Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Skítlega eðlið?

Davíð hefur talað og um leið sýnir hann okkur innræti sitt sem ég hef oftlega haldið fram að væri ekki alltaf fallegt.

Látum það vera, einn maður, skítlegt eðli, eins og einhver sagði hér einu sinni.

Íslenska þjóðin stendur ekki eða fellur með einum manni, þrátt fyrir að hann heiti Davíð Oddsson.

En það sem gerir mig hrædda er að við lestur þessarar fréttar og annarra eins og t.d. þessarar, er að Davíð varð margoft að gera hlé á ræðu sinni vegna hláturs og lófaklapps landsfundargesta Sjálfstæðisflokksins.

Mig óar hreinlega við því að fulltrúar þessa stóra flokks (óðum minnkandi þó) komi að landsmálunum, fólk sem hlær yfir heiftarræðu karlsins, persónulegum árásum hans á útlit fólks svo ég nefni dæmi.

Talandi um heift, langrænki og hvítglóandi bræði.

Einhver þyrfti að kenna manninum æðruleysisbænina.

Þeir hylla Davíð eins og hetju.

Hvar hefur þetta fólk verið síðan í októberbyrjun og æ síðan?

Svo er hitt að það er varla kjaftur undir þrítugu á landsfundinum.

Hversu klikkað er það?

Úff.


mbl.is Víkingar með Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum er best að þegja

..og presturinn fer aftur til starfa 1. maí.

Hann krefur Biskupsstofu um skaðabætur vegna frávikningar úr starfi á meðan málið var í vinnslu hjá dómstólum.

Finnst presti það skaðabótaskylt að víkja prestum (kennurum og öðrum sem hafa með ungt fólk að gera) úr starfi á meðan grunur um kynferðislegt ofbeldi er rannsakaður?

Greinilega.

Ég held að ég fari ekkert út í að blogga um þetta frekar.

En konur og börn eiga sér ekki málsvara innan dómskerfisins á Íslandi.

Og kirkjan?

Stundum er best að steinþegja.


mbl.is Séra Gunnar aftur til starfa 1. maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komið til mín

Hér er sólarhrings gömul frétt sem ég ætlaði ekki að blogga um.

Mér líður svo illa með hana og ég er svo reið.

Í staðinn fyrir að láta liggja ætla ég svona fyrir sjálfa mig að blogga um dóm Hæstarétts sem hefur sýknað sóknarprestinn af ákæru um kynferðislega áreitni við unglingsstúlkur.

"Presturinn, sr. Gunnar Björnsson, var á síðasta ári ákærður fyrir að hafa brotið gegn tveimur 16 ára gömlum stúlkum með því að faðma þær og strjúka aðra þeirra og segja straumarnir streymdu úr líkama hans við það að faðma hana. Hann var ákærður fyrir að kyssa hina stúlkuna á kinnina og segja að hann væri skotinn í henni og hún væri falleg."

Mér skilst að presturinn hafi játað verknaðinn sem að hans sögn hafði ekkert með kynferðisáreiti að gera, hann er bara svo opinn og tjáningarríkur maður.

Svo snertiglaður og blíður.  Jesús bara alla leið og kraftaverk í gangi.

Er það nema von að ég hafi skömm á kjólklæddum mönnum hjá þessari glötuðu ríkisstofnun.

Það er ekki í fyrsta sinn sem kærleikurinn lekur út í útlimina á þeim blessuðum guðsmönnunum.

En ég, heiðin eins og ég telst vera af tæknilegum ástæðum sem ekki verða gefnar upp hér, skil auðvitað ekki að Jesús er að verki í prestum eins og þessum.

Kyssa, strjúka og faðma telst samkvæmt þessum dómi eðlilegt í kirkjunni.

Það þarf engan Hæstarétt til að segja mér hvað er viðeigandi og hvað ekki. 

Mikið rosalega bíð ég spennt eftir því hvort biskupinn yfir kirkjunni setur sérann aftur í vinnuna.

Komið til mín börnin góð.

 


mbl.is Sóknarprestur sýknaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveggjalófamiða á íhaldið

bannað innan sextan 

Ég segi það enn og aftur og mun að líkindum halda áfram að fullyrða það.

Ég botna ekki í Sjálfstæðismönnum.

Eitt skil ég þó, hinn almenni Sjálfstæðismaður elskar Árna Johnsen.

Og jakkafatamafíuna sem stóð í brúnni þegar við rúlluðum á hliðina.

Engar breytingar takk, segja þeir og krossa við gamla gengið.

Það á að setja tveggjalófamiða á Sjálfstæðisflokkinn öðrum flokkum til viðvörunnar;

"Bannað að taka með í stjórnarsamstarf.  Löngu komið fram yfir síðasta söludag".

Annars í fínu formi bara.


mbl.is Ragnheiður Elín sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég verð ekki eldri

Bara smá lífsmark frá mér.

Ég er í raun gapandi yfir því sem ég verð vitni að núna í þessum skrifuðu orðum.

Geir Haarde er í ræðustól á Alþingi og er að ræða stjórnarskrárbreytingar.

Það sem hissar mig og furðar er að þessi dagfarsprúði maður er bálillur.

Fer hamförum svona miðað við það sem hann er þekktur fyrir.

Snýr sér að Jóhönnu og hundskammar hana.

Ég held að ég verði ekki eldri.


mbl.is Fjórða stigs málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að treysta

Maður á auðvitað ekki að treysta í blindni á nokkurn annan en sjálfan sig, en svei mér þá ég treysti henni Jóhönnu 100% og ekki er ég í sama flokki og hún.  Er reyndar utanflokka, en það er sama, slagsíðan mín er VG - ójá,.

Reyndar er það ekki í neinni blindni sem fólk setur traust sitt á þessa kjarnakonu.

Hún er einfaldlega ærleg, fylgin sér fyrir hönd almennings og það er ekkert andskotans búllsjitt og krúsidúllu ladídadída hjá henni.

Ég treysti líka Steingrími J., Ögmundi og Kötu.

Já og Gylfa.

Og þingkonunni Álfheiði Inga, en ég get svarið það konan vinnur eins og brjálæðingur í þinginu og hefur gert frá því hún steig þar inn fyrir dyr.

Eða honum Altla Gísla, ég myndi treysta honum fyrir lífi minna nánustu sko í stjórnmálalegum skilningi.

Ég veit þetta börnin mín á galeiðunni, ég fylgist grannt með þinginu og hef gert lengi.

Reyndar set ég fyrirvara á allt mitt traust.

Þann fyrirvara sem hver og einn gefur sér þegar stjórnmálamenn eiga í hlut.

Ég ætla að dæma stjórnina af verkum sínum þessa daga sem hún situr.

Jabb, lömbin mín, það ætla ég að gera.

Af gefnu tilefni þá minni ég á þingfund í beinni kl. 15,00 fyrir þá sem ekki komast á palla.

Súmí.


mbl.is Flestir bera traust til Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í losti

Ég er eiginlega máttlaus af skelfingu eftir að hafa horft á fréttir áðan.

Ég hélt satt að segja að það væri varla hægt að hreyfa við blóðinu í mér núorðið, svo vön er ég orðin vondum fréttum síðan í haust.

En það sem gæti verið okkar versta martröð, sko okkar sem viljum sjá ný vinnubrögð og nýtt Ísland rísa úr rústum græðgisvæðingarinnar, er ekki svo langt undan sýnist mér.

Ég fraus á staðnum, ég er ekki að ýkja börnin góð.

Davíð og Alfreð vina- og klíkufrömuður.is Þorsteinsson voru með fund í Seðlabankanum fyrir helgi.

Alfreð var spurður að því hvort þeir félagarnir væru verið að byggja brú samstarfs Framsóknar og Sjálfstæðisflokks eftir kosningar og svaraði Alfreð því til að menn væru alltaf í brúarsmíði.

Nú þarf hinn "nýi" Framsóknarflokkur að koma fram og sannfæra kjósendur um að þeir séu ekki leppur fyrir hið gamla og skelfilega kerfisbatterí Framsóknar sem var (er?).

Hvar er Sigmundur Davíð, hann kom, sá og gekk þokkalega meðan hann stóð við, en síðan er hann horfinn.

Er hann á vegum Alfreðs gamla guðföður og klækjarefs?

Alfreð Þorsteinsson er talinn höfundur af tveimur meirihlutum í borginni síðan í síðustu kosningum.

Þeim fyrsta með Binga og þessum seinni með Óskari.

Verri kerfiskarl er ekki til.

En betri fulltrúa fyrir gamla, ógegnsæja klíkusamfélagið er ekki hægt að fá.

Hann og Davíð saman:

Ekkert annað en helvítis eitur.

Sjá nánar hér.


Heimskir og æstir í meira

Saksóknari á efnahagsbrotadeildinni segir að peningaþvættisstarfsemi gæti vel hafa farið fram án þess að löggan frétti af því.

Sölvi Tryggvason sagði í Kastljósinu í gær að hann hafi nánast haldið fyrir andlitið af aulahrolli þegar hann fór með erlenda blaðamenn í viðtal á efnahagsbrotadeildina sem fengu þau svör frá yfirmanni deildarinnar að það væri lítið að gera.  Eitt mál í rannsókn!

Sko hér eiginlega gefst ég upp.

Stærsta hrun Íslandssögunnar og í heiminum öllum reyndar og efnahagsbrotadeildin er að drepast úr verkefnaskorti.

Hvað er að okkur Íslendingum?  Jónas Kristjánsson, heldur því fram að við séum heimsk og ég fer að spyrja mig í alvöru hvort hann hafi til síns máls.

Skoðanakönnunin sem kom út í gær ýtir undir þessa tilfinningu mína.

Tæp þrjátíu prósent vilja Sjálfstæðisflokkinn, þann sem hefur mótað jarðveginn fyrir þá skelfingu sem við nú sitjum uppi með - venjulegt fólk og hann kann ekki einu sinni að skammast sín.

Enda hví skyldi hann gera það?

Það er stór hópur af fólki þarna úti sem er æstur í meira.

Jú, þrjátíu prósent þjóðarinnar eru greinilega naumir til höfuðsins.


mbl.is Peningaþvætti gæti hafa farið fram hjá lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að hrista þessa menn?

Ég var að furða mig á því í morgun þegar ég fylgdist með þingfundi, hvernig stæði á því að sumir Sjálfstæðismenn skuli ekki enn hafa áttað sig á alvarleika þess sem við eigum við að etja, Íslendingar.

Að þeir skuli enn ganga um í sínum vatteraða fílabeinsturni og haga sér eins og þeir séu á málfundaæfingu og komi í pontu milli þess sem þeir snyrta á sér andskotans neglurnar?

Þetta sló mig sérstaklega þegar fyrrverandi heilbrigðisráðherra beindi spurningu til utanríkisráðherra um hvaða Evrópukúrs hafi verið tekinn í nýrri ríkisstjórn.

Rétt eins og skoðanir stjórnar í Evrópumálum (fyrir utan það sem stendur í stjórnarsáttmála) sé það sem íslenskt samfélag stendur og fellur með.

Eins og áttatíu daga ríkisstjórn sé að dúlla sér í Evrópumálunum af því allt annað er í svo fínum farvegi.

Eins og hér ríki bara nokkuð gott ástand í öllum málum og þingmenn hafi ekkert betra að gera en að reyna vera fyndnir í ræðustól.

Annars hafa þeir sérstakt lag á því Sjálfstæðismenn þessa dagana að koma manni á óvart.

Hvar voru þeir þegar allt hrundi?

Hafa þeir ekki heyrt hvað er í gangi í þjóðfélaginu?

Þarf að hrista þessa menn?


mbl.is Tvö hænufet og tvíhöfða þurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagur er hólinn - ég fer ekki rassgat

Fagur er hólinn - ég fer ekki rassgat. 

Davíð er bálillur.

Ég held að enginn maður hafi reiknað með að Davíð færi að tilmælum forsætisráðherra.

En..

ég er með hugmynd.

Getur Sjálfstæðisflokkurinn ekki hirt sköpun sína, sinn Frankenstein?

Og leyft okkur að hvílast í friði?


mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 2985804

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband