Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Spil og leikir

DAGURINN Í DAG..

..fram að þessu hefur liðið undir merkjum leti og aðgerðarleysis.   Það hlýtur að vera lægð yfir landinu, ég sem er alltaf svo "gerin". Fellur aldrei verk úr hendi. Jeræt.  Sumir dagar eru uppáþrengjandi, þær mæta fyrir allar aldir (merkilegt) hlussa sér á herðarnar á manni og eru komnir til að hanga, vera, og láta mann finna fyrir sér.

Annars er ég að fara að elda kjúkling. Með hrísgrjónum og grænmeti.  Ég toppa stöðugt, spennuþrungið líf mitt.  Hvar endar þetta?  Ég finn samt ekki svuntuna mína og kappann.  Elda aldrei án þessara fylgihluta, algjört prinsipp.  Fólk sveltur frekar.

Jenny Una Eriksdóttir var hér í gær og af vörum hennar hraut eftirfarandi:

"Ekki trubbla mér, amma, ég greiða mér fínt." Barn með spegil, meiköppkitt og fleira tilheyrandi undirritaðri, alveg dead á því að gera sig "georgeus".

"Ertu að fara í búðina Einarrrr, é koma með é á péninga, marga".  Jenny stingur á sig hverri krónu sem hún finnur liggjandi á lausu.  Hva!  Barnið er af sænskum ættum í aðra.

"Emma öfugsnúna er vond,  amma er vond, mamma mín góð og Jenny er góð".  Barn farið að gera sér mannamun.  Getur verið að hún hafi það frá ömmunni? Nebb.  Ekki séns.

"Farru mamma, í skóna og bless, ég sofa mínu rúmi, ömmumín og Einarrr".  Hún togar í móður sína og dregur að útidyrum.  Barn veit af ís inni í frysti sem líklega verður hennar ef móðirin er ekki á svæðinu.

Þetta blogg er bannað foreldrum viðkomandi barns.

Úje


ÉG ER HÆTT VIÐ AÐ HÆTTA AÐ ÖSKRA..

..yfir bloggheim með hástöfum í fyrirsögnum.  Bloggvinir mínir bakka mig upp "í vitleysunni" eins og einhver aðfinnslubloggarinn, skrifaði hér um daginn, þegar hann bloggaði um okkur vitleysingana hér á blogginu, sem kunnum okkur ekki.

Allavega þá trúi ég mínu fólki þegar það segir að hástafir þýði bara alls ekkert öskur í netheimum og jafnvel þó, þá ætla ég að halda mér við mína sérvisku.

Annars er þessi dagur búinn að vera yndislegur og ég eyddi honum í félagsskap sjálfrar mín (alveg hreint unaðslega gaman), síðan með tveimur yndislegum vinkonum og að lokum með Söru og Jenny Unu Eriksdóttur, sem var auðvitað bæði uppátækjasöm og fyndin.  Það er efni í aðra færslu seinna.

Finnst ykkur ekki æðislega huggulegt veðrið úti núna?  Ég er með kveikt á kertum, vafin inn í teppi með nátthúfu og pípu.

Hvað með ykkur börnin góð?

Stormy weathers!

Úje


GLEÐIFRÉTTIR...

2

..fyrir mig, fjölskylduna, vini og kunningja til sjávar og sveita.  Hm.. (þekkjum varla kjaft utan borgarmarka, en samt).

Maya, Oliver og Robbi koma á þriðjudaginn og verða í níu daga á landinu.  Ég fékk kökk í hálsinn af gleði, þegar Maysan mín hringdi áðan og lét mig vita.

Það spillir ekki gleðinni að hún ætlar að kaupa fyrir mömmu sína forláta GSM síma, sem er svo þróaður að hann gerir allt nema að taka upp kartöflur.

Vó hvað ég á eftir að bombardera bloggið mitt með myndum (af sjálfri mér).

1

Takk Amma-Brynja fyrir að gera þetta mögulegt.Heart

Nóbodíhastúkræmíarivertúdei!

Újejejejeje


EINKALEYFI Á ORÐ

 

Ég mun í dag setja mig í samband við Einkaleyfastofu og fá eftirfarandi orð skráð sem orðmerki:

Kerlingabók

Útlimagleði

Súmí - Bítmí - Bætmí

Áhyggjufrömuður

Það eru fleiri orð en þetta sem ég á í pússi mín og vill teljast höfundur að (og mér er alveg sama hvort einhver annars þykist eiga þau líka) og ég sé enga ástæðu til annars en að eyrnamerkja mér þessi orð og stofna svo til málaferla ef einhver annar vogar sér að nota þau án míns leyfis.

Nú er Húkkaraballið og Brekkusöngurinn  í tengslum við Þjóðhátið orðin orðmerki (sambærilegt við vörumerki).

Í framtíðinni má ekki ástunda Brekkusöng annars staðar en í Eyjum en það má ástunda söng í brekkum.  Þá verður að auglýsa fyrirbrigðið sem Söngbrekku, nema að fengnu leyfi hjá ÍBV.

Var einhver að segja að lífið væri flókið?

Ég hélt ekki.

Æmsúingevríbodí!

Úje


mbl.is Eyjamenn þeir einu sem mega halda Húkkaraball
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KRÚTTBLOGG II

1

Þennan verð ég að skjalfesta áður en ég gleymi honum, en gullkornin hrynja inn þessa dagana.

Jenny Una Eriksdóttir var að troða böngsum og öðrum loðkvikindum í dúkkuvagninn.  Vagninn tók ekki meir og bjarndýrið stóra og loðna, datt á gólfið aftur og aftur.  Loks þraut þolinmæðina hjá barni og ég heyrði hana segja hátt og ákveðið (um leið og hún þrykkti kvikindinu af öllu afli ofan á hrúguna):

"VERTU KURR ÓLÁNIÐ ÞITT"

Amman þarf greinilega að fara að ritskoða sig aðeins,  að minnsta kosti þar til barnabarn nær þriggja ára aldri, en það verður þ. 30. desember n.k.

Veriði svo kurr þarna ofvirklarnir ykkar.

Úje


UPPGJÖR DAGSINS

 1

Eins og ég bloggaði um hér fyrir neðan, þá var Jenny Una Eriksdóttir að stytta okkur stundirnar hér í dag.  Fá okkur til að hlægja og skemmta okkur konunglega.

Það hélt áfram að vera gaman.  Ég horfði á hörkugóða mynd Even Money, með mörgum af mínum uppáhalds leikurum eins og Forest Whitaker, Danny Divito og Tim Roth.  Það sem kom á óvart við áhorfið var að Kim Basinger getur leikið.  Það var skemmtileg og óvænt upplifun.  Hún tók ekki eina einustu "Súellen" í varakipring.  Endirinn var hálf flatur eins og oft vill verða.  Ég fæ stundum á tilfinninguna þegar ég horfi á amerískar bíómyndir, að leikstjóri myndarinnar sé geðveikt metnaðarfullur og flottur listamaður en að samningurinn hans renni út þegar gera á endirinn og að það sé fenginn einhver bölvaður nýgræðingur í fyrsta bekk í kvikmyndaskóla til að leikstýra "the end".  En hún var þess virði að horfa á samt.

Fyrir utan að horfa á mynd og vera í samneyti með mínum heittelskaða (sem sjaldan er heima að kvöldi til), borða góðan mat og hafa hana Jenny Unu, átti ég góð samtöl við eins og tvær eðalvinkonur.  Við aðra ræddi ég um bókmenntir og listir (hehe), okok við ræddum bókmenntir og ritlist og erum báðar alveg trylltar áhugakonur um slíkt. Ásta Sigurðar, var rædd ofan í kjölinn. Ójá.  Tíminn auðvitað flaug og þar sem ég hef ekki enn lært að skipta mér í tvennt (jafnvel þrennt) eða brjóta tímamúrinn (við höldum bara að tíminn sé til sko) varð ég að skvísa myndinni inn á milli samtala.  Við hina vinkonuna ræddi ég landsins gagn og nauðsynjar sem verða ekki tíundaðar hér að sinni.  Símtalið tók til margra tilfinninga, hláturs, kvikindiskurrs, smá búhús og svo ræddum við uppeldi.  Eða skort á því, eiginlega.  Börnin í dag (dæsihneyksliskall).

Ergo:

Dagurinn fór langt fram úr væntingum. 

Gleymdi ég að segja að ég las AA-bókina eins og m-f, talaði trúnaðarkonu mína til tunglsins og nú mala ég eins og geðgott ungabarn.  Agú!

Einhverju við þetta að bæta?

Ædónþeinksó.

Súmí!


MÍN EIGIN JARÐAFÖR - AUGLÝST SÍÐAR

Ég lít á sjálfa mig sem tilfinningavöndul.  Eitt stórt búnt af allskonar geðbrigðum sem ég reyni stöðugt að hafa hemil á þannig að ég verði ekki sett inn einhversstaðar.  Ég segi það nú kannski ekki en ég tekst á við tilfinningarnar oft á dag og reyni að halda í hemilinn á mér.  Það tekst oftast.  Ég er að öllu jöfnu glaðsinna, en ég get orðið illskeytt af minna tilefni en engu,  þegar þannig stendur á en ég er svo heppin að getað gusað úr þeim hlandkoppi út af svölunum bara, þannig að blásaklaust fólk verði ekki fyrir mér.  Ef á einhvern sullast, þá er það oftar en ekki mitt kæra húsband.  Seinni ár hef ég reynt að þróa með mér hæfileikann að biðjast fyrirgefningar og fjárinn sjálfur, ef það venst ekki bara nokkuð vel, eins og það getur verið erfitt að brjóta odd af oflætinu áður en maður kemst í smá æfingu, ekki að ég sé fullnuma í fyrirgefningardeildinni, svo langt frá því.

Hvað um það.  Í dag var ég ansi nálægt því að festast í sjálfsvorkunn.  Af því að tilfinningar mínar voru særðar.  Almáttugur minn hvað sjálfsvorkunn er ofmetið ástand.  Þegar ég var á gelgjunni, og fannst ég miðskilin og vanmetin, sviðsetti ég oft mína eigin jarðaför í huganum, réð Bítlana til að spila, leigði Péturskirkjuna í Róm, valinkunnir eðalmenn og konur sátu í hverju rúmi hinnar risavöxnu kirkju og hvert lag sem spilað var, valdi ég af djöfullegri útsjónarsemi þeirrar konu sem ætlar að láta mannkyninu blæða fyrir að hafa rekið sig, fórnarlambið í dauðann, blásaklausa.  Það eina sem skyggði á þessa unaðslegu hugmynd var að það var ákveðinn mínus falinn í því að vera dauður og geta ekki snúið aftur og  látið alla misgjörðarmennina kasta sér að fótum mínum og grátbiðja mig um fyrirgefningu.  Ég tók næst besta kostinn og lét alla falla harmþrungna á kistuna þar sem hún var borin út af lífverði bresku krúnunnar.  Kistan var falin undir hvítum liljum (blómum dauðans). 

Ég er sum sé hætt að sviðsetja jarðarfarir og þörfin til að láta fólki blæða er líka horfin.  Eftir stend ég í smá áhættu við að missa mig í helgreipar aumingjaleiksins.  Ég hef séð að mér.  Í þetta skipti.

Ég á svo margt að þakka fyrir, fullt af skemmtilegum vinum og yndislega fjölskyldu.  Ég get ekki kvartað yfir því.  Þeir sem dingla þar fyrir utan og meiða mig smá verða bara í því og ég vinka þeim héðan.  Þeir eru amk ekki boðnir í mína jarðarför, en það verður sko ekki amaleg uppákoma þegar þar að kemur, það er á tæru, þó ekki geti ég lofað lífvarðasveit bresku krúnunnar.  Það er of stórt gigg að standa í fyrir eina konu.  Restin er tertubiti.

Úje

Ekki nóg með að ég fari edrú að sofa, ég fer sátt að sofa án teljanlegs kala til nokkurs manns.  Muhahahahaha

Úje -aftur!


ÞULUBLOGG

1

Nú hef ég ákveðið að hafa þulublogg fastan lið hér á þessum fjölmiðli,  vegna fjölda áskorana.  Ég get ekki skorast undan þessu, vinir mínir hafa ekki látið mig í friði, óvinir mínir ekki heldur.  Mér er það ekki tilefni til mikillar gleði að þurfa að leita uppi svona texta og velta mér upp úr honum,  ég segi það satt, en ég er löngu komin úr æfingu með þetta, enda gleymin með afbrigðum (þjáist af CRAFT "Can´t remember a fukcking thing" höf: www.anno.blog.is.)

En hér kemur fyrsta þulan:

Tunglið tunglið taktu mig

Tunglið, tunglið taktu mig

og berðu mig upp til skýja

Hugurinn ber mig hálfa leið

í heimana nýja.

Mun þar vera marg að sjá,

mörgu hefirðu sagt mér frá

þegar þú leiðst um loftin blá

og leist til mín um rifinn skjá.

Komdu litla Lipurtá,

langi þig að heyra

hvað mig dreymdi, hvað ég sá

og kannske sitthvað fleira.

Ljáðu mér eyra.

Gat nú verið perrarnir ykkar.  Rukuð upp til handa og fóta og hélduð að ég væri enn að blogga blátt.  Nebb, notið tækifærið og fylgist með þulunum sem ég mun birta reglulega, skammirnar ykkar og reynið að fræðast örlítið í staðinn fyrir að hendast slefandi um bloggið í vafasömum tilgangi.

Súmíbítmíbætmí.


ÉG MISSTI AF SHADY!

Svei mér þá, ég þarf að fara að ráða mér aðstoðarkonu, sem heldur bókhald yfir það sem er að gerast í leikhúslífinu og tónlistarlífinu og lætur mig vita.  Ég var búin að lesa að Shady ætlaði að syngja með Stuðmönnum og ég ætlaði að athuga það nánar.  Auðvitað gleymdi ég því.  Mér finnst samt ekki rosa spennandi tilhugsun að fara og hlusta á músík í Húsdýragarðinum, en hvað lætur maður sig ekki hafa, fyrir sönghetjur úr fortíðinni.

Það varð svo mikil bylting þegar Shady kom fram á sjónarsviðið.  Hún var öðruvísi en allar söngkonurnar sem fyrir voru.  Hún var svo sterk, svo mikil náttúrutalenta, að það var unun á að hlusta.

Hvað um það, ég fer í vinylinn bara og hlusta á hana með sínum mönnum.  Þar er hún flottust.

Nostalgíukast.

Ómæómæ!


mbl.is Shady söng með Stuðmönnum í Laugardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ENDALAUSAR KEPPNIR

 

Það er mín tilfinning að karlmenn séu meira fyrir að keppa í allskonar, fremur en konur.  Það er auðvitað alls ekki algilt, en mér finnst þeir oft mun keppnisglaðari.  Mér hefur stundum þótt þeim hafa tekist að gera keppnir allskonar að listformi, svo útsjónarsamir eru þeir að finna sér tilefni.

Í dag var heimsmeistaramót haldið í gufubaðssetu.  Þar sýnist mér á meðfylgjandi myndbandi, bæði kynin vera að gera sig að fíflum.  Hvaða tilgangi þjónar að hálfdrepa sig til að lenda í fyrsta sæti í gufubaðshæfileikum?  Hvers krefst það?  Að sitja á rassgatinu, blóðrauður í framan og bíða eftir hjartaáfalli, ofhitnun, heilablæðingu eða öðrum ömurlegum uppákomum?

Hvað hefur sigurvegarinn svo,  sér til ágætis fram yfir keppnissystkini sín?  Jú, hann er þrásetnastur í hita.  Vá!!!!!  Og hann er ekki með akút hjartavandamál.  Hefði þó getað komið sér því upp, meðan hann sat og svitnaði við nokkurra hundruð gráða gufu leikandi um boddíið á sér.

Ég sting upp á hárvaxtarkeppni næst.  Hún getur verið haldin á Þingvöllum frá vori og fram á haust.  Þar eru hæfileikarnir líka þráseta.  Að geta setið og einbeitt sér að því að hárið vaxi krefst svona álíka hæfileika og útsjónarsemi og gufubaðssetan.

Ég skrái mig í þá keppni. 

Öntillnextæmemæfrends!


mbl.is Heimsmeistaramót haldið í gufubaðsetu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 9
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 78
  • Frá upphafi: 2987159

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 76
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.