Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Sendiboðinn skotinn - búmm pang

 stress

Flott rannsókn frá Dönum um að fólk sé orðið meðvitaðra um streitu.  37% Dana hafa einhvern tímann tilkynnt forföll úr vinnu vegna þess.

Og nú rannsökum við okkar einka stress hér og í kommentakerfinu.  Mitt stress og svo ykkar.

Ég hef aldrei og mun aldrei tilkynna mig frá vinnu eða öðrum skuldbindingum vegna streitu.  Ég er af gamla skólanum.  Mér var kennt að allt sem ekki mældist á hitamæli vel yfir 37 á Celsíus væri þreyta og í versta falli aumingjaskapur.  Þetta hefur fylgt mér út lífið upp á gott og vont.

Ég er hamingjusamlega ómeðvituð um ástandið þegar ég er stressuð.  Kem alltaf af fjöllum þegar mér er bent á það og bregst illa við sendiboðanum og skýt hann á staðnum.  Búmm pang.  Ég átta mig fyrst þegar streitan hefur yfirgefið og þá fæ ég svona uppljómun, alveg, ókei ég var svona stressuð.

En ég veit að ég er undir álagi:

Þegar mjólkurfernan fer í kústaskápinn, fægiskóflan í ísskápinn og mistökin með mjólkina verða ljós einhverjum dögum síðar þegar lyktin er farin að minna á eitthvað sem hefur gefið upp öndina seint á síðustu öld.

Þegar ég man ekki kennitöluna mína þó líf mitt liggi við.

Þegar ég man ekki af hverju ég stend á ákveðnum stað í íbúðinni og verð að fara til baka á upphafsreit,  muna það þá mögulega eða ekki.

Þegar ég man ekki nafnið á eiginmanninum og horfi á hann eins og ókunnugan mann og ég er að hugsa; hver er þetta aftur, asskoti kannast ég við hann (ok,ok,ok, næstum því).

Þegar ég tek upp símann til að hringja, man ekki hvert, legg á og man, lyfti og gleymi.  Endurtekið svona 30 sinnum.

Ég er undir lífshættulegu álagi þegar ég gleymi að taka með mér sígaretturnar ef ég fer eitthvað.

Alvarlega en það getur ástand mitt ekki orðið, ég sver það.  Hefur gerst einu sinni og ég reyndist vera í taugaáfalli.W00t

Hvað ætli myndi gerast ef maður hringdi á skrifstofuna á mánudagsmorgni og segðist vera að drepast úr stressi og tilkynna forföll?

Ég veit hvað ég hefði hugsað fyrir nokkrum árum ef einhver hefði hringt í mig með svona afsökun fyrir fjarvistum.  Ég hefði haldið að viðkomandi væri að grínast.  Svo hefði ég sagt honum að haska sér í vinnuna og hætta þessu væli.

En ég er líka vond kona.

Cry me a river í boði hússins.  Ljúft fyrir svefninn.  Björk klikkar ekki.


mbl.is Fólk meðvitaðra um streitu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marínering dauðans

Það er ekki launungarmál að mér finnst gaman að versla.  Fæ nærri því óeðlilega út úr því fyrirkomulagi.  Já, ég leita mér hjálpa - seinna.

Og ég hélt í verslunarferð áðan með mínum heittelskaða sem sér um að skipta sér af ef honum finnst ég vera komin í annarlegt ástand.  Ekki að það breyti neinu, ég sendi honum fokkmerki í huganum ef hann er eitthvað að tauta og veð einbeitt áfram með vagninn.  Úje!

Ég veit ekki með ykkur en á sumrin er álíka erfitt og að ná í rjúpu fyrir jólin að ná sér í almennilegt kjöt sem ekki er búið að marínera í hallærislegum almúga grillvökva.  Hunangs, barbíkjú, þurrkryddað og hvað þetta heitir allt saman, en liturinn á því er eins, sama hvað.

Ég æddi að kjötborðinu.  Þar glitti ekki í eitt einasta heiðarlegt kótelettukvikindi sem ekki var búið að meðferða í helvítis maríneringu dauðans.  Ég ætlaði að kaupa lærisneiðar í minn rétt og það lá við að það væri stofnaður leitarflokkur þarna í kjötborðinu til að finna naktar sneiðarnar undir öllu grillkjötsfjallinu.  Starfsmaður í kjötborði dýfði sér hugrakkur undir fjallið og sjá; eftir mikinn barning bjargaði hann 4 eðlilegum lærisneiðum frá ógeðisfyrirkomulaginu.

Svo vantaði mig kúmen, mirjam og estragon.  Halló Pottagaldrar lokið kofanum ef þið hafið ekki efni á glerbaukunum sem þið montuðuð ykkur með í upphafi.  Þessar plastlufsur sem eru komnar í staðinn  eru billegar í útliti og ég þori að hengja mig upp á að krydd geymist ekki vel í plasti.  Eru allir á leið í meðalmennskuna bara?  Pottagaldrar líka?  Eins og þeir voru lengi promisssing.  Jasvei.

Ef einhver kjötkaupmaður dettur hér inn plís muna að við erum ekki öll með sama meðaltalssmekkinn.  Ef ég á annað borð grilla og marinera þá er það ég sem útbý það.  Þetta nær ekki nokkurri átt að vera seldur undir grillsumarið mikla, sem btw verður stærra og stærra með hverju sumrinu sem líður og kjötfjallið ógurlega stækkar í fullu samræmi við það.

Oh það er svo erfitt að vera svona sérstakur eins og ég, but what can a woman do?

Þetta er friggings neytendahorn Jennýjar Önnu

 


"Hamingusamir" vændiskaupendur?

Þegar ég skrifaði fagnaðarfærsluna vegna hertra aðgerða sænskra yfirvalda til að fylgja eftir banni við vændi þá flippaði kommentakerfið mitt auðvitað út.  Síðast þegar ég gáði voru komnar 171 athugasemd með mínum taldar.

Og sumir fara hamförum í innleggjunum sínum fyrir allan peninginn.  Manni eru ekki vandaðar kveðjurnar frá þeim sem vilja geta keypt sér kynlíf eins og þeir kaupa í matinn.  Frelsi segja þeir, frelsi til að kaupa frelsi til að selja.

En einhver velti upp ágætis sjónarhorni á umræðunni.  Í staðinn fyrir að einblína á hvers vegna konur stunda vændi tölum nú í staðinn um hverjir það eru sem kaupa þjónustuna. "Sounds like a plan"?

(Jájá, ég veit að það eru til konur sem kaupa vændi, ég er ekki að fjalla um þær núna).

Hvaða menn eru þetta sem fara á límingunum ef minnst er á femínista?

Að gera vændiskaup refsiverð?

Um bann við nektardansi?

Hverjir verja "frelsið" til að vera konur geti verið í ánauð?

Ég get sagt mína skoðun.  Ég held að flestir kaupendur vændis séu karlar sem ekki geta umgengist konur á eðlilegan hátt.  Eru hræddir við þær.  Kaup á konu krefst engra dýpri samskipta, ríða búið bless.  Konan er hlutur, kynlífsverkfæri.  Ég sé ekki þorskinn sitja á rúmstokknum og ræða við vændiskonuna um ástandið á stjórnarheimilinu eða spyrja hana hvað henni finnist um álver á Bakka.

Þetta eru menn sem finnst sér ógnað af konum.  Einkum og sér í lagi konum sem vilja jafna valdahlutföllin í þjóðfélaginu.  Það gerir þá brjálaða.

Þessir menn hljóta að vera með miðaldasýn á konur, maður kaupir ekki aðgang að líkömum fóks nema vera með viðhorf á við rotþró gagnvart viðkomandi.

En hvað veit ég?

En nú reikna ég fastlega með að þessir frelsisberar sem hafa tekið þátt í umræðum um "hamingjusömu" hóruna leggi af mörkum til umræðunnar að þessu sinni af sömu elju.

Og spurningin er:

Hvers konar karlmenn versla sér konur?

"Hamingjusama" hóran.


Misþyrmingar á eyrum og bjórgenum

Musclehead

Ég er alveg á fullu að blogga um heimskulegar rannsóknir.  Það er ein á dag að meðaltali á Mogganum sem fær mig til að skellihlæja.

Eins og þessi.  Hávaði fær fólk til að þamba meiri bjór.

Já, halló, það er sjálfur hávaðinn sem sest í bjórgenin og þau garga af þorsta?  Eruð þið ekki að grínast?

Þegar þú getur ekki talað í partíi eða á krá vegna helvítis láta og gargs hvað áttu þá að gera við sjálfan þig?  Brosa út í myrkrið eins og félagslega fjölfatlaður vanviti?  Að sjálfsögðu ekki, þú reynir að fela vandræðaganginn með því að skríða ofan í glasið þitt.

Og "the rest is history".  Sjáið dagbækur lögreglunnar ef nánari upplýsinga er óskað.Devil

En að öðru, þegar ég var að skrifa þetta þá mundi ég eftir einu alls óskyldu sem gerðist á skemmtistað.

Kona sem ég þekkti einu sinni fór á djammið með vinkonum sínum, ein þeirra var ekki var ekki sliguð af heilafarangri.  Hún sá mann, henni fannst hann sætur og hún fór til hans og sagði við hann; "blessaður, skjótt skipast veður í lofti". (Henni fannst frasinn svo djúpur eitthvað) 

Maðurinn; "What?????" 

Konan; "já skjótt skiptast veður í lofti bara, er eitthvað að því?" (Dálítið sár svona)Errm

Maðurinn; "Það hefði verið gaman að fá að vita hvað þú heitir og hvað þú villt mér áður en þú ferð að þylja veðurfregnir"W00t

Miðað við svona samtöl er kannski fínt að blasta músíkina þannig að ekki heyrist mannsins mál.

Ég er á því.

Annars fer ég ekki á bari svo mér er andskotans sama.

En af hverju er fólk að leggja á sig eyrnamisþyrmingar?  Fyrir búsið eða fyrir ástina eða félagsskapinn eða allt í senn?

Bíts mí.

Nei, nei, ég er að fokka í ykkur.  Ég skil alveg að fólk fari á djammið, ég var einu sinni í þeim sporum líka, sko áður en ég þroskaðist og fór að hanga með Guði og félögum á kvöldin.

En ég skellti þessari mynd inn af Gilzenegger, eða mér sýnist þetta vera hann.Halo

 

 


mbl.is Hávaði eykur bjórþambið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skúbb hjá Svani

 RWCG_VRW

Krúttið og hrukkudýrið hann Ronnie Wood hunskaðist í meðferð í gær.  Gremlingurinn er búinn að vera á fylleríi síðan á frumsýningu myndarinnar um bandið "Shine a light".

Við alkarnir eigum ekkert að vera að tuða um hver er verstur en það fara ekki margir í sporin hans Ronnie nema ef vera skyldi glæsilegasta mannflak í heimi; Keith Richard.

Ég var að ræða Ronnie við húsband í gærkvöldi en bæði erum við heitir aðdáendur Stones. 

Ég sagði við húsband að það ættu að vera lög sem bönnuðu tjásugreiðsluna hans Ronnie style 197ogeitthvað.  Hann og Roddinn (Stewart) fóru á sömu hárgreiðslustofuna í London og Ronnie hefur ekki enn látið breyta um stíl.

Húsband: Hvaða máli skiptir það þó hárið á honum sé túperað er það ekki músíkin sem gildir?

Ég: Nehei, ekki bara músíkin, lúkkið dregur þessa menn hálfa leið.  Sjáðu mannflakið, Keith sem er að gera sig þrátt fyrir að nályktin finnstist langar leiðir og hann hafi tekið pabba sinn í nefið. 

Og við eyddum dágóðum tíma í að ræða útlit og klæðaburð tónslistarmanna fyrr og síðar.  Beethoven kom við sögu og Franz List.  Jájá. Og svo mundi ég eftir því að Keith barði Ronnie til edrúmennsku, mannflakið svo milt eitthvað.

En einn af mínum uppáhalds bloggurum er hann Svanur sem bloggar frá Englandi.  Í gær skrifaði hann færslu um Ronnie, hann hafði nefnilega hitt manninn á kaffihúsi í fyrradag.  Þetta er skúbb.  Ég held að það hafi ekki margir séð þessa færslu og þið sem viljið vita hvað Ronnie var að segja í fyrradag farið hingað og lesið.

En annars er ég góð bara.

Farin að dansa.


mbl.is Ron Wood í meðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, fíflið þitt

 crying-bride

Þegar verið er að gera rannsóknir á hjónaböndum, sérstaklega fleiri en einu hjá sama einstaklingi, skil ég ekki af hverju enginn hefur samband við mig.  Ég er fokkings sérfræðingur í greininni og á bæði hjónabönd í fleirtölu og fjölmarga eiginmenn að baki.  Þetta vita allir, því ég gusa úr reynslubrunni mínum yfir gesti þessarar síðu við öll möguleg og ómöguleg tækifæri.

Meiri kjánarnir að tala ekki við mig.  Kristmann Guðmundsson er hjá Guði en hann var sérfræðingur sem sláttur var á.

Fyrsta hjónabandið endist best segja rannsakendurnir.  Ekki nógu lengi þó til að viðkomandi hoppi ekki í annað, því ef svo væri, væri enginn samanburður inn í myndinni. Döh.

Mín reynsla er ekki svona.  Ég reyndar man afskaplega lítið eftir fyrsta hjónabandinu mínu, það er í móðu, ekki vegna hugbreytandi efna heldur vegna þess að það er svo helvíti langt síðan að það átti sér stað.  Nánar tiltekið þ. 22. apríl 1973.

Þetta hjónaband var nærri því óvart, fínn vinur minn þessi eiginmaður og pabbi flottasta frumburðar í heiminum, hennar Helgu Bjarkar.  En auðvitað rauk vinskapurinn út um gluggann eftir að við fórum að deila beðju.

Einhvern tímann löngu seinna hlógum ég og þessi fyrrrrrrrrrrrrrrrverandi að því að við rifumst eins og hundur og köttur á leið í kirkjuna, vorum ekki á "speking terms" í athöfninni og jáin frussuðust illskulega út úr okkur og í huganum bætti ég við; "fíflið þitt".  Svo héldum við áfram að rífast fram eftir degi.  Dunduðum okkur alveg sæl við það, þessi krútt sem við vorum.

Ég man líka að ég fór í hárgreiðslu á brúðkaupsdaginn og hárgreiðslukonan spurði mig vingjarnlega í hvaða kirkju ég væri að fermast.  Ég molnaði í spað.  Hvílík grimmd.

En ég verð að halda áfram með hjónaböndin sem á eftir komu, málið er nefnilega að eftir því sem þeim fjölgar því betri verða þau.  Alveg eins og vínið, þið sem eruð að sulla í áfengi ennþá og skiljið ekkert nema bragð og áfengisprósentur.  Frusss

Merkilegt að enginn skuli hafa áhuga á að leita eftir sérfræðikunnáttu minni í hjónaböndum.

Ekki heldur hvernig á að ljúka þeim.

Ég er svo aldeilis hissa.

Úje.

 


mbl.is Fyrsta hjónaband endist best
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hamingjusama" hóran

Svíar eru raunveruleikatengdir og lausir við aumingjaskap og dubbelmóral þegar vændismál eru annars vegar.

Sænska leiðin er sú besta sem völ er á og nú tilkynntu stjórnvöld í dag hertar aðgerðir gegn vændi. 

Auknu fé verður varið til að framfylgja lögunum sem banna vændiskaup.

"Einnig verður fé varið til að styrkja endurhæfingarstofnanir fyrir fólk sem stundar kynlífsþjónustu eða hefur lent í kynlífsþrælkun. Þá fá heilbrigðisstarfsmenn sérstaka þjálfun til að fást við þessi mál."

Á meðan heimurinn er að vakna til meðvitundar um raunveruleikan á bak við kynferðislega misnotkun sem tengist vændi og klámi stígum við Íslendingar til baka inn í torfkofana í þessum skilningi og höfum gert vændi refsilaust.

Mér finnst svo borðleggjandi misnotkunin sem felst í því að kaupa líkama og kynlífsþjónustu annarrar manneskju.

Og trúir einhver að vændiskonur almennt séu í djobbinu af þeim finnist geðslegt, hipp og kúl að eiga kynmök við mis ógeðslega karla?

Er það ekki ánauð að vera í þeirri aðstöðu að selja líkama sinn?

Eða er fólk að slá ryki í augun á sér með því að einblína á goðsögnina um hamingjusömu hóruna?

Ég beið spennt eftir því að vændismálið yrði endurupptekið á Alþingi, af því það rann í gegn óvart á síðustu dögum þingsins fyrir kosningar í fyrra.

En enn bólar ekkert á því.

Í þessu máli væri okkur hollara að fylgja fordæmi Svía.  Við erum þróunarland í þessum málum eins og þau standa núna.

ARG

 


mbl.is Svíar herða aðgerðir gegn vændi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsakið á meðan ég garga mig hása

Sumir halda því blákalt fram að öllum hlutum sé best fyrir komið í höndum einstaklinga. 

Fyrirtæki, spítalar, fjöll og dalir, ár og vötn.  Frjálshyggjuvitleysan gengur út á það að þú vinnir alltaf best fyrir sjálfan þig.

Og nú er Kerið í eigu forríkra aðila.  Umhverfið í kring, aðstaðan er hins vegar kostuð af almannafé.

Og nú mega hópferðir ekki fara að Kerinu nema að borga sérstaklega fyrir það.

Fyrirgefið á meðan ég garga mig hása.

Auðmennirnir drita niður glæsikofum á Þingvöllum og það er ekki hægt að ganga með fram vatninu hindrunarlaust þó skýrt sé kveðið á um að ekki megi hindra umferð gangandi fólks þar.  Björn Bjarnason er reyndar búinn að banna byggingarfurstunum þyrluflug fram að 1. október, og svei mér ef þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég man eftir að hafa klappað fyrir Birni.

Einhver toppur hjá Kaupþingi er að byggja tæpra 900 fermetra glæsikofa við Hreðavatn.  Halló.

Nú þegar kostar það hvítuna úr augum okkar að veiða lax þannig að það gera bara þeir sem eiga peninga.

Það liggur beinast við að það verði selt inn í þjóðgarðinn í Skaftafelli líka, hvaða mógúll hlýtur þann feng?

Hvað eru valdamenn í þessu landi að hugsa svona yfirleitt?  Það er alltaf að koma betur og betur í ljós helvítis gerræðið og gleypugangurinn í örfáum aðilum í þjóðfélaginu.

Gerið friggings Kerið upptækt og þjóðnýtið það á stundinni.

Ég er komin með upp í kok hérna.


mbl.is Ekkert Ker í þessari ferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af Neðurblökum og karpúlettum

20080708133051_7 

Húsband hentist í búð til að ná í nýjar kartöflur í dag.  Hagkaup í Smáralind er fyrsta búð frá vinstri við mig og sjá, ekki ein einasta kartafla til af íslenskum uppruna.

Við grétum hástöfum enda elskum við þessar íslensku.

Auðvitað fór sendingin í Nóatún, nema hvað.

En hér er lítil stúlka í heimsókn.

Hún fékk stappaðar karpúlettur með smjöri og salti (Maldon) eins og svo oft áður, að borða.  Hún tilkynnti mér að hún elskaði saltið mitt, það væri mikið betra en heima hjá henni.

Barn elskar alla hluti þessa dagana.

Einar er drátthagur maður og stundum biður hún hann um að "tattúa" sig og þá teiknar hann á handlegginn allskyns fígúrur og flottheit.

En nú var hann að vinna.  Barn bað ömmuna um að "tattúa".

Og amman tattúaði leðurblöku með grænum penna.

Barn: Þa vantar augun.

Amman teiknaði þau og krúsídúllaði leðurblökuna svolítið.  Barn virti fyrir sér listaverkið nokkuð glöð á svip og sagði svo:

Amma; ég elska N-eðurblökur.

Ég ætla ekki að segja ykkur í hvers lags kasti ég er núna.

En þið megið geta ykkur til.

Annars sefur hún í litla rúminu sínu og það rétt glittir í hana fyrir tuskudýrastóðinu sem hún raðaði í kringum sig áðan.

Jájá.

P.s. Myndina tók mamma hennar um daginn þegar Jenný mótmælti því kröftuglega að fá ekki að sofna í rúmi foreldranna og lagðist á gófið - og sofnaði.


mbl.is Íslenskar kartöflur í verslanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún rakar ekki á sér júnóvott

Ég er áskrifandi að netmogganum, og svo les ég visi.is og dv.is, hangi yfir fréttum á báðum stöðvum og svona.  Ekkert má fara fram hjá mér.  Mér líður eins og heimurinn yrði ekki samur aftur ef ég væri ekki ofan í hverjum koppi og kirnu.  Ergó: Það er eitthvað að mér.

En þessa dagana (jafnvel mánuðina) get ég gengið að tvennu vísu. 

Að Iceland Express er í seinkun, bilun, töfum og öðrum neikvæðum uppákomum.  Ekki fréttir fyrir mig því ég flaug með þeim til London fyrr á árinu og þá tóku þeir sig til og seinkuðu flugvélinni, sendu sms og tilkynntu það, flýttu henni svo aftur en tilkynntu það ekki.  Munaði ekki miklu að við misstum af vélinni.

Ég myndi segja að IE eigi í ímyndakreppu alveg biggtæm.  Þeir verða að kippa þessu í liðinn.  Svo eru samlokurnar um borð á sama verði grammið og gullið.

Og svo er það hinn fasti liðurinn á netmiðlunum.  Amy friggings Winehouse.

Ég elska tónlistina hennar og röddina.  Held að hún sé með betri söngkonum sem komið hafa fram lengi.

En konan er að deyja úr fíknisjúkdómi.  Sjálfseyðingin er slík og þvílík að mig langar ekkert til að lesa um það á hverjum degi.  Svo er hún hundelt og konan er vart af barnsaldri.  Sem alki og manneskja þá finn ég innilega til með þessari stelpu.

Það eru myndir af henni með kókakín í nös.  Klósettferðir hennar á klúbbunum eru taldar.  Ég veit að það er langt síðan að hún hefur rakað á sér þið vitið, af því það náðust myndir af því líka.

Give it a fucking rest good people.

Það er aðallega visir.is sem er með Winehouse þráhyggju.

En þetta er tuðpistill dagsins.

Frá mér til ykkar: Amy að harðneita að fara í meðferð.


mbl.is Tafir hjá Iceland Express
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 2986901

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband