Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Björn Bjarna í tilfinningalegu svigrúmi

Á yfirreið minni um bloggheima í gær sá ég einhverja nörda vera að skjóta á okkur sem höfum bloggað og mótmælt meðferðinni á Paul Ramses (og öðrum hælisleitendum), að úr okkur væri allur vindur, við nenntum þessu ekki lengur.

Aular.

Við ykkur vil ég segja eitt; það er biðstaða í málinu við erum að gefa Birni Bjarnasyni TILFINNINGALEGT SVIGRÚM hérna, til að vinna málið eins og maður.  Þið kannist væntalega við það fyrirbæri? 

Ég hef engu gleymt, ekki gefist upp, mér stendur málið jafn nærri hjarta og í byrjun.

Svo brosti ég út í annað áðan þegar ég rakst á að Paul væri Framsóknarmaður.  Gott hjá honum.  Um að gera að taka þátt í pólitík, taka afstöðu og vera virkur.  Það er meira en margur nöldrarinn af íslenskum uppruna nennir að gera.  Ég hefði hins vegar farið í rusl hefði hann fundið sig í FrjálslyndaW00t.

Og Frjálslyndir koma ekki á óvart í málefnum þeirra sem ekki eru af íslensku grjóti mölvaðir.  Sjá hér.

Jón Magnússon, mannvinur, fer þar fremstur í flokki.

En annars bara góð, en þið?

Later guys.


Engin dömubindakona hér

 42-17452310

Dagurinn í dag er formlega liðinn, kl. er 00.09.  Af því hann er farinn þá ætla ég að tala illa um hann.  Heyrir þú það dagur?

Ég vaknaði í morgun og nú bar svo við að ég sveif ekki fram úr rúminu, með hvítar dúfur sem fylgdu mér hvert fótmál, ég dansaði ekki morgundansinn á stofugólfinu og ég leit ekki út eins og hamingjusöm kona í vespré dömubindi.  Enda aldrei notað það stöff.

Dagurinn hefur verið ömurlegur.  Ö-M-U-R-L-E-G-U-R.  Megi hann hverfa í gleymskunnar dá.

Allir sem ég hef talað við í dag hafa átt leiðinlegan dag, er þetta að ganga?

Hvað er í andrúmsloftinu?  Af hverju eru sumir dagar handónýtir, frá byrjun til enda?

Ég fann að ég slappaði af rétt áðan og ég þurfti ekki að líta á klukkuna, það var kominn nýr dagur.

Í dag reif ég kjaft, var ókurteis amk. einu sinni, sparkaði í einn vegg (já vont) og hamraði eins og motherfucker með fingrunum á allar borðplötur sem á vegi mínum urðu.

ARG.

Ég má bara við einum svona degi í mánuði, ég er alki "for crying out loud", svo veik fyrir spennu.

Eins gott að ég er nokkuð jafnlynd oftast nær.

En varðandi þetta lið á ströndinni í Dubai, þá sagði heimildarmaður minn í þeirri borg mér að helvítis útlendingarnir 79 hafið glennt sig á ströndinni án trefla, látið sjást í ökkla og öxl, og einhverjir fóru úr peysunum.  Er það nema von að Dubaingunum sem misboðið.

Svona eru þessir útlendingar, kunna sig engan veginn.

Lalalalala lífið er ljúft.

Guði sé lof fyrir gullfiskaminnið.


mbl.is „Dónaskapur" á baðströndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungfrú Skakklöpp

Beauty_Queen_thumb 

Eitt af mínum aðaláhugamálum eru fegurðarsamkeppnir.  Þar reynir á keppnisskap, snerpu, augnaháraflöggun, brosbreidd, nasavængjatitring, meiköpp, naglalengd og táraframleiðslu.  Við erum að tala um alvöru íþróttagrein hérna og ég fékk mér gervihnattardisk fyrir nokkrum árum til að geta elst við keppnisíþróttina um heim allan.

Og þeir voru að krýna sigurvegarann.  Á verðlaunapalli með gullið um hálsinn og farandbikarinn sem er staðsettur á höfði vinningshafans, stóð að þessu sinni fröken Venezúela.  Ég get sagt ykkur að þar er þessi íþróttagrein stunduð af miklum móð og ungar stúlkur settar í æfingabúðir við 6 ára aldur.  Öllu til kostað til að ná langt í greininni og gera Venúzelísku þjóðina stolta af sínum keppenda. 

En skammarverðlaunin í ár fær ungfrú USA.  Haldið ekki að stúlkan hafi fallið á rassinn bara sisvona? Hún getur ekki hafa komið vel undirbúin til leiks.  Svona keppendur sendir maður ekki á alþjóðleg íþróttamót.  Hér má sjá fallið.  Vítaverð framkoma þarna eins og þið hljótið að sjá.

Slúðursögur herma að ungfrúin skakklöpp hafi lent í lyfjaprófi í þessum milliriðli og mun það hafa alvarlega eftirmála ef eitthvað miður fallegt finnst í blóði hennar.

Ísland var ekki með, hvað er að?  Fer öll okkar orka í að keppa í bolta og ekkert til þessarar keppni sem krefst mikillar þjálfunar, úthalds og fallegs persónuleika sem greinilega er ekki týndur af trjánum.

Andskotan vitleysa.

Úje.


Úti eða inni - dauðir eða lifandi

Mig minnir að það hafi verið í janúar sem Björk Vilhelmsdóttir, Samfylkingu, kom í fréttir og tilkynnti um smáhýsin fyrir útigangsmenn og að það væri verið að finna þeim stað.

Svo varð valdaránið margfræga í borginni og íhaldið fer nú með formennsku í velferðarráði.

Þar hefur hvert klúðrið rekið annað og ekkert bólar á smáhýsunum fyrir þá verst settu á meðal okkar.

Mér finnst nógu slæmt að vita til þess að á Íslandi með 300.000 þús íbúa, sé fólk sem hvergi á heima en fær að hýrast í gistiskýlum fyrir náð og miskunn yfir blánóttina, þ.e. ef það er þá ekki orðið fullt þegar fólk ber að.

En við dásamlega fólkið, Íslendingarnir, ofurfólkið og undrabörnin, í viðskiptum, ríkust, best, fallegust, klárust af öllum getum ekki boðið upp á varanlega lausn fyrir þá sem ekki geta það sjálfir.

Það er svo andskoti leim. 

Getur kannski verið að áhuginn á þessum sérstaka hóp sé lítill sem enginn og það sé ekki að halda vöku fyrir þeim sem valdið hafa hvort þeir séu úti eða inni, dauðir eða lifandi?

En skv. þessari frétt er komin lausn í málið, tvö hús munu verða tilbúin í septemberlok, og tvö til viðbótar fyrir jól.  Var einhver að tala um hraða snigilsins?

Nú þegar hafa húsin verið tilbúin í að minnsta kosti ár.

I rest my case.

 


mbl.is Smáhýsi götufólksins bíða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Út með flottræfilsháttinn í strákaheiminum

Takk kæri Guðmundur fyrir að skila helvítis gögnunum.  Þá er það frá.

En Guðmundur vill ekki skila milljónabílnum sem hann ekur um á í boði almennings, eða réttara sagt í trássi við vilja almennings.

Hann ætlar að ráða sér lögfræðing til að verja það mál fyrir sig.

Og svo skil ég ekki af hverju þessir toppar í opinberum fyrirtækjum eru allir á bílum sem kosta eins og 3ja herbergja íbúðir. 

Geta þeir ekki keyrt um á venjulegum fólksbílum?

Ef þeir þurfa að andskotast upp um fjöll og firnindi á fundi og svona þá geta þeir látið skutla sér eða tekið bílaleigubíl.

Guðmundur er sennilega á horriminni og á ekki fyrir nýjum bíl, á maður að virða það við hann?

Nei segi ég og er þetta ekki algjört siðleysi að aka um á svona kerru sem maður hefur ekki lagt krónu í sjálfur?

Og svo vill ég fara að útrýma þessum flottræfilshætti sem viðgengst í strákaheiminum.

Þetta snýr við í mér maganum.

Súmítúðefokkingbón.


mbl.is Guðmundur skilaði gögnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Plebbalisti Jennýjar Önnu - varúð - ekki fyrir viðkvæma!

 duran11

Ég hef haft nógan tíma í dag til að hugsa.  Já, ég verð stundum lostin sterkri löngun til að nota heilabúið, þess á milli liggur það í algjörum dvala.

Og ég var að pæla í plebbisma.  Hvað mér finnst plebbalegt og að öðrum finnist ekki það sama og mér um málið.  Sumum finnst kannski eitthvað sem mér finnst hipp og kúl, algjörlega glatað.

Og hvað er plebbi, art.plebius(Devil), plebbaskapur?

Ég get nefnt dæmi um rakinn plebbisma.

Ef þú færð raðfullnægingar yfir lágu verði á grænum baunum og keyrir bæinn á enda til að nálgast baunadósina ertu sennilega plebbi.

Ef þú hrósar kjólnum vinkonunnar og hún segir; "takk bara 2000 kall í Hagkaup" eða þú dáist að garðsláttuvél nágrannans og hann svarar sömuleiðis; "takk bara 3000 karl í Ellingsen" þá ertu að tala við verðlagsplebba sem geta aldrei látið hjá líða að romsa upp úr sér góðum dílum.  Þeir setja merkimiða á lífið og þeir leita jafnvel  tilboða í útfarir þegar þeir missa náinn ástvin og deila útkomunni glaðir með erfisdrykkjusyrgendunum.

Og ef þú ferð á Þorrablót, þá ertu kannski í plebbahættu, þ.e. ef þú úðar í þig hákarli og sviðnum augum og heldur því fram að hvorutveggja kitli bragðlaukana og þig langi sífellt í meira.

Ef þú ert fyrstur í röðinni á öll svona endurkomusjó.  Ef þinn æðsti draumur er að Herman Hermit´s komi saman aftur og ef þú neitar að trúa að Presley sé dáinn eða þá Jim Morrison, þá erum við sennilega að tala um tónlistarplebba.

Ef þú ert karlmaður með líkhvíta loðna leggi í svörtum dralonsokkum, og þér finnst ekkert að því að ganga um á nærbuxunum og sokkunum fyrir framan elskuna þína, þá ertu vonlaus og veikur plebbi á lokastigi sjúkdómsins.

og að lokum, amk. að þessu sinni, ef þú grætur af söknuði eftir eitístískunni, bæði herðapúðum og hárgreiðslu, þá ertu sennilega staðnaður plebbi og mættir alveg fara að henda úr fataskápnum og sonna.

Meira seinna.

Bara góð sko.

Lögst í rannsóknir á snobbhæsnum.

 


Góðir, vondir strákar

 hjúkka

Það er alltaf verið að rannsaka "bad boy heilkennið" og hversu mikið aðdráttarafl vondu strákarnir hafa á konur.

Hérna er verið að rugla saman tveimur óskyldum fyrirbærum. Það ættu rannsakendur að vita og taka mark á þegar þeim eru réttar upplýsingarnar frá fyrstu hendi.

"Vondir strákar" sem margar okkar höfum verið skotnar í, í gegnum árin og á öllum aldri eru að mínu mati blásaklausir töffarar sem ganga ekki með grunngerðina utan á sér, að minnsta kosti sumir hverjir.

Það eru ekki slæmir náungar.  Hver fellur ekki fyrir klárum manni, sem svarar vel fyrir sig, þrátt fyrir að hann virki svolítið hrjúfur og kunni ekki á rauða dregla lífsins? 

Ég hef löngum verið svag fyrir svoleiðis mönnum.  Ekki lengur enda 10 ár síðan ég gifti mig síðast og er bara  sátt við minn hlut svona hjónabandswise. 

 Ég hef aldrei séð neitt sjarmerandi við menn sem eru eins og kínverskir húsþjónar með framhaldsmenntun í hjúkrunafræðum og vaða um allt þurrkandi af og síspyrjandi hvort manni vanti eitthvað, eru sífellt sammála ruglinu sem vellur upp úr manni (mér) og kóa með manni í vitleysunni þar til kona læðist að viðkomandi í skjóli nætur, myrðir hann og nýtur þessDevil.

Svíar kalla þessa tegund "Velúrpabba" eða "Töffluhetjur" þetta eru mennirnir sem sitja fyrir þér með teketil og heimabakað þegar þú vilt helst fara á djammið.  Þeir eru með plástur í töskunni, ef þú skyldir hrasa.  Þeir kunna fyrstu hjálp og beita henni á þig þegar þú hóstar kurteisislega.  Þeir eru með verkfæratösku í bílnum, þannig að ef hái hællinn gefur sig t.d. þá er skóvinnustofa í skottinu hjá mannhelvítinu og málið dautt.  Þú getur ekki upphugsað neina þá ósk sem maðurinn er ekki fær um að láta rætast á andskotans nóinu.

Ég vil ekki sjá svona hjúkrunarmenn nema á spítölum og öðrum umönnunarstofnum og verkstæðum.

Og svo eru það "slæmu strákarnir" sem eru helvítis merðir og kvikindi.  Það er allt annað mál, ég myndi ekki einu sinni taka í spaðann á svoleiðis aula.

Robbie Williams er t.d. enginn "bad boy" eins og ég sé þá.  Hann er hrokafullur sjálfsdýrkandi og hann er útblásinn á eigin egói.  Ég held ekki að nokkrum kjafti þyki það sjarmerandi, nema kannski mömmu hans, sem ég er þó alls ekkert viss um.

Það er fullt af svona mönnum, ef eitthvað þá eru þeir verri en karlkyns útgáfan af Florence Nightingale.

Og hana nú og habbðu það sagði kerlingin.

Ég var rétt að byrja að hita mig upp og þá nennti ég ekki lengur út í karlafræðin sem ég hef stúderað frá unga aldri vegna óslökkvandi áhuga á tegundinni.

Ég kem bara með framhald.

Nú er ég að hugsa um að legga mig.

Adjö og Úje.

Engan friggings æsing í kommentakerfinu.  Þá sendi ég á ykkur vondan mann.


mbl.is Vondu strákarnir sigra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jú sko, ég tala líka tungumál"

 20080708123046_6

Mér þykir vænt um rigninguna.  Mér finnst svo notalegt að liggja og lesa þegar regnið lemur gluggana og ég sef aldrei betur.

En..

Ég kærði mig ekkert um rigningu í gær þegar við vorum á Leifsgötunni.  Ég og húsband ætluðum að dvelja í garðinum með börnin, fylla plastlaugina hennar Jennýjar og gera okkur lífið auðvelt og gleðilegt.  Lífið varð auðvitað gleðilegt en ekki úti í garði. 

Jenný Una sem er vön því að gista hjá okkur en ekki við hjá henni, var snögg að sjá út ástandið.  Mamman ekki á staðnum, ekki pabbinn heldur og með sinni þriggja ára útsjónarsemi sá hún í hendi sinni að nú gæti hún gert flest það sem hana langaði til.

Hún byrjaði á því að ganga að skápnum í gærmorgun til að ná sér í prinsessukjól (hún er nefnilega alltaf prinsessa þessa dagana).  Hún tók einn af jólakjólunum út úr skápnum, rautt flauelsdæmi með silkiborðum og ásaumuðum rósum og ákvað að í hann skyldi hún fara.  Amman sagði að hún ætti svo marga fallega sumarkjóla, hvort hún vildi ekki frekar fara í þá.

Jenný Una: Nei amma, mamma mín sagði í gær að ég átti að fara í þennan kjól (forstokkuð).

Amman: Þú ert ekki að skrökva að mér Jenný mín?

Jenný: Nebb, mamma mín sagði það og það er alleg satt.  Alleg pottþétt. (Aldrei heyrt hana nota pottþétt, krúttkastið var upp á mikið á krúttmælinum).

Og svo fór hún í jóladressinu með Einari að kaupa "laufardagsnammi" og söng fyrir hann sænskar barnavísur og sagði honum allt sem hún gerði í gær, þegar hún var stór og að mamma hennar segði ALLTAF nei við öllu. 

Löngu seinna sama dag eftir miklar krúttsenur hjá þeim systkinum, þar sem köttur kom líka við sögu, vorum við að spjalla saman.

Jenný: Einu sinni þegar ég var lítil í gær, þá var ég stór og mamma mín var lítil og hún hét bara pínulitla Sara.  Þá var hún að krota á veggina og ég skammaði hana mjög mikið.

Ég: Er það?  Var mamma þín óþekk?

Jenný: Já hún var mjög óþekk og krítaði stóran vegg.  Og þá sagði ég í gær við mömmu; "elskan mín, þetta gengur ekki upp, þú færð aldrei meira nammi, það er alls ekki í boði barn".

Stundum veit ég ekki hvaðan þessi skotta kemur.  Hún talar eins og gömul kona, sogar að sér orð og frasa og endurtekur þá og notar þegar hún sviðsetur lífið.

Ég sagði mömmu hennar í gær áður en við héldum heim að Jenný hefði skammað dúkkurnar með því að segja reiðilegri röddu;

"Eeelskan mín érbúin að segja þetta FJÓRUM sinnum.  Hlýddu núna skrass".

Mamman sagðist ætla að breyta orðavali, svo barnið fengi meiru úr að moða næst þegar hún skammar hana.

Allt fyrir málþroskann.

P.s. Og ett svo ég gleymi því ekki, af því þroskinn er svo ör að ég hef varla við að skrá það.

Jenný: Amma ég tala íslensku, sænsku og ensku (veit ekki með enskuna hehe, en hitt er mikið rétt) og meira.

Amman: Hvað meira Jenný mín?

Jenný (hugsi):  Jú sko ég tala líka tungumál.InLove

Need I say more?


"Heimilið með að heiman"

 20080708133129_14

Ég man eftir auglýsingu sem hljómaði eitthvað á þessa leið: "Heimili að heiman" en ég man ekki hvað var verið að selja.  En mér datt þetta slagorð í hug núna áðan þegar ég burðaðist með stóran part búslóðarinnar inn í hollum eftir sólarlagslangt ferðalag niður á Leifsgötu.

Ég tek þennan frasa lengra og segi: "Heimilið með að heiman".

Ég tók rúmlega tvo alklæðnaði og tvenna skó plús þá sem voru á löppunum á mér þegar ég mætti í pössunina ásamt húsbandi.  Svo nenni ég ekki að tíunda allt hitt, en brauð, eplaedik og matvinnslurjómi voru með í för, ekki spyrja hvers vegna, þetta er einfalt mál, svona "just in case" dæmi.

Ég er ekki í lagi.

En..

Ég var búin að gleyma hversu mikið djobb það er að vera með tvö lítil börn og við vorum tvö, ég og húsband.  Við gengum auðvitað allt of langt í dekri og svoleiðis en fyrr má nú aldeilis fyrr vera, maður er bara lafmóður.

Og kl. 4,30 að staðartíma s.l. nótt vaknaði Hrafn Óli, 6 mánaða og var í stuði.  Mamma hans hafði sagt að hann svæfi alla nóttina en það þýddi ekkert að ræða það við barnið, hann horfði á mig með svona SÓ?-svip og einbeitingin í litla andlitinu sýndi glerharðan brotavilja til partíhalds með ömmunni áður en haninn galaði.

Amman gaf að drekka, lét ropa, skipti á bleyju, sussaði og bíaði og hann hélt uppi einræðum við sjálfa sig í rúminu sem byrjuðu á agí og enduðu á babba.  Um leið og ég vék mér frá kallaði hann hátt og skýrt "agíanaganagúanagei" sem þýðir: komdu þarna kélling.

Og ég braut öll lögmál uppeldisfræðinnar og gaf skít í regluna um rútínu og ladídadídei, náði í vagninn fram í þvottahús, lét barn í, það tók mínútu og hann hraut.

Síðan selflutti ég hann yfir í rúm og hann rumskaði ekki, fyrr en hann og systir hans hún Jenný Una vöknuðu kl. 07,30 eða nánast um leið og ég var að festa svefn eftir partíið með yngsta barnabarninu.

Meira seinna.

Ætla að ná mér saman.

Úje

P.s. Efst er mynd af genginu, Jenný Unu, Hrafni Óla og kettinum Núll.


Martraðarkenndir ættingjar

Ég horfði á fréttir Stöðvar 2 á hlaupum enda í ábyrgu umönnunarhlutverki með tvö börn.

Ég er ekki svo viss um að sumt eigi maður að taka alvarlega hvað þá heldur ræða um það en ég get ekki orða bundist.  Að eiga ættingja í líkingu við þá sem Paul Ramses á hér á landi  hlýtur að vera martröð hvers manns.

Af hverju koma þau í fréttir og segja að það sé ekki satt að Paul sé í hættu?

Það má sjá á veraldarvefnum að ástandið er ótryggt fyrir pólitíska andstæðingar stjórnarinnar.

Burtséð frá því þá er ég að velta fyrir mér tilganginum með þessu hjá ættingjunum ljúfu.

Þeir og Paul hafa ekki verið í sambandi frá því að hann kom hér. Gæti verið að það ríkti ekki vinátta þar á milli?

Manni hlýtur að vera illa við einhvern ef það er hægt að fá mann í fjölmiðlaviðtal með svona óábyrgt slúður sem  nánast ómögulegt er að sanna.

Þvílíkur vináttuvottur og frændsemin blómstar.

Með svona ættingja kysi ég heldur að vera algjör einstæðingur.

Ég á ekki orð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband