Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Aumkunarverðasta starfið á Íslandi í dag?

 ásgeir friðgeirsson

Enn ein fréttin um að það sé verið að skoða lánveitingar hjá Landsbanka sem orka tvímælis.

Gott mál.

En í hvert skipti sem eitthvað kemur upp sem varðar Landsbankamafíuna, og allir vita að það er æði oft, kemur Ásgeir nokkur Friðgeirsson og reynir að plástra yfir og slétta úr fyrir feðgana Björgólfs.

Ásgeir Friðgeirsson er talsmaður Björgólfsfeðga.

Þvílíkt starf, Ésús minn á fjallinu.

Alveg er ég viss um að Ásgeiri hefur fundist hann heldur betur hafa dottið í lukkupottinn þegar hann var ráðinn á meðan allt lék í lyndi.

Getur varla hafa verið nema létt verk og löðurmannlegt að skrifa fréttatilkynningar um landvinninga fjármálaséníanna sem hann vann fyrir þegar litið var á útrásarfrömuðina sem undrabörn.

Þegar Björgólfur eldri gekk uppstrílaður um Austurstrætið og tók gangandi vegfarendur tali eins og kóngur sem heiðrar þegna sína með nærveru sinni.

Á þeim tímum sem fréttatilkynningar um peningasigra útrásarbarónanna voru afhentir fréttamiðlunum og þeir síðan birtu sem heilagan sannleika gagnrýnilaust.

Já, þá hefur Ásgeir Friðgeirsson haft með höndum eitt eftirsóknarverðasta starf á landinu.

En núna, en núna.

Ég skal ekki segja.

Ég veit nefnilega ekki hvort ég á að fyrirlíta manninn eða aumka hann þegar hann hleypur til í hvert skipti sem nýjar fréttir berast af Landsbankaspillingunni í gróðæris og reynir af veikum mætti að réttlæta gjörðir húsbænda sinna.

Áts, hvað hann er í lítið eftirsóknarverðu starfi.

Cry me a river.


mbl.is Skoða lánveitingar Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausn er fundin á Icesave - Strákarnir reknir heim!

 tepartí

Ég held að ég sé búin að leysa Icesave deiluna.

Nei, ég veit að ég er búin að leysa hana fái ég mínu framgengt.

Þessi lausn kom til mín þar sem ég sat í auðmýkt minni og lítillæti hér í stofusófanum á kærleiks.

landsbankahösslararnir

Málið er einfalt.  Karlar eiga ekki að díla um svona mál.

Þeir eru alltaf í landvinningum mennirnir.  Uppblásnir af eigin mikilfengleika.

Vilja vinna stóra sigra og sjást þá ekki fyrir.

Karlmenn eru glataðir í viðskiptum.

Við hóum saman venjulegum konum úr þeim löndum sem að Icesave-málinu koma.

Bretlandi, Hollandi og Íslandi.

Konur sem hafa þurft að reka heimili og sjá börnum sínum farborða af þeim peningum sem koma inn í heimilisreksturinn.

Við sýnum samkennd, viljum ekki leggja of þungar byrðar á hvor aðra.

Við leysum þetta á einum eftirmiðdegi yfir kaffibolla.

Og ég lofa að við stelpurnar komum til með að sættast á niðurstöðu sem allir geta lifað við.

Mér leiðist að segja það - en Icesave er einfaldlega ekki karlmannsverk.

Strákar!

Þið steinþegið á meðan.  Hafið gert nóg nú þegar.

Capiss?

P.s. Og Darling þetta með þögnina á við um þig líka.


mbl.is Darling varar við vaxtaokri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fresta, frysta, bíða og hika, doka og draga.

Ég er orðin dauðþreytt á að fylgjast með þjóðmálunum.

Af því að ég verð bara ruglaðri en ég er fyrir vikið og er ekki á það bætandi get ég sagt ykkur.

Nú kemur Jón Bjarna og segist vilja fresta aðildarviðræðum við Evrópusambandið í ljósi beinna og óbeinna hótana Hollendinga, Breta og annarra aðildarríkja í garð Íslendinga.

Hluti af mér krullaðist upp.  Fresta, frysta, bíða og hika, doka og draga.

Það er þetta sem er að fara í taugarnar á mér við stjórnarandstöðuna, eilíf frestunarárátta fyrir allan peninginn.

En hluti af mér er hjartanlega sammála.

Ein kunningjakona mín segist vilja slíta stjórnmálasambandi við kúgunarþjóðirnar.

Og fleiri sem ég þekki eru á þessari skoðun.

Ég er að hluta til sammála því líka.

Það stendur einhvers staðar að lendir þú í vandræðum fáir þú tækifæri til að þekkja vini þína.

En annars staðar stendur líka að vinskap skilji við peninga.

Mig langar ekki til að fara á hnén og láta undan kúgunum.

En líf í bið er óþolandi spennuvaldur.

Svei mér þá hvað það er vont að geta ekki bara verið eins og trúarnöttari sem er búinn að finna hinn eina sannleika og leit þar með lokið.

Sjitt.


mbl.is Vill fresta umsóknarferli ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinir mínir Eðjótur og Eymingi

Í dag vantaði mig bæði kaffi og kaffipoka.  Hafði gleymt að kaupa og búðin lokuð.

Ég bað nágranna minn hann Eðjót Hálfvitason um að lána mér kaffi.

Eðjótur sagði það sjálfsagt, hreint æstur í að redda mér um sopann en fyrst vildi hann að ég færi og fengi lánaðan kaffipoka hjá Eymingja nágranna okkar á efri hæðinni.

Aðeins þá færðu kaffið sem ég er samt alveg æstur í að lána þér og er hér tilbúið í poka.  Sjáðu! (Hann dinglar fjandans kaffinu fyrir framan glyrnurnar á mér).

Ég rýk til Eymingja á efri og bið hann að lána mér pokann.

Eymingi er game og alveg meira en til í að lána mér kaffipoka, jafnvel fleiri en einn.

En ekki fyrr en nágranni okkar beggja er búinn að afhenda mér kaffið.

Ég er enn að hlaupa á milli Eðjóts og Eymingja og er eiginlega komin á þá skoðun að ég hætti bara að drekka kaffi og biðji þessa fyrrum vini mína að troða drykk og meððí upp í sinn óeðla enda.

Þetta er leikurinn sem AGS og Norðurlöndin eru að leika við okkur Íslendinga þessa dagana.

Catch 22.

Atli Gísla vill að AGS leggi spilin á borðið.

Það vil ég líka.

Svo er mér skapi næst að segja þessum "vinum" okkar að hirða sína peninga þ.e. ef kjánaskapnum fer ekki að linna svona sirka nú þegar.

Sko það er með lánin eins og kaffið.

Hvern langar í þau á slíkum afarkostum?

Svo var mér að detta í hug svona í förbífarten hvort það sé ekki beisíklí auðveldara að flytja inn loftslag frá Brasilíu og hefja hér kaffirækt.

Svei mér þá, leikur einn miðað við þetta fyrirkomulag.

ARG.


mbl.is Vill að AGS leggi spilin á borðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grískir harmleikir á hverjum degi

Það er þetta með flutninga fólks til útlanda.

Ég get ekki séð það sem neikvæðan hlut að minnsta kosti ekki að öllu leyti.

Það er talað um atgervisflótta.

Að svo margir stökkvi á brott að eftir verði gamalmenni og aðrir bótaþegar.

Þjóðarsálin er að verða aðeins of dramatísk fyrir minn smekk.

Þrýstingur verður að einelti.

Flutningur ungs fólks til útlanda (oftast tímabundið) verður að atgervisflótta og stórkostlegri fækkun íslensku þjóðarinnar.

Maður rífur hús og þingmaður hendist á staðinn og vafrar um allt í dramakasti með trékubb úr rústunum.  Blóðbunan aftur úr viðkomandi.

Svo kemur í ljós að  niðurrifsmaðurinn er bara ekki skömminni skárri en þeir sem hann er að beita sér gegn.

Róið ykkur gott fólk.

Við búum á eyju.

Ekkert eðlilegt en að ungt fólk flytji úr landi og víkki sjóndeildarhringinn.

Flest komum við aftur.

Er ekki ástandið alveg nógu slæmt þó það sé ekki hlaupið upp til handa og fóta og heilu grísku harmleikirnir gerðir úr öllum sköpuðum hlutum.

Gangi fólkinu vel í Noregi.

Þetta er eins og að flytja á milli sveita.

Ekkert stórmál.

Kommon.


mbl.is Hundruð flytjast til Noregs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn risavaxni ránsfengur

Ókei, Breska heimsveldið farið að skrifa um reiði Íslendinga.

Langar í þeim leiðslurnar en ég held svona persónulega að ég muni seint fyrirgefa hryðjuverkalöggjöfina.

Ekki að það skipti einu einasta máli hvað mér finnst, er bara sandkorn í eyðimörkinni.

Ég held samt að það sé ekki einn einasti Íslendingur sem ekki sýður á vegna svínslegrar framkomu Browns og Darling.

Málið er að eins og Einar Már segir í þessu viðtali við Bretana, þá held ég að fáir ef nokkrir á meðal almennings hafi vitað um tilvist Icesave, þessa risavaxna ránfengs sem við erum nú að kljást við og er að kljúfa þjóðina í herðar niður.

Fasistataktar Bretanna í þessu máli eru ófyrirgefanlegir.

Og enn réttlæta þeir gjörðir sínar.

Svo er það önnur saga og skelfilegri að enn bætast við óvissuþættir í Icesave málinu.

Ég veit svei mér ekki hvað ég á að halda lengur.

Hafi ég nokkurn tímann vitað það.

Úff.

 


mbl.is Fjallað um reiði Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttaáróðursmeistarar af guðs náð

Birgitta Jónsdóttir talar um að í áliti meirihluta utanríkismálanefndar í Icesave málinu sé óttaáróður þess efnis að ef ekki verði gengist við Icesave-samningnum hafi íslenskt efnahagslíf verra af.

Ég held að það sé ekki óttaáróður.  Ég held að það sé raunsætt mat.  Við verðum ekki látin komast upp með að neita ábyrgð á uppáskrift íslenskra stjórnvalda á hegðun Landsbankaglæpamannanna.

Þar fyrir utan þá brosi ég með sjálfri mér (full umburðarlyndis, jájá) þegar þingkonan talar um óttaáróður.

Þar hittir skrattinn ömmu sína.

Heilagri þrenningu Borgarahreyfingarinnar tókst nærri því að hræða úr mér líftóruna með stöðugum óttaáróðri sínum um eitruð leyndarmál þessa samnings.

Eins og samningurinn sé ekki alveg nógu skeflilegur í sjálfu sér.

En nú er þess víst stutt að bíða þar til þau gera grein fyrir leyndóinu.  Vika sagði einhver í fjölmiðlum.

Það er heldur ekki langt síðan að Þór Saari stóð í ræðustól Alþingis og talaði um að fólk myndi deyja, svelta og guð má vita hvaða hörmungum hann lofaði í umræðum um kreppuna og það var þá sem ég kveikti á að þarna var kominn óttaáróðursmeistari Alþingis númeró únó.

Hvað um það ég bíð eftir umræðum um Icesave í þinginu á morgun, með öndina í hálsinum offkors og það ekki af tilhlökkun.

Gott er það ekki.  Það er óhætt að segja.

Hvað sem manni annars finnst um hvaða leiðir eigi að fara.


mbl.is Óttaslegin utanríkismálanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bullandi pólitískt Icesave

Það lyktaði allt af brenndu gúmmíi þegar ég vaknaði í morgun.

Mér datt helst í hug að einhver væri að brenna dekk í nágrenninu eða alveg þangað til að það rann upp fyrir mér að heilinn á mér væri að gefa sig vegna þráhyggjuhugsana minna um Icesave.

Auðvitað eigum við ekkert að láta kúga okkur...

En..

Ég reyni að einfalda hlutina fyrir mér þegar ég þarf að komast til botns í einhverju máli.

Sko, þegar fólk skrifar upp á lán fyrir aðra og þarf að borga þá fylgir því rosalega mikil reiði og frústrasjón.

Við vitum að við ábyrgðumst greiðslu en reiknuðum hins vegar aldrei með því að þurfa að borga krónu.

Sama með Icesave.

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn skrifuðu upp á fyrir útrásarvíkingana í umboði þjóðarinnar en þeim láðist auðvitað að spyrja okkur hvort við værum game.  (Reyndar fóru þeir líka í stríð fyrir okkar hönd og létu hjá líðast að bera það undir okkur enda almenningur aldrei verið neitt nema atkvæði í þeirra augum).

Nú hafa útrásarvíkingarnir stungið af frá skuldinni og eftir sitja ábyrgðarmennirnir með sárt ennið.

Við þurfum að borga.

Svo eru lögfræðingarnir saga út af fyrir sig.

Það má sennilega skilgreina Icesave eingöngu út frá lögfræðilegu sjónarmiði og leiða líkum að því að við gætum sloppið við að borga.

En það eitt og sér segir ekki alla söguna.

Málið er nefnilega bullandi pólitískt.

Það væri frábært að geta með lögfræðilegum rökum komist hjá því að borga krónu og senda almenningi í þessum löndum fingurinn.

En þá erum við að gera það sama og útrásarræningjarnir sem skrifa eignir sínar á vini og vandamenn og senda OKKUR íslenskum almenningi fokkmerkið.

Ég vil að við skrifum undir Icesave með fyrirvara.

Við látum það koma skýrt í ljós að þetta sé nauðungarsamningur sem við höfum verið neydd til að skrifa undir.

Svo tökum við málið upp aftur.

Þegar helvítis stjórnvöld í þessum löndum hafa jafnað sig á móðursýkiskastinu.

Eða?

Svei mér þá ef ég veit það.

P.s. Svo eitt að lokum.  Þessar upphrópanir um að Steingrímu J. sé að undirgangast þessa samninga til að halda völdum eru svo ósanngjarnar sem frekast má vera.

Það er ekki vænlegt til pólitísks langlífis að taka að sér fjármálaráðuneyti á þessum skelfilegasta tíma í íslenskri efnahagssögu.

Hugsa!


mbl.is Ögmundur: Hugsum um þjóðarhag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ímyndaðar og raunverulegar hótanir

Ég verð að játa að ég er orðin leið á hótunum.

Bæði þessum í hausnum á fólki, sko ímynduðum hótunum.

Og svo svona alvöru.

Ég finn svo sannarlega til með hverri einni og einustu manneskju sem hefur tapað peningunum sínum á þessum Landsbankaglæpamönnum og það án tillits til þjóðernis.

Almenningur í Hollandi, Englandi og annarsstaðar, stendur mér jafn nærri hjarta og íslenskur pöpull, hverjum ég tilheyri.

En ég næ ekki upp í nefið á mér yfir þessum hótunum sem Össur hefur fengið símleiðis frá Verhagen lufsunni.

Snæði hann innyfli og lúti í gras.

Nei, ekki mjög málefnalegt en mikið ofboðslega er ég þreytt á yfirgangi.

Ergo: Venjulega fólkið, almenningur á að standa saman.

Svo mikið veit ég.

Og fari Brown, Darling, Verhagen og Páll páfi þess vegna, í fúlan pytt.

Súmí.


mbl.is Þrýst á Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guði sé lof fyrir lítil vandamál

 kókkassi

Hvað er það við Kók (akóla) sem gerir það að verkum að fólk ánetjast því?

Ég er ein af kókfíklunum, reyndar sykurskerts, en ég fæ beinlínis fráhvarfseinkenni fái ég ekki minn daglega skammt.

Ég skil þetta ekki.

Það er ekki eins og það sé pólitískt korrekt að þamba þennan svarta drykk sem enginn þekkir uppskriftina að.

Á tímum mikils áróðurs til að fá okkur til að lifa heilbrigðu lífi er það beinlínis hjólhýsapakkslegt að vera í kókinu.

Strax á unglingsárunum var ég búin að koma mér upp þróuðum kóksmekk.

Lítil kók, úr kælikassa, með glærum stöfum í grænleitri flösku var málið.

Það vissi hvert barn að stór kók, með hvítum stöfum og í bláleitu gleri var ódrekkandi viðbjóður.

Kókið var drukkið með Krummalakkrísröri á góðum degi þegar vasapeningarnir voru vel úti látnir.

Nú er kókheimurinn ekki svipur hjá sjón offkors.

Plast, sykurskerðing og aldrei nógu kalt er beisíklí málið í dag.

Heimur versnandi fer.

En vitið þið hvað?

Ég verð beinlínis ljóðræn í hugsun, verð væmin og voteygð þegar ég rekst á fallegt grænmeti í búðum.

Í gær, guð hjálpi mér, sá ég fallegan lauk.

Ha?  Það gerist ekki oft.

Laukurinn lá þarna, sléttur og fínn, óflagnaður og fagurskapaður.

Ég keypti fullan poka.

Svo í kvöld þegar ég skar í salatið og opnaði þennan dásamlega lauk þá var hann rotinn að innan.

Svei mér ef þetta er ekki kreppan.

Kókið ódrekkandi og grænmetið villir á sér heimildir.

Sjitt engu er að treysta lengur á Íslandi í dag.

En guði sé lof fyrir lítil vandamál.


mbl.is Staða Coca-Cola styrkist á nýmörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.