Leita í fréttum mbl.is

Með lýðræðið í gíslingu

Það er vont að vera reiður, alveg bálreiður, en þannig er ástatt um mig.

Ég kann þeim þingmönnum VG litlar þakkir fyrir sem eru að nudda sér utan í stjórnarandstöðu varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort við eigum að fara í aðildarviðræður um ESB.

Ég fer að sjá eftir atkvæðinu mínu í þá.

Mun að minnsta kosti gera það verði komið í veg fyrir að við getum fengið að vita hvað samningur um inngöngu þýðir fyrir Ísland.

Hvað þýðir það ef við þurfum að kjósa um hvort við eigum að ganga til viðræðna við ESB?

Jú, það þýðir að við þurfum að hlusta á annars vegar upphrópanir um að innganga í ESB sé afsal á fullveldi þjóðarinnar.

Og hins vegar að hamingjan liggi í Evrópusambandinu og þá munum við beisíklí komast í Paradís.

Hvernig er hægt að kjósa um eitthvað slagorðakjaftæði án innistæðu?

Við vitum ekkert hvað er í pakkanum fyrr en á það reynir.

Hugmynd um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort við eigum er fyrirsláttur og vantraust á fólkið í landinu.

Ég er algjörlega komin með upp í kok af stjórnmálamönnum sem setja fótinn fyrir lýðræðislega umræðu og gjörninga.

Stjórnmálamenn sem mega ekki til þess hugsa að almenningur fái að taka upplýstar ákvarðanir um framtíð þjóðarinnar.

Svo jaðrar það við klám að ganga til samvinnu við Umskiptingaflokkana á þinginu.

Þá er ég aðallega að tala um Sjálfstæðisflokkinn.

Munið þið stjórnlagaþingið?

Munið þið að þeir töluðu það mál í hel þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar kallaði eftir því?

Munið þið eftir grein Bjarna Ben og Illuga Gunnars í desember í Mogganum hvar þeir töldu að við ættum að fara í aðildarviðræður og minntust ekki einu orði á að það þyrfti að kjósa um það hvort við ættum.

Bölvaðir tækifærissinnar og flokkræðisfangaverðir.

Með lýðræðið í gíslingu.

Andskotinn hafi það að VG gangi í lið með þessu liði.

Vinsamlegast leyfið okkur að komast að því hvað er í boði.

Enginn veit það með vissu og það á líka við um þingmenn allra flokka.

Get a grip.

Rakst á þennan pistil inni hjá Merði Árna.

Skyldulesning.

Þarna má sjá sinnskiptin hjá Framsókn og Sjálfstæðismönnum.

Að tala um tækifærissina.


mbl.is Þingmaður VG leitar til stjórnarandstöðunnar vegna ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vælt út yfir gröf og dauða

Tilfinningaklámið í Hollywood nær hæstu hæðum þessa dagana.

Ástæða: Michael Jackson.

Ég er ekki að gera lítið úr hinum látna en Ameríkumenn eru ótrúlegir sökkerar fyrir tilfinningasukki, yfirborðskenndu sorgarkjaftæði sem þeir elska að fá athygli út á.

Svo væmnir og tilgerðarlegir að það nær engri átt.

Núna biðjast þeir afsökunar í kippum og kös.

Fyrirgeeeeefið aðdáendur en ég missti mig úr ekka þegar ég sá kistuna hans MJ.´

Ég er svo tilfinningarík/ur að ég má ekkert aumt sjá.  Búhú.

Ég gat ekki sungið þegar ég sá besta vin minn liggja þarna í kistunni og harmurinn yfirtók í mér raddböndin.

Allir í Hollý eru núna bestu vinir MJ.

Skrýtið, á meðan hann lifði var hann meira og minna einn.

En það er til fullt ar svona jarðarfarasökkerum út um allan heim.

Fólk sem mætir á kistuvaktina þó það hafi varla þekkt líkið í sjón.

Sumir hreinlega mæta á jarðarfarir sér til skemmtunar.

Halló.

Vonandi fær MJ nú að vera í friði fyrir grenjandi og syngjandi nýjum bestu vinum.

Kommon, hver vill láta væla yfir sér út yfir gröf og dauða.

Urrrrrrrrrrrrrr


mbl.is Kistan sló Carey út af laginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of litlar vogarskálar?

 réttlætisgyðjan

Það er gleðiefni að glæpamenn fái á baukinn í formi fangelsisdóma í formi skilorðs- eða óskilorðsbundinna.

Sérstaklega matarþjófarnir.  Það er ófyrirgefanlegt að stela sér til matar, þannig hefur það alltaf verið á Íslandi. 

Brimarhólmur næsta bara.

Látum okkur sjá.  Maðurinn sem stal vodkapela og einum bjór úr Vínbúðinni á Akureyri fékk dóm afgreiddan á hraða ljóssins fyrir brot sitt.

30 daga skilorðsbundið.

Hann var búinn að borga vöruna en það bræddi ekki hjarta dómarans á Norðurlandi eystra.

Um að gera að taka stórglæpamennina og vera snöggir að því.

Enda fangelsi landsins yfirfull af stórglæpamönnum eða hvað?

Ég er að reyna að reikna hérna en sú iðja er ekki mín sterkast hlið.

Gefum okkur að pelinn og bjórinn kosti fimmþúsund kall.

30 dagar.

Ef við tökum Icesave, reikníreikní sexhundruð og áttatíu milljarðar eða eitthvað svoleiðis.

Hjálp!

Hvað eru það margir dagar innan rimla?

Ó, ég gleymdi mér hérna.

Það er öðruvísi glæpur.

Það eru hangikjötslærin, sláturkeppirnir og vodkapelarnir sem vigtast á vogarskálum réttlætisgyðjunnar.

Ég sé ekki þetta stærsta bankarán Íslandssögunnar komast fyrir á þeirri vog. 

Ætli þeir séu kannski með stærri vigt í USA?

Gætum við fengið hana lánaða?

Nei, nei, segi svona.


mbl.is Stal vodkafleyg og einum bjór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skíthælar á ferð

Sjálfstæðismenn eru byrjaðir að tuða undir liðnum "fundarstjórn forseta".

Aldrei áður hafa störf í þingsal minnt eins mikið á ólrólegan barnaskólabekk eins og eftir að Framsókn og Sjálfstæðisflokks fóru í minnihluta saman.

Nú gargar Bjarni Ben.

Áður Illugi Gunnarsson.

Ég myndi halda þverrifunni á mér saman tilheyrði ég þeim flokkum sem gáfu bankana á silfurfati til vildarvina og hófu þar með þá atburðarás sem hefur gert almenning á Íslandi að ómerkingum og stórskuldurum.

Annars hef ég verið að velta fyrir mér ástandinu í þjóðfélaginu.
Nú eru nefnilega uppgangstímar fyrir krípin.

Eins og þá sem hóta og skelfa án nafns.

Gaman hjá þeim.

Líka gaman hjá innheimtufyrirtækjum eins og Intrum.

Nú er gróðæri þar í miklum blóma.

Ég held að hver og einn þurfi að kanna vel hvað liggur að baki hvers atburðar.

Það er nefnilega ekki alltaf réttlætiskennd, örvænting og ótti sem liggur að baki.

Stundum eru einfaldlega skíthælar á ferð.


mbl.is Dýrt fyrir ríkið að selja banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af tombólufrömuðum, góðum málefnum, skorti á þolinmæði og gítarsnillingum

afml.oliver 

Ég er að bíða og telja niður.

Næsta miðvikudag kemur hún Maysa mín með fjölskylduna í viku heimsókn frá London.

Ég hef ekki séð þau síðan um jól.

Þolinmæði hefur aldrei verið sterkasta hlið þeirrar konu sem hér hamast á lyklaborði en ég reikna með að þessir dagar fram að hingaðkomu líði eins og allir aðrir dagar.

Guð gef mér þolinmæði strax!

maysa og oliver

Og af því ég er nú byrjuð að fjölskyldast þá verð ég að skella hérna inn mynd af fallega stærsta barnabarninu mínum honum Jökla en hann er frábær gítarleikari og hér er hann með húsbandi og auðvitað lætur Jenný Una sig ekki vanta.

tríó

Ein lítil krúttsaga kemur svo í lokin.

jenný og tryggvia

Í gær fóru Jenný Una og Franklín Máni Addnason (sem kastaði sandi í mér á leikskóla mín) og opnuðu tombólu við Kjörgarð í gær. (Myndin er af Tryggva og Jenný, fann ekki neina af Franklín).

Mömmurnar voru á kantinum að gæta fjögurra ára athafnafólksins sem ætlaði að styrkja félag langveikra barna.

Eitthvað gekk illa að útskýra þetta með langveik börn fyrir Jenný Unu og á endanum gafst mamma hennar upp og sagði að þau myndu gefa afraksturinn til fátækra barna. 

Jenný Una samþykkti það.

Eftir klukkutíma í athafnalífinu voru tombólufrömuðirnir búnir að fá nóg og voru farnir að elta vegfarandendur, fela sig, stinga af inn í Kjörgarð og svona, orðin þreytt á verslun og viðskiptum.

Kona sem kom að og vildi leggja málefninu lið fékk skýrar upplýsingar frá Jennýju Unu.

Ég ætla ekkert að gefa péninginn til fátæku baddnana ég ætla að kaupa mér ís.

Konunni fannst þetta bara skemmtilegt og pungaði út heilum 200 krónum til þessa verðandi útrásarvíkings..

Og nú er spurningin hvort Jenný Una verður ekki látin yfir Sjóvá eða einhverja sjóði þar sem mottóið er að láta peningana bara hverfa í sukk og svínarí?

Ég hef áhyggjur af hortugri dótturdóttur minni sem ætlar að eyða og spenna í nammi og ís fyrir peningana sem hún aflaði til góðra málefna.

Amman ætlar reyndar að verðlauna þetta athafnakrútt með fullt af ís og poppi þegar hún kemur í heimsókn á föstudaginn.

Arg..

Börn eru lífið.

noname

P.s. Var að fá þessa mynd af Laugavegshösslurunum á svæðinu í gær.

Með ís, nema hvað.


Hugleysingjar hóta

Minn skilningur og samúð nær ekki yfir þá sem hóta fólki.

Hugleysingjar ógna og sýna ekki á sér andlitið.

Ég er til í að berja búsáhöld, hafa hátt og vera til ama og leiðinda svo lengi sem á þarf að halda en ég hef megnustu skömm á að verið sé að hóta með þessum hætti eins og gert var við bankastjóra Kaupþings og konuna hans. 

Konuna hans "for crying out loud".

Og ekki koma og segja að þið skiljið svona aðferðir, fólk sé svo reitt og ladídadída.

Það er ekkert sem réttlætir hótanir og ofbeldi.

Ef við almenningur leggjum okkur niður við svona lágkúru þá erum við engu betri en stórþjófarnir og spillingarliðið.

Ég er bálreið, ég hef verið það síðan í haust og maður fær ekki tækifæri til að koma upp og anda á milli nýrra frétta um ógeðið sem hér hefur grasserað.

Það sagði við mig maður í dag að ætla mætti að allt þetta fjármálasukklið hefði verið á kókaíni, svo gerspillt væri það allt saman.

Ég persónulega vona að svo hafi verið.

Má ekki til þess hugsa að fólk sé svona siðlaust á eigin safa.

En að hótunum.

Plís hagið ykkur eins og fólk en ekki eins og fífl.


mbl.is Bankastjóra Kaupþings hótað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinsamlegast útskýrið

Ég hlýt að vera tregari en venjulega í dag þar sem ég skil hvorki upp né niður í þessari tilkynningu frá Nýja Kaupþingi.

Þeir segja að öryggi starfsmanna hafi verið ógnað og því sé bankanum skylt að upplýsa að óheimilt sé með lögum að tjá sig opinberlega um málefni einstakra viðskiptavina os.frv.

Þeir segja líka að engar ákvarðanir hafi verið teknar um afskriftir á skuldum Björgólfsfeðga við Nýja Kaupþing.

Hver ógnaði hverjum og hvenær?

Hvað fór fram hjá mér á fréttavaktinni?

Vinsamlegast útskýrið fyrir mér fíbblinu takk.


mbl.is Öryggi starfsmanna ógnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessi ykkur börnin góð

Prestar blessa hluti.

Líka fólk og allskonar bara.

Mér finnst hipp og kúl að láta presta blessa lítil börn.

Getur að minnsta kosti ekki skaðað.

En eru blessanir presta og preláta magnaðri en þeirra sem eru próflausir á kærleikinn?

Nú var biskupinn að blessa krossinn upp á Hallgrímskirkjuturni.

Vonandi bjargar það krossinum frá alkalískemmdum.Devil

En mig langar að vita eitt (og reyndar fleira en eitt, það kemur seinna).

Hafa umboðsmenn guðs á jörðu blessað íslensku útrásina?

Mig rámar í að þeir hafi verið að ferma og skíra í boði bankanna og svona í gróðærinu, hví ekki þá að blessa þá sem plönuðu stærsta bankarán sögunnar?

Nei annars getur ekki verið.

Það hlýtur að hafa verið myrkrahöfðinginn sjálfur sem var með þar í för.

Svona miðað við útkomuna.

Ég neita að trúa að guð hafi eitthvað að gera með strákana "okkar".

Eða hvað?

Þetta er trúleysinginn sem talar frá menningarheimili sínu á Teig kenndum við hús guðs.

Ésús minn á fjallinu.


mbl.is Biskup blessar í hæstu hæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sárt en svona er lífið

Snorri Ásmundsson hefur aldrei hitt Karl Berndsen.

Ekki ég heldur.

Ég veit það Snorri, það er sárt en svona er lífið.

Líf án náinna samskipta við Karl Berndsen er gleðisnautt og vart þess virði að lifa.

Döh..

Mér fannst þessi fyrirsögn svo skáldleg að ég varð að grípa hana á lofti.

En segið mér..

"who the fuck" is Karl Berndsen?

Hmprf....


mbl.is „Aldrei hitt Karl Berndsen“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldheitar samræður á milli hjóna

 í síma

Miðað við langa og fjölbreytta reynslu mína í hinum ýmsu hjónaböndum ætti ekki margt að koma mér á óvart.

Enda er það svoleiðis. 

Reynslan beinlínis drýpur af mér.

Tel mig kunna hjónabönd upp á milljón og þrjá.

En svo varð mér á í messunni.

Í kvöld fór minn ástkæri út í búð til að kaupa eitt og annað.

Þegar hann gekk út úr húsi kallaði ég á eftir honum og bað hann um að kaupa xxxxxxxxx.

Þú mátt ekki gleyma því hrópaði ég hátt og skýrt. 

Hann: Nei, nei, nei, auðvitað ekki.  Ég er með meðvitund kona.

Tíu mínútum seinna: Riiiiiiiiiiiiing.

Ég: Halló.

Hann: Hæ, hvað var það sem ég mátti ekki gleyma að kaupa?

Ég: Ertu strax búinn að gleyma því?  Kommon, hvernig væri að hlusta á mig?

Hann (lágum rómi): Hvað var það Jenný, ég stend hérna eins og fífl í miðri búð.

Ég: Vá hvað þetta er flatterandi, ekki hlusta gat á hljóðhimnuna þegar ég tala við þig.  Urrrrr.

Hann: JENNÝ!

Ég (með brostið hjarta tók langa blóðdrjúpandi kúnstpásu): Það var ekkert merkilegt greinilega (fórnarlambsblóðbunan svettist á vegginn fyrir framan mig þegar hér var komið sögu), við sleppum þessu.

Hann: Nei veistu að nú legg ég á.

Ég: Já gerðu það.  Enda hef ég ekkert að segja.  Bless.  Pang.

Fimm mínútum seinna mundi ég hvað það var sem hann átti að kaupa.

Mig vantaði kveikjara.  Sárvantaði hann.

En ég ætla EKKI að tilkynna viðkomandi eiginmanni að ég hafi verið búin að gleyma hvað mig vantaði.

Því myndi hann EKKI gleyma það er á hreinu.

Andrei nokkurn tímann.

Frusss.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.2.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 2987386

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband