Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Heimsóknarbann á pakkið

Ja hérna hér, Íslenskar konur eru ekki heimisins fegurstu konur samkvæmt einhverju plebba tímariti.

Þessu tímariti er greinilega mjög illa við Íslendinga og lætur þá ekki njóta sannmælis.

Það veit hvert barn að hér eru fegurstu konurnar, besta vatnið, fallegustu fjöllin, besta loftið, hreinasta umhverfið og laaaangt besta grænmetið.  Ég ætla ekki út í að mæra lambakjötið það tekur of mikið pláss.

Við erum alltaf best, fallegust, ríkust, gáfuðust frábærust, sniðugust, klárust og víðlesnust.

Miðað við höfðatölu.

Ég legg til að við lokum á alla þess aula þarna úti sem sjá ekki augljósar staðreyndir og kunna ekki gott að meta.  Við setjum þá í heimsóknarbann.

En mér þætti gaman að vita, í alvöru sko, hver kom þessari mýtu af stað.

Að íslenskar konur væru fallegri en konur í öðrum löndum.  ´

Ætli goðsögnin sú sé ekki heimatilbúin?

Gæti trúað því.


mbl.is Fegurstu konurnar ekki á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blogg um blogg

Ég les dálítið mikið af bloggum.

Það væri nú annað hvort.  Ég les mikið á Moggabloggi en ekkert minna annars staðar.  Jú reyndar ekki mikið á vísi.

Mér datt þetta í hug af því ég hef reglulega séð blogg um önnur blogg.  Eins og til dæmis um helvítis Moggabloggarana.  Þessa fávísu hálfvita sem eru vart læsir eða skrifandi.  Þeir sem svona skrifa eru auðvitað ekki á Mogganum að blogga og geta látið pöbulinn sem vogar sér að blogga á Mogganum fara endalaust í taugarnar á sér.  Það mætti halda að það stæði einhver yfir þeim með byssu og segði: Lestu eða ég skýt.

Og svo er það hin dásamlegi vinsældarlisti á Mogganum sem allir hafa skoðun á.  Sumum er svo mikið í mun að sanna að ekkert sé að marka þann lista að þeir leggja á sig að blogga við hverja einustu frétt í Mogganum til að skríða upp listann og sanna að þar geti hver hálfviti bloggað sig ofarlega á hann.  Hver nennir þessu?  Hehe, mér finnst það svo krúttlegt.

Annars er ég á því að bestu bloggin séu ekkert endilega ofarlega á einhverjum vinsældarlista, amk. eru mörg mín uppáhaldsblogg ekki neitt sérstaklega ofarlega á honum.  Fyrir mér er þetta spurnig um smekk og ætti ekki að vera tilefni til endalausra pirringsblogga yfir þessum eða hinum.

Ég hef sagt það áður að kynlíf selur, eymd og volæði líka.  Það er gömul saga.  Só?  Er eitthvað að því?

En ég les lika eyjuna, nánast alla sem þar blogga, margir góðir þar með lyklaborðið á lofti.

Sá sem mér finnst allra skemmtilegastur, þó ég sé ekki alltaf sammála honum, er Jónas fyrrum ritstjóri.  Hann er svo skemmtilega ósvífinn og honum virðist vera nákvæmlega saman hvort hann móðgar mann og annan með skrifum sínum.  Eins og í morgun. Sjá.

Ég blogga yfirleitt ekki um blogg.  Ég les þau sem ég hef áhuga á, sleppi hinum.

Ég nenni heldur ekki að lesa predikarana sem leyfa ekki athugasemdir.  Þeirr pirra mig hins vegar ekkert, ég les frekar blöðin. Hér er þó undantekningin hún Sóley Tómasar, hún hafði fulla ástæðu til að loka fyrir sínar athugasemdir.

Og nú er ég á leiðinni út í góða veðrið.  Megi bloggheimur vera í góðu stuði í sumrinu.

Úje

 


Ég ætla að giftast þessum rassi

ass

Amma mín sagði mér þér ég var ögn að ég yrði alltaf að þrýsta neðst á tannkremstúbuna því það væri rétta lagið.  Svo impróviseraði hún eftir stemmingunni hverju sinni og því hef ég öllu gleymt nema einu.  Túbufyrirlestrarnir voru nokkuð margir því ég þráaðist við, þá sem nú í tilraunum mínum við að fara mínar eigin leiðir.  Þetta sem ég man og hefur reynst mér vel sem fyrirbyggjandi aðgerð í túbumálum, fram á þennan dag, var að hún sagði mér að Amerískur Hollývúdd leikari hafi skilið við konuna sína vegna síendurtekins ofankreistings og almenns ofbeldis á tannkremstúbunni.

Og svo hef ég stundum hlegið að því að fólk skuli í alvörunni trúa því að eitthvað eitt valdi því að fólk hætti í samböndum eða byrji í þeim.

Eins og núna þegar Clooney á að hafa hætt með kærustunni af því hún fór í brjóstastækkun.  Féll hann fyrir barminum á henni?  Gerði umfang hans, eða skortur á umfangi, útslagið?

Ég hef í lífinu orðið ástfangin nokkuð oft og aldrei vegna hárs, augnalitar eða rassafegurðar svo dæmi séu tekin.

Það er manneskjan sem heild sem höfðar til mín og ég held að þannig sé með flesta.

Ég hef aldrei heyrt neinn gefa ástæðu fyrir hjónabandi með sóandsó; Ég sá á henni rassinn og þá vissi ég að þetta var konan sem ég vildi giftast.

Eða, svo annað dæmi sé tekið: Ég kolféll fyrir ristunum á manninum og ég var ekki í rónni fyrr en ég hafði eignast þær með löglegum hætti?

Ómægodd I´m crying here!

Úje.

 


mbl.is Hætti með Söru vegna brjóstastækkunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur tíminn ekki flogið?

Það er í alvörunni komið sumar.  Það rann upp fyrir mér í dag.  Seint?  Nei, tímapunkturinn er niðurnegldur.

Fyrir 14 árum í dag rugluðum ég og húsband saman reytum okkar í annað sinn frá því að við hittumst fyrst.

Í fyrra skiptið þegar ég var rétt skriðinn yfir tvítugt.  Það flosnaði upp úr því, jájá, mér fannst maðurinn gjörsamlega að kafna úr aðdáun á eigin persónu.  Hm... ég mun hafa verið litlu skárri.

En 11. júní 1994 runnu þessar stórþjóðir (hm) saman í einn vöndul, sem hefur rúllað æ síðan við mikinn fögnuð okkar tveggja.  Svona oftast amk.

Það sumar í júlí fæddist hann Jökull Bjarki, fyrsta barnabarnið mitt.

Árið 1994 var hið þriðja í röðinni af byltingarárum Jennýjar Önnu.  Það gekk mikið á upp á gott og vont.

Asskoti sem tíminn hefur liðið.

Í morgunn yfir kornflexinu:

Ég: Til hamingju með afmælið.

HB (ráðvilltur og nervös, man aldrei dagsetningar): Ha, sömuleiðis. (Og hér sást greinilega að hann hafði ekki glóru um hvaða áfanga ég var að óska honum til hamingju með).

Ég (kvikindislega): Finnst þér ekki tíminn hafa flogið?  Er ekki eins og þetta hafi gerst í gær?

HB (algjörlega heiðarlegur í andlitinu sem samt dáldið skelkaður): Jenný mín, ég hef ekki hugmynd um hvert þú ert að fara.

Og ég gafst alla leiðina upp.  Sumum er ekki viðbjargandi.

En ég knúsaði hann extra stórt þegar hann fór í vinnuna.

Það er af því ég er svo góð og umburðarlynd.

En ekki hvað?

Úje.

 


Flughræddur?

Ég var að lesa viðtal við Hönnu Birnu um oddvitaskiptinn og fleira.

Ætli Borgarstjórinn sé enn í hæfilegri fjarlægð í Færeyjum, því Hanna Birna er á því að ræða þurfi nýja staðsetningu á innanlandsflugvelli.

Mér skilst að Ólafur Borgó sé ekki bara flughræddur heldur sé hann með bjargfastar skoðanir á að flugvöllurinn fari ekki fet, hvorki í lengd né bráð.

En svo má vel vera að allar kjaftasögunnar um flughræðslu Ólafs séu gripnar úr lausu lofti.

Fólk er svo illgjarnt, alltaf að segja hluti um fólk og svona.

En ég dáist að Hönnu Birnu fyrir að segja skoðanir sínar upphátt um staðsetningu flugvallar.

Ég er svo hrædd um að Borgarstjóri verði alveg ær.

Og svo má það fylgja með sú skoðun mín að flugvöllurinn á ekkert að vera inni í miðri borg.  Tvisvar sinnum með stuttu millibili lá við stórslysi þegar vélum hlekktist á í lendingu.

Setjum hann á Miðnesheiðina, okkur er ekki vandara um en öðrum þjóðum að þurfa að keyra í smá stund til að komast í loftið.

Og ég meina það.

Viðtalið við verðandi borgarstjóraWhistling má lesa hér.


"The silent treatment"

 pd_arguing_080129_ms

Á hverjum degi reyni ég eftir bestu getu að takast á við brestina mín, sem eru ekki fáir.  Ég held að ég geti lofað því.

Bara svona á meðan ég hamast á lyklaborðinu þá koma þeir á færibandi.

Fljótfærnin er að drepa mig.

Ég bregst við með tilfinningum oftast nær og hendist því veggja á milli í brímandi brjálæði.

Ég er hvatvís (er reyndar ekkert að flýta mér að vinna í því máli, kann vel við að vera smá óútreiknanleg). 

Það fýkur í mig, ég fuðra upp en að því loknu þá drattast ég í að gera hreint fyrir mínum dyrum.

Og svo er það mannamunurinn sem ég á til að gera mér, en ég fer ekki út í það nánar, enda ekkert til að skreyta með.

Æi ég hætti að telja, þetta nær ekki neinni einustu átt, og ég sem var rétt að byrja á listanum.Whistling

Og þá að efninu.

Fyrst ég og svo þú.

Málið er að ég er nokkurn veginn með það á hreinu hvað má betur fara í mínu fari.  Kannski pínlega mikið með það á hreinu.  Nóg um það.

Ég er vaxin upp úr því (sem betur fer og það er EKKI langt síðan), að láta skoðanir fólks fara mikið fyrir brjóstið á mér og ég tek því ekki persónulega nema á vondum degi (Jónsí mín love u). 

En ég þekki fólk, fólk sem fer í fýlu stundum og hefur ekki fyrir því að tilkynna manni ef því mislíkar eitthvað sem maður hefur sagt, gert, skrifað eða jafnvel hugsað, svei mér þá.

Og svo situr viðkomandi í öflugri vonsku út í mann og maður hefur ekki grænan en finnur samt að eitthvað er að.

Og maður spyr kannski (fullur bjartsýni) hvort eitthvað sé að.

Svar með nef upp í loft: Nei, af hverju heldurðu það?

Æi þú ert eitthvað svo ólík/ólíkur sjáfum þér, hélt kannski að ég hafi eitthvað troðið þér um tær.

Svar frá fýlupoka sem reigir háls í nítíugráður afturábak: Nei, ég er bara þreytt/ur, upptekin/n, ósofin/n og svo framvegis.

Af hverju er ég að blogga um þetta?

Ætli það sé ekki vegna þess að mér finnst erfiðast í heimi að eiga við fýlupoka.  Að geta ekki tekið deilumál eða það sem í milli ber og rætt það út.

Ekki að ég sé eitthvað að fara á límingunum, það er bara of mikið af fólki í að refsa hinum og þessum með þagnartrítmentinu.

Og mér finnst það svo helvíti leiðinlegt.


Mansal - klám - vændi

Starfshópur á vegum Félagsmálaráðuneytisins vinnur nú að fyrstu aðgerðaráætluninni gegn mansali.

Um málið var fjallað í 10 fréttunum á RÚV í gær.  Það er svo löngu tímabært að taka þessi mál föstum tökum.  Mansal er orðið að útbreiddu vandamáli víða um heim.

Sérfræðingur norsku lögreglunnar í málefninu var staddur hér í gær og hann sagði að við þyrftum að svara tveimur spurningum.

1. Er markaður fyrir kynlífsþjónustu á Íslandi?

2. Er skipulögð glæpastarfsemi á Íslandi?

Ef svo er þá eru líkur á að hér sé stundað mansal.

Margir Íslendingar eru þeirrar trúar að mansal fyrirfinnist ekki hér.

Halló, vöknum.

Við höfum horft upp á að brotin hafa verið mannréttindi á erlendum verkamönnum, aftur og aftur.  Og auðvitað er það bara brot af þeim málum sem komið hafa í fréttir.

Svo má nefna konurnar sem koma hingað til að vinna sem "dansmeyjar" frá fátækum löndum þar sem neyðin er mikil.  Hefur engum dottið í hug að þær séu ekki að uppfylla drauma sína, að þær hafi lagt upp með annað en það sem svo hefur beðið þeirra þegar þær eru komnar í djobbið.

Ef við tökum klámið þá er öflug afneitun á þeirri staðreynd að þar veður uppi mansal í stórum stíl.

Fólk vill greina á milli fullorðinna þátttakenda í klámi og hins vegar barna.

Staðreyndin er hins vegar sú að í klámiðnaðinum grasserar mansal hvað mest og þar er erfiðast að taka á því.

En Ísland er komið á kortið sem eitt af þeim löndum sem leyfir vændi, svo dæmi sé tekið.

Það býður upp á alls kyns æfingar með sölu á fólki.

Það er nú einfaldlega þannig.


Og ég hóta með söng

Ég les nánast aldrei neitt sem ég rekst á um Beckhamgengið.  Þau fara svo ógeðslega í taugarnar á mér með sínu póstkortalíferni, útlitsdýrkun og yfirborðsmennsku.

Ég veit ekki afturenda um hver Mark Whalberg er og ég held að það hafi engu breytt lífi mínu til þessa, að vera ómeðvituð um tilvist mannsins.

En...

Nú er ég að hugsa um að skrifa honum.  Eða hringja í hann og bjóða fram stuðning minn í því vandamáli sem er að hrjá hann.

Hann vill Beckham´s í burtu úr sínu hverfi.  Enginn andskotans friður (fyrirgefið hvað ég blóta, hitinn skiljiði) fyrir hrossabrestunum frá Bretlandi.

Ég gæti farið og sungið fyrir utan hús hjónanna.  Þau eru varla öðruvísi en annað fólk, það taka allir til fótanna þegar ég syng.  Háir sem lágir, trúið mér.

Málið er að ég skil Mark vinninn Wahlberg alveg inn að innstu hjartans rótum.

Hver vill ekki fá Beckham´s á brott?

Þó ekki væri nema vegna skrækrar raddar fótboltakappans.

Þvílíkt törnoff.

Mark segir að Bretarnir vilji þau ekki heim.  Harðneita að taka við fjölskyldunni.  Hm...

Já ég er farin að sofa.

Og ég brest út í söng.


mbl.is Vill losna við Beckhamhjónin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prestastefnan stefnir heilsu minni í voða

Prestastefnan einu sinn enn.  Rosalega líður tíminn.

Prestastefnan hjá þjóðkirkjunni er stórhættuleg heilsu minni, nærri því jafn hættuleg og brennivín og pillur.  Svei mér þá.

Ég er búin að skrifa æðruleysisbænina inn í lófann á mér til að grípa til þegar þeir fara að messa yfir landsmönnum.

Svo segir biskup að eitt erfiðasta deilumál kirkju og samfélags undanfarinna ára hefi verið til lykta leitt á Alþingi nú í vor með samþykkt breytinga á lögum um staðfesta samvist.

Rólegur biskupinn yfir Íslandi.  Til lykta leitt?  Síðast þegar ég vissi þá sáuð þið ykkur ekki fært að gifta samkynhneigð pör í ykkar heilögu alltumvefjandi og kærleiksríku kirkju.  Aumt er það.

Sáttin sem biskup er að rappa um hlýtur þá að finnast í prestahópnum.  Ekki á meðal almennings.

En það er ekki nýtt að þjóðkirkjan endurspegli ekki vilja almennings í þessu landi.

Og fjandinn sjálfur að þessu sinni get ég ekki sagt mig úr þjóðkirkjunni ef mér misbýður ruglið, ég gerði það í fyrra.

En ég gæti skrifað mig inn aftur til að geta gengið úr henni með stæl.

Ég er farin að biðja kvöldbænirnar, enda eins gott, kona er með nærri 30 stiga hita.

Það er af því að trúarhitinn hefur náð á mér tangarhaldi.

Amen í boðinu.


mbl.is Eitt erfiðasta deilumál kirkju og samfélags til lykta leitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyndið fæðingarþunglyndi?

 433459A

Ég var sko ekki á leiðinni að blogga núna en (enda nýbúin) þegar ég sá þessa frétt um fæðingarþunglyndi karla og að mögulega sé litið fram hjá því.  En ég gat ekki stillt mig.  Mogginn fær plebbaverðlaun vikunnar fyrir myndbirtingu með frétt.

Mér finnst ekkert óeðlilegt við að karlmenn geti þjáðst af samskonar hugarástandi og konur eftir barnsburð.

Það er mikið álag að aðlaga sig að breyttum háttum, svo margt breytist þegar lítil börn koma inn í myndina.  Og svo eru það vökurnar.  Ekki hjálpa þær til. 

Pabbarnir koma mikið meir inn í myndina núorðið og eru þátttakendur í umönnun barnsins til jafns við konuna oft á tíðum.

Þá er það frá...

En ástæða þess að ég hendist hér fram á ritvöllinn er þessi glataða myndbirting með fréttinni.

Simpson fígúran sem gerir það að verkum að ég hélt að það væri verið að grínast með efni fréttarinnar.

Er það hugafar blaðamannsins sem þarna myndbirtist svona skemmtilega?  Að það sé krúttlegur brandari ef staðreyndin er sú að karlmenn þjáist af fæðingarþunglyndi?

Rosalega reynist sumum erfitt að horfast í augu við að karlmenn geti mögulega þurft að kljást við tilfinningalega vanlíðan.

Þetta er Mogganum ekki til mikils heiðurs, það verð ég að segja.

Og stundum er ég ekki hissa á hversu hægt jafnréttinu fleygir fram.

Arg, arg, arg.


mbl.is Litið framhjá fæðingarþunglyndi karla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.