Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

LAUGARDAGSPÆLINGAR

53

Það er svo margt sem mig langar að blogga um.  Samt er það stundum þannig að hugsanirnar eru eins og rússibani á fullri ferð, láta ekki að stjórn.  Þannig hefur það verið undanfarið hjá mér, einfaldlega vegna þess að ég hef látið öllum illum látum með sjálfa mig.  Farið fram úr mér, gert of mikið, mæðst í mörgu eins og Marta greyið og hreinlega gleymt að forgangsraða.

Ég var að hugsa um hversu rík þörf er innra með okkur að máta alla skapað hluti við okkur sjálf. Auðvitað er það nauðsynlegt að velflestu leyti, við höfum bara okkar reynslu til að notast við. Það sem er þó að fara í taugarnar á mér er þessi þörf margra til að hafna öllu sem er þeim ekki þóknanlegt.

Áður en ég komst til vits og ára uþb í október á síðasta áriLoL (ekki alveg svona slæmt) þá var ég óþolandi dómhörð oft á tíðum.  Ég hafði ZERO tolerans fyrir fólki sem fór aðrar leiðir en ég.  Þetta viðurkenndi ég ekki svona opinberlega en ef ég dæmi sjálfa mig af ummælum mínum á þessum sokkabandsárum þroska míns, þá er ég vegin og léttvæg fundin.  Ergo: "Guilty as charged".  Ég ætla ekki að mála skrattann á vegginn en ég var illa haldin af dómhörku. Einkum og sérílagi upp úr þrítugt. Ég er núna eldri en sjálf erfðasyndin (af hinni friðelskandi blómakynslóð) en sem betur fer hefur mér með víxlsporum mínum í lífinu lærst að hver manneskja er dýrmæt, þrátt fyrir að hún sé etv hundleiðinleg, með allt aðra lífsýn en ég sjálf og að viðhorf hennar minni mig á geimveru.

Til að útskýra hvað ég meina svona blákallt þá kem ég með nokkur dæmi um fullyrðingar mínarBlush:

Alkahólistar eru aumingjar (þarna hef ég greinilega ræst karmalögmálið því ég endaði í meðferð sjálf og fékk upplýsingar um sjúkdóminn alkahólisma frá fyrstu hendi. Ég lærði "the hard way" að alkahólistar eru ekki aumingjar enda hefði ég seint skrifað upp á að ég væri vesalingur)

Fólk sem er ekki sammála mér í pólitík eru hugsjónalausir hálfvitar Þarna varð mér illa á í messunni og fékk að komast að því fullkeyptu að fólk er,  án tillits til stjórnmálaskoðana, fyrst og fremst manneskjur sem allar hafa sama útgangspunkt.  Þe að betrumbæta samfélagið. Eini munurinn á  milli fólks eru leiðirnar að markinu. (verð þó að taka fram að "sumir" virðast löngu hafa gleymt þessari fallegu fyrirætlun og skara bara eld að eigin köku).

Konur sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru handbendi kvennakúgunarafla og því með greindarvísitölu langt undir stofuhita Þetta þurfti ég að éta ofan í mig eins og margt annað.  Allar konur sem vilja hafa áhrifa á samfélagið eru af hinu góða en eins og áður er nefnt eru leiðirnar að markinu margar og þótt ég sé fullkomlega og algjörlega óssammála þeim þá þýðir það ekki að þeirra hugsjónir séu eitthvað verri en mínar.

Ég tók nú bara svona yfirborðskennd dæmi.  Dómharka sem beinist persónulega að fólki er þó verst og ég kom því miður við í þeirri deild líka og dvaldi þar mun lengur en sem nam einum kaffibolla. En ég gengst við vanþroska mínum. Orð og hugsanir hafa ábyrgð.

Í dag ætla ég ætla ég að tala rólega og koma kurteislega fram.  Gagnrýna engan.  Reyna ekki að bæta eða aga nokkurn annan en sjálfa mig.

Svo mörg voru þau orð.

 

 


Ég er svo standandi hlessa.....

01

...á að Geir Haarde skuli telja samstarf Samfylkingar og VG versta kostinn. Eru ekki allir orðlausir yfir þessari skoðun forsætisráðherra?  Allt telst nú vera fréttaefni.  Ég hefði haldið að Geir teldi alla kosti versta í ríkisstjórnarsamstarfi þar sem Sjálfstæðisflokkur ætti ekki hlut að máli.  Nema ef takmark flokksins er nú um stundir að vera í stjórnarandstöðu.

Annars gengur þessi frétt Mbl. út á að kynna viðtal við Geir Hilmar í sunnudagsblaði Moggans og er það Agnes Bragadóttir sem á heiðurinn af því.  Það verður spennandi að fylgjast með hvort Geir hafi eitthvað nýtt fram að færa.  Hann ætlar að tjá sig ma um jafnréttismál og hverju flokkurinn hefur áorkað í þeim málum þá væntanlega á kjörtímabilinu.  Ég vona að hann tjái sig um fleira en þau mál því það getur ekki tekið upp meira rými en uþb, 2-3 línur með stóru letri.  Ég bíð spennt.


mbl.is Geir H. Haarde telur samstarf Samfylkingar og VG versta kostinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FAMILIA GRANDE

71

Ég las á blogginu hans Sigmars stórskemmtilegan pistil þar sem hann segist vera sérfræðingur í samsettum fjölskyldum.  Það er greinilega rétt.  Þessari sérfræðikunnáttu deilir Sigmar með velflestum íslendingum.  Að vera í samsettri fjölskyldu til hægri og vinstri er sú besta þjálfun í félagslegri færni sem hægt er að hugsa sér.´

Elsta dóttir mín á einn son, pabbi hans á 3 dætur. Sú elsta á kærasta, hann á tvö börn.  Tvö barnabörn á ég til viðbótar en feður þeirra komu barnalausir til leiks.  Pabbi elstu dóttur minnar á fimm stelpur.  Þær eru skásystur allra dætra minna en ég á þrjú börn með tveimur mönnum.  Flókið? Núverandi eiginmaður á fjögur börn með tveimur konum.  Hehe.  Einu sinni vorum við með jólaboð og allan fjöldann í einu.  Það boð var á við meðalfermingaveislu og ef skynsemin hefði verið með í för myndum við hafa leigt undir fjölskylduna eins og eitt félagsheimili.

Ég er heppin.  Börnin "okkar" hafa vandræðalaust náð fínum tengslum.  Í því efni hafa aldrei komið upp vandræði.  Börn á öllum aldri eru reyndar aldrei vandamál, það er fullorðna fólkið sem sér yfirleitt um að skapa þau.  Það er mín reynsla. Barnabarna-möguleikinn er stór og það verður spennandi þegar þau fara að birtast eitt af öðru.  Það er eitt það skemmtilegast sem ég hef upplifað að fá að vera í félagsskap þeirra barnabarna sem ég þegar á.

Datt þetta svona í hug þegar ég las pistilinn hans Sigmars.  Ég er rík kona.

blogg31


Kristjanía að innlimast í Danmörku?

37

Nú eru Kristjaníubúar að ræða tilboð danska ríkisins um að sameinast Danmörku af fúsum og frjálsum vilja.  Ég hef aldrei verið svo mikill hippi að mig hafi langað til að búa í Kristjaníu en sem fyrirbæri var fríríkið merkileg tilraun. Þegar ég gekk í gegnum Kristjaníu á 8. áratugnum var þar ekki fallegt um að lítast, sorphaugar út um allt og börn og ótrúlegur fjöldi hunda að velta sér innan um sorpið í einum hrærigraut.  Ég man að mér fannst það ekki par sjarmerandi og varð þeirri stund fegnust þegar ég komst þaðan út.  Fyrir nokkrum árum gekk ég aftur þar í gegn, sem ráðsettur túristi hm.., og þá var ástandið öllu betra.  Þarna var orðið reglulega huggulegt.

Það er kannsk i lögmál í lífinu að allt gangi sér til húðar.  Að nýjir vendir sópi best.  Ég hef ekki næganlega þekkingu á því sem er að gerast þarna til að vera með því eða á móti.  Allavega var Kristjanía nokkurskonar afkvæmi hippismans, fallegar hugsjónir sem því miður margar hurfu upp í reyk, í orðsins örgustu.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með hver örlög fríríkisins verða.


mbl.is Framtíð Kristjaníu óviss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðakstur og ölvun....

69

...skýra meirihluta banaslysa á síðasta ári en þau voru 31 talsins.  Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.  Mér finnst þetta hroðalegar staðreyndir.  Hraðakstur og ölvun aðal orsakavaldar! Yngstu ökumennirnir eru valdir að flestum slysanna.  Banaslys í umferðinni hafa ekki verið svona mörg síðan 1977.  Þegar svona staðreyndir liggja fyrir verður þá ekki að fara að taka á vandamálinu?

Í Svíþjóð þar sem ég bjó lengi var undantekningarlaust fangelsisdómur sem fylgdi því að keyra fullur.  Þannig var það bara.  Ég fullyrði að þetta hafði mikinn fælingarmátt.  Einu sinni reyndi þekktur sjónvarpsmaður þar í landi að fá undanþágu frá fangelsisvist með því að framvísa vottorði frá lækni sem fullyrti að maðurinn væri með innilokunarkennd og þunglyndi og gæti því ekki setið inni.  Á þetta var ekki hlustað.  Maðurinn hafði keyrt drukkinn og inn skyldi hann.

Spurningin er hvort færa eigi bílprófsaldur upp um einhver ár.  Ég held að það myndi breyta töluverðu.  Hraðaksturinn er oft mikill hjá ungum ökumönnum og hann er annar meginþátturinn í banaslysum í umferðinni s.l. ár.

Ég varpa þessu svona fram.  Það er ekki endalaust hægt að horfa á masandi og mjálmandi meðan fjöldi fólks lætur lífið í umferðinni.  Sárt að það skuli oft vera vegna þessara alvarlegu brota sem væri hægt að koma í veg fyrir með aðgerðum.

Hvað finnst ykkur bloggvinir góðir?

 


VESALINGS STARHAGI

97

Ég er ein af þeim sem skrifuðu undir mótmæli gegn opnun Háspennu í Mjóddinni.  Nú er það mál úr sögunni og þökk fyrir það.  Nú á að koma þessu "fyrirtæki" sem blómstrar á annara harmi þe hefur tekjur af spilafíklum að stórum hluta, fyrir á Starhaga. Borgarfulltrúar Samfylkingar og VG lögðu í dag fram bókun á fundi borgarráðs þar sem það er átalið að láta Háspennu eftir dýrmæta byggingarlóð við Starhaga.  Nú get ég ekki séð að nokkurt íbúðahverfi kæri sig um þessa starfsemi.  Hreint óskaplega gætum við verið án svona spilasala.  Nú spilar fólk á netinu líka og lendir þar í alls konar vandræðum.  Er það ekki nóg?  Mér finnst eitthvað svo sjúklegt við að líknarfélög hafi hag af spilakössum.  Mér finnst það í raun absúrt.

Spilafíkn mun vera hryllilegur sjúkdómur.  Hún snertir alla fjölskyldu fíkilsins með ófyrirsjáanlegum afleiðingum (sjálfsvíg ekki óalgeng).  Það má vera að það teljist til frelsis að fólk fái að spila rassinn úr buxunum.  Það er þá frelsi sem ég kæri mig ekki um.


mbl.is Gagnrýna að Háspenna fái lóð við Starhaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AF HÚS-LÆKNI

655

Nú er komið að því.  Í kvöld kemur Hús-læknir í heimsókn.  Flest allar konur sem ég þekki geta ekki vatni haldið vegna löðrandi kynþokka þessa manns.  Hann er haltur, fúlskeggjaður, viðskotaillur við samstarfsfólk sem og sjúklinga, lýgur, lætur brjótast inn til fólks og er almennt til ama og leiðinda.  Sjálf missi ég helst ekki af lækninum, þó kynþokki hans þvælist ekki mikið fyrir mér, finnst attitjúdið agjört törnoff.  En þessi læknir sem engu eirir hefur slegið í gegn hjá konum.

"The bad boy syndrome"

Það er rannsóknarefni í sjálfu sér hvers vegna konur laðast að kúkalöbbum.  Þetta er alþekkt.  Því andstyggilegri sem þeir eru þess meira spennandi.  Undarlegur ári.  Glæsilegasta mannflak í heimi, þe. Keith Richards virkar eins og segull þegar kemur að kvenfólki, líka áður en hann átti cent inni á banka og þegar hann var tannlaus af heróínneyslu.  Hm... 

Björgunarheilkennið

Þessi dularfulla löngun sumra kvenna til að elska vonda menn hefur verið útskýrt með þörf þeirra til að bjarga viðkomandi, ala hann upp að nýju og gera hann að góðmenni.  Það tekst víst sjaldan en oft er haldið áfram að reyna alveg þangað til að kona rankar við sér og sjá.. æfin er að renna sitt skeið á enda.  Það ku vera eitthvað svo spennandi við svona ónkyttastráka segir sagan, svo mörg verkefni sem bíða úrlausnar, rosalega mikið að takast á við.

En kannski er þetta bara enn ein mýtan.  Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það.  Ég veit bara með fullri vissu að margar konur, heill hópur af þeim munu sitja límdar fyrir framan sjónvarpið í kvöld og horfa á Dr. House haltra um ganga, móðga gesti og gangandi á báða bóga, ljúga, svíkja og pretta til að komast fyrir mein hjá dularfullum sjúklingum sem segja ekki satt til um sjúkrasöguna.  Allt af því að hann er svo fjandi góður læknir.

 


INNAN HEIMILIS

mk

Nú gerist ég "domestic".  Maysan og Oliver koma loksins í dag újeújeúje.  Löng bið á enda og allir að tryllast úr gleði.

Amma Brynja ætlar að ná í þau á flugvöllinn og svo er að bíða fallega eftir að þau birtist.  Nú er bara að vona að vondir vírusar og bakteríur haldi sér frá dóttur minni og barnabarni þessar mínútur áður en þau leggja í hann frá London. Vér biðjumW00t.


JAKOB FRÍMANN, MISSTI ÉG AF EINHVERJU???

Jæja þá er Íslandshreyfingin að verða að veruleika.  Ómar og Margrét hafa boðað til blaðammanfundar vegna framboðsins, í dag ásamt Jakob F. Magnússyni og Ósk Vilhjálmsdóttur.  Síðastu upplýsingar sem ég hafði voru að Jakob yrði ekki með.  Hm.. fylgist ég ekki nógu vel með?

Það verður spennandi að sjá stefnumálin en Íslandshreyfingin - lifandi land ætlar að bjóða fram í öllum kjördæmum.


mbl.is Kynna framboð Íslandshreyfingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

UNGLINGSSTELPUR

26

Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarið af hverju ég sé ekki með þessa venjulegu "heimurversnandifer" skoðun á unglingum eins og mér skilst að sé náttúrulögmál þegar maður hefur fjarlægst sjálfa sig á táningsaldri næganlega mikið.  Tilfinningin er ekki til staðar og mér finnst unglingsstelpur, sem ég þekki betur til en stáka á þessum aldri, vera betri ef eitthvað er, stilltari, meðvitaðri og rólegri en við vorum hérna í denn.  Auðvitað eru þær í hóp, flissandi og hvíslandi en þær virðast vera vissari um hvað þær vilja og hvert þær stefna. Ég er náttúrulega bara að tala um þann hóp sem ég þekki vel til.

Ég var unglingur í bítlaæðinu.  Áður en það brast á voru ekki til unglingar, það voru til smástelpur sem síðan stökkbreyttust í kerlingar, með slæður, í nælonsokkum svakalega líkar mæðrum sínum og það var ekkert unglingalegt við þær.  Við bítlastelpukynslóðin, við gerðum uppreisn.  Hárið var ofan í augu, maskarinn "House of Westmore" var aldrei skilinn eftir heima og varirnar voru málaðar með hvítum sanseruðum varalit eða zinkpasta.  Við vorum í útvíðum buxum sem flöksuðust um allt, í leðurjökkum og vorum ógnvænlega flottar að okkur sjálfum fannst.  Ekki máttum við mála okkur heima, þar sem fjölskyldan var í losti yfir breytingunni sem hafði orðið á "barninu" þannig að við máluðum okkur í Njálsgötu-Gunnarsbraut-strætó... án spegils.

Við fórum í Æskulýðsráðið á Opið Hús og dingluðum augnahárunum og gerðum okkur smá til við bítlastrákana.  Það hét reyndar að vera á föstu, að haldast í hendur við einhvern gæja.  Ég náði að vera á föstu með einum í þrjár vikur og halda í hendina á honum og hann sagði hæ.. og bæ.. og ekkert meira, en það var eitthvað svo mikil útgeislun frá honum þegar hann sagði þau og KRAFTUR.  Eftir þriggja vikna handahangs sagði ég viðkomandi upp, ég var ekki svona saklaus.

Við gerðum allskonar af okkur.  Stálumst í borð í Akraborgina og héldum upp á Skaga, skruppum upp í bæ og sjá.... við misstum af bátnum.  Engin ferð í bæinn fyrr en daginn eftir og við trylltumst úr gleði (en ég vældi smá því ég vissi hvað biði mín, straff í amk. viku), foreldrar mínir brjáluðust á sinn rólega og yfirvegaða hátt en gátu ekkert gert, á þessum tíma var meiriháttar mál að fara upp á Skaga.  Við skemmtum okkur konunglega og enn í dag má ég ekki heyra Mr. tambourine man án þess að tárast úr gleði.

Við lugum því vinkonurnar að við ætluðum á skíði og vera eina nótt í KR-skála.  Ferðinni var heitið í Stapann og skv. foreldrum okkar þá voru bara kanamellur í Stapanum (landafræðikunnátta foreldranna ekki alveg að gera sig).  Við héldum því með útigallana og vel nestaðar (svið og sollis) í Keflavíkurrútuna og djömmuðum kröftuglega en áttum í vandræðum með skíðanestið og plebbafötin svona "geymsluwise". Daginn eftir klipum við okkur í kinnarnar til að sýnast útiteknar.  Þetta er í eina skiptið sem svona lygaplott heppnaðist.  Það var svo mikil spenna fólgin í öllum þessum undirbúningi, sektarkennd auðvitað líka en við urðum sérfræðingar í að ná okkar fram.

Við vorum of ungar í Glaumbæ, við komumst að því að með því að mæta kl. 20.00 var okkur hleypt inn og við létum fara lítið fyrir okkur upp á efstu hæð þar til að húsið fylltist um kl. 23,00Blush

Iss ég verð að stoppa núna.  Sögurnar eru óteljandi.  Þetta verður RITRÖÐ.  Nóg sagt í bili og ef að þú pabbi slysast hér inn, þá máttu vita að mér finnst þetta mjög leiðinlegt. Hm... fyrirgefðu og ekki segja mömmu.

778


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 2985887

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.