staðar fyrir mig án þess að leggja mér lífsreglurnar og beið bara róleg eftir að ég áttaði mig.

Samtal:

Alkinn ég: Dúa; veistu, ég held að ég sé alkahólisti!!!

Dúan: Já er það? Whistling

Eftir að samtalinu lauk, henti Dúa sér í vegg.  Eins og ástand mitt hafi farið fram hjá henni eða nokkrum öðrum sem var í sambandi við mig.  En ég elska hana fyrir að hafa ekki sagt neitt á þeim tíma.  Ég hefði bara farið að gráta.

Ég elska þig Dúskurinn minn.InLove

Lífið er eitt stórt andskotans kraftaverk.  Þrátt fyrir snjó á miðju vori.

Allir edrú í boðinu.

Jenný minniskubbur hefur talað.

Yfir og út.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 12
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 2987143

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 74
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31