Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Að halda í völdin

Frumgerð Framsóknarmannsins birtist í Ómari Stefánssyni í Kópavogi.

Ómar heldur í völdin hvað sem það kostar.

Vílar og dílar þangað til að "rétt" niðurstaða fæst.

Auðvitað á Ómar að víkja eins og Gunnar Birgisson.

Reyndar finnst mér að þeir sem voru í lífeyrissjóðsstjórninni, þar með talinn Samfylkingarmaðurinn, eigi að skipa sjálfum sér í frí á meðan mál sjóðsins eru rannsökuð.

En hvernig læt ég, við erum á Íslandi.

Nánar til tekið í Kópavogi.

Gleymdi því eitt augnablik.


mbl.is Vill að Ómar víki úr bæjarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frá Hruni í leigubíla og viskídrykkju

Ástandið í þjóðmálum er að ná mér.

Ég þessi einstaka, frábæra, geðgóða, jafnlynda, fullkomna, yndislega og ljúfa kona, er ekki nema skugginn af sjálfri mér.

Og hvað gera byltingarsinnar þá?

Jú þeir lesa heilu bækurnar um hrunið.

Fyrst tók ég þessa.

Ég var ekki búin að fá nóg, þegar hér var komið sögu og ég hellti mér út í Hrunið eftir hann Guðna.

Bækur um hrunið og aðdraganda þess eru auðvitað skyldulesning, þó ekki væri nema til að reyna að skilja hvernig við Íslendingar gátum misst allt niður um okkur á meðan við dönsuðum um allt algjörlega ómeðvituð um að hið óumflýjanlega væri að gerast.  Að við værum ekki ósnertanleg og ofurklár, komin með leyniformúluna að velgengninni.

Svo bara hrynur allt í hausinn á okkur.

Lygasögunni líkast að lesa um þennan skelfingarkafla Íslandssögunnar sem enn sér ekki fyrir endann á.

En..

Það er ekki hægt að lesa sér til þunglyndis endalaust.

79 af stöðinni

Svo ég skellti mér í gleðibókmenntir.

Í samanburði við hrunabókmenntirnar auðvitað.

Ég var smástelpa þegar 79 af stöðinni var frumsýnd.

Bönnuð "böddnum" nema hvað, ég var óhuggandi.

Þá náði ég mér í bókina á safninu og las.

Skildi lítið í tvíræðum "á milli línanna lýsinga" á sambandi karls og konu.

Karlinn var nýkominn á mölina, sveitalegur, trúgjarn og saklaus.

Konan í kananum, lausgirt, óheiðarleg og viskídrekkandi.

Nú las ég endurútkomna 79 af stöðinni og hafði gaman að.

Einhver sagði að Indriði væri að herma eftir Hemmingway.

Mér finnst bókin hins vegar séríslensk eftirstríðsbók um átök sveitapiltsins við nútímann í sér.

Þessi bók verður seint talin meistaraverk.

Það er svo krúttlegur byrjendabragur á henni, en hún er skemmtileg heimild um fólkið í borginni þar sem smalagenið, hæðir og hólar heimahaganna þvælast endalaust fyrir nútímavæðingunni.

Lesið, lesið, lesið.

Kreppan líður fljótar.

Það geri ég.

 


mbl.is Einblíni meira á niðurskurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk Björgólfur Thor

Ég er afskaplega þakklát Björgólfi Thor að opinbera líðan sína og ætlanir gagnvart "Icesave-klúðrinu" sem hann kallar hinu "tæru snilld" Sigurjóns Þ. Árnasonar.

Mér finnst gott til þess að vita að hann skuli vera að gera það sama og ég.

Þ.e. að hugsa stöðugt um Icesave.

Ég verð að játa að ég er með þetta mál á heilanum.

Eins og hver kjaftur á þessu landi og í nálægum löndum líka.

Munurinn á mér og Björgólfi Thor er hins vegar sá að hann ER Icesave-klúðrið.

Ég ER hinsvegar þolandi þessa sama klúðurs ásamt fjölda manns í mörgum löndum. 

Til viðbótar komandi kynslóðum.

En takk Björgólfur Thor fyrir að skenkja klúðrinu þanka á skrifstofunni þinni í London.

Svo ég tali nú ekki um frá snekkjupartíum víðsvegar um Evrópu.

Fyrirgefðu að mér skuli ekki vökna um augu af eintómu þakklæti..

..og beygja höfuð í duft.


mbl.is Hugsar daglega um Icesave-klúðrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona er það í Kópavogi

Í Kópavogi gilda aðrar reglur en annars staðar. 

Eða ekki.

Kannski er það virðingarleysi víkinga fyrir lögum og reglum, bæði inn- og útrásar, sem hafa komið okkur á kaldan klaka.

Gunnar í Kópavogi segir að gagnrýni á viðskipti bæjarins við dóttur hans sé skítapólitík.

Hann segir að virt endurskoðunarfyrirtæki vaði í villu þegar það gagnrýnir dótturfélagsfyrirkomulagið.

Gunnari finnst FME eiga að vasast í mikilvægari málum í stað þess að fetta fingur út í þá staðreynd að stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogs, með Gunnar í fararbroddi,  tóku upplýsta ákvörðun um að fara á svig við lög.

Jabb, svona er það í Kópavogi.

Og Flosi, hættu að væla, þú varst með í geiminu.

Frekar ósannfærandi þessar eftiráútskýringar þínar.

Urrrrrrrrrrrrrr


mbl.is Sakar Gunnar um blekkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andhetjan ég með vottorð í leikfimi

Ég mætti ekki til að mótmæla á Austurvelli og er ekki á leiðinni til þess að svo komnu máli.

Af hverju blogga ég um það?

Jú, af því að mér er illa við að láta skamma mig eins og krakka.

Annars mér kærar vinkonur og baráttukonur fara mikinn um massann sem ekki mætir til að mótmæla á Austurvelli.

Munur en fólkið í Íran!  Róleg á samanburðinum.

Kannski kemur fólk ekki vegna þess að það er, líkt og ég, ekki búið að gera upp hug sinn gagnvart Icesave málinu.

Engum er ljúft að borga skuldir stórþjófa og glæpamanna.

Enginn vill vera í þessum sporum sem við stöndum nú í við Íslendingar en raunveruleikinn er samt svona.

Ég bíð eftir að fá alvöru valmöguleika við Icesave samkomulagið.

Aðra en að senda fokkmerkið út í heim og segja að við borgum ekki.

Er dómstólaleiðin fær?

Það eru svo skiptar skoðanir um það að ég veit ekki hvað er rétt og hvað ekki í öllum þeim fræðilegu álitum sem sérfræðingar gefa hægri-vinstri.

Allt þetta er ég að bræða með mér og á meðan sé ég enga ástæðu til að storma niður á Austurvöll og mótmæla.

Það hefur oft staðið mér fyrir þrifum að láta illa að stjórn.

En ég trúi því staðfastlega að maður verði að standa með skoðunum sínum.

Ég vil að fólk viti hvar það hefur mig - alltaf. 

Einkum þeir sem skipta mig máli.

En þetta eru sum sé mínar ástæður fyrir að vera ekki á Austurvelli.

Skrifað af margítrekað gefnu tilefni.

Þetta er mitt vottorð í leikfimi.

Andhetjan.

 


FME: No comment

 WomanThinking

Smá laugardagspæling hérna handa ykkur börnin mín södd og sæl.

Þann dag sem Fjármálaeftirlitið aktjúallí tjáir sig um eitthvað þá vil ég sjá um það frétt.

Það teljast varla fréttir að þeir neiti að tjá sig þessir innvígða leyniklíka.

En..

Ég er á feisbúkk.  Ætlaði aldrei þangað en gerði það samt.

Ég er nefnilega svo ferlega lítið samkvæm sjálfri mér.

Quizzin á feisbúkk voru líka á mínum "aldrei að koma nálægt lista" en samt quizza ég eins og enginn sé morgundagurinn.

Þessar "skoðanakannanir" á feisinu hafa aukið sjálfsþekkingu mína til mikilla muna.

Ég veit núna svo margt um sjálfa mig sem ég vissi ekki áður.

Ég var stríðsmaður í fyrra lífi, ég á að vera rauðhærð, augu mín eru blá þó þau séu brún, ég er afburðagreind samkvæmt einu svona prófi, ekki litblind, mun eignast tvö börn (á þrjú), mun gifta mig aftur eftir 16 ár, er í eðlilegri þyngd, er 67% tæfa, svo kaldhæðin að það á að loka mig inni og ég á að gerast listmálari, þá væntanlega eftir að það er búið að loka mig inni.

Ég er þó með prinsipp á feisinu.  Prinsipp sem verður ekki brotið.

Það er ekki til umræðu einu sinni.

Ég sendi fólki ekki rafrænt konfekt eða bangsa. 

Sendi ekki rafræn blóm og ég safna ekki hjörtum.

Ef sá dagur rennur upp að ég missi mig í rafrænar sendingar til fólks - þá ætla ég að biðja ykkur kæru vinir að keyra mig í vatteraðan klefa og loka mig inni og henda lyklinum.

Og hvað er maður að svara heimskulegum spurningum í "status" um hvað maður sé að hugsa?

Hjarðeðlið allsráðandi og maður svarar samviskusamlega svo allir geta lesið;

Jenný Anna Baldursdóttir er að hugsa um að fremja morð á höfundum feisbúkk.

Omæómæ.

Eins gott að þeir hjá FME eru ekki á feisinu.

Þeir myndu auðvitað setja í status:

FME: No comment.


mbl.is Tjáir sig ekki um vinnubrögð annarra sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert bölvað ekkisens fjallkonukjaftæði

sautjándi júní 55ö56 

Í allri spillingunni og ruglinu sem er að kæfa mig fæ ég smá aulahroll og skömmustutilfinningu yfir svona "fyndni" sem fréttin um timbraða gestinn vekur hjá mér.

Það er ekki við blaðamanninn að sakast, húmorinn minn er orðinn svo svartur síðan í haust að það er ekki um það talandi.

En að öðru.

Ég er ekki mikill þjóðernissinni svona yfirleitt, get ekki haldið því fram að ég hafi verið stolt af því að vera Íslendingur heldur, einfaldlega vegna þess að ég hef ekki afrekað neitt sem gefur mér tilefni til að finna til mín.

Maður fæðist einfaldlega einhvers staðar og ræður engu um það.  

En..

Ég er hins vegar bæði fegin og þakklát yfir að vera Íslendingur. 

Það hefur hingað til falið í sér lágmarkshættu að búa á Íslandi nema auðvitað þegar náttúruöflin hafa farið hamförum.

Á morgun er sautjándinn sem var mikill hátíðisdagur þegar ég var stelpa.

Enda lýðveldið ekki búið að slíta barnsskónum.

Ég man eftir nýjum sportssokkum, hliðartösku, upphlutnum mínum, lyktina af blöðrugasi, pylsum og íspinnum, svo ég ekki tali um kandíflossið í Tívolí.

Það var frítt í strætó.

Fólk gekk um götur bæjarins hnarreist í sínu besta pússi og önnur hver kona á þjóðbúning.

Nú eru allir dagar nánast eins.

Það er búið að hátíðarjafna þannig að munurinn á hátíð og hvunndegi er lítill sem enginn.

En hvað um það.

Hafi ég verið þakklát og glöð með þjóðerni mitt, þá veit ég svei mér ekki hvort ég er það enn, nema að litlu leyti.

Ég skammast mín eiginlega ofan í tær.

Við erum með orðspor sem er ekki gott, við erum fjárglæframenn.

Svo erum við hætt að treysta hvort öðru, enda illa brennd.

Ég fer fram á að okkur verði haldið frá Fjallkonukjaftæði, sóma Íslands, sverði og skjöld.

Ekkert mont, engin samanhristingur, við getum þetta saman kjaftæði.

Við erum einfaldlega ekki ein þjóð í þessu landi.

Hluti hennar er stikkfrí.  Meira að segja margir þeirra sem komu okkur á kaldan klaka með græðgi sinni og sjáftöku.

Ekki monta okkur, tala um hversu frábær við séum, dugleg, sterk og kúl.

Ég afber það ekki.


mbl.is Timbraður gestur lýsir eftir eiganda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekkert gerlegt?

Hvaða svar er þetta eiginlega hjá honum Gylfa viðskiptaráðherra?

Að ekki sé hægt að snúa þeirri ákvörðun við sem stjórn gamla Kaupþings tók um að fella niður persónulegar ábyrgðir stjórnanda á lánum sem þeir fengu til að kaupa hlutabréf í bankanum?

Halló, ef það er ógerlegt vegna einhverra laga (sem ég er ekki viss um að sé rétt) þá eru það ómöguleg lög og ég krefst þess (góð með mig) að þeim verði breytt.

Hvaða lögfræðingar eru þetta sem hafa skorið úr um þetta?

Gjöra svo vel að stefna þeim á fund og láta þá rökstyðja mál sitt.

Og svona í bríaríi bara þá veit ég fyrir víst að fyrr frysi í helvíti en að ég gæti fengið fellt niður mitt lán sem ég er með í bankanum.

Og eru eftirstöðvarnar af því rúmar þrjátíuogtvöþúsund krónur, sagt og skrifað.

Það er ekki að ræða það.

Hver er munurinn?

Ég er svona um það bil að springa út af þessu; ekki gerlegt þetta eða hitt.

Það er ekki gerlegt að víkja Valtý, hann nefnilega ræður yfir sjálfum sér.

Ekki hægt að taka upp Geirfinnsmálin, það er bara svoleiðis, segir Ragna.

Ekki hægt að láta glæpahundana borga lánin sem þeir tóku í græðigiskasti af því að einhver stjórn hugsaði með sér; æi greyin það er of erfitt fyrir þá.

Hvað er gerlegt eiginlega?

Ég hélt að stjórnmálamenn væru til þess að gera hluti mögulega.

Með almenningshagsmuni í huga.

En hvað veit ég, sem er stórskuldug í bankanum.  Jeræt.

Andskotinn sjálfur á árabát.


mbl.is Ekki hægt að snúa ákvörðun við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég mun stofna grúppu á feisinu

 

01Það stendur í Tíund, fréttabréfi ríkisskattstjóra í umfjöllun um hrunið, að endurskoðendur hefðu átt að láta meira til sín taka.

Það er eins gott að ég er djollí gúdd felló í dag því ég nenni ekki að henda mér fyrir björg eða garga mig hása.

Er nokkuð skelfilegra í fjármálalífi en endurskoðendur á róandi?

Nú eða endurskoðendur með athyglisbrest?

Það er svona álíka skelfileg tilhugsun og að lenda á blindum leigubílstjóra með torgfóbíu.

En að feisinu.

Það eru stofnaðar grúppur á feisinu til að afla stuðnings við allt mögulegt.

Eins og "burt með Valtý", "burt með Gunnar Kópavog", "inn með Evu (Joly)", "ekkert Icesave" og svo má lengi telja.

En svo eru þeir sem taka alla hluti of langt.

Sumir eru svo feisbúkkaðir að þeir stofna hatursgrúppur utan um hvað eina.

Dæmi:

Hárgreiðslukonan sem tekur mánudaginn út á hárinu á þér, fær um sig grúppu.

Nágranninn sem rífst við konuna, fær líka á sig grúppu.

Eiginmaðurinn sem þú ert að skilja við og er með eitthvað attitjúd á á hættu að það verði stofnuð um hann grúppa og meðlimirnir orðnir á tíundaþúsund fyrir hádegi bara.

Nema hvað.

Þetta er nútíminn.  Eins gott að haga sér.

Ég er skíthrædd um að það verði stofnuð um mig grúppa.

Og þó, um hvað?

Ég er fjandans fullkomin og það veit hvert barn.

Og hagið ykkur svo villigarnir ykkar.

Annars.......


mbl.is Segir endurskoðendur hafa átt að láta meira til sín taka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að búa í Kópavogi - fyrir spillta stjórnmálamenn?

Ég held að svona flestir meðal almennings á Íslandi að minnsta kosti, séu búnir að átta sig á að það eru breyttir tímar á Íslandi.

En stjórnmálamenn, sumir hverjir (helvíti margir reyndar), embættismenn (nokkrir) og sjálftökumenn (allir) eru enn í fílabeinsturni ala 2007 og komast hvergi.

Íhaldið í Kópavogi er enn í 2007-gírnum.

Þeir eru alveg: Ekki hætta Gunnar, plís, haltu áfram að taka okkur í afturendann elsku dúllan.

En afhverju vilja þeir í Sjálfstæðisflokki ekki "missa" Gunnar?

Getur það verið vegna þess að valdabaráttan um sætið hans er óleysanleg?

Eða hræðslan við að missa völd?

Hvorutveggja kannski?

Ésús minn á galeiðunni hvað þeir eiga bágt.

Mér þætti gaman að sjá þá reyna að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Það hefði gengið í fyrrra.

En fjandinn fjarri mér að þeir komist upp með það núna.

Eða hvað?  Kannski er gott að búa í Kópavogi.

Fyrir spillta stjórnmálamenn.

 


mbl.is Vilja ekki að Gunnar hætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband