Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Um bloggvini og blogvinahegðun

Þegar ég byrjaði að blogga, hélt ég að ég ætti að lesa allan minn bloggvinahring, og gerði það lengi vel.  En þeim fjölgaði og fjölgaði, þannig að ég komst ekki yfir allan listann en las reglulega hjá þeim.  Svo kvitta ég þegar ég hef eitthvað að segja, stundum hefur maður engu við að bæta.  Og þá fer maður sporlaust út.

Ég var svei mér þá með samviskubit stundum, ég var eins og kona í fullri vinnu að "fara hringinn", þangað til að ég horfðist í augu við að þetta þyrfti endilega ekki að vera svona.

Ég neita fólki aldrei um bloggvináttu, en sundum hef ég hreinsað út, fólk sem ég hef aldrei lesið.

Nú er mér farið að líða þannig, að í hvert skipti sem ég samþykki bloggvin þá sé ég að skrifa undir einhverja skuldbindingu.  Mér er illa við skuldbindingar sem svífa yfir vötnunum.

Ég er með 146 bloggvini.  Halló, gaman að því. 

Undanfarið hef ég rekist á færslur (eða verið bent á) einhverjar færslur um persónu mína þar sem ég er tekin í gegn fyrir að kvitta aldrei, að ég sé merkileg með mig og Guð má vita hvað. 

Svona á bloggið ekki að virka fyrir mér.  Ég les alltaf sama fólkið, þ.e. mína fyrstu bloggvini, fólk sem ég þekkti áður en ég kom hér inn og svo fólk sem ég hef kynnst náið hér inni.  Svo les ég það sem ég kemst yfir.  En ég kvitta svo sannarlega ekki eftir pöntum.  Bara svo það sé á hreinu.

Það sem ég er að segja með þessari færslu er einfaldlega að útskýra afstöðu mína.  Bara svo enginn taki því illa þó ég sé ekki að kvitta.  Ég geri það sjaldnast nema þar sem ég hef eitthvað til málana að leggja.  Það fer fátt meira í pirrurnar á mér en skyldukvittin.  Þessi héra. Kvitta fyrir mig búin að lesa.  Minnir mig á Mamma: búin að kúka.

Þeir sem eru eitthvað ósáttir við mig í bloggvinabransanum henda mér þá bara út.  Ekki málið, hinir verða inni og vita þá hér með hvernig ég nota mitt sýstem.

Úff, hvað það var gott að koma þessu frá sér.

Svo vona ég að þið eigið góðan dag og ég verð að upplýsa að ég les fullt af bloggurum sem ekki eru sk. bloggvinir mínir og geri það af mikilli ánægju.

Hverjar eru ykkar hugmyndir um þetta sýstem?  Segið endilega frá.

Kikkmítúðevollækenteikit

Úje


16 mánaða edrú - úje, úje, úje

Þetta er afmælissnúra

Sko tíminn líður svo fljótt á milli edrú afmæla að ég var nærri búin að gleyma 16 mánaða  áfanganum mínum í dag.   Mundi allt í einu eftir þessum merkisdegi, þegar ég var önnum kafin við að beita heimilisfólkið hinu hefðbundna kvöldofbeldi fyrir svefninn. Vont en nauðsynlegt til að hafa skikk á fólki.

Ég var steinhissa að vera nærri búin að gleyma þessum merkisdegi í lífinu mínu.  Eins og það sé eitthvað lítilræði að hafa verið allsgáður og happí í 16 mánuði.  Mishappí auðvitað eins og þið venjulega fólkið.  Dagurinn í dag hefur verið hörmulega leiðinlegur t.d. en á morgun kemur nýr, með nýjum tækifærum og brosvökum á hverju horni Hvað eru 16 mánuðir margir dagar annars?

Ég fór inn á Vog þ. 5. október 2006 hálf dauð og kom þaðan út nokkuð bein í baki ca. 25 dögum seinna.

Já, búin að blogga um það svo oft.

Annars er vinnan i edrú mennskunni stöðug, nauðsynleg og skemmtileg.  Nú er ég búin að fara edrú til útlanda og það tókst með svo miklum ágætum að þá er bara ein hetjudáð eftir en hún er að klífa einhvern fjallstind eða eitthvað. Æi ég held ég sleppi því, verð alveg jafn edrú og glöð þrátt fyrir vera ekki eins landafjandi út um allar jarðir.

Og takk fyrir Vogur, 1000 sinnum og göngudeildin líka.

Ég á ykkur líf mitt að launaHeart

Ég held að ég fari soldið seint að sofa í kvöld, ekki gott en stundum er ég í stuði fyrir næturgölt.

Hver fer edrú að sofa á eftir?

Jenný Anna Baldursdóttir og milljón annarra glaðra alkóhólista í bata.

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt

kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.


Aftur innanhúserjur á kærleiksheimili - nú með einum þátttakanda

 

Hvað er það við þessa daga núna?  Kuldinn, myrkrið, langt í vorið, enn lengra í jólin (hm) páskar langt undan (mér er slétt sama) og svo þessir bolludagar og saltkjötsát (sem ekki er stundað á mínu heimili), sem er baneitrað og tilraun til sjálfsvígs, ekkert minna.  Ég er alla vega ekki glöð, alls kyns fífl að pirra mig.  Amk. eitt (ekki minn heittelskaði)

Í dag hef ég verið svo upptekin að vera í vondu skapi að ég hef gert nákvæmlega ekki neitt.  Er samt að búa mig undir að steikja fisk.  Af hverju er ég alltaf eldandi?  Er það tattúerað á ennið á mér "Eldaðu"?  Eða var ég dáleidd sem smábarn og því komið inn í kvarnirnar á mér að það væri hlutverk mitt í lífinu?  Ekki að mér finnst það leiðinlegt, en akkúrat núna á ég bágt.

Ég sparkaði í kommóðu áðan: Ástæðan, óréttlæti heimsins.

Dásamlegt að gera ekkert í heilan dag nema að taka upp rými.

Færa mig á milli stóla.

Eina ráðið við þessum febrúarbömmer er að drífa sig á AA-fund.  Ekki gott að vera alki í pirruðu skapi.  Nánast á gargstiginu.

Og þið sem mögulega ætluðuð að koma í kaffi - sleppið því, ég gæti sett eitthvað óhollt út í það.

Nú þá er að fara á fund, í sund og kaupa sér hund.

Svo sagði mætur maður.

Guð plís skenktu mér smá æðruleysi.

Amen.


Að geta lokað og hent lyklinum, allt búið -bless

Ég hef þekkt nokkrar konur (og menn) um ævina sem hafa lent í því að eiginmaðurinn hefur farið frá þeim vegna annarrar konu.  Slík er eins og allir vita ekki óalgengt.  Þetta er sár lífsreynsla og ábyggilega alveg skelfilega mikið niðurbrot á sjálfsmynd, fyrir nú utan að allt í einu er eins og einhver sem maður hefur deilt lífi sínu með, jafnvel til fjölda ára, treyst og trúað, að sýna af sér hegðun sem kemur konunni (ég er bara að skrifa um konur hérna) í opna skjöldu.

Það hlýtur að taka langan tíma að vinna sig út úr svona reynslu og þá sérstaklega ef ung börn eru til staðar í hjónabandinu sem er í molum.

En..

Það kemur að þeim tímapunkti að manneskjan veður að setja punkt.  Horfast í augu við hlutina og byrja að lifa lífinu fyrir sjálfan sig.  Það er náttúrlega fáránlegt að láta mann sem er bara happí úti í brjóta niður líf sitt, tilgangsleysið í því er algjört.

Sumar þeirra kvenna sem ég þekki og lent hafa í þessu hafa verið tiltölulega fljótar að stíga á fætur,og hafa sig af stað út í nýja lífið.  Oft hafa þær sagt að þetta hafi verið  það besta sem fyrir þær hefur komið, þær finna nýjan styrk, nýjar hliðar á sjálfum sér og þær fara að njóta lífsins í jafnvel meira mæli en áður.

En svo þekki ég nokkrar sem hafa valið að gerast atvinnufórnarlömb.  Hinar sviknu og forsmáðu.  Þær fara í stríð út af umgengnisrétt, þær eyða hellings orku í að hata nýju konuna, og engjast af stöðugri afbrýðisemi og eftirsjá og allt lífið heldur áfram að snúast um fyrrverandi.  Árin líða og þær róast en líf þeirra stendur óbreytt.  Þær eru bara í hlutverki hinnar yfirgefnu konu. ARG. Sumar eru leynt og ljóst að bíða eftir karlrassgatinu sem yfirgaf þær, vó hvað það er dapurlegt.

Þetta datt mér í hug þegar ég las um blúsinn hennar Jennifer Aniston, sem ku vera þjökuð af eftirsjá og trega, vegna mögulegrar óléttu Brangelínu.  Hún hefur skv. því verið að bíða eftir Braddanum.

Æi hvað ég vona að hún verði ekki atvinnuyfirgefinogsmáðkona.  Þessi flotta og hæfileikaríka leikkona.

Valið er hvers og eins.

Um að gera að velja að standa með sjálfum sér.

Enginn fyrirverandi maki er svo æðislegur að það borgi sig að eyðileggja líf sitt fyrir hann.

Súmí.

Úje


mbl.is Aniston sögð þjökuð af eftirsjá og trega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varúð ekki fyrir fyrir nokkurn vegnin normal fólk - og ég meina það.

Tarantula

Ég get ekki hamið mig lengur.  Hvað á að gera við þessa ídjóta sem flytja inn eitraðar köngulær af stærstu gerð og eru með þær í búri og gefa þeim mýs í matinn?  Hvað á að gera við fólk sem flytur inn hættuleg dýr, sem geta sloppið (eins og oft gerist) og gætu ráðist að börnum svo ég fari nú ekki lengra í möguleikunum.  Löggan fann líka 3 gr af "meintu" hassi, sem allir vita að gerir fólk svo ábyrgt og vakandi og skerpir dómgreindina til mikilla muna, eða þannig.  Hvað ef viðkomandi Tarantúlubóndi, víraður upp í heila, fengi þá brilljant hugmynd að setja köngulóarviðbjóðinn í kvöldgöngu?  Ég brjálast.  Ég bý á Íslandi, ekki við Amazon.  Þetta á ekki að vera á áhyggjulistanum mínum.

Var að lesa frétt um Dana nokkurn sem hafði óvart tekið með sér eina baneitraða og kasólétta Tarantúlu úr ferðalagi og setti töskuna inn í bílskúr.  Þar kom að, að einhver álpaðist inn í bílskúrinn, og þá var orðin til nýlenda af þessum kvikindum og það tók langan tíma að eyða þeim.  Börnin hans léku sér oft í bílskúrnum, þannig að það var Guðs mildi að þau hafi ekki rekist inn í köngulóarborgina.

Í alvöru, það er slatti af fólki sem smyglar inn í landið, baneitruðum ógeðisdýrum.  Þeir sem það gera geta ekki verið mjög ábyrgir persónuleikar.  Því skyldu þeir sýna einhverja ábyrgð í dýrahaldinu?

Er ekkert hægt að gera?  Ég er í kasti hérna, ég hata þessi kvikindi og rétturinn er minn.  Ég kom á undan og þetta eru þeir einu innflytjendur sem ég vil ekki inn í landið mitt.

Ísland fyrir íslenskar köngulær (hrollur)

Fokkingmækrósjitt

ARG


mbl.is Hald lagt á tarantúlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af innanhúserjum á kærleiksheimilunu

 

Komið þið sæl,

Hehe, langaði að hljóma eins og Siggi Sig. heitinn, gamli íþróttaútvarpsmaðurinn.

Í gær fékk ég ágætis ástæðu til að fara í feita fýlu hér heima hjá mér.  Já á þessu kærleiksheimili, fer andrúmsloftið í smá vetrarhörkur einstaka sinnum og í gærkvöldi var einstaklega napurt í þeim skilningi hér á mínu menningarheimili.  Þið sem eruð að drepast úr forvitni, róleg, þetta er ekkert merkilegt.  Höfuðinntak voru rökræður um hvort heilvita konur eigi að borga hátt í 20 þúsund krónur fyrir klippingu og strípur.  Ég var alfarið á móti því.  Karlmaðurinn á heimilinu hinsvegar æstur í að rífa upp budduna og taka veð í eignunum fyrir herlegheitunum.

Ók, það var víst ég sem var með háu verðlagi en hann á móti. 

Þetta voru sem sé venjulegar rökræður sem urðu til þess að ég fór í fýlu, hótaði a skerða aldrei hár mitt né skegg og fara til fjalla og klæðast sauðagæru til dauðadags, þannig að ekki þyrfti að rífast yfir leppunum sem ég kaupi mér (hm).  Í stuttu máli, ákvað að gera stórmál úr viðkomandi umræðum.  Var í stemmara fyrir fýlu og ekki einu sinni Jesús Jósepsson sjálfur, hefði getað snúið mér, ég var ákveðin og með það fór ég að sofa.

Vaknaði eftir vondan svefn, enda ekki gott að sofa í brjáluðu skapi, upplifandi sig sem fórnarlamb og frumkonu. En ég hef úthald, þegar ég einset mér eitthvað og mér var bent á það af mínum heittelskaða, við litlar vinsældir mínar, að nýta mér viðkomandi sjálfsaga til góðra verka.  Jeræt, að ég hafi hlustað.

Og svona leið dagurinn.  Húsband gerði ýmsar tilraunir sem allar voru blásnar af í fæðingu.

En hann er naut og þar að auki friðsemdarmaður, svona oftast, og þar sem ég sat hér með hnút í maganum og hamaðist á lyklaborðinu, kom hann grafalvarlegur með Gretchinn (gítar þið sem ekkert vitið) og söng serenöður eins og hann hefði unnið við sollis músik til margra ára og leið fram hjá mér eins og af einskærri tilviljun, mjög einbeittur í framan.  Svona gekk þetta lengi vel, ég frosin í framan,  en að  drepast úr hlátri inni í mér, en það sem gerði það að verkum að ég sprakk, var þegar hann tók  "þú villt ganga þinn veg" sungið í gengum nefið og spilað í mjög víbrandi útfærslu á gítarinn og með tilheyrandi líkamshreyfingum.

Þá allt í einu mundi ég að ég elska þennan mann og síðan ég er búin að vera brosandi frá eyra til eyra.

Verð á strípum og klippingu hvað?  Á hvort sem er tíma hjá Toný and gay n.k. þriðjudag.

Þetta var sýnishorn í heimilislíf Jennýjar Önnu og Einars Vilberg.

Lífið er ekki alltaf dans á rósum þegar vandamálin eru af þessari stærðargráðu.  Úff, ætili við þurfum að leita til hjónabandsráðgjafa.

Úje


Ég nenni ekki að blogga um þetta...

 

..en það er ekki á hverjum degi sem það er framið bankarán á Íslandi.

Þýfi fundið, gjaldkeri brást rétt við, lalalala, allir glaðir en heimurinn er ekki að farast.

Það sem mér finnst eitt af því mest fyrirfram dæmt til að mistakast eru bankarán á Íslandi.

Man einhver eftir einhverju sem tókst?

Ekki ég.

Hvað er að fólki, gengur það með djúpa löngun til að komast í fangelsi?

Nóg um það.

Hér eru önnur og stærri málefni sem eru að vefjast fyrir mér.

Það eru miðar.

Svona minnismiðar, sem geta verið umslög, síða á dagblaði, til hátíðarbrigða alvöru gulir minnismiðar með lími á.  Það skiptir ekki máli, ég týni þeim öllum.

Það er ekki til óskipulegri manneskja í öllum heiminum en ég í miðabransanum.

Um hver mánaðarmót gegn ég í gegnum eld og brennistein við að leita að ákveðnum reikningsnúmerum sem ég þarf að nota, og ég svitna í lófunum, titra, hjartað staðsetur sig í hálsinum á mér og ég græt.  Hvað á ég að gera?  Þetta á að borgast í dag!  Ég gleymi því alltaf að ég þarf bara að lyfta upp símanum og biðja um viðkomandi upplýsingar.  Man það aldrei fyrr en ég er komin á geggjunarstigið og einhver mér velviljaður bendir mér á það.

Svo hef ég reynt að búa til kerfi.  Skrifa tvo miða á hvert atriði sem ég þarf að muna.  Þá fyrst fer ég að eiga erfitt, bíddu, var ég búin að þessu, ring - ring- var ég búin að ganga frá þessu?  Ekki eða já kona, fyrir fimm mínútum.  ARG.

Um hver mánaðarmót tek ég miðana mína og set þá snyrtilega ofan í ákveðna skúffu.  En... og það er stórt en, er eru margar skúffur og ég er alltaf búin að gleyma hver þeirra sú ákveðna var, enda ég fyrir löngu búin að henda allskonar pappírum yfir alla skipulagninguna, svo það skiptir engu.

Ég kæri mig ekki um neinar ráðleggingar um skipulagsbreytingar hérna. Hluti af mér elskar kaós.  En þið megið hnippa í mig ef ég skrifa þessa færslu tvisvar.

Bætmí

Úje


mbl.is Vopnað bankarán í Lækjargötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það ætti að vera hægt að kæra Hugh Hefner fyrir kynferðislega misnotkun í krafti auðs síns

 

En þar eru tormerki á.  Karlinn er auðvitað á grafarbakkanum, upppumpaður af Viagra og þrjár sambýliskonur hans, þessar barnungu, eru orðnar lögráða.  Ég hef stundum horft á hina sorglegu þætti um sambúð stúlknanna við gamalmennið og ég fer næstum að gráta.  Þvílík örlög.  Nú eru þær allar tuttuguogeitthvað, en leika sér eins og smástelpur með gæludýrin sín og skiptast svo á að sofa hjá þessum ógeðiskarli, sem ætti ekki séns í konu undir sjötugt (komu á hans reki, meina þetta ekki niðrandi fyrir konur á þessum aldri) nema af því hann er klámkóngur, blaðaútgefandi og forríkur andskoti.

Nýjasta og fréttnæmasta frá Viagrahöllinni er að í í annað eða þriðja skipti fara kærusturnar þrjár á forsíðu Playboy.  Þvílík hamingja.  Þegar maður fylgist með þessu fyrirkomulagi í kringum þennan víraða pervert þá missir maður trúna á að ungar konur séu að uppgötva breytta tíma, að skynja mátt sinn og megin og að þær geti sjálfar skapað sér líf á eigin forsendum án niðurlægingar.

Þessar stúlkur gætu verið dætur mínar. Vá hvað ég væri búin að ná í þær.

Auðvitað er þetta kynferðisleg misnotkun á ungum konum sem sjá ekki skóginn fyrir trjánum.  Ungar stúlkur sem hefur dreymt um að verða frægar sem nektarmódel (svo barnalegt sem það nú er, enda eru þær ekkert annað en smástelpur) og lenda svo í klónum á þessum karlfjanda, bryðjandi Viagra.

Svo gat ég nú ekki annað en helgið þegar ég sá konuna sem gegnir starfi ritara í höllinni.  Eldri kona, ósköp ljúf með RITVÉL sér til aðstoðar.

Ætli það sé sparað á öllum sem komnir eru yfir 25 ára aldur og ekki vænlegar til að flagga píkunni framaní gesti og gangandi?

Fyrirgefið meðan ég æli.

Hér er fréttin á visi.is

 


Hver í ósköpunum er Jón Gnarr?

Því er fljótsvarað af minni hálfu, hann er einn af betri kómíkerum sem við eigum.  Snilldarhúmoristi.  Ók, afgreitt, óumdeilt af minni hálfu.  Málið dautt.

En ég gerði þá reginskyssu að horfa á þáttinn um hann hjá Jóni Ársæli.  Auðvitað er fólki mislagðar hendur við að ná góðu sambandivið viðmælendur sína, ná inn fyrir "úlpuna" og snerta streng sem hrærir þann sem á horfir.  Það sem gerir svona þætti þessi virði að horfa á þá fyrir utan ofannefnt, er að kynnast viðkomandi manneskju frá þeirri hlið sem ekki blasir við undir venjulegum kringumstæðum.

Ég er engu nær um hver Jón Gnarr er á bak við hinn opinbera Jón Gnarr. 

Ég vissi að hann hafi verið pönkari og ódæll unglingur.

Ég vissi að hann var trúaður.

Ég vissi að hann er að vinna í sjálfum sér, hafði verið í klaustri andonandonandon.

En hver er hann.  Hverjar eru tilfinningar hans gagnvart lífinu, fyrir utan standardsvörin sem hann gaf?

Hverjar eru óskir hans?  Markmiðin?  Hvað hefur reynst honum erfiðast í fífsbaráttunni?  Svo ég nefni dæmi.

Ég verð svo pirruð út í sjálfa mig þegar ég eyði tíma mínum í ekki neitt.

Ég tek það fram að ég kæri mig ekki neitt um að vita einhver leyndarmál um manninn, eitthvað slúðurkennt.  Bara kynnast manninum á bak við nafnið.

Sigurjón Kjartansson, einn af hans bestu vinum lýsti listrænum hæfileikum hans sem öllum er kunnugt um.  Ekki orð um persónuna Jón Gnarr. 

En ég tók greinilega eftir að Jón Árslæll klæddist fatnaði frá Bistró.

Er ekki hægt að gera betur?

Kikkmíælofitt.

Úje 


Þú mátt heita Aþena krakki en Montevideo kemur ekki til greina, hvað þá Kaupmannahöfn.

Ég skil ekki mannanafnanefnd.  Hvernig gengur þetta fyrir sig annars?  Éf er að reyna að sjá þau fyrir mér í massívri vinnu hérna.

Amy, kemur ekki til greina, en ef þið skellið í-inu á það þá sleppur það.

Pia, nöjts,  það tekur ekki eignarfallsendingu.  Aumingja barnið, það væri stöðugt verið að leggja það í einelti úti í fríminútum, Pia, Pia, nafnið þitt tekur ekki eignarfallsendingu, þú mátt ekki vera með í snú-snúl

Aþena, já, já, dúllan mín, það er bara fallegt nafn á höfuðborg, krúttlegt að skíra barn eftir snarmengaðri höfuðborg Grikklands.

En Róm, kvenkyns já hún Róm sko borgin.  Róm, Róóóm komdu inn að borða.  Því ekki?  Heyrt það verra.

Ein vinkona mín ætlaði að skíra dóttur sína Hrafnhettu, mannanafnanefnd tapaði sér.

Ég elska borgina Montevideó, ef Aþena er í lagi, get ég þá fengi leyfi til að skíra eftir þessari yndislegu borg, með fögur stræti og torg.?

Ég þekki konur sem heita Júní og Júli og veit um menn sem heita Ágúst og enginn sér neitt athugavert við það.  Ég hefði gjarnan vilja sjá einvhern heita Janúar, það er ekki óalgengt nafn í útlöndum.  Eru sum nöfn í klíku hjá þessari fáránlegu nefnd?

Leggið niður þessa forræðishyggjunefnd og leyfið fólki að ákveða sjálft hvað börnin skulu heita.  Þeir sem skýra og skrá nöfn, hljóta að geta séð um að stoppa af nöfn eins og Satan, Slöttólfur, Gylta og ámóta ófögnuð.. 

Þjóð sem á sögu um að hafa skírt börn Sautjándujúníur, Lofthænur,  Kapítólur, Almannagjáur og fleiri slíkum ógeðisnöfnum, á ekki að vera með attitjúd, hvað þá völd.

Niður og út með þessa fargings mannanafnanefnd.  Svo geta skýrendur og nefnendur bjargað börnum frá skelfilegu nöfnunum, sem t.d. eru nefnd hér að ofan.  Ekki að ég haldi það sé sé stór hópur fólks sem hefur það á stefnuskrá sinni að troða ljótum nöfnum á börnin sín.

Systir mín heitir Greta.  Hún var alltaf skrifuð Gréta í þjóðskrá, þegar hún kvartaði færðust þeir í aukana og skráðu hana Grjétu

Getur maður framið eitthvað við tilhugsunina um þessa bölvaða forræðishyggju?

Ójá maður getur það.

Hins vegar má fara að minnka öll millinöfnin eins og Dögg, Mist, Brá, Rós. Svo er nafnið Alexander rannsóknarefni út af fyrir sig og vó,  hefur orðið offjölgun á því nafni ásamt nokkrum öðrum, með allri virðingu fyrir þeim sem heita þeim.

Ég vil ekki banna fjöldanöfnn, bara nota aðeins hugmyndaflugið gott fólk.

Bless á meðan snúðarnir mínir.

Úje


mbl.is Piu og Sven hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 2987752

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.