Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Skíthælar á ferð

Sjálfstæðismenn eru byrjaðir að tuða undir liðnum "fundarstjórn forseta".

Aldrei áður hafa störf í þingsal minnt eins mikið á ólrólegan barnaskólabekk eins og eftir að Framsókn og Sjálfstæðisflokks fóru í minnihluta saman.

Nú gargar Bjarni Ben.

Áður Illugi Gunnarsson.

Ég myndi halda þverrifunni á mér saman tilheyrði ég þeim flokkum sem gáfu bankana á silfurfati til vildarvina og hófu þar með þá atburðarás sem hefur gert almenning á Íslandi að ómerkingum og stórskuldurum.

Annars hef ég verið að velta fyrir mér ástandinu í þjóðfélaginu.
Nú eru nefnilega uppgangstímar fyrir krípin.

Eins og þá sem hóta og skelfa án nafns.

Gaman hjá þeim.

Líka gaman hjá innheimtufyrirtækjum eins og Intrum.

Nú er gróðæri þar í miklum blóma.

Ég held að hver og einn þurfi að kanna vel hvað liggur að baki hvers atburðar.

Það er nefnilega ekki alltaf réttlætiskennd, örvænting og ótti sem liggur að baki.

Stundum eru einfaldlega skíthælar á ferð.


mbl.is Dýrt fyrir ríkið að selja banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinsamlegast útskýrið

Ég hlýt að vera tregari en venjulega í dag þar sem ég skil hvorki upp né niður í þessari tilkynningu frá Nýja Kaupþingi.

Þeir segja að öryggi starfsmanna hafi verið ógnað og því sé bankanum skylt að upplýsa að óheimilt sé með lögum að tjá sig opinberlega um málefni einstakra viðskiptavina os.frv.

Þeir segja líka að engar ákvarðanir hafi verið teknar um afskriftir á skuldum Björgólfsfeðga við Nýja Kaupþing.

Hver ógnaði hverjum og hvenær?

Hvað fór fram hjá mér á fréttavaktinni?

Vinsamlegast útskýrið fyrir mér fíbblinu takk.


mbl.is Öryggi starfsmanna ógnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rosalega vanstilltur á geði - ha?

Lífið eftir kreppu er súrrealískt.

Ég sver það.

"Hann tók því illa,“ sagði Geir H. Haarde við blaðamann Morgunblaðsins í trúnaðarsamtali í október í fyrra, en fyrr um daginn hafði hann tilkynnt forsætisráðherra Hollands að Íslendingar hygðust ekki standa við viljayfirlýsingu eða minnisblað um að ábyrgjast lágmarksinnstæður á Icesave-reikningum í Hollandi."

Tók maðurinn því illa?

Rosalega er hann eitthvað vanstilltur á geði ha?

Ef það yrði hringt til mín og mér sagt ævisparnaðurinn minn sem ég lánaði Jóa á hjólinu, yrði ekki borgaður til baka því Jói ætlaði að kaupa sér mótorhjól fyrir peningana, þá myndi ég taka því illa?

Ætli ég gengi ekki af göflunum bara og myndi setja í gang alvöru innheimtuaðgerðir á helvítið hann Jóa?

Eða hreinlega reisa honum níðstöng, svei mér þá.

Eins gott að ég hef ekkert sparað. 

Algjörlega gulltryggð aðferð við að missa ekkert, að hafa ekki átt krónu inni í frábæru bönkunum.

Tæki því illa minn afturendi.  Maðurinn hefur auðvitað brjálast.  Þetta er vansögn aldarinnar só far.

En ég er með áhyggjur af öðru.

Ég sé fólk tapa húmornum í kringum mig í stríðum straumum.

Sko, ég treysti okkur öllum til að lifa af kreppuna og allt sem mögulega getur yfir okkur dunið ef við höldum húmornum.

En fólk sem fer að taka sig of alvarlega, hættir að geta sett lífsreynsluna í meinfyndið ljós, á ekki mikla von um að komast af með geðið í lagi.

Því kaldhæðnari sem við verðum, því betra.

Kommon, lifum og lærum.

Mikið djöfull er mikið af efni í gangi fyrir háðfugla þessa lands.

Ef þeir eru þá ekki líka búnir að tapa húmornum.

Svei mér þá og ésús minn á fjallinu.

Úje.


mbl.is Geir Haarde: Hann tók því illa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atli Húnakonungur í jakkafötum

 atli

Bankahrunið hefur heldur betur sest að í heilanum á mér.

Sum nöfn, t.d. eru órjúfanlega tengd vissu fólki sem stóran þátt hefur átt í ósköpunum.

Ég vona samt að það sé vegna þreytu minnar eftir að hafa verið með tvö ákaflega skemmtileg börn í gistingu (sem vakna í bítið, svo það sé á hreinu) sem gerir það að verkum að ég geng ekki á öllum.

Þegar ég settist niður til að lesa Moggann og sá þessa fyrirsögn sem hér má lesa í viðtengdri frétt, sá ég samstundis Birnu bankastjóra í Glitni (ó excuse moi, Íslandsbanka), fyrir mér.

Alveg: Vá, hvaða della er þetta, hún tók kúlulán sem hvarf og svona en hún bítur varla fólk ha?

En samt varð ég að tékka.

Það er hægt að ljúga öllu að manni nú orðið, enda raunveruleikinn lygasögu líkastur.

Svo var ég líka að hugsa um annað.

Á milli nútíma ribbaldana, eins og þessara sem tóku íslenskt efnahagslíf í görnina og stuðluðu að mestu niðurlægingu og hörmum Íslandssögunnar annars vegar, og hins vegar gömlu ribbaldana sem fóru fram með hernaði, eru klár tengsl.

Nútíma ribbaldar eru klæddir í Armani jakkaföt.

Setjið Atla Húnakonung og Gjengis Kan í Armani í huganum, sami grautur, sama skál.

Ókei, glæpirnir eru öðruvísi en innvolsið er samt af sama meiði.

Atli og Gjengis notuðu vopn, okkar víkingar notuðu tölvur.

Afleiðingar í báðum tilfellum: Sviðin jörð.

Græðgi í völd og peninga var drifkraftur þessara manna.

Og talandi um bankahrun, græðgi að viðbættri ótrúlegri forstokkun sem jaðrar við mikilmennskubrjálæði.

Hannes Smára sem áfrýjaði til Hæstaréttar húsleitinni á heimilum sínum. 

Og núna harmaminning þessa manns hér.

Hélt einhver að þessir menn skömmuðust sín fyrir hlut sinn í falli Íslands?

Okei, þið sem það gerðuð skuluð hugsa málið upp á nýtt.

Ég "on the other hand" er farin í hugleiðslu og bænaköll.

Svo verðið þið að sjá skopmyndina af Steingrími og stjórnarandstöðu í Fréttablaðinu og í leiðinni frábæran leiðara Páls Baldvins á sömu síðu.

Hvorutveggja brilljant.

Reyndi að hlaða inn en gat ekki.

Úje.


mbl.is Birna beit skokkara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmynd?

Landstjórn Íslands, þ.e. AGS vill ekki stýravaxtalækkun.

Og þá verður auðvitað engin stýrivaxtalækkun.

En eins og allir vita þá hefur AGS brillerað alls staðar sem þeir hafa komið að málum.

Algjörlega reddað hverju landinu á fætur öðru.

Ég er með hugmynd.

Hendum þeim út.

"Thanks for nothing".

ARG


mbl.is AGS vill ekki stýrivaxtalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er stoltur bótaþegi með hrun á minni könnu

Auðvitað liggur lítið á að koma "launahækkunum" í framkvæmd.

Dúllið ykkur bara strákar, pöbullinn er vanur að bíða.

Og að öðru svipuðu og mér beinlínis viðkomandi.

Ég er öryrki og fæ ágætis lífeyrisgreiðslur.

Það er í mér hálfgerð skömm yfir þessari stöðu minni, hef aldrei náð því að vera stoltur bótaþegi, þrátt fyrir að telja mér trú um að það sé í fínu enda hef ég unnið fyrir góðum launum stærstan hluta lífs míns, borgað skatta og verið til friðs að mestu.

Það má segja að ég sé haldin fordómum gagnvart sjálfri mér sem bótaþega enda reyni ég að lifa af þennan status með því að taka einn dag í einu og vonast eftir kraftaverki.

Ég fæ sem sagt hluta minna örorkugreiðslna frá Tryggingastofnun.

Afganginn úr tveimur lífeyrissjóðum.

Nú ber svo við að frá og með deginum í dag er ég stoltur bótaþegi og skammast mín ekki lengur fyrir ástand mitt.

Ég er nefnilega byrjuð að greiða niður skuldir útrásarvíkinganna.

Þar þótti engin ástæða til að bíða með að framkvæma nýju lögin frá ríkisstjórn sem kennir sig við hina norrænu velferð.

Svona lítur mitt dæmi út:

af 92.923 krónum sem ég átti að fá greiddar þennan mánuðinn fær ég 86.000.

Ergó: Ég borga rúman 6000 krónurl af þessari upphæð fyrir strákana "okkar".

Svo nenni ég ekki að tíunda þær skerðingar sem ég verð fyrir frá þeim lífeyrissjóðum sem ég fæ greitt úr.

Ekki misskilja mig, ég á ekkert bágt.  Hef ekki yfir miklu að kvarta ef frá er talið sú himneska hamingja sem margir halda að líf á bótum sé og ég myndi gjarnan vilja vera laus við.

Frá og með þessum degi mun ég þenja út brjóstið og minna mig á að ég sé borgunarkona fyrir íslensku útrásina.

Ég og "kollegar" míni í bótadeildinni.

Ég tek fram að ég kaus VG og ennþá sé ég engan sem ég tel að ég hefði betur kosið.

Við erum einfaldlega í skelfilegum málum þessi þjóð.

En mikið djöfull finnst mér lágt lagst að byrja á þeim sem minnst hafa á meðan sökudólgarnir eru enn í blautum draumum græðginnar og að því er virðist ósnertanlegir.

En ég er þó stoltur bótaþegi með hrunið á minni könnu.

Segið svo að maður geri ekki gagn í þjóðfélaginu.

 


mbl.is Hækkunin ekki greidd strax út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgerðarveldi ímyndaðs göfuleika - arg

Þá sjaldan þegar menn tengdir bankahruninu sjá sig tilneydda til að hætta (á líka við í pólitík), af hverju í skollanum hefja þeir sig alltaf upp í æðsta andskotans tilgerðarveldi ímyndaðs göfugleika?

Helgi Sigurðsson, yfirlögfræðingur bæði gamla og Nýja Kaupþings, sem DV segir frá í dag að hafi sjálfur skuldað 450 milljónir þegar hann kvað upp úr með að niðurfelling ábyrgða á starfsmenn bankans væru í lagi og gerði sig þar sekan um hámark siðleysisins, ætlar nú að hætta.

Ætlar hann að hætta vegna þess siðleysis sem felst í gjörðum hans?

Ætlar hann að hætta vegna þess að lögfræðilegt álit hans sem farið hefur verið með eins og boðorðin tíu meitluð í stein af viðskiptaráðherra, reyndust gefin af manni sem hafði beina persónulega hagsmuni af því að farið yrði að ráðum hans?

Ætlar hann að hætta af því að hann er bullandi vanhæfur?

Nei, auðvitað ekki.

Enginn svoleiðis hálfvitaháttur er ástæða þess að hann segir starfi sínu lausu frá og með deginum í dag.

Nei, hann er auðvitað svo göfugur að hann ætlar að hætta til að skapa frið um bankann.

Afsakið á meðan ég garga mig hása, frem á mér andlega kviðristu og brýt allt sem brothætt er í kringum mig.

Allt í huganum samt.

P.s. Það mun heldur ekki skapast neitt traust, friður eða nokkur skapaður hlutur annar um þessa banka á meðan sama fólkið situr þarna eins og ekkert hafi í skorist.

Hræsnarar.


mbl.is Helgi hættir hjá Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grænmeti fyrir alla!

 aaaaaaaaaaaaaaaaa

Þetta var ekki ég, ég sverða.

Fór ekki út fyrir hússins dyr eftir miðnætti og átti nóg af sígarettum.

Er með mann til að sanna mál mitt ef þurfa þykir.

Annars er það virðingarvert að stela þó vítamínum ef á annað borð er verið að taka hluti ófrjálsri hendi.

Kreppan getur valdið allskyns næringarvandamálum þegar fólk hefur ekki efni á góðum mat.

En í alvöru talað þá sá ég frétt á annarri hvorri sjónvarpsstöðinni í gær varðandi þann skelfilega möguleika að grænmetisbændur þurfi að stöðva framleiðslu yfir vetrartímann.

Þetta kemur til af því að rafmagnið fer síhækkandi og kostar hvítuna úr augum þeirra.

Svo fer hátt rafmagnsverð beint út í verðlagið.

Ég segi fyrir mig að það eru sjálfsögð mannréttindi að fá að kaupa ferskt grænmeti og ávexti.

Nú þegar fólk þarf að spara í innkaupum til heimilisins og hvert starf er gulls í gildi þá segir það sig sjálft að við eigum ekki að þurfa að eyða dýrmætum gjaldeyri í innflutning á grænmeti nema þá að afskaplega litlu leyti.

Eða missa fólk sem vinnur við garðyrkju í atvinnuleysi.

Mér finnst sykurskattur í fínu lagi og að sama skapi eiga grænmeti og ávextir að vera á viðráðanlegu verði fyrir alla.

Það vantar einhvern skilning þarna um nauðsyn þessarar búgreinar og mikilvægi holls mataræðis fyrir börnin okkar.

Ef það er hægt að gera leynisamninga við álfyrirtæki þar sem þeir fá rafmagn á útsöluverði þá er lágmark að við styrkjum íslenska framleiðslu á mat og bjóðum grænmetisbændum (og hinum líka) upp á sama díl og álrisunum.

Hvað er að forganginum í þessu þjóðfélagi?

Urrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr

 


mbl.is Sígarettum stolið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar liggur ábyrgðin?

Það er kannski ekki fallegt af mér að vera að hafa skoðun á raunum þessa fólks sem situr uppi með skuldir af lóð og tveimur húsum.

En ég bara verð að segja skoðun mína á þeim skýringum sem maður heyrir oftar og oftar hjá fólki sem kemur í fjölmiðla til að segja farir sínar ekki sléttar.

Hin skvokölluðu opinberu fórnarlömb kreppunnar.

Þessi hjón segjast lifa milli vonar og ótta eftir að hafa lent á eyðslufylleríi árið 2007, hvött áfram af bönkum og fasteignasölum.

Málið er að ég er svo kaldlynd að ég þetta gengur ekki alveg í mig.

Ég vil minna á að fólk er ábyrgt á öllum sínum skuldbindingum án tillits til hver hefur hvatt það áfram og þá er best að hafa í huga að ráðgjafarnir ætla ekki að standa við skuldbindingarnar fyrir viðkomandi ef ekki gengur eftir eins og upp með var lagt.

Ég hef auðvitað samúð með fólki, ekki misskilja mig.

Og ég veit jafnframt að fólki var ráðlagt að taka myntkörfulán og að kaupa og spenna.

En ábyrgðin liggur fyrst og síðast hjá þeim sem skuldbindur sig.

Það er bara svoleiðis.


mbl.is Fjölskylda á hringekjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eintóm öfund og illmennska

Frjáls miðlun fær sem betur fer áfram bullandi verkefni hjá Kópavogsbæ.

Þið munið að eigandi fyrirtækisins er dóttir Gunnars I. Birgissonar og fólk var að gera því skóna að það væru ekki góð vinnubrögð að skipta við fyrirtækið á þeim forsendum og oft án útboða.

Nú hefur tilboði Frjálsrar miðlunar verið tekið varðandi gerð viðurkenningarskjala og fróðleiksskilta fyrir umhverfisráð Kópavogs vegna umhverfisviðurkenninga 2009.

Tilboð dótturfyrirtækisins var með langlægsta tilboðið í verkefnið.

Nú er ég viss um að "skítapólitíkusar" og aðrir þeir sem hafa hreinlega ofsótt fyrrum bæjarstjórann, fara að fabúlera um að það séu hæg heimatökin fyrir Frjálsa miðlun að afla sér upplýsinga um "lægstu" tölu til að hljóta svo verkefnið.

Það er svo mikið af illgjörnu fólki með ljótar hugsanir og ofsóknarbrjálæði.  Fólk sem sér skrattann í hverju horni.

Eins og það kæmi einhvern tímann til greina að vinna svoleiðis í Kópavogi.

Svo er þessi ömurlegi VG maður, Ólafur Þór Gunnarsson,  að leggja fram bókun um að honum þætti ekki rétt að samþykkja tillögu umhverfisráðs.

Eintóm öfund og illmennska. 


mbl.is Frjáls miðlun með lægsta tilboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 2987752

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.