Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Aldursblogg

 lucy-jump-large-coat-stand

Ég held að þetta með að verða gömul og allt það kjaftæði hafi náð mér.  Og það þrátt fyrir að ég hafi marglofað sjálfri mér að láta það ekki gerast.

Sko þegar ég var tvítug þá voru allir yfir þrítugt á grafarbakkanum.

Ég held meira að segja að ég hafi lýst því yfir í votta viðurvist að ég ætlaði ekki að verða eldri en fertug, en það var svo skelfilega hár aldur að ég náði ekki upp í það.

En ég er orðin fimmtíuogeitthvað og ég upplifi að flestir eru eldri en ég.

Ég býð eftir að áhugamálin breytist.  Mér er sagt að á mínum aldri komi músíksmekkurinn að breytast, útsaumur muni höfða til manns í ríkara mæli og eitt aðaláhugamálið verði að stunda  lestur minningargreina og að mæta í jarðarfarir hjá ókunnugu fólki.

Þetta er auðvitað ekkert annað en bölvað kjaftæði.

Jákvæða breytingin sem ég hef tekið fagnandi er að ég nenni sjaldnast lengur að fara í kringum hlutina eins og köttur í kringum heitan graut.  Ég segi hlutina hreint út.  Það er kosturinn við að eldast. 

Annars er ég að lesa bók um konu sem er með jarðarfarir sem áhugamál og erfisdrykkjur eru sérstaklega spennandi að hennar mati.  Það er út af þessari bók sem ég missti mig í aldurspælingarnar og ég varð alveg meðvituð um það í smástund að lífið styttist í annan endann.  Ekki gott mál.  Ég segi ykkur frá bókinni seinna þegar ég er komin yfir sjokkið, ef ég lifi það af.

Ég gæti alveg búllsjittað mig og aðra með því að segjast ekki óttast ljámanninn en þá væri ég ekki að segja satt.  Mér þykir alltof vænt um lífið til að kæra mig um að yfirgefa það.

Einhvern veginn finnst mér það alveg ágætlega heilbrigð afstaða.

En nóg um það, ég ætla að hríslast út á svalir í sólbað.  Með hitapoka, sjal og staf.  Jeræt. 

Lífið er bjútífúl.

Úje.

 


Viðkvæmt mál

Það eru svo langar í mér leiðslunnar.  Sá þessa frétt um nýja aðferð við að nema örugga vísbendingu í blóði ófrískra kvenna um það hvort fóstur þeirra er með Down´s heilkenni eða ekki og hugsaði bara, gott, flott.  Og svo fletti ég áfram.

Og svo sá ég þessa færslu hér með heitum umræðum um málefnið.  Og fólk hefur skoðanir á málinu, með og á móti.

Ég er frekar nýlega búin að ná því að það er til lítils að reyna að setja sig í spor þeirra sem verða fyrir stóráföllum.

Eins og t.d. að eignast fötluð börn, hvort sem það er andleg eða líkamleg fötlun.

Ég hélt að ég gæti t.d. sett mig í spor þeirra sem misstu barn í fjölskyldunni.  Ég átti því miður eftir að komast að því að ég hafði ekki komist nálægt þeim sársauka í hugarfylgsninu þegar dóttir mín missti ungan son sinn, það er langur vegur þar í frá.

Þannig að ég er hætt að segja, ef ég myndi eignast fatlað barn, ef, ef, ef, því ég get engan veginn sett mig í þá stöðu að standa í alvörunni frammi fyrir því.

Ég fagna því hins vegar þegar vísindunum fleygir fram, þannig að líkurnar á vansköpun, fötlum og alvarlegum sjúkdómum minnki eins mikið og mögulegt er.

Ég veit líka að foreldrum þykir jafn vænt um fötluð börn og þau sem ekki eru það.  Þó það nú væri.

En að taka þá ákvörðun um að eignast barn vitandi hvað bíður barnsins og allrar fjölskyldunnar hlýtur að vera erfiðara en svo að ég ætli að gera mig þess umkomna að skilja það.

En fólk á sjálft að fá að taka ákvörðun um hvað það kýs að gera.

Og það styð ég af heilum hug.


mbl.is Ný aðferð við að greina Down's
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nostalgía II

Og enn hef ég legið á Ljósmyndasafnsvefnum.  Og nostalgíast út í eitt.

Ég hef stundum bloggað um klígjuna sem ég hef á lýsi.  Tveimur árum áður en ég byrjaði í Meló hættu þeir að hella lýsi upp í nemendurna.

Ég er ansi hrædd um að skólaganga mín hefði orðið snubbótt hefði ég lent í skylduhellingunni.  En það var ekki séns að fá undanþágu frá inntökunni.  Reynið að lifa ykkur inn í mómentið.  Mjólk í flösku og hlandvolgt lýsi.

melolysi

En Melaskólinn maður minn.  Þvílíkur yndælis skóli.  Minnir mig.  Það verður allt svo fallegt í minniningunni.

meló

Þessi salur var eins og salur í konungshöll fannst mér.  Svo kom ég þarna þegar stelpurnar mínar gengu í skólann og þá var þetta eins og meðal kústaskápur.  Segi svona.

Og heraginn sem ríkti í Melaskóla var töluverður.  Allir í röð, hneigja sig fyrir kennaranum um leið og maður gekk inn í stofuna, standa upp ef skólastórinn kom í salinn og syngja skólasöng á morgnanna.  Ég man varla eftir að hafa gengið á eigin vegum í öll þessi 6 ár sem ég var í skólanum.

meli

Ég minnist þessara stunda hjá lækninum þar sem maður stóð á nærbuxunum og þeir kipptu alltaf í teygjuna og kíktu á hið allra helgasta.  Ég hef aldrei fengið svar við hvers vegna?  Bölvaður pervertismi.  Hehe.

Það er ekki gott að sökkva sér of mikið í fortíðina, en það var gaman að vera til.  Í Meló og Hagaskóla, fyrir milljón árum síðan.

Farin að lúlla.

P.s. Myndirnar stækka ef klikkað er á þær.

 

 


Kanelsnúður eða kleina - meikar ekki diff

20080429111835_0 

Ég er í kasti, algjöru krúttkasti.

Jenný Una var að gera fimleikaæfingar.

Amma, taktu mig í kanilbulla.

Amman: Ha?  Ég fer ekki að baka snúða núna Jenný mín.

Jú gerðu svona kanilbulla amma.

Amman hringdi í mömmuna eftir túlkun, en hún þurfti að hugsa sig lengi um og svo fékk hún móðursýkislegt hláturskast.  Mamma, þetta barn gengur frá mér.  Hún vill að þú takir sig í KLEINU.

Það var allavega eitthvað úr bakaríinu.

Og: Í rúminu þar sem barn liggur þreytt og pirruð, enda komið langt fram yfir hefðbundin háttatíma.  Amman er að segja söguna af Rauðhettu sem Jenný elskar þessa dagana.  Nokkurs konar kannibalismi fyrir börn sagan af henni Rauðhettu.  Og allt í einu:

Amma hættu að segja söguna.  Ér pirruð.  Á morgun fer ég bara heim og kem ekki attur.

Amman: W00t Verður amma þá ekki bara að fá aðra stelpu til sín?

Jenný Una: Jú þú getur alleg fengið eina þriggja ára stelpu (jafnaldri sko mína), sem kann ekkert að ganga og tala og er bara í kerru.

Amman (að drepast úr hlátri inni í sér) Já ég vil alveg fá svoleiðis stelpu til að knúsa.

Barn: Nei þú máttaekki!  Þú ert bara amma mín.

Amman í krúttkasti.  Góða nótt Jenný mín.

Jenný Una(ákveðin): Þú ert amma mín og Lillemann og Olivers og Jökuls, en ekki stelpu!

Amman: Auðvita er ég amma ykkar allra og verð það alltaf.

Lítil rödd: Góða nótt.

Og núna sefur litli skæruliðinn svo fallega á koddanum sínum, svo saklaus að það er ekki laginu líkt.

Ég elska börn.  Þau eru svo skemmtilegt fólk.

P.s. Á morgun set ég inn glóðheitar myndir frá Spáni af Maysunni og Oliver.


Hefur tíminn ekki flogið?

Það er í alvörunni komið sumar.  Það rann upp fyrir mér í dag.  Seint?  Nei, tímapunkturinn er niðurnegldur.

Fyrir 14 árum í dag rugluðum ég og húsband saman reytum okkar í annað sinn frá því að við hittumst fyrst.

Í fyrra skiptið þegar ég var rétt skriðinn yfir tvítugt.  Það flosnaði upp úr því, jájá, mér fannst maðurinn gjörsamlega að kafna úr aðdáun á eigin persónu.  Hm... ég mun hafa verið litlu skárri.

En 11. júní 1994 runnu þessar stórþjóðir (hm) saman í einn vöndul, sem hefur rúllað æ síðan við mikinn fögnuð okkar tveggja.  Svona oftast amk.

Það sumar í júlí fæddist hann Jökull Bjarki, fyrsta barnabarnið mitt.

Árið 1994 var hið þriðja í röðinni af byltingarárum Jennýjar Önnu.  Það gekk mikið á upp á gott og vont.

Asskoti sem tíminn hefur liðið.

Í morgunn yfir kornflexinu:

Ég: Til hamingju með afmælið.

HB (ráðvilltur og nervös, man aldrei dagsetningar): Ha, sömuleiðis. (Og hér sást greinilega að hann hafði ekki glóru um hvaða áfanga ég var að óska honum til hamingju með).

Ég (kvikindislega): Finnst þér ekki tíminn hafa flogið?  Er ekki eins og þetta hafi gerst í gær?

HB (algjörlega heiðarlegur í andlitinu sem samt dáldið skelkaður): Jenný mín, ég hef ekki hugmynd um hvert þú ert að fara.

Og ég gafst alla leiðina upp.  Sumum er ekki viðbjargandi.

En ég knúsaði hann extra stórt þegar hann fór í vinnuna.

Það er af því ég er svo góð og umburðarlynd.

En ekki hvað?

Úje.

 


Ég tek fegurðardrottninguna á málið

Það er mánudagur og ég er blúsuð.

Það má. 

Ég sakna Olivers og Maysu minnar, ég hef ekki séð þau síðan í janúarlok.

Á morgun fara Oliver og Maya með ömmu-Brynju, afa-Tóta og fleira fólki til Marbella á Spáni.

20080517235938_7

Robbinn verður að vinna hér með einhvern atburð á meðan. 

Mig langar svo að knúsa litla krúttmolann minn en að líkindum sé ég þau ekki fyrr en í ágúst.  Svona getur þetta verið snúið þegar fólk býr "alla" leið úti í Londres.

Þá verður mamman þrítug og ég ætla rétt að vona að hún haldi upp á herlegheitin hérna heima.

20080518205548_7

En ég get þó verið glöð yfir því að amma-Brynja er flott á myndavélinni og er dugleg við að hlaða inn myndum fyrir Granny-J.

Það er þó lán í óláni.

Ég sem bloggaði um daginn um að mánudagar væru góðir dagar.  En ég vaknaði svona sorgmædd í morgun en það þýðir ekki að vola og skæla.

Farin að æ...

Segi svona.

20080517233312_14

Ég held að ég brosi bara í gegnum tárin og taki fegurðardrottninguna á daginn.

Later.


Þú ert með lús!

 20080608114059_5

Jenný Una hefur fengið kisu.  Hún hefur verið "svo leið aþþí hún á ekki kisu" í marga daga.  Og í dag var náð í krúttið sem er reyndar strákakisa og Jenný skírði hann Núll.  Hvaðan nafnið er komið veit ég ekki, en þar er langt síðan að hún ákvað það.

Og við vorum að passa þau systkin í gær meðan mamman og pabbinn fóru út að borða í tilefni brúðkaupsafmælisins.  Hér eru foreldrarnir á leiðinni á Domo.

20080608114841_8

Allt gekk eins og í sögu og þegar Hrafn Óli var sofnaður í litla rúminu sínu vildi Jenný taka okkur Einar í hárgreiðslu.  Hér er hárgreiðslukonan í banastuði.

20080608113358_4

Hún byrjaði á mér, reif teygjuna úr hnútnum á hausnum á mér, fitlaði ofurvarlega við hárið á ömmu og kvað svo upp dóm:

Amma, þú ert ekki með lús!Pinch  Svo var það Einar, skoðískoðískoð og svo hátt og skýrt: Þú ert með lús, þa verður að kaupa meðal.W00t  Einari var nærri því ekki skemmt, en hann var í krúttkasti og það dró úr mesta sársaukanum.

Og svo;

Freyja vinkona mín er best en hún var að grenja og skæla í dag.

Amman: Var það ekki vegna þess að þú varst að slá hana (búið að hundskamma barn fyrir tiltækið).

Jenný (forstokkuð): Jú, ég lemdi hana en það var alleg óart.

 Á þriggja ára aldursskeiðinu eru börn ekki farin að réttlæta gjörðir sínar neitt að ráði.  Það var ekki skömmustuvottur í barninu þegar hún játaði brotið.

Hvað getur maður sagt?

Annars góð,

Later!


Ég vil ekki skilja - bara alls ekki

 20080416214727_13

Allir eiga drauma, þar á meðal ég.  Efstur á blaði er að ferðast til Kúbu, áður en allt breytist þar á bæ.  Sáum til með það.

Svo langar mig til Kína og, og, og.  Nóg komið af ferðalagaóskum.  Segi peningaveskið mér satt og rétt frá, þá enda ég í London í haust og má vera heppin með það.  Maður er ekki mógúll, það er nokkuð ljóst.  En ég fer og síkrita á ferðalögin.

Og svo dreymir mig um að eiga lítið hús fyrir austan, þ.e. austur á fjörðum.  Seyðisfjörður kemur sterkur inn.  Jafnvel Eskifjörður eða Kommabærinn.  Ætti ekki að væsa um mig þar.  En nú er útlit fyrir að ég verði að sleppa þessum draumi.  Mig langar nefnilega ekki til að skilja.  Ég las í blöðunum að eitt af hverjum þrem hjónaböndum á Austurlandi endi í slútti.

Ég ætla ekki að síkrita mig í hús fyrir austan, flikka upp á það, mála alla veggi sólgula, og taka fagnandi á móti vorinu, til þess eins að lenda í hávaðarifrildi við mitt elskaða húsband og skilja svo við hann - fyrir austan.  Er komin með upp í kok af skilnuðum enda á ég MARGA að baki eins og öllum lesendum þessarar síðu má vera ljóst.

Tökum þetta aðeins lengra, já sýnið mér þolinmæði hérna.  Ef ég myndi flytja í litla götu, segjum á Reyðarfirði, þá myndi ég byrja á því að banka upp á í þeim tveimur húsum sem lægju upp að mínu.  Ég myndi segja, góðan daginn, hefurðu skilið síðan helvítis álverið varð til?  Segjum að það yrði nei, báðum megin, þá sæi ég sæng mína útbreidda.  Einn af hverjum þrem, það stóð í blaðinu.  Nei sá draumur er hér með út úr myndinni.

Svo á ég þann draum að fá stórt hús til afnota, ekki langt frá höfuðborginni og það myndi ég fylla af börnum sem enginn vill eiga, eða hefur tíma fyrir.  Barnalegt kannski, en maður má láta sig dreyma.  Ég sé alveg fyrir mér sjálfa mig í öflugri uppsveiflu út um tún og engi með fullt af litlum ormum sem myndu prakkarast með mér frá morgni til kvölds.  Mikið rosalega væri það skemmtilegt.

Farin að síkrita hús og börn.

Er reyndar að fara að passa Jenný Unu og Hrafn Óla, en foreldrarnir áttu tveggja ára brúðkaupsafmæli í gær og eru á leiðinni út að borða.  Úje.


Siðblindir níðingar

Nú hefur  grunaði barnaníðingurinn sem virðist vera sá stórtækasti í misnotkun á börnum, sem vitað er um hér á landi, játað brot sín, að einhverju leyti.

"Háskólakennarinn sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um gróf kynferðisbrot gegn alls níu börnum hefur játað hluta brotanna. Hann segist iðrast gjörða sinna og vonast til að geta beðið konu sína og dætur afsökunar.

"Hann telur sig saklausan að stórum hluta en hefur játað eitthvað af þeim brotum sem snúa að fjölskyldu sinni," hefur Oddgeir Einarsson lögmaður háskólakennarans eftir honum.

Háskólakennarinn vildi einnig koma eftirfarandi á framfæri: "Ég iðrast þess sem ég hef gert mjög mikið og vonast til þess að geta beðið konu mína og dætur afsökunar"

Í upphafi snerist rannsókn lögreglunnar að meintri misnotkun háskólakennarans á þremur börnum hans. Síðar bættust tvö uppkomin börn hans, sem hann á með fyrri konu sinni, við hóp kærenda. Samkvæmt Oddgeiri hefur lögreglan hætt rannsókn á þeim málum þar sem þau eru orðin fyrnd.

Fyrir utan hin meintu brot gegn börnum kennarans rannsakar lögreglan fjögur kynferðisbrotamál geng einstaklingum utan fjölskyldu hans. Alls hafa því níu kært kennarann ef með eru þau talin málin tvö sem eru fyrnd.

Háskólakennarinn er laus úr einangrun. Hann er enn í gæsluvarðhaldi og mun vera til 7. Júlí.

"Hann ber sig illa en fær nú að lesa Fréttablaðið," segir Oddgeir og bætir við að háskólakennarinn telji umfjöllun fjölmiðla í hans garð ekki gefa rétta mynd af málinu.

Rannsókn lögreglunnar er á lokastigi. Málið þykir með alvarlegri kynferðisbrotamálum gegn börnum sem komið hafa upp hér á landi."

Og þessi  grunaði níðingur er ekki ólíkur "kollegum" sínum.

Hann telur sig saklausan að stórum hluta, en hefur játað lítilræði.

Og hann telur fjölmiðla ekki gefa rétta mynd af málinu.  Heimurinn gegn mér, þið vitið.

Ef þetta er ekki skortur á iðrun þá heiti ég eitthvað annað en Jenný Anna.

Ekki að það skipti máli pc að hann iðrist, þessi  grunaði maður á auðvitað ekki að koma álægt börnum, nokkurn tímann því hann er búinn að fyrirgera rétti sínum til þess og vel það.

Það eru auðvitað bara siðblindir níðingar sem misnota börn, bæði sín eigin og annarra.  En þá er ég að tala svona almennt um þá sem eru grunaðir um verknaði.

ARG

Tekið af visi.is


Þetta er útkall!

Nú kalla ég til allar vinkonur mínar, á öllum aldri, nær og fjær að fjölkvenna í bíó í vikunni.  T.d. á fimmtudagskvöldið.

Við erum svo margar að ég nenni ekki að hringja í ykkur allar, þið hangið hvort sem er allar á blogginu mínu í vinnunni, letingjarnir ykkar, í þeirri von um að ég geri ykkur ódauðlegar hér.Halo

Og systur mínar: Greta, Jóna, Guðlaug, Ingunn, Hilma og Stenna, hringja í sys.

Sko, nú er ekkert sem heitir, við förum á beðmálin og svo á kaffihús.

Eða á kaffihús og SVO á beðmálin.  Mér gæti ekki staðið meira á sama um röð.

Ef einhvern tímann er tækifæri til að gera skemmtilegan hlut sem við allar getum hlegið að og allt það, þá er það núna.  Hver hefur ekki gaman að stelpunum.  Pæliðíðí, fötin, skórnir, töskurnar, meiköppið og allur friggings ballettinn? OMG.

Annars var ég að horfa á ameríska fréttastöð á föstudaginn, CNN eða Fox (uss, geri það stundum) og þá var heill panell af fólki að ræða hvort þær væru lausgyrtar stelpurnar.  Það var búið að fara í gegnum hvern einasta þátt og reikna fjölda elskhuga allra kvennanna og fyrir utan Samönthu sem var eins og hausaveiðari í sínum hjásofelsum, reyndust allar hinar vera "high above average" í elskhugatali.

Það virtust allir í panelnum hafa gleymt þeirri léttvægu og löðurmannlegu staðreynd að beðmálin voru sjónvarpsþættir.

Þetta minnir mig á yndislega konu sem ég þekki sem sagði við mig þegar Dallas átti hug og hjörtu margra kvenna:  "Jenný finnst þér Sue Ellen ekki líta mikið betur út eftir að hún  hætti að drekka?".

Hringið í mig esskurnar.  Vér erum á leið í kvikmyndahús og ekkert kjaftæði.

Það verða fokkings sætaferðir frá Umfó, þess vegna. 


mbl.is Beðmálin boluðu Indiana Jones úr efsta sætinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband