Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Spil og leikir

LEIÐIN AÐ TITLINUM..

..er löng og slítandi.  Í fegurðarsamkeppnum þarf mikið að leggja á sig til að hin raunverulega fegurð konunnar komi í ljós.  Þrotlausar æfingar í ræktinni þar sem hver vöðvi, sin og taug eru þanin til hins ýtrasta en þar liggur stór hluti hinnar sönnu fegurðar konunnar falin.  Þetta vita allir.  Ekki má gleyma hinum ströngustu megrunarkúrum þar sem hver biti er vigtaður og er skemmst að minnast kálsúpunnar hennar Katýar í World Class sem nánast gekk af Lindu Pétursdóttur dauðri um árið. Þess minna af keppandanum þess betra og sigurlíkurnar aukast með hverju grammi sem tapað er.  Meiköppið er stór þáttur í fegurð manneskjunnar, aðallega kvenna.  Hún dregur fram hina sönnu fegurð sálarinnar eða réttara væri að segja að meiköppið í miklu magni felur óvelkomna fæðingargalla eins og raunveruleg andlit, minnkar nef og stækkar varir.  Hreint dásamlegt fyrirkomulag.  Leiðin að titlinum "Fegurðardrottning Íslands 2007" er þyrnum stráð og vörðuð blóði, svita og tárum. 

"Leiðin að titlinum" er sjónvarpsþáttur sem sýndur verður á Stöð 2 í kvöld.  Enn ein samkeppnin í fegurð er í startholunum.  Ómægod!  Flottar stelpur en glatað fyrirbæri og ég vildi óska að það væri almenn skoðun fólks að þær væru tímaskekkja.


DRAUMUR UM STJÓRN OG MEÐFERÐIR

100

Mig dreymir undarlega þessa dagana.  Róleg krakkar mínir ég veit fátt leiðinlegra en frásagnir af löngum og ítarlegum lýsingum fólks á draumum, enda eru draumar fyrst og fremst tilfinning sem erfitt er að koma til skila.  Samt sem áður þá get ég ekki annað en brosað af draumavitleysunni.  Ég hef verið að blogga um stjórnarmyndunarviðræður og í fyrradag var ég að blogga um edrúafmælið mitt og sextugs afmælið hans Þórarins Tyrfingssonar.  Hehe þetta bloggsalat tók sig til og hertók mig í nótt með vægast sagt súrrealískum hætti.

Ég var í meðferð (OMG fallin í draumnum sko).  Vogur var í Ráðherrabústaðnum og yfirlæknirinn var Geir Hilmar Haarde (þetta var martraðarkennt).  Þórarinn sást hvergi.  Sennilega að halda upp á afmælið sitt og mér fannst nokkurn veginn eðlilegt að Geir hefði skipt um starfsvettvang en draumurinn gekk út á að fá viðtal við manninn.  (Þarna hef ég haft svo mikla samkennd með blaðamönnum en eins og allir vita þá fá þeir engin svör þrátt fyrir að hanga á húninum hjá Geir og ISG.)  Nú draumurinn flosnaði upp undir morgun.  Ég hafði ekki fengið viðtal við Geir en mig minnir að hann hafi gefið mér smellikoss á kinn og súkkulaðibita.

Án gamans þá er ekki til sá óvirki alki sem ég hef talað við sem ekki dreymir reglulega að hann detti í það.  Þeir draumar eru skelfilegir get ég sagt ykkur.  Líðanin er amk. jafn sterk og ég get ímyndað mér líðanina ef ég félli í raunveruleikanum.  Aldrei er ég eins fegin að vakna og eftir þær martraðir.  Mér er sagt að þetta sé óttinn við fall og afturhvarf til þess skelfilega raunveruleika sem ég í þessu tilfelli, hrærðist í áður en ég komst á snúruna.

Þrátt fyrir snjóskaflana fyrir utan gluggann (hehe) þá hljómar fuglasöngur hér um allt.  Ég á von á gestum um helgina frá útlöndum, Þórarinn Tyrfingsson er ennþá yfirlæknir SÁÁ, undirrituð er edrú sem aldrei fyrr og ég er næsta viss um að Geir Hilmar Haarde er ekki með læknispróf upp á vasann. 

Hver maður á sínum stað.  Allt er í himna lagi.


MAGGA PÁLA "FOR PRESIDENT"

111

Eða eitthvað stórkostlegt.  Ég var að horfa fyrst núna á Kastljóssþáttinn með kerlu og þar sá ég að MP hefur eflst ef eitthvað er, hún er svo frjó í hugsun þessi kona, með svo magnaða útgeislun að það er með ólíkindum.

Ég man þegar hún var að fara af stað með Hjallastefnuna.  Hún mætti hreint ótrúlegu skítkasti.  Hún var sökuð um karlahatur, það var gefið í skyn að ekki væri óhætt að láta hana vera með börn.  Rósa Ingólfsdóttir skrifaði grein um Margréti Pálu sem bar fyrirsögnina "Ó þú hýri Hafnarfjörður" sem Magga Pála reyndar hló sig máttlausa að.  Þeir sem þekkja til þessarar flottu konu vita að henni ERU allir vegir færir.  Hún hefur flutt fjöll í menntamálum.

Magga Pála telur það nauðsynlegt að hafa val.  Það kom fram í Kastljóssþættinum.  Börn eiga líka að hafa val.  Ein besta saga sem ég hef heyrt var frá foreldri lítillar telpu sem var á Hjalla.  Þannig var að hægt var að velja um ákveðin svæði á morgnanna.  Svæðaheitin eru mér gleymd nema eitt en það var útivistarsvæði.  Þessi litla telpa kom á leikskólann seint einn morguninn og krakkarnir voru öll búin að velja sér svæði.  Margrét Pála, ávallt trú sínum skoðunum, vildi láta barnið fá að velja svo hún sagði við þá stuttu: "Hvort villtu nú útivistarsvæði eða útivistarsvæði?"  sú litla hugsaði sig lengi um, dálítið þungbúin á svip því við vitum öll hversu erfitt það getur verið að velja en svaraði svo ákveðin: "É vil útivistarþvæði". OMG ég engist einn ganginn enní krúttkasti.

Magga Pála þú ert flottustWizard


HVAÐ ER Í GANGI ÞAÐ ER HLÉ????

Nú fer fréttafíkillinn ég á taugum alla leiðina.  Fundi forystumanna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er lokið í Ráðherrabústaðnum.  Geir og ISG sögðu að hlé verði á viðræðum milli flokkanna og vildu þau ekki segja hvenær reiknað væri með að fundir hæfust á ný.  Ekki segja þau hléið koma til af ágreiningsmálum heldur vegna þess að þeim hentaði að hafa þetta svona.

Úff hvað ég er spennt og forvitin.  Þau eru að stríða okkur þessi tvö, halda okkur við efnið og það hefur þeim svo sannarlega tekist.

Nú er það húnn hjá mér.  Ég hreyfi mig ekki af netinu. 


mbl.is Hlé gert á stjórnarmyndunarviðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ANNASAMUR DAGUR..

..hjá henni Jenny Unu Errriksdóttur og hún staðið á haus nánast með fullt af verkefnum í allan dag.

Hún tók sig til og ryksugaði fyrir foreldra sína og hljóp um allt til að ljúka húsverkunum á tíma.

222324

síðan fór hún í Húsdýragarðinn og horfði þar á öll dýrin en sá ekki gívaffa, kókófíl eða jákarl.  Í þeirri ferð var myndavélin ekki með í för en ég hef það frá fyrstu hendi að Jenny hafi verið glöð og ekki feimin.

2627

Svo kom hún heim úr þeirri merkilegu ferð og hóf að leika sér við dúkkuna sem amma og Einarrr gáfu henni um daginn.  Jenny vill koma því á framfæri að margur sé knár þótt hann sé smár en eins og sjá má þá kemst hún ágætlega fyrir á borðsendanum en Jenny er ekki mjög um það gefið að verið sé að segja að hún sé agnarlítil.  Hún er rúmlega tveggja árrrra og er alveg að verða þrrriggja. 

Þessu er hér með komið á framfæri frá yngismeyjunni nöfnu minni sem núna sefur svefni hinna réttlátu.

Góða nótt frá henniHeart

PS. VOFFINN HENNAR JÓNU BLOGGVINKONU MINNAR (www.jonaa.blog.is) ER TÝNDUR! KÍKIÐ Á BLOGGIÐ HENNAR OG FÁIÐ NÁNARI UPPLÝSINGAR!

 

 


ENDURBIRT ÞUMALFINGURSREGLA

 

22

"ÞUMALFINGURSREGLAN" - "THE RULE OF THUMB"

Pistillinn um þumalfingursregluna var einn sá fyrsti sem ég skrifaði hér á blogginu.  Mér finnst ágætt að fólk viti hvaðan þessi frasi sem svo mikið er notaður, á uppruna sinn.

Þumalfingursreglan svokallaða er talin eiga uppruna sinn á Englandi en þar finnst hún fyrst skjalfest árið 1692. Þumalfingursbreidd kaðals eða annars bareflis var talin leyfileg stærð fyrir eiginmenn sem vildu refsa konum sínum með barsmíðum.

Það mun hafa verið Sir Francis Buller sem fyrstur mun hafa kveðið á um þetta.  Hann var því fyrir vikið kallaður Þumall dómari að því er sagnir herma. 

Maður gekk um í mörg ár og talaði um þumalfingursregluna hingað og þangað án þess að hafa grænan grun um að þar lægju að baki kvenlegir harmar.


JÁKVÆTT STRESS - JÁJÁ

SteingeitSteingeit: Þú ert stressaður og notaður orkuna á jákvæðan hátt. Ef þú hringir símtölin sem hafa fengið að bíða, og ræðst á bréfabunkann á borðinu, finnurðu eitthvað óvænt.

Getur stress verið jákvætt?  Sumir halda því fram að þeir vinni best undir pressu.  Það er nokkuð til í því en það er fjandanum óhollara að vera stressaður.  Af því ég er svo trúuð á Moggastjörnuspána þá reyni ég að stressa mig upp og nota síðan orkuna í að þvo upp og taka til á lóðinni.  Símtölin sem hafa fengið að bíða - sjáum nú til - nebb ekki eitt einasta símtal á bið.  Það er vegna þess að ég er svo síminn að ég nota hvert tækifæri til að hanga með símann á eyranu.  Komin með legusár á eyrað eins og einhver sagði.  Bréfabunkinn næstur, jabb verð að ráðast á hann.  Bréfabunki hvar ertu?? Ég leitaði af mér allan grun, enginn bréfabunki.

Heyrðu Moggatetur hver er eiginlega í spánni og btw er þetta spá?  Eru þetta ekki heilræði?  Það er að segja ef maður er stressaður, á eftir að hringja milljón símtöl og vinna í bréfabunkanum.  Bíddu við það stendur ekkert um ímeil, hm.. ég er með fleiri hundruð og fimmtíu sollis sem ég þarf að svara.  Þolinmæði er dyggð.  Ég bíð eftir að Mogginn setji þau í stjörnuspána.


AF HVERJU ÞENNAN LEIKARASKAP?

22

Jón og Geir eru að leika sér.  Þeir ætla að vinna saman áfram en láta eins og það sé voða erfitt að komast að niðurstöðu.  Á meðan halda allir niðri í sér andanum.  Eru það örlög okkar að búa við sömu ríkisstjórn næstu fjögur árin?  Það held ég að sé nokkuð ljóst.   Það er hægt að lýsa frati á Framsókn í kosningum, hreinlega afmá þá út af hinu pólitíska sviði en áfram halda þeir.  Við skulum ekki halda kjósendur góðir að við höfum eitthvað um það að segja.  Nanananabúbú segja þeir Jón og Geir og senda okkur langt nef. 

Völvan hennar Gurríar bloggvinkonu spáði einhverju um aðkomu Frjálslyndra að málinu.  Nú bíðum við spennt eftir að þeir verði kallaðir til.  Þetta er nefnilega megamögnuð völva þarna hjá þeim á Vikunni.

Nanananabúbú!


AFMÆLISPARTÍIÐ Í LONDON UPP Á ÞRJÁ ÞYRLUPALLA

Nú hér kemur svo lokasyrpan frá hátíðahöldunum í London vegna afmælisins hans Olivers.  Eins og allir merkir menn þá var mikið "hålligång" í kringum hátíðina og minnst 3 þyrlupallar voru smíðaðir til að koma fólki sómasamlega í afmælið. 

Án gríns þá átti Oliver yndislegan afmælisdag, fékk fullt af pökkum, afmælisgestir sömu stærðar og hann sjálfur streymdu að, flestir með lífverði.  Njótið:

0108022

 

1004401

Svona gaman og skemmtilegt var í þessar flottu afmælisveislu.  Knús til ykkar allra.


DRYKKJUHVATNING UM HÁBJARTAN DAG!

22

Sjónvarpsdagskráin "Dagsbirtan" væntanlega með vísun í Birtu þeirra DV manna sem lagði upp laupana í fyrra hefur komið fram á sjónarsviðið.  Dagskrá þessi er alveg ótrúleg að gerð, textinn eins og ómálga barn hafi séð um hann en þessu gerði hin stórskemmtilega www.skessa.blog.is góð skil í síðustu viku.  Það var ekki annað hægt en að hlægja sig máttlausan að lélegu orðfæri þess sem blaðið skrifar.  Nú í þessari viku halda bommerturnar áfram í blaðinu en nú m.t.t. efnis blaðsins (rithátturinn er enn með ólíkindum) og mér er spurn hvort það er allt í lagi með þá sem að blaðinu standa.  Er þetta einn stór brandari eða er þarna fólk á ferðinni sem ætti heldur að BERA út Dagsbirtuna í staðinn fyrir að skrifa í hana?

Það sem vakti athygli mína var umfjöllun um Júróvisjón, aðallega tillögur að Júróvisjón partíleikjum.  Ég hefði nú verið búin að blogga um þetta fyrr en kosningarnar hafa tekið hug manns allan.  Ég hef ekki farið í launkofa með að ég er óvirkur alki, enda engin ástæða til.  Það þýðir þó ekki að ég sé fanatísk gagnvart áfengi en ég veit af eigin raun og þekki til að misnotkun á áfengi krefst ótrúlegra mannfórna í samfélaginu og tekur fjölda lífa með beinum eða óbeinum hætti á hverju ári.  T.d. hef ég á s.l. tveimur árum misst nákomna vini sem beinlínis hafa dáið af völdum fíknisjúkdóma.  Það er sorglegra en tárum taki.  Samfélagið okkar er mjög áfengistengt og mér hefur ekki fundist skorta hvatningu í þá átt að fá fólk til að fá sér í glas.  Tilhneigingin ætti fremur að vera að draga úr neyslu þess einfaldlega vegna þess að ofdrykkja er mikið vandamál meðal stórs hóps fólk.

Þess vegna varð ég kjaftstopp þegar Dagsbirtan hvetur til ofneyslu áfengis á mjög opinn og frjálslegan máta.  Á maður að hlægja eða gráta?  Kona spyr sig.

Gjörsvovel, hér kemur hvatningin:

"Partýleikir.  Leikur 1

Skrifaðu niður heiti allra landanna sem eru með í úrslitum á miða og láttu gestina draga miða þegar þeir koma inn.

Leikurinn gengur út á það að þegar þitt land fær stig þá drekkur þú jafn marga sopa og stigin sem landið fékk.

Svo er hægt að hafa allskonar leikfléttur, til dæmis að sá sem fær 12 stig tekur eitt skot (W00t) Þeir sem fá 10 stig og 12 stig geta líka gefið öðrum af sínum sopum.  En hafa skal í huga að ekki er æskilegt að gefa ALLA sopana heldur kannski hafa sem reglu að þú verðir að eiga fyrstu 6 sopana."

Vá vesalings þeir sem lenda á efstu löndunum.  Þeir koma til með að verða FULLIR!  Maður getur reiknað út sjússa fram og til baka.  Hvað um það, er þetta fólk sem skrifar í blaðið komið með aldur til að fara í ríkið?  Ekki nóg með að þetta sé ósmekklegt heldur er þetta með plebbalegri uppástungum sem ég hef lesið um lengi hvernig á hafa gaman saman.  Það er auðvitað "dagsljóst" að þeir sem drekka áfengi í hófi munu ekki fara í ofannefndan leik eða leiki svipaða þessum.

P.s. Greinarhöfundur ráðleggur fólki sem ætlar að hafa áfengi um hönd (ef áfengi SKYLDI haft um hönd) þá er best að vera búinn að koma börnunum fyrir.  OMG ætli það kvikni alltaf í eða húsið hrynji um leið og sá sem heldur á pennanum fær sér í glas? 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 115
  • Frá upphafi: 2988334

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 113
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband