Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Ég vil byltingu

Ég og stórfjölskyldan erum komin með garð rétt fyrir utan bæinn.

Þar sem ég er stórneytandi fersks grænmetis þá þýðir ekkert annað en að ástunda sjálfsþurftarbúskap.

Það gerðu drykkjuglaðir vinir mínir í denn.  Þeir opnuðu bar.  Frábært og skemmtilegt og ég og fleiri nutum góðs af.

En þessar aðgerðir eru ekki nægjanlegar nú þegar matarverð hefur hækkað um lítil 25% á einu ári.

Ég ætla að fá mér veiðistöng.

Minn elskulegi verður skikkaður í byssubúð og það strax á morgun.

Mig má sjá praktísera veiðiþjófnað í sumar við einhverja á, og ég veit að það munu ekki brjótast út fagnaðarlæti hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur þegar ég fer að hala inn stóra laxa í matinn.  Döh.. enda geta félög ekki glaðst, bara þeir sem eru meðlimir og þokkalegir í skapi.

Svo mun ég senda húsband með skotvopn í skjóli sumarnætur til að salla niður lömb.

Búmmmmmmmmmmmmmmmm pang.

Löggan getur komið og handtekið mig strax.

Því þrátt fyrir að ég hafi ekki enn kastað línu í vatn og húsband hafi ekki enn hleypt af einu skoti þá er það minn einbeitti og forstokkaði brotavilji sem gerir mig bullandi seka.

Málið er að ég er komin með upp í kok af því að þurfa súpa seyðið af græðgi annarra.

Í boði Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Það sem fór með það var lúxuskerlingaferðin (eiginkonur "útrásarvíkinganna) til Oman um helgina, (þær kalla félagsskap sinn Kampavínsklúbbinn), ásamt þessari frétt sem ég tengi við.

Í Oman lágu þessar siðlausu kerlingarbreddur og veltu sér upp úr lúxus eins og  engin væri samviskan enda virðast þær hafa skilið hana eftir heima, þ.e. ef þær hafa þá nokkurn tímann haft hana.

Á meðan berjumst við upp á líf og dauða, almenningur á Íslandi.

Vitið þið, ég held ég vilji byltingu.

Einhver með?


mbl.is Matarverð hefur hækkað um 25%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er glæsilega hagsýn - engin eyðslugredda hér

Einkaneyslan mátti dragast aðeins saman.

Ég held að hún hafi einkenst af aaaaaðeins of mikilli eyðslugreddu.

Við munum eftir gámunum hjá Sorpu í góðærinu.

Fullir af flottum nánast ónotuðum hlutum.

Ég er í samdrætti á einkaneyslu, þó ég hafi svo sem ekki marga liði í mínu prógrammi að draga saman á.

Er orðin svo fjandi hagsýn.

Reyndar átti mitt 2007 sér staðar í Hagkaupum, hvar ég verslaði flott hráefni.

Svo var ég gjörn á að henda grimmt í ruslið hinu og þessu.

En það var áður en kreppan skall á og áður en ég las að maður skyldi aldrei fara að kaupa í matinn svangur.

Þá kaupir maður einfaldlega allt sem maður gæti hugsað sér að slafra í sig.

Nú les ég strimla, geymi þá, er búin að læra að kíkja á kílóverð og svona.

Svei mér þá, hver hefði trúað þessu.

Ég fæ eitthvað perrakikk út úr því að spara í innkaupunum.

Sko án þess að það komi niður á gæðum þess sem ég kaupi.

Nú er ég hætt áður en ég fer í sleik við spegilmynd mína og bið hana um að giftast mér.

Kem að vörmu.


mbl.is Enn dregst einkaneysla saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég ætla að vera hundleiðinleg

Ég ætla að vera leiðinleg.  Hundleiðinleg.

Af hverju?

Takk fyrir að spyrja.

Af því að mig langar til þess.

Tónlistarhúsið er 2007.

Ég get ekki horft á þennan kumbalda án þess að fá kjánahroll.

Lengi hef ég ekki náð upp í nefið á mér af hneykslan vegna þess að við höfum ekki átt tónlistarhús.

En þetta minnismerki um mikilmennskubrjálæði og hroka sem óskapnaðurinn á bakkanum er,  er ekki það sem ég sá fyrir mér.

Ég legg til að þetta hús verði innréttað sem fangelsi fyrir hvítflibbakrimmana sem væntanlega verða látnir standa skil á gjörðum sínum.

Þeir geta þá horft út á Faxaflóa.

Pirrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr


mbl.is Tónlistarhús 650 millj dýrara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsal ráðherralauna

Ef heimurinn væri réttlátur, allir leituðust við að gera það sem rétt er og ef samviskan væri nokkurs konar öryggis- (og þjófavarna)kerfi sem léti ófriðlega í hvert skipti sem við gerum eitthvað gegn betri vitund, væri gaman að lifa.

Því miður er heimurinn ekki þannig en það eru til jákvæðar undantekningar á þessu og ég held að þeim eigi eftir að fjölga.

Ögmundur Jónasson afþakkaði ráðherralaun og lætur sér nægja þingfararkaup og hefur gert frá því að hann varð heilbrigðisráðherra, svo ég taki nýlegt dæmi.

Nú er ég að vona, kannski vegna þess að stundum þegar sólin skín trúi ég nánast bara á það góða, að þessir ráðherrar sem eru á bullandi ráðherralaunum en eru ekki í embætti lengur, afsali sér þessum peningum.

Margir þessara fyrrverandi ráðherra eru nú þingmenn og mánaðarlaun þeirra eru ágæt miðað við efnahagsástand og ört vaxandi fátækt meðal almennings.

Eigum við ekki að deila með okkur kjörunum?

Jeræt, Sjálfstæðisflokkurinn er auðvitað ekki á því, en kannski, maður veit aldrei.

Áttun getur hafa átt sér stað síðan ég heyrði í þeim síðast.

Bíðum og sjáum.

Kannski


mbl.is 22 á ráðherralaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þreytt á AGS

Ég veit ekki með ykkur en ég er orðin ansi þreytt á valdhafanum bak við tjöldin, þ.e. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Hann virðist hafa síðasta orðið um peningamálastefnuna í landinu.

Þingmenn VG gagnrýndu það harkalega þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sóttu um aðstoð frá þessum illa þokkaða sjóð.

Það lá við að þeir væru hengdir í hæsta tré fyrir að sjá ekki ljósið.

Nánast hver einasti erlendur sérfræðingur sem hefur tjáð sig um AGS eftir hrunið hefur á honum illan bifur.

Þetta er nú meiri verkunin.

Ég hef á tilfinningunni að sjálfstæði Íslands sé aðeins í orði núorðið.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ræður.

Honum er að minnsta kosti alltaf hlýtt.


mbl.is Seðlabankinn í klemmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðislega leiðin

Ég er algjörlega búin að fá mig fullsadda af hinu króníska vandamáli sem umræða um ESB virðist leiða okkur í.

Ég hef sagt það áður og ég segi það enn, ég veit ekkert hvort ég er með eða á móti inngöngu.

Enda hvernig á það að vera hægt?

Þetta eru allt spekúlasjónir og ekkert annað.

Nú vil ég að við sækjum um aðild svo það verði annað en innantóm umræða um kosti og galla sem stendur í vegi fyrir öðrum og mikilvægari málum.

VG hefur lýst því yfir að þeir vilji að þjóðin fái að ráða þessu.

Leyfum okkur þá að fá eitthvað bitastætt svp við getum gert upp hug okkar.

Getum stuðst við staðreyndir í stað endalausra yfirlýsinga um hvað er slæmt og hvað er gott.

En getur verið að Sjálfstæðisflokkurinn hoppi í skotgrafirnar og tali málið frá afgreiðslu eins og þeir gerðu við stjórnarskrárbreytingamálið, illu heilli?

EDB er orðið eins og æxli í þjóðarsálinni.

Eina leiðin til að fá skikk á málið er að sækja um, fá umræðuna og taka síðan afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er lýðræðisleg leið.

Förum hana.


mbl.is „Kanna hvort einhverjir fletir séu til samstöðu"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki aftur 2007

Sérfræðingar hjá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins segja að mögulega sé það versta í íslensku efnahagslífi afstaðið.

What?

Getur það verið?

Fara þá allir í 2007 gírinn og hefja sukklifnaðinn upp á nýtt?

Segi svona.

Ég er auðvitað glöð yfir þessu ef rétt reynist en mér finnst þetta samt svo ótrúlegt eitthvað.

Reyndar vil ég ekki fyrir nokkurn mun sjá neitt 2007 aftur.

Ég er sátt við 2009, að undanskildu efnahagsástandinu.

Fólk er að breytast til batnaðar, ég sver það,kreppan hefur þó komið því til leiðar að við forgangsröðum öðruvísi.

Hugsunarhátturinn er annar, fólk hugar meira hvert að öðru. 

Það er gott.

Og saman komum við þessu í höfn með nýrri vinstri stjórn.

Besta mögulega leiðin til að fremja stórvirki er að allir leggist á eitt.

Það las ég að minnsta kosti einhvers staðar.

Held að það sé dagsatt, svei mér þá.


mbl.is Það versta mögulega afstaðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilum "Sleifarlagið" fyrir Bretana

Ég er glöð með Össur (já, ekki að grínast) og finnst hann standa sig vel í að koma reiði okkar (og frústrasjónum) til skila með ruglið í Brown til réttra aðila.

Svo datt mér í hug hvort við ættum ekki að fara að dusta rykið af búsáhöldunum og halda upp í Breska sendiráð í næstu viku og koma áliti okkar á þessum karlasna til skila.

Það kostar okkur milljónir þegar hann opnar munninn maðurinn.

Já það kostar okkur hátt í sama og þegar Davíð, Geir og fleiri tjáðu sig eins og kjöldregnir galeiðuþrælar á hugbreytandi efnum en ekki alveg þó.

Ég og við eigum ekkert sökótt við breskan almenning, frekar en hann við okkur, það eru stjórnvöld beggja þessara landa sem hafa hagað sér eins og aular ásamt sukkbarónunum auðvitað.

Nú virðist vera að verða breyting þar á.

Össur þarf að minnsta kosti ekki að segja neitt; "Maby I should have" ef hann lendir í þriðju gráðunni seinna meir hjá breskum fjölmiðlamönnum.

Jabb, ég er á því í dag að Össur sé dúllurass.

Eigum við ekki að taka sleifarlagið okkar á þetta í næstu viku bara?

Ha?

Ég sver það, ég held að ég sé í stemmara fyrir það.


mbl.is Ummælum Browns mótmælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undrun Guðríðar

Guðríði Arnardóttur kemur verulega á óvart uppphæðirnar sem Kópavogsbær (lesist Gunnar Birgisson) hefur greitt til fyrirtækis dóttur Gunnars fyrir hin og þessi viðvik.

Ég las um þetta mál í kringum páska í DV en í kosningalátunum virðist fréttin hafa farið meira og minna fram hjá fólki.

Þar komu fram ýmis viðvik fyrirtækis dótturinnar fyrir pabba sinn ég meina Kópavog og eitthvað af þeim verkum voru greidd en höfðu ekki verið unnin.

Ég skil því ekki alveg undrun Guðríðar varðandi þetta mál.

Þar fyrir utan hélt ég að það væri fylgst með gerðum samningum og skilum á þeim af þeim sem stýra bænum.

Gunnar var létt móðgaður og stórlega misboðið þegar DV fjallaði um málið og spurði brostinni röddu (úps óheppilegt orðaval en ég læt það standa): Á að refsa fyrirtækinu af því dóttir mín á það?

En þetta téða fyrirtæki dóttur og tengdasonar virðist vera alveg svakalega hagstætt í verði og viðskiptum.

Annars er ég ekkert að gagnrýna hana Guðríði neitt voðalega en halló, er ekki kominn tími til að henda út spillingu, kunningjareddingum og einvaldsköllum og taka í staðinn upp gagnsæ vinnubrögð?

Svo næ ég ekki upp í nefið á mér yfir þessum kóngi í Kópavogi og vinum hans sem gera það að verkum að fyrir suma er gott að búa í Kópavogi.

Frekar ólekkerar týpur.


mbl.is „Kom verulega á óvart“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kastljósið og heimilin

Ég var að horfa á Kastljósið.

Ég skil ekki hann Gylfa, mér finnst hann algjörlega heillum horfinn eftir að hann varð ráðherra, og mér fannst þetta sérstaklega áberandi núna.

Það breytir ekki því að hann sem ráðherra fer auðvitað ekki að taka undir með fólki að það hætti að standa við skuldbindingar sínar.

En hann er orðinn eitthvað svo mikill.. ja, ráðherra ala íhaldsmódelið.

Mér finnst líka ábyrgðarhluti að hvetja fólk til að greiða ekki af lánunum sínum, hver sem það gerir, en það endar auðvitað með ósköpum fyrir alla, bæði menn og þjóð.

Fyrir utan, að það er skelfilega erfitt andlega að standa í slíku, hvað sem hver segir eða því trúi ég að minnsta kosti.

Ég er svolítið höll undir lögfræðinginn og manninn frá Hagsmunasamtökum heimilana sem komu í Kastljósið, báðir skýrir og frómir menn sem töluðu þannig að það skildist.

En halló, þetta viðtal við mann sem er hættur að borga var kannski ekki hið týpíska neyðardæmi, þó ég sé ekki að gera lítið úr slæmri stöðu mannsins, en hann varð atvinnulaus núna um mánaðarmótin.

Hann hætti að borga í september, hann er enn með tvo bíla.

Ég ætla að leyfa mér að benda á að það er fólk sem er bíllaust, atvinnulaust síðan í hruni og hefur þurft að lifa af lágum atvinnuleysisbótum frá því í haust.

Ég vil heyra frá því fólki.

Enn og aftur tek ég fram að ég er ekki að gera lítið úr neinum, það eru bara enn verri dæmi sem kannski myndu frekar opna augu þeirra sem með fjármál ríkisins fara.

Það er nefnilega svo skelfilegt ástand víða um landið, það má m.a. sjá á auknum tilkynningum til barnaverndarnefnda.

Á hvaða leið erum við eiginlega?

Kastljósið


mbl.is Furða sig á ummælum ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 2987754

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband